Hæstiréttur íslands

Mál nr. 492/2004


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Þjófnaðartilraun
  • Skjalafals
  • Fjársvik
  • Umferðarlagabrot
  • Hegningarauki


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. apríl 2005.

 

 Nr. 492/2004.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn                                                     

Andra Má Gunnarssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Þjófnaður. Þjófnaðartilraun. Skjalafals. Fjársvik. Umferðalagabrot. Hegningarauki.

A var sakfelldur fyrir fjölmörg skjalafals-, auðgunar- og umferðarlagabrot. Andlag auðgunar- og skjalafalsbrotanna nam samtals tæpri 1.000.000 krónum. Var A gert að sæta fangelsi í 18 mánuði. Í ljósi framangreindra brota A og sakaferils þótti þrátt fyrir tiltekna andlega annmarka hans ekki fært að skilorðsbinda refsinguna.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. desember 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd, en ákvæði um sviptingu ökuréttar staðfest.

Ákærði krefst þess að refsing verði milduð og hún skilorðsbundin að öllu leyti eða að hluta.

Ákærði var sakfelldur 3. mars 2005 fyrir þjófnaðartilraun, umferðarlagabrot og vopnalagabrot 6. ágúst 2004 en ekki dæmd sérstök refsing. Með hinum áfrýjaða dómi var hann sakfelldur fyrir fjölmörg skjalafals-, auðgunar- og umferðarlagabrot, þar af fyrir að hafa ekið í fimm skipti bifreið ófær um að stjórna henni örugglega og níu sinnum sviptur ökurétti, 10 þjófnaði og eina þjófnaðartilraun, 12 fjársvikabrot og 25 skjalafalsbrot. Andlag auðgunar- og skjalafalsbrotanna nam samtals tæpri 1.000.000 krónum. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð athugun sálfræðings á ákærða 23. nóvember 2004. Kemur þar fram að ákærði sé með greind „á sviði tornæmis“ og veruleg frávik í þroska, sem skýri að einhverju marki hvatvísi hans vegna athyglisbrests og ofvirkni. Í ljósi framangreindra brota ákærða og sakaferils þykir þrátt fyrir þessa andlegu annmarka hans ekki fært að skilorðsbinda refsinguna, enda á hann við afplánun hennar rétt á að njóta sambærilegrar heilbrigðisþjónustu og almennt gildir, auk þeirrar sérstöku þjónustu sem lög og reglur um fanga segja til um, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 48/1988 um fangelsi og fangavist með áorðnum breytingum. Til frádráttar refsingar hans kemur gæsluvarðhaldsvist frá 13. október 2004 til 15. desember sama ár.

Ákvæði héraðsdóms um sviptingu ökuréttar ákærða og sakarkostnað eru staðfest.

Ákærði verður dæmdur til greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Andri Már Gunnarsson, skal sæta fangelsi í 18 mánuði, en til frádráttar komi gæsluvarðhaldsvist hans frá 13. október 2004 til 15. desember sama ár.

Ákvæði héraðsdóms um sviptingu ökuréttar ákærða og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talið málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 120.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 2004.

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 15. nóvember 2004 á hendur Andra Má Gunnarssyni, kt. [...], Suðurhólum 14, Reykjavík, fyrir eftirtalin brot framin á árinu 2004 í Reykjavík, nema annað sé tekið fram:

I.

Umferðarlagabrot, með því að hafa ekið bifreiðum um götur í Reykjavík ófær um að stjórna þeim örugglega vegna neyslu slævandi lyfja svo sem hér er rakið:

1. Miðvikudaginn 28. apríl, bifreiðinni YJ-756 um bifreiðastæði við Hátún 10 og svo óvarlega að hann ók á RK-344 sem var kyrrstæð og mannlaus á stæðinu.

2. Föstudaginn 30. apríl, bifreiðinni YJ-756 um götur í borginni, uns akstri lauk á bifreiðastæði við Kringluna.

3. Að kvöldi föstudagsins 14. maí, bifreiðinni YJ-756 sviptur ökurétti frá Suðurhólum og svo óvarlega við Hátún 10 að hann ók á bifreiðina YZ-654 sem var kyrrstæð og mannlaus í bifreiðastæði og þegar í stað brott af vettvangi án þess að gera lögboðnar ráðstafanir vegna árekstursins, uns lögregla stöðvaði aksturinn við gatnamót Snorrabrautar og Flókagötu.

4. Að kvöldi fimmtudagsins 29. apríl, bifreiðinni YJ-756 frá Laugarásbíói við Sæbraut, uns lögregla stöðvaði aksturinn á Álfabakka.

5. Aðfaranótt föstudagsins 13. ágúst, bifreiðinni MV-544 að auki sviptur ökurétti frá Sundlaugavegi, uns lögregla stöðvaði aksturinn á gatnamótum Grensásvegar og Ármúla.

Framangreind brot eru talin varða við 2. mgr. 44. gr., brotið í lið 3 að auki við 1. mgr. 4. gr., 1. og 2. mgr. 10. gr. og 1. mgr. 48. gr. og brotið í lið 5 að auki við 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

II.

Umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðum sviptur ökurétti, svo sem hér er rakið:

1. Að kvöldi miðvikudagsins 2. júní, bifreiðinni VA-575 frá Laugavegi í Reykjavík og svo óvarlega um gatnamót Grensásvegar og Bústaðavegar að hann ók aftan á bifreiðina UO-711 sem var kyrrstæð við umferðarljós og þegar í stað brott af vettvangi án þess að gera lögboðnar ráðstafanir vegna árekstursins.

2. Að kvöldi miðvikudagsins 18. ágúst, bifreiðinni MV-544 um Reykjanesbraut í Reykjavík.

3. Fimmtudaginn 19. ágúst, bifreiðinni MV-544 um Reykjanesbraut í Hafnarfirði.

4. Að kvöldi fimmtudagsins 19. ágúst, bifreiðinni MV-544 með 120 km hraða á klst. um Reykjanesbraut í Gullbringusýslu, um vegarkafla við Vogaveg, þar sem hámarkshraði er 90 km á klst.

5. Föstudaginn 27. ágúst, bifreiðinni MV-544 austur Tjarnargötu í Keflavík, og svo óvarlega um gatnamót Tjarnargötu og Hringbrautar að hann ók á bifreiðina PH-227 sem ekið var norður Hringbraut en við gatnamótin er stöðvunarskylda og víkur umferð á Tjarnargötu fyrir umferð um Hringbraut.

6. Að kvöldi laugardagsins 11. september, bifreiðinni MV-544 um Breiðholtsbraut í Reykjavík.

7. Aðfaranótt laugardagsins 11. september, bifreiðinni MV-544 að auki undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 0,73‰) frá miðborg Reykjavíkur, uns akstri lauk við Suðurhóla 14.

                Framangreind brot eru talin varða við 1. mgr. 48. gr., brotið í lið 1 að auki við 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 10. gr., brotið í lið 4 að auki við 2. mgr. 37. gr., brotið í lið 5 að auki við 1. mgr. 4. gr. og brotið í lið 7 að auki við 1., sbr. 2., mgr. 45. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997.

III.

Auðgunarbrot:

1. Brot framin föstudaginn 11. júní 2004:

1.1 Þjófnað, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 11. júní brotist inn í vinnuskúr Sorpu við Jafnasel, með því að spenna upp glugga, og stolið stimpli merktum Sorpeyðingarstöð höfuðborgarsvæðisins, 6 lyklakippum, 161 innleggs- og úttektarnótu merktum Sorpeyðingu höfuðborgarsvæðisins, 83 móttökuseðlum merktum Endur­vinnslunni og Nokia farsíma, samtals að verðmæti kr. 15.000.

1.2 Tilraun til þjófnaðar, með því að hafa á sama tíma í þjófnaðarskyni reynt að brjótast inn í söluturninn Allt í einu við Jafnasel, með því að spenna upp glugga, en hætt við þegar viðvörunarkerfi hússins fór í gang.

1.3 Fjársvik, með því að hafa sama dag hringt í þjónustuver SPRON og blekkt starfsmann þar með því að gefa upp rangt nafn og persónuupplýsingar og þannig fengið starfsmanninn til að millifæra samtals kr. 43.982 af reikningi SORPU nr. 1158-26-3833 inn á reikning ákærða nr. 0537-26-855639.

1.4 Skjalafals með því að hafa framvísað hjá Endurvinnslunni hf., Knarrarvogi 4, eftirgreindum tveimur kvittunum fyrir móttöku á drykkjarumbúðum, sem ákærði hafði falsað frá rótum á eyðublöð frá Endurvinnslunni með því að stimpla þær með nafnstimpli starfsmanns fyrirtækisins og útfylla um skil á umbúðum og reynt þannig að svíkja út skilaverð umbúðanna en stimplinum og eyðublöðunum hafði ákærði stolið, sbr. lið 1.1:

Kvittun á eyðublaði nr. 385216 fyrir móttöku á drykkjarumbúðum að andvirði kr. 4.410.

Kvittun á eyðublaði nr. 38527 fyrir móttöku á umbúðum að andvirði kr. 8.597.

Eru brot samkvæmt lið nr. 1.1 talin varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, brotið í lið nr. 1.2 talið varða við 244. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr., laganna, brotið í lið nr. 1.3 talið varða við 248. gr. laganna og brotið í lið nr. 1.4 talið varða við 1. mgr. 155. gr.

2. Fyrir þjófnaði og tilraun til þjófnaðar:

2.1 Tilraun til þjófnaðar, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 27. júní, í þjófnaðarskyni reynt að brjótast inn í húsnæði fyrirtækisins Computer.is að Skipholti 50c í Reykjavík, með því að spenna upp hurð, en ákærði hætti við er þjófavarnarkerfi fór í gang.

2.2 Fyrir eftirgreinda þjófnaði sunnudaginn 15. ágúst í Smáralind, Hagasmára 1 í Kópavogi:

2.2.1 Stolið skartgripum samtals að verðmæti kr. 1.500 úr versluninni Top Shop.

2.2.2 Stolið gallabuxum samtals að verðmæti kr.4.990 úr versluninni Jack & Jones.

2.3 Þjófnað, með því að hafa mánudaginn 13. september á bensínstöð Olís að Gullinbrú í Reykjavík, dælt bensíni á bifreiðina MV-544 og ekið á brott án þess að greiða andvirðið kr. 3.900.

2.4 Þjófnað, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 19. september í starfs­mannaaðstöðu skemmtistaðarins Players, Bæjarlind 4 í Kópavogi, stolið 3 Nokia farsímum, samtals að verðmæti kr. 58.000, og 2 seðlaveskjum sem innihéldu ökuskírteini, greiðslukort og enn fremur kr. 13.600 í reiðufé.

2.5 Þjófnað, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 20. september brotist inn í vinnuskúr Sorpu við Jafnasel, með því að spenna upp glugga, og stolið 2 móttökuseðlum merktum Endurvinnslunni og Nokia farsíma samtals að verðmæti kr. 10.000.

2.6 Þjófnað, með því að hafa föstudaginn 24. september í húsnæði fyrirtækisins Rafgeymasalan að Dalshrauni 17 í Hafnarfirði stolið seðlaveski sem innihélt 2 greiðslukort og ökuskírteini, samtals að verðmæti kr. 6.000 og enn fremur kr. 8.000 í reiðufé.

2.7 Þjófnað, með því að hafa stuttu síðar sama dag í hraðbönkum SPRON í Mjódd og Skeifunni stolið samtals kr. 230.000, með því að nota heimildarlaust neðangreind greiðslukort, sem ákærði hafði komist yfir ófrjálsri hendi, sbr. lið 2.6, og heimildarlaust slegið inn leyninúmer fyrir kortin:

2.7.1 Debetkort Rafgeymasölunnar hf. fyrir bankareikning hjá SPRON og stolið í félagi við A tilgreindan mann samtals kr. 30.000 í einni færslu.

2.7.2 Debetkort B fyrir bankareikning hjá SPRON og stolið samtals kr. 200.000 í einni færslu.

2.8 Þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 16. september í versluninni  Bræðurnir Ormsson, Lágmúla, stolið framhlið af geislaspilara að verðmæti kr. 58.000.

                Eru framangreind brot talin varða við 244. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 20. gr. laganna að því er varðar brotið í lið nr. 2.1.

3. Fyrir skjalafals. fjársvik og tilraun til fjársvika:

3.1 Fjársvik og skjalafals, dagana 6. – 10. ágúst með því að hafa svikið út í 23 skipti á eftirgreindum stöðum reiðufé, vörur, veitingar og þjónustu að andvirði alls kr. 240.936, sem ákærði lét skuldfæra heimildarlaust á greiðslukortareikning C, hjá Kreditkortum hf. nr. [...] og falsað jafnframt nafn C í 12 skipti, þar af í 5 skipti með árituninni “Diddi”, undir skuldfærslunótur og raðgreiðslusamning samkvæmt eftirgreindum ákæruliðum nr. 1, 5, 8-13, 15, 17, 18, 20, og 23:

3.1.1 Þann 6. ágúst á bensínafgreiðslu Olíufélagsins hf. í Lækjargötu skuldfært úttekt að fjárhæð kr. 2.000.

3.1.2 Sama dag á veitingastaðnum Kentucky Fried Chicken við Bæjarlind í Kópavogi skuldfært úttekt að fjárhæð kr. 1.600.

3.1.3 Þann 7. ágúst í söluturninum Staldrinu skuldfært úttekt að fjárhæð kr. 1.495.

3.1.4 Sama dag á sama stað skuldfært úttekt að fjárhæð kr. 1.090.

3.1.5 Þann 8. ágúst í Vídeóhöllinni, Lágmúla 7, úttekt að fjárhæð kr. 1.100.

3.1.6 Sama dag á veitingastaðnum Subway við Borgartún skuldfært úttekt að fjárhæð kr. 1.219.

3.1.7 Sama dag á veitingastaðnum Borgargrill skuldfært úttekt að fjárhæð kr. 4.160.

3.1.8 Sama dag í verslun Skífunnar hf., Laugavegi 26, skuldfært úttekt að fjárhæð kr. 4.297.

3.1.9 Sama dag á veitingastaðnum Caruso, Þingholtsstræti 1, skuldfært úttekt að fjárhæð kr. 8.400.

3.1.10 Sama dag á myndbandaleigunni Bónusvídeó, Eddufelli 4-6, skuldfært úttekt að fjárhæð kr. 490.

3.1.11 Sama dag á bensínafgreiðslu Olís í Mjódd skuldfært úttekt að fjárhæð kr. 7.162.

3.1.12 Sama dag í versluninni 11-11 við Norðurbrún skuldfært úttekt að fjárhæð kr. 1.341.

3.1.13 Sama dag í versluninni 11-11 við Drafnarfell skuldfært úttekt að fjárhæð kr. 1.978.

3.1.14 Þann 9. ágúst á veitingastaðnum Subway við Borgartún skuldfært úttekt að fjárhæð kr. 1.219.

3.1.15 Sama dag í KB-banka í Mjóddinni skuldfært úttekt á kr. 15.000 í reiðufé.

3.1.16 Sama dag á veitingastaðnum Pizzahöllinni skuldfært úttekt að fjárhæð kr. 140.

3.1.17 Sama dag á veitingastaðnum Brauðbergi, Hraunbergi 4, skuldfært úttekt að fjárhæð kr. 445.

3.1.18 Sama dag í versluninni Europris við Skútuvog skuldfært úttekt að fjárhæð kr. 3.785.

3.1.19 Sama dag á veitingastaðnum Kentucky Fried Chicken við Bæjarlind í Kópavogi skuldfært úttekt að fjárhæð kr. 3.790.

3.1.20 Sama dag í Sjónvarpsmiðstöðinni, Síðumúla 2, skuldfært úttekt að fjárhæð kr. 175.836. samkvæmt raðgreiðslusamningi sem ákærði gerði í nafni nefnds C.

3.1.21 Þann 10. ágúst á veitingastaðnum Subway skuldfært fjárhæð að andvirði kr. 1.249.

3.1.22 Sama dag á bensínafgreiðslu Olíufélagsins hf. skuldfært úttekt að fjárhæð kr. 140.

3.1.23 Sama dag á bensínafgreiðslu Skeljungs hf. skuldfært úttekt að fjárhæð kr. 3.000.

3.2 Skjalafals, með því að hafa í september tekið heimildarlaust út samtals kr. 140.000 af bankareikningi D, hjá KB banka og slegið eign sinni á peningana og jafnframt falsað nafn D á úttektarseðla í útibúum bankans svo sem rakið er:

3.2.1 Þann 10. september tekið út kr. 40.000 í KB banka Þönglabakka 1.

3.2.2 Þann 13. september tekið út kr. 60.000 í Austurbæjarútibúi að Laugavegi 120.

3.2.4 Sama dag tekið út kr. 20.000 í Árbæjarútibúi, Hraunbæ 117.

3.2.5 Þann 14. september tekið út kr. 20.000 í Kringluútibúi, Kringlunni 8 – 12.

3.3 Skjalafals, með því að hafa í september framvísað í lyfjaverslunum lyfseðlum sem ákærði hefði komist yfir hjá E, útgefnum af F, lækni, á eyðublöð frá heilbrigðisstofnun Suðurnesja til E, sem ákærði falsaði með því að bæta inn á lyfseðlana ávísun á lyf svo sem rakið er:

3.3.1 Þann 16. september framvísað í lyfjaversluninni Lyf og heilsa, Háaleitisbraut 68, lyfseðli á eyðublaði nr. 3620790, útgefnum 4. mars 2004, sem ákærði hafði falsað með því að bæta við ávísun á 200 töflur af lyfinu rivotril 2 mg.

3.3.2 Þann 26. september framvísað í Lyf og heilsu, Kringlunni 8-12, lyfseðli á eyðublaði nr. 3622902, útgefnum 15. maí 2004, sem ákærði hafði falsað með því að bæta inn á seðilinn ávísun á 50 töflur af lyfinu diazepam 5 mg.

3.3.3 Þann 26. september framvísað í lyfjaversluninni Lyf og heilsa, Háaleitisbraut 68, lyfseðli á eyðublaði nr. 4033245, útgefnum 16. júní 2004, sem ákærði hafði falsað með því að bæta inn á lyfseðilinn ávísun á 100 töflur af lyfinu rivotril 2 mg.

3.4 Skjalafals, með því að hafa framvísað í lyfjabúðum 16. og 17. september lyfseðlum um ávísun á lyfjum til ákærða sem ákærði hafði falsað frá rótum á eyðublöð frá Landspítala háskólasjúkrahúsi, sem ákærði hafði komist yfir:

3.4.1 Fimmtudaginn 16. september framvísað í lyfjaversluninni Lyfju, Lágmúla 5, lyfseðli nr. 4537323 um ávísun G á 100 töflum af lyfinu rivotril 2 mg til ákærða.

3.4.2 Föstudaginn 17. september framvísað í Laugarnesapóteki, Kirkjuteigi 21, lyfseðli nr. 4537324 um ávísun H á 60 töflum af lyfinu diazepam 5 mg til ákærða.

3.5 Skjalafals með því að hafa mánudaginn 20. september framvísað hjá Sorpu við Jafnasel, eftirgreindum tveimur kvittunum fyrir móttöku á drykkjarumbúðum, sem ákærði hafði falsað frá rótum á eyðublöð frá Endurvinnslunni hf. með því að stimpla þær með stimplinum “Sorpeyðing höfuðborgarsvæðisins b.s.” og árita með ólæsilegri áritun í útgáfureit og útfylla um skil á umbúðum og reynt þannig að svíkja út skilaverð umbúðanna:

Kvittun á eyðublaði nr. 391126 fyrir móttöku á drykkjarumbúðum að andvirði kr. 8.244.

Kvittun á eyðublaði nr. 391127 fyrir móttöku á umbúðum að andvirði kr. 12.798.

3.6           ........

Eru brotin í liðum nr. 3.1.1, 5, 8-13, 15, 17, 18, 20 og 23 talin varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga en í öðrum liðum nr. 3.1 við 248. gr. sömu laga, brotin í liðum nr. 3.2, 3.3 og 3.4 talin varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga, brotið í lið nr. 3.5 talið varða við 1. mgr. 155. gr. laganna .....

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993, 2. gr. laga nr. 23/1998 og 8. gr. laga nr. 84/2004.

Verjandi ákærða krafðist þess að ákærða yrði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa. Einnig krafðist hann hæfilegrar þóknunar að mati dómsins.

Við þingfestingu málsins féll sækjandi  frá ákærulið III.3.6 í ákæru.

Ákærði hefur skýlaust játað öll brot sín samkvæmt ákæru.  

Farið var með mál þetta samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. 

Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsi­ákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur í júní 1985. Frá árinu 2001 hefur hann í tvígang verið dæmdur vegna brota á almennum hegningarlögum. Frá sama ári hefur hann 6 sinnum gengist undir sáttir hjá lögreglustjóranum í Reykjavík vegna umferðarlagabrota. Tvær sáttir, frá árunum 2002 og 2003, eru vegna aksturs yfir leyfilegum hámarkshraða. Hinar sáttirnar fjórar eru frá í júlí á árinu 2004 og eru vegna aksturs án ökuréttinda. Brot þau er ákærði er hér sakfelldur fyrir eiga sér stað á árinu 2004, allt þar ákærði var úrskurðaður í síbrotagæslu 13. október 2004. Er hér um verulegan fjölda brota að ræða, svo sem ákæra ber með sér. Brotin eru hegningarauki við dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 27. september 2004, þar sem ákærði var sakfelldur fyrir fjársvik, með því að hafa á tímabilinu 14. til 30. júní 2004 blekkt bifreiðastjóra á leigubifreiðastöð til að aka með sig í 21 skipti um götur í Reykjavík með því að segjast ranglega vera starfsmaður Hrafnistu í Reykjavík og að hafa látið skrifa andvirði akstursins heimildarlaust í reikning tiltekinna aðila. Með dómi héraðsdóms var ákærði dæmdur í 5 mánaða fangelsi og var 90 daga fangelsi, er ákærði var dæmdur í 30. júní 2003, fellt inn í dóm héraðsdóms. Í ljósi þess að ákærði var talinn hafa tekið sig á þótti rétt að skilorðsbinda refsingu ákærða. Þá eru brot ákærða í þessu máli einnig að hluta til framin fyrir sáttir þær er gerðar voru í júlí 2004. Ber nú að ákvarða ákærða refsingu  með hliðsjón af 60. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 77. og 78. gr. laganna. Með hliðsjón af sakaferli ákærða og þeim gríðarlega fjölda brota er hann nú er sakfelldur fyrir, er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Í ljósi brota ákærða og sakaferils hans er ljóst að skilorðsbinding refsingar kemur ekki að haldi. Svo sem áður er rakið var ákærði úrskurðaður í gæsluvarðhald 13. október 2004. Ber því nú að draga frá tildæmdri refsingu 36 daga gæsluvarðhald er ákærði hefur sætt.

Með vísan til 101. og 102. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993, 2. gr. laga nr. 23/1998 og 8. gr. laga nr. 84/2004, er ákærði sviptur ökurétti í 18 mánuði frá 1. maí 2004 að telja, en samkvæmt gögnum málsins mun ákærði hafa verið sviptur ökurétti til bráðabirgða á þeim degi.

Loks greiði ákærði allan sakarkostnað, þar með talin þóknun til skipaðs verjanda ákærða, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 65.000 krónur.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Andri Már Gunnarsson, sæti fangelsi í 12 mánuði. Frá refsingunni dregst 36 daga gæsluvarðhaldsvist ákærða.

Ákærði er sviptur ökurétti í 18 mánuði frá 1. maí 2004 að telja.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin þóknun til skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 65.000 krónur.