Hæstiréttur íslands

Mál nr. 98/2007


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Fíkniefnalagabrot
  • Ölvunarakstur
  • Akstur sviptur ökurétti
  • Reynslulausn
  • Skilorðsrof


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. júní 2007.

Nr. 98/2007.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

Elimar Tómasi Reynissyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Þjófnaður. Fíkniefnalagabrot. Ölvunarakstur. Réttindaleysi við akstur. Reynslulausn. Skilorðsrof.

 

E var sakfelldur fyrir vörslur fíkniefna, þjófnað og að hafa ekið þrívegis ölvaður og sviptur ökurétti. Með brotum sínum rauf E skilorð reynslulausnar sem honum hafði verið veitt í tvö ár á 270 dögum óafplánaðrar refsingar og var honum því gerð refsing í einu lagi. E hafði einu sinni áður hlotið refsingu fyrir að aka sviptur ökurétti og í fjögur skipti fyrir ölvunarakstur. Refsing E var ákveðin fangelsi í 15 mánuði og var hann sviptur ökurétti í 5 ár.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.  

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 12. desember 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst refsiþyngingar.

Ákærði krefst mildunar refsingar.

Með brotum sínum rauf ákærði skilorð reynslulausnar sem honum hafði verið veitt 9. júní 2006 í tvö ár á 270 dögum óafplánaðrar refsingar, sbr. 2. mgr. 64. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Ákærða verður því nú með vísan til 1. mgr. 65. gr. laganna gerð refsing í einu lagi samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði hefur einu sinni áður hlotið refsingu fyrir að aka sviptur ökurétti og er refsing vegna þessara brota ákveðin samkvæmt dómvenju, en ekki er um ítrekuð brot að ræða í skilningi 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

         Ákærði, Elimar Tómas Reynisson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 242.633 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 224.100 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 6. nóvember 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var 16. október sl., höfðaði lögreglustjórinn í Keflavík á hendur ákærða, Elimar Tómasi Reynissyni, kt. 271077-5729, Kirkjubraut 34, Keflavík, með ákæru útgefinni 14. september 2006 annars vegar og ákæru útgefinni 16. október s.á. hins vegar.

Samkvæmt ákæru útgefinni 14. september sl. er hann ákærður fyrir eftirtalin brot:

1.

Ölvunarakstur og sviptingarakstur, með því að hafa, að kvöldi laugardagsins 9. september 2006, ekið bifreiðinni RK-566, sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis, suður Hafnargötu í Keflavík og sem leið lá að Faxabraut 7, þar sem hann stöðvaði bifreiðina. Niðurstaða alkóhólákvörðunar öndunarsýnis var 0,77 mg/l.

2.

Ölvunarakstur og sviptingarakstur, með því að hafa, að morgni sunnudagsins 10. september 2006, ekið bifreiðinni VR-707, sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis, suður Hafnargötu móts við Aðalgötu í Keflavík, en hann stöðvaði bifreiðina á bifreiðastæði við Hafnargötu 26. Niðurstaða alkóhólákvörðunar öndunarsýnis var 0,74 mg/l.

Í ákæru er háttsemi ákærða samkvæmt ákæruliðum 1 og 2 talin varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Við þingfestingu málsins lét sækjandi bóka að háttsemi ákærða samkvæmt báðum ákæruliðum varðaði einnig við 48. gr. umferðarlaga.

Samkvæmt ákæru útgefinni 16. október sl. er ákærði ákærður fyrir eftirtalin brot:

1.

Fíkniefnabrot, með því að hafa, föstudaginn 29. september 2006, á bifreiðastæði við veitingastaðinn Aktu taktu, við Hafnarfjarðarveg í Garðabæ, haft í vörslum sínum 8,01 g af amfetamíni.

Þetta er talið varða við 2. gr., sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 með áorðnum breytingum

2.

Þjófnað, með því að hafa, aðfaranótt 4. október 2006, brotist inn í íbúðarhús að [...], Grindavík og stolið frá [...] Philips geislaspilara að verðmæti kr. 30.000 og JVC hljómtækjasamstæðu að verðmæti kr. 39.900 og frá [...] United útvarpstæki að verðmæti kr. 5.000.

Þetta er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

3.

             Ölvunarakstur, sviptingarakstur, fíkniefnalagabrot og vopnalagabrot, með því að hafa, að morgni laugardagsins 14. október 2006, ekið bifreiðinni SF-047, sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis, norður Hafnargötu móts við Hafnargötu 33 í Keflavík og sem leið lá að gatnamótum við Tjarnargötu. Niðurstaða alkóhólákvörðunar öndunarsýnis var 0,28 mg/l. Þá er hann ákærður fyrir að hafa í umrætt sinn í vörslum sínum eggvopn með 21 cm löngu blaði og 1,8 g af amfetamíni.

             Háttsemi ákærða samkvæmt ákæruliðum 1 til 3 er talin varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, a. lið 2. mgr. 30. gr. vopnalaga nr. 16/1998 og 2. gr., sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 með áorðnum breytingum.

             Við þingfestingu málsins lét sækjandi bóka að háttsemi ákærða samkvæmt ákærulið 3 varðaði einnig við 48. gr. umferðarlaga. Þá féll sækjandi frá ákæru fyrir vopnalagabrot samkvæmt ákærulið 3 og frá kröfu um upptöku á eggvopni með 21 cm löngu blaði.

             Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku á 9,81 g af amfetamíni samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga.

I.

             Mál þetta er dæmt samkvæmt heimildarákvæði 1. mgr. 125. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, en með skýlausri játningu ákærða, sem samrýmist öðrum gögnum málsins, telst sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í báðum ákærunum að teknu tilliti til breytingar ákæruvalds á seinni ákærunni. Háttsemi ákærða er réttilega færð til refsiákvæða í ákærunum en auk þess varðar háttsemi ákærða samkvæmt fyrri ákærunni og 3. tl. síðari ákærunnar einnig við 48. gr. umferðarlaga eins og sækjandi lét bóka án athugasemda af hálfu ákærða.

II.

             Ákærði á talsverðan sakaferil að baki allt frá árinu 1997. Það ár gekkst hann undir sektargerð dómara vegna brots gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Sama ár hlaut hann 2 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir nytjastuld og ölvunarakstur. Var hann jafnframt sviptur ökurétti í 1 mánuð. Á árinu 1998 hlaut hann 60.000 króna sekt fyrir umferðarlagabrot. Á árinu 2001 hlaut hann 14.000 króna sekt og var sviptur ökurétti í 3 mánuði fyrir umferðarlagabrot. Á árinu 2002 hlaut hann 100.000 króna sekt fyrir sviptingarakstur. Á árinu 2003 var hann dæmdur í 6 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir fíkniefnabrot. Á árinu 2004 var hann dæmdur í 18 mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir fíkniefnabrot. Var sú refsiákvörðun staðfest með dómi Hæstaréttar 26. maí 2005. Árið 2005 gekkst hann tvívegis undir lögreglustjórasáttir fyrir ölvunarakstur og var hann sviptur ökurétti í 12 mánuði í báðum sáttunum, annars vegar frá 17. september 2005 og hins vegar frá 3. október 2005. Sama ár gekkst ákærði einnig undir sátt vegna brots gegn 37., 71. og 48. gr. umferðarlaga. Loks hlaut ákærði dóm þann 21. febrúar 2006 vegna of hraðs aksturs og ölvunaraksturs. Hlaut ákærði hegningarauka við sáttirnar frá árinu 2005, 50.000 króna sekt og sviptingu ökuréttar í 10 mánuði frá 3.10.2006 að telja.

             Þann 9. júní 2006 var ákærða veitt reynslulausn í 2 ár á eftirstöðvum refsingar samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 26. maí 2005, 270 dögum. Með brotum þeim sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir rauf hann skilorð reynslulausnarinnar og ber að ákveða refsingu ákærða í einu lagi fyrir brot hans nú og með hliðsjón af hinni óafplánuðu refsingu, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga nr. 19/1940. Með brotum sínum nú hefur ákærði gerst sekur um ítrekaðan ölvunarakstur í þrjú skipti, þar af  í tvö skipti ítrekað brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga og í eitt skipti gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. umferðarlaga. Þá hefur ákærði gerst sekur um ítrekuð brot öðru sinni á 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga með því að aka sviptur ökurétti. Með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði. Ekki kemur til álita að binda refsinguna skilorði að neinu leyti.

             Eins og að framan getur hefur ákærði gerst sekur um ítrekaðan ölvunarakstur í þrjú skipti og ber því að svipta hann ökurétti og með vísan til 102. gr. umferðarlaga, sbr. lög nr. 66/2006,  verður ákærði sviptur ökurétti í fimm ár frá 3. ágúst 2007 að telja er sviptingartími samkvæmt dómi 21. febrúar 2006 rennur út.

Þá skal ákærði sæta upptöku á 9,81 grömmum af amfetamíni sem lögregla lagði hald á.

Loks ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, samtals 115.150 krónur, þar með talin þóknun skipaðs verjanda ákærða, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 87.150 krónur að meðtöldum 24,5 % virðisaukaskatti.

Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður dóminn upp.

Dómsorð:

             Ákærði, Elimar Tómas Reynisson, sæti fangelsi í 15 mánuði.

             Ákærði skal sviptur ökurétti í 5 ár frá 3. ágúst 2007.

             Ákærði sæti upptöku á 9,81 grömmum af amfetamíni.

             Ákærði greiði 115.150 krónur í sakarkostnað, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar, 87.150 krónur að meðtöldum 24,5 % virðisaukaskatti.