Hæstiréttur íslands

Mál nr. 518/2017

Héraðssaksóknari (Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir saksóknari)
gegn
X (Þorgils Þorgilsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.  

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. ágúst 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. ágúst 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 31. ágúst 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 18. ágúst 2017

Héraðssaksóknari hefur krafist þess að X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 31. ágúst nk. kl. 16.00.

Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að héraðssaksóknari hafi nú fengið til ákæruvaldsmeðferðar frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu rannsóknargögn máls nr. 007-2017-[...] sem varði meint brot X gegn 211. gr. eða 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Sé kærða X gefið að sök að hafa ráðist með ofbeldi á A með þeim afleiðingum að A hafi látið lífið.

Um málsatvik getur sóknaraðili þess að í frumskýrslu lögreglu komi fram að óskað hafi verið eftir aðstoð lögreglu að [...] í [...] laust eftir kvöldmatarleiti 7. júní sl. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi mátt sjá A liggjandi á bakinu í götunni skammt frá heimili sínu. Brotaþoli hafi verið meðvitundarlaus, blóðugur og blár í andliti. Hjá brotaþola hafi kærði X og Y staðið og hafi þeir verið handteknir, grunaðir um stórfellda líkamsárás á brotaþola. Fjórir einstaklingar til viðbótar hafi einnig verið handteknir skammt frá vettvangi í tengslum við málið. Brotaþoli hafi verið fluttur á slysadeild þar sem hann hafi verið úrskurðaður látinn skömmu eftir komu.

Þá er þess getið að samkvæmt framburðum þeirra aðila sem lögreglan hafi tekið skýrslur af hafi kærði komið í félagi við fimm einstaklinga á tveimur bílum að heimili brotaþola umrætt sinn. Því sé lýst að brotaþoli hafi komið út af heimili sínu til að ræða við fólkið og til átaka hafi komi milli brotaþola og fólksins sem hafi endað með því að brotaþoli hafi sótt kúst inn í hesthús og hent í annan bílinn sem fólkið hafi komið á. Kærðu og fjórmenningarnir hafi þá farið í bifreiðarnar og keyrt aðeins í burtu frá brotaþola. Brotaþoli hafi í framhaldi sótt járnrör sem hann hafi hlaupið með í átt að bifreiðum fólksins og þá hafi kærði og Y gengið til móts við brotaþola. Y hafi tekið rörið af brotaþola svo hann hafi fallið í jörðina og í framhaldi hafi kærði haldið honum á maganum í jörðinni og samkvæmt framburði vitna slegið brotaþola ítrekað í andlitið og haldið honum í hálstaki sem hafi varað í umtalsverðan tíma. Vitni lýsi því sömuleiðis að atlagan gegn brotaþola hafi haldið áfram þar til ljóst hafi verið að hann hefði misst meðvitund.

Í greinargerð sóknaraðila kemur einnig fram að meðal gagna málsins liggi fyrir nokkur símtöl við neyðarlínuna þar sem tilkynnt sé um átök og ástand brotaþola umrætt sinn. Sé kærði meðal þeirra sem hringt hafi í neyðarlínuna og óskað eftir sjúkrabifreið að [...] vegna manns sem hafi verið keyrt á. Eftir samtalið við starfsmann neyðarlínunnar megi heyra hvar kærði leggi símann frá sér og byrji að hreyta ókvæðisorðum í brotaþola. Þá liggi fyrir snapchat upptökur úr síma kærða þar sem sjá megi brotaþola liggja hreyfingarlausan, blóðugan og bláan í framan. Heyra megi á upptökunum að kærði og Y tali á niðrandi hátt til brotaþola og heyra megi Y segja að svona fari fyrir þeim sem ráðist að sér.

Sóknaraðili tekur fram að kærði neiti sök og kannist ekki við að hafa veist að brotaþola með ofbeldi líkt og vitni lýsi. Kærði lýsi því að hafa komið að heimili brotaþola til þess að sækja þangað garðverkfæri sem hafi verið í sinni eigu. Brotaþoli hafi hins vegar að ástæðulausu ráðist að honum, og þeim sem með honum hafi komið, vopnaður kústskafti og skemmt bifreiðar. Fólkið hafi því keyrt í burtu frá brotaþola og lagt skammt frá honum þangað sem brotaþoli hafi síðan komið hlaupandi í átt til þeirra með járnrör á lofti sem kærði og Y hafi séð sig knúna til að stöðva brotaþola með. Í framhaldi hafi brotaþola verið haldið í tökum þar til ljóst hafi verið að hann hafi misst meðvitund en þá hafi kærði hafið endurlífgun á brotaþola þar til lögreglan hafi komið á vettvang.

Í greinargerð sóknaraðila kemur einnig fram að samkvæmt fyrirliggjandi réttarkrufningu verði andlát brotaþola rakið til nokkurra samverkandi þátta, en þvinguð, frambeygð staða, sem brotaþola hafi verið haldið í með hendur fyrir aftan bak á meðan kærði hafi með líkama sínum þrýst á brjósthol brotaþola, og hálstakið sem kærði hafi haldið brotaþola í samkvæmt framburði vitna, sé talið hafa leitt til mikillar minnkunar á öndunargetu sem að lokum hafi leitt til köfnunar brotaþola.

Sóknaraðili tekur fram að kærða hafi upphaflega verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna frá 8. júní sl. til 23. júní sl. Frá þeim tíma hafi kærði sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna til dagsins í dag samkvæmt úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur nr. R-209/2017 og R-248/2017, sem staðfestir hafi verið með dómum Hæstaréttar Íslands nr. 409/2017 og 476/2017.

Samkvæmt framansögðu sé það mat sóknaraðila að kærði liggi undir sterkum grun um að hafa veist að brotaþola með ítrekuðum höggum og þrengt að öndundarvegi hans þar til hann hafi misst meðvitund og látist í kjölfarið. Brot kærða samkvæmt framangreindum ákvæðum almennra hegningarlaga geti varðað allt 16 ára fangelsi eða ævilöngu. Að mati ákæruvaldsins sé brotið þess eðlis að með tilliti til almannahagsmuna sé nauðsynlegt að tryggja áfram að kærði gangi ekki laus á meðan mál hans sé til meðferðar hjá ákæruvaldi og dómstólum. Dómstólar hafi í tvígang talið skilyrði gæsluvarðhalds á grundvelli almannahagsmuna vera fyrir hendi í máli kærða, sbr. framangreinda dóma Hæstaréttar, og að áliti ákæruvaldsins hafi ekki neitt nýtt komið fram í málinu sem breytt geti því mati dómstóla.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Niðurstaða:

Af hálfu sóknaraðila er þess krafist að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Tilefni kröfunnar er rakið í kröfugerð sóknaraðila en efni hennar hefur verið lýst. Samkvæmt framangreindu ákvæði má úrskurða sakborning í gæsluvarðhald ef sterkur grunur leikur á því að hann hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.

Kærði hefur sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 frá 23. júní sl., sbr. síðast dóm Hæstaréttar Íslands 25. júlí sl. í málinu nr. 476/2017. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að kærði væri undir sterkum grun um brot gegn 211. gr. eða 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, en að lögum geta brot af þessum toga varðað meira en 10 ára fangelsi. Þá var þar talið að brotið væri þess eðlis að varðhald teldist nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Þegar rétturinn komst að þessari niðurstöðu lá krufningaskýrsla Dr. B fyrir, en um er að ræða bráðabirgðaskýrslu þar sem vikið er að líklegri dánarorsök. Efni hennar eða annað það sem fram hefur komið fyrir dómi hnekkir ekki framangreindum ályktunum réttarins. Ber því að fallast á með sóknaraðila að skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt og verður kærða gert að sæta áfram gæsluvarðahaldi allt til fimmtudagsins 31. ágúst nk. eins og krafist er.

Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, kt. [...], skal áfram sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 31. ágúst nk. kl. 16.00.