Hæstiréttur íslands

Mál nr. 287/2009


Lykilorð

  • Málskostnaðartrygging
  • Frávísun frá Hæstarétti


Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. október 2009.

Nr. 287/2009.

H.D. Ísland ehf.

(Ásgeir Þór Árnason hrl.)

gegn

Ingvari Helgasyni hf.

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

 

Málskostnaðartrygging. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Máli HDÍ ehf. gegn I hf. var vísað frá Hæstarétti þar sem málskostnaðartrygging var ekki afhent innan frests sem HDÍ ehf. hafði til þess að afhenda trygginguna.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. maí 2009 og krafðist aðallega sýknu að svo stöddu af kröfu stefnda, en til vara að sér yrði aðeins gert að greiða honum 27.854.547 krónur. Þá krafðist áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krafðist staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með bréfi 29. júlí 2009 krafðist stefndi þess að áfrýjanda yrði með vísan til 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Fallist var á þá kröfu með ákvörðun réttarins 17. september 2009, þar sem fjárhæð tryggingarinnar var ákveðin 1.200.000 krónur og áfrýjanda veittur tveggja vikna frestur til að afhenda skilríki fyrir henni. Trygging þessi hefur ekki verið sett. Vegna þess og með skírskotun til 3. mgr. 133. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 verður málinu vísað frá Hæstarétti.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Áfrýjandi, H.D. Ísland ehf., greiði stefnda, Ingvari Helgasyni hf., 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.