Hæstiréttur íslands
Mál nr. 290/2000
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Skilorð
- Miskabætur
- Réttargæslumaður
|
|
Fimmtudaginn 9. nóvember 2000. |
|
Nr. 290/2000. |
Ákæruvaldið (Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn X (Örn Clausen hrl.) |
Kynferðisbrot. Skilorð. Miskabætur. Réttargæsla brotaþola.
X var ákærður fyrir kynferðisbrot gagnvart sex heyrnarskertum stúlkum, en X, sem einnig var heyrnarskertur, var um fjögurra ára skeið starfsmaður félagsmiðstöðvar skólans, þar sem stúlkurnar voru nemendur. Á grundvelli játningar X og framburðar stúlkunnar A var talið sannað að X hefði á árinu 1989 eða 1990 fengið A, þá 8 eða 9 ára, til að girða niður um sig og hafi hann einnig girt niður um sig, sýnt henni kynfæri sín og fengið hana til að fróa honum uns honum varð sáðlát, sleikt kynfæri hennar og síðan reynt að hafa við hana samfarir. Var brotið talið varða við 1. málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá var X ákærður fyrir kynferðisbrot gegn B, en gegn eindreginni neitun hans þótti ekki fram komin sönnun þess að hann hefði gerst sekur um umrætt brot. Var X því sýknaður af ákæru um kynferðisbrot gegn B. Í þriðja lagi var X ákærður fyrir kynferðisbrot gegn stúlkunni C þegar hún var 12 eða 13 ára með því að hafa látið hana setjast í fang sér og strokið henni fyrir borgun í bifreið hans á afskekktum stað. Ekki þótti óvarlegt að telja að tilburðir X hefðu verið af kynferðislegum toga og var brotið talið varða við 2. málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Þá var X einnig sakfelldur fyrir að hafa látið C nokkrum sinnum hafa þvaglát í glös og baðker á salerni félagsmiðstöðvarinnar og var brotið talið varða við 209. gr. almennra hegningarlaga. Í fjórða lagi var X ákærður fyrir kynferðisbrot gegn stúlkunni D, en gegn staðfastri neitun hans var ekki talið sannað að hann hefði gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök í ákæru og var X því sýknaður af ákæru um kynferðisbrot gegn D. Í fimmta lagi var X ákærður fyrir kynferðisbrot gegn E með því að láta hana í tvígang pissa í poka og boðið henni peninga fyrir í síðara skiptið. Á grundvelli játningar X og framburðar E var talið sannað að hann hefði gerst sekur um umrædda háttsemi og var brotið talið varða við 209. gr. almennra hegningarlaga. Þá var talið sannað að X hefði beðið E að girða niður um sig og setjast ofan á X er þau voru í bifreið hans og var brotið talið varða við 2. málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Loks var X ákærður fyrir kynferðisbrot gegn stúlkunni F, en hann var liðsmaður hennar hluta ársins 1998 er stúlkan var 14 ára. Á grundvelli játningar X var talið sannað að hann hefði sýnt F klámspólur á heimili sínu. Þá var einnig talið sannað að X hefði látið F hafa þvaglát í fötu á heimili hans og voru brot hans gegn F talin varða við 209. gr. almennra hegningarlaga. Var X dæmdur til fangelsisrefsingar, sem var að hluta til skilorðsbundin og til þess að greiða A, C, E og F miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Ákæruvaldið áfrýjaði máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 12. júlí 2000. Af hálfu ákæruvaldsins er vitnað til 148. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. lög nr. 37/1994, og krafist sakfellingar samkvæmt öllum liðum ákæru, sbr. breytingar sem á henni voru gerðar í þinghaldi 31. mars 2000. Þá er þess krafist að refsing verði þyngd og skaðabætur verði dæmdar samkvæmt öllum liðum ákæru. Bótakröfum hefur verið breytt frá ákæru í eftirfarandi horf: Af hálfu A er krafist miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að fjárhæð 700.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 10. apríl 1999 til greiðsludags. Af hálfu B er krafist 500.000 króna miskabóta með sömu dráttarvöxtum frá 10. apríl 1999 til greiðsludags. Af hálfu C er krafist 650.000 króna miskabóta með sömu dráttarvöxtum frá 9. apríl til greiðsludags. Af hálfu D er krafist 500.000 króna miskabóta með sömu dráttarvöxtum frá 29. apríl 1999 til greiðsludags. Af hálfu E er krafist 500.000 króna miskabóta með sömu dráttarvöxtum frá 10. apríl 1999 til greiðsludags. Af hálfu F er krafist 600.000 króna miskabóta með sömu dráttarvöxtum frá 10. apríl 1999 til greiðsludags. Þá er af hálfu A, C, E og F krafist staðfestingar á ákvæðum héraðsdóms um bætur vegna kostnaðar við að halda kröfum þeirra fram og vitnað til 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991.
Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu en að refsing verði milduð og ákvörðun héraðsdóms um fjárhæð bóta verði lækkuð.
Nokkur ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt.
I.
Málavextir eru ítarlega raktir í héraðsdómi. Mál þetta kom upp haustið 1998 en þá varð einn kennara [...]skóla í [...] þess var að tveir nemendur skólans höfðu leitað sér aðstoðar Stígamóta, samtaka kvenna gegn kynferðislegu ofbeldi, vegna kynferðisáreitni. Að sögn þeirra hafði áreitnin staðið í nokkur ár. Starfsmenn skólans höfðu samband við Stígamót og bárust brátt þær upplýsingar að um fleiri börn hefði verið að ræða. Öll áttu þau að hafa orðið fyrir áreitni ákærða. Ákærði var nemandi við [...]skóla frá hausti 1977 til vors 1991. Hann varð starfsmaður félagsmiðstöðvar skólans 1994, fyrst sem verktaki, en síðan sem fastráðinn starfsmaður 15. október 1996 til 31. maí 1997 og 1. september 1997 til 31. maí 1998. Ákærði er heyrnarlaus eða heyrnarlítill og það eru einnig þeir nemendur skólans, sem um ræðir í málinu. Hafa ákærði og þessi vitni gefið skýrslur í málinu með aðstoð táknmálstúlks. Samkvæmt ákæru eru brotaþolar sex og ákæruliðir því jafnmargir, en innan allra ákæruliða nema eins er um fleiri en eitt tilvik að ræða. Heldur ákæruvaldið því fram að skoða beri tilvikin og ákæruatriðin í samhengi og með tilliti til stöðu og aðstæðna aðila málsins þegar að sönnunarmati kemur.
II.
Við sönnunarmat um sekt ákærða ber að líta til hvers tilviks ákæru fyrir sig án tillits til annarra tilvika. Ekki verður samt litið fram hjá því að ákveðinna sameiginlegra einkenna gætti í hegðun ákærða gagnvart telpunum og má hafa það í huga þegar metið er hvað ákærða hafi gengið til með hegðun sinni, sbr. 47. gr. laga nr. 19/1991.
Samkvæmt fyrsta ákærulið er ákærða gefið að sök að hafa á árunum 1989 og 1990, þegar hann var nemandi í [...]skóla, fengið A, sem þá var 8 og 9 ára nemandi í sama skóla, í fyrsta lagi til að fara úr buxum á salerni í mötuneyti skólans og hafa farið höndum um kynfæri hennar, í öðru lagi fengið hana til að girða niður um sig undir stiga við skrifstofu [...]kirkjugarðs og í þriðja lagi fengið hana til að girða niður um sig á salerni í [...]kirkjugarði, þar sem hann hafi sjálfur girt niður um sig, sýnt henni kynfæri sín og fengið hana til að fróa sér uns honum var sáðlát, sleikt kynfæri hennar og síðan reynt að hafa við hana samfarir. Brot þau sem ákærða er gefið að sök samkvæmt þessum ákærulið eiga að vera framin fyrir gildistöku laga 40/1992, sem breyttu XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um kynferðisbrot (skírlífisbrot). Fyrir Hæstarétti hefur ríkissaksóknari talið að ætluð háttsemi ákærða á salerni í [...]garði varði við 1. málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992, sbr. áður 1. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 202. gr. sömu laga. Önnur háttsemi, sem lýst er í þessum ákærulið telur ríkissaksóknari varða við 2. málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992, sbr. áður 209. gr. almennra hegningarlaga. Hámarksrefsing samkvæmt síðastnefnda ákvæðinu hafi verið fangelsi allt að 3 árum og fyrnst á 5 árum, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga, frá því er verknaðinum lauk. Ætluð brot ákærða samkvæmt tveim fyrstnefndu tilvikunum hefðu því verið fyrnd þegar lög nr. 63/1998 gengu í gildi, en þau breyttu upphafi fyrningarfrests brota sem heimfærð verða til 194. - 202. gr. almennra hegningarlaga. Héraðsdómur hefur sýknað af þessum tveimur ákæruatriðum og þykja ekki efni til að hagga þeirri niðurstöðu.
Í héraðsdómi er því lýst að ákærði hafi játað þriðja tilvikinu samkvæmt þessum lið ákæru. Er frásögn hans og stúlkunnar samhljóða um þann atburð. Ber að staðfesta héraðsdóm um sakfellingu ákærða af þessu broti. Er brotið réttilega heimfært hér að framan til 1. málsliðs 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 10. gr. laga 40/1992, sbr. áður 1. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 202. gr. sömu laga.
Með vísun til forsendna héraðsdóms ber að staðfesta hann að því er varðar annan lið ákærunnar.
Samkvæmt þriðja lið ákærunnar er ákærða í fyrsta lagi gefið að sök að hafa frá árinu 1994 látið C, sem þá var 10 ára, setjast ofan á sig þar sem hann sat á gólfinu á karlasalerni mötuneytis skólans, þau bæði fullklædd, hann haldið um mitti hennar og hreyft sig eins og þau væru að hafa samfarir. Ákærði neitaði þessu ákæruefni fyrir dómi 3. nóvember 1999 og aftur 30. mars 2000. Framburður vitnisins C var stöðugur um þetta efni við rannsókn málsins og fyrir dómi og í samræmi við ákæruna nema hvað hún taldi atburðinn hafa gerst þegar hún var 8 eða 9 ára. Ekki nýtur annarra sönnunargagna hér um. Gegn eindreginni neitun ákærða eru ekki komnar fram nægar sannanir fyrir þessum ákærulið og ber að sýkna ákærða af honum, sbr. 45. gr. laga nr. 19/1991. Í öðru lagi er honum samkvæmt þessum lið ákæru gefið að sök að hafa látið C þegar hún var 12 eða 13 ára setjast í fang sér og strokið henni fyrir borgun í bifreið hans á afskekktum stað fyrir utan [...]. Í héraðsdómi er það rakið að ákærði hafi kannast við að hafa látið hana setjast í fang sér í umrætt sinn og boðið henni borgun fyrir, og sagt að hann hafi neitað að hafa strokið stúlkunni. Þegar ákærði kom fyrir dóm 3. nóvember 1999 var þó bókað að hann viðurkenndi þetta. Þessu neitaði hann hins vegar fyrir dómi 30. mars 2000. Stúlkan hefur borið um þennan atburð í samræmi við ákæru fyrir dómi og við rannsókn málsins. Héraðsdómur hefur metið framgöngu hennar í málinu trúverðuga. Ákærði og hún eru að miklu leyti sammála um þennan atburð. Ber að dæma málið eftir framburði hennar um þetta tilvik. Þegar litið er til atvika málsins og brota ákærða gegn stúlkunni þykir ekki óvarlegt að telja að tilburðir hans í þetta sinn hafi verið af kynferðislegum toga. Ber að sakfella hann fyrir þetta tilvik ákæruliðsins. Þykir það réttilega heimfært til 2. málsliðs 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992. Í þriðja lagi er ákærða gefið að sök samkvæmt þessum ákærulið að hafa oftsinnis á árinu 1996 látið sömu stúlku hafa þvag- og saurlát í baðker og glös á salerni í félagsmiðstöð skólans og síðan skoðað þvag hennar og hægðir og borgað henni fé fyrir. Þá hafi hann borgað henni fé fyrir að segja ekki frá samskiptum þeirra. Í héraðsdómi er því lýst að ákærði hafi viðurkennt að hafa á árinu 1996 nokkrum sinnum látið stúlkuna hafa þvaglát í glös og baðker á salerni í félagsmiðstöðinni. Hann hafi borgað henni 100 til 300 krónur fyrir í hvert sinn. Hann neitaði því hins vegar að hafa látið stúlkuna hafa saurlát og að hafa skoðað þvag og hægðir. Hann hafi beðið hana að segja ekki frá en neitaði því að hafa borgað henni fyrir það. Framburður stúlkunnar um þetta efni fyrir dómi er ekki skýr um annað en það er ákærði hefur viðurkennt. Ber að staðfesta héraðsdóm með vísun til forsendna hans um þetta tilvik og sakfella ákærða í samræmi við játningu hans hér að framan. Hann hefur með þessu framferði sínu brotið gegn 209. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 15. gr. laga 40/1992, en vörn hefur verið nægilega fram færð svo breyta megi heimfærslu til refsiákvæða frá ákæru að þessu leyti, sbr. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991.
Staðfesta ber héraðsdóm með vísan til forsendna hans að því er varðar fjórða lið ákæru.
Í fimmta lið ákæru er ákærði í fyrsta lagi borinn þeim sökum að hafa á árunum 1996 og 1997 gert E, þá 8 og 9 ára gamalli, í tvígang að pissa í poka á salerni félagsmiðstöðvarinnar og boðið henni peninga fyrir í síðara skiptið. Í héraðsdómi er því lýst að ákærði kannaðist við það fyrir dóminum að hafa gert þetta einu sinni. Er það í samræmi við framburð stúlkunnar sem fram kemur í viðtali sem haft var við hana í Barnahúsi við lögreglurannsókn málsins. E kom ekki fyrir dóm þar sem foreldrar hennar töldu óvarlegt að leggja það á hana. Viðstaddir skýrslugjöf stúlkunnar í Barnahúsi voru auk sérfræðings þess sem spurði telpuna og táknmálstúlks, lögreglumenn, saksóknari og verjandi ákærða. Í Barnahúsi er sérbúin aðstaða til slíkra viðtala og fylgdust lögreglumennirnir, saksóknari og verjandi með yfirheyrslunni á skjá og höfðu í lok skýrslutökunnar færi á að láta spyrja telpuna um það er þeir töldu máli skipta. Framburðurinn var tekinn upp á myndband og var það sýnt við aðalmeðferð málsins í héraðsdómi. Hæstaréttardómarar hafa og horft á myndbandið. Þótt framburður skuli venjulega koma fram í réttarhaldi að ákærða viðstöddum, svo að tækifæri gefist til gagnspurninga, þurfa skýrslur, sem fengnar eru við lögreglurannsókn, ekki að vera ónothæfar sem sönnunargögn, hafi gefist tækifæri til að gagnspyrja vitni. Við skýrslugjöf í Barnahúsi gafst slíkt tækifæri og auk þess var skýrslan lögð fram á myndbandi við aðalmeðferð. Er því ekki, sbr. og 3. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991, varhugavert að líta til framburðar telpunnar sem sönnunargagns þótt varlega verði að fara við mat á sönnunargildi skýrslunnar. Ber með þessari athugasemd að staðfesta héraðsdóm með skírskotun til forsendna hans um sakfellingu ákærða og um vísun til hegningarlagaákvæða að því er varðar þetta ákæruatriði. Í öðru lagi er ákærða gefið að sök samkvæmt þessum ákærulið að hafa sýnt telpunni klámmyndband. Í héraðsdómi er því lýst að ákærði kannist við þetta ákæruatriði en haldi því fram að þetta hafi gerst fyrir mistök hans og hafi hann ekki ætlað að sýna henni þetta myndband. Við skýrslutöku í Barnahúsi skýrði telpan svo frá þessu atviki að ákærði hafi verið dóni og sýnt henni það sem var dónalegt. Þá sagði hún að hann hefði sýnt henni dónalegt myndband einu sinni í félagsmiðstöðinni, er þau voru tvö. Skýrsla þessi staðfestir framburð ákærða um að þetta atvik hafi gerst. Óvarlegt þykir hins vegar að hafna algjörlega skýringu hans um að þetta hafi verið mistök og verður því að staðfesta héraðsdóm um að ásetning hafi skort til brotsins. Verður að sýkna ákærða af þessu tilviki. Ákærði er í þriðja lagi borinn þeim sökum samkvæmt þessum ákærulið að hafa beðið telpuna að girða niður um sig og setjast ofan á hann er þau voru í bifreið hans og boðið henni 1000 krónur fyrir. Í héraðsdómi er því lýst að ákærði kannist við að telpan hafi sest ofan á hann. Þau hafi verið í ökuferð og hana hafi langað til að taka í stýrið. Það hafi hún fengið er þau voru komin út í [...]. Hann hafi svo fært hana aftur yfir í farþegasætið. Við skýrslugjöfina í Barnahúsi sagðist telpan hafa farið í bíltúr með ákærða og þau ekið hjá „sjónum og skóginum“. Hann hafi viljað að hún girti niður um sig og settist ofan á hann, en hún neitað því og sagt honum að þetta væri dónalegt. Ákærði hafi þá sagt að það væri í lagi og ekið henni heim. Ljóst er að vitnið á hér við sama tilvik og ákærði kannast við. Samkvæmt gögnum málsins hefur stúlkan sagt öðrum frá þessu atviki á svipaðan hátt. Framburður hennar eins og hann kemur fram af myndbandinu er trúverðugur. Ber að sakfella ákærða vegna þessa tilviks og heimfæra brot hans til 2. málsliðar 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992. Ósannað er þó að hann hafi boðið henni borgun. Ákærði er samkvæmt þessum ákærulið borinn sökum um tvö tilvik til viðbótar. Þar sem ekki nýtur framburðar telpunnar um þessi tilvik þykir gegn eindreginni neitun ákærða ekki komin fram sönnun fyrir þessum atvikum. Ber að sýkna ákærða af þeim.
Samkvæmt sjötta ákærulið eru ákærða gefin að sök átta tilvik sem eiga að hafa gerst á tímabilinu frá febrúar og fram til sumars 1998 þegar hann starfaði sem liðsmaður F, sem er tornæm og misþroska og var þá 14 ára. Í fyrsta tilvikinu fyrir að hafa kysst hana og boðið henni peninga fyrir kossa og að segja síðan ekki frá því. Í öðru tilvikinu fyrir að hafa strokið handleggi hennar og læri ýmist innan eða utan klæða. Í þriðja tilvikinu reynt að girða niður um hana buxur í félagsmiðstöð skólans. Í fjórða tilvikinu strokið hana og kysst í bifreið konu ákærða í [...]kirkjugarði. Í fimmta tilvikinu sýnt henni klámspólur á heimili sínu og setið með hana í fanginu umrætt sinn og beðið hana að leggjast með sér á gólfið svo að hann gæti sýnt henni hvernig kynmök færu fram. Í sjötta lagi látið hana pissa í fötu á salerni félagsmiðstöðvarinnar og látið hana horfa á sig pissa í sama skiptið. Í sjöunda og áttunda tilvikinu fyrir að hafa ýmist reynt að kyssa hana eða gert það. Í héraðsdómi er hann sýknaður algjörlega af sex tilvikum en sakfelldur að hluta fyrir fimmta og sjötta tilvikið. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður að fallast á, að gegn staðfastri neitun ákærða hafi ekki fengist fullnægjandi sönnun fyrir öðrum ákæruatriðum en getur í dóminum. Ber því að staðfesta héraðsdóm um sakfellingu ákærða. Brot hans sem sakfellt er fyrir samkvæmt þessum ákærulið þykja réttilega heimfærð til hegningarlagaákvæða í héraðsdómi.
III.
Refsingu ákærða ber að ákveða með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga. Hafa ber í huga að hann hefur ekki áður hlotið refsidóm og að hann var nýlega orðinn sakhæfur þegar hann framdi fyrsta og alvarlegasta brotið, sem hann er sakfelldur fyrir. Þá verður ekki fram hjá því litið, að félagsleg staða hans er veik vegna fötlunar hans. Ákærði var ekki sérlærður til þeirra verkefna, sem honum voru falin af [...]skóla, en engu að síður hlaut honum að vera ljóst að atferli hans var til þess fallið að hafa skaðleg áhrif á þroska og sálarheill telpnanna, sem voru miklu yngri en hann sjálfur. Eftir að hann réðst til starfa í félagsmiðstöð skólans var honum trúað fyrir telpum þeim sem þar voru og átti að aðstoða við umönnun þeirra og sem liðsmaður F var hann í sérstöku trúnaðarsambandi við hana. Horfir það til þyngingar á refsingu hans að þessum trúnaði brást hann. Þegar öll framangreind atriði eru höfð í huga þykir refsing hans hæfilega ákveðin 12 mánaða fangelsi. Ekki þykir með vísun til fjölda og eðlis brotanna unnt að skilorðsbinda refsinguna í heild. Skulu þrír mánuðir refsingarinnar vera óskilorðsbundnir, en rétt er að skilorðsbinda hana að öðru leyti og hún falla niður að liðnum fimm árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði skilorð, svo sem nánar greinir í dómsorði.
IV.
Af hálfu allra stúlknanna hafa verið settar fram miskabótakröfur í Hæstarétti, sem reistar eru á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Kröfur þessar voru þó lækkaðar frá því sem verið hafði í héraði. Þá var fallið frá öllum kröfum um fjártjón sem þar voru gerðar af þeirra hálfu.
Eins og að framan er rakið hefur ákærði verið sýknaður af þeirri háttsemi sem honum var gefin að sök gagnvart B og D. Var bótakröfum þeirra vísað frá héraðsdómi. Verður því samkvæmt 1. mgr. 173. gr. laga nr. 19/1991 ekki dæmt um þær í Hæstarétti.
Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt álit Rögnu Guðbrandsdóttur félagsráðgjafa um andlegt ástand C og F og um hugsanleg varanleg sálræn áhrif verknaðar ákærða á þær. Álit þetta er hvorki byggt á langtímameðferð né nákvæmri rannsókn varðandi C. Nokkurra annarra umsagna nýtur um andlega líðan stúlknanna vegna brota ákærða. Ljóst er að slík brot, sem sakfellt er fyrir í máli þessu, eru almennt til þess fallin að valda þeim, sem fyrir verður, margvíslegum sálrænum erfiðleikum. Eiga þær því allar rétt á miskabótum úr hendi ákærða, sem miðað við fyrirliggjandi gögn þykja hæfilega ákveðnar til handa A 400.000 krónur, til handa C 250.000 krónur, til handa E 200.000 krónur og til handa F 300.000 krónur. Vextir greiðist eins og í dómsorði greinir.
V.
Ákvæði héraðsdóms um málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði verður staðfest. Þá ber að dæma honum málsvarnarlaun fyrir Hæstarétti og er um þau mælt í dómsorði.
Í VII. kafla laga nr. 19/1991, sbr. lög nr. 36/1999, eru fyrirmæli um réttargæslumann brotaþola samkvæmt XXII. kafla almennra hegningarlaga um kynferðisbrot. Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. f. laga nr. 19/1991 er hlutverk réttargæslumanns að gæta hagsmuna brotaþola og veita honum aðstoð í málinu, þar á meðal við að setja fram einkaréttarkröfur samkvæmt XX. kafla laganna, sbr. 14. gr. laga nr. 36/1999. Í 3. mgr. 44. gr. i laga nr. 19/1991 segir að þóknun skuli greiðast úr ríkissjóði og teljast til sakarkostnaðar eftir 164. gr. laganna, eins og hún er nú orðuð. Samkvæmt þessu eru ekki efni til að ákveða brotaþola samkvæmt XXII. kafla almennra hegningarlaga bætur eftir almennu ákvæði 4. mgr. 172. gr. sömu laga fyrir að halda fram bótakröfu, svo sem gert var í héraði, nema sýnt sé fram á sérstakan kostnað utan réttargæslu. Nægir að ákveða réttargæsluþóknun í þessu máli í samræmi við 3. mgr. 44. gr. i laganna, þar sem ekki er sýnt fram á annan kostnað. Við ákvörðun þóknunar verður að líta til hlutverks réttargæslumanna brotaþola og umfangs málsins svo og þess hvers vænta má af réttargæslumanni við framgang málsins í þágu hans, svo sem mótun og framsetningu kröfugerðar um bætur. Mál þetta er umfangsmikið og þótt réttargæslumenn hafi almennt ekki stórt hlutverk við flutning slíkra mála verður að ætla að þeir séu viðstaddir skýrslutökur lögreglu af skjólstæðingi sínum og við aðalmeðferð málsins að minnsta kosti meðan skýrsla er tekin af ákærða og helstu vitnum og tjái sig í stuttu máli um kröfu skjólstæðings síns. Þá hlýtur nokkur tími að fara til undirbúnings kröfugerðar. Kröfugerð réttargæslumanna í héraði varð óþarflega umfangsmikil og ekki var sýnileg þörf á viðveru þeirra allan þann tíma er aðalmeðferð stóð. Framangreind sjónarmið verða höfð í huga við ákvörðun þóknunar til réttargæslumanna, svo sem hún verður nánar ákveðin í dómsorði.
Þar sem ákærði hefur verið sýknaður af nokkrum hluta ákæruatriða er rétt að hann greiði helming alls sakarkostnaðar en helmingur greiðist úr ríkissjóði.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu 9 mánaða refsingarinnar og hún falla niður að liðnum fimm árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði A 400.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 9. júní 2000 til greiðsludags.
Ákærði greiði C 250.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 9. júní 2000 til greiðsludags.
Ákærði greiði E 200.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 9. júní 2000 til greiðsludags.
Ákærði greiði F 300.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 9. júní 2000 til greiðsludags.
Ákærði greiði helming alls sakarkostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en helmingur greiðist úr ríkissjóði þar með er talin réttargæslu- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði og fyrir Hæstarétti, Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns, samtals 750.000 krónur, þóknun Reimars Péturssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns A, D, B og E í héraði, 250.000 krónur, og Sifjar Konráðsdóttur hæstaréttarlögmanns skipaðs réttargæslumans C og F í héraði og fyrir Hæstarétti og D fyrir Hæstarétti, samtals 350.000 krónur og Björns L. Bergssonar hæstaréttarlögmanns skipaðs réttargæslumanns A, B og E fyrir Hæstarétti, 100.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2000.
Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara dagsettri 22. september 1999 á hendur ákærða, X, [...], “fyrir eftirgreind kynferðisbrot gagnvart sex heyrnarlausum og heyrnarskertum stúlkum, nemendum í [...]skóla, [...], en ákærði var starfsmaður í félagsmiðstöð skólans frá árinu 1994 til ársins 1998.
1. Með því að hafa á árunum 1989 og 1990, þegar ákærði var nemandi í [...]skóla, fengið A, þá 8 og 9 ára nemanda í sama skóla, til að fara úr buxunum á salerni í mötuneyti skólans, og farið höndum um kynfæri hennar, fengið hana til að girða niður um sig undir stiga við skrifstofu [...]kirkjugarðs, og fengið hana til að girða niður um sig á salerni í [...]kirkjugarði, þar sem hann hafi sjálfur girt niður um sig, sýnt henni kynfæri sín og fengið hana að fróa sér uns honum varð sáðlát, sleikt kynfæri hennar og síðan reynt að hafa við hana samfarir, einnig að hafa sýnt henni klámblöð og haft við hana munnmök.
2. Með því að hafa á árinu 1994 farið með B, þá 11 ára, inn á salerni í félagsmiðstöð skólans, læst að þeim, slökkt ljósið, tekið niður um hana buxurnar, sett fingur í leggöng hennar og káfað á henni innanklæða, einkum á maga og lærum, og hótað henni barsmíðum ef hún segði frá. Einnig ekið með hana í [...], stöðvað þar bifreiðina og sýnt henni kynfæri sín.
3. Með því að hafa frá árinu 1994 látið C, sem þá var 10 ára, setjast ofan á sig þar sem hann sat á gólfinu á karlasalerni skólans, þau bæði fullklædd, hann haldið um mitti hennar og hreyft sig eins og þau væru að hafa samfarir, að hafa þegar hún var 12 eða 13 ára látið hana setjast í fang sér og strokið henni fyrir borgun í bifreið hans á afskekktum stað fyrir utan [...], að hafa oftsinnis á árinu 1996 látið hana hafa þvag- og saurlát í baðker og glös á salerni skólans og síðan skoðað þvag hennar og hægðir og borgað henni fé fyrir, og að hafa á karlasalerninu í mötuneytinu kennt henni hvernig konur verða ófrískar, og borgað henni fé fyrir að segja ekki frá samskiptum þeirra.
4. Með því að hafa á árunum 1994 til 1996 í félagsmiðstöð skólans ítrekað snert brjóst D, sem er verulega þroskahömluð og var þá 15 til 17 ára, þar af eitt skipti þar sem hann lá uppi á borði og hún grúfði sig ofan í klof hans, sagt henni sögur um fólk í samförum, sýnt henni kynfæri sín og bannað henni að segja frá því, lýst fyrir henni hvernig limur verður harður og lengist og að þá sé hægt að hafa samfarir, í tvígang sest ofan á D þar sem hún lá í sófa í félagsmiðstöðinni, og látið hana og C horfa á klámmynd.
5. Með því að hafa á árunum 1996 og 1997 gert E, þá 8 og 9 ára gamalli, í tvígang að pissa í poka á salerni félagsmiðstöðvarinnar og boðið henni peninga fyrir í seinna skiptið, sýnt henni klámmyndband í félagsmiðstöðinni, beðið hana að girða niður um sig og setjast ofan á ákærða er þau voru í bifreið hans og boðið henni 1000 krónur fyrir, sýnt henni reistan getnaðarlim sinn inni á salerni félagsmiðstöðvarinnar og skoðað kynfæri hennar, kysst hana á kinn og strokið brjóst hennar og bannað henni að segja öðrum krökkum frá því sem hann hefði gert henni.
6. Með því að hafa á tímabilinu frá febrúar og fram til sumars á árinu 1998 í starfi sínu sem liðsmaður F, sem er tornæm og misþroska og þá var 14 ára, kysst hana og boðið henni 300 krónur fyrir tvo kossa, 800 krónur fyrir kossa þar sem tungur snertast, og 600 krónur fyrir að segja ekki foreldrum frá, strokið handleggi hennar og læri ýmist innan eða utan klæða, reynt að girða niður um hana buxurnar í félagsmiðstöð skólans, strokið hana og kysst í bifreið konu ákærða í [...]kirkjugarði, sýnt henni klámspólur á heimili sínu og setið með hana í fanginu umrætt sinn og beðið hana að leggjast með sér á gólfið svo að hann gæti sýnt henni hvernig kynmök fari fram, látið hana pissa í fötu á salerni félagsmiðstöðvarinnar, og látið hana horfa á sig pissa í sama skipti, reynt að kyssa hana í porti nálægt [...], og að hafa rétt við heimili ákærða og í [...] kysst hana svo að tungur þeirra snertust.
Teljast brot samkvæmt 1. og 2. lið varða við 1. mgr. 202. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, brot samkvæmt 3. og 5. lið við seinni málslið 1. mgr. 202. gr. laganna, sbr. 9. gr. laga nr. 40, 1992, og brot samkvæmt 4. og 6. lið við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 15. gr. laga nr. 40, 1992.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Bótakröfur:
1. Af hálfu A er krafist skaða- og miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð kr. 1.894.105 auk dráttarvaxta frá 10. apríl 1999 til greiðsludags.
2. Af hálfu B, er krafist skaða- og miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð kr. 1.894.105 með dráttarvöxtum frá 10. apríl 1999 til greiðsludags.
3. Af hálfu C er krafist skaða- og miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð kr. 1.894.105 auk dráttarvaxta frá 9. apríl 1999 til greiðsludags.
4. Af hálfu D er krafist skaða- og miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð kr. 1.894.105 auk dráttarvaxta frá 29. apríl 1999 til greiðsludags.
5. Af hálfu E, er krafist skaða- og miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð kr. 1.894.105 auk dráttarvaxta frá 10. apríl 1999.
6. Af hálfu F er krafist skaða- og miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð kr. 1.894.105 auk dráttarvaxta frá 10. apríl 1999 til greiðsludags.
Í öllum tilvikum er áskilinn réttur til að krefja á öðrum vettvangi um bætur fyrir varanlega örorku og miska samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga.”
Við munnlegan málflutning 31. mars sl. breytti sækjandi þremur fyrstu liðum ákærunnar. Í fyrsta lið voru felld brott lokaorð þess liðar: “einnig að hafa sýnt henni klámblöð og haft við hana munnmök.” Í öðrum lið ákæru var lokasetningin felld brott: “Einnig ekið með hana í [...], stöðvað þar bifreiðina og sýnt henni kynfæri sín..” Í þriðja lið ákæru var orðalaginu “karlasalerni skólans” breytt þannig að það varð “karlasalerni mötuneytis skólans.” Þá var orðalaginu “á salerni skólans” breytt þannig að það varð “á salerni í félagsmiðstöð skólans.” Loks var felld brott setningin “og að hafa á karlasalerninu í mötuneytinu kennt henni hvernig konur verða ófrískar.”
Málavextir
Með bréfi dagsettu 16. desember 1998 fór Gunnar Sandholt f.h. Barnaverndarnefndar [...] þess á leit við lögregluna í [...] að hafin yrði rannsókn á hugsanlegu broti X, ákærða í máli þessu, gegn þremur telpum sem allar væru heyrnarskertar og væru eða hefðu verið nemendur í [...]skóla í [...]. Nöfn þeirra væru B, kt. [...]83-[...], E, kt. [...]88-[...], og A, kt. [...]81-[...].
Fram kom í bréfinu að á fundi sem starfsmaður Barnaverndarnefndar [...] átti þann 26. nóvember s.á. í [...]skóla með skólastjóra, aðstoðarskólastjóra, sálfræðingi skólans, starfsmanni Fræðslumiðstöðvar [...] og táknmálstúlki hefðu skólastjórnendur lagt fram bréf þar sem fram kæmu grunsemdir um að fjórir nemendur skólans og einn fyrrverandi nemandi hefðu orðið fyrir kynferðisáreitni frá manni sem var starfsmaður skólans þar til þetta sama haust. Auk telpnanna sem að framan greinir væri um að ræða C, kt. [...]84-[...], og F, kt. [...]83-[...].
Í bréfinu segir að mál þetta hafi, að sögn skólastjóra, komið upp á yfirborðið 18. nóvember s.á. þegar einn kennara skólans varð þess vís að tvær telpnanna, þær C og B, höfðu leitað sér aðstoðar hjá Stígamótum vegna kynferðisáreitni. Að sögn annarrar þeirra hafði áreitnin staðið í nokkur ár, en hin hafði orðið fyrir henni í færri skipti. Starfsmenn skólans settu sig í samband við Stígamót og upplýsingar bárust brátt um að um fleiri börn gæti verið að ræða. Öll hefðu þau orðið fyrir áreitni ákærða. Ákærði hefði undanfarin ár verið starfsmaður skólans, en hætt haustið 1998. Síðast hafi hann unnið í svokölluðum dagskóla sem væri eins konar félagsmiðstöð sem væri rekin í tengslum við skólann. Ákærði væri sjálfur heyrnarlaus og hefði á sínum tíma verið nemandi í [...]skóla.
Skólastjórinn tjáði starfsmanni nefndarinnar að hún hefði nýlega rætt við A um málið og hefði hún trúað henni fyrir því að ákærði hefði á sínum tíma áreitt hana kynferðislega og að um nokkur skipti væri að ræða. Ekki hefði komið vel fram í hverju áreitnin fólst, en stúlkan hefði talað um að ákærði hefði sýnt henni kynfæri sín, snert hana og sært blygðunarkennd hennar. Taldi A að þetta hefði byrjað þegar hún var um átta ára gömul. Í framhaldi af þessu viðtali skólastjórans hefði sálfræðingur skólans rætt við ákærða og að sögn sálfræðingsins hefði ákærði viðurkennt að hafa áreitt nemendur kynferðislega. Ekki hafi komið fram í hverju áreitnin fólst, en að sögn sálfræðingsins hafi ákærði m.a. nefnt þar til sögu F og E.
Á fyrrnefndum fundi í [...]skóla kom fram að aðdragandi málsins væri sá að í september 1998 hafi starfsmenn Stígamóta verið fengnir í skólann til þess að halda fræðslufund um kynferðisofbeldi.
Loks kom fram í bréfinu að starfsmenn Barnaverndarnefndar [...] hefðu rætt við forráðamenn þeirra þriggja telpna sem nefndar eru í upphafi bréfsins og jafnframt hefði verið leitað til Barnahúss varðandi rannsóknarviðtöl, læknisskoðun, mat á meðferðarþörf og viðeigandi ráðgjöf og meðferð til handa stúlkunum.
I.
Þann 22. desember 1998 var tekið rannsóknarviðtal í Barnahúsi við A. Vitnið greindi frá því að á árinu 1989 eða 1990 hefði ákærði verið nemandi í [...]skóla og hún hafi einnig verið nemandi í sama skóla. Kvað hún ákærða hafa misnotað hana kynferðislega á þeim tíma.
Í fyrsta skipti sem það gerðist hafi hún verið 8 eða 9 ára, en ákærði 16 eða 17 ára. Hafi ákærði þá farið með hana inn á salerni í mötuneyti skólans og beðið hana að fara úr buxunum. Það hafi hún gert. Ákærði hafi kropið fyrir framan hana og skoðað hana að neðan. Hann hafi farið með hendurnar um klof hennar og hreyft þær.
Þegar hún var 9 ára hafi ákærði farið með hana á salerni í [...]kirkjugarði og beðið hana að girða niður um sig, en hann hafi girt niður um sig sjálfur. Kvað vitnið ákærða þá hafa sýnt henni lim sinn og beðið hana að koma við hann og hreyfa hendurnar. Vitnið kvaðst nú vita að þetta væri kallað að fróa sér. Hún kvað sér hafa brugðið mjög þegar hvítt kom úr limnum. Eftir það hafi hún að ósk ákærða girt niður um sig og þá hafi ákærði reynt að setja lim sinn inn í hana. Ákærða hafi ekki tekist það þar sem limurinn hafi ekki komist inn í hana. Vitnið kvaðst ekki hafa fundið til, en hún hafi orðið hrædd. Vitnið nefndi einnig að ákærði hefði á sama tíma sleikt á henni klofið er þau voru inni á salerni í [...]kirkjugarði. Ákærði hefði sagt að henni ætti að finnast þetta gott, en hún myndi hve hrædd hún var og hefði helst viljað hlaupa heim.
Vitnið nefndi að eitt sinn er var að koma kaffitími í skólanum, kl. 10.30, hafi ákærði kallað á hana og beðið hana að koma til sín. Þau hafi farið undir stigann á skrifstofunni í [...]kirkjugarði og ákærði hafi beðið hana að girða niður um sig, og það hafi hún gert. Hafi henni fundist að þau þyrftu að flýta sér þar sem skólinn var að byrja aftur.
Vitnið sagði að ástæða þess að hún gerði þetta hafi verið að ákærði hafi á þessum tíma verið mjög vinsæll. Hann hafi sagt þeim sögur og verið fyrirmynd yngri barna. Vitnið kvað sér hafa fundist hún vera neydd til að gera þetta því annars myndi ákærði hætta að segja henni sögur.
Vitnið sagði að þegar hún var komin á kynþroskaaldur hafi þessi atvik með ákærða farið að rifjast upp fyrir henni og hún farið að skilja inntak þeirra.
Ákærði gaf tvær skýrslur hjá lögreglu, hina fyrri 24. febrúar 1999. Eftir að honum hafði verið kynnt kæruefnið skýrði hann svo frá að þau A hefðu verið að hjóla og farið að salerni við kirkjugarðana. Ákærði kvaðst hafa farið á undan inn á salernið, en hún hafi orðið eftir fyrir utan. Þá hafi A farið að banka og hann hafi spurt hana hvort hún þyrfti líka að fara á klósettið og því hafi hún jánkað. Kvaðst ákærði hafa tekið niður um sig og sest á klósettið, en hún hafi staðið og horft á hann. Ákærði kvaðst halda að hann hafi verið 15 ára þegar þetta gerðist. Hann kvaðst hafa beðið A að vera ekki að horfa á hann, en hún hafi verið forvitin. Kvaðst ákærði hafa verið að pissa, en hann vissi ekki hvers vegna hann settist á klósettið. Hann hafi síðan staðið upp og A hafi tekið niður um sig og sest á sömu salernisskál. Hún hafi lokið við að pissa og hann hafi fylgst með henni. Kvaðst ákærði hafa fundið að sú sjón hafði einhver áhrif á hann og hann hafi langað að gera eitthvað með henni. Ákærði kvaðst þá hafa kropið niður að henni. Kvað hann sig minna að A hafi spurt hvað hann væri að gera. Hann hafi þá sagt að hann langaði til að þau prófuðu að gera eitthvað saman. Kvaðst ákærði ekki muna hvort hún játaði því eða neitaði, en hann héldi að hana hafi langað til þess, en ekki verið alveg viss. Honum hafi þá risið hold og reynt að stinga lim sínum í leggöng hennar. Kvaðst hann hafa hætt við það þar sem það hafi ekki verið hægt og hann hafi séð að henni leið illa yfir þessu. Ákærði kvaðst hafa prófað að koma við sníp hennar og sleikt kynfæri hennar. Honum hafi ekki fundist það gott og hætt við. Ákærði kvaðst þá hafa séð að A horfði upp í loftið og hann hafi spurt hana hvað væri að, en þá hafi hún sagt að henni hafi fundist þetta gott. A hafi síðan fært sig frá og hann hafi sest á salernisskálina. Kvaðst hann hafa beðið hana að fróa sér og það hafi hún gert. Hann hafi fengið sáðlát og liðið vel á eftir. Þá hafi hann áttað sig á því hve lítil stúlkan var og að hún væri bara stelpa, en hann unglingur. Kvaðst hann hafa séð eftir þessu og flýtt sér að klæða sig. Þá hafi hann sagt henni að segja foreldrum sínum ekki frá þessu, flýtt sér út og hjólað heim. Hvað A gerði vissi hann ekki.
Nokkrum dögum síðar hafi hann farið inn á salerni í [...]skóla og þá séð A. Hann hafi kallað á hana og beðið hana að koma inn á salernið. Þau hafi aðeins verið að leika sér og haldið hvort utan um annað. Þá hafi rifjast upp fyrir honum hvað hann hafði gert og hann hafi beðið hana afsökunar. Kennararnir hafi svo frétt af þessu og einn þeirra hefði talað við hann og sagt honum að hann mætti ekki leika svona með kynlíf við krakkana. Kvaðst ákærði oft hafa hitt A eftir þetta og þessi atvik rifjuðust upp fyrir honum. Hafi honum liðið mjög illa yfir þessu.
Ákærða var kynnt að í rannsóknarviðtali hefði A greint frá því að í fyrsta skiptið, en þá hafi hún verið 8 eða 9 ára, hafi hann farið með hana inn á salerni í mötuneyti skólans. Þar hafi hann beðið hana að fara úr buxunum og það hafi hún gert. Hann hafi kropið fyrir framan hana og skoðað hana að neðan. Einnig hafi hann farið með hendurnar um klof hennar og hreyft þær. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessu.
Ákærða var gerð grein fyrir að í rannsóknarviðtalinu hafi A skýrt frá því að þegar hún var 9 ára hafi hann farið með hana á salerni í [...]kirkjugarði. Þar hafi hann beðið hana að girða niður um sig og hann hafi girt niður um sig. Hann hafi sýnt henni kynfæri sín og beðið hana að koma við lim hans og hreyfa hendurnar. Eitthvað hvítt hafi komið úr lim hans. Þá hafi hún, að ósk hans, girt niður um sig og hann hafi reynt að setja lim sinn inn í hana, en ekki tekist, þar sem hann hafi ekki komist inn. Þá hafi hann í sama skipti sleikt á henni klofið og sagt henni að henni ætti aða finnast þetta gott. Ákærði kvað þetta samrýmast fyrri lýsingu sinni, en hann kvaðst ekki muna til að hafa sagt henni að henni ætti að finnast þetta gott.
Ákærða var kynnt að A hefði greint frá því að eitt sinn hafi verið að koma kaffitími í skólanum. Hann hafi kallað á hana og beðið hana að koma til sín. Þau hafi farið undir stigann á skrifstofunni í [...]kirkjugarði. Þar hafi hann beðið hana að girða niður um sig og það hafi hún gert. Ákærði kvaðst kannast við þetta, en tók fram hann hefði ekki beðið hana að girða niður um sig. Þau hafi legið hvort ofan á öðru í sandi undir þessum stiga. Kvað hann þau aðeins hafa verið að leika sér. Hann kvaðst ekki muna hvenær þetta var.
Ákærða var kynnt að A hefði skýrt frá því að hann hefði verið skammaður í skólanum fyrir að hafa girt niður um hana þegar hún var 8 ára. Hann kvaðst hafa verið skammaður fyrir að hafa verið með stúlkunni á salerninu í kirkjugarðinum. Hann myndi ekki til að hafa verið skammaður fyrir að hafa girt niður um hana.
Ákærði var spurður hvort hann gæti skýrt það hvers vegna hann lét stúlkuna fróa honum inni á salerninu í kirkjugarðinum. Kvaðst ákærði halda að það hafi verið vegna þess að hann hafi ekki fundið neina konu og þess vegna hafi hann látið hana gera þetta. Hann hafi verið unglingur og eins og krakkar eru viti þau ekki hvað ábyrgð sé og geri svona vitleysu.
Síðari skýrslan var tekin af ákærða 18. mars 1999. Hann var spurður hvort hann hefði einhverju við fyrri framburð að bæta. Ákærði kvaðst ekkert frekar hafa fram að færa. Hann kvað sér finnast eins og hann hafi verið 15 ára og taldi þetta hafa verið að vori til.
Ákærða voru sýndar ljósmyndir af baðherbergjum í [...]skóla. Hann var beðinn að benda á það herbergi sem hann fór með A inn í. Ákærði benti á ljósmynd af baðherbergjum sem eru innar á gangi skólans, við stiga sem liggur niður í kjallara. Hann kvað þau hafa farið inn í herbergið sem er á vinstri hönd á myndinni. Aðspurður kvað ákærði þau hafa farið inn í herbergið og leikið sér, en leikurinn hafi snúist um kynlíf. Hún hafi sest ofan á hann þar sem hann sat á salernisskálinni og þau hafi rætt saman. Þau hafi bæði verið fullklædd og ekkert frekar hafi gerst þar inni. Hann kvað þetta tilvik mjög líklega hafa átt sér stað sama vor og tilvikið á salerninu í [...]kirkjugarði.
Ákærða voru sýndar ljósmyndir af þremur salernisskúrum í [...]kirkjugarði. Hann var beðinn að benda á þann skúr sem hann fór inn í með A á sínum tíma og hann gat um í skýrslu sinni. Ákærði benti á mynd af salernisskúr lengst til vinstri á korti sem honum var jafnframt sýnt. Kvaðst hann vera viss um að þetta væri skúrinn sem þau A fóru inn í á sínum tíma.
Loks var ákærða kynnt bótakrafa A og hann beðinn að skýra frá afstöðu sinni til hennar. Ákærði kvaðst alfarið hafna þessari bótakröfu.
Í skýrslu sem ákærði gaf í tilefni af rannsókn á ætluðu broti hans gagnvart B kom ákærði inn á samskipti sín við A. Skýrði hann frá því að þegar hann var fimmtán ára hefði hann misnotað A sem þá var 8 ára. Kvað hann sér hafa liðið mjög illa yfir því og slíkt hefði ekki gerst aftur.
Ákærði kvaðst hafa verið að hjóla við [...]kirkjugarð og hún hafi elt hann á hjóli. Hann hafi verið á leið að litlu húsi nálægt kirkjugarðinum þar sem hann hafi ætlað að kasta af sér vatni. Í þessu húsi væru salerni og hefði hann farið þar inn, en A hafi beðið fyrir utan. Hún hafi þá farið að banka á dyrnar og hafi hann þá hleypt henni inn. Sagði ákærði að henni hefði fundist það spennandi og líka girt niður um sig. Hún hefði horft á hann pissa, en hann hafi sest á salernisskálina til að fela hvað hann var að gera. Þegar hann hafði lokið sér af hafi hann staðið upp og hún farið á klósettið líka. Hún hefði horft á hann og sagt að hann væri með tippi, en hann hefði verið með kynfærin úti og buxurnar hafi verið niður um hann. Ákærði kvaðst hafa fylgst með henni pissa. Kvaðst hann hafa staðið fyrir framan hana og þau hafi talað um líkamann. Hann kvaðst hafa sest niður á hana og verið eins og þau væru að leika sér. Ákærði kvaðst svo hafa hætt þessu þegar hann áttaði sig á því hve lítil hún var. Hann hefði sagt henni að segja foreldrum sínum frá þessu. Kvaðst hann síðan hafa farið heim og liðið mjög illa yfir þessu og þagað yfir þessu í mörg ár. Daginn eftir hefði hann hitt A og beðið hana afsökunar og fyrirgefningar á þessu framferði sínu. Hún hefði sagt að þetta væri í lagi.
Ákærði kvaðst aðspurður ekki muna hvað þau gerðu þegar hann settist ofan á A. Kvaðst hann aðspurður hvorki muna hvort honum reis hold né hvort hann hafi látið hana fróa sér, en hann hafi ekki reynt að hafa samfarir við hana. Þá myndi hann hvorki hvort hann hafi fengið sáðlát né hvort hann hafi sleikt á henni klofið.
Við aðalmeðferð málsins var ákærði fyrst spurður hvort hann viðurkenndi að hafa á árunum 1989 og 1990, þegar hann var nemandi í [...]skóla, fengið A, þá 8 og 9 ára nemanda við skólann, til að fara úr buxunum á salerni í mötuneyti skólans, og fara höndum um kynfæri hennar. Ákærði sagði að þau hafi farið inn á salernið þar sem A hafi að beiðni hans farið úr buxunum og hann hafi einnig farið úr buxunum. Hann kvaðst hafa reynt að hafa við hana samfarir, en það hafi ekki gengið og þau hafi hætt við þetta. Aðspurður hvort hann væri viss um að þetta hafi ekki gerst á salerninu í mötuneytinu sagði ákærði að þetta hafi ekki verið þar, heldur hafi þetta átt sér stað á salerni við skrifstofu [...]kirkjugarðs. Ákærða var bent á að þetta væri í ósamræmi við það sem hann hefði áður sagt. Hann kvaðst halda, þegar hann gaf skýrsluna, að verið væri að tala um salernið í [...]kirkjugarði. Það hafi verið eini staðurinn.
Ákærði var spurður hvort hann kannaðist við að hann hafi fengið A til að girða niður um sig undir stiga við skrifstofu [...]kirkjugarðs. Hann neitaði því. Ákærði var þá spurður hvort hann kannaðist við að þau hafi farið þangað, en eitthvað annað gerst en það sem lýst væri í ákærunni. Hann kvað þau hafa farið undir stigann, en þau hafi verið alklædd. Þau hafi leikið sér saman, en verið alklædd og ekki farið úr neinu. Þau hafi þó lagst á jörðina.
Ákærði var spurður hvort hann hefði fengið A til að girða niður um sig á salerni í [...]kirkjugarði, þar sem hann hafi sjálfur girt niður um sig, sýnt henni kynfæri sín og fengið hana til að fróa honum uns honum varð sáðlát. Einnig hvort hann hafi sleikt kynfæri hennar og síðan reynt að hafa við hana samfarir. Ákærði svaraði þessu játandi. Hann var spurður hvort hann héldi því fram að þetta væri það sem hann var að lýsa þegar hann var spurður fyrst. Ákærði sagði að það væri rétt. Þetta hafi einungis verið í eitt skipti.
Ákærða var bent á að í þinghaldi 4. nóvember 1999 hafi verið bókað eftir honum að hann hefði fengið A til að fara úr buxunum á salerni skólans. Ákærði ítrekaði að það sem gerðist hefði eingöngu verið í [...]kirkjugarði. Bókunin væri því ekki rétt. Spurning væri hvort einhver misskilningur hefði orðið. Hann kvaðst ekki skilja hvernig þetta hafi misskilist.
Við aðalmeðferð málsins kvað vitnið, A, það vera rétt að hún hafi verið nemandi í [...]skóla á árunum 1989 og 1990 og að þá hafi ákærði einnig verið nemandi þar. Vitnið var beðin að lýsa samskiptum sínum við ákærða, nánar tiltekið hvað gerst hafi þeirra í milli og hún hefði áður greint frá. Vitnið kvaðst muna að ákærði hafi verið mjög vinsæll í skólanum. Hann hafi verið sniðugur að segja sögur og gaman hafi verið að hlusta á hann segja sögur. Þegar ákærði bað hana að gera ýmislegt hafi verið eins og hann hefði vald yfir henni. Ákærði hafi verið eldri nemandi, en hún yngri. Vitnið lýsti því að dag einn hefði ákærði komið til hennar og beðið hana að koma með sér niður á salerni undir mötuneytinu. Er vitnið var beðin að lýsa því hvað gerðist þar kvað hún ákærða hafa spurt hana hvort hún vildi fara úr buxunum og hvort hann mætti skoða, en svo hafi það verið búið. Í hitt skiptið, sem hafi verið seinna, hafi þau verið í frímínútum í mötuneytinu. Kvað hún ákærða aftur hafa beðið hana að koma og þá hafi þau farið út af skólalóðinni. Beint á móti skólanum væru húsin í kirkjugarðinum og þar hafi þau farið undir stigann. Þá hafi hann aftur beðið hana að fara úr buxunum og svo hafi hann skoðað. Í enn eitt skiptið hafi þau verið í félagsmiðstöðinni, að vori til að því er vitnið hélt. Hún og vinkona hennar hafi verið á reiðhjólum og ákærði hafi einnig verið á reiðhjóli. Þá hafi ákærði beðið hana að koma í hjólreiðatúr. Kvaðst vitnið hafa beðið vinkonu sína að koma með, en hún hafi ekki viljað það. Kvað hún þau ákærða þá hafa hjólað í kirkjugarðinn. Á gömlu svæði í garðinum hafi verið hús, svipað og bílskúr. Þar hafi þau farið inn á salerni þar sem ákærði hefði beðið hana um að fara á klósettið og pissa, en ekki sturta niður. Þá hafi ákærði aftur beðið hana um að fara úr buxunum. Þar hafi hann skoðað hana og komið aðeins við hana og einnig hafi hann sleikt hana. Ákærði hefði sagt að henni ætti að þykja þetta gott. Vitnið kvaðst muna að hún var mjög skelfd þegar þetta gerðist. Þá hafi ákærði reynt að stinga limnum inn í hana, en ekki komið honum inn. Hafi hann skammað hana fyrir að vera með of lítið gat. Ákærði hafi farið aftur inn á salernið, sett hönd hennar á lim hans og sagt henni að hreyfa hana fram og aftur. Vitnið kvaðst hafa gert það. Henni hafi brugðið þegar hún sá hvítt koma úr limnum. Eftir það hafi hann faðmað hana þótt hún hafi ekki viljað það og henni hafi liðið illa. Hann hafi svo farið heim og hún hafi farið heim. Aðspurð hvar ákærði hafi komið við hana áður en hann reyndi að setja lim sinn inn í hana kvað vitnið það hafa verið við kynfærin. Aðspurð hvar ákærði hafi sleikt hana sagði vitnið að það hafi verið á kynfærunum.
Vitnið var beðin að skýra nánar frá því hvað gerðist á salerni skólans. Hún kvað ákærða hafa spurt hana hvort hann mætti prófa, skoðað lítið eitt og komið við. Kvaðst vitnið hafa staðið, en ákærði hafi kropið vegna þess hann var svo miklu stærri. Aðspurð kvað vitnið ákærða hafa spurt hana hvort hann mætti skoða og það hafi hann gert. Hann hafi skoðað kynfæri hennar. Vitnið kvaðst vilja bæta því við að milli þessara atburða hafi hún sagt kennara sínum frá því að ákærði hefði reynt að toga buxurnar niður um hana. Þau hafi bæði verið kölluð inn til K yfirkennara. Kvaðst vitnið muna að K hafi sagt að ef þetta gerðist aftur þyrfti að kalla til lögreglu. Síðan hafi þetta ekki verið rætt meira. Þetta viðtal hafi einungis fjallað um að ákærði togaði niður um hana buxurnar.
Vitninu var bent á að ákærði kannaðist ekki við atvikið á salerninu í mötuneytinu. Hún var spurð hvort hún væri viss um að það hafi verið það fyrsta sem gerðist. Vitnið kvaðst vera alveg viss um það. Kvað vitnið sig minna að það hafi verið fyrsta skiptið. Hún var spurð hvenær og hverjum hún hefði sagt frá þessu jafnítarlega og hún hefði nú gert. Vitnið sagði að eftir fyrsta skiptið hefði hún sagt kennara sínum frá, eins og hún hefði áður sagt, og þá hafi verið fundað. Það sem hún myndi vel væri það sem yfirkennarinn sagði, þ.e. að ef ákærði gerði þetta aftur myndi hún kalla lögreglu til. Aðspurð hvort hún hafi ekki sagt frá því sem gerðist á salerninu í kirkjugarðinum sagði vitnið að tvö ár væru síðan hún sagði frá því. Kvaðst hún hafa sagt vinkonu sinni, sem var í sama skóla, frá því þegar mál þetta var nýkomið upp.
Vitnið var spurð nánar um annað atvikið, þ.e. þegar þau fóru að skrifstofunum í kirkjugarðinum. Aðspurð hvort þau hafi lagst á jörðina undir stiganum sagði vitnið að það hafi verið fremur hátt til lofts og hún hafi staðið, en ákærði hafi kropið. Kvað hún ákærða hafa beðið hana að fara úr buxunum þegar þau voru þarna. Ákærði hafi svo skoðað kynfæri hennar.
Vitnið sagði að þegar þessi atvik höfðu gerst, sem hún var að lýsa, hafi hún verið búin að bæla þetta innra með sér og ekki munað allt. Hún hafi ekki munað hvað gerðist fyrr en sumarið 1992 er þau voru stödd erlendis. Þá hafi ákærði spurt hana hvort hún myndi eftir þessu og hann hafi eitthvað verið að minna hana á þetta. Þá hafi hún farið að muna þetta allt. Aðspurð hvernig henni liði eftir að hafa þurft að rifja þetta allt upp aftur sagði vitnið að hún væri búin að vinna vel úr þessu og þetta væri minna mál fyrir hana nú en í fyrsta skiptið sem hún sagði frá.
Móðir A, M, kom fyrir dóminn. Vitnið var fyrst spurð hvenær hún hafi fengið vitneskju um það hvað farið hafði dóttur hennar og ákærða í milli á árunum 1989 og 1990. Hún kvað A hafa komið til sín og sagt sér frá þessu í nóvember 1998. Kvað hún það hafa verið af því tilefni að tvær stúlkur komu til A og spurðu hana hvort ákærði hefði gert eitthvað ljótt við hana. Síðan hefði L, skólastjóri [...]skóla, kallað A á sinn fund og spurt hana að þessu. Vitnið kvað A hafa sagt sér að hún vildi ekki að vitnið frétti þetta úti í bæ. Hún hafi því mannað sig upp og sagt vitninu frá þessu þarna. Vitnið kvað A ekki hafa sagt henni nákvæmlega hvað gerðist og hún kvaðst heldur ekki hafa þrýst á hana, enda hafi þetta verið nógu erfitt. Það sem A sagði hafi verið að ákærði hefði misnotað hana þegar hún var þetta gömul í skólanum. Hún hafi sagt að þetta hafi verið á salerninu í skólanum og að hann hafi farið með hana út í kirkjugarð. Ákærði hafi sagt henni að fara úr fötunum, strokið henni, látið hana fróa honum og fleira í þeim dúr. Hún hafi hins vegar ekki lýst þessu nákvæmlega. Vitnið var spurð hvort hún hefði á þessum tíma merkt eða vitað að eitthvað hafi verið á seyði í skólanum. Vitnið svaraði neitandi, en bætti við að það hafi alltaf verið einhverjir örðugleikar í skólanum. Einhvern tíma á þessum árum hefði það komið fyrir að nemendur voru að rífa buxur hvor niður um annan. Kvaðst vitnið muna að haldinn hafi verið fundur í skólanum þar sem þetta var rætt. Hana hafi ekki grunað að neitt þessu líkt væri á seyði. Aðspurð hvort hún hefði merkt að eitthvað hefði breyst í hátterni A á þessum árum, þegar hún liti til baka, kvað vitnið A hafa átt erfitt skap og hún hafi haft skapsveiflur, en hún hafi ekki vitað hvers vegna. Þegar hún horfði til baka, eftir að allt þetta kom upp, hafi þetta sett ákveðið mark. A hafi verið mjög lokuð og fitnað á þessum tíma. Aðspurð hvort það að hún hafi þurft að rifja þetta upp hafi haft merkjanleg áhrif á A kvað vitnið það hryllilegt og væri ekki liðið hjá. Þetta hafi lýst sér í mikilli vanlíðan, hún treysti engum og tilfinningalíf hennar væri í rúst. Þetta væri það sem vitninu fyndist hafa breyst eftir að málið kom upp. Vitnið kvað A hafa fengið aðstoð hjá Stígamótum og þyrfti áreiðanlega á meiri aðstoð að halda.
II.
Þann 16. desember 1998 var tekið rannsóknarviðtal við B í Barnahúsi. Vitnið skýrði svo frá að 5-6 árum áður, þ.e. þegar hún var 9 eða 10 ára hafi hún ásamt fleirum verið stödd í gömlu félagsmiðstöðinni. Ákærði hafi þá beðið hana að koma með sér, en hún hafi ekki viljað það. Hann hafi þá tekið í hana og farið með hana inn á salerni, tekið niður um hana buxurnar og káfað á henni innanklæða. Vitnið sagði að ákærði hafi káfað á maga hennar og lærum, en mest að neðan og farið með fingur inn í hana. Vitnið sagði að henni hafi fundist rosalega vont þegar hann fór með fingurinn inn í hana, en hún hafi ekki mótmælt því þar sem hún hafi verið svo hrædd. Hún sagði að þau hafi verið tvö inni á salerni. Ákærði hefði verið alklæddur, en dyrnar læstar og ljósin slökkt. Ákærði hefði síðan farið fram, en hún orðið eftir inni á salerni, grátandi.
Vitnið sagði að ákærði hafi sagt við hana að hún mætti ekki segja frá þessu og ef hún gerði það myndi hann berja hana. Vitnið kvað þetta hafa verið eina skiptið sem hann gerði þetta við hana. Vitnið kvaðst hafa sagt frá þessu fyrir stuttu.
Ákærði gaf tvær skýrslur við lögreglurannsókn málsins, hina fyrri 23. febrúar 1999. Hann var fyrst spurður hvort hann vildi tjá sig sjálfstætt um fram komna kæru. Ákærði rakti þá nokkur dæmi um samskipti sín við B.
Ákærða var gerð grein fyrir að B hefði greint frá því í rannsóknarviðtali að þegar hún var 9 eða 10 ára hafi hún verið stödd í félagsmiðstöðinni. Hann hefði þá beðið hana að koma með sér, en hún hafi neitað. Þá hafi hann tekið í hana og farið með hana inn á salerni. Aðspurður hvort þetta væri rétt kvaðst ákærði ekki kannast við þetta atvik. Hann hafi ekki verið að vinna þar á þeim tíma sem hún tilgreindi. Ákærði var minntur á að hann hefði verið nemandi í þessum skóla. Hann kvaðst ekki kannast við þetta atvik. Ákærða var kynnt að jafnframt hefði B greint frá því að inni á salerninu hefði hann tekið niður um hana buxurnar og káfað á henni innanklæða, maga hennar og lærum. Einnig að hann hefði káfað á henni að neðan og farið með fingur inn í hana. Ákærði kvaðst ekki hafa gert þetta við stúlkuna. Honum var kynnt að hún hefði greint frá því að þau hefðu verið ein inni á salerninu í umrætt sinn og ljósin hafi verið slökkt. Hann hefði síðan farið og skilið hana eftir eina. Hún hefði greint frá því að hann hefði sagt að hún mætti ekki segja frá þessu og ef hún gerði það myndi hann berja hana. Ákærði neitaði þessu og kvaðst ekki hafa gert þetta.
Ákærða var kynnt eftirfarandi úr bréfi B til tímaritsins [...], 8. tölublað 2. árgangur: “Ég er 15 ára stúlka sem varð fyrir kynferðislegu ofbeldi þegar ég var svona 8 eða 9 ára ............... og græt stundum þegar ég rifja þetta upp.” Ákærði kvað þetta vera ótrúlegt. Hann kvaðst ekki hafa snert hana. Hann hafi ekki sagt henni að hann ætlaði að berja hana. Hann kvaðst hafa verið í félagsmiðstöðinni þegar hann var í skólanum, en hætt að koma þangað þegar hann var 17 ára. Hann kvaðst hafa verið í vinahóp í skólanum og þau hafi ekki umgengist yngri krakkana. Hann kvaðst ekki hafa komið þangað fyrr en hann sótti um vinnu þegar hann var 21 árs.
Í síðari skýrslunni sem tekin var af ákærða 18. mars 1999 kvaðst hann ekkert frekar hafa fram að færa í málinu. Ákærði tók fram að B hefði komið í heimsókn til hans í [...]. Í júlí 1998 hafi hún ásamt þremur öðrum komið í teiti til hans, en hann hafi boðið vinum sínum í teitið. Kvaðst hann ekki hafa boðið B og hafa verið mótfallinn því að hún væri þarna þar sem hinir hafi verið að drekka. B hafi spurt um barn hans og hann hafi sýnt henni myndir af því. Hún hafi svo farið heim um miðnættið.
Ákærða var kynnt bótakrafa B. Hann kvaðst hafna þessari bótakröfu alfarið.
Við aðalmeðferð málsins var ákærði fyrst spurður hvort hann kannaðist við að hafa á árinu 1994 farið með B, þá 11 ára gamla, inn á salerni í félagsmiðstöð skólans, læst að þeim, slökkt ljósið og tekið niður um hana buxurnar. Ákærði sagði að þetta væri ekki rétt. Hann var spurður hvort hann hafi aldrei farið inn á salerni í félagsmiðstöð skólans með henni eins og lýst væri. Ákærði svaraði því neitandi. Hann var spurður hvort hann kannaðist við að það gæti hafa gerst einhvers staðar annars staðar. Ákærði sagði að svo væri ekki. Hann hefði aldrei gert nokkurn skapaðan hlut við B. Honum var bent á að þetta ákæruefni væri byggt á framburði stúlkunnar. Aðspurður hvort hann teldi að hún væri að segja ósatt kvaðst ákærði halda að hún væri ekki að segja satt. Hann hefði aldrei gert neitt við hana. Ákærði var spurður hvort hann hefði einhverja skýringu á því hvers vegna svo kynni að vera. Ákærði sagði að þegar hann komst að því að B hefði kært hann hafi hann fengið áfall vegna þess að hann hefði aldrei gert neitt við hana og það hafi aldrei verið neitt sem benti til þess. Þetta hafi því komið honum mjög á óvart. Ákærði var beðinn um að lýsa samskiptum þeirra B í félagsmiðstöðinni. Hann kvað þau hafa verið með ágætum. Þau hafi oft spjallað saman, rætt um hvað hún ætlaði að gera í framtíðinni og almennt spjall þeirra í milli. Hún hafi stundum reynt að ráða yfir honum, en annars hafi þetta verið eðlilegt. Ákærði kvað sér stundum hafa fundist eins og B vildi tala um kynferðismál við hann. Kvaðst hann hafa sagt við hana að ræða þetta ekki. Þau mál væru ekki til umræðu í félagsmiðstöðinni. Sagði ákærði aðspurður að B hafi verið ein um þetta.
Við aðalmeðferð málsins var vitnið, B, fyrst beðin að skýra frá atvikinu á salerninu í félagsmiðstöð skólans. Hún sagði aðspurð að það hafi gerst fyrir sjö til átta árum, en þá hafi hún verið níu til tíu ára gömul. Aðspurð hvað hafi gerst sagði vitnið að hún hafi verið að leika sér við vini sína í félagsmiðstöðinni. Ákærði hafi þá beðið hana að koma og tala við sig. Hún hafi ekki viljað það, en hann hafi skipað henni að koma og hún hafi látið undan. Þau hafi svo farið inn á salerni og skyndilega hafi hann slökkt ljósin. Í framhaldi af því hafi ákærði farið að káfa á henni. Vitnið kvaðst hafa verið mjög hrædd því hún hafi ekki vitað hvers vegna hann gerði þetta. Ákærði hafi svo farið fram, en hún hafi verið áfram inni á salerninu og liðið mjög illa. Vitnið var beðin að lýsa því nánar þegar ákærði káfaði á henni, þ.e. hvar hann káfaði á henni. Vitnið kvað ákærða hafa káfað á maga hennar og lærum og svo hafi hann farið inn í hana. Aðspurð hvort hann hafi káfað á henni innan- eða utanklæða sagði vitnið að hún hafi verið í peysu, en buxurnar hafi verið niðri. Kvað hún ákærða hafa tekið niður um hana buxurnar. Ákærði hafi sjálfur verið í buxum. Aðspurð hvað svo hafi gerst sagði vitnið að henni hafi liðið illa. Hún hafi ekki þorað að segja móður sinni frá og hafi þagað yfir þessu. Það hafi ekki verið fyrr en hún var orðin 15 ára sem hún sagði móður sinni þetta. Vitnið var spurð hvort ákærði hafi gert eitthvað meira en káfa á henni. Hún kvað hann hafa sagt að hún mætti ekki segja frá. Vitnið kvað það einnig hafa gerst að ákærði hafi sett puttann inn. Aðspurð hvað hún ætti nánar við þegar hún segði að hann hefði farið með puttann inn í hana sagði vitnið að ákærði hefði farið inn í leggöng hennar með einn fingur. Ákærði hafi svo farið út, en hún hafi verið áfram inni á salerninu og liðið mjög illa. Vitnið var spurð hvað ákærði hafi sagt þegar hann bað hana að segja engum frá. Hún kvaðst aðeins muna að hann hafi sagt að hún mætti ekki segja frá því þá yrði hann reiður við hana. Einnig hefði hann sagt að hann myndi berja hana eða meiða hana. Aðspurð hvort ákærði hafi hótað henni sagði vitnið að ákærði hafi sagt að ef hún segði frá yrði hann mjög reiður við hana, en hún vissi ekki hvað hann myndi gera. Vitnið sagði aðspurð að ákærði hefði mest káfað á maga hennar og lærum. Kvað hún ákærða hafa káfað á maga hennar innanklæða. Það sama ætti við um læri hennar. Aðspurð kvað vitnið klósett, sturtu og vask vera inni á salerninu, en á því væri ekki gluggi. Þegar ákærði slökkti ljósið hafi allt orðið dimmt. Sagði vitnið aðspurð að þau hafi ekki getað átt táknmálssamskipti meðan herbergið var myrkvað. Er hún var spurð hvenær ákærði hafi hótað að berja hana ef hún segði frá sagði vitnið að þegar ákærði var búinn hafi hann kveikt ljósið og sagt þetta áður en hann fór út. Aðspurð kvaðst hún ekki muna hve lengi hún var inni á salerninu eftir að ákærði fór þaðan út, en það hafi verið smástund. Hvað hún gerði eftir það myndi hún ekki glöggt, en hún héldi að hún hafi farið heim. Vitnið kvaðst muna að þegar þetta gerðist hafi ákærði verið nýbyrjaður að vinna í félagsmiðstöðinni og hún hafi verið á að giska níu til tíu ára gömul.
Vitnið var spurð hvernig henni hafi liðið eftir þetta. Hún kvað sér hafa liðið mjög illa. Eftir að þetta gerðist hafi hún gleymt þessu, en þegar hún var orðin þrettán eða fjórtán ára hafi þetta rifjast upp fyrir henni. Henni hafi liðið illa í skólanum og það hafi verið erfitt að læra. Hún hafi því á endanum sagt frá þessu eftir að þetta rifjaðist upp fyrir henni. Aðspurð kvaðst vitnið ekki stunda skólanám um þessar mundir. Hún var spurð hvernig henni hafi gengið í skóla frá því að þetta atvik fór að rifjast upp fyrir henni þar til hún hætti í skóla. Vitnið kvað sér hafa gengið illa, en reyndar hafi síðasta árið, þ.e. tíundi bekkur grunnskóla, gengið mjög vel hjá henni.
Vitnið staðfesti að hún hafi skrifað bréf sem birst hafi í unglingablaðinu [...]. Vitnið var spurð hvort hún hafi haft samband við Stígamót varðandi þetta mál. Vitnið játti því. Hún var spurð hvernig það hafi borið að, þ.e. hvort hún hafi leitað þangað sjálf eða hvort Stígamótakonur hafi komið í skólann. Vitnið sagði að það hefði verið unglingakvöld í félagsmiðstöðinni og þá hafi tvær konur frá Stígamótum komið til að segja þeim hvað færi fram hjá Stígamótum. Kvaðst hún þá hafa ákveðið að fara þangað og segja frá. Aðspurð kvaðst vitnið halda að þegar þetta unglingakvöld var haldið hafi ákærði verið hættur störfum í félagsmiðstöðinni.
Móðir B, N, kom fyrir dóminn. Vitnið var fyrst spurð hvenær hún fékk vitneskju um það sem henti dóttur hennar. Vitnið kvað það hafa verið síðari hluta októbermánaðar 1998. Skýrði hún svo frá að hún hafi komið heim að kvöldi til, séð að það var kveikt á heimilistölvunni og að á skjánum var bréf. Hún hafi séð að B hafi m.a. verið að svara þeirri spurningu hvort hún hefði orðið fyrir kynferðislegri áreitni og að hún hafi svarað þeirri spurningu játandi. Vitnið kvaðst því hafa spurt B hvort það væri rétt að hún hefði orðið fyrir kynferðislegri áreitni. Kvað vitnið stúlkuna hafa svarað því játandi, en ekki viljað skýra vitninu nánar frá því þá. Hún hafi ekki gert það fyrr en talsvert síðar. Vitnið kvað þetta hafa litið út eins og sendibréf og í fyrstu hafi hún haldið að B væri að skrifa pennavinkonu sinni. Kvaðst vitnið síðar hafa komist að því að hún hafði verið að skrifa bréf í blaðið [...] þar sem hún hafi m.a. verið að leita ráða fyrir sig og vinkonur sínar hvert þær ættu að snúa sér. Bréfið hafi verið stílað þannig að hún hafi verið að leita ráða sérstaklega fyrir vinkonur sínar. B hafi svo sagt vitninu frá þessu svolitlu seinna. Þá hafi hún sagt vitninu að það hefði gerst fyrir sjö árum í félagsmiðstöð [...]skóla, þ.e. þegar hún var níu til tíu ára gömul. Þá hafi hún orðið fyrir þessari áreitni af völdum ákærða. Aðspurð sagði vitnið að B hafi ekki verið mjög fús að skýra frá þessu. Þegar þetta var hafi málið fyrir skömmu verið komið upp í skólanum.
Vitnið var beðin að lýsa því stuttlega hvernig líðan B hafi verið bæði þegar hún þurfti að fara að svara spurningum um þetta og fram til dagsins í dag. Vitnið kvað stúlkuna hafa átt mjög erfitt þarna. Sérstaklega hafi hún átt mjög erfitt í nóvember 1998. Þetta væri ekki mál sem vitnið hefði rætt mikið við hana, en síðan hafi hún stundum komið til vitnisins og rætt við hana um þetta. B hafi svo verið tilbúin að koma fyrir dóminn þegar taka átti málið fyrir í desember sl. Kvað vitnið stúlkuna vera búna að kvíða því mjög að koma fyrir dóminn og henni hafi ekki liðið vel út af þessu. Þá kvað vitnið stúlkuna eiga mjög erfitt með að umgangast karlmenn. Samband hennar og föður hennar hafi alltaf verið mjög gott, en hún hafi átt mjög erfitt með að tjá sig við hann og kæmi alltaf til vitnisins. Það væri breyting frá því sem áður var. Aðspurð hvernig stúlkunni hafi vegnað í skóla sagði vitnið að hún hafi verið með karlkynskennara veturinn 1995 til 1996 og átt mjög erfitt þann tíma, en farið að líða betur þegar hún fékk kvenkynskennara. B hafi gengið mjög vel í skólanum og lokið 10. bekk vorið 1999. Nú væri hún að vinna. Vitnið var spurð hvort B hafi sjálf sagt vitninu frá því að henni þætti óþægilegt að hafa karlkynskennara. Vitnið kvað hana ekki hafa sagt henni frá því þá. Hún hafi ekki tjáð sig um að henni liði illa í návist hans, en hún hafi átt mjög erfitt. B hafi hreinlega verið þunglynd á þessu tímabili og hún hafi átt mjög erfitt. M.a. hafi verið haft samráð við félagsráðgjafa skólans vegna þess.
III.
Með bréfi, dagsettu 17. desember 1998, fór barnaverndarnefnd [...] þess á leit við embætti lögreglustjórans í [...] að fram færi lögreglurannsókn á meintu kynferðisofbeldi gagnvart C, [...].
Í bréfinu sagði að C væri nemandi í [...]skóla í [...]. Tilkynning hefði borist frá skólanum til barnaverndarnefndar [...] með bréfi dagsettu 27. nóvember s.á. um að grunur léki á að telpan hefði orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða misnotkun af hendi fyrrverandi starfsmanns skólans, ákærða í máli þessu. Einnig að grunur léki á að fleiri nemendur hefðu orðið fyrir misnotkun af hendi ákærða.
Í framhaldi af viðtölum við móður og stjúpföður telpunnar, yfirvöld skólans og starfsmann Stígamóta, en þangað hefði telpan leitað og sagt frá, hafi verið send tilvísun í Barnahús. Þar hafi verið afhent greinargerð sem lögreglan í [...] hefði m.a. fengið ljósrit af. Í henni kæmu fram þær upplýsingar sem kunnar væru um málið á þeim tíma.
Þann 12. janúar 1999 var tekið rannsóknarviðtal við C í Barnahúsi. Þegar hún var spurð hvers vegna hún væri komin í Barnahús svaraði hún að það væri til að segja frá. Aðspurð hvort það væri eitthvað sérstakt sem hún hefði í huga svaraði hún “segja þér allt um X.” Þegar C var beðin að tjá sig um ákærða virtist hún ekki geta það eða vilja segja frá því. Sat hún í sófanum sem lengst frá viðmælanda sínum og tjáði sig ekki. Þegar hún var spurð hvort hann hefði gert henni eitthvað svaraði hún játandi. Hún tjáði sig hvorki um samskipti sín og ákærða né hvað hann gerði henni. Er hún var spurð hvort henni fyndist erfitt að tala um það svaraði hún játandi. Þegar C var spurð hvar það var sem ákærði gerði henni eitthvað nefndi hún félagsmiðstöðina og sagði að það hafi verið eftir klukkan fimm. Aðspurð um tíma nefndi hún vorið 1998. C sagði að ákærði hafi verið að vinna í félagsmiðstöðinni frá hádegi og hún hefði oft farið í félagsmiðstöðina.
C samþykkti að skrifa það niður sem ákærði gerði við hana. Eftir að hún hafði skrifað það niður og afhent viðmælanda sínum spurði viðmælandinn hvort lesa mætti það upphátt. Hún neitaði því, en samþykkti að lögreglan fengi blaðið.
C var beðin að lýsa félagsmiðstöðinni. Eftir að hafa lýst herbergjaskipan sagði hún að krakkarnir færu þangað eftir skóla til að horfa á sjónvarp og leika sér. Þegar C var spurð hvort það væri eitthvað sem ákærði gerði sem hún treysti sér til að segja frá, t.d. klósettinu, svaraði hún “ekki um klósettið.” Þegar C var spurð hvort hún treysti sér til að segja frá einhverju öðru vísaði hún til þess sem hún skrifaði á blaðið. C var spurð hvort eitthvað meira hefði gerst en það sem stæði á blaðinu og svaraði hún því játandi. Hún svaraði ekki þegar hún var spurð hvort hún treysti sér til að segja frá því sem hún skrifaði ekki niður. Kvaðst hún aðeins treysta sér til að segja frá því sem gerðist þegar krakkarnir voru saman.
Það sem hún ritaði á blaðið var: “Í bílnum: Hann bað mig um að koma og setjast hjá sér og ég gerði það nema ég sat ekki alveg og þá tók hann mig upp og lét mig setjast á lærið á honum. Það var myrkur og við vorum ein uppi á hólnum. Enginn bíll sást. Á klósettinu í félagsmiðstöðinni. Þá strauk hann mig. Í fyrstu þá bað hann mig um að pissa í baðkerið og ég gerði það og seinna bað hann mig að gera það sama í glas og síðan átti ég að kúka í glasið. Þetta gerðist oft. Á klósettinu í mötuneytinu: Hann fór með mig niður á karlaklósettið og kenndi mér hvernig konur verða ófrískar. Hann gerði það við mig. Ég var þá lítil. En hann fór ekki úr öllum fötunum, ekki ég heldur. Á klósettinu í féló: Einu sinni þá fórum við krakkarnir í feluleik og þá faldi ég mig í skápnum á klósettinu og þá kom X inn og fór úr buxunum og nærbuxunum. Hann vissi alveg að ég væri inni á klósettinu og þá fór ég út úr skápnum og fór út.”
Öðru sinni var tekið rannsóknarviðtal við C í Barnahúsi 22. febrúar 1999. Stuðst var við minnispunkta þá sem C hafði skrifað niður í fyrsta rannsóknarviðtalinu. C kvaðst ekki muna hvenær þetta byrjaði, en síðast hefði þetta átt sér stað á árinu 1998. Hún var spurð varðandi atvikið í bílnum hvort hún myndi hvar þau ákærði voru. Hún kvað það hafa verið nálægt [...] og nefndi hól og sveitabæ skammt þar frá í því sambandi. Aðspurð sagði hún að þetta hafi verið tveimur árum áður. Ákærði hafi setið undir stýri og hún hafi setið ofan á honum. Kvað hún þau hafa spjallað saman um stund. Kvað hún ákærða hafa beðið hana að setjast hjá sér, en nefndi ekki annað. Hann hafi ekki snert hana. Henni var bent á að í bréfinu hafi hún skrifað að hann hefði strokið henni. C kvað ákærða hafa strokið hana utan á fötunum, nánar tiltekið á síðu, á mjöðmum og á utanverðum lærum.
C var spurð hvenær það sem gerðist á klósettinu átti sér stað. Hún kvað það hafa verið tveimur árum áður, en það hafi gerst oft. Kvað hún það hafa gerst í nokkur skipti að ákærði lét hana pissa í baðkerið. Sagði hún að eitt salerni væri í félagsmiðstöðinni, en tvö væru undir matsalnum.
Aðspurð hvenær atvikið á salerninu í mötuneytinu átti sér stað kvaðst hún hafa verið tíu til ellefu ára. Hún kvað tvö salerni vera þar, karla og kvenna. Þetta hafi átt sér stað á kvennaklósettinu og þau hafi verið þar tvö ein.
C var spurð hvort hún gæti lýst einhverju atviki sem gerðist á salerninu í félagsmiðstöðinni. Hún svaraði engu og virtist ekki geta það. Aðspurð hvar ákærði hafi verið þegar hún pissaði í baðkerið sagði hún að hann hafi verið frammi. Aðspurð hvað hefði gerst eftir að hún var búin að pissa í baðkerið kvaðst hún ekki muna það.
Í skýrslu sem tekin var af C hjá lögreglu 9. febrúar 1999 kvaðst hún hafa byrjað sem nemandi í [...]skóla þegar hún var fimm eða sex ára gömul. Kvaðst hún halda að ákærði hafi byrjað að vinna í félagsmiðstöðinni þegar hún var tíu eða ellefu ára gömul. Vitnið kvaðst ekki muna hvernig ákærði byrjaði að áreita hana, en kvaðst muna atvik sem átti sér stað á salerninu í mötuneyti skólans. Hún kvað ákærða hafa farið með hana niður á karlasalerni. Hafi þau verið í herbergi fyrir framan salernin. Ákærði hefði sest á gólfið og látið hana setjast ofan á sig. Kvað hún þau hafa verið í fötunum og ákærði hafi haldið um mitti hennar. Vitnið kvað ákærða hafa lyft henni upp og hann hafi hreyft sig eins og þau væru að hafa samfarir. Kvað hún ákærða hafa setið á gólfinu með hana ofan á sér og hreyft sig. Ákærði hafi hvorki klætt hana úr buxunum né farið sjálfur úr buxunum.
Vitnið kvað ákærða hafa ekið henni heim þegar hún var tólf eða þrettán ára. Kvað hún þau hafa ekið upp á hól fyrir utan [...]. Nokkur einbýlishús og kirkja hafi verið nærri þessum hól. Kvað hún ákærða hafa stöðvað bifreiðina uppi á hólnum. Myrkur hafi verið og engin umferð. Vitnið kvað ákærða hafa beðið hana að setjast ofan á sig. Kvaðst hún hafa sest á lærið á honum. Ákærði hafi lyft henni þannig að hún sat í fangi hans. Vitnið kvaðst muna lítið eftir þessu og kvaðst hvorki muna hvort hann káfaði á henni né hvort strauk henni, en hún hafi verið hrædd.
Vitnið kvað ákærða oft hafa sagt henni að fara inn á salerni. Þar hafi hann sagt henni að hafa þvaglát í glas eða í baðkerið. Kvað hún ákærða mjög oft hafa sagt henni að fara inn á salerni og hafa þvaglát í glas, og hún hafi alltaf orðið við því. Hafi ákærði verið frammi meðan hún hafði þvaglát. Hún kvað ákærða einnig, tvisvar eða þrisvar, hafa sagt henni að hafa saurlát í glas. Kvaðst hún hafa orðið við því í öll skiptin og hafi ákærði beðið á meðan fyrir framan salernið. Kvað hún ákærða hafa tekið glasið eftir að hún hafði lokið sér af og skoðað þvagið og saurinn.
Aðspurð hvort ákærði hafi einhvern tíma káfað á henni eða strokið henni utanklæða sagði vitnið að hann hafi strokið handleggi hennar og haldið um mitti hennar. Hún kvaðst hvorki muna hvar né hvenær það var. Hún myndi ekki til að hann hefði strokið henni innanklæða.
Ákærði var yfirheyrður hjá rannsóknardeild lögreglunnar í [...] 25. febrúar 1999. Hann var spurður hvort hann vildi tjá sig um fram komna kæru. Hann kvaðst vilja gera það og sagði að eitt sinn er hann var staddur í félagsmiðstöð [...]skóla, og stóð við eldhúsvaskinn við uppvask, hafi hann séð C og aðra stúlku fara saman inn á salerni. Honum hafi fundist þær vera þar lengi. Hin stúlkan hafi svo komið hlæjandi út og hann hafi spurt hana hvað væri að. Stúlkan hafi þá sagt að C hefði gert svolítið. Síðan hafi C komið fram og hann hafi spurt hana hvað væri að. C hafi þá beðið hann að koma inn á bað og þá hafi hann séð að hún var búin að pissa í baðkerið. Ákærði kvaðst hafa spurt hana hvers vegna hún hafi gert þetta og hafi hún sagt að hin stúlkan hefði þurft að fara á salernið. C hafi sagt að hún þyrfti það líka og þá hafi hin stúlkan stungið upp á því að C pissaði í baðkarið sem hún hafi sagt honum að hún hafi gert. Ákærði kvaðst hafa beðið hana að þrífa upp það sem hún hafi gert og eftir að hún hafði neitað því í fyrstu hafi hún gert það. Nokkru seinna hafi hún gert þetta aftur og hann hafi skammað hana fyrir að gera þetta. Kvaðst ákærði aðspurður halda að þetta hafi gerst á árinu 1996. Hann kvaðst hafa spurt C hvers vegna hún gerði þetta og þá hafi hún hlegið og sagt að hún hafi gert þetta af því að hin stúlkan hafi sagt henni að gera það. Hann hafi hvorki látið yfirmann sinn né skólastjórnendur eða foreldra vita af þessu, enda hafi honum ekki þótt þetta vera alvarlegt.
Ákærði lýsti því að einhverju sinni hefði C neitað að fara eftir lokun félagsmiðstöðvarinnar. Þetta hafi gerst í nokkur skipti og hafi hann skammað hana fyrir þetta. C hafi þá sagt við hann að ef hann borgaði henni með peningum myndi hún fara. Þá hafi honum flogið í hug atvikið með baðkerið og sagt henni að ef hún pissaði í baðkerið myndi hann borga henni fé fyrir og það hafi hún gert. Þetta hafi endurtekið sig nokkrum sinnum og kvaðst ákærði hafa greitt henni tvö til þrjú hundruð krónur í hvert skipti.
Ákærði kvaðst gera sér grein fyrir að þetta var rangt, en hann hafi gert þetta þar sem hún hafi ekki viljað fara út. Aðspurður hvort honum hafi aldrei dottið í hug aðrir valkostir, svo sem að hringja í móður stúlkunnar, svaraði ákærði að hún hafi fengið nóg af þessu eftir nokkur skipti og þá hafi hann hringt í móður stúlkunnar, en hún hafi aldrei komið til að sækja C.
Ákærði kvaðst muna eftir öðru atviki. Hann kvaðst stundum hafa ekið C heim og í eitt skiptið þegar hann ók henni hafi þau verið að ræða saman. Taldi ákærði sig hafa misst stjórn á sér og hafa spurt hana hvort hana vantaði peninga. Þau hafi þá verið á leið til [...] og hafi hann stöðvað bifreiðina rétt fyrir utan bæinn. Dimmt hafi verið úti. Hún hafi sagt að hana vantaði peninga fyrir sælgæti. Kvaðst ákærði hafa boðið henni 500 krónur ef hún settist í fangið á honum. Það hafi hún gert og hafi bak hennar snúið að bílstjórahurðinni, en fætur hennar hafi verið í framfarþegasæti. Kvaðst ákærði hafa ætlað að láta hana sitja hjá sér í tíu mínútur, en eftir nokkrar sekúndur hafi hann hætt við og látið hana setjast aftur í farþegasætið og rétt henni 500 krónur. Hann hafi svo ekið henni heim og ekkert annað hafi gerst. Kvaðst hann hafa sagt við hana í þann mund sem hún steig út úr bílnum að hann hefði gert marga vitlausa hluti með henni og beðist fyrirgefningar. Hann hefði sagt henni að hún réði því hvort hún segði einhverjum frá þessu.
Ákærði var spurður hvað það hafi verið sem hann hætti við þegar hún sat í fangi hans. Hann kvaðst ekki hafa ætlað sér annað en láta hana sitja í ákveðinn tíma. Kvaðst hann ekki vita hvers vegna hann lét stúlkuna sitja í fangi sér, en e.t.v. hafi það verið vegna þess að honum hafi fundist það skemmtilegt. Einhver tilfinning komi yfir hann aftur og aftur. Aðspurður hvaða tilfinning það væri sagði ákærði að hann héldi að hann væri að fara að gera eitthvað skemmtilegt, en hætti svo við þegar hann áttaði sig á því að það væri rangt. Kvaðst hann telja að rekja mætti þetta til þess sem hann gerði við A. Sagði ákærði aðspurður að þetta hafi ekki verið af kynferðislegum toga og honum hafi ekki risið hold. Hann kvaðst aðspurður ekki muna nákvæmlega hvenær þetta var, e.t.v. að vetri tveimur árum áður.
Ákærða var kynnt að í bréfi sem C ritaði í rannsóknarviðtali 12. desember 1998 kæmi fram að þau hafi verið í bifreið hans. Hann hafi tekið hana upp, látið hana setjast á læri hans og strokið henni. Fram hafi komið í skýrslu, sem tekin var af henni 9. febrúar 1999, að hún hafi verið tólf til þrettán ára þegar þetta gerðist. Ákærði kvaðst ekki muna eftir því að hafa strokið henni.
Ákærða var kynnt að í sama bréfi kæmi fram að hann hafi beðið hana að hafa þvaglát í baðker á baðherbergi í félagsmiðstöðinni og hún hafi orðið við því. Seinna hafi hann beðið hana að gera það sama í glas og síðan hafi hún átt að hafa saurlát í glasið. C hafi látið þess getið að þetta hafi gerst oft. Ákærði kvaðst ekki kannast við að hafa beðið hana að hafa saurlát í glas og hann myndi ekki hvort hann hafi beðið hana að hafa þvaglát í glas.
Ákærða var kynnt að fram kæmi í skýrslunni, sem tekin var af C 9. febrúar 1999, að hann hafi mjög oft sagt henni að fara inn á salerni og hafa þvaglát í glas og að hún hafi orðið við því. Hann hafi tvisvar til þrisvar sinnum sagt henni að hafa saurlát í glas og hún hafi orðið við því. Hann hafi síðan tekið glasið og skoðað innihaldið. Ákærði kvaðst aldrei hafa beðið hana að hafa saurlát í glas. Aftur á móti gæti verið að hann hafi látið hana hafa þvaglát í glas og skoðað innihaldið.
Ákærða var kynnt að í skýrslunni sem tekin var af C 9. febrúar 1999 kæmi fram að hann hafi farið með hana í herbergi fyrir framan salernin í mötuneyti skólans. Hann hafi sest á gólfið og látið hana setjast ofan á sig. Þau hafi verið í fötum, en hann hafi haldið um mitti hennar. Þá hafi hann lyft henni upp og hann hreyft sig eins og þau væru að hafa samfarir. Ákærði kvaðst ekki kannast við þetta. Hann myndi þó eftir því að þegar hann var 17 ára hafi hann verið í gömlu félagsmiðstöðinni. Hann hafi verið að lesa blað og orðið þess var að dyrnar opnuðust varlega. Þá hafi blaðinu allt í einu verið þrýst að andliti hans og hafi C verið þar komin. Hún hafi sest klofvega yfir hann og hossað sér ofan á honum. Kvaðst hann hafa lyft henni ofan af sér og látið yfirmann sinn vita af þessu.
Ákærða var kynnt að forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar hefði greint frá því að hann hafi séð þau C koma upp stigann í mötuneytinu. Þau hafi sagt að þau hefðu verið að tala saman. Einnig hafi forstöðumaðurinn tekið eftir að þau C lokuðu oft að sér inni á skrifstofu. Ákærði kvaðst nokkrum sinnum hafa lokað að sér inni á skrifstofu með C og taldi að þau hafi verið að ræða um mynd sem þau ætluðu að taka upp.
Ákærði var aftur yfirheyrður 18. mars 1999. Er hann var spurður hvort hann hefði einhverju við fyrri framburð að bæta kvaðst hann ekkert frekar hafa fram að færa í málinu. Ákærði tók fram að C hefði komið í heimsókn til hans í [...] ásamt tveimur öðrum stúlkum í ágúst 1998 og hafi móðir hans verið stödd þar þegar þær komu. Þær hafi komið til að skoða barn hans og C hafi langað til að halda á barninu.
Ákærða var kynnt fram komin bótakrafa á hendur honum og hann beðinn að skýra frá afstöðu sinni til hennar. Hann kvaðst alfarið hafna þessari bótakröfu.
Við aðalmeðferð málsins var ákærði fyrst spurður hvort hann kannaðist við að hafa á árinu 1994 fengið C, þá tíu ára, til að setjast ofan á sig þar sem hann sat á gólfinu á karlasalerni skólans, þau bæði verið fullklædd, hann haldið um mitti hennar og hreyft sig eins og þau væru að hafa samfarir. Ákærði neitaði því. Hann var spurður hvort þessi atburður, sem þarna væri lýst, gæti hafa gerst einhvers staðar annars staðar. Ákærði kvað svo ekki vera.
Ákærði var spurður hvort hann kannaðist við að hafa, þegar C var tólf eða þrettán ára, látið hana setjast í fang sér og strokið henni fyrir borgun í bifreið hans á afskekktum stað fyrir utan [...]. Hann kvað þetta vera rétt að öllu leyti nema því að hann hafi ekki strokið henni. Ákærða var bent á að í þinghaldi 3. nóvember sl. hafi hann viðurkennt að hafa strokið henni. Hann kvað C hafa setið í fangi sér í nokkrar sekúndur þar til hann áttaði sig á því að þetta var ekki rétt og hann hafi beðið hana að færa sig yfir í hitt sætið. Ákærði kvaðst ekki hafa borgað henni fyrir þetta, en hann hafi beðið hana afsökunar. Hins vegar hafi hann boðið henni borgun fyrir þetta.
Ákærði var spurður hvort hann kannaðist við að hafa oftsinnis á árinu 1996 látið C hafa þvag- og saurlát í baðker og glös á salerni skólans og síðan skoðað þvag hennar og hægðir og borgað henni fé fyrir. Hann kvaðst hafa beðið hana að hafa þvaglát í glös og baðker, en ekki saurlát. Þá væri það rétt að hann hafi greitt henni fyrir. Aðspurður kvað ákærði baðkerið vera í félagsmiðstöðinni. Þetta hafi ekki gerst í sjálfum skólanum. Kvað ákærði þetta hafa gerst nokkrum sinnum. Aðspurður um greiðslur kvað ákærði sig minna að þær hafi verið á bilinu 100 til 300 krónur.
Ákærði var spurður hvort hann kannaðist við að hafa greitt C fé fyrir að segja ekki frá því sem hann hafði gert við hana. Ákærði kvað það ekki vera rétt. Aðspurður hvort hann hafi bannað henni að segja frá þessu sagði ákærði að hann hafi beðið hana að segja ekki frá, en hann hafi hvorki verið strangur við hana né borgað henni fé fyrir það.
Við aðalmeðferð málsins var vitnið C fyrst spurð hvort hún gæti skýrt frá þeim atvikum sem hún myndi eftir. Vitnið kvaðst fyrst vilja skýra frá atvikinu varðandi bílinn. Hún kvað það hafa gerst fyrir utan [...] í bifreið ákærða. Aðspurð kvað hún það hafa verið um kvöld og þau hafi verið tvö ein í bílnum. Hún var spurð hvort hún vissi hvers vegna þau hefðu farið þangað. Vitnið kvað ákærða hafa verið að aka henni heim. Aðspurð hvað hafi gerst sagði vitnið að ákærði hafi viljað að hún settist ofan á hann og hún hafi orðið við því. Kvað hún ákærða hafa setið undir stýri. Vitnið kvaðst einungis muna að ákærði hafi beðið hana að setjast ofan á hann. Þá myndi hún að hann hafi borgað henni fyrir að segja ekki frá þessu og hafi það verið 500 krónur. Er vitnið var spurð hvað hafi gerst eftir að ákærði hafði beðið hana að setjast ofan á sig kvaðst hún hafa setið ofan á honum í eina til fimm mínútur. Aðspurð hvort ákærði hafi gert eitthvað meira, t.d. að koma við hana, sagði vitnið að hann hafi einungis haldið á henni. Er vitnið var spurð hvort hún myndi hvernig hún hefði snúið að ákærða þegar hann sat undir henni kvaðst hún hafa setið á hlið við hann. Aðspurð kvaðst hún ekki muna hvort ákærði sagði eitthvað. Sömuleiðis myndi hún ekki hvort hann hafi komið við hana. Vitnið kvaðst halda að þetta hafi verið um tveimur árum áður en hún fermdist. Henni var gerð grein fyrir að ákærði væri einnig ákærður fyrir að hafa strokið henni greint sinn. Aðspurð sagði vitnið að ákærði hefði strokið henni.
Vitnið greindi því næst frá atviki á salerni í mötuneyti skólans. Hún kvaðst halda að hún hafi þá verið átta eða níu ára gömul. Kvað hún það hafa gerst á karlasalerninu og sagði að þau hafi verið þar tvö ein. Hún sagði aðspurð að salernið væri niðri. Aðspurð hvort hún myndi hvernig á því stæði að hún hafi verið þar sagði vitnið að þau hafi farið saman niður. Vitnið var spurð hvort hún gæti greint frá því sem gerðist þar. Hún kvað ákærða hafa sýnt henni hvernig ætti að hafa samfarir. Aðspurð hvernig hann hafi gert það sagði vitnið að ákærði hafi beygt sig og hún hafi sest á læri hans. Þau hafi bæði verið í fötum. Ákærði hafi látið hana hreyfa sig þar sem hún sat á lærum hans. Einnig hafi hann útskýrt fyrir henni hvernig ætti að hafa samfarir, en hún myndi ekki hvað hann sagði í því sambandi. Sagði vitnið að ákærði hafi verið að sýna henni hvernig konur verða ófrískar. Vitnið kvaðst ekki muna til að ákærði hafi látið hana hafa fé fyrir í þetta skipti.
Vitnið var spurð hvort hún gæti greint frá þeim atvikum sem vörðuðu það sakarefni að ákærði hafi beðið hana hafa þvaglát í baðker á salerni. Aðspurð sagði vitnið að ákærði hafi beðið hana að koma á salernið, en aðeins væri um eitt salerni að ræða. Kvað hún þetta hafa verið í félagsmiðstöðinni og aðspurð sagði hún að hún hafi verið á aldursbilinu níu til þrettán ára. Sagði vitnið aðspurð að þetta hafi gerst oft. Ákærði hafi beðið hana að koma með sér á salernið í félagsmiðstöðinni og beðið hana að pissa í baðkerið í nokkur skipti. Kvað hún ákærða hafa borgað henni fyrir þetta. Að jafnaði hafi hann borgað henni 300 krónur fyrir þetta. Vitnið var spurð hvað hún héldi að þetta hafi gerst oft. Hún kvað það hafa gerst í mörg skipti og nefndi sjö sinnum í því sambandi. Aðspurð hvenær þetta hætti sagði vitnið að það hafi gerst þegar ákærði hætti að vinna í félagsmiðstöðinni, þ.e. árið sem hún varð 14 ára. Kvað hún þetta hafa gerst oftar en einu sinni á því ári. Vitnið sagði að auk þess að láta hana hafa þvaglát í baðkerið hafi ákærði látið hana hafa þvaglát í glös sem hafi verið til staðar á salerninu. Vitninu var kynnt að ákærði væri einnig ákærður fyrir að hafa látið hana hafa saurlát í baðker og glös. Hún kvað ákærða hafa látið hana hafa saurlát í glös og sagði að það hafi hann látið hana gera oftar en einu sinni. Aðspurð sagði vitnið að ákærði hafi ekki látið hana gera hvorttveggja í sama skiptið. Eftir nokkur skipti í baðkerið hafi hann látið hana gera það í glös. Aðspurð hvort hún myndi hvenær hann hafi hætt að láta hana hafa saurlát í glösin sagði vitnið að það hafi verið allt þar til hann hætti störfum. Vitnið var spurð hvort hún myndi hvað ákærði gerði við innihaldið í glösunum. Vitnið svaraði ekki spurningunni. Henni var þá kynnt að ákærði væri einnig ákærður fyrir að hafa skoðað þvag hennar og hægðir. Hún kvaðst ekki vita hvort hann hafi gert það, en bætti síðan við að það gæti verið að hann hafi gert það ef hann hafi fengið glösin. Tók vitnið skýrt fram að þetta hafi alltaf átt sér stað á salerni í félagsmiðstöð skólans.
Vitnið var beðin að skýra frá því þegar hún og B töluðu við O kennara og sögðu henni frá áreitni ákærða. Vitnið sagði að þær hefðu sagt O að þær hefðu orðið fyrir áreitni, en þær hafi ekki sagt að það hefði verið ákærði.
Móðir C, P, kom fyrir dóminn. Vitnið var fyrst spurð hvenær hún hafi fyrst fengið vitneskju um háttsemi ákærða gagnvart C. Hún kvað það hafa verið í nóvember 1998, þegar skólastjóri og yfirkennari [...]skóla boðuðu hana á fund. C hafi ekki minnst á þetta við hana. Vitnið kvaðst þó hafa vitað að eitthvað var að því C hafi liðið mjög illa, en hún hafi ekki getað fengið það upp úr henni hvað amaði að. Aðspurð hvort það hafi verið merkjanlegt á einhverju tilteknu tímabili sem C leið illa sagði vitnið að henni hefði liðið mjög illa þetta haust. Hún hafi einangrað sig, lokað sig inni í herbergi, hvorki talað við einn né neinn, hætt að borða og grennst mikið. Kvaðst vitnið hafa séð að það var greinilega eitthvað að og hún hafi reynt að ná sambandi við C, en hún hafi ekki viljað tjá sig. Aðspurð hvort þær hafi rætt eitthvað um þetta eftir að búið var að segja vitninu frá þessu sagði vitnið að vitaskuld hafi hún viljað tala við hana, en C hafi ekki verið tilbúin til þess. Aðspurð hvort henni hafi fundist líðan C breytast eftir að málið kom upp sagði vitnið að henni hafi liðið mjög illa og það hafi endað með því að hún hafi farið með hana til Jóns Kristinssonar barnalæknis. C hafi fengið hjá honum kvíðastillandi lyf og lystaukandi lyf. C hafi nánast verið vakandi allan sólarhringinn og svo sofið einhverja dúra. Vitnið kvað sér vera kunnugt um að C hafi átt mjög erfitt með að tjá sig um málið þegar það var til rannsóknar hjá lögreglu. Er vitnið var spurð hvernig hún myndi lýsa líðan C á þessu tímabili fram til dagsins í dag sagði vitnið að líðan hennar í dag væri allt önnur. Hún kvað C hafa liðið mjög illa í skólanum þar sem þessir atburðir gerðust og hafi það endað með því að hún tók hana úr skólanum um páskana 1999. C væri komin í annan skóla og smátt og smátt hafi hún náð að jafna sig á þessu. Henni líði miklu betur í dag, en þó komi erfið tímabil hjá henni. Aðspurð kvað vitnið C ekki hafa rætt þetta mál við hana. Hún vildi ekki ræða það.
Vitnið var spurð um nám C undanfarin tvö til þrjú ár. Hún kvað nám C hafa gengið mjög brösótt meðan hún var í [...]skóla. Henni hafi liðið mjög illa í skólanum og kvaðst vitnið hafa verið í stöðugum samskiptum við skólann út af því. C hafi alltaf komið mjög hress í skólann á haustin, en um jólaleytið hafi allt verið komið í vitleysu. Henni hafi þá liðið illa, hún hafi ekki getað einbeitt sér og allt hafi verið mjög erfitt. Kvaðst vitnið líta á þetta tímabil sem erfiðleikatímabil. Hún gæti ekki sagt nákvæmlega til um hvenær það hófst, en hún gæti sagt að um páskana 1999 hafi þetta farið að lagast. Vitnið kvað C vera félagslega miklu sterkari frá því hún skipti um skóla og hún hefði eignast marga vini. C fái að vísu ekki eins mikla túlkun og í [...]skóla, en vitnið kvaðst hafa séð fram á að hún yrði að gera þetta. Hún hafi fært hana aftur um eitt ár þannig að nú sé hún ári á eftir jafnöldrum sínum. Henni gangi vel í stærðfræði, íslenskan gangi þokkalega, danskan gangi ekki upp, enskan gangi upp vegna þess að hún fái sérkennslu í þeirri grein og einnig íslensku. Önnur fög gangi sæmilega.
R, félagsráðgjafi við [...]skóla, kom fyrir dóminn. Vitnið var fyrst beðin að greina frá því hvenær hún fékk vitneskju um málið. Hún kvaðst hafa fengið að vita þetta í nóvember 1998. Það hafi borið þannig að að aðstoðarskólastjórinn, K, hafi kallað vitnið á sinn fund og skýrt henni frá því að tvær stúlkur í skólanum, C og B, hefðu komið á fund kennara að nafni S og greint frá því að ákærði hefði verið með kynferðislega tilburði við þær. Vitnið kvað hvoruga þessara stúlkna hafa talað við sig áður.
Vitnið var beðin að greina frá samskiptum sínum og C. Vitnið sagði að eftir að C sagði S frá þessu hafi þær vísað C á Stígamót og hún hafi ákveðið að hún myndi eiga þetta við Stígamót, en hún hafi ekki viljað ræða þessi mál við vitnið. Vitnið kvaðst geta lýst því að í skólanum hafi þau haft mjög miklar áhyggjur af C veturinn áður og einnig þennan vetur. Hún hafi sýnt ýmis undarleg eða alvarleg einkenni. C hafi virst vera mjög þunglynd, hún hafi verið mjög döpur, hún hafi hætt að borða og grennst mikið. Þá hafi hún lent í útistöðum við aðrar stúlkur í skólanum og þau hafi haft miklar áhyggjur af henni og velt því fyrir sér hvað væri að. Hafi þeim dottið í hug að jafnvel væri um kynferðislegt ofbeldi að ræða. Aðspurð hvort nemendur kæmu að eigin frumkvæði til vitnisins sem félagsráðgjafa sagði vitnið að það væri allur gangur á því hvort það væru foreldrar, nemendur, kennarar eða skólastjórnendur sem kæmu til hennar, en hún gengi þá inn í þau mál sem þyrfti að leysa. Í tilviki C hafi hún verið í miklu samstarfi við kennara hennar T. Þær hafi verið með ýmsar aðgerðir, svo sem að reyna að styrkja stúlknahópinn. Þær hafi verið með námsefni sem bæri heitið að ná tökum á tilverunni, en hún hafi ekki verið í beinum samskiptum við C.
Vitnið var spurð hvenær hún hafi orðið vör við eða hvenær henni hafi borist vitneskja um að C ætti erfitt. Spurt væri í ljósi þess að rætt væri um að þetta hafi gerst á árinu 1994, en vitnið hafi hafið störf við skólann á árinu 1997. Vitnið kvaðst hafa orðið vör við það mjög fljótlega eftir að hún hóf störf við skólann að það voru erfiðleikar tengdir henni. Unnið hafi verið mikið með hennar bekk þann vetur. Vitnið var spurð hvort hún myndi nánar hvenær þessir erfiðleikar sem vitnið lýsti í lögregluskýrslu komu upp hjá henni. Vitnið kvaðst ekki muna það með neinni nákvæmni. Henni fyndist að það hafi verið mjög fljótlega eftir að hún hóf störf í september 1997. Þá hafi mál C komið inn á borð til vitnisins. Vanlíðan C hafi verið nefnd í því sambandi. Aðspurð hvort ekkert hafi komið fram um af hverju það gæti hafa stafað svaraði vitnið neitandi. Hins vegar hafi verið grunsemdir hjá þeim um að það væri eitthvað í þessa veru, en þau hafi ekki fengið neina staðfestingu á því.
T kennari kom fyrir dóminn. Hún var fyrst beðin að greina frá störfum sínum í [...]skóla. Vitnið kvaðst hafa starfað við skólann frá haustinu 1979, en hún hafi farið í leyfi haustið 1998 sem hún væri í enn. Hún hafi því ekki starfað við skólann þegar mál þetta kom upp. Vitnið kvaðst hafa verið umsjónarkennari C sennilega síðustu þrjú eða fjögur árin áður en hún fór í leyfið. Aftur á móti þekki hún C frá því hún kom fjögurra ára gömul í skólann. Smæð skólans sé slík að kennararnir þekki alla nemendur mjög vel, en þó misjafnlega vel. Vitnið kvaðst einnig hafa kennt B mjög mikið og þekkti hana vel. Vitnið var spurð hvort það hafi eitthvað verið í fari C eða hvort eitthvað sem hún sagði vitninu hafi getað vakið grunsemdir um að hún hefði orðið fyrir einhverjum áföllum. Vitnið kvaðst telja að C hefði orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi áður. Öll hegðun hennar hafi sýnt merki þess að hún hafi verið beitt einhverju sem vitnið kvaðst hafa haft grun um, en það tengdist ekki þessu máli. Hins vegar hafi hegðun C breyst mjög mikið. C væri að mörgu leyti sérstakur nemandi. Hún hafi haft mörg hegðunareinkenni, hún hafi átt við erfiðleika að etja í sambandi við einbeitingu og ýmis kvíðamerki hafi komið upp. Vitnið sagði að þegar þetta tilgreinda atvik, sem hún væri að vísa til, gerðist, sem væri fyrir 1994, hafi hún fengið frá C í vinnuna, pappíra þar sem hún var að lýsa atferli sem vitninu hafi fundist mjög grunsamlegt og tengst hafi einhverju kynferðislegu. Sjálf kvaðst vitnið hafa gengið svo hreint til verks að hún hafi sýnt móður C þetta og farið með þetta til sálfræðings skólans og sagt við yfirvöld skólans að hún vildi ekki sitja undir þessu ein. Þá hafi verið talið að ekki væri hægt að gera neitt í málinu. Þetta væru ekki nægar sannanir og ekkert hafi verið aðhafst í málinu. Hegðun stúlkunnar hafi samt alltaf verið svolítið undarleg. Síðan hafi hegðun hennar versnað, en vitnið kvaðst ekki hafa vitað af hverju það stafaði. Ýmsar tilgátur hafi þó verið um það. Vitnið kvaðst hafa fundið að það var mjög mikið undir niðri sem hún hafi ekki vitað hvað var. Sérstaklega síðasta veturinn sem vitnið kenndi við skólann, skólaárið 1997 til 1998. Sagði vitnið að C hafi oft liðið mjög illa, en hún hafi aldrei sagt vitninu hvað að var. Vitnið sagði að þennan vetur hafi hún kennt námsefni sem væri kallað Lions Quest og væri forvarnarnámsefni hugsað sem námsefni í vímuefna- og áfengismálum og væri sjálfstyrkingarefni. Í þessu námsefni væru mjög miklar umræður um lífið og tilveruna og tilfinningabundin mál. Margt hafi komið upp í þeim kennslustundum, en aldrei neitt sem tengst hafi kynferðislegu ofbeldi. Hins vegar kvað vitnið sér oft hafa fundist C hafa haft undarlega mikinn áhuga á öllu sem tengdist kynlífi. Kvaðst vitnið hafa spurt sig hvers vegna svo ungt barn hefði svo mikinn áhuga á því. Vitnið kvað þetta hafa verið eina vísbendingu um að C hafi búið yfir einhverri reynslu sem vitnið kvaðst ekki hafa vitað hver var, aðeins haft grun um, en tengdist einhverju á kynferðissviðinu. Þá kvað vitnið það vera tilgátu sína að þegar C lenti í einhverju aftur hafi þessi fyrri reynsla hennar orðið ný upplifun þannig að hin nýja reynsla ofan á fyrri reynslu hafi orðið mjög erfið. Kvaðst vitnið halda að þess vegna hafi hún brugðist svo illa við. Henni hafi liðið illa þennan seinasta vetur sem vitnið kenndi henni. Líðan hennar hafi verið áberandi slæm, en vitnið hafi haft þokkalegan trúnað hennar þennan vetur. Nefndi vitnið sem dæmi að í kennslustund hafi C rokið grátandi á dyr. Kvaðst vitnið hafa séð að henni leið mjög illa. Hún hafi farið inn á salerni og læst sig þar inni. Kvaðst vitnið hafa leyft henni að gera það, en farið fram og beðið svolítið. Hún hafi svo komið út af salerninu og þær hafi rætt saman. Þá hafi C sagt vitninu leyndarmál sem tengist ekki þessu máli, en segði til um trúnaðartraustið. Ef til vill hafi þetta verið yfirskin hjá henni og eitthvað meira hafi verið undirliggjandi. Vitnið sagði að þessi reynsla sín hafi orðið til þess að hún sótti námskeið í Háskólanum sl. vetur sem héti ofbeldi í fjölskyldum. Eitt af verkefnunum hafi verið að skrifa ritgerð og kvaðst vitnið hafa ákveðið að nota tækifærið til að skrifa og kynna sér betur kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum. Kvaðst vitnið hafa séð það í þessum fræðum, bæði í bandarískum og norrænum rannsóknum, að mörg þeirra einkenna sem C sýndi í hegðun hafi borið merki um að hún hefði orðið fyrir slíkri reynslu eða hefði slíka reynslu. Hún hafi aðeins haft við að styðjast vitneskju sína um líðan eða vanlíðan C sem hún hafi getað heimfært upp á þetta. Sagði vitnið að hún hafi aldrei rætt þetta, heldur hafi þetta aðeins verið grunur vitnisins, m.a. vegna fyrri reynslu C er hún var yngri. Sagði vitnið að hún hefði aldrei haft grun um að ákærði ætti hlut að máli. Sú uppljóstrun hafi því komið vitninu mjög á óvart á sínum tíma.
Vitnið var spurð hvort C hafi sagt henni í smáatriðum frá leyndarmálinu sem C trúði vitninu fyrir. Vitnið kvað hana hafa sagt sér hvað það var og beðið hana að segja ekki frá því, ekki einu sinni móður hennar. Þann trúnað kvaðst vitnið hafa virt. Vitnið tók fram að þessi umræddi trúnaður vitnisins snerti ekki fyrri reynslu C. C hafi aldrei skýrt vitninu frá fyrri reynslu sinni.
Vitnið skýrði frá því að hún hafi fengið frá C það sem kalla mætti ritgerð þar sem hún lýsti reynslu og atburði sem vitnið kvað sér hafa fundist mjög undarleg. Tók vitnið fram að þetta tengdist ekki beint þessu máli, en þó væri samhengi í því í tilviki C. Það sem C segði í þessu plaggi væri á þá leið að hún hafi verið úti að leika sér. Þá hafi komið til hennar maður og boðið henni upp í bifreið. Hún hafi farið með manninum og hann hafi gert eitthvað illt við hana. Vitnið sagði að þegar hún fengi svona frá barni hugsaði hún hvað lægi að baki. Kvaðst vitnið hafa gengið hreint til verks og sýnt móður C þetta. Kvaðst vitnið hafa viljað að móðir C vissi að þetta hefði komið fram hjá barninu. Stundum væri það þannig að börn segðu kennurum sínum ýmislegt sem þeir segðu foreldrunum ekki. Aðspurð sagði vitnið að hægt væri að tímasetja þessa ritgerð. Sagði vitnið að liðið hafi nokkur ár milli þess máls sem hér er til umfjöllunar og fyrrnefnds atburðar í lífi C. Vitnið var spurð hvort verið væri að ræða um þrjá atburði. Vitnið sagði að það sem hún sagði um að C hefði beðið hana að segja engum frá mætti gleyma í þessu samhengi. Kvaðst vitnið einungis hafa notað það dæmi til að sýna trúnaðinn sem C sýndi vitninu því það tengdist ekki þessu máli. Þarna hafi verið grunur um að stúlkan hefði orðið fyrir þessari reynslu fyrir sjö árum.
Vitnið var spurð hvort það væri rétt skilið að þetta leyndarmál sem C sagði vitninu frá tengdist ekki kynferðislegum þáttum. Vitnið kvað það vera réttan skilning. Hún hafi einungis notað það til að sýna að samband þeirra hafi verið þannig að C hafi getað treyst vitninu fyrir þessu máli. Hún hafi beðið vitnið að segja ekki frá því og hún hafi ákveðið að það traust sem C sýndi vitninu hafi hún viljað virða.
Jón R. Kristinsson barnalæknir kom fyrir dóminn. Vitnið var fyrst spurður hvort leitað hefði verið til hans sem læknis með C eftir að mál þetta kom upp. Vitnið staðfesti að svo hafi verið. Hann kvaðst hafa verið trúnaðarlæknir [...]skóla frá árinu 1981. Eðli málsins samkvæmt þekkti hann því lítið eitt til C eins og annarra nemenda við skólann. Aðspurður hvort C hafi verið til einhverrar meðferðar hjá honum á tímabilinu 1994 til 1998 sagði vitnið að það hafi hún verið. Hann kvað C vera viðkvæma stúlku og næma. Hann var spurður hvort hún hafi hlotið einhverja meðferð sem hann gæti greint frá í hverju fólst. Vitnið sagði að ef hann myndi rétt hafi hún fengið lyf ekki alls fyrir löngu. Hve langt væri síðan myndi hann ekki. Vitnið sagði að þau hafi rætt það, hann og móðir hennar. C hafi liðið mjög illa, hún hafi verið mjög kvíðin og mikil spenna hafi verið í henni. Hafi þau því ákveðið að reyna lyfjameðferð. Vitnið kvað sig minna að það hafi verið á árinu 1999 sem þau ákváðu að setja hana í lyfjameðferð. Hann kvaðst ekki geta fullyrt hvort C var þá enn í [...]skóla. Vitnið kvað þetta hafa verið kvíðastillandi lyf. Segja mætti að þetta hafi verið lyfjameðferð við þunglyndi og þráhyggju. Meðferðin hafi verið í því fólgin að létta því ástandi sem C var í. Hún hafi átt mjög auðveldlega orðið kvíðin og e.t.v. verið svolítið inn í sig og hrædd. Vitnið sagði að það væri svo með þá einstaklinga sem byggju við þessa fötlun að það ylli þeim enn meiri vanlíðan að vanta það skyn sem heyrnin væri. Aðspurður sagði vitnið C aldrei hafa skýrt honum frá því hvað hafði hent hana. Í ljósi þess að það muni hafa verið á árinu 1999 sem leitað hafi verið til hans vegna þess að C var haldin kvíða og henni voru gefin lyf til þess að koma henni út úr því var vitnið spurður hvort hann myndi eftir einhverju fyrir þann tíma. Vitnið kvaðst ekki muna til að þau hafi rætt lyfjameðferð þá, en talsvert fyrr, e.t.v. einum til tveimur árum áður, hafi verið mikil vandræði hjá C að því leyti til að bæði hafi hún átt erfitt með svefn og einnig hafi hún verið lystarlítil. Það hafi verið viss hræðsla á þessum árum um að hún væri að fá einkenni lystarstols. Hún hafi borðað mjög illa. Vitnið sagði að C hafi þá komið til hans, en hún hafi í raun ekki haft þau einkenni sem stúlkur með lystarstol hafa. Sagði vitnið aðspurður að hún hafi fengið lyf. Aðspurður hvort það hafi tengst við aðrar upplýsingar sem gætu hafa valdið þessu sagði vitnið að hann hafi þá hvorki haft grun né hugmynd um að slíkt væri í gangi. Vitnið var spurður hvort verið gæti að þessi kvíði og þessar áhyggjur hennar kynnu á einhvern hátt að stafa af því að hún hafi þurft að ganga í gegnum umfjöllun á því máli sem upp kom í lok árs 1998. Vitnið kvað það vel geta verið. Hann gæti alls ekki útilokað það.
IV.
Þann 3. febrúar 1999 gaf D skýrslu hjá rannsóknardeild lögreglunnar í [...]. Vitnið sagði að þegar hún var á aldrinum 15 til 17 ára hafi ákærði unnið í félagsmiðstöðinni. Vitnið skýrði frá því að þegar hún var 15 ára hafi hún ásamt C verið í félagsmiðstöðinni og klukkan hafi verið fimm. Kvaðst hún hafa farið inn á skrifstofu til ákærða og séð að hann lá á hliðinni á skrifborðinu. Vitnið kvaðst hafa sagt við ákærða að það væri sóðalegt að liggja uppi á borði því hann væri í skóm. Ákærði hafi þá spurt hana hvort hann mætti koma við brjóstin á henni. Vitnið kvaðst hafa sagt að það mætti hann alls ekki. Hún kvaðst hafa sagt ákærða að henni fyndist ógeðslegt þegar hann kæmi við hana. Ákærði hafi þá sagt að hann vildi bara koma við hana.
Vitnið sagði að C hafi séð þegar ákærði lá á borðinu. Kvaðst vitnið hafa setið hjá ákærða og hann hafi sagt henni ljóta sögu um mann og konu í samförum. Auk þess hafi hann talað um lim sinn, um sæði og hvernig limur lengist og verður harður. Ákærði hafi einnig sagt að þegar limurinn væri orðinn harður væri hægt að hafa samfarir. Vitnið sagði að C hafi kíkt inn í herbergið er ákærði var að tala við hana. Vitnið kvað móður stúlku að nafni U hafa komið og séð þegar ákærði lá á borðinu, en hún hafi verið að leita að U. Sagði vitnið ákærða hafi brugðið mjög og farið fljótlega. Aðspurð um borðið kvaðst vitnið halda að ákærði hefði legið á skrifborðinu, en kvaðst ekki vera alveg viss. Ef til vill hafi hann legið uppi á leikjaborði.
Vitnið skýrði og frá því að seinna, þegar hún var stödd í félagsmiðstöðinni, og hún hallaði sér í sófa í stofunni hafi ákærði komið og sest ofan á hana. Kvað hún ákærða hafa spurt hana hvort hann mætti koma við brjóstin á henni. Vitnið kvaðst hafa svarað því neitandi. Hann mætti ekki koma við brjóst hennar. Aðspurð kvaðst vitnið hafa verið 16 eða 17 ára þegar ákærði settist ofan á hana. Vitnið sagði að þegar ákærði settist ofan á hana hafi hann verið búinn að draga fyrir gluggann, en þrjár stelpur sem voru fyrir utan hafi séð það ógreinilega þegar hann settist ofan á hana.
Vitnið nefndi að ákærði hafi eftir þetta tvívegis sest ofan á hana. Í bæði skiptin hafi hún legið í sófa frammi á gangi í félagsmiðstöðinni. Í bæði skiptin hafi henni brugðið og hún hafi beðið hann að hætta þessu.
Vitnið sagði að í öll skiptin hefði ákærði komið við brjóst hennar og í öll skiptin hafi hún beðið ákærða að hætta þessu.
Vitnið nefndi að þegar hún var 16 eða 17 ára hefði ákærði verið inni í eldhúsi. Ákærði hafi haldið á stórum hnífi og verið að skera eitthvað. Vitnið kvaðst hafa beðið hann að leggja frá sér hnífinn meðan hún ræddi við hann. Ákærði hafi farið á salernið, en þegar hann kom til baka hafi hann verið með opna buxnaklauf. Vitnið kvaðst hafa beðið ákærða að renna upp buxnaklaufinni, en þá hafi hann ýtt buxunum neðar þannig að hún hafi séð meira og meira þar til hún sá á honum allan liminn. Vitnið kvaðst hafa sagt ákærða að hætta þessu og renna upp buxnaklaufinni. Ákærði hafi þá sagt við hana að hún mætti ekki segja frá þessu.
Vitnið sagði að eitt sinn þegar hún og C voru einar í félagsmiðstöðinni og voru að tala saman hafi ákærði látið þær horfa á klámmynd. Vitnið sagði að þær hafi hætt að horfa eftir smástund og litið undan, en þá hafi ákærði skipað þeim að horfa. Kvað hún þessa mynd hafa verið bannaða börnum. C hafi aðeins verið ellefu eða tólf ára gömul, en sjálf hafi hún verið sextán ára.
Ákærði gaf skýrslu hjá rannsóknardeild lögreglunnar í [...] 25. febrúar 1999. Eftir að honum hafði verið kynnt kæruefnið var hann spurður hvort hann vildi tjá sig sjálfstætt um fram komna kæru. Ákærði greindi þá frá því að kvöld eitt hafi verið haldinn dansleikur í félagsmiðstöðinni. Hafi hann setið inni á skrifstofu í félagsmiðstöðinni þegar inn til hans hafi komið piltur og sagt að hann þyldi D ekki og nefnt ástæðu þess. Pilturinn hafi beðið ákærða að koma fram og skamma hana. Ákærði kvaðst hafa farið fram og beðið D að koma með sér. Þau hafi farið inn í herbergi þar sem leikföng voru geymd, en eitthvað af krökkum hafi verið á skrifstofunni. Einhver hafi spurt hann hvert hann væri að fara með D, en hann hafi sagt þeim að hann ætlaði að skamma hana. Þau hafi farið inn í herbergið og hann hafi spurt hana hvað hún hafi verið að gera. Hún hafi hlegið að honum og sagt honum hvað hún hafði verið að gera. Hann hafi sagt henni að hún ætti ekki að gera þetta. Skyndilega hafi dyrnar opnast og einhver hafi slökkt ljósin. Hann hafi ætlað að kveikja aftur, en einhver stúlknanna hafi opnað og spurt hvað hann væri að gera þarna í myrkrinu. Þau hafi síðan farið fram og þá hafi krakkarnir spurt þau hvort þau væru að reyna hvort við annað. Hann hafi sagt þeim að hætta þessu og kvaðst hafa sagt að hann hefði bara verið að skamma hana.
Ákærða var kynnt að D hefði greint frá því í skýrslu 3. febrúar 1999 að þegar hún var 15 ára hafi hún komið að ákærða í félagsmiðstöðinni þar sem hann lá uppi á borði. Hann hafi spurt hana hvort hann mætti koma við brjóst hennar, en hún neitað því. Í skýrslunni greindi hún einnig frá því að hann hafi sagt henni sögu af manni og konu í samförum. Hann hafi einnig talað um lim sinn, um sæði og hvernig limur lengist og verður harður. Hann hafi sagt að þegar limurinn væri orðinn harður væri hægt að hafa samfarir. D hafi einnig greint frá því að móðir stúlku að nafni U hefði séð hann liggja uppi á borðinu. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessu.
Ákærða var kynnt að móðir U hefði greint frá því að hún hefði komið að honum og D í félagsmiðstöðinni. Hann hafi legið uppi á borði, en D hafi staðið á gólfinu við hlið hans og grúft höfuðið að klofi hans. Þeim hafi brugðið þegar þau urðu hennar vör. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessu.
Þá var ákærða kynnt að D hefði greint frá því að einhvern tíma er hún var í félagsmiðstöðinni hafi hann komið og sest ofan á hana þar sem hún lá í sófa. Hann hafi spurt hana hvort hann mætti koma við brjóst hennar. Hann hafi verið búinn að draga fyrir gluggann og aðspurð hafi hún talið að hún hafi verið 16 eða 17 ára þegar þetta átti sér stað. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessu og kvaðst halda að hann hefði ekki gert þetta.
Ákærða var kynnt að D hafi greint frá því að hann hafi komið við brjóst hennar í öll framangreind skipti og hún hefði alltaf beðið hann að hætta. Ákærði kvaðst ekki muna eftir því að hafa komið við brjóst hennar.
Þá var ákærða kynnt að D hafi skýrt frá því að eitt sinn hefði hún séð ákærða inni í eldhúsi vera að skera eitthvað með hnífi. Hann hafi svo farið inn á salerni og þegar hann kom til baka hafi hann verið með opna buxnaklauf. Hún hafi beðið hann að renna upp buxnaklaufinni, en þá hafi ákærði ýtt buxunum neðar þannig að hún sá meira og meira þar til hún sá allan getnaðarlim hans. Hún hafi sagt honum að hætta, en hann hefði sagt henni að hún mætti ekki segja frá þessu. Ákærði kvaðst ekki hafa gert þetta.
Ákærða var kynnt að D hefði greint frá því að eitt sinn hafi hann látið þær C horfa á klámmynd og þegar þær litu undan hafi hann skipað þeim að horfa á. D hefði verið sextán ára, en C ellefu eða tólf ára gömul. Ákærði kvaðst ekki hafa gert þetta.
Ákærði kvaðst vilja bæta því við að vel gæti verið að hann hafi legið uppi á borðinu sem D greindi frá, en hann hafi ekki sagt það sem hún bæri á hann. Ákærði kvaðst heldur ekki muna eftir því að móðir stúlkunnar U hafi komið að honum og D. Þá kvaðst hann aldrei hafa snert brjóst D.
Þann 20. apríl 1999 var ákærða birt bótakrafa D. Eftir að hafa kynnt sér kröfuna kvaðst hann hafna henni.
Við aðalmeðferð málsins var ákærði fyrst spurður hvort hann kannaðist við að hafa á árunum 1994 til 1996 ítrekað snert brjóst D í félagsmiðstöð skólans. Ákærði neitaði því og hnykkti á með því að segja að þetta væri ekki rétt. Hann var spurður hvort eitthvað hafi gerst sem stúlkan gæti hafa misskilið í þessum efnum, t.d. að þau hafi verið að gantast þannig að hann gæti hafa snert brjóst hennar óvart. Ákærði kvaðst ekki vita til þess. Hann var þá spurður hvort hann kannaðist við að hafa legið uppi á borði í félagsmiðstöðinni og að D hafi þá verið hjá honum og grúft sig ofan í klof hans. Jafnframt var hann spurður hvort hann hafi sagt henni sögur um fólk í samförum. Ákærði sagði að þetta væri ekki rétt. Honum var bent á að við lögreglurannsókn málsins hafi vitni lýst því að hún hafi komið að ákærða uppi á borði og D við þessar aðstæður. Er hann var spurður hvort hann myndi eftir að þau hafi verið saman þarna inni og einhver komið að þeim kvaðst ákærði segja það satt að þetta væri nokkuð sem hann myndi ekki til að hafi gerst. Ákærði var þá spurður hvort hann hafi stundum legið uppi á borði. Hann kvaðst ekki muna til þess. Kvaðst hann halda að hugsanlega hafi hann einu sinni legið uppi á þessu borði. Aðspurður hvort hann kannaðist við að D hafi verið þar kvaðst ákærði ekki muna eftir henni þar. Ákærði var þá spurður hvort hann kannaðist við að hafa sýnt D kynfæri sín. Svar ákærða var að það væri ekki rétt. Hann var þá spurður hvort hann kannaðist við að hafa lýst því fyrir D hvernig hægt er að hafa samfarir. Ákærði neitaði því. Ákærði var þessu næst spurður hvort hann kannaðist við að hafa sest ofan á D þar sem hún lá í sófa í félagsmiðstöðinni. Ákærði neitaði því. Hann hafi aldrei gert neitt við D. Ákærði var loks spurður hvort hann kannaðist við að hafa sýnt D og C klámmynd. Ákærði sagði að það væri ekki rétt. Ákærða var gerð grein fyrir að D hefði greint frá því sem að framan greinir. Hann var spurður hvort hann vildi tjá sig um það og var jafnframt spurður hvers vegna hann teldi að hún væri að lýsa þessum hlutum, hafi þeir ekki gerst. Ákærði kvaðst halda að D hljóti að ímynda sér eða búa þetta til. Það væri hið eina sem honum kæmi í hug. Hann hafi aldrei gert neitt við hana. Aðspurður um samskipti þeirra sagði ákærði að það væri erfitt að ræða við hana. Hann ræddi kannski við hana um ákveðið málefni, en hún færi þá að tala þvert á það. Hún færi út og suður þannig að erfitt væri að halda sambandi við hana. Samskipti þeirra kvað ákærði hafa verið upp og ofan. Stundum hafi gengið vel og stundum miður vel.
Við aðalmeðferð málsins var vitnið, D, fyrst beðin að lýsa því hvernig ákærði snerti hana og hvar þau hafi þá verið. Vitnið sagði að þau hafi verið í sófa í setustofunni. Þau hafi svo farið inn á skrifstofu þar sem hafi verið borð. Ákærði hafi sagt klúra brandara og sagt að það væri allt í lagi. Vitnið kvaðst hafa reynt að horfa ekki á ákærða. Ákærði hafi alltaf verið að hnippa í hana og segja henni að horfa á hann. Þá hafi hann snert brjóst hennar. Svo hafi móðir einnar stúlkunnar komið inn og spurt ákærða hvað hann væri að gera, en þá hafi hann lokað og ekki svarað. Þau hafi svo farið út um kl. 10. Hafi ákærði sagt að hún mætti ekki segja frá. Í vikunni á eftir, að hún hélt, hafi þau farið út að leika sér. Það hafi verið kvöld, en hún myndi ekki hvað klukkan var. Þá hafi ákærði girt niður um sig og sýnt henni lim sinn, en hún hafi tekið fyrir augun. Kvaðst vitnið hafa verið mjög stressuð. Hún hafi átt að horfa á. Vitnið kvaðst hafa sagt ákærða að renna upp buxnaklaufinni, en samt hafi hann haldið áfram. Ákærði hafi sagt henni að gera eitthvað og hún hafi spurt hann hvað hún ætti að gera. Þá hafi hann snert brjóst hennar. Kvaðst vitnið hafa orðið "alveg brjáluð" og spurt ákærða hvað hann væri að gera. Einnig hafi hún sagt honum að það mætti ekki gera svona. Sagði vitnið að hún hafi ekki mátt segja frá þessu. Svo hafi C komið inn, en þetta hafi verið eftir lok skóladags, og þær hafi verið að fara heim. Þá hafi ákærði komið inn í herbergi þar sem þær C voru að ræða saman og sett spólu í myndbandstækið. Í myndinni hafi börn verið barin og einnig hafi þetta verið dónaleg mynd, klámmynd. Vitnið kvaðst hafa spurt ákærða hvað hann væri að gera. Hann mætti ekki sýna börnunum þetta. Kvaðst vitnið hafa orðið fokreið. Þær C hafi svo farið heim þegar ákærði var búinn að sýna þeim þessar klámmyndir. Vitnið kvaðst sífellt hafa verið að segja ákærða að stöðva myndbandið. Þær þyrftu að drífa sig heim því þær væru orðnar allt of seinar. Vitnið sagði að ákærði hafi nokkrum sinnum snert brjóst hennar. Hafi sumir séð það með því að kíkja. Þeir hafi spurt hvað hann væri að gera.
Vitnið kvaðst ekki muna hvað konan heitir sem hún sagði frá. Hún hafi komið þarna inn og sagt ákærða að hætta þessu. Vitnið kvaðst hafa látið eins og ekkert væri. Þetta hafi verið hræðilegt. Vitnið var spurð hvað það hafi verið sem ákærði var að gera. Hún kvað þetta hafa verið á skrifstofunni þar sem hægt hafi verið að loka. Þau hafi verið að ræða saman á táknmáli. Heyrnarskert kona, miklu eldri en ákærði hafi verið þarna, en hvað hún heitir myndi hún ekki. Aðspurð hvað það hafi verið sem hann var að gera, en mátti ekki gera, sagði vitnið að hann mætti ekki leika sér svona að litlum stelpum og bulla einhverja vitleysu. Það væri bannað að segja svona. Vitnið kvaðst hafa sagt við ákærða að hann væri stór, en þetta væru lítil börn. Sagði vitnið að ákærða hafi fundist þetta skemmtilegt, en samt mætti ekki segja frá. V hafi verið þarna og séð að ákærði snerti brjóst hennar.
Vitnið var spurð nánar út í það sem hún greindi fyrst frá, að þau hafi verið inni á skrifstofu í félagsmiðstöðinni þar sem hafi verið borð. Aðspurð hvort ákærði hafi verið uppi á borðinu eða setið við það sagði vitnið að hann hafi legið á hlið uppi á borðinu. Hún var spurð hvort hann hafi þá enn verið að segja klúra brandara. Vitnið játti því. Aðspurð hvar hún hafi verið kvaðst hún hafa setið og reynt að grúfa sig niður til að sjá ekki til ákærða. Hún var spurð hvort hún hafi grúft sig niður yfir borðið þar sem ákærði var. Vitnið kvaðst bara hafa grúft sig niður. Kvaðst hún hafa setið lítið eitt frá borðinu og grúft sig niður. Er vitnið var spurð hvort þá hafi komið þar inn móðir stúlku sem var í skólanum játti hún því. Hún var spurð hvort það væri sama konan og hún var að segja frá nú seinna að hafi sagt ákærða að hætta þessu. Vitnið neitaði því og sagði að það væri allt önnur kona og annað skipti. Hún var spurð hvað móðir stúlkunnar, sem kom þarna inn á skrifstofuna, hefði sagt. Vitnið kvað hana hafa verið að ná í dóttur sína og hún héldi að hún hafi ekkert sagt við þau. Hún hafi bara verið mjög skrýtin á svipinn. Á næsta skóladegi hafi skólastjórinn vitað þetta. Aðspurð hvað skólastjórinn hafi vitað sagði vitnið að það hafi verið hvað ákærði var að gera. Aðspurð hvað það hafi verið sagði vitnið að ákærði hafi verið að bulla eitthvað um vitnið, F, V, E og B. Vitninu var gerð grein fyrir að hún hefði sagt að viku eftir að þau voru á skrifstofunni hafi þau um kvöld verið úti að leika sér. Aðspurð hvar þau hafi verið að leika sér sagði vitnið að það hafi verið beint á móti [...]skóla, rétt hjá skólanum. Vitnið var spurð hvort það hafi verið þá sem ákærði tók niður um sig, sýndi á sér liminn og lét hana horfa á. Vitnið játti því. Aðspurð hvort fleiri krakkar hafi verið þar sagði vitnið að þau hafi verið þar tvö ein. Vitnið kvaðst þó halda að Hjördís hafi séð eitthvað. Hún var spurð hvort það hafi verið í þetta sama skipti. Vitnið sagði að þetta hafi verið bak við skólann og hún héldi að V hafi séð þetta. Hún héldi að þau hafi verið þarna þrjú og að V hafi kíkt og séð eitthvað. Aðspurð hvort ákærði hafi rætt við hana sagði vitnið að ákærði hafi beðið hana að koma við liminn. Kvaðst vitnið ekki hafa vitað hvað hún átti að gera. Hún hafi reynt að horfa ekki á lim ákærða, heldur reynt að horfa í aðra átt. Kvaðst vitnið hafa sagt ákærða að henni fyndist þetta ógeðslegt. Aðspurð hvort ákærði hafi komið við hana játti vitnið því. Aðspurð hvar hann hafi snert hana sagði vitnið að það hafi verið brjóstin. Er hún var spurð hve oft kvað hún það hafa verið þrisvar til fjórum sinnum. Vitnið sagði að ákærði hafi einnig komið við rass hennar. Er hún var spurð hvar þau hafi þá verið kvað þau bæði hafa verið í sófanum og svo úti. Aðspurð hvort ákærði hafi komið við brjóst hennar innan- eða utanklæða sagði vitnið að hún hafi verið í stuttermabol með eilítið flegnu hálsmáli og hann hafi komið við brjóst hennar þannig, þó ekki undir bolnum.
Vitninu var bent á að hún hafi sagt að ákærði hefði verið með klámspólu í myndbandstækinu og látið hana horfa á klámmynd. Aðspurð hvort það hafi verið oftar en einu sinni játti vitnið því og bætti við að sum börnin hafi aðeins verið sex ára. C hafi þá verið lítil. Vitnið kvaðst ekki hafa séð fulla mynd. Hún hafi aðeins séð smávegis. Ákærði hafi verið að gæta barnanna sem voru að horfa á þetta og sum þeirra hafi aðeins verið sex til sjö ára. Aðspurð hvað hafi verið svo ljótt á þessum myndum sagði vitnið að það hafi verið klám, samfarir, dráp, skot, börn hafi verið tekin og eitthvað gert við þau og höfuð hafi verið tekin af fólki. Aðspurð hvort ákærði hafi einhvern tíma bannað henni að segja frá þessu játti vitnið því. Hún hafi ekki mátt segja foreldrum sínum frá þessu. Hún hafi talað við vinkonu sína, en engan annan. Aðspurð hvort hún hafi þurft að gegna ákærða játti vitnið því og sagði að það hafi alltaf verið eins. Hann hafi kúgað hana. Vitnið var beðin að greina frá hvernig hann hafi kúgað hana. Hún kvað hann hafa sagt að það væri bannað að segja frá. Þá hafi hann sagt að ef hún yrði góð og segði ekki frá skyldi hann fara í sund með henni. Aðspurð hvort þau hafi farið saman í sund sagði vitnið að það hafi verið hópurinn sem það gerði.
Vitnið var spurð hvort hún myndi eftir atviki þar sem ákærði hafi lýst því fyrir henni hvernig limur verður harður og að þá væri hægt að hafa samfarir. Vitnið kvaðst muna það. Þá hafi ákærði staðið upp og dansað eins og hann væri að dansa nektardans. Ákærði hafi tekið niður um sig buxurnar og sagt henni að prófa. Hvað hún átti að gera hafi hún ekki vitað. Hún hafi átt að koma við hann. Kvað vitnið sér hafa fundist þetta mjög ógeðslegt. Þetta hafi verið inni á salerni í félagsmiðstöðinni. Aðspurð kvaðst hún hafa verið sextán til sautján ára.
Vitnið var spurð um líðan hennar út af öllu þessu. Hún kvað sér líða illa. Stundum færi hún langt niður, en svo liði henni ögn betur. Hún væri dálítið stressuð heima og fljót að verða reið. Þá hafi hún verið erfið heima í þrjú ár. Nú liði henni betur. Hún væri ekki eins stressuð. Þetta væri lengi að lagast, en undanfarna tvo, þrjá mánuði hafi henni liðið ágætlega.
Móðir D, Y, kom fyrir dóminn. Vitnið kvað það vera rétt að hún hafi fyrst fengið upplýsingar um málið frá öðrum en dóttur sinni. Þá kvað hún það vera rétt að hún hafi spurt hana. Vitnið var beðin að lýsa því hvað þeim mæðgunum fór á milli þegar vitnið spurði hana hvernig samskiptum hennar og ákærða var háttað. Vitnið kvaðst hafa spurt D hvort eitthvað varðandi ákærða hafi gerst fyrir þremur árum í félagsmiðstöð skólans, þegar hún var í skólanum. Í fyrstu hafi D neitað því alfarið að nokkuð hafi gerst, en síðan hafi vitnið sagt henni frá hinum stúlkunum sem urðu fyrir þessu og þá hafi opnast flóðgátt. Kvað vitnið D hafa opnað sig alveg gagnvart þessu og hafa rætt mjög lengi um þetta. Hafi hún skýrt vitninu frá því hvað ákærði gerði henni. Vitnið var spurð hvort hún myndi hvernig D hefði lýst því fyrir henni hvað ákærði gerði henni. Vitnið kvað hana hafa tjáð sér að eitt sinn hefði hann farið með hana inn á baðherbergi og reynt að káfa á brjóstum hennar. Einnig að hann hefði farið með hana inn í herbergi í félagsmiðstöðinni, lagst þar upp á borð og neytt hana til þess að grúfa sig yfir klof hans. Hún hafi sagt að í þessu tilfelli hafi þau verið í fötum, en um eitthvað hafi verið að ræða sem henni hafi ekki fundist rétt. Þá hafi hún sagt að ákærði hefði sýnt henni, ásamt öðrum börnum, klámmyndbönd. Vitnið var spurð nánar um þegar D sagði henni frá því sem gerðist í félagsmiðstöðinni. Vitnið kvað hana hafa sagt að ákærði hefði legið uppi á skrifborði og reynt að láta hana káfa á sér og einnig að hann hafi sýnt henni kynfæri sín.
Aðspurð sagði vitnið þær hafa rætt þetta heilmikið síðan D sagði henni frá þessu fyrst. Vitnið kvað D hafa sagt að þetta hafi ekki verið rétt og að ákærði hafi verið að gera ranga hluti. Það væri eins og hún hafi áttað sig á því, þegar þetta gerðist, að það sem ákærði gerði var ekki rétt. Kvaðst vitnið halda að þess vegna hafi hún hrint ákærða frá sér.
Vitninu var bent á, í tilefni af lýsingunni sem vitnið sagði að D hafi gefið henni á því þegar ákærði lá uppi á borðinu og hún hafi grúft sig ofan í klof hans, að hún hafi neitað því fyrir dóminum að þetta hafi verið með þeim hætti. Vitnið var spurð hvort hún kynni einhverja skýringu á hvers vegna hún drægi þetta til baka. Vitnið kvað svo ekki vera, en sagði að það hafi verið vitni að þessu. Kvað hún eitt foreldri hafa komið komið að ákærða og D inni í þessu herbergi. Aðspurð hvort vitnið hafi merkt breytta hegðun hjá D á þessum tíma, ef hún liti til baka, játti vitnið því. Aðspurð á hvaða hátt sagði vitnið að hún hefði verið mjög erfið í skapi. Sérstaklega kvaðst vitnið muna eftir því að D hafi baðað sig mjög mikið og vel. Þegar hún fór í sturtu hafi hún verið í klukkutíma. Kvaðst vitnið hafa haldið að þetta tengdist fötlun hennar og að hún væri unglingur og vildi vera hrein, en svo hafi hún áttað sig á því að þetta var eitthvað tengt þessu máli. Vitnið var spurð hvort D hafi sagt vitninu frá því af hverju hún sagði henni ekki frá þessu fyrr. Vitnið kvað hana hafa sagt að ákærði hafi hótað börnunum og henni. Svo væri þetta einfaldlega feimnismál, börn tali síst um svona hluti við foreldra sína og yfirleitt ekki nokkurn mann. Það hafi verið ríkt í huga D að þetta hafi bitnað á yngri börnum. Hún hafi verið elst í hópnum og henni hafi fundist svívirðilegt hvernig ákærði kom fram við yngri börnin. Vitnið var spurð hvernig líðan D hafi verið eftir að mál þetta kom upp og til dagsins í dag. Vitnið kvað sér finnast henni líða andlega mun betur. Hún hafi opnað sig þarna, farið í Stígamót í nokkuð mörg skipti og þar hafi hún getað tjáð sig um þetta og einnig heima. Sagði vitnið að henni liði mun betur í dag. Þetta hafi verið þung byrði sem hafi hvílt á henni öll þessi ár.
Vitnið var spurð hvort hún hafi rætt þetta mál við marga, svo sem sálfræðing og starfsfólk skólans. Hún kvaðst ekki hafa rætt það við starfsfólk skólans. Henni var bent á að hún hafi þó vitað að það hafi verið vitni að ákveðnum atburði sem snerti D. Aðspurð hvaðan hún hefði það sagði vitnið að umrætt vitni héti Z og að hún hefði sagt kennara dóttur sinnar frá því að hún hafi komið að þeim. Vitnið var þá spurð hvort hún hefði þessar upplýsingar, um að ákærði hefði neytt D, þegar hann lá uppi á borði, til þess að grúfa sig yfir klof hans, frá henni sjálfri eða frá öðrum. Vitnið kvaðst hafa haft þær frá henni sjálfri. Vitnið var þá spurð frá hverjum hún hefði það sem hún var að lýsa varðandi Z. Hún kvað P, móður C, hafa sagt sér frá þessu.
Aðspurð kvað vitnið þær D ræða saman á táknmáli. Hún kvaðst þó ekki telja sig skilja táknmál jafn vel og talað orð, en hún skildi dóttur sína nokkuð vel, þó ekki eins vel og hún væri altalandi. Aðspurð kvaðst vitnið hafa orðið vör við að upp kæmi misskilningur milli þeirra.
Z kom fyrir dóminn. Hún var beðin að greina frá atviki sem hún skýrði frá við lögreglurannsókn málsins þegar hún átti leið í félagsmiðstöð skólans veturinn 1995 til 1996. Vitnið sagði að greint sinn hafi verið opið hús í félagsmiðstöðinni, en dóttir hennar hafi verið nemandi í skólanum. Kvað vitnið erindi sitt hafa verið að sækja hana. Þetta hafi verið að kvöldi til, hún myndi ekki nákvæmlega hvenær, en það hafi verið myrkur úti. Venjulega hafi foreldrar þurft að sækja börnin eða þau að koma sér heim fyrir kl. tíu á kvöldin. Það hafi verið dimmt og sjálfsagt hafi þetta verið um hálftíuleytið um kvöldið. Vitnið sagði að þegar hún kom þarna inn hafi verið myrkur. Raunar hafi verið einhvers konar neyðarlýsing þannig að hún hafi séð vel til. Kvaðst vitnið ekkert hafa heyrt og engan hafa séð, gengið inn og þá séð ákærða og einn nemanda inni í herbergi sem er þarna fyrir innan. Ákærði hafi legið uppi á borði, þ.e. einhvers konar leikborði, nokkuð stóru. Sagði vitnið að þessi nemandi, sem hafi verið kvenkyns, hafi eiginlega staðið yfir ákærða og beygt sig yfir hann. Vitnið kvaðst ekki hafa séð hvað hún var að gera og eiginlega vissi hún ekki meir. Vitnið kvaðst ekki hafa komið inn í herbergið, heldur í gættina, séð þetta þarna inni og forðað sér með því að ganga aftur á bak út aftur. Kvað vitnið sér hafa fundist eins og hún hafi komið að einhverju sem hún átti ekki að koma að. Vitnið kvaðst þó hafa snúið við og farið aftur inn. Þá hafi þau verið risin upp og komið á móti henni. Vitnið var spurð hvort hún væri alveg viss um að hún hafi séð þetta eins og hún lýsti því, þ.e. að stúlkan hafi verið með höfuðið ofan í klofinu á honum, en ekki setið og e.t.v. byrgt andlitið sitjandi til hliðar við hann. Vitnið kvaðst vera “pottþétt” á þessu. Aðspurð kvaðst vitnið hafa skýrt frá þessu, þó ekki þarna um kvöldið. Kvað hún hafa liðið einhverja daga, hún myndi ekki á hvaða degi það var, en ekki löngu seinna hafi verið foreldraviðtal og þá hafi hún hitt kennara dóttur sinnar. Kvaðst vitnið vilja meina að hún hafi sagt henni frá þessu og engum öðrum og lýst þessu með þeim hætti sem hún hafi gert. Vitnið kvaðst aðspurð hafa þekkt stúlkuna og hafi það verið D. Aðspurð kvaðst vitnið ekki hafa átt önnur tjáskipti við þau en að hún hafi spurt hvar krakkarnir væru. Aðspurð hvernig henni hafi fundist viðmót þeirra hafa verið þegar hún kom aftur sagði vitnið að það hafi ekki verið neitt sérstakt athugavert við það. Þau hafi ekki tjáð sig við vitnið. Aðspurð kvað vitnið D hafa snúið baki í sig þegar hún kom að. Ákærði hafi legið beinn á bakinu uppi á borðinu, en hún hafi beygt sig yfir hann og staðið á ská við ákærða.
Vitninu var bent á að samkvæmt framburði annarra, þar á meðal D, hafi ákærði legið á hliðinni og hún hafi alls ekki staðið og beygt sig yfir hann, heldur hafi hún setið lítið eitt frá borðinu og grúft sig niður. Vitnið var spurð hvaða hlutverk hún hafi haft á þessum tíma á þessum stað. Svar vitnisins var að hún hafi einungis verið að sækja dóttur sína. Hún hafi hvorki verið starfsmaður skólans né félagsmiðstöðvarinnar. Vitnið kvaðst hafa skýrt konu að nafni Þ frá þessu. Vitninu var gerð grein fyrir að Þ kannaðist ekki við að hún hafi sagt henni eitt eða neitt í þessa veru. Vitnið kvaðst hafa heyrt það.
V.
Þann 16. desember 1998 var tekið rannsóknarviðtal við E í Barnahúsi. Hún var fyrst spurð hvort hún vissi hvers vegna hún væri í viðtali í Barnahúsi. Telpan svaraði að móðir hennar hefði sagt henni að fara þangað, en hún vissi ekki hvers vegna. Telpunni var sagt að börn færu í Barnahús ef fullorðinn eða einhver sem þau treystu hefði gert þeim eitthvað sem ekki mætti. Telpan nefndi þá nafn ákærða.
E var spurð hvers vegna hún nefndi ákærða. Hún kvað hann einstöku sinnum hafa gefið henni peninga, um 100 til 300 krónur. Telpan kvaðst vera búin að gleyma öllu sem ákærði gerði, en kvað mömmu sína vita það. Svaraði hún í fyrstu öllum spurningum þannig að hún væri búin að gleyma, en opnaði sig er líða tók á viðtalið. Sagði hún að hann mætti aldrei gera þetta aftur. Fullorðnir mættu ekki gera svona. Telpan sagði að hún hafi verið hrædd við ákærða og hann hafi sagt við hana að hún mætti ekki segja krökkunum frá því sem hann gerði henni.
E sagði að X, sem vann í félagsmiðstöðinni, hefði fyrir um ári síðan, þegar hún var átta eða níu ára, farið með hana inn á salerni. Þar hafi hann beðið hana að pissa í skítugan poka sem hann ætlaði svo að loka. Telpan sagði að hún hefði pissað í pokann og að hún hafi klætt sig úr buxunum þegar hún var að pissa. Telpan sagði að ákærði væri dóni og hann hafi sýnt henni það sem væri dónalegt, “maður og kona.” E sagði að ákærði hafi sýnt henni dónalegt myndband einu sinni í félagsmiðstöðinni, en þau hafi verið þar tvö.
Þá kvaðst E hafa farið í ökuferð með ákærða og þau hafi ekið hjá sjónum og skóginum. Hann hafi þá viljað að hún girti niður um sig og settist ofan á hann, en hún hafi neitað því og sagt honum að þetta væri dónalegt. Ákærði hafi þá sagt að það væri í lagi og ekið henni heim. Kvað hún ákærða hafa verið alklæddan þegar þetta gerðist.
Ákærði gaf skýrslu hjá rannsóknardeild lögreglunnar í [...] 24. febrúar 1999. Eftir að honum hafði verið kynnt kæruefnið var hann spurður hvort hann vildi tjá sig sjálfstætt um fram komna kæru. Hann kvað þau E hafa ákveðið að búa til mynd og hafi telpan átt að leika í myndinni. Kvaðst ákærði hafa látið telpuna standa uppi á stól og hafi hún haldið um stólbakið og hrist stólinn. Kvaðst ákærði síðan hafa farið heim með spóluna og afritað hana yfir á stærri spólu. Ákærði kvaðst í upphafi hafa leikið latan starfsmann og hafi leikurinn verið í því fólginn að hún átti að koma og vekja hann. Þá hafi hann beint myndavélinni að telpunni og hafi hún staðið við bakið á stólnum og hrist hann. Þegar hann var búinn að taka þetta upp hafi hann farið heim með spóluna og geymt hana þar. Hann hafi sett spóluna í myndbandstækið og afritað hana yfir á aðra spólu meðan hann fór á handboltaæfingu. Þegar hann kom heim hafi hann séð spólu uppi á myndbandstækinu og hafi hann haldið að sambýliskona hans hefði tekið hana úr tækinu. Kvaðst ákærði hafa talið að þar væri um rétta spólu að ræða. Hafi hann tekið spóluna sem var ofan á tækinu og farið með hana í félagsmiðstöðina. Þar hafi hann ætlað að taka upp á aðra spólu leikrit með E. Ákærði kvaðst hafa sett þessa spólu í myndbandstæki, farið fram í eldhús að fá sér gosdrykk. Kvaðst hann hafa spurt E hvort hún vildi fá sér líka og hafi hún þegið það. Ákærði kvað telpuna hafa hlegið að því sem hún sá í sjónvarpinu af spólunni og kvaðst hann hafa haldið að hún væri að hlæja að því sem þau höfðu verið að taka upp. Þegar hann kom til baka með gosdrykkinn hafi hann séð að telpan var hlæjandi og benti á sjónvarpið. Kvað ákærði sér hafa krossbrugðið þegar hann sá hvað var á myndbandsspólunni og slökkt á myndbandinu, en það hafi verið fólk í samförum. Ákærði kvaðst hafa átt þessa spólu, en tekið hana fyrir misskilning. Telpan hefði sagt að þetta væri allt í lagi því hún hefði séð svona áður heima hjá sér. Ákærði kvaðst hafa setið og velt því fyrir sér hvað hann ætti að gera. Telpan hefði komið til hans og hann hafi spurt hana hvað henni fyndist um svona myndir. Þá hafi hún sagt að þetta væri allt í lagi, eins og þetta væri eðlilegt. Ákærði kvaðst hafa tekið hana í fangið og sagt henni að þetta væri alvarlegt mál og að þetta væri ekki í lagi.
Ákærði kvaðst ekki muna hvenær þetta var, en sagði að það gæti hafa verið einu til tveimur árum áður. Hann taldi að telpan hefði frumritið af þessu leikriti heima hjá sér. Aðspurður kvað ákærði sér hafa verið brugðið þar sem telpan hafi verið svo lítil. Hann kvaðst ekki hafa sýnt öðrum börnum myndir af þessu tagi í félagsmiðstöðinni.
Ákærði nefndi að í annað skipti hafi þau E verið í félagsmiðstöðinni að spila og leika sér. Þau hafi verið í teningaspili og hafi hún viljað fá alla teningana, en því hafi hann neitað. Hún hafi beðið hann aftur um teningana og þá hafi hann fengið hugdettu. Kvaðst hann hafa sagt við hana að ef hún pissaði í poka inni á salerni myndi hann láta hana hafa teningana. E hafi þá farið inn á salerni, en hann hafi beðið eftir henni. Hún hafi þá opnað dyrnar og sagt að hún gæti ekki staðið svona og hafi hann þá boðist til að hjálpa henni að halda á pokanum milli fóta hennar, en hún hafi staðið yfir honum. Ákærði kvaðst hafa litið undan, en hún hafi potað í hann og sagt að það væri gat á pokanum. Hún hafi verið orðin blaut í fæturna, hann þá séð að sér og áttað sig á hvað hann hafði gert. Hann hafi þrifið þvagið upp með handklæði, en hent pokanum í ruslafötu. Sagði ákærði aðspurður að þetta hafi verið á eina salerninu sem er í félagsmiðstöðinni.
Ákærði var spurður hvers vegna hann hafi beðið telpuna að pissa í poka. Hann kvaðst ekki skilja það, en hann hafi séð eftir því. Honum hafi fundist eins og þau ættu að gera eitthvað, en séð eftir þessu þegar það var afstaðið. Ákærði sagði að ekki hafi gerst meira í þetta skipti. Kvaðst hann telja að þetta hafi gerst á laugardegi einu eða tveimur árum áður.
Ákærði nefndi þriðja tilvikið þar sem þau E voru í félagsmiðstöðinni. Hann hafi spurt telpuna hvort hana vantaði peninga og því hafi hún játað. Þá hafi hann beðið hana að fara inn á salerni og gera það sama og síðast, þ.e. pissa í poka sem var í ruslafötu inni á baðherbergi. Hún hafi farið þar inn og eftir nokkrar sekúndur hafi hann hlaupið að dyrunum og bankað á hurðina. Dyrnar hafi verið læstar og hafi hann þá sótt hníf og getað opnað dyrnar þannig. Hann hafi séð telpuna sitjandi á ruslafötu milli salernisskálarinnar og veggjarins. Kvaðst hann hafa sagt henni að hætta þessu og það hafi hún gert. Hann hafi séð að hún var búin að pissa lítið eitt og hafi hann sagt henni að þetta myndu þau aldrei gera aftur. Hún hafi spurt hvort hann hún fengi ekki peninga, en því hafi hann neitað.
Ákærði kvaðst telja að þessi tilvik hafi gerst á mánaðartímabili einu til tveimur árum áður. Kvaðst hann hafa áttað sig á því að hann átti ekki að gera þetta, en í upphafi hafi honum e.t.v. fundist að þetta væri leikur. Sagði ákærði að þau hafi verið tvö ein í tveimur fyrstu tilvikunum, en börn hafi verið úti við þegar það þriðja átti sér stað.
Ákærða var kynnt að E hefði greint frá því að hann hafi sýnt henni dónaleg myndbönd í félagsmiðstöðinni þegar þau voru ein. Hann kvaðst ekki hafa sýnt telpunni þetta myndband viljandi og þetta hafi verið röng mynd.
Ákærða var kynnt að telpan hefði greint frá því að hún hafi farið í ökuferð með ákærða. Hann hafi þá viljað að hún girti niður um sig og settist ofan á hann. Hún hafi neitað því og sagt að þetta væri dónalegt. Hann hafi þá ekið henni heim. Aðspurður neitaði ákærði þessu og sagði að þetta væri ekki rétt. Hann kvaðst hafa ekið henni hjá sjónum og hún hafi beðið um að fá að keyra. Hann hafi leyft henni að sitja í fangi sér og halda í stýrið. Síðan hafi hann ekið henni heim.
Ákærði var spurður hvort hann hafi einhvern tíma ekið henni heim og hvort hún hafi kvartað undan veikindum. Hann kvaðst aldrei hafa ekið henni heim, en hún hafi stundum verið með höfuðverk. Yfirleitt hafi hún farið með rútunni heim, en stundum hafi Ö forstöðukona ekið henni heim.
Ákærða var kynnt að fram kæmi í skýrslu vitnis, dags. 16. febrúar 1999, að hann hefði stundum ekið E heim þegar hún neitaði að fara í rútuna og jafnvel eftir að hún kvartaði undan veikindum. Ákærði kvaðst ekki muna eftir því að hafa ekið henni heim. Hann kvaðst þó muna að eitt sinn hafi hún misst af rútunni og móðir hennar hafi ekki getað sótt hana. Hann hafi þá ekið henni heim. Vera kynni að þetta hafi komið fyrir oftar.
Ákærða var kynnt að fram hefði komið hjá E í rannsóknarviðtali að hann hefði sagt að hún mætti ekki segja frá því sem hann hefði gert henni. Ákærði neitaði þessu.
Ákærða var kynnt að fram kæmi í skýrslu sem móðir telpunnar gaf hjá lögreglu að E hefði sagt móður sinni frá því sem hann hafi gert við hana. Hann hafi farið með hana inn á klósett í félagsmiðstöðinni og pissað fyrir framan hana og sýnt henni getnaðarlim sinn. Telpan hefði sagt að limur hans hafi verið stór og staðið beint upp í loftið. Hann hafi einnig komið inn þegar hún var á salerninu og skoðað á henni kynfærin. Hann hafi kysst hana á kinnina og strokið brjóst hennar. Þá hafi hann alltaf borgað henni 100 til 300 krónur fyrir. Telpan hefði sagt að hún hefði farið í ökuferð með ákærða og hann hafi beðið hana að setjast ofan á hann og hún fengi 1000 krónur fyrir. Í þessari ökuferð hafi þau farið heim til ákærða, horft þar á myndband og borðað köku. Einnig hafi hann einhverju sinni sýnt henni klámmyndbönd í félagsmiðstöðinni. Telpan hafi einnig talað um að hafa pissað í poka fyrir hann. Einnig hafi hann hótað henni því að ef hún segði frá yrði hann mjög reiður. Ákærði sagði að þetta væri ekki rétt að öðru leyti en því að hann hafi fyrir mistök sýnt henni klámmyndband og beðið hana að pissa í poka eins og hann hefði getið um áður.
Síðari skýrslan var tekin af ákærða 18. mars 1999. Honum var kynnt bótakrafa málsins og hann beðinn að skýra frá afstöðu sinni til hennar. Ákærði kvaðst alfarið hafna þessari bótakröfu.
Við aðalmeðferð málsins var ákærði fyrst spurður hvort hann kannaðist við að hafa á árunum 1996 og 1997, þegar E var átta og níu ára gömul, fengið hana tvívegis til að pissa í poka á salerninu í félagsmiðstöðinni og boðið henni peninga fyrir í seinna skiptið. Ákærði kvað þetta einungis hafa gerst einu sinni. Hafi það verið á salerni félagsmiðstöðvarinnar. Kvaðst hann aðspurður hafa boðið henni fé fyrir. Ákærði var þá spurður hvort hann kannaðist við að hafa sýnt telpunni klámmyndband. Ákærði neitaði því. Hann var þá spurður hvort hann kannaðist við að telpan hefði séð klámmyndband hjá honum. Ákærði kvað svo vera. Hann var beðinn að lýsa því. Ákærði kvaðst fyrir mistök hafa tekið ranga spólu, farið með hana í félagsmiðstöðina og sett hana í tækið. Kvaðst hann hafa farið að sækja drykki og þegar hann kom til baka hafi hann tekið eftir því að þetta var “blá mynd” og strax farið og stöðvað myndbandið. Röng spóla hafi verið sett í myndbandstækið. Kvað ákærði það ekki hafa verið ætlun sína að sýna henni þessa mynd. Ákærði var þá spurður hvort hann kannaðist við að hafa beðið telpuna að girða niður um sig og setjast ofan á hann þegar þau voru í bifreið hans og boðið henni 1000 krónur fyrir. Ákærði neitaði því og kannaðist ekki við að þetta hafi gerst. Hann kvað telpuna einungis einu sinni hafa komið í bifreið hans. Aðspurður hvort hann kannaðist við að telpan hafi sest ofan á hann sagði ákærði að það hefði gerst. Hann var spurður í hvaða tilgangi hann hafi gert það. Ákærði kvaðst hafa verið að aka henni heim og hana hafi langað til að prófa að grípa í stýrið hjá honum. Hann hafi ekki viljað að hún gerði það niðri í bæ og því hafi hann farið út í [...] og ákveðið að leyfa henni að prófa þar að grípa í stýrið á bifreiðinni. Hún hafi sest í fangið á honum og fengið að halda í stýrið og svo hafi hann fært hana aftur yfir í farþegasætið. Kvaðst hann ekki hafa beðið hana að girða niður um sig þarna. Hann hafi aldrei beðið hana um að girða niður um sig. Ákærði var spurður hvort hann kannaðist við að hafa sýnt telpunni reistan getnaðarlim sinn inni á salerni félagsmiðstöðvarinnar. Ákærði neitaði því. Hann var spurður hvort hann kannaðist við að hafa verið með telpunni inni á salerni félagsmiðstöðvarinnar. Ákærði kvað það vera rétt. Aðspurður hvort hann kannaðist við að hafa skoðað kynfæri hennar svaraði ákærði neitandi. Hann var spurður hvort hún hafi aldrei girt niður um sig í viðurvist hans. Ákærði kvað það hafa gerst einu sinni. Er hann var spurður af hvaða tilefni það var sagði ákærði að hún hafi ekki kunnað að skeina sig og kennari að nafni Æ hafi beðið hann að fara með henni, en það hafi hann helst ekki viljað. Kvaðst hann hafa viljað að kvenmaður færi með henni, en E hafi viljað að hann kæmi með henni. Hann hafi svo hjálpað henni á salerninu. Ákærði var spurður hvort hann hafi kysst E á kinnina og strokið brjóst hennar. Hann neitaði því. Ákærði var spurður, í ljósi þess að hann hefði viðurkennt að hafa látið telpuna pissa í poka, hvort hann hefði bannað henni að segja öðrum krökkum eða fullorðnum frá því. Hann kvaðst ekki hafa gert það.
Ákærði var beðinn að lýsa í stuttu máli samskiptum sínum við E. Hann kvað samskipti þeirra hafa verið góð og mjög eðlileg. Ákærði var spurður hvort telpan hafi einhvern tíma verið í félagsmiðstöðinni þegar aðrið krakkar voru þar ekki, þ.e. hvort þau hafi nokkurn tíma verið þar tvö ein saman. Ákærði kvað þau ekki hafa verið tvö ein saman í félagsmiðstöðinni, en þau hafi verið það heima hjá honum í [...]. Hann var spurður hvort hann myndi til að telpan hafi oft kvartað undan því að hún væri lasin, að henni væri illt í maganum eða eitthvað slíkt. Ákærði játti því. Hann var spurður hvað hafi verið gert til að reyna að bæta úr því og jafnframt hvort hún hafi kvartað við hann. Ákærði sagði að hún hafi þá viljað fara heim og þau hafi hringt í móður hennar og beðið um að hún yrði sótt. Hann var spurður hvort það hafi verið þegar hún var búin í skólanum og komin í félagsmiðstöðina eftir hádegið. Ákærði kvað það yfirleitt hafa verið þannig. Þá sagði hann aðspurður að þetta hafi gerst nokkrum sinnum. Hann var spurður hvert telpan hafi snúið sér þegar hún kvartaði, hvort hún hafi snúið sér til hans. Ákærði kvað það hafa verið með ýmsu móti, en oft hafi hún talað við yfirmanninn í félagsmiðstöðinni, Ö.
Við aðalmeðferð málsins kom móðir E, G, fyrir dóminn. Vitnið var fyrst beðin að skýra frá því með hvaða hætti hún fékk upplýsingar um að eitthvað hefði hent dóttur hennar í skólanum. Vitnið kvaðst hafa verið boðuð í viðtal í skólann til H skólasálfræðings. Kvað hún H hafa tjáð sér að komið hefði upp kynferðisbrotamál í skólanum. Jafnframt hafi hún spurt vitnið hvort hana hafi grunað að svo væri. Vitnið kvaðst hafa neitað því, enda hafi hana aldrei grunað þetta. Kvaðst vitnið hafa viljað fá að vita hver gerandinn væri og hafi H þá tjáð henni að það væri ákærði. Vitnið kvað sér hafa brugðið mjög við þetta. Aftur á móti kvað vitnið sér í rauninni ekki hafa komið þetta svo mjög á óvart því það hafi verið eitthvað að í skólanum miðað við hegðun E. Aðspurð hvort hún hafi merkt það að einhverju leyti á E svaraði vitnið að svo hafi e.t.v. ekki verið. Sú hugsun hafi aldrei komið upp að það væri eitthvað svona, en þó að svo margt hafi bent til þess hjá E hafi hún ekki viljað trúa því að það væri eitthvað þessu líkt í gangi. Vitnið var spurð hvenær hún hafi rætt þetta við E. Hún kvaðst hafa gert það rétt áður en telpan fór í Barnahús. Þá hafi E neitað stanslaust og sagt að það hafi ekkert verið, en síðan hafi hún sagt henni frá því og þá hafi hún grátið mjög og sagt að hún hefði farið inn á klósett með ákærða og séð hann pissa. Hún hafi sagt að hann væri með stórt tippi og að það hafi staðið út í loftið. Síðan hafi hún sagt að hann hafi farið með henni inn á klósett, horft á hana pissa og látið hana hafa peninga, 100, 200 eða 300 krónur, fyrir að leyfa honum að horfa á sig. Aðspurð hvort telpan hafi minnst á að hann hafi bannað að segja henni frá þessu játti vitnið því. Hann hafi sagt að hann yrði mjög reiður og hafi beðið hana að þegja yfir þessu. Þá hafi hún talað um að ákærði hefði komið við brjóst hennar. Aðspurð kvaðst vitnið vita að E hefði farið heim með ákærða. Vitnið var spurð hvort E hafi lýst þeirri heimsókn. Vitnið sagði að í fyrstu hafi hún sagt að þau hefðu farið heim og horft á myndband og að hann hafi gefið henni köku. Það hafi ekki verið fyrr en vitnið spurði hana aftur að því að hún hefði sagt að þau hafi farið í ökuferð og að hann hefði beðið hana að setjast ofan á sig. Þegar hún hafi neitað því hefði ákærði sagt að hann skyldi gefa henni 1000 krónur ef hún gerði það. Kvaðst vitnið ekki muna hvort E hafi sagt að hún hefði sest í fangið á honum, en hana minnti að það hafi ekki verið. Aðspurð hvort E hafi sagt henni frá því að hún hefði horft á einhverjar myndir í félagsmiðstöðinni játti vitnið því og sagði að hún hefði sagt að þau hefðu verið tvö ein og horft á klámmyndir. Aðspurð kvað vitnið þetta hafa að mestu verið á árinu 1997. E hafi mikið talað um að þetta hafi verið kringum átta ára aldurinn, þegar vitnið spurði hana hvenær þetta gerðist. Aðspurð hvort E hafi lýst þessum klámmyndböndum nánar sagði vitnið að það hafi hún ekki gert. Vitnið kvaðst þó hafa skynjað að telpan hafi gert sér grein fyrir að þetta var klám. Telpan hafi ekki viljað tjá sig mikið um þetta mál. Aðspurð hvort hún minntist þess að E hafi nefnt að ákærði hefði hótað henni ef hún segði frá svaraði vitnið neitandi. Sagði vitnið aðspurð að hún hafi ekki viljað tala um þetta fyrr.
Aðspurð sagði vitnið að það hafi verið merkjanlegar mjög miklar breytingar á hegðun telpunnar á þessum tíma. Þetta hafi verið hræðilegur tími. Beðin að lýsa því nánar nefndi vitnið að það hafi verið “pissustand” á henni. Hún hafi pissað í allt í herbergi sínu, koppa og dollur, hún hafi klippt allar dúkkurnar þannig að þær urðu með stutt hár og rifið þær úr fötunum. Þá hafi hún pissað undir og á sig, hætt að sjá, sofið mjög illa, grátið mikið á næturnar, öskrað og teiknað myndir af beru fólki. Telpunni hafi liðið mjög illa á þessum tíma. Vitnið var spurð hvort merkjanleg breyting hafi orðið á telpunni eftir að hún fór í Barnahús og talaði um þetta þar. Vitnið kvaðst strax hafa séð mikinn mun á henni sumarið 1998. Telpan hafi farið í sveit og komið mjög heil til baka. Eftir það væri hún allt annað barn. Kvartanir frá skóla hafi hætt að berast. Símhringingar heim til vitnisins um að E væri veik, hún gæti ekki gengið, hún væri með höfuðverk, hún sæi ekki o.þ.h., hafi hætt. Það væri gjörbreytt líðan hjá henni í skólanum. Aðspurð kvaðst vitnið telja að það hefði orðið of mikið álag fyrir telpuna að koma í dóminn. Kvað vitnið sér finnast að E væri komin í svo gott jafnvægi að hún vildi ekki raska því. Telpunni líði mjög vel um þessar mundir og hún væri mjög ánægð með lífið og sátt við sig, en það væru miklar breytingar.
Æ, kennari við [...]skóla, kom fyrir dóminn. Hún kvaðst hafa starfað sem kennari við skólann í 17 ár. Vitnið sagði að undanfarin ár hafi hún verið stuðningsfulltrúi E. Hún var beðin að greina frá tengslum sínum við E, hvernig þeim hafi verið háttað og hvernig hún myndi lýsa framkomu hennar og líðan á þeim árum sem um ræðir. Vitnið kvaðst hafa vitað af E frá því hún kom í skólann um tveggja ára gömul. Vorið 1995, þegar E varð sex ára, kvaðst vitnið hafa tekið að sér að vera stuðningsfjölskylda hennar og hafi telpan verið hjá vitninu svo að segja aðra hverja helgi síðan. Nánar tiltekið taki viðkomandi stuðningsfjölskylda barnið inn á sitt heimili. Telpan hafi þurft að komast í meira táknmálsumhverfi og ná sér á strik í því og þess vegna hafi hún samþykkt að taka hana til að geta veitt henni þann stuðning. Kvaðst vitnið hafa byrjað á þessu vorið 1995. Þá sagði vitnið þetta væri annað árið sem hún væri kennari E.
Vitnið var beðin að lýsa því hvernig telpan var í hátt þegar hún kom upphaflega til vitnisins sex ára gömul. Vitnið kvað E aðallega hafa komið til sín sökum þess að móðir hennar var einstæð og að hún hafi þurft á stuðningi að halda, enda hafi hún átt rétt á stuðningi vegna þess að hún var með fatlað barn. Sagði vitnið að engin sérstök vandamál hafi verið hjá telpunni. Hún hafi verið ósköp lítil og þurft mikla ástúð og hlýju og einnig hafi hún þurft öruggt umhverfi. Aðallega hafi hún þó þurft á meira táknmáli að halda. Vitnið skýrði frá því að hún hafi kennt í skólanum og á tímabili hafi E alltaf verið að kvarta. Hún hafi kvartað um höfuðverk og magaverk og hún hafi viljað fara heim. Tók vitnið fram að hún hafi ekki kennt henni þá. Kvaðst vitnið stundum hafa getað talað telpuna til og reynt að róa hana niður, en svo hafi hún e.t.v. frétt að hún hefði farið heim seinna um daginn. Kvað vitnið E hafa verið nokkuð klóka í því, væri ekki hlustað á hana, að fara í þann næsta og kvarta við hann. Þetta hafi e.t.v. byrjað áður en hún átti að fara í félagsmiðstöðina, þ.e. meðan á skólatíma stóð. Eftir að hún var komin í félagsmiðstöðina hafi hún kannski haldið áfram, því stundum hafi verið hringt þaðan í móður hennar og beðið um að telpan yrði sótt. Aðspurð hvort E hafi búið við sömu vanlíðanina og í skólanum þegar hún kom til vitnisins um helgar sagði vitnið að þegar hún hugsaði til baka rifjaðist það upp að telpan hafi átt það til að vakna á næturnar og gefa frá sér óp. Kvaðst vitnið hafa hrokkið mjög við í fyrsta skiptið sem þetta gerðist. Þegar vitnið spurði telpuna hvað hana hafi verið að dreyma hafi hún alltaf sagt að það væri ekki neitt. Hún hafi ekkert munað og ekki vitað hvað það var. Kvað vitnið þetta hafa verið mikið óöryggi eða vanlíðan, sem vitnið kvaðst ekki hafa skynjað hvað var. Stundum hafi verið nóg, ef vitnið fann að hún var að byrja, að leggja á hana hendur til að róa hana og þá hafi það lagast. Vitnið kvað þetta ekki hafa verið svona fyrst þegar E kom til hennar. Aðspurð hvort hún gæti áttað sig á hvenær þetta fór að há henni sagði vitnið að hún gæti ekki sagt það með nákvæmni, en þegar vitnið og móðir telpunnar fóru að hugsa til baka og ræða saman um alla þessa vanlíðan, mætti e.t.v. rekja hana til þess sem var að gerast. Aðspurð hvort einhver breyting til batnaðar hafi orðið hjá telpunni sagði vitnið að eftir að þær fengu vitneskju um hvað hafði gerst virtist telpan vera búin að hreinsa sig algjörlega af þessu. Vitnið kvaðst hafa verið í því hlutverki að þurfa að tilkynna telpunni að hún þyrfti að fara í Barnahús og það hafi verið mikil sorg eftir að vitnið tilkynnti henni það. Telpan hafi fengið allt að því taugaáfall þegar vitnið sagði henni það og hvers vegna hún þyrfti að fara þangað. Aðspurð hvort vitnið hafi verið fyrsta og eina manneskjan sem ræddi um þetta við E sagði vitnið að hún hefði tilkynnt henni um þetta vegna þess að móðir hennar hafi ekki treyst sér til þess. Sem kennari barnsins og sökum þess að hún þekkti telpuna vel hafi hún treyst sér til að gera það. Vitnið kvað telpuna hafa brugðist þannig við að hún hafi sagt að það hefði enginn gert neitt við hana. Telpunni hafi liðið illa, henni hafi orðið flökurt sem hafi endað með að hún kastaði upp og svo hafi hún grátið. Aðspurð hvort E hafi sagt vitninu eitthvað sagði vitnið að hún hafi ekki sagt henni neitt. Kvaðst vitnið hafa ætlað að hugga hana, en hún hafi helst ekki viljað láta koma við sig. Telpan hafi virst jafna sig mjög fljótt því hún hafi komið strax til vitnisins og viljað láta halda utan um sig. Þær hafi svo rætt það að þetta væri ekkert mál og að hún væri dugleg og myndi geta gert þetta. Þetta hafi verið á sunnudegi og svo hafi hún farið með E heim til hennar, rætt við móður hennar og sagt henni að þær væru búnar að ræða þetta. Þær hafi svo rætt þetta heima hjá henni og vitnið hafi sagt telpunni að hún ætlaði að koma með henni. Þær hafi farið báðar með henni í Barnahús og það hafi gengið vel eftir því sem hún vissi til. Sagði vitnið að síðan hafi telpan ekki velt sér upp úr þessu. Hún hafi líkt og hreinsað það af sér, að þetta væri eitthvað sem hún hafi gengið í gegnum og væri búið. Nú sé hún róleg, góð og meðfærileg. Engin vandræði séu með telpuna um þessar mundir, en það væri gjörbreyting. Þetta hafi verið erfitt tímabil að ganga í gegnum.
Vitnið var spurð hvenær það hafi fyrst komið til vitundar hennar að E hefði lent í einhverju sem snerti mál þetta. Vitnið sagði að henni hafi verið tilkynnt þetta ásamt fleiri kennurum. Þeir hafi verið kallaðir hver á fætur öðrum á fund skólastjóra þar sem þeim hafi verið tilkynnt þetta. Vitnið kvaðst hafa þekkt ákærða af góðu einu og hún hafi orðið mjög undrandi þegar nafn hans var nefnt í þessu sambandi. Vitnið kvaðst vilja undirstrika að E hafi verið lítið barn þegar þetta gerðist og ekki hafa haft þroska til að skynja hvort þetta var rétt eða rangt. Aðspurð kvaðst vitnið ekki geta tímasett nákvæmlega hvenær fór að bera á vanlíðan telpunnar. Það hafi verið kringum sjö til átta ára aldur telpunnar að bera fór á þessu. Vitninu var bent á að í ákærunni segði að þetta hafi gerst á árunum 1996 til 1997, þ.e. þegar E var átta til níu ára gömul. Í framhaldi af því var vitnið spurð hvort þessi vanlíðan hafi staðið yfir í langan tíma áður en málið kom upp eða hvort það hafi verið örfáir mánuðir. Vitnið kvað það aðeins hafa verið einhverja mánuði. Eins og hún hafi áður sagt gæti hún ekki tímasett það nákvæmlega. Kvaðst vitnið halda að vanlíðanin hafi verið í einhverja mánuði fyrir nóvember 1998.
VI.
Með bréfi til lögreglustjórans í [...] dagsettu 7. desember 1998 fór Félagsþjónustan í [...] þess á leit að fram færi lögreglurannsókn á meintu kynferðislegu ofbeldi ákærða gagnvart F, [...]. Um nánari upplýsingar væri vísað til samráðsfundar í Barnahúsi.
Umgetinn samráðsfundur var haldinn í Barnahúsi 4. desember 1998. Á fundinum voru lögreglufulltrúi og rannsóknarlögreglumaður frá lögreglunni í [...], saksóknari við embætti ríkissaksóknara, forstöðumaður Barnahúss og félagsráðgjafi frá Félagsþjónustunni í [...]. Í lögregluskýrslu um fundinn segir að umræðuefni hans hafi verið beiðni um rannsókn á ætluðu kynferðislegu ofbeldi ákærða gagnvart F. Félagsþjónustan hafi fengið þessar upplýsingar um grunsemdir stjórnenda [...]skóla, sbr. bréf dagsett 27. nóvember 1998.
Ákærði hefði verið starfsmaður [...]skóla þar til vorið 1998, en þar hafi hann starfað við félagsmiðstöð skólans og sem liðsmaður einstakra nemenda skólans.
Félagsráðgjafinn greindi frá samtali við F, en þar kæmi m.a. fram að ákærði hefði verið liðsmaður hennar. Frásögn F um ætlað brot ákærða gegn henni væri að hann hafi kysst hana og boðið henni fé fyrir, þ.e. að hann hafi boðist til að borga 300 krónur. Þá segði hún hann hafa strokið henni um brjóst og læri. F hafi nefnt sem dæmi að kvöld eitt hafi ákærði sagt móður hennar að þau væru að fara í félagsmiðstöð skólans. Þar sem félagsmiðstöðin væri aðeins opin á daginn hafi móðir hennar talið réttara fyrir þau að fara í kvikmyndahús. F segði að þau hafi ætlað í kvikmyndahús, en ákærði hafi þurft að koma við í félagsmiðstöðinni til að sækja húfu sem hann hafði gleymt og beðið hana að koma inn með sér. Þar innandyra hafi hann reynt að rífa hana úr buxunum og er hún veitti mótspyrnu hafi hann slegið hana. F segði að hún hafi hlaupið út og tekið strætisvagn heim. Þá segði hún að heima hjá ákærða hafi þau horft á klámmyndbönd. Ákærði hafi viljað að hún pissaði í fötu meðan hann horfði á hana. Einnig hafi hún þurft að horfa á hann pissa. F segði að ákærði hafi farið með hana í ökuferð í [...]kirkjugarði. Þar hafi hann strokið henni og kysst og sagt henni að konan hans skildi hann ekki. Þá kæmi fram að hún hafi farið með ákærða í port við [...] þar sem hann hafi reynt að kyssa hana.
Félagsráðgjafinn sagði að ákærði hafi viðurkennt fyrir skólastjóra [...]skóla, svo og skólasálfræðingi, að hann hefði áreitt fjórar stúlkur, þar á meðal F.
Þann 7. desember 1998 var tekið rannsóknarviðtal við F í Barnahúsi. Vitnið greindi frá því að ákærði hafi frá því árið áður verið liðsmaður hennar í [...]skóla. Hafi hún valið ákærða sem liðsmann vegna þess að hann var alltaf skemmtilegur og hún treysti honum. Hún kvaðst hvorki geta sagt til um í hvaða mánuði ákærði byrjaði sem liðsmaður hennar né hvenær hann hóf að sýna henni kynferðislega áreitni.
Vitnið greindi frá því að ákærði hafi í nokkur skipti káfað á lærum hennar og handleggjum, en hann hafi ekki káfað á brjóstum hennar. Er hún var spurð hvort hann hafi káfað á henni utan yfir fötunum eða innan undir þeim sagði hún utan yfir, en stundum innan undar. Einnig greindi vitnið frá því að þau hafi oft farið í sleik. Kvað hún ákærða hafa boðið henni borgun fyrir að segja foreldrum hennar ekki frá. Einnig hafi ákærði viljað borga henni fyrir að fara í sleik við hann og að fá að káfa á henni. Nefndi vitnið upphæðir á borð við 600 krónur fyrir að segja ekki foreldrum frá og 800 krónur fyrir að fara í sleik við hann, en hún hafi ekki viljað að hann borgaði henni. Vitnið var beðin að útskýra hvað hún ætti við með sleik. Sagði hún að það væri þegar maður og kona settu tungurnar saman.
Í eitt skiptið hefði ákærði sótt hana heim, en móðir hennar hefði skrifað á miða að hún vildi ekki að þau færu félagsmiðstöð skólans. Vitnið kvaðst ekki geta tímasett hvenær þetta gerðist að öðru leyti en því að þetta hafi verið um helgi og að kvöldi til. Hún kvað ákærða eigi að síður hafa farið með hana þangað og sagt að hann þyrfti að ná í húfu sem hann hefði gleymt þar. Hún hafi farið með ákærða inn í félagsmiðstöðina, en hann hafi verið með lykil. Kvaðst hún hafa verið hrædd um að ákærði gerði eitthvað við hana. Inni í félagsmiðstöðinni hafi ákærði beðið hana að pissa í fötu og hafi hann ætlað að borga henni fyrir. Þegar hún neitaði hafi hann slegið hana. Vitnið kvaðst hafa pissað í fötuna inni á salerni og hann hafi beðið fyrir utan á meðan. Síðan hafi ákærði pissað í salernisskálina og látið hana horfa á.
Vitnið greindi frá einu atviki er hún var heima hjá ákærða, en hann hafi búið í fjölbýlishúsi. Konan hans hafi ekki verið heima. Hún gæti ekki tímasett heimsóknina, en sagði að ekki væri langt síðan. Kvað hún ákærða hafa sýnt henni klámmyndir. Hann hafi beðið hana að setjast á lærin á sér þar sem hann ætlaði að útskýra fyrir henni það sem verið væri að sýna í klámmyndunum ef hún skildi það ekki. Vitnið sagði að hún hafi sest á læri hans, en hann hafi ekki káfað á henni, hann hafi aðeins haldið utan um hana.
Vitnið sagði að hún hafi ekki viljað horfa á þetta því það hafi verið svo dónalegt, en hann hafi sagt að hún þyrfti að læra þetta. Síðan hafi hann sagt henni að leggjast hjá sér á gólfið þar sem hann ætlaði að sýna henni hvernig ætti að hafa samfarir. Vitnið kvaðst ekki hafa viljað það og þá hafi hann hætt.
Vitnið nefndi atvik þegar þau voru utandyra rétt við heimili ákærða og voru í sleik. Þá hafi kona með hund gengið fram hjá þeim. Þau hafi hlaupið í burtu þar sem ákærði hafi verið hræddur við konuna.
Vitnið nefndi að þau hafi verið í [...] og þar hafi ákærði fengið hana til að fara í sleik. Um tímasetningu kvaðst hún ekki geta sagt. Vitnið nefndi enn eitt tilvik, en það hafi verið um kvöld í kirkjugarði. Þangað hafi þau farið í bifreið sem kona ákærða átti. Vitnið sagði að þau hafi farið út að ganga og rætt saman, en síðan hafi þau farið inn í bílinn. Þar hafi ákærði káfað á henni. Aðspurð hvar hann hafi káfað á henni svaraði vitnið “eins og áður.”
Vitnið var spurð hvers vegna hún hefði ekki sagt frá þessu fyrr. Hún kvað ákærða hafa sagt við hana að ef hún segði frá myndi hann berja hana og vera vondur við hana. Kvaðst hún hafa sagt móður sinni fyrst frá þessu. Undanfarið hafi hún verið mikið ein og m.a. læst sig inni í herbergi og verið pirruð í skólanum. Vitnið var spurð hvenær ákærði hafi síðast áreitt hana kynferðislega. Hún kvað það hafa verið haustið 1998 eða meðan skólinn var.
Ákærði gaf skýrslu hjá rannsóknardeild lögreglunnar í [...] 11. febrúar 1999. Eftir að honum hafði verið kynnt fram komin kæra var hann spurður hvort hann vildi tjá sig um hana. Ákærði kvaðst hafa byrjað sem liðsmaður F í febrúar eða mars 1998. Hún hefði átt frumkvæði að því og sótt það fast að hann yrði liðsmaður hennar. Ákærði kvaðst í fyrstu ekki hafa verið viss um að hann gæti gerst liðsmaður hennar, en ákveðið að slá til. Eftir tvo til þrjá mánuði hafi hún tekið að breytast og farið að tala um kynlíf o.þ.h. Eitt sinn er hann ók henni heim hafi hún kysst hann á kinnina. Hafi það komið honum á óvart. Síðan hafi það ítrekað gerst og hafi hann spurt hana af hverju hún gerði þetta. Hafi F svarað því til að henni fyndist hann góður strákur og henni þætti vænt um hann. Ákærði kvaðst hafa farið nokkrum sinnum heim til F til að sækja hana. Kvað hann sér hafa fundist erfitt að eiga samskipti við móður stúlkunnar.
Ákærði var beðinn að lýsa því í hverju starf hans í [...]skóla var fólgið. Hann kvað starf sitt hafa falist í því að hugsa um börnin í félagsmiðstöðinni eftir að skóla lauk og þar til þau færu heim.
Ákærði sagði að mörg barnanna í [...]skóla hafi hegðað sér illa. Hann hafi verið mjög vinsæll og lítinn frið fengið fyrir stúlkunum. Hann hafi byrjað að vinna í félagsmiðstöðinni á árinu 1994. Eftir eitt ár hafi tvær stúlkur virst vera hrifnar af honum og horft mikið á hann. Þær hafi viljað vera mikið nálægt honum, en hann hafi sinnt sínu starfi. Ákærði kvaðst hafa komið fram við þær með eðlilegum hætti, en þær hafi oft komið til hans. Flestum barnanna hafi þótt hann skemmtilegur og hann hafi sagt þeim sögur.
Ákærði staðfesti að hann hafi undirritað samning um liðveislu við F. Er hann var spurður hvort samningurinn hafi verið tímabundinn kvað hann samninginn hafa gilt fram að áramótum. Honum var kynnt afrit samningsins, dags. 18.02.1998, þar sem fram kæmi að gildistími hans væri fyrir tímabilið 11. febrúar til 10. maí 1998. Ákærði kvað þetta vera samninginn sem hann undirritaði.
Aðspurður kvaðst ákærði áður hafa verið liðsmaður og hafi þeir samningar gilt í eitt ár. Hann kvaðst ekki hafa lesið þennan samning nógu vel og kæmi honum á óvart að hann skyldi ekki hafa gilt í eitt ár. Ákærði kvaðst hafa gefið til kynna, 1. eða 2. júní 1998, að hann ætlaði hugsanlega að hætta störfum. Í ágúst hefði hann gefið það skýrt til kynna að hann ætlaði að hætta.
Ákærði var spurður hve lengi hann hafi umgengist F sem liðsmaður hennar. Hann taldi að það hafi verið í fimm til sjö mánuði eða fram í miðjan júní eða júlí. F hafi viljað að hann héldi áfram. Hann var spurður hvers vegna hann hafi hætt sem liðsmaður stúlkunnar hafi hann staðið í þeirri trú að samningurinn gilti til áramóta. Ákærði sagði að hann hafi ekki verið ánægður að vinna með henni af ástæðum sem hann hafi nefnt.
Ákærða var kynnt að F hafi greint frá því að hann hefði misnotað hana kynferðislega. Aðspurður hvað hann hefði um það að segja sagði ákærði að þetta væri ekki rétt, en hann hafi oft skammað hana. M.a. hafi hann skammað hana fyrir að segja eitthvað ljótt og bent henni á að hún yrði að taka lyfin sín.
Ákærða var kynnt að F hafi greint frá því að hann hefði káfað á lærum hennar og handleggjum, utan yfir fötunum, en stundum innan undir þeim. Ákærði kvaðst aldrei hafa gert þetta. Honum var kynnt að F hefði greint frá því að hann hafi boðið henni borgun fyrir að segja foreldrum hennar ekki frá. Ákærði neitaði þessu.
Honum var kynnt að F hafi greint frá því að hann hefði boðið henni borgun fyrir að fara í sleik við hann og fyrir að fá að káfa á henni. Ákærði neitaði þessu og sagði að ekkert þessu líkt hefði gerst. Honum var kynnt að hún hefði nefnt upphæðir á borð við 600 krónur fyrir að segja foreldrum ekki frá og 800 krónur fyrir að fara í sleik við hann. Ákærði neitaði þessu. Þá var ákærða kynnt að F hafi greint frá því að hann hefði í eitt skipti sótt hana heim, en móðir hennar hafi skrifað á miða að hún vildi ekki að þau færu í félagsmiðstöð skólans. Ákærði kvaðst kannast við þetta. Hann hafi farið með F á rúntinn niðri í bæ. Hann myndi ekki hvenær þetta var, en það hafi verið um helgi.
Ákærða var kynnt að fram kæmi í skýrslu föður F að þetta atvik hafi átt sér stað í júní eða júlí 1998. Í skýrslu móður stúlkunnar kæmi fram að þetta hafi átt sér stað sumarið 1998, einn þeirra daga sem tiltekin málverkasýning stóð yfir. Er ákærði var spurður hvað hann hefði að segja um þetta kvaðst hann ekki muna það. Honum var kynnt að fram kæmi í skýrslu F að hann hafi ekki orðið við beiðni móður hennar, heldur farið í félagsmiðstöðina og sagt við hana að hann þyrfti að ná í húfu sem hann geymdi þar. Hann hafi verið með lykil að félagsmiðstöðinni. Aðspurður kvaðst ákærði ekki muna eftir þessu. Ákærða var kynnt að F hafi greint frá því að þar hafi hann beðið hana að pissa í fötu og ætlað að borga henni fyrir. Þegar hún neitaði hafi hann slegið hana. Ákærði kvaðst kannast við þetta, en það hafi ekki verið í félagsmiðstöðinni. Þá segist hann ekki hafa slegið hana. Ákærði var beðinn að lýsa þessu og hvar þetta hafi gerst. Hann kvaðst hafa verið heima hjá sér í [...] og F hafi verið hjá honum. Kvaðst hann hafa verið að horfa á sjónvarpið, en F hafi langað til að gera eitthvað og hún hafi verið á iði. Hann hafi boðið henni að fara í tölvuna hans, en hún hafi viljað að þau gerðu eitthvað. Hann hafi spurt hana hvort hún vildi spila, en hún hafi viljað að þau gerðu eitthvað annað. Kvaðst hann hafa beðið hana að einbeita sér að einhverju einu og hafa reynt að finna upp á einhverju til að gera. Hann hafi þá sagt henni að pissa í fötu og hafi hún orðið við því. Kvaðst hann hafa sagt henni að hún fengi peninga fyrir að gera þetta og hún fengi peningana eftir á. Ákærði kvað hana hafa fundið fötu, farið inn á baðherbergi og pissað í fötuna meðan hann beið frammi. Þegar hún var komin fram hafi hann áttað sig á hvað hann hafði gert, sagt henni að þetta væru mistök og að hún fengi ekki greitt fyrir þetta. Aðspurður kvaðst ákærði ekki vita hvers vegna hann bað hana að pissa í fötuna. Hann myndi ekki nákvæma dagsetningu þessa atviks, en þetta hafi verið sumarið 1998. Aðspurður kvað ákærði þau ekki hafa gert meira þessu líkt.
Ákærða var kynnt að F hafi greint frá því að hún hefði pissað í fötu fyrir hann inni á salerni og hann beðið fyrir utan á meðan. Síðar hafi hann pissað í salernisskálina og látið hana horfa á. Ákærði sagði að það væri ekki rétt að hann hafi pissað í salernisskálina og látið hana horfa á, en hitt væri rétt.
Ákærða var kynnt að F hafi greint frá því að hann hefði sýnt henni myndbönd með klámfengnu efni. Hann hafi beðið hana að setjast á læri hans og ætlað að útskýra fyrir henni hvað væri á myndböndunum ef hún skildi það ekki. Hún hafi gert það og hann hafi haldið utan um hana. Ákærði sagði að dag einn hafi F nauðað í honum að koma og horfa á klámspólu. Hann hafi ekki viljað það, en látið undan henni að lokum. Hann hafi sett spóluna í tækið, en ekki litist á blikuna og tekið spóluna úr tækinu þrátt fyrir mótmæli hennar. Hún hafi grátbeðið hann að fá að horfa á meira. Hann kvaðst ekki kannast við að hafa beðið hana að setjast á læri sín og ætlað að útskýra fyrir henni myndefnið. Ákærði kvaðst aðspurður hafa átt þetta myndband og þau hafi horft á það heima hjá honum. Þetta hafi gerst í sama skiptið og hún pissaði í fötuna fyrir hann.
Ákærða var kynnt að F hafi jafnframt greint frá því að hún hafi ekki viljað horfa á þessar spólur, en hann sagt henni að hún þyrfti að læra þetta. Hann hafi síðan sagt henni að leggjast hjá honum á gólfið þar sem hann ætlaði að sýna henni hvernig ætti að hafa samfarir. Hún hafi ekki viljað það og hann hafi hætt við. Ákærði kvað þetta ekki hafa gerst.
Ákærða var kynnt að F hafi greint frá því að þau hafi þau farið í sleik fyrir utan heimili hans, en þá hafi kona með hund gengið fram hjá og hann hafi orðið hræddur. Þau hafi því hlaupið burt. Einnig hafi hún sagt að þau hefðu verið í sleik í [...]. Ákærði sagði að þetta væri ekki rétt. Hann hafi aldrei farið í sleik við F.
Ákærða var kynnt að F hafi greint frá því að kvöld eitt hafi þau farið í kirkjugarð í bifreið sambýliskonu hans þar sem hann hafi káfað á henni í bifreiðinni. Aðspurður sagði ákærði að þetta væri ekki rétt.
Þá var tekin skýrsla af ákærða 18. mars 1999. Ákærði kvaðst vilja að það kæmi fram að í ágúst 1998 hafi F ásamt tveimur öðrum stúlkum komið í heimsókn til hans til að sjá nýfædda dóttur hans. Þær hafi komið í vikunni eftir verslunarmannahelgi og barnsmóðir hans hafi verið heima. Stúlkurnar hafi komið upp úr hádeginu og litið á barnið, en staldrað stutt við.
Ákærða var gerð grein fyrir að fram kæmi í skýrslu móður F að hann hafi í félagsmiðstöðinni náð buxum F niður á læri. F hafi hótað að segja móður sinni frá þessu, en þá hafi hann slegið hana og klipið hana í aðra öxlina. Hún hafi þá sparkað í hann og náð að komast undan. Ákærði sagði að þetta væru ósannindi. Hann hafi ekki gert þetta.
Loks var ákærða kynnt fram komin bótakrafa málsins. Hann var beðinn að skýra frá afstöðu sinni til hennar. Ákærði kvaðst alfarið hafna þessari bótakröfu.
Við aðalmeðferð málsins kvað ákærði það vera rétt að hann hafi verið liðsmaður F. Hann var spurður í hverju liðveisla hans hafi verið fólgin. Ákærði kvaðst hafa verið henni til stuðnings og þau hafi gert skemmtilega hluti saman. Aðspurður hve oft það hafi verið, t.d. í viku, sagði ákærði að það hafi verið einu sinni til tvisvar í viku. Þetta hafi verið um helgar og falist í því að fara í kvikmyndahús, gönguferðir eða sund. Ákærði var spurður hvort hann kannaðist við að hafa kysst F og greitt henni fyrir. Hann kvað það ekki vera rétt. Það hafi aldrei gerst. Ákærði var spurður hvort hann kannaðist við að hafa strokið handleggi hennar og læri. Ákærði neitaði því. Hann var spurður hvort hann kannaðist við að hafa girt niður um hana buxurnar í félagsmiðstöðinni. Ákærði neitaði því. Hann var spurður hvort þau hafi stundum verið saman í bifreið hans eða sambýliskonu hans. Ákærði játti því. Hann var spurður hvort hann kannaðist við að hafa strokið hana og kysst þegar þau voru í bifreið sambýliskonu hans eftir að hafa stöðvað bifreiðina við [...]kirkjugarð. Ákærði neitaði því. Hann var spurður hvort hann kannaðist við að hafa sýnt F klámmyndbönd heima hjá sér. Ákærði játaði því. Ákærði kvað F hafa sagt að hún vissi að hann ætti klámmyndbönd og hafi spurt hann hvort hún mætti fá að sjá. Hún hafi þrábeðið hann um þetta, en hann hafi neitað. Að lokum hafi hann gefist upp og fallist á það. Þau hafi verið heima hjá honum og það hafi verið 10 til 15 sekúndur sem hann hafi leyft henni að horfa áður en hann stoppaði. Hún hafi viljað horfa á meira, en því hafi hann neitað. Kvað hann þau hafa horft saman á þessa mynd. Ákærði var spurður hvernig hún hafi vitað að hann átti klámmyndbönd. Hann kvaðst ekki vita það. Hún hafi sagt að hún vissi að hann ætti þau og að henni hafi verið sagt frá því. Ákærði var spurður hvort hann kannaðist við, þegar F var heima hjá honum og var að horfa á myndbandið, að hann hafi setið með hana í fanginu. Ákærði neitaði því. Hann var spurður hvort hann hafi beðið hana að leggjast með sér á gólfið svo hann gæti sýnt henni hvernig kynmök fara fram. Ákærði neitaði því. Hann var spurður hvort þau hafi rætt um kynferðismál. Ákærði kvaðst hafa spurt F hvort hún væri brjáluð og hafa sagt að hann leyfði henni ekki að horfa á meira og hafi stöðvað myndbandið. Aðspurður hvernig mynd þetta var sagði ákærði að það hafi verið maður og kona í samförum. Aðspurður hvernig F varð við kvaðst ákærði ekki vita það. Eftir að hann var búinn að slökkva á tækinu hafi hún virkað dálítið spennt, þannig að hann hafi áttað sig á því að þetta hafði ekki góð áhrif á hana. Henni hafi þó virst líða eðlilega. Ákærði var spurður hvort það hafi verið eftir að þau höfðu horft á klámmyndina sem hann lét F pissa í fötuna. Ákærði kvað það vera rétt að það hafi verið skömmu seinna og að það hafi verið heima hjá honum. Ákærði var spurður hvort hann kannaðist við að hafa látið F pissa í fötu á salerni félagsmiðstöðvarinnar. Ákærði neitaði því. Þá var ákærði spurður hvort hann hafi í sama skipti látið F horfa á hann pissa. Ákærði kvað það ekki hafa gerst. Hann hafi eingöngu látið hana pissa og það hafi gerst á heimili hans. Aðspurður í hvaða tilgangi hann hafi látið hana pissa í fötu á heimili hans kvaðst ákærði ekki skilja hvers vegna hann gerði það. Aðspurður hvernig F hafi brugðist við sagði ákærði að hún hafi játað því og spurt hvort hún fengi fé fyrir. Hann hafi boðið henni fé, en ekki borgað henni fyrir þetta. Loks var ákærði spurður hvort hann kannaðist við að hafa kysst stúlkuna, þ.e. í porti nálægt [...], rétt við heimili hans og í [...]. Ákærði kvað þetta ekki vera rétt. Honum var bent á að þetta byggði á frásögn stúlkunnar. Hann var spurður hvort hann gæti ímyndað sér hvers vegna hún segði þetta ef það væri ekki rétt. Ákærði sagði að hún færi með ósannindi. Það sem hún segði væri ekki allt rétt. Hann hafi verið liðsmaður hennar og hann hafi veitt því eftirtekt að það hafi komið fyrir að hún laug að honum og bjó til sögur. Kvaðst ákærði halda að e.t.v. fyndist henni gaman að tala um þessa hluti, búa eitthvað til.
Ákærði var spurður hvort hann hafi átt mörg klámmyndbönd. Hann kvaðst hafa átt tvö eða þrjú. Aðspurður hvort hann hafi verið með þau í félagsmiðstöðinni kvaðst hann aldrei hafa verið með þau þar, heldur aðeins heima hjá sér. Ákærða var gerð grein fyrir að á heimili hans hafi verið haldlagðar myndbandsspólur, þar af ein klámspóla. Hann kvaðst kannast við það. Ákærði var spurður hvort hann kannaðist við að hafa sýnt einhverri stúlku þá spólu. Hann kvað þetta vera spóluna sem hann sýndi F.
Við aðalmeðferð málsins var vitnið, F, fyrst beðin að skýra frá því þegar ákærði reyndi að kyssa hana. Vitnið kvað ákærða hafa kysst hana heima hjá honum, við [...], bak við bókabúðina á [...], í félagsmiðstöð [...]skóla og í [...]kirkjugarði. Aðspurð hvers vegna hún hafi farið með ákærða í félagsmiðstöðina sagði vitnið það hafi verið vegna þess að fyrst hafi þau farið á myndlistasýningu og þau hafi ætlað að vera þar. Þá hafi ákærði sagt að hann ætlaði að ná í húfu sem hann ætti í félagsmiðstöðinni. Ákærði hafi spurt hana hvort hún vildi koma með og því hafi hún játað. Þau hafi svo farið að félagsmiðstöðinni og ákærði hafi opnað, en hann hafi ekki náð í húfuna. Þegar þau voru komin inn í félagsmiðstöðina hafi ákærði beðið hana að pissa í fötu. Einnig hafi hann reynt að girða niður um hana. Þegar hún vildi það ekki hafi ákærði slegið hana nokkuð fast í andlitið. Vitnið sagði að þau hafi verið tvö ein í félagsmiðstöðinni greint sinn. Skólinn hafi verið búinn að banna ákærða að fara inn í félagsmiðstöðina um helgar, en þetta hafi verið um helgi. Ákærði hafi verið með lykil og hann hafi farið með hana þar inn, enda þótt hann vissi að hann mætti það ekki. Vitnið kvað ákærða hafa beðið hana að koma með sér inn á salerni og þar hafi hún þurft að pissa í fötu fyrir hann. Ákærði hafi svo reynt að girða niður um hana, en það hafi hún ekki viljað og þá hafi hann slegið hana. Kvaðst vitnið hafa náð að komast út, hlaupið að brekkunni skammt frá [...] og komist þar upp í strætisvagn, en ákærði hafi hlaupið á eftir henni. Vitnið kvaðst hafa farið heim til sín og er hún var komin þangað hafi móðir hennar spurt hana hvað hafi gerst með andlitið á henni, en hún hafi ekki viljað segja henni það. Aðspurð hvort ákærði hafi sagt eitthvað við hana sagði vitnið að hann hafi hótað að nauðga henni og drepa hana ef hún segði foreldrum sínum frá. Þá kvaðst hún hafa verið hrædd.
Vitnið var beðin að skýra frá því sem gerðist í [...]kirkjugarði. Hún kvað þau hafa farið inn í -[...]kirkjugarð í bifreið hans. Ákærði hafi þá verið liðsmaður hennar og þetta hafi verið um helgi. Vitnið kvað ákærða hafa stöðvað bifreiðina og sagt henni að hann og konan hans væru skilin og að hann vildi byrja með henni. Kvaðst vitnið hafa spurt ákærða hvers vegna hann vildi byrja með henni og þá hafi hann sagt að hann og konan hans væru alltaf að rífast. Ákærði hafi spurt hana hvort hún vildi vera með honum, en hún hafi sagt að hún væri alltof ung fyrir hann. Þá hafi ákærði byrjað að káfa á lærum hennar. Kvað hún ákærða hafa setið í ökumannssætinu, en hún hafi setið við hlið hans. Aðspurð kvað vitnið ákærða hafa káfað á lærum hennar utanklæða. Aðspurð hvað hafi gerst eftir að ákærði káfaði á henni sagði vitnið að þau hafi farið að keyra. Vitnið sagði aðspurð að ákærði hafi viljað kyssa hana í bifreiðinni í kirkjugarðinum, en hún muni ekki hvort hún hafi játað því eða neitað. Vitnið kvað þetta atvik hafa gerst á undan atvikinu í félagsmiðstöðinni.
Vitnið var beðin að greina frá því hvað gerðist bak við bókabúðina við [...]. Hún kvað ákærða hafa kysst hana þar. Nánar aðspurð kvað hún þau hafa farið í sleik. Aðspurð sagði vitnið að þau hafi gengið heiman frá ákærða niður á [...]. Hún var spurð hvort hún myndi hvað þau voru að gera heima hjá honum áður en þau fóru þangað. Vitnið kvað konu ákærða hafa verið að heiman. Ákærði hafi átt klámmyndbönd og sýnt henni þrjú. Áður en hann gerði það hafi hann þurft að fara á salernið. Vitnið kvað ákærða hafa beðið hana að horfa á meðan hann var á salerninu og það hafi hún gert. Aðspurð kvaðst vitnið hafa séð lim ákærða meðan hann var að kasta af sér vatni. Þegar ákærði var búinn á salerninu hafi hún þurft að fara þangað. Kvað hún ákærða hafa beðið hana að pissa í fötu og hafi hún orðið við því. Hún var spurð hvað svo hafi gerst. Vitnið sagði að ákærði hafi verið með poka og hafi hann hellt þvagi hennar úr fötunni í pokann, bundið fyrir hann og síðan hent pokanum í sorprennuna. Ákærði hafi ekki lokað pokanum nógu vel með þeim afleiðingum að maður sem var niðri hafi fengið eitthvað á sig og síðan hafi fólk komið æðandi upp og bankað á hurðina á íbúð ákærða. Ákærði hafi beðið hana að fara inn á salerni og læst hana þar inni. Kvað hún ákærða hafa slökkt öll ljós inni hjá sér og hafi hann sagt að þau skyldu ekki að hafa hátt. Vitnið kvaðst hafa orðið hrædd. Þegar fólkið var farið hafi ákærði sýnt henni klámmynd og viljað sýna henni hvernig fólkið í myndinni færi að. Aðspurð hvernig hann hafi gert það sagði vitnið að hún kynni ekki almennilega að tákna það. Aðspurð hvort hann hafi sagt henni að gera eitthvað sagði vitnið “hafa samfarir.” Hún var spurð hvort hann hafi spurt hana að því. Vitnið svaraði að hann hafi gert það, en bætti við að þau hafi verið í fötum. Nánar aðspurð hvernig hann hafi gert það sagði vitnið að þau hafi legið á gólfinu í stofunni fyrir framan sjónvarpið. Kvaðst vitnið hafa legið á bakinu á gólfinu og ákærði hafi legið ofan á henni. Vitnið var spurð hvort ákærði hafi sýnt henni eitthvað svipað og fór fram á myndbandinu. Hún kvað það hafa verið öðruvísi. Vitnið kvaðst vera alveg viss að þau hafi ekki farið úr neinum fötum. Aðspurð hvort ákærði hafi snert hana játti vitnið því. Minnti vitnið að það hafi einungis verið innanklæða, nánar tiltekið innanundir peysunni. Vitnið var spurð hvort hún hafi legið flöt á gólfinu eða með með fæturna sundur. Hún kvaðst hafa verið með fæturna sundur. Kvaðst hún ekki muna til að ákærði segði neitt.
Vitnið var beðin að lýsa því nánar sem gerðist heima hjá ákærða þegar hann lá ofan á henni. Í því sambandi var hún spurð hvað ákærði sagði við hana. Vitnið kvaðst hafa sagt að hún kynni það sem sýnt væri á myndbandinu, en hann hafi endilega viljað sýna henni hvernig ætti að gera og spurt hana hvort hún vildi vera án fata, en því kvaðst vitnið hafa neitað og ákærði hafi skilið það. Kvaðst hún hafa legið á gólfinu og þá hafi ákærði gert þetta. Hann hafi verið í fötunum og hún einnig að því undanskildu að hún hafi ekki verið í peysunni, en bol. Er vitnið var spurð hvort eitthvað fleira hafi gerst umrætt sinn kvað hún þau hafa farið í sleik. Ákærði hafi sagt að hún mætti ekki segja foreldrum hennar frá þessu. Einnig hafi hann hótað henni að hann myndi berja hana. Þá kvað vitnið ákærða hafa slegið hana eins og í félagsmiðstöðinni. Vitnið kvaðst hafa komið fjórum sinnum heim til ákærða. Kvaðst hún halda að hún hafi horft þrisvar sinnum á klámmyndir heima hjá ákærða. Aðspurð sagði vitnið að ákærði hafi verið einn heima í þau þrjú eða fjögur skipti sem hún kom heim til hans.
Vitnið kvað ákærða hafa kysst hana fyrir utan [...]. Nánar tiltekið hafi hann tekið í hana og kysst hana. Kvað vitnið það hafa verið sleik og ákærði hafi sagt að það myndi taka tíma. Fólk hafi séð til þeirra og þá hafi þau hætt.
Vitnið kvað ákærða einnig hafa kysst hana á stað sem hún viti ekki hvað heitir. Aðspurð hvort hún gæti lýst staðnum sagði vitnið að þetta væri á leiðinni niður á [...]. Sagði vitnið að þegar þau voru að kyssast hafi hundur komið og gelt að þeim. Kona hafi komið, séð þau og gargað á þau og þá hafi þau hlaupið burt. Aðspurð sagði vitnið að þetta hafi verið sleikur. Sagði vitnið að þegar þau kysstust hafi það alltaf verið eins. Hún var spurð hvort ákærði hafi borgað henni fyrir. Vitnið játti því og er hún var beðin að lýsa því nánar kvaðst hún halda að hann hafi borgað henni 600 krónur fyrir einn sleik. Kvaðst vitnið muna að hún hafi verið búin að safna 5000 krónum sem ákærði hafði látið hana hafa sem greiðslu fyrir að fá að kyssa hana og fyrir að segja ekki frá.
Vitnið var spurð nánar um það sem gerðist í félagsmiðstöðinni, hvort ákærði hefði hótað að gera eitthvað meira við hana. Vitnið kvað ákærða hafa hótað henni því að ef hún segði frá myndi hann nauðga henni og drepa hana eða foreldra hennar. Vitnið var spurð hvort hún hafi farið heim til ákærða eftir atvikið í félagsmiðstöðinni. Svar vitnisins var að hún hafi þurft að gera það því annars hefði ákærði vitað að hún hafi sagt foreldrum sínum frá. Hún var spurð hvort hún hafi hitt ákærða mörgum sinnum eftir þessa hótun. Vitnið sagði að ákærði hafi átt að hætta sem liðsmaður hennar á réttum tíma, en það hafi hann ekki gert. Hann hafi verið með hana lengur en hann átti að vera. Aðspurð hvernig hafi staðið á því sagði vitnið að hún vissi það ekki. Vitnið var beðin að lýsa því hvað fælist í því að vera liðsmaður. Vitnið nefndi að það gæti verið að fara í kvikmyndahús, í ökuferðir og að ræða saman. Kvaðst hún aðspurð halda að liðveislan hafi staðið meira en ár, en hún væri þó ekki viss um þetta.
Vitnið var spurð hve lengi hún hafi horft í einu á klámspólur hjá ákærða. Hún kvað það hafa verið klukkutíma. Kvaðst hún aðspurð hafa horft á margar myndir. Vitnið var spurð hvers vegna hún hafi ekki sagt frá því í Barnahúsi að ákærði hafi hótað að nauðga henni og jafnvel drepa hana eða foreldra hennar ef hún segði frá. Svar vitnisins var að hún hafi ekki vitað að það væri hægt að segja frá því í Barnahúsi. Þá kvaðst vitnið hafa sett á blað punkta um samskipti sín og ákærða. Aðspurð kvað hún það aðallega hafa verið um klámspólurnar. Kvaðst hún hafa skrifað þetta á dálitlum tíma heima hjá sér.
Vitnið var loks spurð um líðan sína frá því þetta gerðist og meðan það var að gerast. Svar vitnisins var að henni liði mjög illa á kvöldin. Þá kvaðst hún vera stressuð í skólanum. Það sem ákærði gerði henni hafi haft mjög mikil áhrif á hana. Aðspurð hvort henni hafi liðið illa meðan ákærði var liðsmaður hennar játti vitnið því og bætti við að hún hafi ekki viljað sýna honum hvernig henni leið. Ákærði væri búinn að eyðileggja hana. Hún væri ekki búin að ná sér eftir þetta og hún ætti í erfiðleikum í skóla.
Móðir F, I, kom fyrir dóminn. Vitnið var fyrst spurð hvenær og með hvaða hætti F opnaði fyrst á þetta mál við hana. Vitnið sagði að þau hjónin hafi verið að koma frá Bandaríkjunum. Hafi þá legið fyrir skilaboð um að það væri neyðarfundur í skólanum. Það hafi verið skólasálfræðingurinn sem hafi beðið þau að koma á þennan fund. Sagði vitnið að þau hafi farið í [...]skóla þar sem þeim hafi verið sagt frá þessu. Vitnið sagði að þegar þau komu heim hafi hún fært þetta í tal við F. Kvaðst vitnið hafa sagt við hana að komið hefði upp kynferðisbrotamál og nafn ákærða hafi komið upp í þeirri umræðu. Vitnið kvaðst aldrei gleyma þessu. Það hafi verið hræðslusvipur á F. Stúlkan, sem alltaf hafi verið svo opin, hafi hvítnað af hræðslu, augu hennar hafi verið rauð og andlitið hvítt. Kvaðst vitnið þá hafa vitað að eitthvað hræðilegt hafði hent F, en hún hafi ekkert viljað segja vitninu. F hafi sagt að þetta væri leyndarmál milli hennar og ákærða og að hún mætti ekki segja vitninu frá því vegna þess að þá yrði hann reiður út í hana. Sagði vitnið að sökum hræðslu og sektarkenndar hafi það tekið langan tíma fyrir F að opna sig og segja frá því sem gerðist milli hennar og ákærða. Vitnið kvað F hafa átt erfitt með að opna sig, en fyrsta kvöldið hafi hún byrjað að tala um að ákærði hefði misnotað hana. Vitnið kvaðst ekki muna nú í hvaða röð F skýrði henni frá, en hún hafi sagt henni frá því þegar ákærði reyndi að taka eða tók buxurnar niður um hana í félagsmiðstöðinni og að það hafi verið á laugardegi í júlí. Vitnið kvaðst hafa spurt F hvað þau ætluðu að gera þann dag og þá hafi hún sagt að hún mætti ekki segja frá því. Það væri leyndarmál og ákærði vildi ekki að hún segði frá því, en hann vildi fara með hana í félagsmiðstöðina. Vitnið kvaðst hafa sagt að þau færu ekki í félagsmiðstöðina á laugardegi. Þau ættu að gera eitthvað menningarlegt, sem hún gæti lært af. Kvaðst vitnið hafa skrifað á blað til ákærða að hún vildi alls ekki að hann færi með F í félagsmiðstöðina þegar hún væri lokuð. Ákærði hafi eigi að síður farið með hana þangað. Kvað vitnið F hafa sagt að ákærði hafi reynt að nauðga henni. Hann hafi náð niður um hana buxunum, en hún hafi sagt við hann að hætta þessu og að hún myndi segja vitninu frá þessu. Ákærði hafi slegið hana, hún hafi náð að sparka í hann og hann hafi klipið hana í öxlina. Hún hafi einhvern veginn náð að komast út, komist upp í strætisvagn án þess að hafa peninga, en fengið far og komið heim. Hafi F, eins og oft gerðist eftir að ákærði varð liðsmaður hennar, lokað sig inni í herbergi og einangrað sig. Aðspurð hvort vitnið myndi þegar F kom heim umrætt sinn sagði vitnið að hún hafi komið heim seinni hluta dags og þá hafi hún, eins og alltaf á þessu tímabili, farið rakleiðis inn í herbergi sitt, lokað að sér og sett tónlist á.
Vitnið var beðin að lýsa líðan F, hvað hafi á daga hennar drifið eftir að málið kom upp og farið var að spyrja hana nánar út í það og taka af henni skýrslur. Vitnið sagði að F sé búið að líða mjög illa. Hún hafi ekkert sjálfsálit, hún feli sig og líkama sinn, hún lokaði sig inni á baði, hún setti handklæði fyrir skráargatið á hurðinni þegar hún færi í sturtu og hún væri einungis í of stórum fötum vegna þess að hún vildi hvorki sýna brjóst sín né líkamslínur. Þá hafi hún farið að einangra sig frá jafnöldrum sínum, en vildi fremur vera ein eða með sér miklu yngri krökkum. Þá vildi hún ekki ræða um neitt tengt líkamanum og ætti erfitt með að læra líffræði í skóla. Þá hafi hún misst úr heilt ár í skóla. Hún hafi ekki fengið kennslu þar sem hún hafi ekki getað einbeitt sér. Hún hafi farið út í frímínútum, farið út að ganga og grátið. Einnig hafi hún átt erfitt með svefn og haft martraðir um nætur. Á þessu tímabili hafi það verið einkennilegt að þegar þau voru að horfa á sjónvarpið hafi faðir hennar hvorki getað setið nærri henni né mátt snerta hana. Henni hafi fundist þetta allt svo óþægilegt og enn þann dag í dag feli hún eigin líkama, hafi mjög lítið sjálfstraust og vilji fela sig.
Aðspurð sagði vitnið að F hafi verið í meðferð í Barnahúsi hjá Rögnu Guðbrandsdóttur. Hafi sú meðferð komið að mjög góðu gagni. Loks staðfesti vitnið að eftir að ákærði varð liðsmaður F hafi hún farið að einangra sig gagnvart foreldrum sínum.
Faðir F, J, kom fyrir dóminn. Hann var fyrst beðinn að lýsa því með hvaða hætti F sagði foreldrum sínum fyrst frá því sem hún hafði upplifað í samskipum sínum við ákærða. Vitnið kvað þau hafa fengið upplýsingar um þetta á áríðandi fundi sem haldinn var í skólanum. Fyrst og fremst hafi komið þar fram að eitthvað óeðlilegt væri á ferðinni og með það hafi þau farið heim. Þar hafi þau spurt F að því og hún hafi brotnað niður í þeirri frásögn allri. Hún hafi reynt að skýra þeim frá því helsta kringum þetta og þau hafi rifjað upp með henni atburði sem kynnu að vera tengdir þessu. Ýmislegt hafi rifjast upp fyrir þeim í tengslum við þessa liðveislu þar sem ákærði hafi farið með henni í ferðalög víðs vegar um borgina. Aðspurður hvort honum hafi fundist verða breyting á F meðan á liðveislu ákærða stóð eða hvort hún hafi verið ánægð sagði vitnið að F og ákærði hefðu mælt sér mót um helgar. Sagði vitnið að eftir þessar ferðir hafi F oft verið ein inni í herbergi sínu og eytt þar stundum án þess að koma fram og ræða við foreldra sína. Kvað vitnið þau að svo stöddu ekki hafa séð neitt óeðlilegt í þessu samhengi, en þegar farið væri að leggja hlutina saman vöknuðu ýmsar spurningar. Hann sæi eftirá ýmis mynstur, en það hafi e.t.v. ekki legið ljóst fyrir þegar hlutirnir voru að gerast.
Er vitnið var spurður hvernig honum fyndist líðan F vera eftir að hún greindi frá þessu í desember 1998 til dagsins í dag sagði vitnið að líðan hennar hafi verið slæm eftir að þetta byrjaði. Henni hafi liðið illa á margan hátt út af þessu, verið undir miklu álagi og sé enn. Sjálfsagt þurfi að hjálpa henni enn um sinn til að komast út úr þessu. Meðan þetta var leyndarmál hafi það ekki farið lengra, en þegar þetta hafi verið komið þannig að allir vissu hafi það verið mikið áfall fyrir hana og hún hafi látið það í ljós. Aðspurður kvað vitnið það bera við að hún ræddi þetta við foreldra sína og vildi fá skýringar á einhverjum atriðum. Þau reyni að hughreysta hana og veita henni styrk, en enn sé þó langt í land.
Vitninu var kynntur sá hluti skýrslu hans við lögreglurannsókn málsins 22. janúar 1999 þar sem hann lýsti því þegar vitnið og kona hans voru kölluð á fund í skólanum og komust að þessu. Í skýrslunni lýsti hann því að hann hafi ekki orðið var við miklar breytingar hjá F svo og að foreldrar hennar hafi ekkert vitað. Síðan væri haft eftir honum um heilsu F að hún hefði ekkert breyst og að stúlkan væri mjög heilsuhraust. Vitnið var spurður hvort hugsanlegt væri að þetta hafi ekki verið alvarlegra en svo og ekki haft meiri áhrif á hana að mati vitnisins, eins og hann lýsti í skýrslunni, að ef öll umfjöllunin um málið hefði ekki farið í gang þá hefði þetta blessast sæmilega. Vitnið svaraði að hann stórefaðist um það sökum þess að vitaskuld væri komið sár sem sjálfsagt hefði sprungið að lokum. Þetta hefði fyrr en síðar orðið að því máli sem það er. Særindin hafi búið undir niðri, en þau væru komin upp á yfirborðið. Vitnið var spurður hvort hann væri viss um að umfjöllunin, allan þann tíma sem málið hefur staðið yfir, hafi ekki haft áhrif til ills og að hún væri þrúguð vegna þess að alltaf væri verið að argast í henni vegna málsins. Búið væri að yfirheyra hana í Barnahúsi aftur og aftur, sálfræðingar, hjá Stígamótum og fleiri. Vitnið sagði að ekki væri verið að argast í henni, heldur væri það til að hjálpa sálarlífi ungrar stúlku sem hefði lent í hremmingum.
Vitnið tók fram að samninginn sem gerður var við ákærða um liðveisluna hefðu þau hjónin aldrei fengið að sjá. Þegar hann kom loks upp á yfirborðið eftir að málið fór af stað hafi þau séð að gildistími hans hafi verið út maí. Þau hafi haldið allan tímann sem ákærði sótti hana í maí, júní og júlí að samningurinn væri í gildi. Þeim þætti afar slæmt að þau hafi ekki fengið neinar upplýsingar um að starfi ákærða var lokið.
Vitnið sagði að um einhverja helgi hafi F talað um leyndarmál sem væri milli hennar og ákærða. Hún hafi ekki viljað segja hvað það var þegar þau gengu á hana, en svo hafi hún sagt, þegar var gengið á hana, að þau ætluðu að fara upp í skóla. Þeim hjónunum hafi þótt þetta einkennilegt vegna þess að skólinn var lokaður. Þegar ákærði kom til að sækja F hafi þau lagt bann við að þau færu í skólann, heldur færu þau í bæinn að skoða söfn eða eitthvað þess háttar. Kvað vitnið þetta vera þann atburð þegar ákærði greip í hana sem svo varð til þess að samband þeirra endaði. Kvaðst vitnið ekki muna betur en að ákærði hafi ekki komið eftir þetta.
R, félagsráðgjafi við [...]skóla, kom fyrir dóminn. Vitnið var fyrst beðin að greina frá því hvenær hún fékk vitneskju um málið. Hún kvaðst hafa fengið að vita þetta í nóvember 1998. Það hafi borið þannig til að aðstoðarskólastjórinn, K, hafi kallað vitnið á sinn fund og skýrt henni frá því að tvær stúlkur í skólanum, C og B, hefðu komið á fund kennara að nafni S og greint frá því að ákærði hefði verið með kynferðislega tilburði við þær. Vitnið kvað hvoruga þessara stúlkna hafa talað við sig áður. Vitninu var gerð grein fyrir að ákærði hefði verið liðsmaður F. Aðspurð kvaðst vitnið hafa haft milligöngu í því sambandi. Hún var spurð í hverju það starf ákærða hafi verið fólgið. Vitnið sagði að markmið liðveislu væri að gefa fötluðum börnum tilbreytingu og væri ætluð til að rjúfa félagslega einangrun þeirra. Ákærði hafi verið búinn að starfa við skólann í nokkurn tíma og hafi verið mjög vinsæll. Vitnið kvað F hafa komið til sín í janúar 1998 og sagt vitninu að hún hefði áhuga á að ákærði yrði liðsmaður hennar. Einnig hafi F sagt að hún hefði sjálf rætt við ákærða og hann hafi sagt að hann væri tilbúinn til að taka þetta að sér. Kvaðst vitnið síðan hafa gengið frá því formlega. Félagsmálastofnun [...] greiði fyrir þessa þjónustu. Ákærði hafi svo byrjað sem liðsmaður hennar í febrúar 1998. Hafi það verið á bilinu 16 til 20 tímar í mánuði sem hann hafi átt að vera samvistum við stúlkuna. Vitnið kvað gildistíma samningsins hafa verið þrjá mánuði. Aðspurð hvort það hafi verið tíðkanlegt að þeir væru gerðir til svo skamms tíma í senn sagði vitnið að það væri alltaf gert fyrst. Síðan væru samningarnir endurnýjaðir. Aðspurð hvort hún hafi fylgst með hvernig liðveislan fór fram kvaðst vitnið hafa hitt ákærða mánaðarlega og fylgst með þessu eins og hún gat. Sagði vitnið aðspurð að ekki hafi verið rætt um framhald á þessu eftir að samningstíma lauk. Vitnið var spurð hvort hún hafi rætt það við F hvernig henni líkaði liðveislan. Vitnið játti því og kvað hana aldrei hafa talað um annað en að allt væri í lagi. Ekki hafi verið um það að ræða að F kvartaði undan ákærða eða léti í ljós vonbrigði með liðveisluna. Aðspurð hvort vitnið hafi rætt við einhverja þessara stúlkna eftir að málið kom upp sagði vitnið að í framhaldi af þessu hefði F komið til vitnisins og sagt henni utan og ofan af þessu. Hafi hún lýst því fyrir vitninu hvað ákærði hafði gert henni. F hafi þó ekki sagt vitninu frá einstökum atriðum, en hún hafi sagt að ákærði hefði haft í frammi hótanir og þess vegna hafi hún ekki þorað að ræða um þetta. Þá hafi F talað um að hann hefði farið með hana á ýmsa staði á ýmsum tímum, verið með henni í félagsmiðstöðinni eftir að allir voru farnir, farið með hana þangað um helgar og sýnt henni klámmyndbönd, og farið með hana heim til hans og sýnt henni klámmyndbönd. Hún hafi þó aldrei sagt vitninu frá því í smáatriðum hvað hann gerði, en hún hafi látið að því liggja að hann hafi gengið nokkuð langt. Aðspurð hvort vitninu hafi fundist að það gengi nærri F að segja frá þessu sagði vitnið að henni hafi fundist svo vera. Kvað vitnið sér finnast eins og það hafi verið mikill léttir hjá henni að málið opnaðist og hægt var að tala um þetta.
Vitnið var spurð hvort foreldrar stúlkunnar hafi haft eitthvað um liðveislusamninginn að segja. Hún kvað hann hafa verið gerðan í samráði við foreldra. Vitninu var bent á að fram væri komið í málinu að þrátt fyrir að samningurinn hafi runnið út í maí hafi liðveislan haldið áfram eitthvað fram eftir sumri. Aðspurð kvað vitnið það hafa verið ákveðið munnlega af þeim. Vitninu var kynnt að í skýrslunni sem hún gaf við lögreglurannsókn málsins segði hún að F hafi verið ákaflega opin. Einnig segði hún að F hafi átt við hegðunarvanda að stríða sem vitnið hafi þurft að skipta sér af. Vitnið staðfesti að þetta væri rétt eftir henni haft.
Ragna Björg Guðbrandsdóttir félagsráðgjafi, starfsmaður Barnahúss, kom fyrir dóminn. Vitninu var kynnt að í framhaldi af komu F í rannsóknarviðtal í desember 1998 í Barnahús þar sem Vigdís Erlendsdóttir ræddi við hana hafi vitnið tekið F í meðferð. Vitnið sagði að barnaverndarnefnd hafi óskað eftir að F fengi meðferð í Barnahúsi og hún hafi séð um þá meðferð. Vitnið var beðin að greina frá því í hverju meðferðin var fólgin og hvernig hún hafi farið fram. Vitnið kvað F hafa verið í meðferð hjá sér frá því í lok desember 1998 og sé það enn. Tekið hafi verið hlé sumarið 1999, en að mestu leyti hafi hún komið til vitnisins einu sinni í viku, stundum þó aðra hverja viku. Kvað vitnið meðferðina fyrst og fremst felast í því að skapa aðstæður fyrir einstaklinginn, í tilviki F til þess að vinna traust og skapa öruggar aðstæður þar sem hún getur tjáð sig um það sem hún hefur upplifað. Meðferðin gangi út á að hjálpa henni að skilja það sem hún hefur upplifað og átta sig á þeim hugsunum og tilfinningum sem tengjast því sem hún hefur upplifað og tjá sig um það og vinna með það. Vitnið var spurð hvernig F hafi verið tilfinningalega stemmd þegar hún kom fyrst til vitnisins í desember 1998 og einnig hvort hún hafi átt auðvelt með að ræða þetta eða með hvaða hætti hún hafi tjáð sig við hana. Vitnið kvað þær hafa haft táknmálstúlk sem hafi verið með þeim í fyrstu fjögur skiptin, en eftir það hafi F látið þær vita að hún vildi frekar hitta vitnið einsömul. Þá hafi hún verið búin að læra á röddina og tóntegundina og hafi getað skilið vitnið og hún hafi skilið hana mjög vel, þannig að eftir það hafi þær aðeins hist tvær. Þetta sé langur tími og talsverður tími hafi farið í að mynda slíkt traust að hún væri tilbúin. F hafi í fyrstu alls ekki verið tilbúin til þess að ræða það sem hún hafði sjálf upplifað. Hún hafi hreinlega ekki getað það, en síðan hafi það komið smám saman. Aðspurð sagði vitnið að samtals hafi F komið til hennar í 39 skipti. Vitnið var spurð hvort hún gæti lýst einhverjum breytingum sem hafi verið merkjanlegar fyrir henni frá því hún hitti F fyrst þar til nú. Vitnið sagði að hún væri komin nær því að geta sett ábyrgðina á réttan stað, þ.e. hún væri lítillega hætt að kenna sjálfri sér um og hún ætti orðið auðveldara með að tjá sig um það sem gerðist og væri farin að skilja það betur. Það væri ennþá mjög erfitt fyrir hana, en það hafi tekist, þannig að hún hafi komið mikið til á þessum tíma. Aðspurð hvort það hafi verið ríkjandi þáttur í frásögn F fyrr, að kenna sjálfri sér um, sagði vitnið að það væri vitaskuld eitt af því sem væri algengt hjá þolendum kynferðisofbeldis og í hennar tilviki hafi þetta verið mjög sterkt og mjög viðvarandi, þ.e. í langan tíma. Það væri í raun og veru fyrst nú eftir áramót sem hún væri að verða tilbúin að ræða það. Vitnið var spurð hvort F hafi greint henni frá þessu með sama hætti, í þau skipti sem þær ræddu það, og hún gerði í rannsóknarviðtalinu í Barnahúsi í desember 1998 eða hvort eitthvað hafi breyst eða bæst við. Vitnið sagði að það væri í megindráttum eins og hún greindi frá þessu. Vitnið sagði að í ljós hafi komið að hún hafi haft mjög slæmar martraðir út af því sem gerðist eða því sem hún sá á myndböndunum, þannig að hún hafi farið miklu nákvæmar í það hjá vitninu en í rannsóknarviðtalinu. Reyndar hafi hún ekki treyst sér fullkomlega til að tala um það allt, heldur hafi hún skrifað mikið af því niður sem hún sá á þessum myndböndum. Kvað vitnið hana hafa skrifað það heima og síðan hafi hún komið með það til vitnisins sem hafi lesið það yfir, en í raun hafi þær ekki rætt það mikið. Þetta hafi sært blygðunarkennd F í þeim mæli að vitnið hafi ekki lagt hart að henni að segja það í orðum sem hún hafði sett á blað.
Frammi liggur í málinu vottorð Þóru Fischer kvensjúkdómalæknis dagsett 1. febrúar 1999 um skoðun á F. Þar kemur fram að stúlkan hafi farið í læknisskoðun 21. janúar s.á. Niðurstaða skoðunarinnar er þessi: "Eðlilegur kynþroski miðað við aldur. Ytri kynfæri virðast eðlileg, meyjarhaft heilt. Engin merki finnast um gamlan eða nýlegan áverka. Íþrenging (penetration) í leggöng stúlkunnar er því ólíkleg, en skoðun útilokar þó ekki að stúlkan hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi."
Þá er meðal gagna málsins skýrsla dagsett 17. mars 1999 um athugun Tryggva Sigurðssonar sálfræðings á þroska F. Í niðurstöðum skýrslunnar segir svo:
“Almennt: F er samvinnufús við athugun. Hún sýnir þó óöryggi gagnvart verkefnum og hefur miklar áhyggjur af því að hún standi sig ekki nógu vel. Stúlkan lýsir ótta sínum við að fara í [...]skóla en meintur brotamaður er fyrrum starfsmaður skólans. Gott samband næst við F, hún er brosmild og hefur gaman af að gantast. Þrátt fyrir umtalsverða heyrnarskerðingu er auðvelt að tala við F, sé talað hátt og skýrt. Hún notar táknmál heyrnarlausra og kennir undirrituðum nokkur tákn.
Mat á vitsmunaþroska: Niðurstöður greindarprófunar sýna útkomu við neðri mörk meðalgreindar á verklegum þáttum greindarprófs. Vísbendingar koma þó fram um erfiðleika í sjónúrvinnslu, sem án efa hafa háð F við lestrarnám. Útkoma á mállegum prófþáttum er mun slakari eins og gera má ráð fyrir hjá alvarlega heyrnarskertum unglingi. Almenn þekking er mjög takmörkuð, auk þess sem F ræður aðeins við einföldustu hugareikningsdæmi. Mestir erfiðleikar koma þó fram í orðskilningi. Best gengur F að svara spurningum, sem reyna á almennan skilning. Styrkleikar koma fram í óyrtri rökhugsun, t.d. þegar stúlkan raðar myndum út frá atburðarrás. Grvt. málleg er 70, verkleg 86.
Þegar lagt er fyrir F próf, sem fyrst og fremst reyna á óyrta þætti greindar er útkoma nálægt meðallagi fyrir aldur (Test of Nonverbal Intelligence: vísitala 92). Því er ljóst, að F er ekki þroskaheft.
Aðrar prófanir: F man 13 orð af 15 í fimm tilraunum og man þau flest eftir stutt hlé. Heyrnarminni stúlkunnar er því innan eðlilegra marka. Sjónminni er hins vegar slakt. Frekari prófanir staðfesta erfiðleika F í sjónúrvinnslu (Bender-teikniprófið og Rey-Osterrieth). Stúlkan er ekki vel læs, ruglast oft á orðum og þarf að fylgja texta eftir með fingri. Margar villur koma fram, þegar hún skrifar einfaldan texta eftir upplestri.
Atferli og aðlögun: Svör móður við Spurningalista yfir atferli barna og unglinga sýna hátt skor á kvörðum, sem meta kvíða, depurð, sérkennilega hegðun og einbeitingarerfiðleika. Heildarskor bendir til mjög marktækra frávika í atferli og aðlögun. Erfiðleikar af þessu tagi eru líklegir til að koma fram hjá þeim, sem orðið hafa fyrir kynferðislegri misnotkun.
Álit: Vitsmunaþroski F er á stigi tornæmis með miklum erfiðleikum á málþáttum greindar, auk þess sem fram koma erfiðleikar í einbeitingu og sjónvinnslu. Rökhugsun hennar og ályktunarhæfni eru hins vegar nálægt meðallagi. Námsleg staða F er slök. Þeir hegðunarerfiðleikar, sem fram koma hjá F nú, depurð, kvíði og almenn vanlíðan virðast ekki hafa verið til staðar hjá henni fyrr en á síðustu mánuðum. Margt bendir því til þess, að hún hafi orðið fyrir alvarlegu tilfinningalegu áfalli á þessum tíma.”
Tryggvi Sigurðsson sálfræðingur kom fyrir dóminn. Vitnið var beðinn að gera grein fyrir áliti sínu varðandi vitsmunaþroska F og það sem fram kemur í lokamálsgrein greinargerðarinnar. Vitnið sagði að sú spurning sem hann var beðinn að svara í grundvallaratriðum væri hvort stúlkan væri þroskaheft eða hver þroskastaða hennar væri. Eins og fram kæmi í greinargerðinni væri hún ekki þroskaheft. Vitsmunaþroski hennar væri ekki á því stigi sem kölluð væri þroskahömlun, en hún væri með ýmsa sértæka erfiðleika sem hafi háð henni í námi gegnum tíðina, en þetta hafi verið grunnspurningin sem hann hafi verið beðinn um að svara. Síðan hafi hann bæði rætt við F og fengið upplýsingar frá móður hennar um ákveðna félagslega og tilfinningalega erfiðleika sem höfðu komið fram hjá henni á þessum tíma í miklum mæli um það bil sem vitnið hafði afskipti af málinu. Við þetta væru notuð stöðluð mælitæki sem gæfu eins áreiðanlegar upplýsingar og hægt væri að fá. F hafi sýnt kvíða- og depurðareinkenni sem virtust hafa komið fram á mjög afgerandi hátt í framhaldi af þeim atburðum sem hér eru til umfjöllunar, þannig að hún hafi sýnt mjög skýr einkenni um kvíða og vanlíðan og rætt það við vitnið þó að hann hafi ekki verið beðinn að svara þeirri spurningu sérstaklega, heldur hafi hann fyrst og fremst verið beðinn að framkvæma þroskamat. Kvað vitnið hana hafa sagt sér frá þessari reynslu sinni og henni hafi liðið mjög illa út af því, en hún hafi endilega viljað fá að ræða það við vitnið. Hún hafi sagt honum frá þessum atburðum og frá vanlíðan sinni og skelfingu út af því.
Vitnið var spurður hvort hann hafi haft með F að gera áður en þeir atburðir sem mál þetta snýst um komu upp. Vitnið kvað svo ekki vera, en bætti við að hún hefði verið á Greiningarstöð ríkisins mjög löngu áður, en hann hefði í raun ekkert haft með hana að gera fyrir þennan atburð. Hún hafi verið skjólstæðingur Greiningarstöðvar ríkisins á forskólaárum þegar hún var mjög ung. Engar upplýsingar væru um að það hafi áður hrjáð hana kvíði eða hræðsla.
Vitninu var gerð grein fyrir að mál þetta hefði komið upp í lok nóvember 1998 og allt fram undir það hafi engin þessara telpna, hvorki F né aðrar, látið á neinu bera og allt hafi virst vera í góðu lagi og ekki hafi verið hægt að sjá á þeim að það væri neitt alvarlegt að. Vitnið var spurður hvort hugsanlegt væri að sjálf umfjöllun málsins og tilstand allt sem væri í kringum yfirheyrslur og það að ganga gegnum mál mál kunni að hafa haft áhrif á hana í þá átt að sýna þessi kvíðaeinkenni. Vitnið kvað sér finnast það mjög ótrúlegt, hann væri þó ekki að segja að framanlýst meðferð hefði engin áhrif, þetta væri e.t.v. ekki nákvæmlega sérsvið hans, en ef hann væri spurður sem sálfræðingur fyndist honum það mjög ótrúlegt, en vitaskuld ylli það kvíða og vanlíðan þegar fjallað væri um svona mál. Honum fyndist mjög ótrúlegt að það skýrði líðan hennar og ástand. Með því væri hann ekki að gera lítið úr því að það sé kvíðavekjandi fyrir börn og unglinga að ganga í gegnum yfirheyrslur og annað slíkt.
VII.
Verður nú rakinn framburður vitna sem báru um atriði er varða mál fleiri en einnar stúlku.
L, skólastjóri [...]skóla, kom fyrir dóminn. Hún kvaðst hafa tekið við stjórn skólans haustið 1997. Vitnið var fyrst spurð hvort hún hafi, áður en mál þetta kom upp, haft einhverjar grunsemdir eða vitneskju um að kynferðisleg áreitni hafi átt sér stað í skólanum. Vitnið svaraði spurningunni neitandi. Vitnið var beðin að lýsa því hvernig henni barst vitneskja um málið. Hún kvað S kennara hafa komið til hennar og skýrt henni frá því að tveir nemendur skólans, C og B, hefðu farið í Stígamót vegna kynferðisáreitni af hálfu ákærða. Aðspurð um viðbrögð vitnisins við þessu kvað hún þetta hafa verið áfall. Hún var spurð til hvaða ráða hafi verið gripið. Vitnið sagði að þær fréttir, að þessar stúlkur hefðu farið í Stígamót og að ákærði hafi einnig áreitt A, hafi leitt til þess að hún hafi farið að velta því fyrir sér hvort þetta gæti verið rétt, vegna þess að hún hefði aldrei tekið eftir því að áreitni væri í gangi. Kvaðst vitnið því hafa kallað A á sinn fund og spurt hana hvort þessi umræða um kynferðislega áreitni ætti við rök að styðjast. A hefði viðurkennt að þetta hafi gerst þegar hún var yngri. Þá hafi málið farið í gang og kvaðst vitnið hafa haft samband við Fræðslumiðstöð [...] og foreldra. Vitnið var spurð hvað gert hafi verið af hálfu skólans í framhaldi af þessu. Hún kvaðst sem fyrr segir strax hafa haft samband við Fræðslumiðstöðina, en hún væri yfirboðari skólans, og fengið upplýsingar um hvaða leið hún ætti að fara. Fræðslumiðstöðin hefði tekið málið að sér og haft samband við barnaverndarnefnd. Vitnið var spurð hvort hún hafi rætt við einhverjar þeirra stúlkna, sem orðið höfðu fyrir áreitninni. Hún kvaðst ekki hafa gert það.
Vitnið var beðin að lýsa því hvernig störfum ákærða var háttað og hvernig hann hafi verið liðinn í starfi. Vitnið kvað ákærða hafa verið mjög vinsælan í þessu starfi og krakkarnir hafi verið mjög hrifnir af honum, fundist hann hugmyndaríkur og gera margt sniðugt. Hann hafi verið frábær starfsmaður í félagsmiðstöðinni. Vitnið var spurð hvort hún hafi, eftir að málið kom upp, rætt við eldri starfsmenn skólans, t.d. aðstoðarskólastjóra og aðra sem starfað höfðu lengi við skólann um það hvort eitthvað svipað hefði gerst áður. Vitnið sagði að hún og aðstoðarskólastjórinn hefðu unnið mjög náið saman. Hún kvaðst hafa rætt við kennarahópinn og látið þau vita að þetta mál hefði komið upp og þá hafi e.t.v. rifjast eitthvað upp fyrir kennurunum sem höfðu kennt ákærða. Þetta hafi verið rætt innan hópsins. Aðspurð hvaða kennarar það hafi verið nefndi vitnið S aðstoðarskólastjóra og Q. Aðspurð hvort hún myndi nánar hvað henni og þessum eldri kennurum fór á milli varðandi það sem hefði áður gerst þegar ákærði var nemandi kvaðst vitnið ekki muna þessa umræðu svo gjörla, en rætt hafi verið um að eitthvað hefði komið upp. A hefði kvartað yfir því að ákærði tók buxurnar niður um hana. Kennararnir hefðu rætt þetta, en það hefði aldrei fundist nein sönnun fyrir þessu.
K, aðstoðarskólastjóri [...]skóla, kom fyrir dóminn. Hún kvaðst hafa starfað við skólann frá 1968 og hafa verið aðstoðarskólastjóri frá 1983. Vitnið var beðin að greina frá því hvenær og með hvaða hætti hún fékk vitneskju um mál þetta. Vitnið sagði að það hafi verið í nóvember 1998 og kvaðst halda að það hafi verið 18. þess mánaðar. Þá hafi einn af kennurum skólans, S, komið til stjórnenda skólans og skýrt þeim frá því að tveir nemendur í skólanum, C og B, hefðu komið að máli við hana og trúað henni fyrir þessu. Hafi stúlkurnar ásakað ákærða fyrir kynferðislega áreitni gagnvart þeim og hugsanlega einhverjum fleirum. Þetta hafi verið fyrsta vitneskja vitnisins um málið. Vitnið sagði aðspurð að stúlkurnar hefðu ekki talað við hana. Aðspurð um viðbrögð skólastjórnenda sagði vitnið að eftir að hafa hugsað málið hafi þær farið rétta boðleið með málið. Þær hafi talað við foreldra og yfirboðara sína í Fræðslumiðstöð [...]ur sem síðan hafi haft samband við barnaverndaryfirvöld. Aðspurð hvort í framhaldinu hafi verið rætt við þær um einstakar stúlkur aðrar en þessar tvær sagði vitnið að fljótlega hafi komið upp á yfirborðið grunur um að það væri um fleiri að ræða og að sú vitneskja hafi, að því er vitnið minnti, aðallega komið frá þessum tveimur stúlkum. Í öllum tilfellum, að því er vitnið taldi, hafi það verið starfsfólk skólans, ýmist stjórnendur, félagsráðgjafi eða sálfræðingur sem höfðu samband við foreldra viðkomandi stúlkna. Vitnið kvaðst aðspurð ekki hafa verið kennari neinnar þeirra stúlkna sem mál þetta varðar. Hún kvaðst heldur ekki hafa rætt við neina þeirra um þetta mál. Þetta erfiða mál hafi oft komið fram í hegðun stúlknanna í skólanum eftir að það kom upp á yfirborðið. Þeim hafi liðið illa og oft hafi verið erfiðleikar í kennslustundum. Vanlíðan stúlknanna hafi komið fram með ýmsu móti í hegðun þeirra og við námið og vitaskuld hafi hún oft þurft að ræða við þær út frá því, en hún hafi forðast að fara inn í málið sökum þess að henni hafi fundist að það væri ekki í hennar verkahring að ræða málið við þær. Er vitnið var spurð hvort hún teldi að það hafi verið einhver ein annarri fremur sem átt hafi í erfiðleikum sagði vitnið að henni hafi fundist C og F hafa átt mjög erfitt. Vitnið var spurð hvort henni hafi fundist verða breytingar á þessu eftir að mál þetta kom upp í nóvember 1998 frá því sem áður hafði verið eða hvort erfiðleikar eða vanlíðan hafi að einhverju leyti verið komin í ljós áður. Vitnið játti því, en bætti við að það væri án þess að þær hafi getað gert sér grein fyrir einhverjum orsökum. Kvaðst vitnið muna að það hafi oft verið erfiðleikar og vanlíðan hjá C sem þær hafi velt fyrir sér af hverju gætu stafað, en aldrei fundið neitt. Einnig hafi ýmis vandamál tengst F, en hún hafi átt og eigi við ýmsa aðra örðugleika að stríða sem hegðun hennar hafi vel getað tengst. Þessar tvær stúlkur hafi átt erfitt án þess að þær gætu fest hendur á t.d. með C, af hverju það stafaði. Vitninu var bent á að ákærði hafi verið liðsmaður F og var í framhaldi af því spurð hvort skólinn hafi haft einhverja milligöngu um það. Hún kvað félagsráðgjafa skólans hafa haft með það að gera.
Vitnið sagði að fulltrúar frá Stígamótum hafi komið í skólann með fræðslu fyrir börnin í september, en út af allt öðru. Þessi fræðsla frá Stígamótum hafi komið til út af því að frést hafi að maður nokkur æki oft fram hjá skólanum og virtist vera að fylgjast með börnunum. Þær L hafi ekki verið sáttar með þetta og til að fyrirbyggja vandamál hafi þær beðið um þessa fræðslu til nemendanna. Kvaðst vitnið telja að hugsanlega hafi það átt sinn þátt í að stúlkurnar opnuðu þetta mál. Vitninu var bent á að í skýrslunni sem hún gaf við lögreglurannsókn málsins kæmi fram að ein stúlknanna, A, hafi þegar hún var átta til tíu ára gömul kvartað við skólayfirvöld. Vitnið kvað það hafa rifjast upp fyrir sér að fyrir mjög löngu, hún myndi ekki ártalið, en þá hafi ákærði enn verið nemandi í skólanum, hafi A kvartað undan því að ákærði hefði kippt í buxur hennar og jafnvel kíkt á hana inni á salerni. Þetta mál hafi verið skoðað á sínum tíma innan skólans, en þau hafi ekki fundið neitt út úr því annað en e.t.v. að þetta væri stríðni eins og oft gerðist í skólum. Ekki hafi verið hægt að ætla neitt annað en að þetta hafi verið gert í stríðni. Þetta hafi því verið afgreitt þannig að ekki hafi verið talin ástæða til aðhafast frekar í málinu.
AB, þroskaþjálfi við [...]skóla, kom fyrir dóminn. Hún kvaðst hafa hafið störf við skólann 1991. Vitnið var beðin að greina frá því hvernig það bar til að C og B komu til hennar og hvað þær sögðu henni. Vitnið kvaðst ekki muna hvaða dag þetta var, en þær hafi komið til hennar eftir kennslustund og beðið um að fá að ræða við hana einkamál. Þær hafi setið þrjár inni í kennslustofu og stúlkurnar hafi byrjað á því að segja vitninu að það sem þær ætluðu að segja segðu þær henni í trúnaði. Stúlkurnar hafi sagt henni að þær vissu af því að ákærði hefði misnotað stúlkur í skólanum og að þær hefðu reynt áður að segja frá þessu, án þess þó að nefna nöfn, en það hafi ekki borið neinn árangur. Þeim hafi ekki verið trúað. Eftir þetta hafi hún beðið stúlkurnar að koma aftur til að ræða við sig, enda hafi henni fundist þetta vera alvarlegar ásakanir. Kvaðst vitnið hafa rætt aftur við stúlkurnar síðar sama dag og reynt að komast að því hvort þetta væru leikir, fantasía eða vitleysa, en þær hafi ítrekað að þær væru að segja satt og ef hún tryði þeim ekki gæti vitnið talað við eitthvað af hinum stelpunum. Þær hafi nefnt að U, fyrrum nemandi skólans, hefði bent þeim á að ræða við vitnið og því hafi hún spurt þær hvort þeim væri sama þótt hún ræddi við U. Vitnið kvaðst hafa hringt í U og beðið hana að koma og ræða við sig og hún hafi orðið við því. Kvaðst vitnið hafa spurt hana um málið vítt og breitt. Hafi U staðfest að hinar stúlkurnar hefðu sagt við hana að þetta væri rétt. Kvaðst vitnið muna að hún hafi rætt við U daginn eftir að hún ræddi við C og B og að það hafi verið á laugardegi. Á mánudeginum kvaðst vitnið svo hafa nefnt þetta einslega við K, yfirkennara skólans. Hún hafi haldið að þetta væri fyrirsláttur eða fíflaskapur. Kvaðst vitnið hafa beðið með þetta áfram, en verið ósátt innra með sér vegna þess hve stúlkurnar stóðu fast á þessu. Vitnið kvaðst því hafa rætt við skólastjórann og eftir það hafi málið farið af stað. Aðspurð hvort C og B hafi rætt um að þær hefðu sjálfar orðið fyrir áreitni af hálfu ákærða sagði vitnið C hafi talað óljóst, en B hafi viljað meina að hún hefði orðið fyrir kynferðislegri áreitni.
Aðspurð kvaðst vitnið hafa haft F sem nemanda í eitt ár, þ.e. 1998. Vitnið kvað F vera ansi hvatvísa stúlku og það væri alveg ljóst að hún hefði mjög ríkt ímyndunarafl. Á árinu 1997 hafi hún sótt mjög stíft í að fara í ráðgjöf til félagsráðgjafa skólans og henni hafi virst vera mikið í mun að komast oft og reglulega, oftar en nokkur nemandi skólans, til að ræða við félagsráðgjafann. Ákærði hafi verið liðsmaður F áður en vitnið varð kennari hennar. Vitnið kvaðst ekki hafa vitað að E var í þessum hópi. Vitnið kvaðst hafa verið umsjónarkennari D. Kvaðst hún hafa haft grunsemdir með hana, en það hafi engan veginn tengst ákærða. Sagði vitnið að henni hafi fundist D vera með alls kyns vísbendingar um að hugmyndir hennar um kynferði eða eðlilegt kynlíf væru dálítið ruglaðar. Kvaðst vitnið hafa orðað þetta við foreldra hennar, en svo hafi ekki orðið meira úr því. Á sama tíma og vitninu hafi fundist þetta, hafi eitthvað það verið í fari D sem vitninu hafi fundist gefa til kynna að hún hafi verið með eins konar vegg í kringum sjálfa sig. Hún hafi viljað ræða mjög náið allt um líkamann, hvernig fólk væri líkamlega byggt, en þegar komið hafi að henni sjálfri í beinum tengslum við heilsufræðikennsluna, hafi hún farið í vörn og út af þessu kvaðst vitnið hafa rætt við foreldra hennar. Um þær mundir sem vitnið ræddi þetta við foreldra hennar hafi móðir D verið nýbúin að segja henni að hún væri barnshafandi. D hafi einnig verið mjög upptekin af því hvernig fóstur vex í móðurkviði, þannig að hún hafi verið mjög upptekin af hlutum á borð við samfarir. Þetta hafi stoppað vitnið af. Hún hafi hugsað sem svo að vegna þess að hún væri einnig þroskaheft einblíndi hún aðeins á þetta og ýkti þetta mikið. Vitnið kvað þetta hafa verið 1996 eða 1997.
H, skólasálfræðingur við [...]skóla, kom fyrir dóminn. Vitnið var fyrst spurð hvernig hún fékk vitneskju um mál þetta. Vitnið kvaðst vera einn dag í viku í [...]skóla, þ.e. á föstudögum. Þegar hún kom einn sinna venjulegu vinnudaga í skólann, hún myndi ekki hvort það var í byrjun desember eða lok nóvember 1998, hafi skólastjórnendur komið að máli við hana og tjáð henni að C hefði opnað málið við K kennara og K hafi svo sagt skólastjórnendum frá því sem þeim fór á milli. Skólastjórnendur hafi svo borið málið upp við vitnið. Fyrstu viðbrögð þeirra hafi verið að ræða hvort þetta gæti hugsanlega verið satt, en síðan hafi þær rætt hvað gera ætti í framhaldinu. Aðspurð sagði vitnið að henni hafi fyrst og fremst verið falið það verkefni að kanna hver væri rétta leiðin fyrir skólann til að tilkynna málið, enda hafi þeim verið ljóst að um refsivert athæfi væri að tefla sem þeim bæri að tilkynna. Þær hafi verið dálítið óöruggar í byrjun hvert þær ættu fyrst að snúa sér. Aðspurð hvort hún hafi rætt við einhverja stúlknanna kvaðst vitnið ekki hafa rætt við neina þeirra á þessu stigi málsins, en áður hafi hún haft samskipti, bæði við C og B, og síðan í kjölfarið, eftir að málið var opnað og stúlkurnar komnar í Barnahús, hafi hún verið með F í viðtölum. Vitnið kvaðst aðspurð hafa haft afskipti af C strax á haustmisseri 1993, þegar vitnið hóf störf við skólann. Kvaðst hún hafa komið inn í mál hennar sökum þess að hún hafi átt erfitt í skóla og alveg fram til þess að C hætti í skólanum hafi hún komið að málum hennar endrum og sinnum. Kvað vitnið C ekki hafa viljað opna málið í skólanum fyrr en hún ræddi við K. Hún vissi ekki til þess að C hafi sagt neinum í skólanum frá hvað var að gerast í lífi hennar. Vitnið var spurð hvort hugsanlegt væri að mati vitnisins, þegar hún liti til baka, að einhverjir af erfiðleikum hennar gætu að átt rætur að rekja til slíkrar reynslu. Vitnið kvaðst halda að svo gæti verið. Þegar C opnaði málið hafi þær áttað sig á ýmsu sem var að gerast í lífi hennar og þær höfðu ekki skilið áður af hverju erfiðleikar hennar stöfuðu. Kvaðst vitnið ekki hafa talað við C eftir að mál þetta kom upp.
Vitnið kvaðst nefna B vegna þess að á tímabili hafi henni bersýnilega liðið mjög illa í skólanum. Það hafi fyrst og fremst verið skólaárið 1997 til 1998 sem vitnið kom að máli hennar. Hún hafi þá átt það til að fá grátköst í skólanum, sérstaklega á vormisserinu 1998, en þá hafi hún fengið tíð grátköst og ekki viljað skýra kennurum sínum frá því af hverju þau stöfuðu. Kvaðst vitnið hafa rætt við hana ásamt foreldrum hennar í febrúar eða mars, eftir því sem vitnið minnti. Kvaðst vitnið hafa reynt að grennslast fyrir um hverju það sætti að henni leið svo illa í skólanum, en hún hafi ekki getað komið orðum að því, ekki viljað segja frá neinu eða lýsa því af hverju henni leið svo illa. Bersýnilegt hafi verið að það var eitthvað sem hrjáði hana. Það hafi engan árangur borið að reyna að fá hana til að tjá sig. Aðspurð kvaðst vitnið ekki hafa haft samskipti við B á haustmisseri 1998, en hún hafi komið nokkrum sinnum að máli við hana í skólanum og boðið henni að koma til sín ef hún vildi, en hún hafi ekki viljað þiggja það. B hafi því ekki komið til eiginlegrar meðferðar hjá vitninu.
Vitnið var beðin að skýra frá samskiptum sínum við F. Vitnið kvaðst hafa þekkt hana til margra ára og hafa fylgst með henni þegar hún var nemandi í B[...]skóla. Einnig hafi hún fylgst með henni allan þann tíma sem hún hefur verið í [...]skóla. Vitnið kvað F hafa komið í viðtöl til sín í kjölfar þessa máls. Strax í desember 1998 kvaðst vitnið hafa tekið hana lítillega undir sinn verndarvæng. Henni hafi liðið mjög illa, en að áliti vitnisins hafi hún verið tilbúin til að segja frá reynslu sinni. Kvað vitnið F hafa komið til sín endrum og sinnum allt vormisserið 1999. Aðspurð í hverju meðferðin hafi verið fólgin sagði vitnið að hún hafi álitið að meðferðin væri á hendi Barnahúss. Kvaðst vitnið ekki hafa litið þannig á að henni bæri að hafa hana í meðferð út af þessu máli, heldur hafi hún fyrst og fremst verið að hjálpa henni að höndla veru sína í skólanum vegna þess að allt umtalið um mál þetta hafi komið mjög illa við hana og hún hafi átt erfitt með að átta sig á hvernig hún ætti að vera, hve mikið hún ætti að segja við félaga sína og hvenær. Stúlkan hafi verið mjög illa stemmd og liðið afar illa. Kvaðst vitnið fyrst og fremst hafa reynt að hjálpa henni í samskiptum við skólafélagana. Hún hafi því ekki innt hana sértaklega eftir þessu máli. Það sem hún vissi um þá atburði sem gerðust eða gerðust ekki milli hennar og ákærða hafi verið atvik sem hún nefndi án þess að vitnið hafi spurt hana sérstaklega.
Vitninu var gerð grein fyrir því að fyrir lægi í gögnum málsins sálfræðileg athugun á D frá 1994, gerð að beiðni móður hennar. Aðspurð hvort hún hefði komið eitthvað að málum D síðan þá sagði vitnið að það hafi hún ekki gert. Vitnið kvað D hafa verið nemanda í skólanum þegar vitnið kom þar til starfa 1993. Vitninu var sýnt umrætt skjal og var í framhaldi af því spurð hvað þessi athugun gæti sagt um ástand hennar og greind. Vitnið sagði að það sem hún myndi væri að hún hafi komið að þessu máli vegna þess að D hafi bersýnilega ekki liðið vel á þessu tímabili og þau hafi verið að velta því fyrir sér í skólanum hvort þau námstilboð sem boðið var upp á í skólanum væru við hæfi, þ.e. hvort verið gæti að skólinn þyrfti að breyta skipulagi sínu gagnvart D. Vitnið sagði að í lok skýrslunnar segði hún að D þurfi að fá svokallaða ADL-þjálfun, sem merki athafnir daglegs lífs, en tilefni þessarar athugunar hafi verið hegðunarvandkvæði hennar í skóla. Í lok skýrslunnar segði hún: “Varðandi samskipti D við nemendur og kennara skólans tel ég rétt að bíða átekta og sjá hvernig hún bregst við breyttum áherslum og kröfum, en bíða með hegðunarmótandi aðgerðir.” Á þessu tímabili hafi spurningin verið sú hvort setja ætti hana í svokallað stjörnukerfi eða hegðunarmótandi aðgerðir vegna þess að hún hefði sýnt af sér það sem í daglegu tali væri kölluð óþekkt. Hún hafi sýnt það að henni leið ekki vel í skólanum og þau hafi velt því fyrir sér hvernig bregðast ætti við því. Kvaðst vitnið hafa lagt það til að fyrst og fremst yrði námsefni D endurskoðað. Vitnið sagði að námsefni D hafi verið endurskoðað og kvaðst hún hafa fylgst með hvernig það gekk og ekki séð ástæðu til að fara meira inn í mál hennar. Það hafi ekki verið skoðað í sambandi við hana nema með tilliti til námsgetu. Hins vegar væri henni það minnisstætt að hún hafi greint móður D frá niðurstöðum í einu viðtali og föður hennar í öðru viðtali sökum þess að foreldrar hennar voru skilin. Kvaðst vitnið muna að þegar hún ræddi við föður hennar hafi það stungið hana dálítið að er hún talaði um hvað D væri slök vitsmunalega og að huga þyrfti vel að aðstæðum hennar hafi faðir hennar strax farið að velta fyrir sér samskiptum hennar við hitt kynið, hvort þetta myndi geta leitt til þess á einhvern hátt að hún kynni að leiðast út í lauslæti. Kvaðst vitnið muna að henni hafi fundist þetta nokkuð undarleg athugasemd frá föður, en ekki farið nánar út í þá sálma, heldur bent á það að vissulega væri ástæða til að hafa vakandi auga með og fylgjast með samskiptum hennar við hitt kynið. Þroskaheftar stúlkur væru almennt séð í áhættuhópi að þessu leyti.
Aðspurð kvaðst vitnið ekki hafa haft samband við foreldra ákærða í sambandi við málið. Vitninu var bent á að í gögnum málsins væri því lýst að haft hafi verið samband við tengdamóður ákærða. Fram kæmi að það hafi verið vitnið sem gerði það og því væri spurt hvort ástæða hafi verið til að vera í miklu sambandi við hana, en engu við foreldra hans. Vitnið kvað foreldra ekki vera sína skjólstæðinga. Hún var þá spurð hvers vegna haft hafi verið samband við tengdamóðurina. Vitnið sagði að tengdamóðir ákærða hafi á þessum tíma verið starfsmaður skólans og væri það enn og þetta mál hafi að sjálfsögðu varðað alla starfsmenn skólans. Kennarar og aðrir starfsmenn skólans hafi rætt þetta mál mikið sín í milli á þessum tíma.
O deildarstjóri kom fyrir dóminn. Vitnið kvaðst hafa kennt við [...]skóla í einn vetur, þ.e. veturinn 1998 til 1999. Hún kvaðst hafa verið stundakennari í íslensku og kennt 10 kennslustundir á viku. Kvað vitnið hlutverk sitt einungis hafa verið að kenna elsta hópi nemenda skólans sem í hafi verið þrjár stúlkur, 13,14 og 15 ára. Í þessum hópi hafi verið C og B. Vitnið kvað þær fyrst hafa sagt henni frá þessu máli. Hafi það verið í íslenskutíma sem þetta kom upp. Vitnið sagði þetta hafi verið þannig að það hafi komið fólk frá Stígamótum í skólann einhverjum dögum eða vikum fyrir fyrrgreinda kennslustund. Hún kvaðst ekki hafa verið mikið inni í daglegri umræðu í skólanum á þessum tíma vegna þess að hún kom af öðrum vinnustað. Þennan tiltekna dag þegar hún kom inn í kennslustofuna hafi stúlkurnar, sem aðeins hafi verið tvær þennan dag, þ.e. C og B, verið að ræða kynferðislega áreitni eða kynferðislega misnotkun. Hafi þær verið að velta fyrir sér hugtakinu, þ.e. hvað það væri. Þegar vitnið kom inn kvaðst hún hafa fengið þá spurningu frá B hvort hún hefði orðið fyrir kynferðislegri misnotkun eða kynferðislegri áreitni. Vitnið kvaðst hafa svarað því neitandi, en hún hafi skilið það á andrúmsloftinu að þarna var eitthvað á ferðinni og hafi hún valið að spyrja þær hins sama. B hafi orðið fyrir svörum og sagt að þær hefðu orðið fyrir slíku. Vitnið kvað sér hafa brugðið við þetta og hafa byrjað á því að segja þeim að þær væru ekki þar með sekar um eitt eða neitt, heldur sá sem hefði beitt þær því. Þær ættu að tala um þetta og segja frá því. Síðan hafi hún spurt þær hver gerandinn væri og þá hafi þær litið hvor á aðra, en svo hafi B nefnt nafn ákærða. Vitnið kvaðst hafa spurt þær hvort þetta hafi verið eitt atvik eða ítrekað. B hafi þá nefnt eitthvað sem hefði gerst tvisvar og nefnt að í fyrra skiptið hafi hún verið átta eða níu ára, en í seinna skiptið eitthvað eldri. Hins vegar hafi B sagt að C hefði þurft að þola þetta í langan tíma, þ.e. frá því hún var átta til níu ára þar til ákærði hætti að vinna í félagsmiðstöðinni. Vitnið kvaðst strax hafa fundið mjög sterkt fyrir því að það sem sneri að C var henni mjög erfitt og erfitt hafi verið fyrir hana að ræða. B hafi orðið fyrir svörum og fengið grænt ljós hjá C að segja það sem hún sagði því C hafi ekki gert neitt annað en kinka kolli. Vitnið kvaðst hafa spurt B hvað hafi falist í þessum tveimur tilteknu atvikum sem hún nefndi, en vitnið kvaðst ómögulega geta rifjað upp um hvað annað atvikið snerist. Hvað varðar hitt atvikið hafi hún rætt um að ákærði hafi sýnt henni á sér kynfærin í bifreið eftir tíma í félagsmiðstöðinni og að hún hafi hlaupið út úr bílnum. C hafi sagt að það hafi verið ógeðslegt og ekki verið tilbúin að tjá sig frekar um það. Þetta hafi í raun verið inntak samtalsins og kvaðst vitnið hafa setið uppi með þessar upplýsingar vitandi það að stúlkurnar höfðu ekki sagt neinum frá þessu. Kvaðst vitnið hafa spurt stúlkurnar hvort fleiri vissu af þessu eða hvort þær væru búnar að segja fleirum frá þessu. C hafi svarað því neitandi, en B hafi sagt að hún hefði sagt móður sinni frá þessu eða að móðir hennar hafi lesið yfir öxlina á henni bréf sem hún hafi skrifað til einhvers unglingatímarits. Í kjölfar þessa kvaðst vitnið hafa farið til sinnar föstu vinnu, hringt í Stígamót og beðið um að fá að ræða við starfskonu sem vitnið þekkti persónulega, borið sig upp við hana og spurt hana hvað hún ætti að gera í þeirri stöðu sem hún væri í, þ.e. hvað gera ætti með upplýsingar sem þessar. Sagði vitnið að starfskonan hafi sagt að báðar þessar stúlkur, sem vitnið kvaðst hafa nafngreint við hana, hefðu þá þegar pantað viðtalstíma hjá Stígamótum og að hún skyldi ekki hafa frekari áhyggjur af þessu máli. Vitnið sagði að þetta hafi gerst í október. Aðspurð kvaðst vitnið muna mjög vel að B sagði henni frá því að ákærði hafi verið í bifreið. Þá sagði vitnið að C hafi haft mjög fá orð um þetta. C hafi liðið mjög illa og í kjölfar þess að þetta kom upp hafi vitnið þurft að skipta þessum þriggja manna bekk niður sökum þess hve C leið illa. Hafi C stundum gengið um, barið veggi, lyft stólum og gert hluti sem ekki hafi verið á valdi vitnisins að ráða við sem kennari. Hafi það verið mjög greinilegt, þótt hún talaði sem leikmaður, að hún hafi verið að grafa upp hluti sem verið hafi mjög sárir fyrir hana. Sterkar tilfinningar og mikil reiði sem hún hafi ekki vitað hvað hún átti að gera við. Þetta hafi brotist út í kennslustundum hjá vitninu meira og minna þar til C fór í H[...]skóla vorið 1999. Kvað vitnið sér finnast að töluverð breyting hafi orðið þegar stúlkurnar höfðu opnað þetta. Tók vitnið fram að þarna hafi hún verið búin að kenna þeim í mjög skamman tíma og hún hefði því ekki þá sögu sem hinir kennararnir, sem hafi þekkt þær í langan tíma, hefðu. Kvaðst vitnið hafa verið búin að þekkja stúlkurnar í fjórar til fimm vikur þegar þarna var komið sögu.
AC heyrnarfræðingur kom fyrir dóminn. Hún var fyrst beðin að gera grein fyrir stöðu sinni í [...]skóla og hvenær hún kenndi þar. Vitnið kvaðst hafa kennt þar skólaárið 1977 til 1978 og svo frá 1982 til hausts 1999. Hún kvaðst hafa verið kennari ákærða á tilteknu tímabili. Vitnið kvaðst hafa kennt ákærða eitt skólaár ásamt nokkrum öðrum, en hún hafi ekki verið umsjónarkennari. Kvaðst hún hafa kennt ákærða ensku og að þá hafi hann verið 16 eða 17 ára gamall, en ártalið myndi hún ekki glöggt. Aðspurð hvort hún myndi til þess þegar hún kenndi ákærða að upp hafi komið grunsemdir um að hann hefði orðið uppvís að kynferðislegri áreitni svaraði vitnið að hún myndi ekki eftir því. Ekkert slíkt hafi komið til tals.
Aðspurð kvaðst vitnið hafa kennt A stærðfræði skólaárið sem hún var í 10. bekk. Hvað varðar C kvaðst vitnið hafa verið umsjónarkennari bekkjar hennar veturinn sem mál þetta kom upp, þ.e. skólaárið 1998 til 1999. Aðspurð kvaðst vitnið hafa frétt af máli þessu þannig að móðir einnar stúlkunnar, þ.e. B, hafi hringt til vitnisins og sagt vitninu að mál þetta hafi komið upp með dóttur hennar. Jafnframt hafi hún sagt vitninu að stúlkurnar hefðu trúað einum kennara skólans fyrir þessu máli. Vitnið kvað móður B hafa sagt að þetta væri trúnaðarmál og hún hafi beðið vitnið að geyma það með sér. Kvaðst vitnið hafa spurt hana hvort hún mætti ræða við umræddan kennara og hafi það orðið að samkomulagi þeirra í milli. Kvaðst vitnið svo hafa farið á fund þessa kennara, S, og rætt við hana. Í samræðum þeirra hafi þær tekið þá ákvörðun að rjúfa trúnað og ræða málið við skólastjórann, enda hafi þeim fundist alvarleiki málsins þess eðlis að þær gætu ekki borið ábyrgð á því að geyma það með sér. Kvað vitnið þær hafa sagt skólastjóra frá því sem upp var komið.
Vitnið kvaðst bæði hafa kennt C og B lítillega áður, en veturinn 1998 til 1999 hafi hún kennt þeim nokkrar námsgreinar. Vitnið var spurð hvort hún hafi orðið vör við breytingar á hegðun C í þeim kennslustundum sem vitnið kenndi henni, eftir að búið var að opna málið. Vitnið sagði að áður en hún vissi nokkuð um þetta mál hafi hún orðið mjög áþreifanlega vör við að C þoldi ekki nálægð og að ekki hafi mátt klappa henni á öxl eða koll. Hún hafi hrokkið mjög við. Hafi C beðið vitnið þess sérstaklega að klappa henni ekki á öxlina, eins og kennurum sé tamt þegar þeir eru að hvetja nemanda. Sagði vitnið að þetta hafi ekki breytast mikið þennan vetur, þótt e.t.v. hafi verið auðveldara að ræða við hana. C hafi svo yfirgefið skólann undir vor áður en skólaárinu lauk. Kvaðst vitnið hafa hitt C á förnum vegi sl. haust og það hafi verið allt, allt annað barn. Þá hafi hún tekið utan um vitnið og spurt hvort hún ætlaði virkilega ekki að heilsa sér. Það væri sú breyting sem hún hafi orðið vör við.
Hvað varðar B kvaðst vitnið hafa kennt henni stærðfræði veturinn á undan og þá hafi verið mjög áberandi þrisvar sinnum þrjú tímabil sem hún átti þann vetur, sem voru henni mjög erfið. Hún hafi fallið í grátköst í tímum og átt mjög erfitt með einbeitingu. Þau hafi velt mjög vöngum yfir hvað þetta væri, en engar skýringar fengið á þessu. B sé áberandi duglegur nemandi, en það hafi komið kaflar þar sem hún hafi hreinlega ekkert getað unnið, ekki hugsað og ekki einbeitt sér. Þessu hafi ekki verið þannig farið veturinn eftir. Þann vetur hafi hún verið allt önnur manneskja og átt allan veturinn mjög góðan í námi.
Vitnið kvaðst hafa kennt F veturinn 1998 til 1999. Þá hafi hún verið með hana í einkatímum í lestrarstuðningi. Vitnið var spurð hvort F hafi rætt um þetta mál við hana og hvort henni hafi fundist einhver breyting verða á henni eftir að málið kom upp. Vitnið kvað F hafa þurft mjög mikið að ræða um þetta, eiginlega meira eftir að málið kom upp, fyndist henni. Þá hafi hún þurft að tala og tala. Kvaðst vitnið að lokum hafa farið til félagsráðgjafa skólans og leitað ráða hjá henni hvernig hún ætti að bregðast við. Einnig hafi hún leitað ráða hjá H skólasálfræðingi.
Ö, forstöðumaður félagsmiðstöðvar [...]skóla, kom fyrir dóminn. Vitnið kvaðst hafa verið í barnsburðarleyfi þegar mál þetta kom upp. Vitnið kvaðst hafa hafið störf í félagsmiðstöðinni í janúar 1997 og farið í barnsburðarleyfið síðsumars 1998. Hún var spurð hvort hún hafi einhvern tíma, meðan þau ákærði unnu saman í félagsmiðstöðinni, orðið vör við eitthvað afbrigðilegt í samskiptum ákærða við nemendur. Vitnið kvaðst aldrei hafa merkt neitt slíkt þegar hann umgekkst stúlkurnar. Það eina sem hún gæti sagt væri að ákærði hafi e.t.v. stundum farið eitthvað afsíðis, t.d. inn á skrifstofu vitnisins, til að spjalla. Kvaðst vitnið vitaskuld ekki geta sagt til um hvað hafi farið þar á milli, en hún hafi aldrei séð eða getað merkt neitt.
Vitnið kvað B hafa verið í skólanum. Aðspurð hvort samskipti hennar og ákærða hafi verið erfið eða stormasöm sagði vitnið að það sem hún myndi til væri að B hafi látið mjög illa. Hún gæti ekki sagt að ákærði hafi verið öðruvísi við hana. Aðspurð hvort einhver illindi hafi verið milli þeirra kvaðst vitnið eiga erfitt með að svara því.
Hvað varðar C sagði vitnið að henni hafi þótt sambandið milli hennar og ákærða vera nokkuð gott. Þau hafi rætt mikið saman og henni hafi fundist C líta upp til hans sem góðs vinar. Kvaðst vitnið muna til þess að komið hafi fyrir að þau fóru inn í herbergi vitnisins þar sem þau spjölluðu saman sem vinir. Kvaðst vitnið ekki hafa getað merkt neitt sem henni þótti athugavert. Vitnið nefndi að eitt sinn hafi hún ekki fundið ákærða og hafi farið að leita að honum. Hún hafi farið yfir í mötuneytið og þá hafi hún séð þau C ganga saman frá salerninu þar niðri. Kvaðst vitnið hafa spurt hvað þau voru að gera þarna og fengið það svar að það væri betra næði að spjalla saman þar niðri. Hvort þeirra sagði þetta myndi hún ekki. Vitnið var spurð hvort hún gæti tímasett það nákvæmlega hvenær hún sá þau koma upp frá salerninu. Hún kvaðst ekki muna það. Vitnið var spurð hvort henni hafi fundist C vera eitthvað öðruvísi en hún átti að sér að vera þegar vitnið sá hana í þetta tiltekna skipti. Vitnið sagði að henni hafi fundist, eins og ákærði vissi sjálfur og hún og ákærði hafi oft rætt um, að stúlkurnar létu stundum við hann eins og ekki hafi átt að láta við starfsmann. Stúlkurnar hafi fíflast við ákærða og það hafi vitninu fundist svolítið óvenjulegt. Með því ætti hún við að ákærði hafi verið starfsmaður og hann hafi stundum ekki haft frið fyrir þeim. Þau ákærði hafi oft rætt það að þeim fyndist einkennilegt hve þær hegðuðu sér undarlega við ákærða og hvers vegna þær hafi ekki látið svona við vitnið. Kvað vitnið sér hafa fundist ákærði vera mjög góður vinur þeirra og hann hafi verið mjög mikið með þeim. Sagði vitnið að stúlkurnar hafi sýnt henni meiri virðingu. Kvaðst vitnið e.t.v. hafa verið strangari við þær. Þótt ákærði hafi einnig reynt að vera strangur hafi verið komið öðruvísi fram við hann en vitnið.
Aðspurð um D kvað vitnið sig minna að hún hafi verið þarna frá því janúar þar til maí, en þá hafi hún hætt í skólanum. Er hún var spurð hvort hún gæti lýst samskiptum þeirra kvaðst vitnið muna þau mjög óljóst. Það hafi verið svo mikið af börnum þarna, en hún myndi ekki eftir neinu sérstöku.
Vitnið kvað E hafa verið þarna þennan vetur. Hún var spurð hvort hún hafi orðið vör við vanlíðan hjá henni. Vitnið kvað sér finnast að nokkuð mikil breyting hafi orðið á henni. Kvaðst vitnið hafa fundið mikla breytingu á henni í september 1997. Hún var spurð í hverju sú breyting var fólgin. Vitnið kvað sér hafa fundist að E kvartaði oft undan höfuðverk og að hún hafi alltaf fundið einhverja afsökun til að vilja fara heim. E hafi fundið upp á ýmsu, svo sem að vilja ekki fara heim með rútunni, að henni væri illt í maganum og að hún hafi dottið og meitt sig. Hafi hún rætt það við vitnið og ákærða reyndar einnig.
Varðandi F kvað vitnið hana hafa verið þarna líka. Henni var gerð grein fyrir að ákærði hafi einnig verið liðsmaður hennar. Aðspurð hvernig henni hafi fundist samskiptum þeirra háttað sagði vitnið að F hafi rætt mikið við sig. Samskiptin milli hennar og ákærða hafi verið þannig að hann hafi talað táknmál við hana og hún hafi einnig reynt að tjá sig. Kvað vitnið sér ekki finnast að samskiptin hafi verið sérlega góð, en það sem vitnið sá hafi verið í lagi. Mögulegt væri að það hafi háð henni að ákærði var heyrnarlaus og hún hafi e.t.v. ekki verið nógu góð í táknmáli. Aðspurð hvort F hafi rætt samskipti sín og ákærða við vitnið kvað hún hana ekki hafa gert það meðan vitnið vann þarna. Vitnið staðfesti að félagsmiðstöðin hafi verið opin nemendum og að ákærði hafi unnið þar frá hádegi og fram eftir degi. Hún kvað nemendur hafa komið um eittleytið og verið til klukkan fimm. Vitnið var spurð hvort einhver starfsemi hafi verið þar á kvöldin. Hún kvað hafa verið nemendafélagskvöld tvisvar í mánuði og hún og ákærði hafi skipt því á milli sín að vera þar á þeim kvöldum. Aðspurð hvað hafi verið gert á þessum nemendakvöldum kvað hún það hafa verið ýmislegt, en nefndi að það hafi verið farið í kvikmyndahús, stöku sinnum hafi verið farið í keilu og það hafi verið horft á myndbönd. Vitnið var spurð hvort ákærði hafi haft aðgang að félagsmiðstöðinni um helgar. Hún kvað þau ekki hafa átt að vinna um helgar, en það hafi komið fyrir, að hana minnti í tvö skipti, að þegar hún kom til starfa á mánudegi hafi henni fundist einhver hafa verið þar um helgina eða eftir vinnu á föstudegi, en nemendafélagskvöldin hafi oftast verið á fimmtudögum. Kvaðst vitnið hafa spurt ákærða þegar hann mætti til vinnu hvort hann hafi verið í félagsmiðstöðinni um helgina. Ákærði hafi játt því og sagt að hann hafi komið þar til að taka leikrit upp á myndband. Kvaðst vitnið aldrei hafa fengið að vita hvaða leikrit þetta var, en hann hafi alltaf ætlað að sýna þeim það einhvern tíma seinna. Aðspurð hvort hún vissi hvort ákærði hafi verið þar með einhverjum af nemendunum eða einn sagði vitnið að í þessum tveimur tilfellum hafi það verið C sem hafi átt að sýna einhvern dans eða leikrit, en hún hafi aldrei fengið að vita hvað það var. Síðan hafi það verið E. Kvað vitnið ákærða hafa sagt sér að þær hefðu verið þarna ásamt honum. Einnig kvaðst vitnið hafa rætt það við þær og þá hafi þær sagt að þau hafi verið að gera leikrit, en henni hafi aldrei verið sagt nánar frá því að öðru leyti en því að hún fengi að sjá það einhvern tíma seinna.
Vitnið var spurð hvort því hafi oft verið borið við að verið væri að taka upp leikrit í félagsmiðstöðinni. Vitnið kvað sig minna að það hafi einungis verið í þessi tvö skipti. Vitnið kvaðst minnast þess að í febrúar 1998 hafi staðið yfir æfingar í dansi fyrir danskeppni með eldri stúlkunum og þá hafi ákærði stundum verið líka. Kvað vitnið sig minna að ákærði hafi einu sinni tekið upp á myndband þegar þær voru að dansa. Vitnið var spurð hvort það hafi getað verið eðlilegur þáttur í starfi ákærða að taka upp leikrit með nemendunum og hvort upptökubúnaður hafi verið til í félagsmiðstöðinni. Hún kvað skólann hafa átt upptökuvél og ákærði hafi stundum fengið hana lánaða. Það hafi í sjálfu sér ekki verið óeðlilegt að hann hafi verið að sinna slíku með nemendunum.
AD, BA í uppeldisfræði, kom fyrir dóminn. Vitninu var fyrst gerð grein fyrir að hún hafi greint frá því við lögreglurannsókn málsins að nemendur úr félagsmiðstöð [...]skóla hafi komið í heimsókn til Stígamóta í október 1998 og að tvær stúlkur, B og C, hafi rætt við þær í framhaldi af þeirri heimsókn eða í þeirri heimsókn. Vitnið kvað þetta hafa verið þannig að nemendurnir hafi komið í heimsókn 22. október og þrjár starfskonur Stígamóta hafi tekið á móti þeim og frætt þá um Stígamót og hvað Stígamót gerðu, en þetta hafi fremur verið á léttum nótum. Þegar þau voru að fara hafi C og B komið að máli við þær og spurt þær út í ofbeldi, eins og þær töluðu um það, og hvað það væri. Þar hafi C gefið sterklega í skyn að hún hefði orðið fyrir ofbeldi. Aðspurð hvernig hún hafi gert það kvað vitnið hana einfaldlega hafa sagt: “Ég varð fyrir svona ofbeldi.” Hún hafi ekki sagt hvernig eða hver, en hún hafi notað orðið ofbeldi. Aðspurð sagði vitnið að áður hafi þær Stígamótakonur komið í heimsókn í skólann, en það hafi verið þann 18. september. Heimsóknin í Stígamót hafi verið í framhaldi af þeirri heimsókn. Vitnið sagði að þann 26. október hafi verið gengið frá því að þær B og C kæmu báðar til þeirra. Þær hafi svo komið 2. nóvember og kvaðst vitnið hafa tekið á móti þeim. Þá hafi þær greint henni frá því sem hafði hent þær. Ákveðin umræða hafi verið í skólanum fyrir upphaflega heimsókn þeirra og þegar stúlkurnar komu hafi þær greint vitninu frá því. B hafi sagt henni frá því sem komið hafði fyrir hana og síðan C. Aðspurð hvort B hafi gert það ítarlega sagði vitnið að hún hafi gert það eins og hægt sé í fyrsta viðtali. Hún hafi sagt frá því að þetta hefði komið fyrir og hver það hafi verið. Sagði vitnið aðspurð að þær hafi báðar verið saman og þær hafi viljað vera saman. Táknmálstúlkur hafi ekki verið viðstaddur. B hefði talað fyrst og sagt frá sinni reynslu og svo hafi C tekið við og þá hafi B farið fram. Aðspurð hvort C hafi getað lýst einstökum tilvikum fyrir henni sagði vitnið að sennilega hafi hún ekki getað gert það þá, en hún hafi sagt að þetta hafi komið fyrir og í raun hafi hún verið að átta sig á því að þetta sem hún hafði upplifað hafi verið eitthvað sem var ekki rétt og einnig hafi hún verið að átta sig á því að það hafi komið fyrir fleiri en hana. Aðspurð hvort hún hafi greint frá því að það hafi gerst eitthvað annað en það sem gerðist í skólanum kvað vitnið svo ekki vera. Hún hafi ekki greint henni frá neinni fyrri reynslu. Aðspurð hvað gerst hafi í framhaldinu sagði vitnið að þegar þær komu hafi þær sagt frá að einhverju leyti og hún hafi bent þeim á að hún gæti ekki setið á þessum upplýsingum. Þetta væru upplýsingar sem henni bæri skylda til að tilkynna og láta foreldra og fleiri vita um. Þær hafi verið búnar að nefna þetta við einn kennara skólans, sem hún myndi ekki nafn á, þannig að einhver vitneskja hafi verið komin í skólann. Stúlkurnar hafi svo komið í annað viðtal viku seinna og þá hafi þær haldið áfram að ræða að þetta væri eitthvað sem yrði að gera opinbert í skólanum og ekki síður foreldrum. Í kjölfarið hafi það svo gerst að þetta hafi verið gert opinbert í skólanum með því móti að skólastjóri og einhverjir kennarar hafi fengið að vita það og þær hafi haft samband við móður C. Vitnið sagði að C hafi haldið áfram að koma til Stígamóta. Kvað vitnið hana hafa komið til sín vikulega fram undir marsmánuð 1999 og haldið áfram að koma til hennar alveg fram á vor. Þær hafi haldið sambandi, en hún hafi hætt störfum hjá Stígamótum í febrúar 1999, en hún héldi áfram að hitta C. Eftir mars hafi það e.t.v. verið hálfsmánaðarlega. Hún hafi lítillega fylgst með henni yfir sumarið og hafi svo verið í sambandi við hana. Aðspurð í hverju meðferð þeirra eða samvinna væri fólgin sagði vitnið að samvinna þeirra C hafi verið svolítið sérstök. C hafi neitað að hafa túlk þannig að viðtöl þeirra hafi tekið þeim mun lengri tíma. Reyndar skildi hún mjög vel og ætti auðvelt með að tala, en það hafi tekið lengri tíma að öðlast traust hennar. C hafi sagt vitninu frá því sem hafði gerst, en einnig hafi þær tekist á við dagleg mál. Það hafi verið erfiðleikar hjá henni í skólanum og þar hafi ýmislegt gengið á. Hún hafi svo skipt um skóla og kvaðst vitnið hafi veitt stuðning í því sambandi. Þá hafi þetta verið fólgið í stuðningi heima fyrir og að aðstoða við að átta sig á því sem hafði gerst og tengja þá atburði við daginn í dag og sjá afleiðingar.
Vitnið var spurð hvort C hafi lýst því sem komið hafði fyrir hana í skólanum. Hún kvað hana hafa gert það, eflaust ekki öllu, en hún hafi lýst nokkrum atvikum fyrir vitninu. Aðspurð kvaðst vitnið að líkindum síðast hafa hitt C í lok febrúar sl., en þær skrifist á í tölvupósti. Vitnið sagði að hún vildi að C nyti ráðgjafar annars ráðgjafa á Stígamótum eða annars staðar, vegna þess að hún vildi að hún héldi áfram að fá sérfræðiaðstoð. C hafi verið dálítið treg til þess, en hún hafi gefið C það skýrt til kynna að hún vildi að hún færi annað. Hún hafi verið nokkuð ákveðin með það að skipta ekki. Vitnið var spurð hvort hún gæti borið saman líðan C þegar hún kom fyrst til hennar og greindi frá þessu miðað við líðan hennar nú, þ.e. hvort og þá hvaða breytingar hafi orðið á líðan hennar. Vitnið kvað það að mörgu leyti ekki vera sambærilegt. C hafi oft liðið mjög illa og eftir tíma hjá þeim sem hafi e.t.v. gengið misjafnlega vel, hafi hún e.t.v. viljað tala um eitthvað auðveldara en þetta. Hafi hún átt það til að fara heim til sín og skrifa vitninu og hún hafi getað skrifað henni og þær hafi náð góðu sambandi þannig. Hún hafi lýst miklum erfiðleikum og m.a. myndi hún að hún hafi sagt að hún vildi óska þess að það kæmi bíll og keyrði á hana, að hún fengi hjartaáfall og að hún gæti skorið sig í æðarnar, eins og hún lýsti því. Af slíku hafi hún ekki heyrt eins mikið að undanförnu. Það væru erfiðleikar, en hún hafi náð að mynda ný félagsleg tengsl í núverandi skóla. C væri í jassballett og henni fyndist hún blómstra oftar. Hún hafi ekki þekkt hana áður, en nú fyndist henni þetta vera allt annað barn. Henni fyndist hafa orðið gjörbreyting eftir að hún áttaði sig á því að hún væri ekki ein og að þetta var rangt, en eflaust ætti hún langt í land.
Vitnið var spurð hvort B hafi komið áfram til Stígamóta. Vitnið kvað hana hafa komið í þessi tvö skipti, rætt síðan um að hún hafi sagt frá öllu og að nóg væri komið. B hafi síðan rætt þetta við foreldra sína og systur. Þær hafi einu sinni haft fund sameiginlega með öllum stúlkunum um lagalega hlið málsins. Tekin hafi verið ákvörðun um að hún héldi áfram með C, en ekki fleiri þessara stúlkna.
Vitnið sagði að í raun væri ekki hægt að ræða um kynferðislegt ofbeldi við grunnskólabörn, heldur hafi þær rætt almennt hvað mætti og hvað mætti ekki og um mannréttindi. Í framhaldi af því hafi þær sest niður með kennara og forstöðukonu félagsmiðstöðvarinnar og þau hafi spurt hvort þau mættu koma í heimsókn til Stígamóta og skoða húsið. Þau hafi svo komið í heimsókn 22. október og í hópnum hafi verið verið að hún hélt sjö nemendur og forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar. Þegar hópurinn var að fara, margir farnir út, hafi þessar tvær stúlkur snúið sér til þeirra. Framhaldið af því sé að C hafi hringt og komið til þeirra og hún hafi komið til vitnisins í nokkur skipti. Aðspurð hvernig þær hafi getað rætt við stúlkurnar sagði vitnið að C væri mjög fær að lesa af vörum og B gæti það einnig. B hafi komið í tvö skipti, en C hafi haldið áfram. Kvaðst vitnið ítrekað hafa reynt að fá táknmálstúlk með þeim, enda hafi hún haldið að það yrði C auðveldara að nota táknmálið, en hún hafi frekar viljað hafa þetta á framangreindan hátt og það hafi gengið vel. Vitnið hafi skilið C og B hafi skilið hana.
VIII.
Með bréfi dagsettu 13. júlí 1999 óskaði lögreglustjórinn í [...] eftir því við Tómas Zoëga geðlækni að hann mæti þroska og andlegt og líkamlegt heilbrigði ákærða. Í bréfinu var vísað til upphafsmálsliðar d-liðar 1. mgr. 71. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Niðurstöðukafli mats geðlæknisins er svohljóðandi.
“X er heyrnarlaus maður í kjölfar rauðra hunda sem móðir fékk á meðgöngu. Hefur sótt nám í [...]skólanum, stundaði vinnu um tíma, hefur yfirleitt komið sér vel. Ekki er annað að sjá en uppeldi hans hafi verið eins eðlilegt og við mátti búast, hann hefur verið í sambúð með konu í tvö ár og á með henni eina dóttur. Ekki er hægt að fá fram sögu um að X hafi verið beittur kynferðislegri misnotkun eða ofbeldi sjálfur, þvert á móti ber hann sínum nánustu mjög vel söguna.
Ástæða er til að endurtaka hér að töluverður munur er á vitnisburði stúlknanna og því sem kemur fram í vitnisburði X. Í viðtölum við undirritaðan er frásögn hans í samræmi við það sem kemur fram í vitnisburði hans í málsskjölum.
Í viðtölum við X er erfitt að finna beinar skýringar á því sem hefur gerst og er þá horft til vitnisburðar hans.
X játar því að hafa haft í frammi ósæmilega hegðun, fyrst þegar hann var 15 ára og var nemandi í [...]skólanum. Einnig játar hann ósæmilega hegðun í starfi með unglingsstúlkum er voru nemendur í [...]skólanum og hann leiðbeinandi þeirra.
Líkur eru á því að hluti af þeirri hegðun sem X sýndi þegar hann var 15 ára og síðar, falli undir hugtakið barnagirnd (paedophilia), sem er kynlífsafbrigði (paraphilia).
Í viðtölunum, sem fram fóru, fengust ekki upplýsingar um hvort X væri eða hefði verið upptekinn af kynlífsórum um börn, enda varla hægt að búast við því að þess háttar upplýsingar fengjust í slíkum viðtölum.
Engin almenn skýring er til á því hvers vegna slíkt kynlífsafbrigði þróast hjá einstaklingum, en margar skýringartilgátur hafa verið settar fram innan geðlæknisfræðinnar. Engin ein skýringartilgáta hefur orðið ofan á þegar gerðar hafa verið tilraunir til að skýra slíka afbrigðilega hegðun. Flestir eru á því að margir þættir í þroska og uppeldi séu samverkandi og líffræðilegar orsakir hafa alls ekki verið útilokaðar.
Þegar horft er til vitnisburðar X er greinilegt að ósæmilegt athæfi á sér stað, athæfi sem hann staðhæfir að sé að hluta til örvað af atferli þeirra ungu stúlkna sem voru (eru) nemendur í [...]skólanum.
Einstaklingur sem haldinn er barnagirnd er yfirleitt orðinn 16 ára eða a.m.k. 5 árum eldri en barnið og er upptekinn af kynlífsórum um börn. Athæfið kann að vera takmarkað við að klæða barnið úr fötunum og virða það fyrir sér, sýna sjálfan sig, fá sáðlát í návist barnsins eða þukla á barninu. Stöku sinnum er gengið lengra. Viðkomandi réttlætir oft hegðun sína á þann hátt að þetta hafi menntunargildi fyrir barnið eða framferðið hafi verið örvað af barninu.
Athæfi sem X gengst við, að láta stúlkurnar pissa í poka sem hann fleygði síðan, flokkast í geðlæknisfræðinni undir mjög sjaldgæft kynlífsafbrigði (paraphilia), sem kalla má þvagsækni (urophilia). Slík hegðun er samkvæmt fræðibókum mjög sjaldgæf. X vildi ekki ræða þetta atferli í neinum smáatriðum í viðtölum við undirritaðan. Hvort sú reynsla, sem X varð fyrir 9 ára, er hann var í sveit norður í landi, skýrir þetta atferli er ómögulegt að fullyrða neitt um.
Sú staðreynd að X segist hafa lifað eðlilegu kynlífi með sambýliskonu sinni, þarf alls ekki að útiloka slíkt kynlífsafbrigði, sem hann gengst við að hafa stundað.
Hér er rétt að fram komi að ekki er að sjá að X hafi sýnt af sér endurtekna ofbeldisfulla hegðun og virðist að öðru leyti ekki hafa sýnt af sér neina afbrigðilega óæskilega hegðun, þvert á móti virðist hann hafa komið sér vel eftir því sem best verður séð af gögnum málsins.
Hvað varðar meðferð á því kynlífsafbrigði sem hér er um að ræða er fyrirbyggjandi nálgun einföldust. Engar líkur eru á því að refsing í formi varðhalds væri til góðs. Langur skilorðsbundinn dómur hefði langmest fyrirbyggjandi gildi.
Líklegt er að ef geðlæknir talaði við X yfir lengri tíma mætti sjálfsagt fá gleggri mynd af hugrenningatengslum X, sem vonandi yrði til þess að minnka líkurnar á því að slíkt athæfi, og hann gengst við, endurtaki sig.”
Tómas Zoëga geðlæknir kom fyrir dóminn. Vitnið framkvæmdi geðskoðun á ákærða. Hann var beðinn að gera grein fyrir niðurstöðum sínum. Vitnið kvaðst ekki vita hvort hann hefði frekari skýringar en kæmu fram í þessum plöggum. Kvaðst vitnið vilja taka fram að þessi rannsókn hafi fyrir hann verið svolítið öðruvísi en venjulega vegna þess að viðkomandi einstaklingur er heyrnarskertur þannig að allar samræður þeirra hafi farið fram með aðstoð táknmálstúlks. Samræðan yrði því alltaf svolítið öðruvísi, sérstaklega þar sem hann væri ekki vanur viðtölum af þessu tagi. Kvaðst vitnið vilja hafa þennan fyrirvara á.
Vitnið sagði að sumarið 1999 hafi hann verið beðinn að ræða við ákærða til þess að meta þroska og andlegt heilbrigði hans, eins og það hafi verið orðað í beiðninni. Í bréfinu hafi verið rætt um að þess væri vænst að niðurstöður rannsóknarinnar yrðu til þess að varpa skýrara ljósi á aðstæður ákærða með tilliti til þeirrar háttsemi sem hann væri kærður fyrir. Kvaðst vitnið ekki vita hvort skýrsla hans gerði það, en þetta lægi fyrir í henni og hann vissi ekki hvort hægt væri að draga það mikið saman. Í örstuttri samantekt þá væri ákærði heyrnarskertur eða heyrnarlaus af völdum rauðra hunda. Hann hafi verið í [...]skólanum um árabil og það væri ekki annað að sjá en hann hafi komið sér þokkalega vel þar. Hann hafi verið í sambúð með konu og átt með henni barn.
Vitnið sagði að eitt af hlutverkum hans hafi verið að kanna hvort einhver skýring væri á þeirri háttsemi sem ákærði væri sakaður um og hann hefði viðurkennt, a.m.k. að hluta til. Í sjálfu sér væri ekki hægt að tala um þau atriði sem tínd eru til, og hann hefði eftir ákærða, sem skýringu á því sem gerðist. Það væri e.t.v. langsótt. Það væri ekki annað að sjá en hann hafi játað, fyrst sem 15 eða 16 ára gamall nemandi í skólanum, að hafa leitað á stúlku sem var nokkrum árum yngri en hann, og síðan það sem átt hafi sér stað þegar hann var starfsmaður þar nokkrum árum seinna. Annars vegar fælist athæfi hans í því að leita á stúlkur sem voru ekki kynþroska og hins vegar athæfi í sambandi við þvag og saur. Niðurstaða vitnisins sé sú að verulegar líkur séu á því að ákærði sé haldinn því sem félli undir hugtakið barnagirnd eða paedophilia sem væri kynlífsafbrigði. Það væru margar skýringatilgátur um það af hverju þetta þróaðist, en í stuttu máli mætti draga þær saman í það að það væri hreinlega ekki vitað. Flestir séu á því að það séu einhverjir samverkandi þættir sem geti hugsanlega spilað þarna saman. Þessu sé lýst þannig að viðkomandi sé yfirleitt orðinn 16 ára gamall og a.m.k. fimm árum eldri en barnið sem hann er sakaður um að leita á, viðkomandi þurfi að vera upptekinn af kynlífsórum um börn og athæfið kunni að vera takmarkað við að klæða barnið úr fötunum, horfa á það, fá sáðlát í návist barnsins, þukla á barninu og stöku sinnum væri gengið lengra. Þá réttlæti viðkomandi hegðun sína oft með því að þetta hafi menntunargildi fyrir hlutaðeigandi barn og að framferðið sé örvað af barninu. Hitt atriðið væri þar sem ákærði gangist við að hafa látið stúlkurnar pissa í poka. Sagði vitnið að það væri mjög erfitt að finna nokkuð um það í þeim bókum sem hann kannaði, en rætt væri um þetta sem paraphiliu sem væri sjaldgæft kynlífsafbrigði. Ákærði hafi ekki viljað ræða mikið um þetta við vitnið.
Vitnið var spurður hvort hann teldi, eftir að hafa skoðað gögn málsins og rætt við ákærða, ástæðu til að ætla, miðað við það sem ákærði þó játaði gagnvart fyrstu telpunni þegar hann var 15 ára eða 16 ára, að ákærði væri vísvitandi að ljúga í lýsingum sínum. Vitnið sagði að það hafi ekkert komið fram í samræðum hans við ákærða sem benti til þess. Það sem ákærði sagði vitninu hafi honum sýnst vera í fullu samræmi við það sem hann las í skýrslum málsins og hann hafði aðgang að. Vitninu var kynnt það sem segir í niðurlagi skýrslu hans: “Engar líkur eru á því að refsing í formi varðhalds væri til góðs. Langur skilorðsbundinn dómur hefði langmest fyrirbyggjandi gildi.” Í framhaldi af því var vitnið spurður hvað það væri sem hann ætti við með langur skilorðsbundinn dómur, þ.e. hvort það væri skilorð sem myndi vara í allmörg ár. Vitnið kvaðst með þessu eiga við skilorðið sem slíkt. E.t.v. mætti segja að það væri ekki hans að koma fram með skoðun sem þessa, en þetta væri eigi að síður skoðun hans. Áréttaði vitnið að það sem átt væri við væri að árafjöldinn sem skilorð dómsins ætti að vara mætti vera í lengra lagi. Vitnið var spurður hvort hann hefði einhver sérstök skilyrði í huga umfram það almenna. Vitnið kvaðst ekkert hafa í huga umfram það.
Niðurstöður
Um 1. ákærulið. Ákærði hefur viðurkennt að á árinu 1989 eða 1990 hafi hann fengið A, sem þá var átta eða níu ára, til að girða niður um sig á salerni í [...]kirkjugarði, þar sem hann hafi sjálfur girt niður um sig, sýnt henni kynfæri sín og fengið hana til að fróa honum uns honum varð sáðlát. Hann hefur einnig viðurkennt að í þetta sama skipti hafi hann sleikt kynfæri stúlkunnar og reynt að hafa við hana samfarir. Hefur ákærði samkvæmt því einungis viðurkennt að um eitt skipti hafi verið að ræða.
Það sem ber í milli framburðar ákærða og lýsingar í ákæru er að þar er gengið út frá því að um þrjú tilvik hafi verið að ræða. Vitnið, A, bar á þann veg fyrir dóminum að um þrjú tilvik hafi verið að ræða, líkt og rakið er í ákæru. Framburður vitnisins var stöðugur, heilsteyptur og trúverðugur. Var hann í veigamiklum atriðum samhljóða framburði vitnisins við lögreglurannsókn málsins.
Eins og áður er að vikið kom málið upp á yfirborðið í nóvember 1998 eða átta til níu árum eftir að atvik þau urðu sem ákært er út af. Enda þótt ákærða og vitnið greini á um málsatvik er ljóst að framburður ákærða og vætti vitnisins, A, er samhljóða í veigamiklum atriðum. Þegar framanritað er virt telur dómurinn að leggja verði framburð ákærða, sem hefur verið stöðugur, til grundvallar. Samkvæmt því telur dómurinn sannað að ákærði hafi á árinu 1989 eða 1990 fengið vitnið, A, sem þá var átta eða níu ára, til að girða niður um sig á salerni í [...]kirkjugarði, þar sem hann hafi sjálfur girt niður um sig, sýnt henni kynfæri sín og fengið hana til að fróa honum uns honum varð sáðlát. Enn fremur að hann hafi í sama skipti sleikt kynfæri hennar og síðan reynt að hafa við hana samfarir. Hins vegar leið langur tími þar til málið kom upp. Þykir því varhugavert að telja sannað að þetta hafi gerst með öðrum hætti en ákærði hefur játað.
Með framanlýstri háttsemi sinni hefur ákærði brotið gegn 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.
Um 2. ákærulið. Ákærði hefur við rannsókn og meðferð málsins staðfastlega neitað því sem honum er gefið að sök í þessum ákærulið. Hefur framburður hans verið stöðugur að þessu leyti um öll atriði sem máli skipta.
Framburður vitnisins, B, um sakarefnið hefur verið staðfastur og trúverðugur. Þó er þess að geta að ekki nýtur við beinna sönnunargagna sem styrkja framburð vitnisins. Þau vitni sem leidd voru báru m.a. um það sem þau höfðu eftir vitninu, B, um atvik máls, um það leyti sem málið kom upp, og enn fremur um líðan hennar, en eins og komið hefur fram liðu um fjögur ár frá því umrætt atvik á að hafa gerst þar til það var kært til lögreglu.
Þegar þetta er haft í huga verður að telja, gegn eindreginni neitun ákærða, að ekki sé komin fram lögfull sönnun þess að ákærði hafi gerst sekur um það atferli sem honum er gefið að sök í þessum ákærulið og ber að sýkna hann af honum.
Um 3. ákærulið. Ákærði hefur játað hluta sakargifta, en neitað hluta þeirra. Hafa ber í huga að ákæran hefur tekið nokkrum breytingum undir rekstri málsins. Ákærði hefur kannast við að hafa, þegar C var tólf eða þrettán ára, látið hana setjast í fang sér í bifreið hans á afskekktum stað fyrir utan [...] og boðið henni borgun fyrir. Aftur á móti neitar hann því að hafa strokið stúlkunni. Þá hefur ákærði viðurkennt að hafa á árinu 1996 nokkrum sinnum látið C hafa þvaglát í glös og baðker á salerni í félagsmiðstöðinni. Hafi hann borgað henni á bilinu 100 til 300 krónur fyrir í hverju tilviki. Ákærði neitar því hins vegar að hafa látið stúlkuna hafa saurlát og að hafa skoðað þvag og hægðir. Hann hafi beðið hana að segja ekki frá, en neitaði því aftur á móti að hafa borgað henni fé fyrir það.
Framburður vitnisins C um þau atriði sem um getur í ákæru var fyrir dóminum í meginatriðum á sömu lund og við lögreglurannsókn málsins. Hefur framganga hennar í málinu ekki verið ótrúverðug. Aftur á móti hefur ákærði verið staðfastur í neitun sinni og ekki nýtur við annarra sönnunargagna en frásagnar stúlkunnar. Þykir því verða að sýkna hann af þeim ákæruatriðum að hann hafi strokið henni í bifreiðinni, að hafa fengið hana til að hægja sér og að hafa skoðað þvag hennar og hægðir. Að öðru leyti ber að sakfella ákærða fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum ákærulið. Hefur hann með þessu brotið gegn seinni málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 9. gr. laga nr. 40/1992.
Um 4. ákærulið. Ákærði hefur staðfastlega neitað að hafa framið þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum ákærulið. Hefur framburður hans verið stöðugur í öllum atriðum.
Framburður vitnisins, D um sakarefnin hefur einnig verið staðfastur og trúverðugur. Þó er þess og að geta að ekki nýtur við beinna sönnunargagna sem styrkja framburð vitnisins. Þess er og að geta að hún hefur ekki borið það á ákærða að hún hafi grúft sig ofan í klof hans er þau voru stödd á kvöldskemmtun í félagsmiðstöð skólans. Er þessi framburður vitnisins í andstöðu við það sem vitnið Z bar.
Móðir D bar einkum um það sem hún hafði eftir dóttur sinni um atvik máls, um það leyti sem málið kom upp, og enn fremur um líðan hennar, en eins og komið hefur fram eiga umrædd atvik að hafa gerst á árunum 1994 til 1996, en voru kærð til lögreglu í lok árs 1998.
Þegar þetta er haft í huga verður að telja, gegn eindreginni neitun ákærða, að ekki sé komin fram lögfull sönnun þess að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum ákærulið og ber að sýkna hann af honum.
Um 5. ákærulið. Ákærði hefur við meðferð málsins viðurkennt að hafa á árinu 1996 eða 1997, þegar E var átta eða níu ára gömul, fengið hana til að pissa í poka á salerni félagsmiðstöðvarinnar og boðið henni fé fyrir. Við lögreglurannsókn málsins var framburður ákærða á þann veg að þetta hafi gerst tvívegis. E kom ekki fyrir dóm til skýrslugjafar, en í rannsóknarviðtalinu í svokölluðu Barnahúsi nefndi hún einungis að þetta hefði gerst einu sinni. Við aðalmeðferð málsins var ákærði ekki spurður út í þetta misræmi. Leggja verður til grundvallar framburð ákærða fyrir dómi um þetta atriði, enda er hann í fullu samræmi við það sem fram kom hjá telpunni í téðu rannsóknarviðtali. Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi um það sem hann hefur játað varðandi þetta ákæruatriði.
Ákærða er enn fremur gefið að sök að hafa sýnt E klámmyndband í félagsmiðstöðinni. Hefur hann viðurkennt að þetta hafi átt sér stað, en við rannsókn og meðferð málsins lýsti ákærði því að hann hafi tekið þetta myndband í misgripum heima hjá sér og hafi ætlun hans ekki verið að sýna telpunni þessa mynd. Þessari skýringu ákærða hefur ekki verið hnekkt. Að því virtu verður að telja að ákærða hafi skort ásetning til þessa verknaðar, sbr. 18. gr. almennra hegningarlaga. Ber samkvæmt því að sýkna hann af þessu ákæruatriði.
Þriðja ákæruefnið undir þessum lið er að ákærði hafi beðið E að girða niður um sig og setjast ofan á ákærða, er þau voru í bifreið hans, og boðið henni 1000 krónur fyrir. Við aðalmeðferð málsins kannaðist ákærði ekki við að þetta hafi gerst. Hins vegar kannaðist hann við að telpan hafi sest ofan á hann. Þau hafi verið í ökuferð og hana hafi langað til að fá að taka í stýrið. Þegar þau voru komin út í [...] hafi E sest í fang hans og fengið að taka í stýrið. Hann hafi svo fært hana aftur yfir í farþegasætið. Sem fyrr segir kom E ekki fyrir dóminn. Verður að leggja framburð ákærða til grundvallar um þetta atriði. Að mati dómsins þykir ljóst, þegar litið er til atvika, að ósannað sé að kynferðislegur tilgangur hafi falist í því hjá ákærða að taka telpuna í fang sér eins og að framan er lýst. Verður hann því sýknaður af þessu ákæruatriði.
Þá er ákærða gefið að sök að hafa sýnt telpunni reistan getnaðarlim sinn inni á salerni félagsmiðstöðvar skólans og skoðað kynfæri hennar. Ákærði neitar þessu, en kannast við að hafa verið með telpunni inni á salerni félagsmiðstöðvarinnar. Sagði ákærði að hún hafi einu sinni girt niður um sig í viðurvist hans, en það hafi verið af því tilefni að telpan óskaði eftir að ákærði veitti henni aðstoð á salerninu og við því hafi hann orðið. Sem fyrr segir kom E ekki fyrir dóm. Gegn staðfastri neitun ákærða er ósannað að hann hafi framið það atferli sem honum er gefið að sök. Verður hann því sýknaður af þessu ákæruatriði.
Ákærða er loks gefið að sök að hafa kysst E á kinn og strokið brjóst hennar. Einnig að hafa bannað henni að segja öðrum krökkum frá því sem hann hefði gert henni. Ákærði neitar þessu. Telpan kom ekki fyrir dóm. Gegn neitun ákærða telur dómurinn ósannað að ákærði hafi framið það háttsemi sem að ofan greinir. Verður hann samkvæmt því sýknaður af háttseminni.
Með því atferli sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir undir þessum ákærulið hefur ákærði brotið gegn 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 15. gr. laga nr. 40/1992.
Um 6. ákærulið. Fyrir liggur í málinu að ákærði var liðsmaður F á tímabilinu frá febrúar og fram til sumars 1998, en þá var stúlkan 14 ára. Undir þessum ákærulið er ákærða gefið að sök að hafa kysst hana og boðið henni 300 krónur fyrir tvo kossa, 800 krónur fyrir kossa þar sem tungur þeirra snertust og 600 krónur fyrir að segja foreldrum ekki frá. Einnig fyrir að hafa strokið handleggi stúlkunnar og læri. Honum er enn fremur gefið að sök að hafa reynt að kyssa F í porti nálægt [...] og að hafa rétt við heimili hans og í [...] kysst stúlkuna svo að tungur þeirra snertust. Við dómsmeðferð málsins neitaði ákærði þessum sakargiftum og sagði að þetta hefði aldrei gerst. Fram kom hjá ákærða að það sem F segði væri ekki allt rétt. Hann hafi veitt því eftirtekt þegar hann var liðsmaður hennar að fyrir hafi komið að hún laug að honum og bjó til sögur. Þá er ákærða gefið að sök að hafa reynt að girða niður um hana buxurnar í félagsmiðstöð skólans. Ákærði neitar þessu. Ákærða er enn fremur gefið að sök að hafa strokið og kysst F í bifreið konu ákærða í [...]kirkjugarði. Hann neitar að þetta hafi átt sér stað.
Framburður vitnisins, F, fyrir dóminum varðandi kossana var á þá leið að ákærði hafi kysst hana heima hjá honum, við [...], bak við bókabúðina á [...], í félagsmiðstöð skólans og í [...]kirkjugarði. Einnig kvað hún ákærða hafa reynt að girða niður um hana buxurnar í félagsmiðstöð skólans. Framburður vitnisins um þessi atriði var trúverðugur og í samræmi við það sem hún greindi frá í rannsóknarviðtalinu í desember 1998. Ekki nýtur við beinna sönnunargagna í málinu. Framburður ákærða um framangreind atriði hefur verið staðfastur og ekkert það fram komið sem veikir hann. Gegn eindreginni neitun ákærða verður að telja ósannað að hann hafi gerst sekur um það atferli sem að ofan greinir. Ber samkvæmt því að sýkna ákærða af þessum ákæruatriðum.
Ákærða er enn fremur gefið að sök að hafa sýnt F klámspólur á heimili sínu og við það tækifæri setið með hana í fanginu og beðið hana að leggjast með honum á gólfið svo að hann gæti sýnt henni hvernig kynmök fara fram. Hefur ákærði viðurkennt að hafa sýnt stúlkunni, að þrábeiðni hennar, myndband í tíu til fimmtán sekúndur þar sem gefið hafi að líta karl og konu í samförum. Telst þessi háttsemi ákærða sönnuð með játningu hans sem studd er framburði vitnisins, F. Hinum tveimur ákæruatriðunum neitar ákærði. Framburður vitnisins, F, um þessi atriði var trúverðugur og í samræmi við það sem hún skýrði frá í rannsóknarviðtalinu. Á sama hátt var framburður ákærða um þessi atriði staðfastur við meðferð málsins og í samræmi við það sem fram kom hjá honum við lögreglurannsóknina. Gegn neitun ákærða verður að telja ósannað að ákærði hafi gerst sekur um framanlýsta háttsemi. Ber samkvæmt því að sýkna hann af þessu tveimur ákæruatriðum.
Þá er ákærða gefið að sök að hafa látið F pissa í fötu á salerni í félagsmiðstöð skólans og í sama skipti látið hana horfa á sig kasta af sér vatni. Ákærði hefur játað að fyrrgreinda atriðið hafi átt sér stað, en ekki hið síðarnefnda, þó ekki í félagsmiðstöðinni heldur á heimili hans í sama skiptið og hann sýndi stúlkunni myndband sem innihélt klámfengið efni. Vitnið, F, hélt því fram við dómsmeðferð málsins að ákærði hafi látið hana pissa í fötu er þau voru stödd í félagsmiðstöð skólans. Ekki kom fram hjá vitninu hvort ákærði hafi látið hann horfa á hann pissa í sama skipti. Vitnið greindi aftur á móti frá því að í sama skipti og ákærði sýndi henni umrætt myndband hafi hann látið hana pissa í fötu og látið hana horfa á hann kasta af sér vatni í sama skipti. Samkvæmt framansögðu eru ákærði og vitnið samsaga um að hann hafi látið hana pissa í fötu, en nú heldur vitnið því fram að það hafi gerst tvívegis, sem er breyting á því sem fram kom í rannsóknarviðtalinu. Framburður vitnisins hefur því breyst nokkuð hvað þetta ákæruatriði varðar, en að mati dómsins var skýrsla hennar fyrir dómi ekki ótrúverðug. Allt að einu verður, þar sem ekki er til að dreifa áþreifanlegum sönnunargögnum, að leggja framburð ákærða til grundvallar í þessu efni. Verður ákærði samkvæmt því sakfelldur fyrir að hafa látið F hafa þvaglát í fötu á heimili hans þegar hann var liðsmaður hennar á árinu 1998. Aftur á móti ber að sýkna hann af því ákæruatriði að hann hafi látið hana horfa á hann pissa í sama skipti.
Með þeirri háttsemi sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir samkvæmt þessum ákærulið hefur hann brotið gegn 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 15. gr. laga nr. 40/1992.
Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann ekki sætt refsingu svo kunnugt sé.
Refsing ákærða þykir eftir atvikum öllum, og með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga, hæfilega ákveðin fangelsi í 9 mánuði. Rétt þykir, með hliðsjón af því að ákærði var sjálfur vart kominn af barnsaldri þegar hann framdi fyrsta og alvarlegasta brotið, að ákveða að fresta fullnustu refsingarinnar og að hún skuli niður falla að liðnum þremur árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð eins og nánar greinir í dómsorði.
Af hálfu allra stúlknanna hafa verið settar fram kröfur um skaða- og miskabætur. Kröfurnar eru allar sömu fjárhæðar, eins sundurliðaðar og rökstuddar með sama hætti.
Endanleg fjárhæð hverrar kröfu um sig er 1.750.000 krónur. Sundurliðast kröfurnar þannig að krafist er 1.200.000 króna í miskabætur, 300.000 króna fyrir framtíðar fjártjón og 250.000 króna fyrir fjártjón.
Miskabótakrafan sé byggð á 26. gr. skaðabótalaga, en fyrir liggi að brot ákærða gagnvart hverri stúlku um sig feli í sér ólögmæta meingerð gegn frelsi, friði og persónu hennar. Vísað sé til alvarleika brota og ungs aldurs brotaþola. Þau atriði sem tilgreind eru séu til þess fallin að leiða til hækkunar bóta skv. 26. gr. Varðandi kröfuna um framtíðarfjártjón er á það bent að í framtíðinni sé líklegt að viðkomandi brotaþoli og foreldri þurfi að bera ýmsan sérfræðikostnað, t.d. vegna aðstoðar lækna, sálfræðinga og félagsfræðinga. Varlega áætlaður sé þessi kostnaður 30.000 krónur á ári um ókomna framtíð. Sé þessi kostnaður höfuðstólsfærður á grundvelli reiknireglu 6. gr. skaðabótalaga fáist niðurstaðan 300.000 krónur. Krafan fyrir framtíðarsérfræðiþjónustu sé miðuð við þessa fjárhæð. Hvað varðar bætur fyrir annað fjártjón, sbr. 1. gr. skaðabótalaga sé ljóst að foreldri viðkomandi brotaþola hafi orðið fyrir margvíslegu fjártjóni í tengslum við málið. Þannig megi nefna kostnað vegna aksturs til og frá læknum, félagsráðgjöfum og öðrum sérfræðingum sem komið hafa að málinu, sem og kostnaðar vegna sérfræðiþjónustu. Þá sé ljóst að umönnun viðkomandi brotaþola hafi orðið til mikilla muna umfangsmeiri vegna málsins en ella. Hafi slíkt m.a. leitt til margvíslegra útgjalda og tapaðra tekna sem erfitt sé að festa hendur á. Bætur fyrir annað fjártjón séu í ljósi framangreinds varlega áætlaðar 250.000 krónur.
Eins og rakið er undir liðum 2 og 4 hefur ákærði verið sýknaður af þeirri háttsemi sem honum er þar gefin að sök. Að því aðgættu og með vísan til 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 verður bótakröfum B og D vísað frá dómi.
Dómurinn telur að hæfilegar miskabætur til handa A, C og F séu 250.000 krónur, en til handa E 150.000 krónur. Um vexti og dráttarvexti fer eins og í dómsorði greinir, svo og um kostnað við að halda fram kröfunum.
Dæma ber ákærða til greiðslu helmings sakarkostnaðar, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns, en helmingur þeirra greiðist úr ríkissjóði, allt eins og nánar greinir í dómsorði. Sömuleiðis verður ákærði dæmdur til að greiða helming réttargæsluþóknunar skipaðra réttargæslumanna stúlknanna, Reimars Péturssonar héraðsdómslögmanns og Sifjar Konráðsdóttur hæstaréttarlögmanns, en helmingur greiðist úr ríkissjóði, allt eins og í dómsorði greinir.
Júlíus B. Georgsson, Páll Þorsteinsson og Pétur Guðgeirsson héraðsdómarar kváðu upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 9 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði A 250.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 10. apríl 1999 til dómsuppsögudags, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags og 50.000 krónur í kostnað við að halda fram kröfunni.
Ákærði greiði C 250.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 10. apríl 1999 til dómsuppsögudags, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags og 50.000 krónur í kostnað við að halda fram kröfunni.
Ákærði greiði E 150.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 10. apríl 1999 til dómsuppsögudags, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags og 35.000 krónur í kostnað við að halda fram kröfunni.
Ákærði greiði F 250.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 10. apríl 1999 til dómsuppsögudags, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags og 50.000 krónur í kostnað við að halda fram kröfunni.
Skaða- og miskabótakröfum B og D er vísað frá dómi.
Ákærði greiði helming alls sakarkostnaðar, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns 550.000 krónur, þóknun Reimars Péturssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns A, D, B og E 400.000 krónur, og Sifjar Konráðsdóttur hæstaréttarlögmanns, skipaðs réttargæslumanns C og F, 300.000 krónur. Helmingur sakarkostnaðar greiðist úr ríkissjóði.