Hæstiréttur íslands

Mál nr. 433/2000


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni
  • Lögsaga


Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. febrúar 2001.

Nr. 433/2000.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)

gegn

Fernando José Andrade

(Vilhjálmur Þórhallsson hrl.)

                                                   

Ávana- og fíkniefni. Lögsaga.

F var dæmdur til 9 ára fangelsisvistar fyrir fíkniefnalagabrot. Um var að ræða vörslu 14.292 MDMA taflna, sem fundust í fórum hans á Keflavíkurflugvelli, en F var þar staddur vegna millilendingar á leið frá Amsterdam til New York. Þótt ljóst væri að F hygði ekki á dreifingu efnanna á Íslandi heldur í Bandaríkjunum var talið að verknaðarlýsing 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 tæki til fyrirhugaðrar sölu hans eða afhendingar þar, en samkvæmt 1. tl. 4. gr. laganna nær íslensk refsilögsaga jafnframt til brota sem beinast að erlendum hagsmunum. Niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu var staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Málinu var skotið til Hæstaréttar 24. nóvember 2000 að ósk ákærða, sem krefst aðallega sýknu en til vara vægari refsingar. Ákæruvaldið krefst þess, að niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu verði staðfest en refsing ákærða þyngd.

Málavöxtum er lýst í héraðsdómi. Í málinu liggja fyrir upplýsingar frá utanríkisráðuneytinu um undirritun og fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni frá 20. desember 1988. Samningurinn tók gildi gagnvart Bandaríkjunum 11. nóvember 1990 og gagnvart Íslandi 1. desember 1997, sbr. og auglýsingu nr. 18/1997 í C-deild Stjórnartíðinda 1997. Í 3. gr. samningsins er mælt fyrir um það, að hver aðili hans skuli meðal annars lýsa þá háttsemi refsiverða, sé hún framan af ásetningi, að flytja inn eða út ólögleg fíkniefni eða skynvilluefni eða hafa í vörslum sínum slík efni í ólögmætum tilgangi. Er ekki um það deilt í málinu, að dreifing og sala fíkniefnisins MDMA sé refsiverð í Bandaríkjunum.

Ákærði reisir varnir sínar í fyrsta lagi á því, að ósannað sé, að allar 14.292 MDMA töflurnar, sem fundust í fórum hans, hafi haft að geyma fíkniefni, en einungis 40 þeirra voru teknar til rannsóknar af Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði. Á þetta verður ekki fallist. Sýnataka og rannsókn efnanna fór fram í samræmi við áralanga venju um könnun ætlaðra fíkniefna og hafa dómstólar margsinnis lagt þá starfshætti til grundvallar dómum sínum.

Ákærði telur í öðru lagi, að hann hafi hætt við áformað brot sitt, er hann sagði lögreglu til fikniefnanna, og hafi því verið um að ræða afturhvarf frá tilraun í skilningi 21. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Á þetta verður heldur ekki fallist. Eins og fram kemur í héraðsdómi greindi ákærði lögreglu frá því, að hann hefði fíkniefni innan klæða, þegar hann var að því spurður, hvort hann hann hefði eitthvað í buxnavösum, eftir að lögregla hafði skoðað handfarangur hans. Kom þá í ljós það mikla magn af fíkniefninu MDMA, sem ákæra málsins lýtur að. Brot ákærða um vörslur fíkniefnanna var þá fullframið, en hann hefur játað að hafa ætlað þau til söludreifingar í Bandaríkjunum. Frásögn ákærða getur því ekki jafngilt afturhvarfi frá tilraun.

Ákærði andmælir því í þriðja lagi, að brot hans verði fellt undir 173. gr. a almennra hegningarlaga, enda sé engin sönnun komin fram um söluáform af hans hendi hér á landi. Íslensk refsilög standi ekki til þess að dæma fyrir brot, sem fremja hafi átt í öðru landi, sbr. 4. gr. laganna. Handhöfn fíkniefnanna ein og sér leiði þá til þess, að beita beri refsiákvæðum laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Enn er ekki unnt að samsinna ákærða um varnir. Í 2. mgr. 173. gr. a almennra hegningarlaga er það meðal annars lýst refsivert að hafa í vörslum sínum ávana- og fíkniefni í því skyni að láta þau mörgum mönnum í té eða afhenda gegn verulegu gjaldi eða á annan sérstaklega saknæman hátt, sbr. 1. mgr. Þetta ákvæði verður að skýra svo, að verknaðarlýsing þess taki ekki einungis til fyrirhugaðrar sölu eða afhendingar hér á landi heldur einnig í öðrum löndum, sem lýsa meðferð hættulegra ávana- og fíkniefna refsiverða, enda nær íslensk refsilögsaga samkvæmt 1. tl. 4. gr. laganna jafnframt til brota, sem beinast að erlendum hagsmunum.

Í allmörgum dómum Hæstaréttar á undanförnum árum hafa verið ákveðin þung refsiviðurlög vegna meðferðar á fíkniefninu MDMA hér á landi, en það hefur verið álitið eitt hið hættulegasta á fíkniefnamarkaði, sbr. H.1997.328. Í þessu máli er magn þessa fíkniefnis margfalt meira en áður hefur komið til kasta dómstóla. Eru engin efni til þess að hnika refsiákvörðun héraðsdóms, sbr. og 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Með þessum athugasemdum og annars með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað sakarinnar, eins og greinir í dómsorði.

                                             Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður, en til frádráttar refsivist ákærða, Fernando José Andrade, skal koma gæsluvarðhaldsvist hans frá 19. september 2000 með fullri dagatölu.

Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Vilhjálms Þórhallssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 7. nóvember 2000.

I.

Þetta mál, sem var dómtekið 26. október sl., er höfðað með ákæru Ríkissaksóknara, dagsettri 16. október sl. gegn Fernando Jose Andrade, fæddum 3. nóvember 1954, til heimilis að Saftlevenstraat 15a, Rotterdam, Hollandi, „fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, með því að hafa mánudaginn 18. september 2000 í biðsal flugstöðvar Keflavíkurflugvallar haft í vörslum sínum falið innanklæða samtals 14.292 töflur og 22.49 g af töflumulningi með fíkniefninu MDMA (3.4 metýlendíoxý-metamfetamíni), sem ákærði hugðist flytja til Bandaríkjanna og selja þar í ágóðaskyni.

Telst þetta varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. lög nr. 64, 1974.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Þá er þess krafist að ofangreind fíkniefni verði gerð upptæk, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 16, 1986.”

Við aðalmeðferð krafðist ákæruvaldið þess að ákærði yrði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað.

Ákærði krafðist aðallega sýknu af refsikröfu ákæruvalds. Til vara krafðist hann vægustu refsingar sem lög frekast leyfa. Þá gerði verjandi þá kröfu að honum yrðu dæmd hæfileg málsvarnarlaun að mati dómsins.

II.

Þann 18. september um kl. 15.10 millilenti ákærði á Keflavíkurflugvelli á leið sinni frá Amsterdam til New York. Vegabréf mannsins var tekið til sérstakrar skoðunar eftir vísbendingu starfsmanna Schiphol flugvallar í Hollandi, en þá grunaði að það væri falsað. Ákærði var þá órólegur og sáu starfsmenn Keflavíkurflugvallar ástæðu til að kalla til lögreglu. Ekkert reyndist athugavert við vegabréfið en ákærði var tekinn til frekari viðræðna og heimilaði hann lögreglu að skoða handfarangur sinn. Þegar hann var spurður að því hvort hann hefði eitthvað í buxnavösunum viðurkenndi hann strax að vera með 2000 Ecstasy-töflur innan klæða. Við athugun komu í ljós fimm pakkningar sem ákærði hafði troðið innan undir hjólabuxur sem hann klæddist undir síðbuxum sínum.

Við talningu og vigtun efnanna reyndust vera í pökkunum samtals 14.292 stykki af meintum Ecstasy-töflum og 22,49 grömm af meintum Ecstasy-mulningi. Sýni úr pökkunum voru send á Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfjafræði og var staðfest að sýnin innihéldu MDMA-klóríð. Í öðru sýninu voru 73 mg í hverri töflu en 106 mg í hverri töflu af hinu sýninu.

Við rannsókn málsins hjá lögreglu og við meðferð þess fyrir dómi viðurkenndi ákærði að hafa flutt til landsins þau fíkniefni sem tilgreind eru í ákæru. Ákærði kvaðst ekki vita hver ætti efnin.  Hann sagði að tveimur mánuðum áður en hann kom með efnin til landsins hefði hann séð mann henda ruslapoka í gám fyrir utan húsið þar sem hann byggi í Rotterdam. Hann hefði farið að athuga hverju væri verið að henda og hefði hann þá séð að þetta voru Ecstacy-töflur. Hann hafi því tekið pokann úr gáminum. Sagðist hann hafa þekkt töflurnar á Mitsubishimerki sem þrykkt er í þær. Ákærði kvaðst hafa ákveðið að fara með töflurnar til Bandaríkjanna þar sem hann hafi verið viss um að hann gæti selt þær þar en hann hefði verið atvinnulaus í fjögur ár. Hann kvaðst ekki hafa talið töflurnar en haldið að þær væru milli tvö og þrjú þúsund.

III.

Ákærði hefur játað sakargiftir og viðurkennt að hafa haft í vörslum sínum 14.292 töflur og 22,49 g af töflumulningi með fíkniefninu MDMA, sem hann hugðist flytja til Bandaríkjanna og selja þar í ágóðaskyni. Brot hans verður heimfært undir 2. mgr., sbr. 1. mgr. 173. gr. a  almenra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974.

Ákærði hefur ekki áður sætt refsingum sem hér skipta máli. Við ákvörðun refsingar verður litið til þess mikla magns hættulegra fíkniefna sem ákærði hafði í vörslum sínum. Refsing hans þykir hæfilega ákveðin 9 ára fangelsi. Frá refsingu ber að draga gæsluvarðhald hans frá 19. september 2000, samtals 51 dag.

Ákærði greiði allan sakarkostnað þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Þórhallssonar, hæstaréttarlögmanns, 210.000 krónur.

Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 16/1986 skulu gerðar upptækar 14.292 Esctacy-töflur (MDMA-klóríð) og 22,49 g af mulningi af sama fíkniefni.

Gunnar Aðalsteinsson, héraðsdómari, kvað upp þennan dóm.

DÓMSORÐ

Ákærði, Fernando José Andrade, sæti fangelsi í níu ár.

Ákærði greiði allan sakarkostnað þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Þórhallssonar, hæstaréttarlögmanns, 210.000 krónur.

Gera skal upptækar 14.292 Esctacy-töflur (MDMA-klóríð) og 22,49 g af Ecstacy-mulningi.