Hæstiréttur íslands
Mál nr. 326/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Lögbann
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. apríl 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 8. apríl 2016, þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins á Vesturlandi 13. nóvember 2015 um að synja kröfu sóknaraðila um lögbann. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir sýslumann að leggja á lögbann við því að varnaraðili láti úthlaupsrör fyrir skólp úr fráveitukerfi sínu liggja inn á lóðir sóknaraðila að Krókatúni 22 til 24 og Bakkatúni 30, Akranesi og óhreinsað skólp fljóta úr úthlaupsrörum sínum í Krókalóni inn á sömu lóðir sóknaraðila. Jafnframt krefst hann þess að varnaraðila verði gert að fjarlægja rör, lagnir, skólp, undirstöður og annað sem honum tilheyrir af framangreindum lóðum sóknaraðila og hreinsa skólp af lóðunum. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Grenjar ehf., greiði varnaraðila, Orkuveitu Reykjavíkur vatns- og fráveitu sf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 8. apríl 2016.
I.
Mál þetta var þingfest 1. desember sl. og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 18. mars sl. Sóknaraðili er Grenjar ehf., Bakkatúni 26, Akranesi, en varnaraðili er Orkuveita Reykjavíkur vatns- og fráveita, Bæjarhálsi 1, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á Vesturlandi frá 13. nóvember 2015 um að synja kröfu sóknaraðila um að lögbann verði lagt á samkvæmt lögbannsbeiðni, dags. 21. október 2015, í máli nr. 442/2015/000001. Jafnframt er þess krafist að lagt verði fyrir sýslumann að leggja á lögbann í málinu í samræmi við kröfur samkvæmt lögbannsbeiðni. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins.
Varnaraðili krefst þess að ákvörðun sýslumannsins á Vesturlandi frá 13. nóvember 2015, um að hafna kröfu sóknaraðila um lögbann, verði staðfest. Einnig krefst hann málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.
II.
Með beiðni til sýslumannsins á Vesturlandi, dags. 21. október 2015, krafðist sóknaraðili þess að lagt yrði lögbann við tilteknum afhöfnum varnaraðila. Nánar tiltekið var þess krafist að sýslumaður legði lögbann við því að varnaraðili: „1. Láti úthlaupsrör fyrir skólp úr fráveitukerfi sínu liggja inn á lóðir gerðarbeiðanda að Krókatúni 22-24 og Bakkatúni 30, Akranesi. Jafnframt að þér leggið fyrir gerðarþola, í tengslum við væntanlega lögbannsgerð, að hann fjarlægi rör, lagnir, skólp, undirstöður og annað sem honum tilheyrir af framangreindum lóðum gerðarbeiðanda auk þess að hreinsa skólp af lóðunum. 2. Láti óhreinsað skólp fljóta úr vestara úthlaupsröri sínu í Krókalóni, sem staðsett er á lóðum gerðarbeiðanda við Krókatún 22-24 og Bakkatún 30, Akranesi, inn á sömu lóðir gerðarbeiðanda. 3. Láti óhreinsað skólp fljóta úr austara úthlaupsröri sínu í Krókalóni, sem staðsett er fyrir utan lóð gerðarbeiðanda, inn á lóðir gerðarbeiðanda að Krókatúni 22-24 og Bakkatúni 30, Akranesi.“
Á mörkum lóðanna Bakkatúns 30 og Krókatúns 22-24 á Akranesi, sem báðar eru í eigu sóknaraðila, liggur úthlaupsrör fyrir skólp, svonefnt vesturrör, úr fráveitukerfi varnaraðila. Austan við þessar lóðir liggur og annað úthlaupsrör í eigu varnaraðila, svonefnt austurrör, en það liggur í steinstokk út í svokallað Krókalón. Kveðst sóknaraðili ekki hafa veitt varnaraðila heimild fyrir þessari skólplosun á lóðum sínum.
Með bréfi, dags. 24. mars 2015, fór sóknaraðili fram á það við varnaraðila að fyrrgreinda úthlaupsrörið, vesturrörið, yrði lengt svo að það næði út fyrir Krókslón, eða a.m.k. út fyrir þinglýsta eign hans, svo að úrgangur úr þeim skilaði sér ekki aftur í fjöruborðið á lóðum sóknaraðila. Með bréfi varnaraðila, dags. 15. apríl sama ár, var kröfu þessari hafnað. Í bréfinu kom fram að Orkuveita Reykjavíkur hefði tekið við rekstri fráveitunnar á Akranesi í ársbyrjun 2006 og hefði uppbygging á nýju fráveitukerfi, sem tengdist hreinsistöð við Kalmansvík, hafist á árinu 2008. Lægi fyrir að byggja þyrfti upp hluta lagnakerfisins, reisa dælu- og hreinsistöðvar og leggja útrásir í stað eldri lagna sem enduðu í fjöruborði. Hefði upphaflega verið gert ráð fyrir að framkvæmdum lyki fyrir árslok 2009, en því hefði nokkrum sinnum verið frestað, síðast með ákvörðun eigenda Orkuveitunnar á árinu 2011 í kjölfar fjármálahrunsins. Samkvæmt því væri nú miðað við að framkvæmdum þessum lyki í árslok 2016.
Með bréfi, dags. 24. mars 2015, sendi sóknaraðili kvörtun til Heilbrigðiseftirlits Vesturlands vegna vesturrörsins, með vísan til þess að frágangur fráveitukerfisins í Krókalóni uppfyllti engan veginn þau skilyrði sem slík kerfi þyrftu að lúta samkvæmt lögum nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna og reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp. Var þess krafist að heilbrigðisyfirvöld beittu sér fyrir því „að OR framlengi umrætt rör svo skólplosun eigi sér stað utan lónsins“.
Heilbrigðiseftirlit Vesturlands svaraði erindi sóknaraðila með bréfi, dags. 30. apríl 2015, og vísaði til þess að nefndin hefði tekið bréf sóknaraðila fyrir á fundi sínum hinn 27. apríl 2015. Kom fram að nefndin tæki undir áhyggjur sóknaraðila og að samþykkt hefði verið eftirfarandi bókun af því tilefni: „Heilbrigðisnefnd telur að umrædd útrás í Krókalóni sé ekki í samræmi við ákvæði laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna og reglugerðar nr. 798/1999 um fráveitur og skólp. Nefndin leggur til við OR að flýta framkvæmdum við varanlega lausn á fráveitumálum við Krókalón og finni aðra lausn í samráði við lóðareiganda þar til fullnaðar framkvæmdum verði lokið.“
Í kjölfar þessa sendi Heilbrigðiseftirlit Vesturlands bréf til varnaraðila, dags. 4. maí 2015, þar sem upplýst var um framangreinda samþykkt og óskað svars varnaraðila vegna hennar. Þar sem því bréfi mun ekki hafa verið svarað sendi nefndin ítrekunarbréf til varnaraðila, dags. 10. september 2015.
Varnaraðili svaraði framangreindu erindi Heilbrigðiseftirlitsins með bréfi, dags. 23. október 2015, og skýrði þar sína hlið málsins á svipaðan veg og í framangreindu bréfi til sóknaraðila.
III.
Sóknaraðili kveðst eiga ríka hagsmuni af því að varnaraðili láti af þeirri háttsemi sinni að láta úthlaupsrör fyrir skólp úr fráveitu sinni liggja inni á lóðum sóknaraðila og að veita óhreinsuðu skólpi, þ.e. mannasaur úr þúsunda manna byggð, úr því úthlaupsröri og öðru úthlaupsröri, sem staðsett sé í Krókalóni, inn á lóðir sóknaraðila.
Sóknaraðili byggir kröfur sínar á því að úrlausn sýslumannsins á Vesturlandi fáist ekki staðist með neinu móti og sé niðurstaða hans í brýnni andstöðu við einfalda orðskýringu ákvæðis 24. gr. laga nr. 31/1991 um kyrrsetningu, lögbann, o.fl. Í framangreindu lagaákvæði segi að lögbann megi leggja við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn sem gerðarbeiðandi sanni eða gerir sennilegt að brjóti gegn lögvörðum rétti hans og jafnframt að réttindi hans muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau. Á því sé byggt að öll skilyrði ofangreinds lagaákvæðis séu uppfyllt og hafi sýslumanni því verið rétt að taka lögbannsbeiðni sóknaraðila til greina.
Sóknaraðili telji þannig í fyrsta lagi að sú athöfn sem hann krefjist að lögbann verði lagt við sé byrjuð. Sé hvað það varði vísað til áðurgreindra bréfa Heilbrigðiseftirlits Vesturlands til varnaraðila og fyrirliggjandi ljósmynda, sem staðfesti bæði legu umþrættrar útrásar á lóðum sóknaraðila sem og ólögmæta losun óhreinsaðs skólps inn á þær. Fyrir liggi og að varnaraðili hafi viðurkennt framangreinda háttsemi, annars vegar í tölvubréfi til fulltrúa sýslumanns hinn 11. nóvember 2015 og hins vegar í svarbréfi til Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, dags. 23. október 2015.
Sóknaraðili telji og að athafnir varnaraðila brjóti gegn lögvörðum rétti hans, einkum eignarrétti. Sóknaraðili sé þinglýstur eigandi lóðanna Krókatúns 22-24, landnúmer 131701, og Bakkatúns 30, landnúmer 131704, og njóti eignarréttur hans verndar skv. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944. Óumdeilt sé að vestara úthlaupsrör varnaraðila liggi inni á framangreindum lóðum sóknaraðila. Óhreinsuðu skólpi sé veitt úr því úthlaupsröri, sem og úr eystra úthlaupsröri, sem jafnframt liggi út í Krókalónið, inn á lóðir sóknaraðila. Fyrir liggi að opinberir eftirlitsaðilar hafi gert alvarlegar athugasemdir við þessa háttsemi varnaraðila, sbr. ítrekuð bréf Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, en varnaraðili hafi látið þær athugasemdir sem vind um eyru þjóta. Í svarbréfi varnaraðila til Heilbrigðiseftirlitsins hinn 23. október 2015 komi fram að fyrirtækið muni halda áfram að veita óhreinsuðu skólpi inn á lóðir varnaraðila, í trássi við ákvæði laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna og reglugerð nr. 789/1999, þar sem fyrirtækið telji að það sé „óskynsamleg nýting á fjármunum“ að ráðast strax í framkvæmdir til þess að bæta úr athugasemdum Heilbrigðiseftirlitsins.
Sú staðreynd að lögbrot varnaraðila hafi staðið yfir lengi geti ekki réttlætt synjun sýslumanns á lögbannsbeiðninni. Varnaraðila sé í lófa lagið að hætta hinni ólögmætu háttsemi en það hafi hann ekki gert, einkum vegna þess að hann telji það kosta sig of mikla fjármuni að flýta framkvæmdum á staðnum. Sóknaraðili telji þau rök ekki standast, enda séu hagsmunir sóknaraðila af því að óhreinsuðu skólpi sé ekki veitt á lóðir hans ríkari en fjárhagslegir hagsmunir varnaraðila, sem sé stórfyrirtæki. Sóknaraðili bendi í þessu sambandi á að varnaraðili stundi ekki viðlíka lögbrot á öðrum þéttbýlisstöðum, en samkvæmt upplýsingum frá varnaraðila sé Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur ávallt tilkynnt ef losun á óhreinsuðu skólpi í Reykjavík varir lengur en í fjórar klukkustundir.
Á það sé bent að þótt varnaraðili hafi um árabil brotið lög með skólplosun sinni í Krókalón þá eigi það ekki að leiða til þess að sóknaraðili sé sviptur rétti til að nýta sér lögboðin úrræði eins og lögbann til þess að fá hina ólögmætu háttsemi varnaraðila stöðvaða. Fráleitt sé að sóknaraðili hafi sýnt af sér einhvers konar tómlæti vegna athafna varnaraðila. Þegar umþrætt lögbannsbeiðni hafi verið lögð fram hafi fasteignirnar Bakkatún 30 og Krókatún 22-24 einungis verið í eigu sóknaraðila í rétt um fjögur ár. Allan þann tíma hafi hann haldið á lofti kröfum gegn varnaraðila og m.a. krafist þess að hann fjarlægði vestara úthlaupsrör sitt af lóðum sóknaraðila, sem og að hann léti af þeirri ólögmætu háttsemi að veita óhreinsuðu skólpi inn á lóðirnar.
Sóknaraðili telji augljóst að réttindi hans fari forgörðum eða verði fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau. Fyrir liggi að varnaraðili hafi viðurkennt lögbrot. Fái varnaraðili að halda lögbrotum sínum áfram á meðan sóknaraðili bíði dóms um réttindi sín sé ljóst að varnaraðili mun baka honum verulegt tjón, sem felist annars vegar í óafturkræfu umhverfistjóni og hins vegar ófjárhagslegu tjóni vegna álitshnekkis sem sóknaraðili kunni að verða fyrir, en á umræddum fasteignum hans sé framleiddur ýmis háþróaður búnaður til matvælavinnslu, sem seldur sé um víða veröld. Sóknaraðili ítreki að varnaraðili hafi þráskallast við að fara að samþykktum Heilbrigðiseftirlits Vesturlands um úrbætur og telji hann að ekki sé hægt að treysta því að varnaraðili muni ráðast í úrbætur fyrir árslok 2016, eins og hann hafi lofað. Í því sambandi sé bent á að móðurfélag varnaraðila hafi áður lofað úrbótum fyrir lok árs 2009 en við það loforð hafi ekki verið staðið.
IV.
Varnaraðili vísar til þess að ástandið á fráveitulögnum í og við Krókalón á Akranesi sé eins og það hafi verið í áratugi. Lögbann sé í eðli sínu úrræði til að koma í veg fyrir yfirvofandi tjón. Í athugasemdum með frumvarpi því sem orðið hafi að lögum nr. 31/1990 komi fram að frumvarpinu sé fyrst og fremst ætlað að kveða á um heimildir til bráðabirgðaverndar réttinda, sem ekki verði þegar fullnægt með aðför, með því að tryggja að óbreytt ástand vari meðan aflað sé úrlausnar dómstóla um þau.
Lögbanni sé samkvæmt því ekki ætlað að stöðva ástand sem varað hafi í áratugi, heldur þvert á móti að tryggja óbreytt ástand. Hinar umdeildu lagnir hafi verið í notkun í áratugi og muni víkja á næsta ári. Því sé ekkert sem kalli á að lagt verði lögbann við notkun þeirra nú eða að þær verði fjarlægðar. Skilyrði laga nr. 31/1990 fyrir lögbanni séu því ekki fyrir hendi að mati varnaraðila.
Lagnirnar þjóni fjölda íbúa Akraness og því séu almannahagsmunir í húfi, sem hljóti að ganga framar einkahagsmunum gerðarbeiðanda. Hagsmunir varnaraðila séu samofnir hagsmunum íbúanna í ljósi hlutverks varnaraðila á svæðinu. Því telji varnaraðili sýnt að stórfelldur munur sé á hagsmunum varnaraðila annars vegar, af því að fá að nýta umræddar fráveitulagnir þar til þær verði leystar af hólmi á næsta ári, og hins vegar hagsmunum sóknaraðila af því að losna við þær strax. Því eigi undanþáguákvæði 2. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 við í því tilviki sem hér um ræði.
Varnaraðili fari með lögbundin verkefni sveitarfélags skv. ákvæðum laga nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitu á Akranesi, sbr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. laganna. Því eigi undantekningarákvæði 2. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 sannarlega við í þessu tilviki. Varnaraðili stundi enga starfsemi aðra en uppbyggingu og rekstur fráveitu skv. lögum nr. 9/2009 og vatnsveitu skv. lögum nr. 32/2004. Það sé því af og frá, sem fram komi í aðfararbeiðni, að varnaraðili stundi samkeppnisrekstur af einhverju tagi.
Hafnar séu umfangsmiklar framkvæmdir við fráveitukerfi á Akranesi og hafi framkvæmdir við hreinsistöð og útrás, sem leysa muni lagnir við Krókalón af hólmi, verið settar í forgang vegna mótmæla sóknaraðila. Á næsta ári muni framkvæmdum ljúka og fráveitumál á Akranesi þá verða í fullu samræmi við kröfur laga og reglugerða um fráveitur og skólp. Gerð sé grein fyrir framkvæmdunum og stöðu þeirra í fyrirliggjandi bréfi til Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, dags. 23. október sl.
Varnaraðili hafi þegar boðið sóknaraðila að framlengja fráveitulögn út fyrir lóð hans, svo sem lóðamörkin séu skilgreind í afsali fyrir eigninni, eins og gerð hafi verið krafa um í bréfi lögmanns sóknaraðila til Orkuveitu Reykjavíkur hinn 24. mars 2015, sbr. og tölvupóstsamskipti lögmanna varnaraðila og sóknaraðila 22. maí og 12. júní sl. Sóknaraðili hafi hafnað því boði varnaraðila.
V.
Í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 segir að lögbann megi leggja við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn einstaklings eða fyrirsvarsmanns félags eða stofnunar ef gerðarbeiðandi sannar eða gerir sennilegt að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans, að gerðarþoli hafi þegar hafist handa um athöfnina eða muni gera það og að réttindi hans muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau.
Óumdeilt er að hinar umdeildu lagnir hafa verið í notkun í áratugi. Í 1. gr. laga nr. 31/1990 segir meðal annars að samkvæmt fyrirmælum laganna megi til bráðabirgða leggja lögbann við athöfn. Í athugasemdum með þessu ákvæði í greinargerð með lögunum segir að með þessu sé skírskotað til þess að slíkum gerðum sé ætlað að tryggja að óbreytt ástand haldist meðan leyst sé endanlega úr um réttindi aðila í dómsmáli. Lögbanni er því ekki ætlað að aflétta ástandi sem varað hefur í áratugi, eins og hér um ræðir, heldur þvert á móti að tryggja óbreytt ástand.
Með hliðsjón af framangreindu, og þar sem sóknaraðili hefur ekki gert líklegt að réttindi hans muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum þótt beðið verði dóms um þau, verður að hafna kröfum sóknaraðila í máli þessu. Samkvæmt því verður staðfest sú ákvörðun sýslumannsins á Vesturlandi frá 13. nóvember 2015 að hafna kröfu sóknaraðila um lögbann.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 300.000 krónur í málskostnað.
Úrskurð þennan kveður upp Ásgeir Magnússon dómstjóri.
Úrskurðarorð:
Staðfest er ákvörðun sýslumannsins á Vesturlandi 13. nóvember 2015 um að synja kröfu sóknaraðila, Grenja ehf., um lögbann.
Sóknaraðili greiði varnaraðila, Orkuveitu Reykjavíkur vatns- og fráveitu sf., 300.000 krónur í málskostnað.