Hæstiréttur íslands

Mál nr. 15/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti


Föstudaginn 24

 

Föstudaginn 24. janúar 2003.

Nr. 15/2003.

Sjóvá-Almennar tryggingar hf.

(Ingvar Sveinbjörnsson hrl.)

gegn

Ingvari Hólm Traustasyni

(Ólafur Eiríksson hdl.)

 

Kærumál. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.

S kærði úrskurð héraðsdóms, þar sem hafnað var kröfu hans um að hann fengi að leggja fram nánar tiltekin gögn í máli I á hendur honum. Um var að ræða útreikning prófessors í vélaverkfræði á sennilegum hraða bifreiðar við ákeyrslu ásamt beiðni S um þann útreikning. Umræddur útreikningur var ekki gerður af dómkvöddum matsmanni og brast S því heimild til kæru í málinu, sem var vísað frá Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. janúar 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2003, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að hann fengi að leggja fram nánar tiltekin gögn í máli varnaraðila á hendur honum. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til c. liðar 1. mgr. og 3. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að sér verði heimilað að leggja þessi gögn fram.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst hann kærumálskostnaðar.

Í málinu krefst varnaraðili þess að viðurkennd verði skylda sóknaraðila til að greiða sér vátryggingarbætur vegna tjóns, sem varnaraðili kveðst hafa orðið fyrir vegna þess atviks að bifreið hafi verið ekið á hann 8. október 2000. Í þinghaldi 6. janúar 2003 óskaði sóknaraðili eftir að leggja fram útreikning prófessors í vélaverkfræði á sennilegum hraða bifreiðarinnar við ákeyrsluna ásamt beiðni sinni um þann útreikning. Þessari ósk hafnaði héraðsdómari með hinum kærða úrskurði.

Heimildir til að kæra til Hæstaréttar úrskurð, sem héraðsdómari kveður upp í einkamáli, eru tæmandi taldar í 143. gr. laga nr. 91/1991. Fyrrnefndur útreikningur, sem sóknaraðili krefst að fá að leggja fram í málinu, er ekki gerður af dómkvöddum matsmanni. Kæra á úrskurði héraðsdómara verður því ekki reist á c. lið 1. mgr. 143. gr. laganna. Í þeirri málsgrein verður ekki fundin önnur stoð fyrir heimild til kæru í máli þessu. Ákvæði 3. mgr. sömu lagagreinar, sem sóknaraðili vísar eins og áður segir jafnframt til sem heimildar fyrir kæru sinni, var fellt úr gildi með 35. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla. Samkvæmt þessu brestur heimild til kæru í málinu, sem verður því vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði varnaraðila, Ingvari Hólm Traustasyni, 100.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2003.

         Lögmaður stefnda óskar eftir að leggja fram útreikning á hraða bifreiðarinnar og beiðni um útreikning á hraða bifreiðarinnar.  Lögmaður stefnanda mótmælir fram­lagningunni og kveðst ekki hafa haft tækifæri til að kynna sér framlögð gögn.

         Lögmaður stefnda krefst úrskurðar um það hvort gögnin verði lögð fram.

         Lögmenn tjáðu sig um ágreiningsefnið og rökstuddu kröfur sínar og sjónarmið.  Lögmaður stefnda kvað útreikninginn byggðan á grundvelli myndar af bifreiðinni, sem birst hafi í DV.  Um væri að ræða álit sérfræðings á staðreyndum sem fram komi í málinu.  Lögmaður stefnanda hafnaði kröfunni og kvaðst vera að sjá skalið í fyrsta sinn nú.  Ekki væri um dómkvaddan matsmann að ræða og stefnandi hefði ekki fengið tækifæri til að gæta hagsmuna sinna við matið.  Ekki sjáist á hvaða gögnum útreikningar séu byggðir, auk þess sem yfirlýsing hafi komið fram í síðasta þinghaldi um að gagnaöflum væri lokið.

         Krafan er tekin til úrskurðar.

         Útreikningar þeir sem óskað er eftir að lagðir verði fram eru unnir af Magnúsi Þór Jónssyni verkfræðingi, að beiðni lögmanns stefnda.  Kveður lögmaður stefnda útreikningana vera grundvallaða á mynd af bifreiðinni, sem birtist í dagblaði.  Ekki verður það ráðið af umdeildum gögnum.  Stefnanda var ekki gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna við umdeilt mat.  Verður ekki séð að skjalið hafi þýðingu við niðurstöðu í dómsmáli þessu eins og að gerð þess er staðið og það lagt fyrir dóminn.  Er framlagningu þess því hafnað. 

         Ekki var gerð sérstök málskostnaðarkrafa fyrir þennan þátt málsins.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

         Framlagningu útreiknings á hraða bifreiðarinnar og beiðni um þann útreikning er hafnað.