Hæstiréttur íslands

Mál nr. 511/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Varnarþing
  • Vanreifun
  • Samlagsaðild
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Þriðjudaginn 8. október 2013.

Nr. 511/2013.

Bolungarvíkurkaupstaður

(Erlendur Gíslason hrl.)

gegn

Officine Maccaferri S.p.A

(Bjarki H. Diego hrl.)

Ósafli sf.

ÍAV hf.

Marti Contractors Ltd. og

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

Eflu hf.

(Ragnheiður M. Ólafsdóttir hrl.)

Kærumál. Varnarþing. Vanreifun. Samlagsaðild. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi skaðabótamáli sveitarfélagsins B á hendur O o.fl. vegna ætlaðs galla á verki við uppbyggingu snjóflóðavarnagarða ofan Bolungarvíkur. Í málinu gerði B annars vegar fjárkröfu óskipt á hendur O, Ó sf., Í hf., M og E hf. á grundvelli þess sem B kvaðst hafa þurft að kosta til við að endurbyggja snjóflóðavarnargarðinn sökum vandamála er komu upp við framkvæmd verksins. B gerði hins vegar fjárkröfu á hendur O einum vegna aukins efniskostnaðar þar sem hönnun O hefði verið haldin galla. Kröfur sínar á hendur O, Ó sf. og E hf. reisti B á samningum sem hann gerði við hvern þeirra um nánar tilgreinda þætti verksins, auk þess sem hann beindi kröfum að eigendum Ó sf., þeim Í hf. og M. Tveir varnaraðilar, O og Ó sf., kröfðust frávísunar málsins á þeim grundvelli að það hefði verið höfðað á röngu varnarþingi. Talið var að B hefði verið frjálst að velja að reka málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og beina í því kröfum að O o.fl., sbr. 1. mgr. 42. gr. og 1. mgr. 43. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, meðal annars með vísan til þess að í samningi B við O hefði verið mælt fyrir um heimild til þessa. Þá var talið að þótt málatilbúnaður B væri ekki í öllum atriðum svo skýr sem skyldi væru annmarkar á reifun málsins ekki slíkir að úr því mætti ekki bæta við munnlegan flutning þess, en B yrði þá ef til kæmi að bera hallann af vanreifun málsins við efnisúrlausn um kröfur sínar. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. júlí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júlí 2013, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Einnig krefst hann þess að kröfum varnaraðilanna Ósafls sf., ÍAV hf., Marti Contractors Ltd. og Officine Maccaferri S.p.A. um málskostnað í héraði verði vísað frá Hæstarétti. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar óskipt úr hendi varnaraðila.

Varnaraðilarnir Ósafl sf., ÍAV hf. og Marti Contractors Ltd. annars vegar og Officine Maccaferri S.p.A. hins vegar kærðu úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 26. júlí og 2. ágúst 2013. Þeir krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur um annað en málskostnað, sem verði hækkaður frá því sem þar var ákveðið. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn Efla hf. krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði á málið rætur að rekja til verks við uppbyggingu snjóflóðavarnargarða undir Traðarhyrnu í Bolungarvík. Til grundvallar lögskiptum aðila lágu þrír samningar. Í fyrsta lagi tók varnaraðilinn Efla hf. að sér ráðgjöf við sóknaraðila vegna verks um gerð snjóflóðavarnargarðanna, þar á meðal að gera gögn vegna útboðs á verkinu, sem fram fór árið 2008, og yfirferð tilboða vegna annars útboðs á árinu 2009. Í öðru lagi gerði sóknaraðili verksamning 24. júní 2008 við Ósafl sf. á grundvelli útboðs á verkinu. Samkvæmt samningnum fólst verkið í gerð 710 m langs varnargarðs og átta keilna fyrir ofan byggð. Í garðinn og keilurnar skyldi nota jarðefni, sem fengin væru innan framkvæmdasvæðisins, bæði laus efni og efni úr bergskeringum. Sú hlið varnargarðsins og keilnanna, sem sneri móti fjalli, yrði byggð upp með netgrindum og styrktum jarðvegi. Undir verkið heyrði einnig rif mannvirkja og gerð vinnuvega, gangstíga og drenskurða. Í þriðja lagi gerði sóknaraðili samning við varnaraðilann Officine Maccaferri S.p.A. í kjölfar annars útboðs, nánar tiltekið um stoðvirki fyrir varnargarðana. Í málinu liggur fyrir skriflegur samningur um þetta efni, sem var dagsettur 11. mars 2009 en ekki undirritaður af hálfu aðilanna. Eins og málið liggur fyrir verður allt að einu að miða við að þetta skjal sýni hvað samið var um milli þeirra.

Sóknaraðili kveður vandamál hafa komið upp við framkvæmd verksins, sem hafi valdið sér tjóni. Stóðu sóknaraðili og varnaraðilarnir Ósafl sf., Officine Maccaferri S.p.A. og Efla hf. sameiginlega að því að afla af því tilefni skýrslu þriggja sérfræðinga, þar sem leitað var svara við því annars vegar hverjar væru orsakir þess að netgrindur hafi hrunið og hvaða ráðstafanir væru nauðsynlegar til að lagfæra gallann og koma í veg fyrir að netgrindur og grjótfylling hryndu aftur. Hins vegar hvort hætta væri á að netgrindur sem enn héldu gæfu eftir og hryndu, en ef svo væri hverjar væru orsakir þess og hvaða leiðir væru til að girða fyrir að slíkt gerðist. Í skýrslu sérfræðinganna 25. nóvember 2009 var talið að ýmislegt í hönnun og framkvæmd verksins hefði mátt betur fara, en áður en lengra yrði haldið væri nauðsynlegt að netgrindur, breidd grjótfyllingar og tenging netgrinda inn í styrktan jarðveg sættu ítarlegri endurskoðun. Einnig bæri nauðsyn til að yfirfara álagsforsendur, öryggisstuðla og efnisgæði, svo og að kanna hönnunarforsendur betur með tilliti til aðstæðna á verkstað. Þá var talið eðlilegt að athuga áhrif breytileika í efnisgæðum við endurskoðun á hönnun mannvirkisins. Sóknaraðili fékk síðan 23. apríl 2010 dómkvadda tvo menn til að leggja mat á orsakir og afleiðingar þess að netgrindur og grjótfylling hefðu hrunið í snjóflóðavarnargörðunum og meta kostnað við úrbætur. Að auki yrði skoðað hvort hætta væri á að netgrindur, sem enn héldu, væru líklegar til að gefa eftir og hver kostnaður yrði þá af úrbótum. Í matsgerð 29. desember 2010 var talið að orsök hruns netgrinda væri að rekja til annmarka á hönnun tengingar milli þeirra og styrktarkerfis í kjarnafyllingu. Niðurstöður matsmanna lutu annars vegar að annmörkum á hönnun varnaraðilans Officine Maccaferri S.p.A. og hins vegar framkvæmd verksins. Töldu matsmenn hönnun þessa varnaraðila ófullnægjandi um nánar tilgreind atriði, hún hefði ekki fylgt viðteknum stöðlum og svo virtist sem slík hönnun hafi ekki áður verið notuð í verki sem þessu, en frá því hafi varnaraðilinn ekki greint. Þá töldu matsmenn ýmislegt athugavert við framkvæmd verksins, einkum að engar prófanir hafi verið gerðar á fyllingarefnum á framkvæmdatíma þrátt fyrir áskilnað um það í útboðsgögnum, frágangi svonefnds umvafnings væri ábótavant og leiðbeiningar varnaraðilans Officine Maccaferri S.p.A. á verkstað hafi verið ófullnægjandi. Í matsgerðinni var einnig rakið að brugðist hafi verið við fyrstu vandamálum við framkvæmd verksins með breyttri vinnutilhögun og væri litið svo á að varnaraðilinn Officine Maccaferri S.p.A. hefði samþykkt það með því að grípa ekki inn í verkið. Töldu matsmenn breyttu vinnulagi hafa verið ábótavant og hefði borið að hafna tillögu um það. Að síðustu létu matsmenn uppi það álit að eftir að vandamál við framkvæmd verksins komu upp hefði verið rétt að fjarlægja svonefnda styrkta fyllingu, sem búið var að setja upp, og hefja verkið á ný frá grunni með endurbættu og endurhönnuðu styrktarkerfi varnargarðsins. Komust matsmenn að þeirri niðurstöðu að kostnaður við „endurbyggingu og endurbætt kerfi“ næmi 155.471.350 krónum.

Að fenginni þessari matsgerð höfðaði sóknaraðili mál þetta á hendur varnaraðilum og er málatilbúnaður hans einkum reistur á niðurstöðum hennar. Gerir hann tvíþættar kröfur í málinu. Annars vegar fjárkröfu óskipt á hendur varnaraðilum öllum, sem hann reisir á því að hann hafi orðið fyrir tjóni sökum þess að hann hafi þurft „að endurbyggja verkið að þeim stað, sem verkið var komið, þegar hrunið átti sér stað“, en einstakir liðir í þeirri kröfu snúa að kostnaði vegna graftar, fyllingar, netgrinda og efnis. Hins vegar gerir sóknaraðili fjárkröfu á hendur varnaraðilanum Officine Maccaferri S.p.A. vegna aukins kostnaðar, sem hann kveðst hafa orðið fyrir vegna kaupa á efni, þar á meðal „netgrindum, geogrid og geotextile vegna nýrrar hönnunar á jarðvegsstyrktarkerfi“, þar sem hönnun þessa varnaraðila hafi verið gölluð. Sóknaraðili reisir kröfur sínar á hendur varnaraðilunum Officine Maccaferri S.p.A., Ósafli sf. og Eflu hf. einkum á þeim samningum, sem hann gerði við hvern þeirra og áður var getið, auk þess sem hann byggir á almennum reglum um skaðabætur innan samninga. Þá beinir sóknaraðili einnig kröfu að eigendum varnaraðilans Ósafls sf., varnaraðilunum ÍAV hf. og Marti Contractors Ltd., á þeim grundvelli að þeir beri óskipta og ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum fyrstnefnda varnaraðilans samkvæmt ákvæðum laga nr. 50/2007 um sameignarfélög.

II

Sóknaraðili höfðaði mál þetta fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Varnaraðilarnir Ósafl sf. og Officine Maccaferri S.p.A. hafa krafist þess að málinu verði vísað frá héraðsdómi á þeim grundvelli að það hafi verið höfðað á röngu varnarþingi. Sá fyrrnefndi hefur haldið fram að sóknaraðila hefði borið að höfða mál gegn sér vegna verksins fyrir Héraðsdómi Vestfjarða, svo sem þeir hafi samið um í verksamningi. Sá síðarnefndi hefur á hinn bóginn borið fyrir sig að sóknaraðila sé óheimilt að höfða mál á hendur sér fyrir íslenskum dómstólum, en hann eigi heimilisvarnarþing á Ítalíu. Þótt kveðið hafi verið á um það í 5. gr. verksamnings sóknaraðila og varnaraðilans Ósafls sf. að mál vegna hans skyldu rekin fyrir Héraðsdómi Vestfjarða verður að gæta að því að samkvæmt 12. gr. samnings sóknaraðila og varnaraðilans Officine Maccaferri S.p.A. ber að reka mál vegna hans fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Sóknaraðili verður ekki vegna þessara ósamræmdu samningsákvæða sviptur rétti til að neyta þess hagræðis að reka eitt mál á hendur báðum þessum varnaraðilum, sem hvorki eiga heimilisvarnarþing í umdæmi Héraðsdóms Vestfjarða né hafa nokkra sýnilega hagsmuni af því að mál um þetta sakarefni verði rekið fyrir þeim dómstóli. Sóknaraðila var samkvæmt þessu frjálst að velja að reka mál þetta fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og beina í því kröfum að öllum varnaraðilum, sbr. 1. mgr. 42. gr. og 1. mgr. 43. gr. laga nr. 91/1991. Málinu verður því ekki vísað frá héraðsdómi á þessum grundvelli.

Sóknaraðili krefst þess sem áður segir í fyrri lið dómkrafna sinna að öllum varnaraðilunum verði gert óskipt að greiða sér tiltekna fjárhæð í skaðabætur og beitir hann í því skyni aðilasamlagi samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991, sem ekki hefur verið andmælt að skilyrði séu til. Þótt málatilbúnaður sóknaraðila sé ekki í öllum atriðum svo skýr sem skyldi eru annmarkar á reifun málsins þó ekki slíkir að úr því megi ekki bæta við munnlegan flutning þess, en sóknaraðili yrði þá ef til kæmi að bera halla af vanreifun málsins við efnisúrlausn um kröfur sínar.

Samkvæmt því, sem að framan greinir, verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Ákvörðun málskostnaðar í héraði vegna þessa þáttar málsins verður að bíða efnisdóms, en varnaraðilum verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðilar, Officine Maccaferri S.p.A, Ósafl sf., ÍAV hf., Marti Contractors Ltd. og Efla hf., greiði óskipt sóknaraðila, Bolungarvíkurkaupstað, 300.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júlí 2013.

                Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar hinn 28. maí sl., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað fyrir dómþinginu af Bolungarvíkurkaupstað, á hendur Officine Maccaferri S.p.A, VIA J.F. Kennedy, 10 40069 Zola Predosa, Ítalíu, Ósafli sf., Höfðabakka 9, Reykjavík og eigendum þess Marti Contractors Ltd. Seedorffeldstrasse 21, CH-3302 Moosseedorf, Sviss og Íslenskum aðalverktökum hf., Keflavíkurflugvelli, Reykjanesbæ og Eflu hf. (áður Línuhönnun hf.), Höfðabakka 9, 110 Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 24. september 2012 og þingfestri 27. september 2012, og  Vittoria Assicurazioni S.p.A., Mílanó, Ítalíu, til réttargæslu.

                Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda 43.937.250 krónur auk dráttarvaxta, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 24. febrúar 2011 til greiðsludags.   Krafist er að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn hinn 24. febrúar 2012, en síðan árlega þann dag.

Stefnandi gerir enn fremur þá kröfu að stefnda Officine Maccaferri S.p.A. verði dæmt til að greiða honum 103.230.000 krónur auk dráttarvaxta, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 24. febrúar 2011 til greiðsludags.  Krafist er að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn hinn 24. febrúar 2012, en síðan árlega þann dag.

Þá krefst stefnandi þess einnig að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða honum málskostnað að skaðlausu.   Þess er krafist að tekið verði tillit til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun við ákvörðun málskostnaðar, en stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur. 

                Dómkröfur stefndu, Ósafls sf., Marti Contractors Limited, og Íslenskra aðalverktaka hf., eru þær aðallega, að dómkröfum stefnanda á hendur þeim verði vísað frá dómi. Til vara krefjast stefndu sýknu af öllum kröfum stefnanda í málinu.

Í báðum tilvikum krefjast stefndu hver fyrir sig að stefnandi verði dæmdur til að greiða þeim  málskostnað.

Dómkröfur stefndu, Eflu hf., eru þær aðallega, að málinu verði vísað frá dómi.  Til vara krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnanda.  Þá er í öllum tilvikum krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.

Dómkröfur stefnda,  Officine Maccaferri S.p.A., eru þær aðallega, að öllum kröfum stefnanda á hendur stefnda verði vísað frá dómi.  Til vara krefst stefndi þess, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.  Til þrautavara krefst stefndi þess, að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður sem stefnda verði gert að greiða verði í því tilviki felldur niður.

Þá er krafist málskostnaðar í öllum tilfellum úr hendi stefnanda að viðbættum virðisaukaskatti.

Engar kröfur voru gerðar á hendur réttargæslustefnda, sem ekki hefur sótt þing eða látið sækja þing.

                Eins og framan greinir var mál þetta flutt um frávísunarkröfu stefndu 28. maí sl., og er einungis sá þáttur málsins til úrlausnar hér.  Við flutning um frávísunarkröfu krafðist stefnandi þess að frávísunarkröfu stefndu yrði hrundið og málið yrði tekið til efnismeðferðar.

                Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en úrskurður var kveðinn upp.

II

Mál þetta  varðar uppbyggingu snjóflóðavarnargarða undir Traðarhyrnu í Bolungarvík.  Málavextir eru þeir helstir að stefndi, Efla hf., tók að sér hönnun varnargarða til varnar snjóflóðum undir Traðarhyrnu í Bolungarvík fyrir stefnanda.  Íslenskur staðall ÍST 35, samningsskilmálar um hönnun og ráðgjöf, var hluti af samningnum.  Um verkið sagði í grein 0.1.3 í útboðsgögnum: „Verkefnið felst í jarðtækni- og útlitshönnun 250 m langs þvergarðs ásamt 350 m langs leiðigarðs til að verja byggðina undir Traðargili og Ytra-gili gegn snjóflóðum.  Hæð þvergarðsins er 20 m en hæð leiðigarðsins er 16 m.  Báðir garðarnir eru með brattri hlið fjallsmegin.  Varnargarðarnir verða byggðir úr jarðvegsefnum af svæðinu.  Efni í jarðvegsfyllingu er tekið á byggingarsvæðinu.  Jafnframt byggingu varnarvirkjanna verður land umhverfis þau mótað, göngustígar lagðir um svæðið og það grætt upp að loknu verki í samræmi við tillögur landslagsarkitekta þar að lútandi.“

Stefndi Efla skyldi vinna drög að útboðslýsingu, verklýsingu og teikningum vegna framkvæmdarinnar.  Í grein 1.0 í verklýsingu, kemur m.a. fram, að í verkinu felist öll nauðsynleg verkfræðileg hönnun leiði- og þvergarðs og annarra mannvirkja sem eru hluti af verkinu s.s. vega, stíga, slóða, holræsa, gerð útboðs- og verklýsingar auk allra nauðsynlegra vinnuteikninga og gerð kostnaðaráætlunar.  Þá segir að gerðar skuli 2-3 tillögur að útfærslu ásamt kostnaðarmati og leggja fyrir verkkaupa til ákvörðunar. 

Stefndi, Ósafl sf., varð hlutskarpast við útboð á gerð snjóflóðavarna í Traðarhyrnu sem stefnandi gekkst fyrir árið 2008. Tilboð stefnda er dagsett 16. apríl 2008 og byggði á verklýsingu sem Framkvæmdasýsla ríkisins gaf út í febrúar sama ár.  Verkið var boðið út sem fullhannað og var verkefni stefnda Óslafs einskorðað við framkvæmdina sjálfa. Þó kemur fram í útboðsgögnum að nokkur óvissa sé um jarðvegsaðstæður.  Með verksamningi, dagsettum 24. júní 2008, milli stefnanda og stefnda, Ósafls sf., tók stefndi Ósafl að sér að reisa snjóflóðavarnargarð og keilur fyrir ofan Bolungarvík.  Garðinn og keilurnar skyldi byggja úr jarðefnum sem væru fengin innan framkvæmdasvæðisins, bæði lausum efnum og efni úr bergskeringum.  Sú hlið garðsins og keilnanna sem snýr á móti fjallinu skyldi byggð upp með netgrindum og styrktum jarðvegi.  Stefnandi lagði til efnið í netgrindurnar en stefndi Ósafl tók við efninu og bar ábyrgð á uppsetningu þess.

 Aðalhönnuður varnargarðanna og keilnanna var eins og áður sagði stefndi Efla. Hönnun og framleiðsla netgrindanna og styrktarkerfi var hins vegar boðin út sérstaklega í desember 2008.  Stefndi, Efla hf., kveður að í útboðsgögnum hönnunar hafi ekki verið gert ráð fyrir því að annar aðili kæmi til með að hanna hluta garðsins eða bera ábyrgð á þeirri hönnun, en með þessu hafi stefnandi ákveðið að víkja frá því sem lagt var upp með í upphafi.

Stefndi, Efla hf., sá um að útbúa útboðsgögnin fyrir styrktarkerfið, en kveður að hvorki hafi verið samið sérstaklega um þessa vinnu né hafi hún verið hluti af því verki sem stefndi, Efla hf., hafi upphaflega tekið að sér. Í útboðsgögnunum um framleiðslu styrktarkerfisins sé skýrt tekið fram að framleiðandinn eigi bæði að hanna og framleiða jarðstyrkinguna sem og klæðningu á framhlið.  Það hafi því verið gengið út frá því að hönnun og framleiðsla styrktarkerfisins yrði alfarið á ábyrgð þess sem samið yrði við.

Í febrúar árið 2008 skilaði stefndi, Efla hf., útboðsgögnum, teikningum og verklýsingu til stefnanda.  Þessar teikningar og gögn gerðu ráð fyrir því að notað yrði sama styrktarkerfi og notað hefði verið án vandræða í fyrri verkefnum, sbr. grein 1.5.1 í verklýsingu.  Með afhendingu útboðsgagna kveðst stefndi Efla hf. hafa klárað sína hönnun og skilað af sér því verki sem samið hafði verið um, sem þó hafi tekið nokkrum breytingum frá því sem upphaflega hafi verið lagt upp með.  Með þessu hafi stefndi Efla uppfyllt allar helstu samningsskyldur sínar um hönnun varnarvirkja undir Traðarhyrnu í Bolungarvík.

Stefndi Ósafl kveður stefnanda hafa boðið út gerð netgrindanna sjálfra nokkru eftir að verksamningur hafi komist á við hann.  Þetta sé nokkuð óvenjuleg tilhögun á skipulagi verkframkvæmda, þ.e. að fyrst sé gerður bindandi verksamningur við verktaka áður en þýðingarmikill þáttur verks liggi fyrir.  Hafi það farið svo að stefndi Maccaferri hafi boðið lausn ólíka þeirri sem lýst hafi verið í verksamningnum á milli stefnanda og stefnda Ósafls.  Þetta hafi m.a. valdið þeim vandkvæðum sem sé rót þessa dómsmáls.   Tilboð stefnda  Maccaferri í styrkingarkerfið hafi verið mun lægra en önnur tilboð. Svo virðist sem hönnunarráðgjafi stefnanda, Efla hf. (áður Línuhönnun), hafi ekki verið beðinn um að yfirfara eða leggja nokkurt mat á þá lausn sem Maccaferri hafi boðið, sbr. ummæli í bréfi, dagsettu 15. febrúar 2011.

Stefndi Maccaferri tók að sér hönnun, framleiðslu og smíði jarðvegsstyrktarkerfis fyrir stefnanda árið 2009. Stefndi mótmælir að hafa unnið verkið á grundvelli þeirra skilmála sem stefnandi vísar til í stefnu sinni.

                Í desember 2008 birti Ríkiskaup auglýsingu fyrir Bolungarvíkurkaupstað um útboð nr. 14623 vegna snjóflóðavarna í Bolungarvík.  Þar kemur fram að tilboðin yrðu opnuð hinn 27. janúar 2009. Fjórum vikum síðar skyldu tilboð þau sem borist hefðu í verkið renna út. Stefndi Maccaferri sendi tilboð í verkið hinn 26. janúar 2009.  Stefndi kveður forsendur tilboðs síns meðal annars hafa verið þær að stefnandi hefði fjögurra vikna frest frá opnun tilboða til að samþykkja tilboðið.  Svar stefnanda við tilboðinu barst 2. mars 2009, en tilboð stefnda rann út 25. febrúar 2009.

Tilboð í hönnun og framleiðslu styrktarkerfisins voru opnuð 2. febrúar 2009 og bárust alls fjögur tilboð.  Stefndi, Efla hf., fór yfir tilboðin sem bárust m.t.t. nokkurra þátta og ritaði minnisblað um yfirferðina, en þar var gerð stuttlega grein fyrir bjóðendum og sett fram samanburðartafla tilboðanna.  Stefndi, Efla hf., kveður að í minnisblaðinu hafi ekkert verið minnst á hönnunina enda hafi hún ekki verið hluti af þeim gögnum sem tilboðsgjafar hafi skilað inn.  Hönnuðurinn Jón Skúli Indriðason hjá stefnda Eflu hf. fór yfir gögnin frá stefnda Maccaferri og úrskurðaði að efnið uppfyllti þær kröfur sem gerðar voru í útboðsgögnum. 

Samkvæmt útboðsgögnum, fól verkið í sér að framleiða, hanna og smíða, jarðvegsstyrktarkerfi, til að styrkja bratta framhlið jarðvegsgarðs og keilna.  Þá var sérstaklega tekið fram að þó uppsetning styrktarkerfisins væri ekki hluti af verkinu skyldi framleiðandi aðstoða uppsetningarverktaka með því að leggja til sérfræðing sem yrði uppsetningarverktaka til aðstoðar í byrjun vinnu hans með því að leiðbeina honum við uppsetninguna, a.m.k. tvisvar sinnum í 5 daga hvort sinn.  Framleiðandi skyldi aðstoða fyrst í upphafi verks og síðar ef þörf væri á frekari aðstoð.  Samkvæmt grein 2.1.4.1 í útboðsgögnum skyldi hanna styrktarkerfi í samræmi við viðurkennda evrópska staðla og skyldi bjóðandi gera grein fyrir þeim stöðlum sem fylgt er við hönnun kerfisins og framleiðslu þess.  Í grein 2.3.2.2 segir að bjóðandi skuli skila með tilboði sínu ítarlegum upplýsingum um kerfisuppbyggingu styrktarkerfis síns þar sem fram komi tæknileg lýsing á kerfinu ásamt upplýsingum um vinnubrögð við uppsetningu þess.  Þá skyldi bjóðandi skilgreina:  Þjöppunarkröfur, fjölda styrkingarlaga í kjarna, þykkt fyllingarlaga, þjöppun milli styrktarlaga og lengd styrkingar inn í fyllingu.

                Stefndi Maccaferri átti lægsta boðið í útboðinu og fulltrúi Ríkiskaupa setti sig fljótlega í kjölfar opnunar tilboða í samband við stefnda Maccaferri til að afla frekari upplýsinga um tillögur stefnda. Ríkiskaup átti í tölvupóstsamskiptum við stefnda Maccaferri í febrúar 2009, þar sem m.a. kom fram að vilji stæði til þess að heimsækja stefnda, bæði til að ræða tæknileg atriði hönnunarinnar og skoða aðstæður almennt.               Í þeim tilgangi að kynna sér nánar umrædda lausn stefnda var farin sérstök kynnisferð til höfuðstöðva og framleiðslustöðvar stefnda á Ítalíu, á tímabilinu 9. – 12. mars 2009.  Með í för voru Jón Skúli Indriðason, hönnuður snjóflóðavarnarmannvirkisins og starfsmaður eftirlitsaðila verksins, stefnda Eflu, og Sigurður Hlöðversson, starfsmaður Framkvæmdasýslu ríkisins.  Sá síðarnefndi ritaði minnispunkta um ferðina hinn 14. apríl 2009. Í  minnisblaðinu er ítarlega fjallað um þá fundi sem áttu sér stað og efnisatriði þeirra kynninga sem fram fóru af hálfu stefnda vegna þeirrar lausnar sem tilboð stefnda laut að.  Meðal þess sem tekið er fram í minnisblaðinu er að rætt hafi verið „allítarlega um útfærsluna og tæknileg atriði, m.a. varðandi hönnun, útfærslu og uppsetningu.  Sérstaklega var rætt um hvernig frágangur við enda þar sem netgrindur hætta og hvernig lengdarhalli verður tekinn upp.  Síðan segir að umræðurnar hafi verið mjög gagnlegar og að lausn stefnda sýndist betri en aðrar lausnir sem notaðar hafi verið áður og að líkindum auðveldari í uppsetningu. Endar minnisblaðið síðan á því að tekið er fram að höfundur þess og áðurnefndur starfsmaður stefnda Eflu telji efni og aðferð þá er stefndi bjóði fram fyllilega sambærilega við framleiðslu sem áður hafi verið notuð á Íslandi í snjóflóðavarnarverkefnum auk þess sem mat þeirra sé að slík uppsetning sé einfaldari í framkvæmd.

                Enda þótt enginn verksamningur hafi verið undirritaður kveðst stefndi Maccaferri strax í kjölfarið á heimsókninni hafa hafið framleiðslu jarðvegsstyrktarkerfisins þar sem ljóst hafi verið að stefnandi hafi viljað fá stefnda í verkið þrátt fyrir að hafa látið tilboðsfrestinn renna út. Stefndi Maccaferri kveðst hafa unnið og undirbúið alla hönnun jarðvegsstyrktarkerfisins á starfsstöð sinni á Ítalíu auk þess sem öll framleiðsla á efni í jarðvegsstyrktarkerfið hafi alfarið farið fram á Ítalíu og unnið hafi verið við framleiðsluna þar í nokkrar vikur.  Þegar fyrsti hluti af framleiðslu stefnda hafi verið tilbúinn til afhendingar hafi stefndi séð um að koma þeim hluta frá starfsstöð sinni til hafnar á Ítalíu þar sem framleiðslan hafi verið fermd á skip sem flutti efnið til stefnanda, en sama eigi við um aðra hluta framleiðslunnar sem stefndi hannaði og framleiddi á Ítalíu.  Stefndi Maccaferri mótmælir því að stefnandi hafi gengið frá skriflegum samningi við sig í framhaldi af útboðinu.

Verkið hófst 25. júní 2009.  Uppsetning styrkingarkerfisins hófst í júlí 2009 undir handleiðslu Maccaferri og kveður stefnandi að fljótlega hafi orðið vart við útbungun á milli tengijárna sem halda eiga grindunum saman. Verklagi hafi þá verið breytt, en grindurnar hins vegar reynst ónothæfar.  Fulltrúar stefnda Maccaferri komu á verkstað í annarri viku júlí mánaðar það ár til að leiðbeina verktaka, stefnda Ósafli sf., við uppsetningu netgrinda og jarðvegsstyrkinga.  Leiðbeinendur voru á verkstað 10., 11. og 13. júlí 2009. 

Stefnandi kveður leiðbeiningar stefnda Maccaferri á verkstað ekki hafa verið í samræmi við fyrirmæli sem fram hafi komið á teikningum stefnda Maccaferri, eins og sýnt sé í matsgerð.  Teikningarnar, þ.m.t vinnuteikningarnar sýni að byrja skuli á því að fylla með grjóti í netgrindur áður en styrktardúk sé komið fyrir.  Fulltrúar Maccaferri hafi hins vegar leiðbeint þannig að styrktardúkur og síudúkur skyldu lagðir á undan grjóti í netgrindur.  Þá væri kjarnafylling lögð á undan grjóti.  Síðan hafi verið gert rými fyrir grjótfyllingu með því að toga styrktardúk ásamt fyllingu frá netgrindum. 

Á tímabilinu frá 14. júlí til 6. ágúst 2009, þegar vinna við uppsetningu var stöðvuð, hafi komið upp ýmis vandamál við framkvæmdina, að sögn stefnanda, t.d. hafi þurft að moka frá netgrindum að hluta til að koma grjótfyllingu fyrir á milli umvafnings og netgrinda.  Einnig hafi kjarnafylling ekki verið þjöppuð í tveimur lögum næst netgrindum eins og sýnt sé á teikningum og mælt hafi verið með á fundi hinn 13. júlí 2009.  Stefnandi kveður það koma greinilega fram á myndum í matsgerð, að þegar kjarnafyllingu hafi verið lokið við fyrstu röð netgrinda að umvafinn endi hafi verið of stuttur.  Virðist vera 40-50 cm inn í kjarnafyllinguna í staðinn fyrir tæplega 1,2 m.  En stutt lárétt lengd umvafnings inn í kjarnafyllingu hafi verið viðvarandi vandamál og megi sjá það á myndum frá 27. júlí 2009.

                Í stefnu er tekið fram að leiðbeiningar starfsmanna stefnda Maccaferri hafi ekki verið í samræmi við fyrirmæli sem komið hafi fram á teikningum stefnda. Stefnandi lætur þess hins vegar ekki getið að strax í upphafi verksins hafi komið fram athugasemdir frá verkkaupa og verktaka, stefnanda og stefnda Ósafli, um að ljóst væri að varla væri hægt að fullnægja nákvæmniskröfum þeim sem upphaflegar leiðbeiningar stefnda hefðu gert ráð fyrir að unnið yrði eftir. Telur stefndi Maccaferri að þetta hafi haft þau áhrif að breyta hafi þurft útfærslu uppsetningar frá upphaflegum leiðbeiningum.  Þessu til viðbótar bendir stefndi á að stefndi Ósafl hafi miðað við tiltekna gerð netgrinda og uppsetninga á þeim í tilboði sínu vegna snjóflóðavarna í Bolungarvík, en stefnandi síðar valið aðra lausn.       Vegna þessa hafi aðilar sammælst um að breyta upphaflegri verkframkvæmd til að aðlaga uppsetninguna að kröfum stefnanda og stefnda Ósafls.  Stefndi Maccaferri kveður að upphaflegt verklag og teikningar hafi miðað við að grjót yrði handlagt í netgrindurnar.  Í ljós hafi síðan komið að hvorki stefnandi né stefndi Ósafl hafi talið að slíku yrði við komið með hliðsjón af seinleika slíkrar framkvæmdar og aukins kostnaðar stefnda Ósafls.  Hafi niðurstaðan því orðið sú að notast mætti við stórtækar vinnuvélar til að leggja steinana í netgrindurnar en eðli málsins samkvæmt hafi slíkt í för með sér grófari vinnubrögð. Til að koma til móts við óskir stefnanda og stefnda hafi vinnulaginu því verið breytt en á meðan starfsmenn stefnda Maccaferri hafi verið á staðnum hafi fyrirkomulagið verið þannig að vinnuvélar lögðu grjótið í netgrindurnar og síðan hafi verið gengið betur frá grjótinu af hálfu starfsmanna stefnda.  Hafi þetta flýtt töluvert fyrir verkinu og þannig verið komið til móts við umræddar kröfur. 

Ástæða þess að kjarnafyllingin hafi verið lögð á undan grjótinu kveður stefndi Maccaferri einfaldlega hafa verið þá að ekki hafi verið hægt að leggja grjótið á frístandandi netgrindurnar með vinnuvélum þar sem slíkt hefði mögulega orðið til þess að velta netgrindunum um koll með tilheyrandi seinkunum á uppsetningu.  Hafi því verið brugðið á það ráð í samráði við stefnanda og stefnda Ósafl að leggja netgrindurnar niður, setja síðan styrktardúk, síudúk og kjarnafyllinguna á undan grjótinu til þess eins að veita netgrindunum stuðning þegar grjótið yrði sett á þær fyrir framan kjarnafyllinguna.

                Stefndi Maccaferri mótmælir því sem stefnandi telur hafa verið vandamál við framkvæmdina, líkt og fram komi í stefnu, og bendir á að aðilar hafi sammælst um þessa tilteknu framkvæmd og unnið í samræmi við þá framkvæmd á meðan fulltrúar stefnda hafi verið á svæðinu, á þeim verksstöðvum sem stefndi hafi leiðbeint um uppsetningu á.  Engin þessara verkstöðva hafi hrunið.  Telur stefndi Maccaferri að fullyrðingar og reifun stefnanda á ýmsum vandamálum sem upp hafi komið taki til atvika eftir að starfsmenn stefnda höfðu yfirgefið verkstað, eftir að hafa uppfyllt samningsskyldur sínar um viðveru, og eiga því beinlínis ekki við gagnvart stefnda heldur lúti sá hluti málavaxtalýsingar einvörðungu að öðrum stefndu í málinu.

Í stefnu sé tekið fram að útbungun netgrinda og slit tengijárna hafi verið viðvarandi vandamál.  Stefndi Maccaferri kveðst fyrst hafa vitað af vandamáli vegna útbungunar tengijárna 30. júlí 2009.  Fram að þeim tíma hafi hann ekki vitað af vandamálum vegna útbungunar.  Stefndi tekur þó fram að útbungun netgrinda þeirra er stefndi leiðbeindi um uppsetningu og aðstoðaði við hafi stafað af því að prufanir með 19 tonna valtara á þéttingu kjarnafyllingar hafi farið of nærri netgrindunum og orsakað útbungun þeirra netgrinda.  Hafi því í framhaldinu verið ákveðið að þétta ekki nær en 1,5 metra að netgrindunum með valtara en notast við 350 kg. þjöppu að netgrindunum sjálfum.  Á verkfundi 27. júlí 2009 hafi verið samþykkt að tengijárnum yrði fjölgað úr 4 í 6 til prufu þar sem grindur hafi bungað út.  Í tölvupósti starfsmanns stefnda, dags. 1. ágúst 2009, sé skýrt tekið fram að áður en gripið verði til fjölgunar tengijárna sé lagt til að  verktaki þjappi kjarnafyllinguna líkt og ákveðið hafi verið og sammælst um á meðan að starfsmenn stefnda Maccaferri hafi verið á verksvæðinu.  Tengijárnin yrðu sett upp með þeim hætti sem stefndi Maccaferri hafi áður mælt fyrir um og áhersla lögð á að rétt uppsetning tengijárna væri mjög mikilvægur þáttur til að koma í veg fyrir útbungun netgrinda. Gæta yrði þess að sleppa ekki stórgrýti á tengijárnin þegar grjótfylling væri sett í netgrindur þar sem slíkt skapaði hættu á að tengijárn afmynduðust (beygðust) og þannig afmyndað netgrindurnar.

                Hinn 4. ágúst hafi starfsmaður Framkvæmdasýslu ríkisins áframsent fyrrgreindan tölvupóst til starfsmanna Ósafls og spurt hvort verið gæti að bungumyndunin sé vegna óvarlegrar niðursetningar á grjótinu.

                Stefndi Maccaferri bendir sérstaklega á að honum var ekki gerð grein fyrir því að ákveðið hafi verið að stöðva vinnu við uppbyggingu á varnargarðinum vegna slitinna tengijárna og að í framhaldinu hafi verið unnið við tilraunir við að fylla að grindum.  Stefndi kom þannig hvergi nærri ákvarðanatöku um slíkt né breyttu verklagi / breyttri hönnun í kjölfar slíkra tilrauna.

                Stefndi Maccaferri mótmælir því sem fram kemur í málsatvikalýsingu í stefnu, um að stefnandi hafi gert kröfu um að stefndi bætti meint tjón stefnanda vegna vanefnda stefnda. Hið rétta sé að stefnandi hafi óskað eftir viðræðum um hvernig stefndi hygðist bæta stefnanda meint tjón sitt.

                Stefndi Maccaferri telur nauðsynlegt að taka fram að gegn mótmælum hans hafi stefnandi ákveðið að rífa niður þann hluta snjóflóðavarnargarðsins sem hafði verið reistur en ekki hrunið.  Stefnandi hafi vegna þessarar ákvörðunar leitað til stefnda vegna síðari uppbyggingar snjóflóðavarnargarðsins, þ.e. þess sem nú standi fullbyggður í Bolungarvík. Forsendur stefnanda á efniseiginleikum þess efnis sem notað hafi verið við uppsetningu hins síðari varnargarðs hafi hins vegar verið breyttar frá því sem stefnandi hefði áður upplýst stefnda í tengslum við byggingu hins fyrri snjóflóðavarnargarðs, þar með talið efniseiginleikar hinnar styrktu fyllingar, þrátt fyrir að notuð hafi verið sömu jarðvegsefni og við uppbyggingu hins fyrri varnargarðs.

Stefnandi kveðst hafa gert athugasemdir við stefnda, Ósafl sf., um að styrktardúkurinn (geogridið) næði ekki nógu langt inn.  Þá hafi útbungun netgrinda og slit tengijárna jafnframt verið viðvarandi vandamál.  Á tímabilinu 14. júlí 2009 til loka júlí hafi orðið vart við útbungun á netgrindum.  Í samráði við stefnda Maccaferri hafi verið ákveðið að fjölga tengijárnum í netgrindum úr 4 í 6 vegna þess að bungur mynduðust á framhlið netgrindar. Þegar í ljós hafi komið hinn 6. ágúst 2009 að tengijárn hefðu slitnað í neðstu einingum þar sem notuð hafi verið 4 tengijárn hafi verið ákveðið að stöðva vinnu við uppbyggingu á varnargarðinum. 

Stefndi Ósafl  kveðst ekki hafa séð um hönnun og fyrirsögn um uppsetningu netgrindanna eða beri hann ábyrgð á því ef misbrestur yrði.  Þrátt fyrir það hafi hann ítrekað varað við þeirri leið sem farin var.  Í fyrsta lagi hafi hann vakið athygli á því á verkfundi sem haldinn var hinn 28. apríl 2009 að stefnandi þekkti ekki hinar nýju grindur sem þá hefði verið samið um að kaupa af Maccaferri og hafi verið frávik frá útboðsgögnum.  Í öðru lagi hafi á fundi með verkkaupa hinn 26. júní 2009 verið farið yfir vinnuteikningar frá Maccaferri og hafi þá enn ýmislegt verið óljóst um hvernig staðið skyldi að uppsetningunni. Eftir að starfsmenn Maccaferri hafi komið á verkstað hinn 10. júlí 2009 hafi verið bent á erfiðleika við að „pakka“ fyllingu inn.  Stefndi Ósafl hafi síðan sent sérstaka orðsendingu, dagsetta 16. júlí 2009, þar sem stöðu málsins og áhyggjum hafi verið lýst. Í ljós hafi komið að við hönnun varnargarðsins í Bolungavík hafi stefndi Maccaferri vikið frá því verklagi að svokallað geogrid liggi þétt upp að netgrindum og taki því allan jarðvegsþungann. Geogridið hafi verið sett fyrir aftan grjótlagið í Bolungarvík og virðist það hafa skipt sköpum að mati m.a matsmanna.

Á verkfundi hinn 27. júlí 2009 hafi fulltrúi stefnanda ítrekað að farið skyldi í einu og öllu að fyrirmælum Maccaferri við uppsetninguna.  Stefndi Ósafl kveðst fljótlega eftir þetta, eða í byrjun ágúst, hafa stöðvað vinnu við verkið sökum þess að leiðbeiningar og fyrirmæli Maccaferri skiluðu alls ófullnægjandi árangri. 

Þau vandamál sem upp komu lutu aðallega að því að ekki tókst að fá umvafninginn nægilega langan. Stefnda Eflu bárust fyrirspurnir frá eftirliti af þessum sökum. Stefndi Efla kveðst m.a. hafa sett fram hugmynd að því hvernig betur mætti hafa stjórn á lengd umvafningsins með því að nota nokkurs konar mót, svipað og lagt er til að festa netgrindurnar með heftum við geogriddið, sbr. tölvupóstsamskipti Jóns Skúla Indriðasonar og eftirlits frá 7. –  9. ágúst 2009.  Jafnframt hafi hann lagt til að sá hluti sem kominn var upp í byrjun ágúst 2009, ca 120 m, yrði tekinn niður og byrjað yrði á verkinu upp á nýtt.  Stefndi Maccaferri kveður þessa hugmynd aldrei hafa verið borna undir sig og ekki unnið frekar með hana. Þess í stað hafi eftirlitsaðili og stefndi Ósafl sf. unnið tillögu að breyttu verklagi.  Stefndi Efla kveður einu aðkomu sína að þessari breyttu tillögu hafa verið að hafa milligöngu um samskipti milli eftirlitsaðila og stefnda Maccaferri.  Lykilmaður stefnda Maccaferri hafi farið yfir þessa tillögu og samþykkt hana fyrir sitt leyti.  Fulltrúi stefnda Eflu hafi á engan hátt komið að þessum breytingum og aldrei farið  yfir tillögu eftirlitsaðila, enda ekki um það beðið. Vinna hófst aftur hinn 13. ágúst 2009 með hinu breytta verklagi og stóðu yfir allt til 26. september 2009, þegar framkvæmdir voru stöðvaðar að nýju en þá höfðu 36 netgrindur og grjótfylling hrunið niður. 

Í framhaldi af verkstöðvun hinn 6. ágúst 2009 var tekið til við tilraunir með mismunandi aðferðum við að fylla að grindum.  Niðurstaðan, sem unnin var í samvinnu stefnanda og stefnda Ósafls sf., hafi verið gefin út í vinnulýsingu ,,Netgrindur uppsetning“ dagsett 13. ágúst 2009 frá fulltrúa verkkaupa til verktaka.  Með vinnulýsingunni fylgir teikning „Uppsetning netgrinda“.  Stefnandi kveður teikninguna hafa verið senda stefnda Eflu hf. sem séð hafi um að senda hana til stefnda Maccaferri sem hafi engar athugasemdir gert við þetta verklag og breytingar.   

Vinna hófst aftur 13. ágúst 2009.  Í dagbók verktaka frá 17. ágúst 2009 segir:,,unnið við uppsetningu á netgrindum og er nú loks að komast taktur í verkið.“  Þegar starfsmenn stefnda, Ósafls sf., komu hins vegar á verkstað hinn 26. september 2009 kom í ljós að á kafla frá stöð 502 að stöð 516 höfðu 36 netgrindur og grjótfylling hrunið niður.  Í framhaldi af því voru framkvæmdir stöðvaðar og svæðið girt af.  Miðvikudaginn 30. september 2009 hrundu þrjár raðir af netgrindum til viðbótar, þ.e. næstu þrjár austan við svæðið sem áður hafði fallið niður. Við vettvangsskoðun fyrr um daginn sást að grindur höfðu bólgnað talsvert út á þessu svæði.

Eftir umræður á verkstað og nýja tillögu verkkaupa að hönnun hafi verklagi verið breytt.  Allt hafi þó komið fyrir ekki og í september 2009 komið í ljós að netgrindur höfðu fallið og ekki þolað álagið frá því efni sem liggur á milli fyllingarinnar og grindanna.  Þegar þarna var komið við sögu var, að sögn stefnda Ósafls, lokið vinnu við 16% af þvergarði snjóflóðavarnanna.

Í framhaldi af hruninu voru þeir Hálfdán Þórir Markússon, Einar Magnús Júlíusson og Oddur Sigurðsson fengnir til að leggja mat á það hvað hefði farið úrskeiðis við uppbyggingu bratta hluta varnargarðsins.  Stefnandi kveður að hann og allir stefndu hafi verið sammála um að skipa þá til verksins, en því hefur stefndi Maccaferri andmælt.  Niðurstaða þeirra varð sú að hönnun verksins hafi verið ábótavant og lögðu sérfræðingarnir til aðra aðferð við uppsetningu grindanna og frágang þeirra. Í lokakafla skýrslunnar segir svo: „Ekki er séð að eiginleg hönnun, álagsgreining eða mat á burðargetu liggi að baki verkteikningum sem lýsa uppsetningu grinda. Framleiðandi og hönnuður grindanna, Maccaferri, útskýrir að grindunum sé ekki ætlað að bera álag og hönnuður verksins Efla upplýsir að þessi verkhluti hafi ekki verið skoðaður sérstaklega við yfirferð tilboðsins eða á síðari stigum. Því má segja að það sem fór úrskeiðis við hönnun þessa verkhluta er að hann var ekki hannaður“  Því var það mat sérfræðinganna að það sem fór úrskeiðis við hönnun þessa verkhluta hafi verið að hann var ekki hannaður.  Þá segir að framhlið varnargarðsins hefði gefið sig þrátt fyrir að farið hefði verið nákvæmlega eftir þeim skriflegu vinnulýsingum og teikningum sem framleiðandi/hönnuður lagði fram í upphafi verks.  Bygging garðsins hefði þá verið lengra á veg komin og megi því e.t.v. telja lán í óláni að ýmsum þáttum í framkvæmdinni, hafi verið ábótavant.  Til stuðnings því mati vísuðu sérfræðingarnir m.a. í stæðniútreikninga á grindunum við ákvörðun á kröfum í tengijárnum en einnig höfðu þeir framkvæmt stæðniútreikninga á garðinum miðað við mismunandi forsendur.   Þá var það niðurstaða þeirra að þjöppun jarðvegs hafi ekki verið eins og best verður á kosið, en í skýrslunni sagði:  „Sprungur sem liggja samsíða frambrún garðs gefa til kynna að hreyfing hafi orðið í jarðveginum en þessar sprungur og lafandi „wrap-around“ á hrunda kaflanum benda til þess að þjöppun hafi ekki verið í lagi“.  Þá segir einnig í skýrslunni, að þjöppun jarðvegs hafi áhrif á eiginleika hans.  Slök þjöppun valdi því að jarðvegur verði burðarlítill (lágt skriðhorn), getur pressast saman undan auknu fargi og lárétt formbreyting átt sér stað.   Þá segir í skýrslunni að framhlið varnargarðsins hefði gefið sig þrátt fyrir að farið hefði verið nákvæmlega eftir þeim skriflegu vinnulýsingum og teikningum sem framleiðandi/hönnuður lagði fram í  upphafi verks.  Þá virðist það jafnframt liggja fyrir að þær leiðbeiningar sem Maccaferri hafi gefið til stefnda Ósafls um uppsetningu grindanna hafi ekki verið í samræmi við fyrirmæli á þeim teikningum er fylgdu tilboði og verksamningi Maccaferri við stefnanda.

Í framhaldi af ofangreindri skýrslu fóru fram bréfaskipti á milli stefnanda og stefnda Maccaferri í janúar og febrúar 2010, þar sem stefnandi kveðst hafa freistað þess að ná samkomulagi um bætur eða aðra úrlausn á grundvelli niðurstaðna skýrslunnar, en þau bréfaskipti ekki leitt til neinnar sáttar. 

Stefnandi óskaði þá eftir því að dómkvaddir yrðu matsmenn til að meta hvað fór úrskeiðis við uppbyggingu bratta hluta varnargarðsins og skyldi það mat taka til hönnunar, efnis og framkvæmdar.  Til að framkvæma matið voru dómkvödd þau Harald B. Alfreðsson og Fjóla Guðrún Sigtryggsdóttir. Matsmenn skiluðu matsgerð hinn 29. desember 2010 en megin niðurstöður hennar voru þær, að orsök hrunsins hafi annars vegar verið sú, að engin tengin hafi verið milli netgrinda og styrktu fyllingarinnar og hins vegar jarðþrýstingur sem netgrindur hafi ekki verið hannaðar fyrir.  Orsök þess að engin tenging hafi verið milli netgrinda og styrktu fyllingarinnar sé margþætt með útgangspunkt í upphaflegri hönnun og aðdraganda með gegnumgangandi athugunarleysi allra sem að málinu hafi komið um mikilvæg atriði varðandi uppbyggingu og hönnun þess kerfis sem verið var að setja upp.  Upphafleg hönnun tengingar milli netgrinda og styrktu fyllingarinnar hafi verið afar tæp og öryggi ófullnægjandi.  Hönnunin hafi leyft lítil sem engin frávik við uppsetningu netgrinda eða útlögn fyllingar og því ekki tekið tillit til grófleika framkvæmdarinnar.  

Fulltrúar Maccaferri sem komið hafi á framkvæmdastað hafi ekki fylgt teikningu um uppsetningu kerfisins og yfirgefið svæðið án þess að uppsetning þess væri með öllu klár.  Fullnægjandi frágangur umvafða endans (wrap around) hafi ekki verið tryggður.  Viðvörun sú sem fólst í slitnum tengijárnum og útbungun grinda hafi ekki verið fylgt fast eftir.  Slitin tengijárn og útbungun grinda hafi vakið upp spurningar en ekki hafi verið fundin skýring á orsökum þessa, t.d. með reikningum, eða farið skilmerkilega gegnum hönnunarforsendur.  Tengijárnum hafi verið fjölgað en ekki gengið úr skugga um að það leysti vandamálið.  Útbungun netgrinda og slitin tengijárn virðist ekki hafa vakið athygli Maccaferri sem þó þekkti eigin hönnunarforsendur um að netgrindur og tengijárn ættu ekki að taka láréttan þrýsting frá fyllingu og því ekki að vera fyrir áraun. 

Eftirlit og verktaki í sameiningu hafi mótað breytt vinnulag þar sem illa hafi gengið að framkvæma verkið eftir leiðbeiningum Maccaferri.  Í framhaldi af því hafi verið sett fram tillaga að breyttri hönnun.

Í breyttri hönnun hafi engin tenging verið milli netgrinda og styrktu fyllingarinnar auk þess sem meira magn fyllingarefnis hafi verið bak netgrindum.  Breytta hönnunin hafi verið ófullnægjandi og aldrei getað staðist.  Á hrunsvæðinu hafi verið byggt samkvæmt breyttu hönnuninni.

Þá töldu matsmenn að hætta væri á að netgrindur sem enn héldu gæfu eftir og hryndu niður, þar sem ófullnægjandi tenging netgrinda væri við styrktu fyllinguna á því svæði þar sem byggt hafi verið samkvæmt upphaflegri hönnun og engin tenging á því svæði þar sem byggt hafi verið samkvæmt breyttu hönnuninni. 

Veikasti hlekkurinn í hönnun styrktarkerfisins hafi verið tengingin milli netgrinda og styrktarkerfis í kjarnafyllingu varnargarðsins.  Matsmenn töldu þá hönnun sem Maccaferri lagði fram ófullnægjandi og hvorki taka tillit til aðstæðna á verkstað né frávika í uppsetningu.  Í hönnuninni hafi einnig verið veikleiki i burðarkerfi netgrinda samanber slitin tengijárn meðal annars á því svæði þar sem Maccaferri hafi leiðbeint um uppsetningu.

Hönnun Maccaferri á styrktu fyllingunni fylgi ekki hugmyndafræði Evrópustaðlanna um markástandshönnun og ekki komi fram hvaða stöðlum sé fylgt.  Svo virðist sem enginn hafi farið yfir útreikninga Maccaferri fyrir hönd verkkaupa og mikilvægum hönnunarforsendum varðandi styrktarkerfið virðist ekki hafa verið komið til skila til þeirra sem unnið hafi að uppsetningu og eftirliti.  Hönnunarlíkan Maccaferri af netgrindum taki ekki tillit til jarðþrýstings sem að áliti matsmanna sé vanmat.  Enn fremur telja matsmenn Maccaferri hvorki hafa sýnt fram á stöðugleika netgrinda né fullnægjandi tengingu netgrinda við styrktu fyllinguna.  Að mati matsmanna sé öryggi netgrinda í hönnun Maccaferri ófullnægjandi og að bæta þurfi úr því með nýrri hönnun klæðningar og frágangi við framhlið.  Enn fremur mæli matsmenn með því að hönnunarforsendur mannvirkisins í heild verði yfirfarnar og þar með efniseiginleikar fyllingarefna.  Var það álit matsmanna að margt hafi verið athugavert við framkvæmdina eins og rakið sé í matsgerðinni, m.a. þar sem engar prófanir hafi verið gerðar á fyllingarefnum á framkvæmdatíma, þrátt fyrir að þeirra sé krafðist í útboðsgögnum.  Þá hafi frágangur umvafnings við enda styrktu fyllingarinnar verið athugaverður, ófullnægjandi þjöppun annars vegar, vegna grófleika kjarnafyllingar í honum, og hins vegar þar sem mót eða stuðning vantaði við umvafða endann.  Matsmenn telja frágang umvafnings með þeim hætti að stöðugleiki styrktu fyllingarinnar sjálfrar hafi mögulega verið ófullnægjandi og líklegt að hún hafi þrýst á netgrindur.  Einnig hafi leiðbeiningar leiðbeinenda frá Maccaferri á framkvæmdarstað verið ófullnægjandi og ekki verði séð af matsgögnum að jarðvinnuverktaki hafi náð tökum á verkefninu á meðan leiðbeinendurnir hafi verið á verkstað.  Þetta hafi leitt til þess að framvinda framkvæmdarinnar hafi aldrei orðið eðlilega og ýmis vandamál verið til staðar þar til ákveðið hafi verið að breyta verktilhögun og lögð fram breytt útfærsla.

Einnig er það niðurstaða matsmanna að aldrei hefði átt að samþykkja hina breyttu útfærslu.  Rétt hefði verið að fjarlægja styrktu fyllinguna sem upp var komin og hefja verkið upp á nýtt frá grunni með endurbættu og endurhönnuðu styrktarkerfi.  Þá benda þeir á að í ljósi ófullnægjandi öryggis netgrinda og styrktu fyllingarinnar hafi verið lán í óláni að hrunið hafi orðið á þeim tímapunkti í framkvæmdinni.

Í framhaldi af niðurstöðu matsmanna gerði stefnandi kröfu um að stefndu bættu stefnanda það tjón sem stefnandi hefði orðið fyrir vegna vanefnda stefndu, sbr. bréf, dagsett 24. janúar 2011.  Stefndu höfnuðu ábyrgð á tjóninu og viðræður aðila leiddu ekki til neinna sátta.  Kveður stefnandi að viðræður og frekari samskipti við stefnda Maccaferri hafi dregist á langinn þar sem þýða hafi þurft matsgerðina. 

Vegna þessarar afstöðu stefndu, sem stefnandi er ósáttur við, telur stefnandi nauðsynlegt að höfða þetta mál til heimtu bóta vegna þess tjóns sem hann hafi orðið fyrir vegna skaðabótaskyldrar háttsemi allra stefndu. 

Ráðist var í að endurbyggja styrktarkerfið í febrúar 2010, en um er að ræða útfærslu sem unnin var að ósk stefnanda af Einari Magnúsi Júlíussyni hjá Mannviti hf., Jóni Skúla Indriðasyni jarðverkfræðingi hjá stefnda og fulltrúa stefnda Maccaferri.  Hönnunarvinna fór fram frá febrúar og fram í júní 2010 og framkvæmdir við verkið með breyttri aðferð hófust í byrjun júlí árið 2010.  Ekki hafa komið upp nein vandamál við þessa útfærslu.  Eini munurinn á þessari lausn og fyrri lausn stefnda Maccaferri var að bætt var inn vírneti á bak við grindurnar sem veitti fullnægjandi tengingu við geo-griddið.  Stefnandi kaus hins vegar samhliða að afla matsgerðar sem lá fyrir 29. desember 2010. 

III

Kröfu sína á hendur öllum stefndu um að þeir greiði stefnanda in solidum 43.937.250 krónur kveður stefnandi nema því tjóni sem hann hafi orðið fyrir við að endurbyggja verkið að þeim stað sem það var komið, þegar hrunið átti sér stað.  Matsgerðin liggi til grundvallar kröfugerð stefnanda. 

Stefnandi hefur sundurliðun á kröfuna svo í stefndu – Endurbyggt að hruni:                                          Gröftur og fyllingar:                                                                          17.386.205           kr.

-     Netgrindur:                                                                                         8.345.445             kr.

-             Efniskostnaður (netgrindur, geogrid og

Geotextile án vsk.)                                                                            18.205.500           kr.

Samtals:                                                                                             43.937.250           kr.

Þá gerir stefnandi enn fremur kröfu um að stefndi Maccaferri bæti sér aukinn kostnað við kaup á efni, þ.m.t. netgrindum, geogrid og geotextile vegna nýrrar hönnunar á jarðvegsstyrktarkerfi, þar sem hönnun stefnda Maccaferri hafi verið haldin galla.  Stefndi Maccaferri hafi bæði tekið að sér hönnun og framleiðslu jarðvegsstyrktarkerfis, sbr. samning stefnanda og stefnda Maccaferri, og hafi hann því átt að leggja til lausn sem væri fullnægjandi.  Stefnda Maccaferri hafi því borið að afhenda stefnanda jarðvegsstyrktarkerfi sem ekki væri haldið galla.  Stefnanda beri ekki að greiða meira fyrir það kerfi heldur en samningur stefnanda og stefnda Maccaferri kveði á um.  Stefnandi geri því kröfu um að stefndi Maccaferri greiði allan umfram kostnað vegna breyttrar hönnunar.  Sá kostnaður sé til kominn vegna frekari efniskaupa stefnanda af stefnda Maccaferri sjálfum en hann hafi neitað að bæta úr gallanum á eigin kostnað.  Matsgerðin, liggi til grundvallar kröfugerð stefnanda. 

Aukinn efniskostnaður í jarðvegsstyrktarkerfi (netgrindur, geogrid og geotextile án vsk):

-      Byggt með breyttri lausn frá byrjun:     186.480.000         kr.

-      Samningsfjárhæð:                                                    - 83.250.000         kr.

Samtals:                                                                     103.230.000 kr.

Í báðum tilvikum sé gerð krafa um að dráttarvextir reiknist frá 24. febrúar 2011 en þá hafi verið liðinn mánuður frá því að stefnandi krafðist þess að stefndu bættu sér tjónið, og lagði matsgerðina fyrir stefndu.   Stefnandi vísar í þessu sambandi til 3. mgr. 5. gr. laga um nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. 

Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á hendur stefnda Maccaferri á samningi aðila, lögum um lausafjárkaup nr. 50/2000 og almennum reglum kröfuréttar um skaðabætur innan samninga.  Stefnandi byggir m.a. kröfur sínar á grein 6 í samningi aðila, þar sem kveðið sé á um að ef stefnandi verði fyrir tjón vegna vanefnda stefnda Maccaferri á samningi aðila skuli stefndi Maccaferri bera fulla ábyrgð á slíku tjóni samkvæmt almennum skaðabótareglum.

Stefnandi byggir á því að samkvæmt samningi aðila hafi stefndi Maccaferri m.a. borið ábyrgð á því að hönnun jarðvegsstyrktarkerfisins væri fullnægjandi.  Stefnandi byggir á því að jarðvegsstyrktarkerfið sem stefnandi keypti af stefnda Maccaferri hafi verið haldið galla sem stefndi Maccaferri beri ábyrgð á.  Þá sé byggt á því að þessi galli hafi leitt til þess að netgrindur og grjótfylling hafi hrunið og að fjarlægja hafi þurft alla styrktu fyllinguna sem upp var komin og hefja verkið upp á nýtt frá grunni með endurbættu og endurhönnuðu styrktarkerfi.   Stefnandi byggir á því að stefnda Maccaferri sé skylt að bæta stefnanda allt tjón hans vegna þessara vanefnda.   Stefnandi byggir á því að jafnvel þó að jarðvegsstyrktarkerfið hefði verið sett upp nákvæmlega í samræmi við leiðbeiningar og teikningar stefnda Maccaferri hefði það engu að síður hrunið.  Dómkvaddir matsmenn hafa staðfest það í skýrslu sinni, sbr. m.a. það sem matsmenn segi á bls. 55 í matsgerð:  ,,Í ljósi þess sem að framan segir um ófullnægjandi öryggi netgrinda og styrktu fyllingarinnar má segja að það hafi verið lán í óláni að hrunið varð á þessum tímapunkti í framkvæmdinni svo fremi sem í framhaldinu verði vandað til endurhönnunar og endurbyggingu styrktarkerfis snjóflóðavarnargarða og keilna í Bolungarvík.“  Matsgerð, unnin af dómkvöddum matsmönnum, staðfesti þá niðurstöðu að hönnun stefnda, Maccaferri, hafi verið gölluð og hefði aldrei getað gengið, sbr. m.a. eftirfarandi atriði en að öðru leyti er vísað til matsgerðar sem ekki hafi verið hnekkt.  Þar komi fram, að stöðugleiki netgrinda og tenging styrktu fyllingarinnar hafi verið ófullnægjandi.  Stefndi Maccaferri hafi lagt fram á matsfundi útreikninga á stöðugleika netgrinda.  Matsmenn hafi farið yfir þessa útreikninga og komist að þeirri niðurstöðu að þeir væru gallaðir m.a. þegar komi að útreikningi á niðurrifskrafti.  Jafnvel þó að litið væri framhjá því væru meginforsendur (svo sem gildi á µ og heftilengd) ekki sannfærandi og hvorki studdar tilvísunum í staðla, prófanir, rannsóknir eða aðrar heimildir né rökstuddar með öðrum hætti.  Einnig að viðkvæmni niðurstaðna fyrir þeim gildum sem reiknað sé með væru ekki könnuð.  Jafnframt að öryggisstuðlar væru innbyggðir og raunverulegt öryggi þannig falið.   Þá bendi matsmenn réttilega á að í útboðsgögnum um framleiðslu grindanna komi fram að hanna eigi skv. evrópskum stöðlum.  Stefndi Maccaferri hefði hins vegar ekki gert það því þá ættu hlutstuðlar á efni og álag að koma skýrt fram.  Matsmenn komist svo að þeirri niðurstöðu að stefndi Maccaferri hafi hvorki sýnt fram á stöðugleika netgrinda né fullnægjandi tengingu netgrinda við styrktu fyllingarinnar með þessum útreikningum.  Þvert á móti væri hefting netgrinda ófullnægjandi.  Þessi niðurstaða sé jafnframt í samræmi við niðurstöðu þeirra sérfræðinga sem skipaðir hafi verið af stefnanda og stefnda eftir hrunið.

Stefnandi byggir á því, að mikilvægar brotmyndir hafi ekki verið skoðaðar í hönnun.  Brotmyndir varðandi annars vegar tengingu netgrinda við jarðstyrkinguna og hins vegar útbungun þeirra hafi ekki verið skoðaðar í hönnun stefnda Maccaferri samkvæmt niðurstöðum matsmanna.   Þá bendi matsmenn á að engir hönnunarreikningar um það hafi verið lagðir fram eða sé þessar brotmyndir að finna í Technical Report sem hafi verið hluti af tilboði stefnda Maccaferri.  Matsmenn komist að þeirri niðurstöðu að þetta hafi verið atriðið sem hafi sýnt sig að vera ófullnægjandi í verkinu. 

Þá byggir stefnandi á því, að ekki hafi verið hannað eftir viðurkenndum evrópskum stöðlum.  Útboðsgögn, sem hafi verið hluti af samningi aðila, um jarðstyrktarkerfi hafi gert kröfu um að hannað væri eftir viðurkenndum evrópskum stöðlum. Hönnun stefnda, Maccaferri, sem sett hafi verið fram í Technical Report hafi hins vegar ekki byggt á viðurkenndum evrópskum stöðlum eins og matsmenn bendi á í matsgerð.

Stefndi Maccaferri hafi ekki reiknað með láréttum jarðþrýstingi á netgrindur og hannað þær samkvæmt því.  Matsmenn bendi á í matsgerð sinni að hönnun stefnda Maccaferri gangi út frá því að hver netgrind með grjótfyllingu sé hluti af og styðjist við aðlægt styrktarfyllingarlag.  Þannig sé ekki þrýstingur á netgrindina frá styrktu fyllingunni.  Matsmenn komist að þeirri niðurstöðu, að hönnunin geti fræðilega gengið, en þó ekki með fullnægjandi öryggi og bendi matsmenn í því sambandi á útreikninga sem þeir hafi framkvæmt.   Þá komist matsmenn að þeirri niðurstöðu að hönnunin hafi verið tæp jafnvel við fullkomnar aðstæður og lítið mætti út af bera við framkvæmdina svo ekki kæmi þrýstingur á netgrindur, t.d. ef ekki næðist að strekkja styrktardúkinn eða þjappa kjarnafyllingu nægjanlega næst framhlið. 

Stuðningur (mót) við umvafða endann hafi verið ófullnægjandi.  Matsmenn komist að þeirri niðurstöðu að stuðningur (mót) við umvafða endann hafi verið ófullnægjandi sem leitt hafi m.a. til þess að ekki hafi verið hægt að ná fullnægjandi þjöppun.  Það hafi svo leitt til þess að styrkta fyllingin þrýsti á netgrindur.

Stefndi Maccaferri hafi vísað til útreikninga sem ekki hafi verið lagðir fram og hafi væntanlega ekki verið gerðir.  Í tilboði stefnda Maccaferri hafi verið vísað til útreikninga sem aldrei hafi verið lagðir fram og óljóst hvort þeir hafi verið gerðir.  Matsmenn bendi í matsgerð sinni m.a. á, að með tilboði stefnda Maccaferi hafi í yfirliti verið vísað í hönnunarútreikninga á tengijárnum.  Þessir útreikningar hafi hins vegar ekki fylgt með tilboðinu eða hafi stefndi, Maccaferri, lagt fram þessa útreikninga.  Með tilboði stefnda Maccaferri hafi verið vísað í hönnunarútreikninga á heftilykkjum.  Þessir útreikningar hafi hins vegar ekki fylgt með tilboðinu eða hafi stefndi Maccaferri lagt þá fram. 

Þá liggi fyrir að eftir hrunið hafi þurft að endurhanna kerfið og byrja verkið upp á nýtt með endurbættu og endurhönnuðu styrktarkerfi.  Matsmenn hafi í matsgerð staðfest að rétt hafi verið að fjarlægja styrktu fyllinguna sem upp hafi verið komin og hefja verkið upp á nýtt frá grunni með endurbættu og endurhönnuðu styrktarkerfi.  Stefnandi byggir á því að þetta staðfesti að upphafleg hönnun hafi verið gölluð og hefði aldrei getað gengið. 

Þá byggir stefnandi á því að stefndi Maccaferri hafi borið ábyrgð á því að tryggja að jarðvegsstyrktarkerfið væri rétt upp sett.  Stefnandi byggir á því að leiðbeiningum um uppsetningu á kerfinu hafi verið ábótavant, þ.m.t. verkteikningar, vinnuteikningar og leiðbeiningar á verkstað.   Þetta hafi leitt til þess að galli hafi komið fram við framkvæmd verksins sem svo hafi leitt til þess að netgrindur og grjótfylling hafi hrunið og fjarlægja hafi þurft alla styrktu fyllinguna sem upp var komin og hefja verkið upp á nýtt frá grunni.  Þetta hafi valdið stefnanda tjóni, sem stefndi Maccaferri, beri ábyrgð á.  Til stuðnings þessu sé auk þeirra atriða, sem þegar hafi verið nefnd, m.a. bent á eftirfarandi atriði en að öðru leyti sé vísað til matsgerðar sem ekki hefur verið hnekkt.

Leiðbeiningar á verkstað hafi verið ófullnægjandi og ekki í samræmi við verkteikningar eða vinnulýsingar.  Upplýsingar með tilboðinu hafi gert ráð fyrir því að styrktardúkur væri lagður að netgrindum, grjóti væri komið fyrir, þar á eftir síudúkur og loks kjarnafylling.  Þessar upplýsingar séu hins vegar ekki í samræmi við teikningu sem fylgt hafi með tilboðinu.  Á vinnuteikningu stefnda Maccaferri sem afhent hafi verið með verkinu segi svo að fyrst skuli netgrindum komið fyrir, þá skuli koma fyrir grjóti, svo skuli síu- og styrktardúkur lagður.  Hér sé sem sagt um að ræða misræmi milli annars vegar upplýsinga og teikninga sem fylgt hafi með tilboði og hins vegar verkteikninga.  Á verkstað hafi stefndi, Maccaferri leiðbeint um enn aðra útfærslu.  Samkvæmt leiðbeiningum skyldi síudúkur og styrktardúkur lagður áður en grjótinu væri komið fyrir.  Þessi aðferð sem stefndi Maccaferri hafi leiðbeint um hafi leitt til ýmissa vandamála, eins og staðfest sé í matsgerð, t.d. hafi þurft að moka frá netgrindum að hluta til að koma grjótfyllingu fyrir á milli umvafnings og netgrinda.  Þetta hafi svo leitt til þess að umvafinn endi hafi verið of stuttur.  Virðist dúkurinn ná 40-50 cm inn í kjarnafyllinguna í staðinn fyrir tæplega 1,2 m eins og áskilið hafi verið í gögnum stefnda Maccaferri.  Matsmenn telji að vegna þessara aðferða við uppsetningu hafi komið á aukahlykkur.  Eins og matsmenn bendi á, megi ráða af myndum frá framkvæmdinni að umvafningur hafi klemmst undir grjótfyllingu þannig að varla hafi náðst að styrkja styrktardúkinn nægjanlega.

Stefnandi kveður Technical report hafa gert ráð fyrir heftilykkjum.  Við leiðbeiningar á uppsetningu virðist þáttur U-lykkjanna í þessari tengingu ekki skipta lengur máli því stefndi Maccaferri gefi á framkvæmdarstað leyfi til að sleppa þeim, sbr. fundargerð  10. og 13. júlí.  Eftir hrunið hafi stefndi Maccaferri svo lagt til í bréfi til stefnanda að U-lykkjur yrðu aftur hluti kerfisins eins og upphaflega hafi verið gert ráð fyrir, sbr. bréf, dagsett 29. september 2009. 

Stefnandi kveður teikningar stefnda Maccaferri hafa verið ónákvæmar, ekki réttar, misræmis gæti og mikilvæg atriði hafi vantað, sbr. niðurstöðu matsmanna.  Stefnandi bendi m.a. á, að vantað hafi lárétta lengd umvafnings og skeytingu styrktardúks og netgrinda.  Deili í verkteikningum hafi verið rangt en matsmenn hafi teiknað deilið sem sýnt sé á mynd 5.2 í matsgerð upp í teikniforriti eftir þeim málum sem gefin séu.  Þá komi í ljós að eigi málsetningar á teikningum stefnda, Maccaferri, að gilda sé deilið eins og sýnt sé á mynd 7.3.  Þannig hafi matsmenn komist að þeirri niðurstöðu að verkteikningar gangi ekki upp.

Stefnandi byggir á því, að ekki hafi verið gerð grein fyrir þeirri mikilvægu málsetningu, hvorki í hönnunargögnum né á teikningum, að 0,15 m bil skyldi vera á milli umvafnings og netgrindar.  Matsmenn bendi sérstaklega á þetta atriði.  Þá hafi stefndi, Maccaferri, vanrækt að leiðbeina um þetta atriði þegar hann var á verkstað við uppsetningu. 

Stefnandi byggir og á því, að stefndi Maccaferri hafi ekkert aðhafst þegar eftirlit stefnanda hafi óskað eftir því að tengijárnum yrði fjölgað úr fjórum í sex.  Stefnandi telur að stefndi Maccaferri hafi átt, sem hönnuður kerfisins, að gera sér grein fyrir að óþarfi væri að fjölga tengijárnum til að koma í veg fyrir útbungun þeirra og að líklega væri eitthvað annað að valda útbungun netgrinda.  Stefndi Maccaferri hafi því vanrækt skyldur sínar um að tryggja rétta uppsetningu. 

Í kjölfar vandræða við uppsetningu styrktarkerfisins hafi eftirlit sett fram tillögu, eftir samvinnu við stefnda Ósafl, að breyttri hönnun á framhlið styrktu fyllingarinnar.  Þessi breytta hönnun hafi verið send stefnda Maccaferri til samþykktar með tölvupósti, dagsettum 13. ágúst 2009.  Eins og fram komi í tölvupósti frá stefnda Maccaferri hafi hann samþykkt þessa nýju hönnun. 

Stefnandi byggir á því að stefndi Maccaferri hafi sýnt af sér saknæma háttsemi sem hann sé bótaskyldur fyrir með því að hafa ekki með fullnægjandi hætti farið yfir hina breyttu hönnun og gengið úr skugga um að hún uppfyllti kröfur.

Þá byggir stefnandi á því að samkvæmt samningi stefnanda og stefnda Maccaferri hafi stefnda Maccaferri borið að hanna og framleiða fullnægjandi jarðvegsstyrktarkerfi, en ekki gert það og eigi stefnandi því rétt á greiðslu skaðabóta úr hendi stefnda Maccaferri.  Jarðvegsstyrktarkerfi sem stefndi hafi hannað og afhent stefnanda hafi verið haldið galla eins og rakið hafi verið.  Stefndi Maccaferri hafi neitað að bæta úr gallanum nema á kostnað stefnanda.  Stefnandi byggir á því að þess vegna eigi stefnandi rétt á skaðabótum úr hendi stefnda Maccaferri sem nemi mismuninum á samningsfjárhæð og kostnaði við endurbætt jarðvegsstyrktarkerfi. 

Þá byggir stefnandi á því að samkvæmt lögum um lausafjárkaup nr. 50/2000, sbr. 30. og 40. gr., en samningurinn fari að íslenskum lögum, eigi stefnandi rétt á skaðabótum úr hendi stefnda Maccaferri fyrir galla á jarðverkstyrktarkerfinu enda hafi stefndi Maccaferri ekki bætt úr gallanum á eigin kostnað. 

Kröfur á hendur stefnda, Eflu hf., kveðst stefnandi byggja á samningi aðila og almennum reglum kröfuréttar um skaðabætur innan samninga. 

Stefnandi byggir á því að stefndi Efla hafi ekki innt af hendi skyldur sínar samkvæmt samningi í samræmi við kröfur, sem gera verði til sérfræðinga en í verkinu hafi falist öll nauðsynleg verkfræðileg hönnun leiði- og þvergarðs og annarra mannvirkja sem séu hluti af verkinu, sbr. grein 1.0 í verklýsingu.  Þá beri stefndi Efla ábyrgð á því að verkið, þ.m.t. jarðvegsstyrktarkerfið, væri hannað í samræmi við lög, reglugerðir, útboðsgögn og þá staðla sem um framkvæmdina gildi.  Vanefndir stefnda Eflu hafi leitt til þess að í útboðsgögnum við kaup á netgrindum hafi ekki verið gerðar fullnægjandi kröfur um styrk og burð netgrindanna.  Þessi vanræksla hafi leitt til þess að netgrindurnar, sem keyptar hafi verið af stefnda Maccaferri, hafi verið gallaðar.  Þá hafi stefndi Efla ekki uppfyllt þær skyldur, sem gera verði til stefnda sem ráðgjafa við framkvæmd verksins.  Stefnandi byggir á því að þessar vanefndir hafi leitt til þess að fjarlægja hafi þurft alla styrktu fyllinguna, sem upp hafi verið komin, og hefja verkið upp á nýtt frá grunni með endurbættu og endurhönnuðu styrktarkerfi.  Stefnandi byggir á því að stefnda Eflu beri að bæta stefnanda það tjón sem stefnandi hafi orðið fyrir við að endurbyggja verkið að þeim stað sem verkið var komið þegar hrunið hafi átt sér stað.  Stefnandi byggir m.a. á matsgerð dómkvaddra manna máli sínu til stuðnings en matsgerðinni hafi ekki verið hnekkt.   Í þessu sambandi  bendir stefnandi á, að stefnda Eflu hafi borið að tryggja að jarðvegsstyrktarkerfið sem stefnandi keypti væri hannað í samræmi við viðurkennda evrópska staðla hvað varði hönnun og efnisgæði eins og krafa hafi verið gerð um í greinum 2.1.1 og 2.1.4.1 í útboðsgögnum.  Matsmenn hafi staðfest að hönnun stefnda, Maccaferri, byggði ekki á viðurkenndum evrópskum stöðlum.  Stefndi Efla hafi tekið að sér að vinna útboðsgögnin og fara yfir þau tilboð sem bárust.  Stefnda, Eflu, beri því að ganga úr skugga um eða hefði átt að gæta að því að jarðvegsstyrktarkerfið væri hannað eftir viðurkenndum evrópskum stöðlum.  Þá hafi fulltrúi stefnda Eflu  verið sendur til Ítalíu til að fara yfir framleiðslu þeirra og skilaði minnisblaði um kerfið. 

Stefnandi byggir á því að stefndi Efla hafi átt að gera sér grein fyrir að hönnun stefnda Maccaferri hafi verið ábótavant í veigamiklum atriðum.  Eins og staðfest sé í matsgerð hafi vantað mikilvægar málsetningar á teikningar, misræmi hafi verið milli leiðbeininga, teikninga og upplýsinga sem fylgt hafi með tilboðinu, mikilvægar brotmyndir varðandi annars vegar tengingu netgrinda við jarðstyrkinguna og hins vegar útbungun þeirra hafi ekki verið skoðaðar.  Stuðningur (mót) við umvafða endann hafi verið ófullnægjandi sem leitt hafi m.a. til þess að ekki hafi verið hægt að ná fullnægjandi þjöppun, vísað til útreikninga sem aldrei hafi verið lagðir fram og óljóst hvort þeir hafi verið gerðir.  Stefnandi byggir á því að allt þetta hefði átt að leiða til þess að stefndi, Efla, hefði átt að gera sér grein fyrir því að hönnun jarðvegsstyrktarkerfisins væri ábótavant. 

Þá byggir stefnandi á því að starfsmenn stefnda Eflu hefðu sem sérfræðingar átt að gera sér grein fyrir að tillaga um nýja útfærslu sem eftirlitið hafi sett fram eftir samvinnu við stefnda Ósafl á framhlið styrktu fyllingarinnar hafi verið ófullnægjandi og hefði aldrei getað gengið. 

Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefnda Eflu jafnframt á grein 7.1.1 í ÍST-35,  en samkvæmt henni sé ráðgjafi skaðabótaskyldur gagnvart verkkaupa samkvæmt reglum íslensks skaðabótaréttar vegna mistaka eða vanrækslu af hans hálfu eða starfsmanna hans.  Varðandi mistök og vanrækslu sé vísað til þeirra atriða sem nefnd hafa verið.

Þá byggir stefnandi á grein 7.1.4 í ÍST-35, en samþykki verkkaupa á tillögum, aðgerðum og niðurstöðu leysi ráðgjafa ekki undan ábyrgð vegna áhættuatriða sem hann hefði átt að sjá að voru fyrir hendi, nema hann hafi ótvírætt vakið athygli verkkaupa á þeim.  Athygli stefnanda hafi ekki á nokkru stigi framkvæmdarinnar verið vakin á því, að áhætta væri fyrir hendi á því að útfærsla hinnar styrktu fyllingar þýddi að hún hefði ekki fullnægjandi styrk.

Stefnandi byggir á því að með vísan til alls ofangreinds beri stefnda Eflu að bæta stefnanda það tjón sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna vanefnda stefnda Eflu. 

Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á hendur stefnda Ósafli á verksamningi aðila og almennum reglum kröfuréttar um skaðabætur innan samninga.  Með verksamningnum hafi stefndi Ósafl tekið að sér að reisa snjóflóðavarnargarð og keilur fyrir ofan Bolungarvík.  Stefnandi byggir á því að Ósafl hafi ekki staðið rétt að framkvæmd verksins og þannig vanefnt skyldur sínar sem hafi valdið því að netgrindur og grjótfylling hafi hrunið með þeim afleiðingum að fjarlægja hafi þurft alla styrktu fyllinguna sem upp hafi verið komin og hefja verkið að nýju.  Stefnandi byggir á því að stefnda Ósafli beri að bæta stefnanda það tjón sem stefnandi hafi orðið fyrir við að endurbyggja verkið að þeim stað sem verkið hafi verið komið þegar hrunið átti sér stað.  Stefnandi byggir á því að gallar hafi verið í framkvæmd stefnda Ósafls á verkinu og að þeir gallar hafi verið staðfestir í matsgerð en þeirri matsgerð hafi ekki verið hnekkt.  Þannig hafi stefndi Ósafl m.a. vanefnt skyldur sínar samkvæmt grein 19.1 og 20.1 í ÍST 30:2003, og grein 0.8.2 í útboðsögnum, en stefndi Ósafl hafi ekki unnið verkið í samræmi við það sem kveðið hafi verið á um í verksamningi og vinna stefnda ekki verið vönduð eða fagmannlega unnin.  Í þessu sambandi bendi stefnandi á, að í grein 1.4.1 í útboðsgögnum sem hafi verið hluti af verksamningi stefnanda og stefnda Ósafls, sé kveðið á um að verktaki skuli taka sýni af því efni sem fyrirhugað sé að nota í kjarna garðs og í keilur.  Gerð sé krafa um að verktaki skuli framkvæma Standard Proctor próf á kjarnaefninu til að finna út hvaða rakastig sé hagstæðast til þjöppunar.  Eins og  staðfest sé af dómkvöddum matsmönnum, sbr. kafli 6.3.3 í matsgerð, hafi stefndi Ósafl engar prófanir gert á fyllingarefnum þrátt fyrir skýr ákvæði um slíkt í verklýsingu.  Í grein 1.4.5 í útboðsgögnum sem hafi verið hluti af verksamningi stefnanda og stefnda Ósafls sé kveðið á um að verktaki skuli annast alla vinnslu og flokkun efnisins sem nauðsynleg sé til að efnið uppfylli kröfur sem til þess séu gerðar.  Í greininni sé skilyrt að kornadreifing skuli falla innan tiltekinna marka.  Eins og staðfest sé í matsgerð dómkvaddra matsmanna hafi stefndi Ósafl vanefnt að tryggja að fylling í kjarna uppfyllti þessar kröfur.  Í vettvangsferð í maí 2010 hafi matsmenn mælt þversnið steina sem legið hafi inni í umvafningi við enda styrktardúksins.  Þá hafi steinar mælst með þvermál allt að 40 cm en hafi mest mátt vera 25 cm.  Þá staðfesti niðurstöður rannsókna sem unnar hafi verið að beiðni matsmanna á kornastærð að kornakúrfur úr umvafningi á hrunsvæði hafi verið út fyrir leyfileg mörk samkvæmt grein 1.4.5 í útboðsgögnum.  Matsmenn hafi komist að þeirri niðurstöðu að þetta leiddi til þess að gróft efni safnist fram í tána og því hafi þjöppun ekki verið sem skyldi við umvafða endann og fram hafi komið þrýstingur frá styrktu fyllingunni á netgrindur.

Stefnandi byggir á því að stefndi Ósafl hafi átt að tryggja við framkvæmd verksins að jarðvegsstyrktardúkur næði nógu langt inn í kjarnann en sú vanefnd hafi leitt til þess að jarðvegsþrýstingur færðist yfir á netgrindur. 

Þá byggir stefnandi á því að stefndi Ósafl hafi ekki náð tökum á uppsetningu á styrktarkerfinu sem hafi leitt til þess að tilraunir hafi verið gerðar eftir 6. ágúst 2009 með mismunandi aðferðir við fyllingar að netgrindum til að aðstoða stefnda Ósafl við að ná tökum á verkinu.  Þetta hafi matsmenn staðfest í matsgerð sinni.

Í matsgerð sé það staðfest að gróft efni hafi safnast fram í tána sem hafi leitt til þess að þjöppun hafi ekki verið sem skyldi á svæðinu við umvafða endann og fram hafi komið þrýstingur frá styrktu fyllingunni á netgrindur.  Hér hafi verið um að ræða handvömm stefnda Ósafls, sem, ásamt öðru, hafi leitt til þess að snjóflóðavarnargarðurinn hafi hrunið.

Stefnandi byggir og á því, að stefnda Ósafli hafi borið í samræmi grein 14.4 í ÍST 30:2003, að vekja athygli á því ósamræmi sem hafi verið í teikningum og leiðbeiningum stefnda Maccaferri og borið að leita úrskurðar stefnanda um málið.  Stefndi Ósafl ber því ábyrgð á að hafa unnið verkið áfram án þess að starfsmönnum þess væri nægilega ljóst hvernig uppsetning styrktu netgrindanna ætti að vera. 

Einnig byggir stefnandi á því að samkvæmt grein 17.9 í ÍST 30:2003, hafi stefndi Ósafl borið ábyrgð á því verklagi og því vinnulagi sem viðhaft hafi verið við uppsetningu á styrktu netgrindunum.  Eftirlit stefnanda með verkinu eða aðkoma að því að breyta verklagi við uppsetningu á netgrindum leysi stefnda Ósafl ekki undan þeirri ábyrgð sem á honum hvíli að vinna verkið rétt og á eigin ábyrgð. 

Stefnandi byggir og á því, að stefndi Ósafl hafi brotið gegn grein 20.8 og 21.2 í ÍST 30:2003, með því að láta hjá líða að vekja athygli stefnanda á því að netgrindurnar sem stefnandi útvegaði til verksins frá stefnda Maccaferri hafi ekki verið fullnægjandi.  Stefnandi byggir á því að stefndi Ósafl hafi vitað eða mátt vera það ljóst að efnið væri ekki fullnægjandi þar sem hönnunin væri ekki rétt.  Byggt sé á því að stefndi Ósafl beri ábyrgð á því að haldið hafi verið áfram með verkið þar til netgrindurnar hrundu en stefndi Ósafl hafi vanefnt skyldur sínar samkvæmt verksamningi að vekja athygli á þessu.  Stefndi Ósafl beri því ábyrgð á því tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna þess að netgrindur og grjótfylling hrundu með þeim afleiðingum að fjarlægja hafi þurft alla styrkta fyllinguna sem upp var komin og hefja verkið að nýju. 

Þá byggir stefnandi á því að stefndi Ósafl hafi brotið gegn grein 20.10 i ÍST 30:2003, með því að hafa ekki gert athugasemdir við leiðbeiningar eða verklýsingar frá stefnanda Maccaferri, hafi hann talað þær rangar.  Þar sem stefndi Ósafl hafi ekki gert það beri hann ábyrgð á að hafa framkvæmt verkið á grundvelli gallaðrar hönnunar og verklýsinga.

Stefnandi byggir á því, með vísan til alls ofangreinds, að stefnda Ósafli beri að bæta stefnanda það tjón sem hann hafi orðið fyrir vegna vanefnda stefnda Ósafls. 

Stefndu Marti Contractors Ltd. og Íslenskum aðalverktökum hf. sé jafnframt stefnt sem eigendum stefnda Ósafls, en samkvæmt lögum um sameignarfélög  nr. 59/2007, sbr. m.a. 2. gr. bera félagsmenn óskipta og ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félagsins.  Krafa gegn þeim byggi á sömu málsástæðum og krafan á hendur stefnda Ósafli. 

Matsmenn hafi komist að þeirri niðurstöðu að upphafleg hönnun stefnda Maccaferri hefði aldrei staðist, sbr. m.a. að í viðauka 4 í matsgerð, sé gerð grein fyrir galla í útreikningum stefnda Maccaferri á stöðugleika netgrinda og hafi stefndi Maccaferri, að mati matsmanna, hvorki sýnt fram á fullnægjandi stöðugleika netgrinda né fullnægjandi tengingu netgrinda við styrktu fyllinguna.  Öryggi netgrinda í hönnun Maccaferri sé ófullnægjandi að mati matsmanna. 

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglu samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og greiðsluskyldu á lögmætum peningakröfum en regla þessi fái m.a. stoð í lögum um lausafjárkaup nr. 50/2000 og samningalögum nr. 7/1936.  Þá vísar stefnandi til 17. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 við mat á því hvenær verk sé gallað, og til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um skaðabætur innan samninga.

Um vanefndaheimildir kaupanda vegna galla á verki vísar stefnandi til almennra reglna kröfu-, samninga- og skaðabótaréttar sem og laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, sbr. m.a. 30., 34. og 40. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000.  Þá vísar stefnandi til laga um sameignarfélög nr. 50/2007 varðandi ábyrgð félagsmanna á skuldbindingum sameignarfélags, sbr. m.a. 2. gr.

Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á 3. mgr. 5. og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 36/2001 um vexti og verðtryggingu.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 129. og 130 gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Stefndu Ósafl sf., Marti Contractors Limited, og Íslenskir aðalverktakar hf., byggja frávísunarkröfu sína á því í fyrsta lagi, að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi ekki lögsögu til að leysa úr máli stefnanda gegn stefndu.  Í 5. gr. verksamnings stefnanda og stefnda Ósafls frá 24. júní 2008 segi: „Rísi mál út af samningi þessum skal það rekið fyrir Héraðsdómi Vestfjarða.“ Samkvæmt þessu, sbr. 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991, hafi stefnanda borið að höfða mál sitt á hendur stefnda Ósafli sf. fyrir Héraðsdómi Vestfjarða.  Að þessu virtu beri, samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991, að vísa málinu gegn stefndu frá dómi.

Í öðru lagi byggja stefndu frávísunarkröfu sína á því að stefna í málinu uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar séu í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Nánar tiltekið telja stefndu að í stefnu sé ekki greint svo glöggt sem verða megi dómkröfur stefnanda og þær málsástæður sem stefnandi byggi málsókn sína á, sbr. d- og e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.  Stefndu telja slíkt ósamræmi milli dómkrafna og málsástæðna stefnanda að stefndu geti ekki tekið til varna í málinu svo sanngjarnt þyki.

Í dómkröfum sé byggt á því að stefndu beri ábyrgð á tjóni stefnanda óskipt með Maccaferri og Eflu hf.  Í stefnu sé á hinn bóginn á engan hátt rökstutt hvernig þessi skylda geti hvílt óskipt á Ósafli sf., Maccaferri og Eflu hf. í skilningi 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Þvert á móti virðist stefnandi byggja á málsástæðum sem séu ósamrýmanlegar því að tjónið hvíli óskipt á framangreindum aðilum, sbr. umfjöllun um varakröfu.  Stefnandi geri ekki tilraun til þess í stefnu að rökstyðja hvaða háttsemi stefnda Ósafls sf. hafi átti í heildartjóni stefnanda.  Þá vísi stefnandi ekki til lagaákvæða sem varpað gætu ljósi á þetta ósamræmi í málatilbúnaði stefnanda.

Í samræmi við framangreint byggja stefndu í þriðja lagi á því að skilyrði samaðildar, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991, séu ekki uppfyllt í málinu.  Þar sem stefnandi byggi málið á þremur mismunandi samningum og leitist ekki við að rökstyðja óskipta ábyrgð allra stefndu, hefði stefnanda verið nær að nýta sér heimild til að viðhafa aðilasamlag og gera sjálfstæða kröfu á hendur hverjum stefnda fyrir sig.  Það hafi stefnandi ekki gert og beri því óhjákvæmilega að vísa málinu frá dómi. 

Byggt sé á því að allt framangreint leiði til þess að einnig beri að vísa frá máli stefnanda á hendur stefndu Marti Contractors Limited og Íslenskra aðalverktaka hf., enda sé mál stefnanda á hendur þeim algjörlega háð máli stefnanda á hendur Ósafli.  Þannig séu engin skilyrði til að stefna þessum aðilum sameiginlega með stefndu Maccaferri og Eflu hf. án aðildar Ósafls sf. 

Kröfu um frávísun byggir stefndi á lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 129-131. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V

Stefnda, Efla hf., byggir kröfu sína um frávísun á því að slíkir annmarkar séu á málatilbúnaði stefnanda að vísa beri málinu frá dómi.  Málatilbúnaður stefnanda byggi á því að stefndu beri að bæta stefnanda það tjón sem stefnandi hafi orðið fyrir, en um umfang tjónsins er vísað til matsgerðar dómkvaddrar matsmanna.  Í stefnu segi m.a. svo á bls. 6 um kröfu stefnanda:

„Stefnandi gerir í fyrsta lagi kröfu á hendur öllum stefndu um að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda „in solidum“ 43.937.250 kr. Fjárhæðin nemur því tjóni sem stefnandi varð fyrir við að endurbyggja verkið að þeim stað, sem verkið var komið, þegar hrunið átti sér stað. Matsgerðin sbr. dskj. nr. 17 liggur til grundvallar kröfugerð stefnanda.“

Þá segir svohljóðandi á bls. 11 í stefnu: „Stefnandi byggir á því að stefnda Eflu beri að bæta stefnanda það tjón sem stefnandi hefur orðið fyrir við að endurbyggja verkið að þeim stað sem verkið var komið þegar hrunið átti sér stað. Stefnandi byggir m.a. á matsgerð dómkvaddra manna máli sínu til stuðnings, en matsgerðinni hefur ekki verið hnekkt, sbr. dskj. nr. 17.“

Af framangreindu sé ljóst að stefnandi byggi á niðurstöðum matsgerðar varðandi umfang tjónsins og fjárhæð kröfu sinnar.  Stefndi telur að matsgerð dómkvaddra matsmanna endurspegli á engan hátt það tjón sem stefnandi hafi raunverulega orðið fyrir og matsgerðin geti ekki talist fullnægjandi grundvöllur fyrir fjárhæð kröfu stefnanda miðað við atvik máls. Ljóst sé að þegar hafi verið ráðist í að endurbyggja styrktarkerfið, en um sé að ræða útfærslu sem unnin hafi verið að ósk stefnanda af Einari Magnúsi Júlíussyni hjá Mannviti hf., Jóni Skúla Indriðasyni jarðverkfræðingi hjá stefnda og fulltrúa stefnda Maccaferri.  Vinna við hönnun hafi hafist í febrúar 2010 og verið lokið í júní sama ár.  Framkvæmdir við verkið með breyttri aðferð hafi síðan hafist í byrjun júlí árið 2010, eða áður en matsmenn hafi skilað niðurstöðum sínum í desember 2010.  Ekki hafi komið upp nein vandamál við þessa útfærslu, sem sé ekkert í líkingu við tillögu matsmanna.  Þessi útfærsla hafi falið í sér að bætt hafi verið við einu kompónenti við fyrri lausn, sbr. verklýsing endurhönnunar frá 12. maí 2010.  Þá hafi verið farið í að skipta fyllingarlögunum og nota unnið fyllingarefni næst frambrún garðsins en telja verði líklegt að það hefði líka þurft að gera við þá lausn sem hrundi.  Stefndi telur að kostnaðaraukinn sem hafi hlotist af því að endurbyggja styrktarkerfið með þessari útfærslu sé það rauntjón sem stefnandi hafi orðið fyrir að teknu tilliti til hækkunar á upphaflegu einingarverði samnings.  Það eitt geti verið grundvöllur fjárkröfu stefnanda í málinu á hendur þeim sem ábyrgð kunni að bera miðað við reglur kröfu- og skaðabótaréttar um umfang og ákvörðun skaðabóta.  Engin gögn hafi hins vegar verið lögð fram um rauntjón stefnanda í málinu, enda hafi stefnandi kosið að byggja kröfugerð sína einvörðungu á matsgerð.  Stefndi telur að stefnanda hafi verið í lófa lagið að haga málatilbúnaði með þeim hætti að fjárhæð kröfugerðar endurspeglaði rauntjón, enda hafi það legið strax fyrir vorið 2010, eða um það leyti sem lögð hafi verið fram matsbeiðni í málinu, að styrktarkerfið yrði endurbyggt með ákveðnum hætti.  Þá hafi framkvæmdum lokið sumarið 2012, eða áður en mál þetta hafi verið höfðað. 

Með vísan til framangreinds byggir stefndi á því að fjárkrafa stefnanda sé svo vanreifuð að vísa beri málinu frá dómi á grundvelli d- og e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og meginreglna einkamálaréttarfars.       

VI

Stefndi,  Officine Maccaferri S.p.A., byggir kröfu um frávísun málsins einkum á því, að ekki hafi verið samið sérstaklega um varnarþing á Íslandi og varnarþing stefnda sé því á Ítalíu.  Hafi íslenskir dómstólar því ekki lögsögu í ágreiningsmáli stefnanda og stefnda og þar með eigi að vísa málinu á hendur stefnda frá dómi.

Ítölsk lög en ekki íslensk eigi við um samningssamband stefnda og stefnanda. Stefnandi hafi ekki gert neinn reka að því að sýna fram á ábyrgð stefnda samkvæmt ítölskum lögum og teljist stefnan því verulega vanreifuð og beri því að vísa málinu á hendur stefnda frá dómi.

Stefnan sé að öðru leyti verulega vanreifuð og beri því að vísa málinu frá dómi.

Stefndi Maccaferri byggir frávísunarkröfu sína á því, að íslenskir dómstólar hafi ekki lögsögu í ágreiningi stefnanda og stefnda.  Enginn skriflegur samningur sé í gildi.  Stefndi telur ljóst, þvert á það sem fram komi í stefnu, að enginn skriflegur samningur hafi verið í gildi milli stefnanda og stefnda um verkið sem stefndi hafi tekið að sér að vinna fyrir stefnanda.  Í skjölum málsins sé að finna óundirritaðan verksamning sem stefnandi hafi sett upp með nafni stefnda, án nokkurrar aðkomu stefnda.  Stefnandi byggir málatilbúnað sinn í stefnu m.a. á þessum verksamningi en stefndi mótmælir því alfarið að þessi verksamningur hafi nokkurn tímann tekið gildi, enda aldrei undirritaður, hvorki af hálfu stefnanda né stefnda. Mótmælir stefndi því þar með að verksamningurinn verði lagður til grundvallar samningssambandi hans og stefnanda.  Einungis hafi verið um munnlegt samkomulag að ræða og hafnar stefndi því alfarið öllum tilvísunum stefnanda í útboðslýsingu og verksamning um önnur atriði en tæknileg atriði nauðsynleg til hönnunar og framleiðslu umrædds jarðvegsstyrktarkerfis.   Svar við tilboði stefnda hefði þurft að berast fyrir 25. febrúar 2009 til að samningur kæmist á milli aðila á grundvelli tilboðsins.  Svar hafi hins vegar ekki borist fyrr en 2. mars 2009.  Í útboðslýsingu sé kveðið á um lögsögu íslenskra dómstóla og að íslensk lög eigi við um samningssamband milli endanlegra aðila að útboðinu.  Stefnandi byggir á því í stefnu sinni, að stefndi hafi unnið verkið á grundvelli framangreindra útboðslýsingar þegar raunin sé sú að stefndi hafi ekki fengið svar við tilboðinu sínu innan tímafrestsins sem kveðið sé á um í útboðslýsingunni.  Stefndi hafi þannig aldrei samþykkt skilmála útboðslýsingarinnar eftir að tilboð hans hafi runnið út og mótmælir því alfarið að skilmálar útboðslýsingarinnar gildi um samningssamband hans við stefnanda.  Stefndi hafnar þar með tilvísunum stefnanda í skilmála útboðsins eins og þeir komi fram í útboðslýsingu, og telur þvert á móti ítalska dómstóla hafa lögsögu í ágreiningi milli stefnda og stefnanda auk þess sem hann telur íslensk lög ekki gilda um úrlausn ágreiningsins.

Þessu til stuðnings vísar stefndi til þess að um samþykki tilboðs á sviði verktakaréttar gildi almennar reglur samningaréttar.  Samkvæmt 2. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, gildi sú regla að hafi tilboðsgjafi krafist svars innan ákveðins frests, verði svar, samþykki tilboðsins, að vera komið til hans áður en sá frestur sé liðinn. Samkvæmt 4. gr. samningalaga skuli skoða of seint fram komið samþykki sem nýtt tilboð. Tilboðið sem stefndi hafi sent til Ríkiskaupa hafi ekki verið samþykkt innan þess frests sem kveðið sé á um í útboðslýsingu og tilboðið vísi til, þar með telur stefndi tilboð sitt  hafa fallið niður við lok frestsins eða hinn 25. febrúar 2009.  Með hinu of seint fram komna samþykki hafi hins vegar stofnast samningssamband milli aðila sem byggi á almennum meginreglum sem gildi um varnarþing aðila og fram komi í Lúganósamningnum, auk almennra meginreglna á sviði lagaskilaréttar. 

Stefndi kveður, að um tæknileg atriði er varði framleiðslu og hönnun jarðvegsstyrktarkerfisins hafi stefndi, eðli málsins samkvæmt, orðið að byggja á þeim upplýsingum sem stefndi hafi haft undir höndum á þeim tíma er hann hafi hafið verkið.  Þá vísar stefndi einnig til þess sem segi í 2. mgr. 76. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, en þar segi að samþykkja skuli tilboð endanlega með skriflegum hætti innan gildistíma þess og sé þá kominn á bindandi samningur á grundvelli útboðsgagna og tilboði bjóðanda.  Slíku hafi hins vegar ekki verið fyrir að fara í máli þessu.

Stefndi kveðst mótmæla öllum tilvísunum stefnanda í stefnu, þar sem byggt sé á skilmálum verksamningsins og vísar til þess að enginn skriflegur samningur hafi verið til grundvallar við framkvæmd verksins, eins og áskilið sé í 2. mgr. 76. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, og venjubundið sé á sviði verktakaréttar.  Enn fremur bendir stefndi á að í athugasemdum með 2. mgr. 76. gr. í frumvarpi til laga nr. 84/2007 komi skýrlega fram að verksamningur sé talinn hinn endanlegi samningur, geri útboðsgögn á annað borð ráð fyrir slíkum samningi.  Í þessu máli hafi verið gert ráð fyrir slíkum samningi sem þó hafi aldrei verið undirritaður, hvorki af hálfu stefnanda né stefnda.

Stefndi telur þannig ljóst að ekki hafi verið samið sérstaklega um grundvöll samningssambands aðila, varnarþing eða hvaða lög giltu um réttarsambandið.

Í þessu sambandi bendir stefndi jafnframt á að stefndi Ósafl sf. hafi á hinn bóginn fengið skriflegt svar við sínu tilboði innan þess tímafrests sem kveðið hafi verið á um í skilmálum útboðs nr. 14474.  Jafnframt hafi verksamningur sem fram komi í viðauka við skilmála þess útboðs verið undirritaður milli beggja aðila.  Því sé um að ræða reginmun á grundvelli réttarsambands stefnda Ósafls við stefnanda og á stefnda og stefnanda, þar sem skilyrðum laga um opinber innkaup nr. 84/2007, um endanlegt samþykki tilboðs, sé fullnægt í tilviki stefnda Ósafls en ekki í tilviki stefnda og stefnanda.

Lúganósamningnum um dómsvald og fullnustu dóma í einkamálum hafi verið veitt lagagildi hér á landi með lögum nr. 7/2011 og hafi samningurinn verið fullgiltur af Íslands hálfu hinn 1. maí 2011.  Samningurinn hafi tekið gildi í aðildarríkjum Evrópusambandsins 1. janúar 2010 og hafi hann því einnig fengið lagagildi á Ítalíu.  Gildissvið Lúganósamningsins nái til einkamála án tillits til þess hvaða dómstóll fari með málið, sbr. 1. gr. hans.

Almenn ákvæði um varnarþing sé að finna í 1. kafla Lúganósamningsins, en samkvæmt 2. gr. samningsins skuli lögsækja menn, sem eigi heimili í ríki, sem sé bundið af samningnum, fyrir dómstólum í því ríki, hvert sem ríkisfang þeirra sé.  Þar sem lög nr. 50/2000, um lausafjárkaup, verði ekki talin eiga við um samningssamband stefnda og stefnanda, telur stefndi undantekningar þær sem getið sé um í 2. – 7. kafla Lúganósamningsins ekki eiga við um úrlausn ágreinings í þessu máli.  Stefndi telur því að um varnarþing stefnda gildi ákvæði 2. gr. Lúganósamningsins þar sem aðilar hafi ekki samið sérstaklega um varnarþing.

Í ljósi framangreinds byggir stefndi á því að stefnanda beri að leita réttar síns gagnvart stefnda á Ítalíu, sakir þess að heimili stefnda sé á Ítalíu, ríkis sem sé bundið af Lúganósamningnum.  Eigi íslenskir dómstólar því ekki lögsögu í máli þessu og beri því að vísa málinu frá dómi.

Líkt og að framan greini hafi enginn skriflegur samningur legið fyrir um samningssamband stefnda og stefnanda.  Þrátt fyrir það leggi stefnandi íslensk lög til grundvallar dómkröfu sinni í stefnu.  Stefndi mótmælir því að íslensk lög eigi við um samningssamband þeirra þar sem aðilar hafi aldrei samið sérstaklega um lagaval.  Stefndi vísar til 4. gr. laga nr. 43/2000, um lagaskil á sviði samningaréttar, til stuðnings þess að íslensk lög eigi ekki við um samningssambandið.  Lögin séu grundvölluð á svokölluðum Rómarsamningi sem undirritaður hafi verið 19. júní 1980 og Ítalía hafi fullgilt af sinni hálfu.

Í fyrrgreindu lagaákvæði sé fjallað um hvaða lög gildi þegar ekki hafi verið samið sérstaklega um lagaval.  Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna skuli í slíkum tilvikum beita lögum þess lands sem samningur hafi sterkust tengsl við.  Í 2. mgr. 4. gr. sömu laga sé jafnframt útskýrt hvað átt sé við með orðalaginu „hefur sterkust tengsl við“, en þar segi að samningur hafi sterkust tengsl við það land, þar sem sá aðili, sem efna eigi aðalskyldu samningsins, búi við samningsgerðina og þegar um sé að ræða fyrirtæki, félag eða aðra lögpersónu skuli að jafnaði litið svo á að samningur hafi sterkust tengsl við það land þar sem sá sem aðalskylduna beri hafi aðalstarfsstöð sína.  Stefndi telur augljóst að hann hafi borið aðalskyldu í samningssambandi stefnda og stefnanda sem hafi verið hönnun og smíði þess kerfis sem lagt hafi verið til af hálfu stefnda.  Vegna þessa gildi lög þess lands þar sem stefndi hefur aðalstarfsstöð sína, þ.e. ítölsk lög.

Stefndi byggir á því að ljóst sé að íslensk lög gildi ekki um samninginn hvort sem litið sé til efnisákvæða laga nr. 43/2000, um lagaskil á sviði samningaréttar, eða Rómarsamningsins.  Fari stefndi því fram á að málinu verði vísað frá dómi, þar sem stefna stefnanda verði að teljast verulega vanreifuð af hálfu stefnanda með vísan til e- og f- liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.   Stefndi ítrekar að honum sé með öllu ófært að halda uppi vörnum, verði fallist á það með stefnda að íslensk lög gildi ekki um samningssambandið.

Stefndi byggir einnig á því að skilyrði e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, séu ekki uppfyllt.  Málsástæður og málsatvikalýsing renni saman í eitt í stefnu og sé stefnda þar með ómögulegt að átta sig á málatilbúnaði stefnanda.  Til dæmis sé í málsástæðnakafla stefnu hvergi vikið að meintu tjóni stefnanda, hvergi sé grein gerð fyrir þeirri fjárhæð sem stefnandi krefjist greiðslu á, hvernig hún sundurliðist, hverjar forsendur séu að baki þeirri fjárhæð o.s.frv.  Verður að telja það óviðunandi að geta þessa atriðis einungis í málsatvikalýsingu með almennum hætti og vísa þar til matsgerðar, sem meðal annars sé að þessu leyti verulega áfátt.

Stefndi bendir jafnframt á að stefnandi geri hvorki reka að því að reifa með nokkrum hætti né rökstyðja skiptingu krafna sinna á hendur stefnda og meðstefndu í stefnu.  Stefnda sé því með öllu ómögulegt að átta sig á grundvelli hvorrar kröfufjárhæðar um sig og sé sá galli á málatilbúnaði og kröfugerð stefnanda þess eðlis að ekki verði bætt úr undir rekstri málsins svo stefndi geti varið sig sig með eðlilegum og sanngjörnum hætti.  Þannig tilgreini stefnandi til að mynda ekki á nokkurn hátt hvaða hluti meints tjóns stefnanda beinist að öllum stefndu í málinu in solidum.  Hvað varði kröfugerð stefnanda sem beinist einungis að stefnda bendir stefndi meðal annars á að stefnandi virðist byggja þá kröfugerð að einhverju leyti á því að starfsmaður stefnda hafi samþykkt breytta hönnun en stefnandi taki þó ekki tillit til þess að stefnandi sjálfur og stefndi Ósafl hafi hafist handa við byggingu varnargarðsins eftir hinni breyttu hönnun nokkru áður, án þess að bíða svara stefnda.  Leiði þetta til þess að kröfugerð gagnvart stefnda sé að þessu leyti óljós og vanreifuð.

Þessu til viðbótar geri stefnandi hvergi neinn reka að því að sýna fram á meint tjón sitt, heldur sé einungis miðað við áætlað tjón samkvæmt hinni gölluðu matsgerð, sbr. kafla 10 „Kostnaðarmat“.  Þannig kjósi stefnandi að telja meint tjón sitt nema ákveðinni áætlaðri fjárhæð sem einungis sé byggð á óljósu mati hinna dómkvöddu matsmanna án þess að gera grein fyrir nokkrum forsendum, útreikningum eða reikningum sem liggja ættu að baki meintu tjóni.  Telur stefndi rétt að benda á að í  matsgerðinni séu mjög takmarkaðar forsendur fyrir útreikningum matsmanna og sé stefnda því ómögulegt að átta sig á forsendum kröfugerðar stefnanda, hvað þá að halda uppi vörnum þar að lútandi.

Stefndi bendir auk þess á að svo virðist sem stefnandi breyti málsgrundvelli sínum neðst á bls. 10 og efst á bls. 11 í stefnu, þar sem stefnandi segist skyndilega byggja á því að vegna tiltekinna atvika „eigi stefnandi rétt á skaðabótum úr hendi stefnda Maccaferri sem nemur mismuni á samningsfjárhæð og kostnaði við endurbætt jarðvegsstyrktarkerfi.“ Stefndi telur málsástæðu þessa ekki til samræmis við kröfugerð stefnanda og málsástæður sem byggi að öllu leyti á áætluðu meintu tjóni stefnda samkvæmt óljósri áætlun hinna dómkvöddu matsmanna.  Stefndi telur að grundvöllur máls verði frá upphafi málsmeðferðar að vera skýrt og greinilega markaður svo að stefnda gefist kostur á að bregðast við málsókninni með málefnalegum hætti.  Sú sé ekki raunin í máli þessu og bendir stefndi á að við þingfestingu málsins hafi endurbyggingu umræddra snjóflóðavarnargarða verið lokið.  Stefnanda hafi því væntanlega verið ljóst hver raunverulegur kostnaður hafi verið af byggingu snjóflóðavarnagarðanna, hvort sem litið sé til þess varnargarðs sem stefnandi hafi upp á sitt eindæmi ákveðið að rífa niður, gegn tilmælum stefnda, eða þess varnargarðs er byggður hafi verið með breyttri lausn eftir hrun á hluta hins fyrri.  Hefði stefnandi ætlað sér að byggja á framangreindri málsástæðu hefði stefnanda verið í lófa lagið að sýna fram á meint tjón sitt með framlagningu gagna sem endurspegli raunverulegan kostnað stefnanda þar að lútandi. Hafi stefnandi þannig ekki lagt fram nein gögn er sýni raunverulegt tjón hans og af framlögðum skjölum málsins verði hvorki séð hverju það kunni að nema né hvort um raunverulegt tjón sé að ræða.  Verði stefnandi því að bera hallann af óskýrleika kröfugerðar sinnar og málatilbúnaði að þessu leyti.

Stefndi telur, að enda þótt stefnandi vísi með beinum hætti til ákveðinna atriða matsgerðar dómkvaddra matsmanna í stefnu þá geri almenn skírskotun stefnanda á bls. 7 og bls. 9 í stefnu til matsgerðar hinnar dómkvöddu matsmanna það algerlega ómögulegt fyrir hann að átta sig á því á hverju stefnandi raunverulega byggi, umfram þau atriði sem sérstaklega séu tilgreind í stefnu.  Stefnda sé því með öllu ómögulegt að átta sig frekar á málatilbúnaði stefnanda að þessu leyti.  Verði að telja slíkt verulegan annmarka á málatilbúnaði stefnanda sem stefnandi verði að bera hallann af.

Stefndi bendir á að samkvæmt e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, skuli í stefnu greina svo glöggt sem verða má málsástæður sem stefnandi byggi málsókn sína á, svo og önnur atvik sem greina þurfi til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst, en þessi lýsing skuli vera gagnorð og skýr þannig að ekki fari milli mála hvert sakarefnið sé.  Í ljósi framangreinds telur stefndi að stefnandi hafi ekki lagt þann grundvöll að málsókn á hendur stefnda sem áskilinn sé í e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og því beri að vísa málinu frá dómi.

Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, laga nr. 7/2011, um Lúganósamninginn, laga nr. 43/2000, um lagaskil á sviði samningaréttar, laga nr. 50/2000, um lausafjárkaup, laga nr. 3/2001, um vexti og verðtryggingu, meginreglna kröfu- og samningaréttar, meginreglna verktakaréttar og meginreglna íslensks skaðabótaréttar.

Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefndi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

VII

                Með málssókn þessari krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmdir óskipt til að greiða honum skaðabætur vegna tjóns, sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna vanefnda stefndu við uppsetningu og hönnun snjóflóðavarnargarða undir Traðarhyrnu í Bolungarvík.

Stefnda, Efla hf., tók að sér hönnun varnargarðanna, stefndi, Ósafl sf., tók að sér gerð þeirra, og stefndi, Offficine Maccaferri, sá um hönnun og framleiðslu netgrinda og jarðvegsstyrktarkerfis.  Gerir stefnandi annars vegar kröfu um að stefndu verði dæmdir óskipt til greiðslu skaðabóta, að fjárhæð 43.937.250 krónur, og hins vegar að stefndi, Officine Maccaferri S.p.A. verði dæmdur til greiðslu 103.230.000 króna.  Byggir stefnandi kröfu sína á hendur stefndu á framlagðri matsgerð.  Í stefnu er hin óskipta krafa á hendur stefndu sögð nema því tjóni, sem stefnandi hafi orðið fyrir við að endurbyggja verkið að þeim stað, sem það hafi verið komið í, er hrun hafi orðið og skiptist í gröft og fyllingu, netgrindur og efniskostnað.  Byggi fjárhæðin á mati dómkvaddra matsmanna.  Krafan á hendur stefnda Maccaferri er sögð vera vegna efniskostnaðar í jarðvegsstyrktarkerfi, án virðisaukaskatts, þ.e. aukinn efniskostnaður að frádreginni upphaflegri samningsfjárhæð.  Fjárhæðin sé einnig í samræmi við mat dómkvaddra matsmanna, sem komist hafi að þeirri niðurstöðu að margt hafi verið athugavert við framkvæmdina.  Í stefnu hefur stefnandi þó ekki leitast við að skýra frekar en hér segir hvernig fjárhæð kröfunnar er fundin út.

                Stefndu hafa krafist frávísunar málsins.  Byggja þeir frávísunarkröfu sína allir á því að málið sé vanreifað og ósamræmi sé á milli dómkrafna og málsástæðna stefnanda og matsgerðin endurspegli ekki raunverulegt tjón stefnanda.  Þá byggja stefndu, Ósafl sf., Íslenskir aðalverktakar hf. og Marti Contractors Ltd., einnig á því að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi ekki lögsögu í málinu, sem og að ekki séu til staðar skilyrði samaðildar, samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991.  Stefndi, Officine Maccaferri S.p.A., byggir frávísunarkröfu sína einnig á því að málið sé höfðað fyrir röngu varnarþingi og ítölsk lög eigi við um sakarefnið.

                Fyrir liggur og óumdeilt er að endurbygging umrædds varnargarðs var lokið er mál þetta var höfðað.  Hins vegar liggur ekkert fyrir í málinu um kostnað stefnanda af þeirri framkvæmd, sem hann þó telur vera tjón sitt.  Hefði stefnandi þar með, bæði með gögnum sem og í stefnu, getað sundurliðað og gert nákvæma grein fyrir því tjóni sem hann hefur orðið fyrir vegna endurbyggingarinnar og þar með sýnt fram á raunverulegt tjón sitt.  Eins og krafan er sett fram verður að fallast á það með stefndu að ógerningur sé að átta sig á því hver kostnaður við endurbyggingu fram að hruni sé eða hvernig hann sé fundinn út.  

Skaðabótakröfu sína kveðst stefnandi m.a. byggja á samningum sem hann hafi gert við hvern og einn stefndu, um þátt þeirra í byggingu umrædds varnargarðs, sem stefndu hafi vanefnt.  Hins vegar er ekki í stefnu gerð grein fyrir grundvelli þess að þeim er stefnt til óskiptrar greiðslu eða hvers vegna krafan sé gerð með þeim hætti sem gert er.

Þá hafa stefndu Maccaferri og Ósafl sf. krafist frávísunar þar sem málið hafi verið höfðað fyrir röngu varnarþingi.  Vísar stefndi, Ósafl sf., til þess að samið hafi verið um varnarþing í samræmi við 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991, á þann veg að ágreining vegna samnings aðila skyldi reka fyrir Héraðsdómi Vestfjarða.  Stefnandi mótmælir frávísun með þeim rökum að krafa á hendur stefndu sé óskipt og því geti hann valið varnarþing einhvers stefndu.  Óumdeilt er að í samningi aðila var samið um varnarþing, en þar segir: „Rísi mál út af samningi þessum skal það rekið fyrir Héraðsdómi Vestfjarða.“  Orðalag þetta er skýrt.  Samkvæmt því er um gagnkvæmt og bindandi ákvæði að ræða.  Verður því að fallast á það með stefnda að stefnandi sé bundinn samkvæmt þessu ákvæði samningsins.  Þá liggur ekki fyrir í málinu undirritaður samningur við stefnda Maccaferri.  Hefur stefnandi á engan hátt í stefnu gert grein fyrir heimild sinni til að höfða mál á hendur þeim stefnda fyrir íslenskum dómstól.

Þegar framangreint er virt þykja dómkröfur stefnanda og málsástæður hans vera það óljósar og þeir annmarkar á málatilbúnaði hans að öðru leyti, að talið verður að stefnandi hafi ekki lagt málið upp með nægjanlega skýrum hætti og ekki lagt þann grundvöll að málinu, sem nauðsynlegur er til þess að efnisdómur verði á það lagður.  Verður ekki bætt úr þeim annmörkum undir rekstri málsins.  Varðar það, þegar af þeirri ástæðu, frávísun málsins í heild, samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. 

Eftir þessari niðurstöðu ber að úrskurða stefnanda til þess að greiða stefndu málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur til hvers þeirra. 

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                Máli þessu er vísað frá dómi.

                Stefnandi, Bolungarvíkurkaupstaður, greiði stefnda, Officine Maccaferri S.p.A,  200.000 krónur í málskostnað, stefnda, Ósafli sf., Marti Contractors Ltd. og Íslenskum aðalverktökum hf., sameiginlega 200.000 krónur í málskostnað, og stefndu, Eflu hf., 200.000 krónur í málskostnað.