Hæstiréttur íslands

Mál nr. 568/2015

Sigurjón Þorkelsson (Björn L. Bergsson hrl.)
gegn
Bakstri og veislu ehf. (Jón R. Pálsson hrl.)

Lykilorð

  • Ráðningarsamningur
  • Kjarasamningur
  • Laun
  • Tómlæti
  • Málsástæða
  • Aðfinnslur

Reifun

Ráðningarsamningur. Kjarasamningur. Laun. Tómlæti. Málsástæða. Aðfinnslur. S réði sig til starfa í bakaríi B ehf. í maí 2012 og starfaði þar uns hann lét af störfum í lok júlí 2013. Í málinu krafðist S þess að B ehf. yrði gert að greiða sér mismun á launum sem S hefði annars vegar borið að fá sem menntaður bakari og þeim launum sem hann fékk greidd frá B ehf. og tóku mið af því að hann hefði verið ráðinn til almennra verkamannastarfa. Í dómi Hæstaréttar kom fram að B ehf. yrði að bera hallan af sönnun um efni ráðningarsambandsins þar sem ekki hefði verið gerður skriflegur ráðningarsamningur við S eins og skylt væri samkvæmt gildandi kjarasamningi, sbr. og tilskipun Evrópusambandsins nr. 91/533/EBE. Þegar litið væri til menntunar S, tilgreiningar á launaseðli hans um starf bakara, svo og að forsvarsmönnum B ehf. hefðu ekki auðnast í skýrslugjöf fyrir dómi að útlista með trúverðugum hætti þann grundvallarmun sem væri á starfssviði bakara annars vegar og aðstoðarmanna þeirra hins vegar, hafði B ehf. ekki tekist að sanna að S hefði verið ráðinn til almennra verkamannastarfa. Var B ehf. því gert að greiða S umkrafða launakröfu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. ágúst 2015. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 2.053.737 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. ágúst 2013 til greiðsludags. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður verði látinn niður falla.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

I

Áfrýjandi, sem er með sveinspróf í bakaraiðn, hóf störf í bakaríi stefnda í Vestmannaeyjum í maí 2012 og starfaði þar uns hann lét af störfum um mánaðamót  júlí/ágúst 2013. Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur. Á launaseðlum áfrýjanda á umræddu tímabili er tilgreint að um dagvinnu bakara sé að ræða en þar kemur jafnframt fram að til frádráttar komi gjöld sem innt séu af hendi til stéttarfélagsins Drífanda. Óumdeilt er að vorið 2013 ræddi áfrýjandi launamál sín við framkvæmdastjóra stefnda. Kröfum áfrýjanda um kjarabætur var hafnað og í framhaldinu varð að samkomulagi þeirra framkvæmdastjórans að áfrýjandi léti af störfum hjá stefnda eftir þjóðhátíð um sumarið. Þegar til kom hætti áfrýjandi þó í vikunni fyrir þjóðhátíð. Með bréfi MATVÍS, fyrir hönd áfrýjanda, 20. nóvember 2013 voru hafðar uppi kröfur á hendur stefnda um mismun þeirra launa sem áfrýjandi fékk greidd á starfstímanum og launa bakara samkvæmt kjarasamningi MATVÍS og Samtaka atvinnulífsins. Þeirri kröfu höfnuðu Samtök atvinnulífsins í bréfi, fyrir hönd stefnda, 3. desember 2013. Höfðaði áfrýjandi mál þetta til heimtu kröfu sinnar í nóvember 2014.

Ágreiningur aðila stendur um inntak ráðningarsambands þeirra. Áfrýjandi byggir á því að honum hafi borið að taka laun sem bakara í samræmi við tilvitnaðan kjarasamning MATVÍS og Samtaka atvinnulífsins en stefndi heldur því fram að áfrýjandi hafi verið ráðinn til almennra verkamannastarfa og notið réttinda sem slíkur á grundvelli kjarasamnings Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins auk þess sem hann telur sig eiga gagnkröfu til skuldajafnaðar vegna ætlaðs ólögmæts brotthlaups áfrýjanda úr starfi.

II

Fyrir Hæstarétti hefur stefndi teflt fram þeirri nýju málsástæðu að útreikningur áfrýjanda á launakröfu sinni á grundvelli kjarasamnings MATVÍS og Samtaka atvinnulífsins sé rangur og of hár og vísar þar um til nánar tilgreindra annmarka. Þessi málsástæða stefnda fær ekki komist að fyrir Hæstarétti, enda standa ekki til þess skilyrði 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III

Fyrir liggur að ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur með aðilum en á stefnda hvíldi kjarasamningsbundin skylda til þess að gera slíkan samning, sem aftur byggir á auglýsingu nr. 503/1997 um gildistöku tilskipunar Evrópusambandsins nr. 91/533/EBE frá 14. október 1991 um skyldu vinnuveitanda að skýra launþegum frá samningsskilmálum eða ráðningarfyrirkomulagi. Af þeim ástæðum verður stefndi að bera hallan af skorti á sönnun um efni ráðningarsambandsins. Þegar litið er til menntunar áfrýjanda sem bakara, að á launaseðlum hans var jafnan tilgreind dagvinna bakara, sem og að forsvarsmönnum stefnda auðnaðist ekki í skýrslugjöf fyrir héraðsdómi að útlista með trúverðugum hætti þann grundvallarmun sem væri á starfssviði bakara annars vegar og aðstoðarmanna þeirra hins vegar hefur stefnda ekki tekist að sanna að áfrýjandi hafi verið ráðin til almennra verkamannastarfa í bakaríi hans. Verður þvert á móti lagt til grundvallar að áfrýjandi hafi verið ráðinn sem bakari og að um starfskjör hans hafi gilt kjarasamningur MATVÍS og Samtaka atvinnulífsins. Þá er óumdeilt að vorið 2013 áttu áfrýjandi og framkvæmdastjóri stefnda viðræður um launakjör þess fyrrnefnda sem ekki náðist samkomulag um að bæta og lét hann af þeim sökum og að beggja ráði af störfum þá um sumarið. Verður sýknukrafa stefnda því ekki heldur reist á ætluðu aðgerðarleysi af áfrýjanda hálfu. Með vísan til þess sem að framan greinir um of seint fram komin mótmæli stefnda við hinni tölulegu kröfugerð verður dómkrafa áfrýjanda tekin til greina að fullu og með dráttarvöxtum eins og krafist er en við vaxtakröfu eru engar athugasemdir gerðar af hálfu stefnda.

Hvað sem öðru líður er gagnkrafa sú sem stefndi hefur haft uppi til skuldajafnaðar vanreifuð en krafan virðist samkvæmt framsetningu sinni bundin við skuldajöfnuð við ógreidda orlofs- og desemberuppbót áfrýjanda og er þar að auki órökstudd tölulega. Kemur hún því ekki til álita til lækkunar dómkröfu áfrýjanda.     

Eftir þessum úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Í hinum áfrýjaða dómi voru málavextir reifaðir eins og þeir horfðu við frá sjónarhóli hvors málsaðila um sig. Þessi háttur á samningu dóms er í andstöðu við d. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, en þar segir að í dómi skuli greina stutt yfirlit um atvik að baki máli og ágreiningsefni í því. Er þetta aðfinnsluvert.

Dómsorð:

Stefndi, Bakstur og veisla ehf., greiði áfrýjanda, Sigurjóni Þorkelssyni, 2.053.737 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. ágúst 2013 til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 2. júní 2015.

           Mál þetta, sem dómtekið var 9. apríl sl., er höfðað með stefnu þingfestri 13. nóvember sl.

            Stefnandi er Sigurjón Þorkelsson, kt. [...], Hólagötu 8, Vestmannaeyjum.

            Stefndi er Bakstur og veisla ehf., kt. [...], Hólagötu 28, Vestmannaeyjum.

            Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 2.053.737 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. ágúst 2013 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt reikningi.

            Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara er þess krafist að krafan verði lækkuð verulega. Jafnframt er gerð gagnkrafa að upphæð 215.000 krónur til skuldajafnaðar við ógreidda orlofs- og desemberuppbót vegna bótaskyldu stefnanda vegna brotthlaups. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Málavextir.

                Stefnandi lýsir málavöxtum svo að stefndi reki bakarí í Vestmannaeyjum ásamt því að starfrækja kaffihúsið Vinaminni. Hafi stefnandi starfað í þágu stefnda sem bakari frá því í maí 2012 og út júlímánuð árið 2013. Um sé að ræða kröfu stefnanda á hendur stefnda um greiðslu vangoldinna launa og launatengdra gjalda á starfstíma hans hjá stefnda.  Stefnandi kveðst vera með sveinsbréf í bakaraiðn frá árinu 1998. Fyrsti launaseðill sem stefndi hafi gefið út vegna starfa stefnanda sé dagsettur 31. maí 2012 og sé  hann sagður vegna starfa stefnanda sem bakara vegna launatímabilsins 26. apríl til 25. maí sama ár. Fram komi á launaseðlum frá stefnda að um sé að ræða laun vegna dagvinnu bakara og yfirvinnu. Á meðal frádráttarliða á launaseðlum séu iðgjöld í stéttarfélagið Drífanda í Vestmannaeyjum, en stefnanda sé ekki kunnugt um ástæðu þess. Þá sé getið annarra launatengdra gjalda vegna stefnanda og telur stefnandi ágreiningslaust að kjarasamningur MATVÍS og Samtaka atvinnulífsins frá 17. febrúar 2008 með áorðnum breytingum og viðaukasamningum hafi tekið til stefnanda. Aldrei hafi verið gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda þrátt eftirgangsmuni og loforð þar að lútandi við upphaf starfa hans, en umsamið hafi verið að gengið yrði frá skriflegum samningi um ráðningu hans eftir að stefnandi hefði starfað hjá félaginu í þrjá mánuði svo sem skylda beri til skv. kafla  1.8. í áðurgreindum kjarasamningi. Stefnandi kveðst áður hafa starfað hjá stefnda sem almennur starfsmaður, eða á árunum 1996-1997 áður en hann lauk sveinsprófi sínu árið 1998. 

Stefnandi kveðst hafa orðið þess áskynja vorið 2013 að launakjör hans hafi ekki verið í samræmi við kjarasamning MATVÍS og SA. Hafi hann gert athugasemdir við það við stefnda og átt í nokkrum viðræðum við hann. Hafi það endað með því að stefnandi hafi látið af störfum um mánaðamótin júlí/ágúst 2013 vegna ósættis í tengslum við launakjör sín sem hann hafi talið langt undir lágmarkslaunum faglærðs bakara. Stefnandi kveður starfslok sín hafa verið í samráði við yfirmann hans. 

Stefnandi kveður að allan ráðningartíma sinn hafi verið greidd félagsgjöld vegna hans í stéttarfélagið Drífanda í Vestmannaeyjum af hálfu stefnda, af ókunnum ástæðum, þrátt fyrir að stefnandi væri með sveinspróf í bakaraiðn og hefði með réttu átt að vera félagsmaður í MATVÍS, félagi iðnaðarmanna í matvæla og veitingagreinum; bakara, kökugerðarmanna, framreiðslumanna, kjötiðnaðarmanna o.fl. sem sjái um gerð kjarasamninga fyrir hönd bakara. Þegar ráðningarsambandi stefnanda og stefnda hafi lokið hafi stefnandi snúið sér til Drífanda stéttarfélags sem þegar í stað hafi vísað honum til MATVÍS sem gætt hafi hagsmuna stefnanda.  Stefnda hafi verið send launakrafa stefnanda með bréfi MATVÍS dags. 20. nóvember 2013 og hafi því bréfi verið svarað 3. desember sama ár. Stefndi hafi alfarið hafnað greiðsluskyldu og því hafi stefnanda verið nauðugur sá kostur að höfða mál þetta.

Stefndi lýsir því hins vegar að stefnandi hafi verið ráðinn til almennra verkamannastarfa í matvælaiðnaði hjá stefnda eftir að hafa ítrekað sóst eftir vinnu. Hafi verið alveg skýrt að um kjör stefnanda færi eftir kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins. Hafi stefnandi tekið við launaseðli um hver mánaðamót athugasemdalaust og engar athugasemdir gert um launakjör fyrr en undir lok starfstíma hans. Stefnandi hafi nokkru áður en hann hafi látið af störfum óskað eftir launahækkun en ekki hafi verið hægt að verða við því. Engin krafa hefði komið fram frá stefnanda um að kjör hans tækju mið af kjarasamningi Matvís og SA og þá hafi stefnandi aldrei lagt fram nein gögn um að hann hefði lokið námi í bakaraiðn og hefðu forsvarsmenn stefnda enga vitneskju haft um það.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi telur sig eiga rétt á leiðréttingu launa frá upphafi starfstíma síns sem bakara í bakaríi  stefnanda eða frá maí 2012 til og með júlí 2013, leiðréttingu orlofsgreiðslna á starfstímanum, sem og greiðslu vangoldinnar orlofsuppbótar vegna áranna 2012 og 2013, auk hlutfallslegrar desemberuppbótar vegna ársins 2013. Stefnandi byggir fjárhæð krafna sinna á útreikningi frá MATVÍS, en reiknað sé út frá mismuni þeirra launa sem stefnanda hafi verið greidd vegna framangreindra mánaða annars vegar skv. útgefnum launaseðlum og þeirra launa sem honum hafi borið með réttu samkvæmt kjarasamningi MATVÍS og SA hins vegar.  Sé gerð krafa um greiðslu á mismun þess sem vanti upp á réttar efndir launa stefnanda samkvæmt kjarasamningi MATVÍS og SA og þess sem hann hafi fengið greitt úr hendi vinnuveitanda síns á starfstímanum skv. útreikningum á launaseðlum. Viðmiðunarfjárhæðir sem séu grundvöllur kröfu stefnanda byggi á gildandi launatöflum MATVÍS sem lagðar séu fram í málinu.

Á starfstíma stefnanda hafi honum verið greidd laun og orlof samkvæmt framlögðum launaseðlum á dómskjölum og hafi verið tekið mið af þeim greiðslum til frádráttar kröfunni.

Stefnandi sundurliðar kröfu sína með eftirfarandi hætti:

Vangoldin laun – mismunur greiddra                         

launa og umsaminna launa:                                                           kr.    1.674.512,- 

Vangoldin desemberuppbót vegna 2013:                    kr.         32.417,-

Vangoldið orlof sem bar að halda eftir 11,59%         kr.       313.268,-

Vangoldin orlofsuppbót:                                                 kr.         33.540,-

Stefnandi krefst greiðslu á vangoldnum launum fyrir vinnu sína í bakaríi  stefnanda frá maí 2012 til og með júlí 2013 og byggir á því að hún sé í samræmi við þágildandi launatöflur MATVÍS. Samkvæmt gildandi launatöflu frá 1. febrúar 2012 skyldu laun starfsmanna með sveinsréttindi og sjö ára starfsreynslu fyrir dagvinnutíma nema 1.773 krónum, laun vegna yfirvinnu skyldu nema 3.192 krónum á tímann og laun á stórhátíðardögum 4.226 krónum á tímann. Samkvæmt gildandi launatöflu frá 1. febrúar 2013 skyldu laun vegna sömu aðila nema 1.846 krónum fyrir dagvinnutíma og laun vegna yfirvinnu 3.323 krónum sbr. kjarasamning Samtaka atvinnulífsins og MATVÍS og framlagt yfirlit yfir gildandi launatöflu frá 1. febrúar 2012 og þær hækkanir sem orðið hafi frá og með 1. febrúar 2013, sbr. framlagða launatöflu.

Stefnandi byggir á því að líkt og útgefnir launaseðlar beri með sér hafi  launagreiðslur til stefnanda ekki verið í samræmi við gildandi kjarasamning og launatöflur en aldrei hafi verið gerður skriflegur ráðningarsamningur þrátt fyrir ótvíræða skyldu stefnda til að hlutast til um gerð hans, sbr. grein 1.8. í kjarasamningi SA og MATVÍS. Hafi laun stefnanda verið langt undir lágmarkskjörum bakara á tilgreindu tímabili en mánaðarlaun hans virðast hafa verið miðuð við laun verkamanna skv. kjarasamningi SA og Starfsgreinasambandsins.

Af hálfu stefnanda er af þeim sökum gerð krafa um greiðslu á 1.674.512 krónum, eða mismun þeirra launa sem honum réttilega hafi borið og útgreiddra launa samkvæmt eftirfarandi töflu:

 

 

               Krafa stefnanda vegna vangreidds orlofs er reiknuð miðað við 11,59% af þeim launum sem honum hafi borið með réttu vegna apríl/maí 2012 til og með júlí 2013 samkvæmt yfirliti hér að framan, sbr. eftirfarandi töflu: 

 

Krafa stefnanda vegna þessa kröfuliðar í stefnu sé samtals 313.268 krónur, eða rétt fjárhæð 852.301 krónur, allt að frádregnum þeim greiðslum vegna orlofs sem hann hafi móttekið. Orlof hafi verið dregið af launum stefnanda hjá stefnda, líkt og fram komi á launaseðlum, en ekki greitt inn á bankareikning sem þar sé tilgreindur, heldur haldið eftir hjá launagreiðanda og fjárhæðin greidd honum í einu lagi með millifærslu vegna tíu mánaða í senn. Þá virðist orlof hafa verið greitt út með launum síðustu þrjá mánuði stefnanda í starfi samkvæmt launaseðlum. Slíkt fyrirkomulag hafi ekki verið rætt og því aldrei samþykkt af hálfu stefnanda og fari í bága við ákvæði orlofslaga og kjarasamninga, sbr.  2. mgr. 7. gr. laga nr. 30/1987 um orlof og grein 4.1.1 í kjarasamningi MATVÍS og SA. Þá hafi orlofsprósenta verið röng, 10,17% í stað 11,59% en stefnandi hafði áunnið sér rétt til 27 daga orlofs. Orlofsfé hafi ekki verið lagt inn á bankareikning þann er tilgreindur sé á framlögðum launaseðlum, heldur hafi það verið greitt í einu lagi með millifærslu inn á reikning stefnanda, án verðbóta og vaxta. Þá hafi orlofsgreiðslum verið ranglega bætt við heildarlaunagreiðslur til stefnanda í júlí og ágúst 2013 og orlof því greitt út í stað þess að því yrði haldið eftir. Skv. 8. gr. orlofslaga nr. 30/1987 beri vinnuveitanda að greiða áunnin orlofslaun við lok ráðningartímans. Um sé að ræða kröfu stefnanda um greiðslu mismunar þess orlofs sem honum hafi verið greitt af hálfu stefnda og þess orlofs sem honum hafi borið og sé fjárhæð orlofskröfu miðuð við 11,59% af þeim heildarlaunum sem honum hafi borið með réttu frá upphafi til loka starfstíma. Kröfu um greiðslu orlofs byggir stefnandi á ákvæðum kjarasamnings Matvís vegna aðildarfélaga annars vegar og Samtaka atvinnulífsins hins vegar frá 24. apríl 2004 með áorðnum breytingum, einkum kafla 4.1. Þar segi m.a. að orlofstímabil hefjist 1. maí ár hvert. Almennt orlof sé 24 dagar, sbr. lög um orlof nr. 30/1987. Þá reiknist orlofsfé af öllum launum, að lágmarki 10,17% af heildarlaunum, m.v. að launamaður eigi rétt til 24 daga orlofs. Stefnandi hafi áunnið sér rétt til 27 daga orlofs þar sem hann hafi starfað meira en þrjú ár í iðninni og beri því að reikna honum 11,59% orlof af heildarlaunum, sbr. ákvæði 4.1.1. í kjarasamningi.

                Kröfu um greiðslu desemberuppbótar reisir stefnandi á fyrirmælum í gildandi kjarasamningi, kafla 1.7.1. í kjarasamningi MATVÍS og SA. Segi þar að starfsmenn sem hafi verið í fullu starfi allt árið í sama fyrirtæki og séu við störf í fyrirtækinu í síðustu viku nóvembermánaðar eða fyrstu viku desember, skuli eigi síðar en 15. desember ár hvert fá greidda sérstaka eingreiðslu, desemberuppbót, sem verið hafi 52.100 krónur fyrir fullt starf árið 2013. Miðað við að stefnandi hafi verið við störf frá janúar 2013 og út júlímánuð sama ár, teljist hann hlutfallslega eiga rétt á 63% desemberuppbót vegna ársins 2013, eða 32.417 krónum (28/45 * 52.100). Samkvæmt kjarasamningi skuli gera upp áunna desemberuppbót samhliða starfslokum verði þau fyrir gjalddaga uppbótanna, sbr. gr. 1.7.3., gildandi kjarasamnings MATVÍS og SA.

Kröfu um greiðslu orlofsuppbótar styður stefnandi við fyrirmæli í gildandi kjarasamningum, kafla 1.7.3. í kjarasamningi Matvís og SA. Segi þar m.a. að á orlofsárinu sem hefjist 1. maí árið 2012 verði orlofsuppbót fyrir fullt starf 27.800 krónur, en fullt starf í þessu sambandi teljist 45 unnar vikur eða meira, fyrir utan orlof, en greiða skuli hlutfallslega miðað við starfshlutfall og starfstíma. Samkvæmt kjarasamningi skuli gera upp áunna orlofsuppbót samhliða starfslokum verði þau fyrir gjalddaga uppbótanna, sbr. gr. 1.7.3. í gildandi kjarasamningi. Miðað við að stefnandi hafi hafið störf í maí 2012 og unnið allt fram til ágúst 2013, teljist hann eiga rétt á fullri orlofsuppbót vegna ársins 2012 (27.800 krónur) og hlutfallslega eiga rétt á 20% af fullri orlofsuppbót vegna orlofsársins sem hafi hafist þann 1. maí 2013, eða 5.740 krónur, alls 33.540 krónur.

Stefnandi byggir á því að stefndi hafi vanefnt bindandi ráðningarsamning við stefnanda með því að greiða honum ekki laun í samræmi við gildandi kjarasamning og uppfylla aðrar samningsskyldur sínar svo sem greiðslu orlofs að fullu í samræmi við áunninn rétt, sem og greiðslu orlofsuppbótar samkvæmt lögum og kjarasamningi. Samkvæmt framangreindum réttarheimildum og samningum sé greiðsluskylda stefnda ótvíræð. Stefnandi byggir kröfur sínar á framlögðum gögnum, útgefnum launaseðlum vegna þess tímabils sem um ræði, september 2012 til og með júlí 2013 sem og ákvæðum gildandi kjarasamnings milli MATVÍS og Samtaka atvinnulífsins frá 24. apríl 2004 með áorðnum breytingum, nú síðast í maí 2011. Þá er byggt á almennum meginreglum vinnu-, samninga og kröfuréttar um ábyrgð manna á skuldbindingum sínum og að laun beri að greiða í samræmi við umsamda launataxta skv. gildandi ráðningar og/eða kjarasamningi. Um réttindi stefnanda er einkum vísað til kafla 1.7.1, 1.7.3 og 1.8. kjarasamnings MATVÍS og SA. Jafnframt er vísað til laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks, einkum 1. gr., laga nr. 30/1987 um orlof, aðallega 1., 7. og 8. gr. og laga nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups. Krafa um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 129. gr. og 1. mgr. 130. gr.  Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi III. og V. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu með síðari breytingum.

Málsástæður og lagarök stefnda.

             Stefndi byggir á því að samkvæmt munnlegum ráðningarsamningi aðila hafi borið að fara eftir kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins að því er kjör stefnanda hjá stefnda varðaði, enda hafi stefndi verið ráðinn til starfa sem aðstoðarmaður bakara sem ekki hafi krafist fagmenntunar. Hafi tveir lærðir bakarar starfað í fyrirtæki stefnda þegar stefnandi hafi verið ráðinn og á starfstíma hans hafi sá þriðji bæst við. Jafnvel þó að stefnandi kunni að hafa menntun sem lærður bakari hafi hann allan tímann unnið störf sem almennir aðstoðarmenn bakara nái fullum tökum á eftir 3-4 vikur. Menntun starfsmanna ráði ekki launakjörum þeirra heldur starfið sem þeir séu ráðnir til að gegna. Sé því kröfu stefnanda um að fá greidd laun sem bakari því hafnað þar sem hann hafi ekki gegnt slíku starfi heldur starfi ófaglærðs starfsmanns.

            Stefndi byggir á því að samkvæmt lögum nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda fari launakjör starfsmanna eftir því starfi sem þeir gegni en ekki hvaða menntun þeir hafi eða hvaða stéttarfélagið þeir tilheyri. Breyting á félagsaðild stefnanda eftir starfslok hans hjá stefnda breyti í engu starfi hans eða starfskjörum. Stefndi bendir á að það sé hlutverk Félagsdóms skv. 44. gr. laga nr. 80/1938 að skera úr um hvort störf falli undir iðnaðarlög, svo og um það til hvaða löggiltrar iðngreinar þau taki. Stefnandi hafi engin gögn lagt fram sem sýni að raunveruleg störf hans hafi verið iðnaðarmannastörf heldur virðist hann hafa telja að breytt félagsaðild eftir starfslok geti haft áhrif á kjör hans hjá stefnda. Stefnandi hafi fengið greidd laun í samræmi við það starf sem hann hafi raunverulega sinnt hjá stefnda og hafi verið ráðinn til að vinna, eða sem aðstoðarmaður bakara.

            Stefnandi hafi horfið úr vinnu hjá stefnda eftir að hafa starfað þar í 14 mánuði án þess að virða eins mánaðar uppsagnarfrest. Því geri stefndi kröfu um bætur vegna brotthlaupsins sem nemi launum í hálfum uppsagnarfresti og þá er gerð krafa um skuldajöfnuð vegna kröfu stefnanda um vangreiddar persónuuppbætur. Með því að virða ekki uppsagnarfrest sinn samkvæmt kjarasamningi hafi stefnandi rift á ólögmætan hátt vinnusamningi sínum við stefnda og beri honum að bæta það tjón sem brotthlaupið hafi valdið. Stefndi hafi einungis haldið eftir  þeim launum stefnanda sem hann hafi átt rétt á sem skaðabótum með hliðsjón af ákvæði 25. gr. laga nr. 22/1928. Nemi ógreidd vinnulaunakrafa vegna persónuuppbóta lægri fjárhæð en stefndi eigi rétt á í skaðabætur vegna brotthlaups stefnanda. Hafi stefnda því verið heimilt að skuldajafna skaðabótakröfu sinni við laun stefnanda, sbr. 1. gr. laga nr. 28/1930. Skuldajöfnun við vinnulaun sé ekki óheimil þegar til grundvallar liggi skaðabótakrafa vegna ólögmætrar riftunar launamanns á vinnusamningi eins og hér eigi við.

            Stefndi byggir á almennum reglum samninga- og vinnuréttar, meginreglunni um skuldbindingargildi samninga og kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins 2011-2014. Þá er byggt á 25. gr. laga nr. 22/1928, 1. gr. laga nr. 28/1930 og 44. gr. laga nr. 80/1938. Krafa um málskostnað er reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991.       

Niðurstaða.

Ágreiningur aðila í máli þessu snýst um það hvort stefnandi hafi verið ráðinn til starfa hjá stefnda til almennra verkamannastarfa í matvælaiðnaði eða sem bakari. Stefnandi heldur því fram að hann hafi verið ráðinn sem bakari en hann hafi lokið sveinsprófi í þeirri iðn árið 1998. Hins vegar er nægilega upplýst í máli þessu að stefnandi hafi aldrei lagt fram gögn því til stuðnings og því hefur ekki verið hnekkt að forsvarsmönnum stefnda hafi ekki verið um það kunnugt. Þá er ljóst að stefnandi gerði aldrei kröfu um það meðan hann starfaði hjá stefnda að kjör hans tækju mið af kjarasamningi Matvís og Samtaka atvinnulífsins. Á launaseðlum stefnanda kom að vísu fram að um dagvinnu bakara væri að ræða en á sömu seðlum var getið iðgjalda sem dregin voru af stefnanda og runnu í stéttarfélagið Drífanda í Vestmannaeyjum. Hlaut stefnanda því að vera ljóst að það benti ekki til þess að stefndi væri þeirrar skoðunar að um launakjör stefnanda ætti að fara eftir áðurgreindum kjarasamningi Matvís og SA. Stefnanda var í lófa lagið að fylgjast með því hver launakjör iðnmenntaðra bakara ættu að vera samkvæmt kjarasamningi og krefjast launa samkvæmt því en hann gerði engan reka að því fyrr en eftir starfslok sín hjá stefnda. Verður því að telja að stefnandi hafi meðan hann gegndi starfi hjá stefnda sætt sig við þau laun sem hann fékk greidd og jafnframt að þau hafi verið miðuð við það starf sem hann sinnti hjá stefnda og hafi verið ráðinn til að vinna, eða sem aðstoðarmaður bakara. Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

             Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

            Hjörtur O. Aðalsteinsson  dómstjóri kvað upp dóminn. Uppkvaðning hans hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en dómari og lögmenn aðila töldu ekki þörf endurflutnings.

DÓMSORÐ:

                Stefndi, Bakstur og veisla ehf., skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Sigurjóns Þorkelssonar í máli þessu.

            Málskostnaður fellur niður.