Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-24
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Aðfarargerð
- Innsetningargerð
- Umferðarréttur
- Hefð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 3. mars 2022 leita Langholtsspildur ehf. leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 17. febrúar 2022 í máli nr. 797/2021: Langholtsspildur ehf. gegn Hvítárhestum/River horses ehf. á grundvelli 5. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að hann verði með beinni aðfarargerð settur inn í umferðarrétt um vegslóða sem lá á landi gagnaðila að landi leyfisbeiðanda á grundvelli 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989. Leyfisbeiðandi krefst þess jafnframt að fjarlægðar verði hvers konar hindranir sem standi fyrrgreindum umferðarrétti í vegi með beinni aðfarargerð.
4. Með úrskurði Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfum leyfisbeiðanda. Vísað var til þess að orðalag í samningi leyfisbeiðanda við fyrri eiganda spildunnar væri ekki svo skýrt að úr ágreiningi um túlkun þess yrði skorið í máli sem rekið væri samkvæmt 78. og 83. gr. laga nr. 90/1989. Yfirlýsingar fyrri ábúanda og íbúa sem ætlaðar væru til að styðja við að til hefðar hefði stofnast væru þess eðlis að varhugavert yrði að byggja á þeim án frekari sönnunarfærslu fyrir dómi. Jafnframt væri ágreiningur um hvort hefð hafi verið slitið. Eins og atvikum væri háttað yrði ágreiningur um skýringu laga nr. 46/1905 um hefð ekki leiddur til lykta í máli sem væri rekið samkvæmt fyrrnefndum ákvæðum laga nr. 90/1989. Loks væri óljóst hvort og að hvaða marki vegslóðinn væri fær fyrir umferð en úr því ætti að vera mögulegt að leysa í almennu einkamáli þar sem fram gæti farið vettvangsganga eða eftir atvikum frekari sönnunarfærsla. Taldi Landsréttur því varhugavert að gerðin næði fram að ganga án þess að fyrst gengi dómur um viðurkenningu á hinum umdeilda umferðarrétti.
5. Leyfisbeiðandi byggir meðal annars á því að úrslit málsins hafi fordæmisgildi þar sem með úrskurði Landsréttar sé verulega þrengt að skilyrðum þess að krefjast útburðar- eða innsetningargerðar. Þá vísar hann til þess að Landsréttur hafi komist að niðurstöðu um að ekki væri unnt að taka afstöðu til ágreinings um skýringu laga nr. 46/1905 í máli sem rekið væri á grundvelli fyrrnefndra ákvæða laga nr. 90/1989. Það hafi því fordæmisgildi um hvort tekin verði afstaða til flókinna lagaatriða í slíku máli. Leyfisbeiðandi telur jafnframt að hin kærða dómsathöfn sé bersýnilega röng. Sönnunarmat í úrskurðinum sé byggt á röngum forsendum sem hafi leitt til bersýnilega rangrar niðurstöðu. Vísar hann til þess að umferðarrétturinn eigi ekki rætur að rekja til samninga leyfisbeiðanda og fyrri eigenda landsins heldur samkomulags fyrri eigenda landsins. Loks varði málið mikilsverða hagsmuni sína.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að það hafi slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi til eða efni. Beiðninni er því hafnað.