Hæstiréttur íslands

Mál nr. 35/2006


Lykilorð

  • Samningur
  • Riftun
  • Brostnar forsendur


Fimmtudaginn 28

 

Fimmtudaginn 28. september 2006.

Nr. 35/2006.

Karl Gottlieb Sentzius Benediktsson

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

gegn

Gildi lífeyrissjóði

(Ásgeir Þór Árnason hrl.)

 

Samningur. Riftun. Brostnar forsendur.

K var sakfelldur í opinberu máli fyrir brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga og ákvæðum í lögum nr. 129/1997. Fólust brot hans í því meðal annars að hafa á nánar greindu tímabili hafa farið út fyrir umboð sitt til fjárfestinga sem framkvæmdastjóri G. Var talið að forsendur starfslokasamnings K við G hafi brostið þegar fyrirsvarsmönnum G varð kunnugt um brot K og hafi G því verið heimil riftun hans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. janúar 2006. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 10.101.960 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. maí 2002 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Svo sem fram kemur í héraðsdómi var áfrýjandi með dómi Hæstaréttar 3. mars 2005 í máli nr. 244/2004 sakfelldur fyrir brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og gegn ákvæðum í lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Fólust brot hans í að hafa á árunum 1997 og 1999, í starfi sínu sem framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðsins Framsýnar, farið út fyrir umboð sitt til fjárfestinga við lánveitingar og kaup á skuldabréfum í þágu sjálfs sín og nákomins ættingja. Svo sem fram kemur í forsendum hæstaréttardómsins hafði vaknað grunur um misferli áfrýjanda í árslok 2000 eða nokkru eftir að hann lét af störfum hjá sjóðnum 1. júlí sama ár. Hinn umdeildi starfslokasamningur hafði verið gerður nokkru fyrr eða 26. apríl 2000. Stefndi rifti starfslokasamningnum með bréfi 24. apríl 2002 og felldi niður greiðslur samkvæmt honum til áfrýjanda frá 1. maí sama ár. Verður fallist á það með héraðsdómi að forsendur samningsins teljist hafa verið brostnar þegar fyrirsvarsmönnum stefnda varð kunnugt um þessi brot áfrýjanda í starfi og riftunin 24. apríl 2002 því heimil. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

   Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem greinir í dómsorði.  

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður.

Áfrýjandi, Karl Gottlieb Sentzius Benediktsson, greiði stefnda, Gildi lífeyrissjóði, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. október 2005.

I

Mál þetta, sem dómtekið var mánudaginn 10. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Karli Benediktssyni, [kt.], Gljúfurárholti, Selfossi, með stefnu birtri 10. desember 2003 á hendur Lífeyrissjóðnum Framsýn, [kt.], Sætúni 1, Reykjavík.  Undir rekstri málsins sameinaðist hinn stefndi lífeyrissjóður Lífeyrissjóði sjómanna undir heitinu Gildi lífeyrissjóður, sem hefur tekið við aðild málsins.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 10.101.960 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af kr. 495.000 frá 01.05.02 til 01.06.02, af kr. 990.000 frá 01.06.02 til 01.07.02, af kr. 1.485.000 frá 01.07.02 til 01.08.02, af kr. 1.980.000 frá 01.08.02 til 01.09.02, af kr. 2.475.000 frá 01.09.02 til 01.10.02, af kr. 2.970.000                frá 01.10.02 til 01.11.02 af kr. 3.465.000 frá 01.11 til 01.12.02 af kr. 3.960.000 frá 01.12.02 til 01.01.03 af kr. 4.471.830 frá 01.01.03 til 01.02.03 af kr. 4.983.660 frá 01.02.03 til 01.03.03 af  5.495.490 frá 01.03.03 til 01.04.03 af kr. 6.007.320 frá 01.04.03 til 01.05.03 af kr. 6.519.150 frá 01.05.03 til 01.06.03, af kr.7.030.980 frá 01.06.03 til 01.07.03 af  7.542.810 frá 01.07.03 til 01.08.03 af kr. 8.054.640 frá 01.08.03 til 01.09.03 af kr. 8.566.470 frá 01.09.03 til 01.10.03 af kr. 9.078.300 frá 01.10.03 til 01.11.03 af kr. 9.590.130 frá 01.11.03 til 01.12.03 af kr. 10.101.960 frá 01.12.03 til greiðsludags.  Þá er þess krafizt, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt málskostnaðaryfirliti, og að málskostnaðurinn beri dráttarvexti skv. III. kafla ofangreindra vaxtalaga frá dómsuppsögu til greiðsludags.  Stefnandi hefur ekki með höndum virðisaukaskattsskylda starfsemi.  Er þess því krafizt, að ofan á tildæmdan málskostnað leggist virðisaukaskattur.

Dómkröfur stefnda eru þær, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnda verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda eftir mati dómsins.  Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður verði látinn niður falla.

II

Málavextir

Stefnandi var um langt árabil framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Dagsbrúnar og Framsóknar.  Sá sjóður var sameinaður öðrum sjóðum og til varð Lífeyrissjóðurinn Framsýn. Þann 10. júlí 1996 gerði stefnandi ráðningarsamning við stefnda um stöðu framkvæmdastjóra hins nýja lífeyrissjóðs.  Samningurinn skyldi gilda frá 1. janúar 1996.  Í samningnum var ákvæði, sem heimilaði eðlileg starfslok framkvæmdastjóra, hvenær sem var eftir 67 ára aldur.  Samkvæmt yfirlýsingu, sem gerð var sama dag, var staðfest, að við slík starfslok skyldi gerður starfslokasamningur, hliðstæður þeim, sem gerður er milli stærri peningastofnana og æðstu stjórnenda þeirra við sömu aðstæður.

 

Þann 26. apríl 2000 gerði stefnandi starfslokasamning við Lífeyrissjóðinn Framsýn.  Samkvæmt þeim samningi skyldi stefnandi, frá og með 1. júlí 2000 og til loka þess mánaðar, er hann yrði 70 ára, gegna starfi sérstaks ráðunautar lífeyrissjóðsins.  Samkvæmt starfslokasamningnum skyldi sjóðurinn greiða stefnanda, kr. 450.000 á mánuði frá 1. janúar 2001, og skyldu þau laun endurskoðuð árlega til samræmis við meðalbreytingar sem yrðu á launum annarra starfsmanna sjóðsins.  Talan hélzt óbreytt til ársloka 2002, en hækkaði samkvæmt upplýsingum sjóðsins í kr. 465.300,00 frá 1. janúar 2003.  Að auki samþykkti sjóðurinn að greiða aukalega sem svaraði 10% framangreindra launa til öflunar frekari lífeyrisréttinda hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna.

   Þann 24. apríl 2002 fékk stefnandi bréf frá stjórn Lífeyrissjóðsins Framsýnar, þar sem honum var greint frá því, að stjórn sjóðsins hefði komizt að þeirri niðurstöðu að stefnandi hefði gerzt alvarlega brotlegur við starfskyldur sínar sem framkvæmdastjóri sjóðsins.  Í bréfinu fólst að auki formleg tilkynning um að frá mánaðamótunum apríl/maí næstkomandi væri starfslokasamningur stefnda og stefnanda úr gildi, og ekki kæmi til frekari greiðslna eftir það.

   Í nóvember 2001 höfðu vaknað hjá stefnda grunsemdir um, að ekki hefði verið allt með felldu við starf stefnanda hjá stefnda, og fól stefndi Elvari Erni Unnsteinssyni hrl. að gera sérstaka úttekt á tilteknum lánveitingum stefnanda fyrir hönd stefnda til aðila sem tengdust honum sjálfum eða sonum hans, eða til fyrirtækja þeim tengdum, hvort sem um væri að ræða beinar lánveitingar eða kaup viðskiptabréfa, sem þessir aðilar höfðu gefið út.

   Lögmaðurinn skoðaði sérstaklega 23 tilvik og skilaði ítarlegri skýrslu um könnun sína hinn 11. desember 2001.  Komst hann að þeirri niðurstöðu, að við lánveitingarnar hefði verið alvarlega brotið gegn þeim reglum, sem settar höfðu verið um starfsemi stefnda, og að veruleg tapshætta vegna útlánanna væri fyrir hendi.

   Stefndi kynnti Fjármálaeftirlitinu greinargerð lögmannsins, og hóf eftirlitið af því tilefni sjálfstæða rannsókn.  Þeirri rannsókn lauk með því að málinu var vísað til opinberrar rannsóknar í samræmi við skyldu Fjármálaeftirlitsins, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, sbr. 5. gr. laga nr. 11/2000.

   Í kjölfar rannsóknar hjá Rannsóknarlögreglustjóra, í framhaldi af rannsókn Fjármálaeftirlitsins, á meintum brotum stefnanda, var gefin út ákæra á hendur honum í allmörgum liðum.  Jafnframt var lögð fram skaðabótakrafa stefnda á hendur stefnanda.

   Dómur gekk í héraði þann 28. apríl 2004, þar sem ákærði var sakfelldur fyrir hluta ákæruatriðanna og gert að sæta fangelsi í 10 mánuði, en refsingin var skilorðsbundin til þriggja ára.  Skaðabótakröfunni var vísað frá dómi.  Með dómi Hæstaréttar Íslands, dags. 3. marz 2005, var dómur héraðsdóms staðfestur.

III

Málsástæður stefnanda

Stefnandi byggir á því, að vanskil hafi verið á greiðslum stefnda til stefnanda frá maímánuði 2002.  Byggt sé á starfslokasamningi aðila, sem ekki feli í sér neinar þær forsendur, sem gefi stefnda einhliða rétt til að rifta honum, og samningurinn sé fyrirvaralaus um öll önnur atriði.  Stefnandi hafi hætt störfum formlega þann 1. júlí 2000, þegar hann náði 67 ára aldri.  Hann hafi þó verið í veikindaleyfi í 6 mánuði af 8 næstliðnum mánuðum.  Í starfslokasamningi sé engin starfsskylda, en stefndi hafi getað leitað eftir ráðgjöf hjá stefnanda fram til 1. júlí 2003.  Aldrei hafi hann þó leitað eftir slíku hjá stefnanda eftir starfslok 1. júlí 2000.  Þegar stefndi ákvað einhliða að starfsloka­samningur við stefnanda væri ekki lengur í gildi, hafi verið liðin um tvö og hálft ár frá því að stefnandi hætti störfum fyrir stefnda.  Samningur, sem gerður sé milli stefnanda og stefnda 10. júlí 1996, segi til um með hvaða hætti skuli ganga frá starfslokasamningi, þegar stefnandi hafi náð ákveðnum aldri.  Greiðslur samkvæmt slíkum samningi séu í eðli sínu lífeyrisgreiðslur.  Slíkur samningur sé ekki uppsegjanlegur.  Greiðslur til stefnanda hafi verið stöðvaðar einhliða af stefnda og starfslokagreiðslur því í vanskilum frá maímánuði 2002.

   Stefnandi hafi gert ítrekaðar tilraunir, munnlega og bréflega, til að fá stefnda til að efna samninginn, og lokatilraun hafi verið gerð til innheimtu skuldarinnar með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 4. nóvember 2003.  Skuldin hafi hins vegar ekki fengizt greidd, og því sé stefnanda nauðugur sá kostur að leita atbeina dómstóla til greiðslu skuldarinnar.

   Stefnandi vísi til meginreglu samningaréttarins um skuldbindingargildi samninga, en einnig til kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga.  Kröfur um dráttarvexti styðji stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001.  Krafan um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé studd við lög nr. 59/1988.  Varðandi varnarþing vísist til 1. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður stefnda

Stefndi byggi á því, að honum hafi verið heimilt að rifta starfssamningi við stefnanda vegna verulegra vanefnda stefnanda á skyldum sínum í vinnuréttarsambandi aðila.  Vísi stefndi til þeirrar meginreglu vinnuréttar, að refsiverð háttsemi launþega gagnvart hagsmunum vinnuveitanda og brot á trúnaðarskyldum heimili honum fyrirvaralausa riftun vinnusamnings, þannig að ekki komi til þess, að vinnuveitanda verði gert að greiða launþega laun í uppsagnarfresti eða þann tíma, sem eftir kunni að hafa verið af umsömdum vinnutíma, ef um tímabundinn vinnusamning hefði verið að ræða.

   Líta verði á ráðningarsamband stefnanda hjá stefnda sem eina heild.  Stefnandi hafi verið framkvæmdastjóri stefnda, og í samræmi við ráðningarkjör hans hafi verið gerður við hann starfslokasamningur með ákveðnum starfsskyldum, er hann varð 67 ára og lét af daglegri framkvæmdastjórn.  Stefndi hafi ekki orðið þess vís, að stefnandi hafi gróflega brotið gegn trúnaðarskyldum sínum, fyrr en eftir að starfslokasamningurinn var undirritaður.  Alveg sé ljóst, að ef stefndi hefði á þeim tíma haft vitneskju um brot stefnanda í starfi, hefði aldrei komið til þess, að gerður hefði verið starfslokasamningur við hann.  Forsendur fyrir gerð hans hafi því verið brostnar og riftun stefnda, sem sett hafi verið fram í bréfi, dags. 24. apríl 2002, sbr. dskj. nr. 6, sé því réttmæt.  Ekki skipti máli í þessu tilliti, hvort stefndi hafi einhvern tímann óskað eftir því vinnuframlagi frá stefnanda, sem hann hafi átt rétt á samkvæmt starfslokasamningnum, enda það frjálst val stefnda.

   Kveðið hafi verið á um starfssvið og starfslýsingu stefnda í 1. gr. ráðningarsamningsins, sbr. dskj. nr. 3.  Segi þar, að framkvæmdastjóri eigi að stýra daglegum rekstri lífeyrissjóðsins í samræmi við ákvæði reglugerðar sjóðsins; hann eigi í starfi sínu að fara eftir samþykktum stjórnar sjóðsins, og honum beri að vinna að því, að starfsemi sjóðsins sé á hverjum tíma í góðu samræmi við ákvæði laga og reglugerða sjóðsins.

   Stefndi telji, að stefnandi hafi í störfum sínum, sem framkvæmdastjóri stefnda, lánað nákomnum fé stefnanda, eða keypt af þeim viðskiptabréf, hvort tveggja án heimildar og án nægjanlegra trygginga og með því brotið gegn starfsskyldum sínum, sbr. ákvæði 4.5.2, 4.7.1 og 4.7.2. samþykkta stefnda, og stjórnarsamþykktum stefnda um heimilaðar lánveitingar, sbr. dskj. nr. 23 og 24, og þar með stefnt fjármunum stefnda í stórkostlega hættu.  Stefnandi hafi í þessum efnum farið fram með fullkomnum auðgunarásetningi og leynd gagnvart stjórn stefnda og því brotið gróflega gegn því trúnaðartrausti, sem hann hafi haft. Þá telji stefndi, að brot stefnanda varði við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. og 4. mgr. 31. gr. og 4. mgr. 38. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

   Verði litið svo á, að með starfslokasamningi aðila, sbr. dskj. nr. 5, hafi stofnazt nýtt samningssamband með aðilum, sem hafi verið óháð fyrra vinnuréttarsambandi, byggir stefndi á því, að honum hafi allt að einu verið heimilt að rifta starfsloka­samningnum, án þess að þurfa að efna hann með greiðslu þargreindra launa.  Í því tilliti sé á því byggt, að stefndi hafi brotið svo gróflega gagnvart trúnaðarskyldum sínum, að hann hafi fyrirgert því trausti, sem til hans hafi verið borið við gerð starfsloka­samningsins.  Stefnda hafi því verið rétt að hafna alfarið vinnuframlagi stefnanda í formi ráðgjafar, eins og kveðið hafi verið á um í starfslokasamningum og stefnandi eigi af þeim sökum heldur ekki rétt til endurgjaldsins.  Skipti þá engu máli, þó að stefndi hefði aldrei óskað eftir slíkri ráðgjöf fram að riftunaryfirlýsingu hinn 24. apríl 2002, sbr. dskj. nr. 6, enda algerlega á valdi stefnda, hvort það yrði yfirleitt gert.

   Um einstakar ávirðingar, sem bornar séu á stefnanda og heimilað hafi stefnda að rifta starfslokasamningnum, vísi stefndi til greinargerðar Elvars Arnar Unnsteinssonar hrl., sbr. dskj. nr. 11, og dóms Hæstaréttar í máli ákæruvaldsins gegn stefnanda nr. 244/2004, þar sem stefnandi sé dæmdur til skilorðsbundinnar fangelsisvistar í 10 mánuði vegna brota í starfi sem framkvæmdastjóri stefnda.

   Ljóst sé, að stefnandi hafi gróflega brotið gegn vinnuréttarskyldum sínum gagnvart stefnda, og að stefnda hafi því verið rétt að rifta við hann starfslokasamningi, sem gerður hafi verið við stefnanda, áður en upp hafi komizt um athæfi hans.  Byggi stefndi í þessu tilliti á því, að hvert ákæruatriðanna hafi eitt og sér talizt vera veruleg vanefnd á vinnuréttarskyldum stefnanda og réttlæti riftun stefnda.  Augljóslega verði því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu og dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað eins og krafizt sé.

   Verði ekki fallizt á sýknukröfu stefnda, með vísun til framangreindra málsástæðna, byggi stefndi til vara á þeirri málsástæðu, að hann eigi skaðabótakröfu á hendur stefnanda vegna framangreindra brota hans í starfi, sem nægi a.m.k. að fullu til skuldajöfnunar við kröfur stefnanda í málinu.  Sé þá, að svo stöddu, einungis vísað til bótakröfu þeirrar, sem stefndi hafi lagt fram hjá Ríkislögreglustjóra, sbr. dskj. nr. 15. vegna fjártjóns, sem stefndi hafi orðið fyrir vegna ólögmætrar og saknæmrar háttsemi stefnanda við lánveitingar til nákominna aðila gegn veðsetningu jarðarinnar Ingólfshvols, Ölfushreppi, en staðreynt sé, að þær tryggingar hafi hvergi nærri nægt til tryggingar endurgreiðslu þeirra fjármuna stefnda, sem stefnandi hafi ráðstafað  með þessum hætti úr sjóðum stefnda.

   Loks sé til þrautarvara krafizt lækkunar á kröfum stefnda með vísun til þess, að gildistími starfslokasamningsins, sbr. dómskjal nr. 5, hafi verið til loka þess mánaðar, er stefnandi náði 70 ára aldri, eða til loka júlímánaðar 2003.  Krafa hans um greiðslu vegna mánaðanna ágúst, september, október, nóvember og desember 2003 eigi því enga stoð.  En auk þess liggi fyrir, að vegna riftunarinnar hafi ekki verið greitt fyrir mánuðina frá og með maí 2002 til og með júlí 2003, eða samtals 15 mánuði, en ekki 20 mánuði eins og krafizt sé.  Þá sé vert að vekja athygli á því, að gjalddagi hverrar mánaðargreiðslu hafi átt að vera eftir á, en ekki fyrir fram, eins og kröfur stefnanda lúti að.

   Stefndi vísi til meginreglna vinnuréttar og laga nr. 7/1936 um samningagerð, umboð og ógilda löggerninga.  Um málskostnað sé vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

IV

Forsendur og niðurstaða

Ágreiningur í máli þessu stendur um það, hvort forsendur fyrir starfslokasamningi þeim, sem gerður var við stefnanda, hafi brostið við það, að stefnandi varð uppvís að umboðssvikum hjá hinum stefnda lífeyrissjóði.

   Dómur gekk í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 28. apríl 2004 í sakamáli því, sem ákæruvaldið höfðaði á hendur stefnanda máls þessa vegna meintra umboðssvika í starfi sínu hjá stefnda.  Var ákærði sakfelldur fyrir hluta ákæruatriða og gert að sæta fangelsi í 10 mánuði, en refsingin var skilorðsbundin til þriggja ára.  Með dómi Hæstaréttar Íslands, uppkveðum 3. marz 2005, var héraðsdómurinn staðfestur.

   Þegar starfslokasamningurinn við stefnanda var gerður, höfðu brot þau, sem stefnandi var sakfelldur fyrir, þegar verið framin.  Af hálfu stefnanda hefur því verið haldið fram, að stefnda hefði mátt vera framferði stefnanda ljóst á þeim tíma og geti stefndi því ekki borið fyrir sig forsendubrest.

   Þrátt fyrir það að stefnda hafi mögulega mátt vera ljóst á þeim tíma, sem starfslokasamningurinn var gerður, að stefnandi hefði gerzt brotlegur í störfum sínum fyrir stefnda, var staðreyndin sú, að sjóðurinn hafði ekki vitneskju um brotin á þessum tíma.  Er trúverðug sú staðhæfing stefnda, að starfslokasamningurinn hefði ekki verið gerður við stefnanda, ef sú vitneskja hefði verið fyrir hendi.  Er því fallizt á með stefnda, að forsendur fyrir starfslokasamningnum hafi brostið svo verulega, þegar stefnandi varð uppvís að brotunum, að stefnda hafi verið rétt að rifta samningnum.  Ber því þegar af þeim sökum að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.  Þá ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn kr. 500.000.

   Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Gildi lífeyrissjóður, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Karls Gottliebs Sentziusar Benediktssonar.

   Stefnandi greiði stefnda kr. 500.000 í málskostnað.