Hæstiréttur íslands

Mál nr. 266/2001


Lykilorð

  • Óvígð sambúð
  • Ógilding samnings


Fimmtudaginn 7

 

Fimmtudaginn 7. febrúar 2002.

Nr. 266/2001.

Hrafnhildur Gestsdóttir

(Sigurbjörn Magnússon hrl.)

gegn

Jens Kristinssyni

(Bjarni G. Björgvinsson hdl.)

 

Óvígð sambúð. Ógilding samnings.

H og J gerðu með sér samning um sambúðarslit 26. ágúst 1996, þar sem meðal annars var kveðið á um skiptingu eigna. Höfðaði H síðar mál á hendur J og krafðist greiðslu vegna vanefnda hans á samningnum. J krafðist sýknu á grundvelli 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936. Ljóst var talið að J hefði gjörla vitað hvert efni samningsins var og honum verið fullkunnugt um hvernig fjárhag þeirra og einkahlutafélags þeirra var háttað á samningstímanum. Var því ekki á það fallist með J að skilyrði væru til að ógilda samning hans við H á grundvelli 33. gr. fyrrgreindra laga. Ekkert benti til til annars en að fullt jafnræði hefði verið með H og J við gerð umrædds samnings þeirra. Hafði J lýst því yfir að hann vildi með samningnum gera vel við H og var ekkert fram komið um að J hafi ekki gengist undir samninginn af fúsum og frjálsum vilja. Þótt talið væri að fallast mætti á það með J að hann hefði borið skarðan hlut frá borði við sambúðarslitin og ljóst væri að væntingar hans um bættan hag einkahlutafélags hans hefðu ekki gengið eftir, yrði ekki á það fallist þegar litið var til stöðu aðilanna og atvika við samningsgerðina og eftir hana að víkja mætti samningi þeirra til hliðar með stoð í 36. gr. laga nr. 7/1936.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir. 

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. júlí 2001. Hún krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 3.664.092 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 6. ágúst 1997 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Hún krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.

I.

Samkvæmt gögnum málsins hófu áfrýjandi og stefndi óvígða sambúð vorið 1971, en slitu samvistum og gerðu 26. ágúst 1996 samning um sambúðarslitin. Höfðu þau þá eignast þrjú börn. Árið 1980 hófust þau handa við byggingu einbýlishúss að Múlavegi 37 á Seyðisfirði og var húsið frá upphafi þinglýst eign áfrýjanda. Stefndi hóf rekstur vörubifreiða á árinu 1982 og síðar bætti hann rekstri kranabíla við þá starfsemi sína. Á árinu 1992 tók áfrýjandi til starfa hjá Kranabílnum hf., sem hún hafði stofnað ásamt stefnda og þremur öðrum mönnum árið 1989. Starfaði hún þar óslitið til þess tíma er aðilar slitu sambúð sinni og sá meðal annars um bókhald félagsins. Á sambúðartímanum höfðu aðilar sameiginlegan fjárhag. Er ágreiningslaust að skuldir fyrirtækisins hafi verið mjög miklar þegar þau slitu samvistum, en þau deila um hvort skuldirnar hafi meðal annars átt rætur að rekja til mikilla úttekta þeirra til eigin þarfa.

Í fyrrnefndum samningi frá 26. ágúst 1996, sem fjallaði samkvæmt yfirskrift sinni „um skiptingu eigna og skulda vegna sambúðarslita“, voru eignir aðilanna taldar vera íbúðarhúsið að Múlavegi 37, fólksbifreið af tegundinni Volvo, árgerð 1981, og hlutabréf í Kranabílnum ehf. Á fasteigninni hvíldu fjögur veðlán Byggingarsjóðs ríkisins, samtals að eftirstöðvum 1.009.505 krónur, lífeyrissjóðslán á nafni stefnda að eftirstöðvum 155.110 krónur og lífeyrissjóðslán á nafni áfrýjanda að eftirstöðvum 117.724 krónur. Skuldir umfram eignir í rekstri Kranabílsins ehf. voru í samningnum taldar nema alls 12.755.198 krónum. Í 4. gr. hans sagði: „Íbúðarhúsið Múlavegur 37 Seyðisfirði er skráð eign konunnar og verður það áfram eign hennar.“ Í hlut stefnda komu hins vegar bifreiðin og hlutabréf í Kranabílnum ehf. að nafnverði 3.000.000 krónur. Samkvæmt 7. gr. samningsins tók stefndi að sér að greiða ofangreindar skuldir, en áfrýjandi heimilaði að þær mættu hvíla áfram á húseigninni ásamt skuldum Kranabílsins ehf., sem voru tryggðar með 5. til 8. veðrétti í henni. Stefndi skuldbatt sig til að kaupa eignina innan tveggja ára frá undirskrift samningsins. Í niðurlagi 9. gr. hans sagði síðan: „Maðurinn skuldbindur sig til þess, sem eigandi allra hlutabréfa í Kranabílnum ehf. að félagið taki húseignina á leigu og greiði fyrir hana 30.000 kr. á mánuði.“ Einnig tókst stefndi á hendur samkvæmt 10. gr. samningsins „sem eigandi allra hlutabréfa í Kranabílum ehf.“ að greiða áfrýjanda nánar tiltekin laun og orlof frá 1. september 1996 til 31. desember 1997 vegna starfa hennar hjá félaginu. Ekki er ágreiningur um þessar síðastnefndu greiðslur, enda gerir áfrýjandi ekki kröfu um þær í málinu. Þá var í 12. gr. samningsins ákvæði um að stefndi tæki að sér að greiða þegar áfallinn kostnað vegna fasteignarinnar að Múlavegi 37 ásamt fasteignagjöldum og vátryggingariðgjöldum vegna hennar frá samningsdegi.

Eftir sambúðarslitin mun áfrýjandi hafa flutt til Borgarness, en stefndi búið áfram að Múlavegi 37 um nokkra hríð. Sýslumaðurinn á Seyðisfirði tilkynnti áfrýjanda 23. maí 1997 um að ákveðið hefði verið við nauðungarsölu, sem nánar tilgreindir veðhafar í fasteigninni hefðu krafist, að hún yrði boðin upp 5. september sama árs. Kveðst áfrýjandi hafa tekið lán til að greiða upp eða koma áhvílandi veðskuldum í skil, auk þess að greiða gjaldfallin fasteignagjöld og vátryggingariðgjöld, sem um ræddi í 12. gr. samnings aðilanna um sambúðarslit. Seldi áfrýjandi síðan fasteignina 15. maí 1999 fyrir 7.800.000 krónur. Óumdeilt er að vegna fjárhagserfiðleika stóð stefndi ekki við skuldbindingar sínar samkvæmt samningi aðilanna að öðru leyti en því að hann greiddi áfrýjanda samtals 40.000 krónur í fernu lagi 4. febrúar, 3. mars, 1. apríl og 7. maí 1998.

Samkvæmt gögnum málsins var tap á rekstri Kranabílsins ehf. á árinu 1996 rúmlega 8.000.000 krónur. Í lok þess árs voru skuldir félagsins samtals 22.989.100 krónur og eigið fé þess neikvætt um 7.943.898 krónur. Í skattframtali stefnda 1997 voru heildarskuldir hans í lok árs 1996 sagðar nema 16.031.146 krónum, en eignir hans fyrrgreind hlutabréf í Kranabílnum ehf. og bifreið, samtals að andvirði 3.525.000 krónur. Með úrskurði Héraðsdóms Austurlands 11. mars 1997 fékk Kranabíllinn ehf. heimild til greiðslustöðvunar, sem stóð allt til 4. júlí 1997. Munu skuldir félagsins þá hafa verið taldar alls um 26.500.000 krónur, en bókfært verð eigna um 14.000.000 krónur. Félagið mun eftir þetta hafa fengið heimild til að leita nauðasamnings við lánardrottna sína, en það ekki tekist. Virðist félagið þó allt að einu hafa samið við lánardrottna um eftirgjöf skulda á árinu 1998 gegn greiðslu á um fimmtungi þeirra.

Í málinu krefst áfrýjandi greiðslu vegna vanefnda stefnda á áðurnefndum samningi þeirra frá 26. ágúst 1996. Er krafa áfrýjanda sundurliðuð í 33 liði vegna greiðslu gjaldfallinna afborgana af veðskuldum, sem hvíldu á fasteigninni að Múlavegi 37, uppgreiðslu þessara veðskulda og greiðslu fasteignagjalda, vátryggingariðgjalda og rafmagnsreiknings, auk húsaleigu frá janúar til júní 1998. Ekki er ágreiningur um fjárhæð kröfunnar eða vexti af henni.

II.

Við skýrslugjöf fyrir héraðsdómi var stefndi spurður um ástæður þess að hann hafi gengist undir þá skilmála, sem samningur hans og áfrýjanda frá 26. ágúst 1996 hafði að geyma. Svaraði hann því til að honum hafi verið hlýtt til áfrýjanda og fundist hún eiga betra skilið en að standa uppi stórskuldug eftir 25 ára sambúð. Hafi hún verið „búin að baslast í þessu öllu saman með mér og mér fannst þetta bara svona skylda mín að reyna að skilja þannig við hana að hún ætti eitthvað á milli handanna og gæti haldið áfram að lifa og gæti bjargað sér.“ Hvað fyrirtækið varðaði hafi hann sjálfur einn getað „einhvern veginn hugsanlega bagsast áfram með það“ og verið bjartsýnn um framhaldið, þótt raunin hefði orðið önnur.

Fyrir liggur að stefndi leitaði til Sigurjóns Bjarnasonar um aðstoð við gerð þessa samnings, en Sigurjón hafði áður verið stefnda til aðstoðar við bókhaldsvinnu og gerð ársreikninga fyrir Kranabílinn ehf. Við skýrslugjöf fyrir héraðsdómi bar stefnda og Sigurjóni saman um að samningurinn hafi verið gerður eftir hugmyndum þess fyrrnefnda. Fyrir dómi kvaðst Sigurjón jafnframt hafa spurt stefnda um einstök atriði samningsins og hafi stefndi verið „harður á því að svona skyldi þetta vera.“ Af þessu er ljóst að stefndi vissi gjörla hvert efni samningsins var. Ákvæði hans eru einföld og skýr. Áfrýjandi hafði í nokkur ár annast bókhald Kranabílsins ehf., stefndi séð um rekstur félagsins og þau bæði verið eigendur þess. Hlaut báðum aðilum því að hafa verið fullkunnugt um hvernig fjárhag þeirra og Kranabílsins ehf. var háttað á þeim tíma, sem samningurinn var gerður. Í ljósi þessa verður ekki fallist á það með stefnda að skilyrði séu til að ógilda samning hans við áfrýjanda á grundvelli 33. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 3. gr. laga nr. 11/1986.

Ekkert bendir til annars en að fullt jafnræði hafi verið með málsaðilum við gerð umrædds samnings þeirra. Stefndi hafði sem áður segir frumkvæði að því að fá mann, sem hann treysti, til að skjalfesta ákvæði samningsins eftir sínum hugmyndum. Lýsti hann því yfir eins og áður greinir í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi að hann vildi með samningnum gera vel við áfrýjanda. Er ekkert fram komið í málinu um að stefndi hafi ekki gengist undir samninginn af fúsum og frjálsum vilja. Hann hélt atvinnurekstri sínum áfram eftir undirritun samningsins og hafði afnot hússins að Múlavegi 37, svo sem fyrr greinir. Þótt fallast megi á það með stefnda að hann hafi borið skarðan hlut frá borði við sambúðarslitin og ljóst sé að væntingar hans um bættan hag Kranabílsins ehf. hafi ekki gengið eftir, verður ekki á það fallist þegar litið er til allra atvika við gerð samningsins, stöðu aðilanna og atvika eftir samningsgerðina að víkja megi samningi þeirra til hliðar með stoð í 36. gr. laga nr. 7/1936, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986.

Eins og áður greinir var mælt svo fyrir í 9. gr. samnings aðilanna að stefndi skuldbindi sig til þess, sem eigandi allra hlutabréfa í Kranabílnum ehf., að félagið taki á leigu húseignina að Múlavegi 37. Með þessu orðalagi samningsákvæðisins skuldbatt stefndi ekki sjálfan sig til að taka eignina á leigu, heldur gerði hann það í nafni félagsins sem forsvarsmaður þess. Verður því fallist á með stefnda að áfrýjandi geti ekki krafið hann um greiðslu húsaleigu að fjárhæð samtals 180.000 krónur. Samkvæmt þessari niðurstöðu verður krafa áfrýjanda að öðru leyti tekin til greina og stefndi dæmdur til að greiða henni 3.484.092 krónur ásamt vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndi, Jens Kristinsson, greiði áfrýjanda, Hrafnhildi Gestsdóttur, 3.484.092 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 10.469 krónum frá 6. ágúst 1997 til 18. nóvember sama árs, af 1.516.467 krónum frá þeim degi til 2. febrúar 1998, af 1.545.320 krónum frá þeim degi til 4. sama mánaðar, af 1.535.320 krónum frá þeim degi til 3. mars sama árs, af 1.525.320 krónum frá þeim degi til 9. sama mánaðar, af 1.540.820 krónum frá þeim degi til 25. sama mánaðar, af 1.558.819 krónum frá þeim degi til 1. apríl sama árs, af 1.564.318 krónum frá þeim degi til 4. maí sama árs, af 1.594.423 krónum frá þeim degi til 7. sama mánaðar, af 1.584.423 krónum frá þeim degi til 2. júní sama árs, af 1.600.137 krónum frá þeim degi til 31. júlí sama árs, af 1.631.347 krónum frá þeim degi til 1. ágúst sama árs, af 1.661.389 krónum frá þeim degi til 2. nóvember sama árs, af 1.691.296 krónum frá þeim degi til 2. febrúar 1999, af 1.721.172 krónum frá þeim degi til 18. sama mánaðar, af 2.236.591 krónu frá þeim degi til 2. mars sama árs, af 2.252.685 krónum frá þeim degi til 11. sama mánaðar, af 2.268.774 krónum frá þeim degi til 1. maí sama árs, af 2.280.555 krónum frá þeim degi til 7. sama mánaðar, af 2.296.644 krónum frá þeim degi til 1. júní sama árs og af 3.484.092 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiða áfrýjanda samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

                                                                                                                                     

Dómur Héraðsdóms Austurlands 17. apríl 2001.

                Mál þetta sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi 17. apríl 2001, hefur Hrafnhildur Gestsdóttir, kt. 070252-3929 til heimilis að Fjarðarseli 20, Reykjavík, höfðað með stefnu útgefinni 4. júní 2000 gegn Jens Kristinssyni, kt. 171249-2019, til heimilis að Gilsbakka 1, Seyðisfirði og var málið þingfest á Egilsstöðum hinn 3. október 2000.

                Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda kr. 3.704.092, ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 10.469,- frá 6/8 1997 til 18/11 1997, en af kr. 1.516.467,- frá þeim degi til 31/1 1998, en af kr. 1.546.467,- frá þeim degi til 2/2 1998, en af kr. 1.575.320,- frá þeim degi til 28/2 en af kr. 1.605.320,- frá þeim degi til 9/3 1998, en af kr. 1.620.820 frá þeim degi til 25/3 1998, en af kr. 1.638.819,- frá þeim degi til 30/4 1998, en af kr. 1.668.819 frá þeim degi til 1/4 1998, en af kr. 1.684.318,- frá þeim degi til 30/4 1998, en af kr. 1.714.318,- frá þeim degi til 4/5 1998, en af kr. 1.744.423,- frá þeim degi til 31/5 1998, en af kr. 1.774.423 frá þeim degi til 2/6 1998, en af kr. 1.790.137,- frá þeim degi til 30/6 1998, en af kr. 1.820.137,- frá þeim degi til 31/7 1998, en af kr. 1.851.347,- frá þeim degi til 1/8 1998, en af kr. 1.881.389,- frá þeim degi til 2/11 1998, en af kr. 1.911.296 frá þeim degi til 1/2 1999, en af kr. 1.931.172 frá þeim degi til 18/2 1999, en af kr. 2.456.591,- frá þeim degi til 2/3 1999, en af kr. 2.472.585,- frá þeim degi til 11/3 1999, en af kr. 2.488.774,- frá þeim degi til 1/5 1999, en af kr. 2.500.555,- frá þeim degi til 7/5 1999, en af kr. 2.516.644,- frá þeim degi til 1/6 1999, en af kr. 3.704.092,- frá þeim degi til greiðsludags allt að frádregnum innborgunum að fjárhæð kr. 40.000.-.

Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins og virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Stefndi gerir þær dómkröfur, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og verði stefnandi dæmdur til greiðslu málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi, auk þess sem virðisaukaskattur leggist á málskostnað.

Málavextir:

                Stefnandi og stefndi tóku upp óvígða sambúð vorið 1971 og stóð sú sambúð til 26. ágúst 1996, er þau slitu samvistum. Á þessum tíma eignuðust málsaðilar saman þrjú börn, sem fædd voru 1973, 1975 og 1982. Málsaðilar hófu byggingu hússins að Múlavegi 37, Seyðisfirði  árið 1980. Húsið var frá upphafi skráð og þinglýst eign stefnanda. Stefndi hóf vörubílarekstur árið 1982 og vafði rekstur sá fljótt upp á sig og varð að vörubíla- og kranaútgerð. Árið 1989 stofnuðu málsaðilar ásamt öðrum hlutfélagið Kranabílinn ehf. um rekstur krananna. Stefnandi hóf að starfa nánast eingöngu hjá fyrirtækinu á árinu 1992 og sá um bókhald þess upp frá því allt til sambúðarslita á árinu 1996. Á þessum tíma tóku stefnandi og stefndi út mikla fjármuni hjá Kranabílum ehf., sem nýttir voru til þess að ljúka byggingu Múlavegar 37 og til heimilisrekstrar. Mun hafa safnast upp mikil skuld stefnda á viðskiptareikningi félagsins, sem jafnframt var í mikilli fjárþröng og skuldum vafið.

                Málsaðilar slitu samvistum og gerðu með sér „samning um skiptingu eigna og skulda vegna sambúðarslita“, sem dagsettur er 26. ágúst 1996.

                Samkvæmt þessum samningi voru eignir taldar vera íbúðarhúsið Múlavegur 37, Seyðisfirði, fólksbifreiðin B-471, Volvo station og hlutabréf í Kranabílum ehf.

                Skuldir voru taldar vera við Byggingarsjóð ríkisins, samtals að eftirstöðvum kr. 1.009.505, lífeyrissjóðslán á nafni stefnda að eftirstöðvum kr. 155.110 og lífeyrissjóðslán á nafni stefnanda að eftirstöðvum kr. 117.724. Þá voru taldar vera skuldir umfram eignir í eigin atvinnurekstri kr. 12.755.198.

                Samkvæmt samningnum féll íbúðarhúsið að Múlavegi 37, Seyðisfirði, sem  skráð var eign stefnanda, í hennar hlut. Eignin var seld með kaupsamningi dagsettum 4. febrúar 1999 og var söluverð kr. 7.800.000. Í kaupsamningnum kemur fram, að brunabótamat hússins var þá kr. 15.739.000.

                Í hlut stefnda kom bifreiðin B-471 og var upplýst undir rekstri málsins, að bifreiðin hefði verið seld fyrir 65.000 krónur. Þá komu í hlut stefnda hlutabréf í Kranabílum ehf. að nafnverði kr. 3.000.000.

                Stefndi skyldi greiða allar skuldir, sem að ofan voru taldar.

                Í sambúðarslitasamningum 9. grein segir: „Konan veitir leyfi til þess að skuldir skv. 1.-3. tl. 7. gr. megi áfram hvíla á Múlavegi 37. Einnig leyfir hún að skuldir þær sem hvíla á 5.-8. veðrétti eignarinnar skv. veðbókarvottorði dags. 23. ágúst 1996, hvíli áfram á eigninni. Maðurinn lofar að kaupa húseignina innan tveggja ára frá undirskrift samnings. Náist ekki samkomulag um kaupverð eignarinnar, skal það ákveðið af þremur matsmönnum, einum tilnefndum af hvorum samningsaðila og hinum þriðja tilnefndum af Sýslumanninum á Seyðisfirði. Maðurinn skuldbindur sig til þess, sem eigandi allra hlutabréfa í Kranabílum ehf. að félagið taki húseignina á leigu og greiði fyrir hana 30.000 kr. á mánuði.“

                10. grein samningsins er á þessa leið: „Sem eigandi allra hlutabréfa í Kranabílum ehf. samþykkir maðurinn að konan skuli vegna starfs síns hjá félaginu undanfarin ár njóta launagreiðslna frá 1. september nk. til 31. desember 1997. Skulu launin nema 52.000 kr. á mánuði og bæta þau við sig orlofi skv. almennum kjarasamningum.“

                12. grein samningsins er svohljóðandi: „Kostnað vegna íbúðarhússins Múlavegi 37, sem áfallinn er fyrir dagsetningu þess samnings tekur maðurinn að sér að greiða. Fasteignagjöld og tryggingar vegna hússins greiðir maðurinn frá samningsdegi.“

                Á grundvelli þessara samningsákvæða krefur stefnandi stefnda um efndir og allt það fé, sem hún hefur orðið að greiða af því, sem stefndi tók að sér að greiða samkvæmt samningnum.

                Fram hafa verið lagðir reikningar Kranabílsins ehf. fyrir árið 1996 og kemur þar fram, að skuldir fyrirtækisins umfram eignir í árslok eru kr. 7.943.898.

Í skattframtali 1997 eru skuldir stefnda taldar kr. 16.031.146 og eru þá með taldar þær skuldir, sem hvíldu á Múlavegi 37.

                Samkvæmt samþykktu kauptilboði seldi stefnandi fasteignina að Múlavegi 37  4. febrúar 1999. Söluverð var kr. 7.800.000, sem kaupandi greiddi með því að yfirtaka áhvílandi skuldir að fjárhæð kr. 515.419, með peningum kr. 2.340.000 og með húsbréfum kr. 4.944.581.

Málsástæður stefnanda:

Stefnandi byggir kröfur sínar á samningi aðila um sambúðarslit frá 26. ágúst 1996, en samkvæmt 7. gr. þess samnings hafi stefndi tekið að sér að greiða allar þær skuldir, sem hvíldu á Múlavegi 37, samtals að eftirstöðvum kr. 1.282.339, auk skulda umfram eignir í eigin atvinnurekstri kr. 12.755.198.

Samkvæmt 9. gr. samningsins hafi stefndi skuldbundið sig til að leigja húseignina að Múlavegi 37 á kr. 30.000 á mánuði. Hann hafi hins vegar haft húsið aðeins tímabilið frá 1. janúar 1998 til 30. júní sama ár.

Samkvæmt 12. grein samningsins hafi stefndi tekið að sér að greiða tryggingar og fasteignagjöld af húsinu frá samningsdegi.

Sé skemmst frá því að segja, að stefndi hafi ekki staðið við framangreindar skuldbindingar sínar og hafi svo verið komið haustið 1997, að selja hafi átt húsið á nauðungaruppboði vegna þeirra skulda, sem stefndi hefði tekið að sér að greiða. Hafi stefnandi neyðst til að taka lán til að forða húsinu frá nauðungarsölu. Hafi stefnandi þann 18. nóvember 1997 greitt upp lífeyrissjóðslán, komið öðru lífeyrissjóðsláni í skil ásamt þremur lánum frá Byggingarsjóði ríkisins. Þá hafi stefnandi greitt upp eitt lán frá Landsbankanum á Seyðisfirði, sem tilheyrt hafi fyrirtæki stefnda, Kranabílum ehf. og komið öðru í skil. Eftir þetta hafi stefnandi haldið lánunum í skilum og greitt fasteignagjöld og tryggingar af húsinu. Stefndi hafi ekki staðið við loforð sitt um að kaupa húsið innan tveggja ára og hafi það því verið selt öðrum vorið 1999. Við söluna hafi kaupandi yfirtekið lánin frá Byggingarsjóði, en lánin frá Landsbankanum og Lífeyrissjóði Austurlands hafi verið greidd upp. 

                Stefndi hafi greitt kr. 40.000 inn á skuldina með fjórum jöfnum innborgunum dags.  4/2, 3/3, 1/4 og 7/5 1998.

Málsástæður stefnda:

                Stefndi byggir sýknukröfu sína á ákvæðum 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936. Stefndi telji, að sambúðarslitasamningurinn, sem stefnandi byggi kröfu sína á, sé bersýnilega ósanngjarn í hans garð og stefnanda hafi mátt vera það öðrum betur ljóst þegar frá samningnum var gengið á sínum tíma. Það sé því bæði óheiðarlegt og ósanngjarnt, með tilliti til forsögu málsins á sambúðartíma, og einnig þess, sem gerst hefur eftir sambúðarslitin, að beita samningnum fyrir sig og krefja stefnda um efndir. Því beri að víkja sambúðarslitasamningnum til hliðar að því er varðar fjárkröfur stefnanda  sem byggist á 7. gr. 9. gr. og 12. gr. samningsins, og sýkna stefnda af þeim kröfum, sem gerðar eru á hendur honum í máli þessu.

                Fjárhagur stefnanda og stefnda hafi verið sameiginlegur frá upphafi óvígðrar sambúðar 1971 til 1996 eða í 25 ár. Á þessu tímabili hafi þau átt þrjár fasteignir. Þær fyrstu hafi verið skráðar eignir stefnda, en sú þriðja, Múlavegur 37, hafi verið skráð á nafn stefnanda. Andvirði hinna tveggja fyrri fasteigna hafi gengið til kaupa á næstu fasteign og til sameiginlegra þarfa heimilisins og hafi söluverð fasteignarinnar Sjónarhóls á Akureyri m.a. verið notað til þess að greiða byrjunarkostnað við byggingu Múlavegar 37. Benda megi á, að stefndi hafi talið skuldir vegna Múlavegar 37 fram í eigin nafni með skattframtali 1996 vegna ársins 1995. Það sýni, að aðilar hafi litið á Múlaveg 37 sem sameiginlega eign þrátt fyrir þinglýsta eignarheimild stefnanda. Stefndi telur því að engin rök hafi í raun staðið til þess, að stefnandi fengi fasteignina Múlaveg 37 skuldlausa í sinn hlut við sambúðarslitin. Fjárhagsstaða stefnda í árslok 1996 samkvæmt skattframtali hans hafi sýnt að skuldir umfram eignir námu kr. 12.506.146. Skuldir Kranabílsins ehf. umfram eignir hafi numið á sama tíma kr. 4.939.858 og tap ársins numið kr. 2.574.548. Stefnandi hafi verið bókhaldari Kranabílsins ehf. og séð um fjármál þess fyrirtækis. Stefnanda hafi í ljósi vitneskju um fjárhag félagsins, augljóslega mátt vera ljóst, að stefndi mundi ekki geta staðið við sambúðarslitasamninginn. Samningurinn hafi verið gerður þrátt fyrir þessa vitneskju og með málshöfðun þessari hyggist stefnandi nú fá stefnda dæmdan til þess að greiða henni enn meiri fjármuni, þótt stefnandi hafi haft út úr sambúðarslitunum nánast alla fjármuni úr sameiginlegu búi aðilanna.

                Stefndi telji svo á sig hallað í sambúðarslitasamningnum, að á grundvelli 33. gr. samningalaganna sé óheiðarlegt af stefnanda hálfu að byggja mál sitt á ákvæðum 7. gr., 9. gr. og 12. gr. samningsins, ekki síst vegna hinnar nánu vitneskju stefnanda um fjárhag stefnda og Kranabílsins ehf. við sambúðarslitin og enn fremur þegar litið sé til eftirfarandi greiðslustöðvunar Kranabílsins ehf. og áframhaldandi rekstrarörðugleika félagsins og fjárhagsörðugleika stefnda. Geti stefnandi því ekki borið samninginn fyrir sig í máli þessu.

                Þá telji stefndi, að einnig beri að líta til 1. og 2. mgr. 36. gr. samningalaganna, til enn frekari stuðnings kröfu um að áðurgreindum ákvæðum sambúðarslitasamnings-ins verði vikið til hliðar sem bersýnilega ósanngjörnum.

Niðurstaða:

Málsaðilar gerðu með sér samning um skiptingu eigna og skulda vegna sambúðarslita. Er ekki ágreiningur um það meginmarkmið samningsins og kemur greinilega fram í samningnum, að málsaðilar töldu sig vera að skipta sameignlegu búi sínu, eftir sömu sjónarmiðum og um ræðir í XIV. kafla laga nr. 31/1993.

  Allt að einu er að finna í samningnum nokkur ákvæði, þar sem stefndi skuldbindur Kranabíla ehf. til að greiða fé til stefnanda. Þannig skuldbindur hann félagið til að taka Múlaveg 37  á leigu fyrir 30.000 kr. á mánuði. Þá hefur stefnandi samþykkt að leyfa „að skuldir þær sem hvíla á 5.-8. veðrétti eignarinnar skv. veðbókarvottorði dag 23. ágúst 1996 hvíli áfram á eigninni“ og mun þar ekki umdeilt, að um er að ræða skuldir Kranabílsins ehf.

Sá hluti af kröfugerð stefnanda, sem af þessu stafar, samkvæmt sundurliðun, nemur kr. 1.238.101,00. Verður ekki séð, að stefndi hafi tekið á sig persónulega ábyrgð á skuldbindingum þessum og ber því að sýkna hann af þessum kröfum.

Sambúðarslitasamningurinn er einfaldur í sniðum, að því leyti, að stefnandi fær einu eign sameiginlegs bús málsaðila, sem nokkurs er virði, en er um leið leyst undan því að greiða neitt af skuldum búsins. Gengur þetta svo langt, að jafnframt því sem stefndi afhendir stefnanda fasteign búsins skuldlausa, lofar hann að greiða af eigninni fasteignagjöld og tryggingar vegna hússins ótiltekinn tíma frá samningsdegi.

Stefndi gaf þá skýringu á samningi sínum við stefnanda, að hann hefði viljað gera vel við konu sína við skilnað þeirra.  

                Sýnt hefur verið fram á, að fyrir gerð samningsins var sameiginlegt bú málsaðila skuldugt langt umfram eignir.

Stefnanda mátti vera ljóst við gerð samningsins, að sameiginlega voru málsaðilar skuldugir langt umfram eignir og að stefndi var eftir skiptin algjörlega eignalaus og skuldaði á annan tug milljóna króna. Stefnanda mátti því einnig vera ljóst meðal annars vegna þess, að hún hafði um árabil annast bókhald og fjárreiður bæði rekstrar og heimilis þeirra, að stefndi átti enga möguleika á að greiða samkvæmt samningnum. Loks mátti stefnanda vita, að þótt hún fengi dóm fyrir kröfu þessari, væru engar líkur á, að það leiddi til annars en þess, að stefndi yrði tekinn til gjaldþrotaskipta fyrr en ella og líkur fyrir því, að krafan fengist greidd úr þrotabúinu væru engar.

Verður með vísan til þessa og 33. gr. laga nr. 7/1936 að telja, að stefnandi geti ekki borið fyrir sig samning þennan til heimtu þeirra krafna, sem uppi eru hafðar í máli þessu.

Verður samkvæmt þessu að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Rétt þykir, að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Logi Guðbrandsson, dómstjóri, kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndi, Jens Kristinsson, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Hrafnhildar Gestsdóttur.

Málskostnaður fellur niður.