Hæstiréttur íslands

Mál nr. 98/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Þriðjudaginn 15

 

Þriðjudaginn 15. mars 2005.

Nr. 98/2005.

Grétar Jón Guðmundsson

Elín Magnúsdóttir

Brynhildur N. Guðmundsdóttir

Guðríður Guðmundsdóttir

Sigfríður María Guðmundsdóttir

Bjarghildur Fanney Guðmundsdóttir og

Arney Huld Guðmundsdóttir

(Jóhannes Albert Sævarsson hrl.)

gegn

Klöru Sveinsdóttur

(Magnús Guðlaugsson hrl.)

 

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Aðilar deildu um eignarhlutföll í óskiptu landi jarðanna B og H. Stefnendur héldu því fram að jörðin F hafi sameinast jörð þeirra, B, og miðuðu kröfu sína við það. Þó svo að fyrir lægju líkindi fyrir því að jörðin F hafi verið færð undir jörðina B, varð ekki fram hjá því litið að í gögn málsins skorti með öllu eignarheimildir fyrir því, þrátt fyrir áskorun K um að stefnendur bættu þar úr. Var málinu vísað frá dómi án kröfu á grundvelli vanreifunar og var sú niðurstaða staðfest í Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðilar skutu máli þessu til Hæstaréttar með kæru 18. febrúar 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. mars sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 4. febrúar 2005, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess aðallega, að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar, svo og að varnaraðila verði gert að greiða þeim kærumálskostnað. Til vara krefjast sóknaraðilar þess að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður falli niður.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um annað en málskostnað, en rétt er að aðilarnir beri hvert sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 4. febrúar 2005.

Mál þetta er höfðað 1. nóvember 2003, þingfest 12. sama mánaðar, en dómtekið 18. janúar 2005.

Stefnendur eru Grétar Jón Guðmundsson, kt. 230441-7669, Mýrum 3, Patreksfirði, Elín Magnúsdóttir, kt. 290941-3349, Stuðlaseli 19, Reykjavík, Brynhildur N. Guðmundsdóttir, kt. 290644-3729, Miðholti 5, Hafnarfirði, Guðríður Guðmundsdóttir, kt. 110946-3929, Hlíðarvegi 3, Ísafirði, Sigfríður María Guðmundsdóttir, kt. 060849-3909, Aðalstræti 45, Patreksfirði, Bjarghildur Fanney Guðmundsdóttir, kt. 230155-5349, Aðalstræti 14, Patreksfirði og Arney Huld Guðmundsdóttir, kt. 160661-4539, Karfavogi 11, Reykjavík.

Stefndi er Klara Sveinsdóttir, kt. 210722-4249, Túngötu 16, Patreksfirði.

Stefnendur gera þær dómkröfur að viðurkennt/staðfest sé að eignarhlutföll óskipts lands og landsnytja jarðanna Brekkuvalla og Haukabergs á Barðaströnd í Vesturbyggð skuli mæld í fornum hundruðum á þann hátt að jörðin Brekkuvellir verði talin 17 hundruð að fornu mati og jörðin Haukaberg 13 hundruð að fornu mati. Þá krefjast stefnendur þess að stefndi verði dæmdur til að greiða málskostnað.

Stefnda krefst þess að kröfum stefnenda verði hafnað, jafnframt því sem hún krefst greiðslu málskostnaðar in solidum úr hendi stefnenda.

Stefnda höfðaði gagnsök í málinu með stefnu birtri 9. febrúar 2004. Með úrskurði héraðsdóms 22. október 2004 var gagnsökinni vísað frá dómi. Við þá úrlausn situr.

Stefnendur lýsa atvikum svo að þau séu eigendur jarðarinnar Brekkuvalla á Barðaströnd í Vesturbyggð. Í fleiri áratugi hafi land jarðanna Brekkuvalla og Haukabergs, aðlægrar jarðar í sömu sveit, verið í óskiptri sameign jarðanna tveggja. Eftir að Vegagerðin hafi tekið hluta af hinu óskipta landi undir nýja legu Barðastrandavegar, þjóðvegar nr. 62 við Kleifaheiði, hafi risið deila milli eigenda jarðanna tveggja um stærð þeirra, en greiðslu Vegagerðarinnar fyrir land sem farið hafi undir veginn hafi átt að skipta í samræmi við stærðarhlutföll jarðanna. Stefnda hafi farið þess á leit við sýslumanninn á Patreksfirði 29. ágúst 2001 að framkvæmd yrðu skipti á sameiginlegu landi jarðanna Brekkuvalla og Haukabergs og að sýslumaður kveddi til oddamann til að framkvæma skiptin, í samræmi við 4. gr. landskiptalaga, nr. 46/1941. Ágreiningur hafi risið milli eigenda Brekkuvalla og Haukabergs við hvaða eignarhlutföll skiptin ættu að miðast. Telji stefnendur að miða eigi við hundruð að fornu mati, þannig að Brekkuvellir séu með sínum hluta af hinu óskipta landi alls 17 hundruð að fornu mati, en Haukaberg með sínum hluta alls 13 hundruð. Haldi stefnda því fram að miða beri eignarhlutföll við dýrleika jarðanna, en í því felist að skipting jarðanna fari eftir eiginleikum hennar, kostum og gæðum, en ekki flatarmáli. Hafi stefnda haldið því fram að jörðin Haukaberg sé 28 að dýrleika en jörðin Brekkuvellir, ásamt hjáleigunni Fæti, 12 að dýrleika. Hjáleigan Fótur hafi á sínum tíma verið sameinuð jörðinni Brekkuvöllum og gangi jarðirnar nú undir sameiginlega heitinu Brekkuvellir og séu þannig skráðar í fasteignamati og veðmálabókum. Þar sem ekki hafi náðst samkomulag milli eigenda um skiptingu sameignarlandsins hafi umbeðin skipti ekki getað farið fram. Til að fá leyst úr ágreiningi um skiptahlutföll sé stefnendum nauðsynlegt að skjóta málinu fyrir dómstóla í samræmi við 3. mgr. 3. gr. laga nr. 46/1941.

Stefnendur byggi mál sitt á því að hinu umdeilda landi hafi verið skipt eftir hundruðum að fornu mati en ekki dýrleika og um það hafi verið sátt allt frá 26. maí 1885, er landamerkjaskrá jarðanna Haukabergs, Brekkuvalla og Fótar hafi verið þinglýst. Á dskj. nr. 3 sé að finna lýsingu á landamerkjum jarðanna, en þar komi glögglega fram að þáverandi eigendur jarðanna Haukabergs, Brekkuvalla og Fótar hafi verið sammála um þau stærðarhlutföll er þar komi fram þegar þeir hafi lýst landamerkjum jarðanna, en undir skjalið hafi eigendur ritað. Af því leiði að þegar hafi verið samið um að stærðarhlutföll jarðanna séu 17 hundruð að fornu mati hvað varði Brekkuvelli og 13 hundruð að fornu mati hvað varði Haukaberg. Kröfur stefndu um önnur stærðarhlutföll eigi ekki við rök að styðjast. Þá byggi stefnendur á því að hin sömu stærðarhlutföll sé að finna í fjölmörgum öðrum heimildum, sem staðfesti að miða beri skiptingu jarðanna við hundruð. Í þinglýsingarbókum á dskj. nr. 8 komi fram að stærð jarðarinnar Brekkuvallir sé 17 hundruð að fornu mati og stærð jarðarinnar Haukaberg 13 hundruð. Í Nýrri jarðabók fyrir Ísland, á dskj. nr. 4, sem staðfest hafi verið með tilskipun 1861 komi fram, að jarðirnar Brekkuvellir og Fótur séu í gömlum hundruðum 17 og Haukaberg 13. Í Lögþingsbók frá 1749 komi fram að Brynjólfur Bjarnason hafi keypt jörðina Brekkuvelli/Fót 24. apríl 1747 og sé stærð jarðarinnar tilgreind 17 hundruð. Í sama riti sé skráð um makaskiptabréf Þórunnar Þorláksdóttur á jörðinni Fæti og sé jörðin talin 8 hundruð að stærð. Þá komi fram í afsals og veðbréfabókum Barðastrandasýslu, en afrit úr þeim bókum sé lagt fram sem dskj. nr. 6, að jörðin Brekkuvellir og Fótur, báðar 17 hundruð að fornu máli, séu veðsettar til tryggingar láni. Í afsals- og veðbréfabók fyrir Barðastrandasýslu frá 18. september 1884, en afrit úr þeim bókum liggi fyrir á dskj. nr. 9, komi fram að veðskuldabréf hafi verið gefið út 2. júlí 1873 og 2. júlí 1875 af kaupmanni Markúsi Snæbjörnssyni fyrir peningaláni með fyrsta forgangsrétti í jörðunum Brekkuvöllum og Fæti og að jarðirnar séu samtals 17 hundruð að fornu mati.

Stefnendur vísa til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála varðandi kröfu um viðurkenningardóm og til landskiptalaga, nr. 46/1941, um grundvöll málsins.

Stefnda kveðst vera eigandi jarðarinnar Haukabergs í Barðastrandasýslu í Vesturbyggð. Eiginmaður stefndu, Einar Haraldsson, hafi eignast jörðina með afsali frá föður sínum Haraldi Marteinssyni 23. september 1967, en afsalið komi fram á dskj. nr. 19. Sitji stefnda í óskiptu búi eftir Einar. Stefnda og Einar hafi búið að Haukabergi á árunum 1940 til 1995, er þau hafi flutt til Patreksfjarðar. Á árinu 1983 hafi skipti farið fram á ræktuðu og ræktanlegu landi jarðanna Haukabergs og Brekkuvalla, en gögn um það liggi fyrir á dskj. nr. 38. Eftir standi mikið af óskiptu landi jarðanna við og á Kleifarheiði og annað fjallendi er nýtt hafi verið til beitar fyrir sauðfé þegar búskapur hafi verið stundaður á jörðunum. Þá sé hlunnindum jarðanna óskipt, en um sé að ræða veiði í Haukabergsá og reka. Eigendur jarðanna hafi hins vegar um árabil hagað veiði og rekanytjum þannig að skipt hafi verið í jöfnum hlutföllum á jarðirnar. Þáverandi eigendur jarðanna Haukabergs og Brekkuvalla hafi 20. september 1986 sameiginlega leigt sumarbústaðalóð úr óskiptu landi jarðanna, en afrit þess samnings komi fram á dskj. nr. 20. Hafi leigusalar skipt greiddri lóðarleigu í tvo jafna hluta sín á milli. Sama fyrirkomulag varðandi skiptinu leigutekna hafi verið viðhaft af eigendum jarðanna þegar sumarbústaðalóð hafi verið leigð 9. ágúst 1993, en afrit af þeim samningi komi fram á dskj. nr. 40. Vegagerðin og stefnda hafi gert með sér samning 1. desember 2000 um heimild Vegagerðarinnar til að leggja þjóðveg um óskipt land Haukabergs og Brekkuvalla, frá brú á Haukabergsá um Mikladal að vatnaskilum á Kleifarheiði. Í samningi sé gert ráð fyrir 60 metra breiðu vegsvæði, eða 30 metra svæði í hvora átt frá miðlínu vegar og heimild til töku jarðefna úr námu innan Haukabergsár, allt að 70 þúsund rúmmetra af efni til fyllingar í veginn. Stefnda hafi ekki fengið í hendur greiðslu frá Vegagerðinni á grundvelli samningsins vegna ágreinings um eignarhlutföll Haukabergs og Brekkuvalla í hinu óskipta landi. Hafi stefnda krafist þess að greiðslum Vegagerðarinnar yrði skipt á jarðirnar eftir þeim hlutföllum er fram komi í jarðatali Johnsen frá 1847.

Stefnda kveður ágreining í málinu snúast um í hvaða hlutföllum landskiptamenn eigi að skipta hinu óskipta landi jarðanna Haukabergs og Brekkuvalla. Krafa stefndu um að dómurinn hafni viðurkenningarkröfu stefnenda sé byggð á landskiptalögum. Í 1. gr. laganna komi fram gildissvið þeirra. Jarðamat frá 1861 sé sá grundvöllur landskipta er miða beri við, sbr. 2. gr. laga nr. 46/1941, verði því við komið, að öðrum kosti beri skiptamönnum að framkvæma skiptin  miðað við eignarhlutföll samkvæmt jarðatali Johnsen frá 1847, fasteignabók frá 1922 eða yngri fasteignabókum, þó þannig að ávallt verði notað hið elsta jarðamat sem við verði komið. Í jarðatali Johnsen frá 1847, en afrit af því liggi frammi á dskj. nr. 59, séu uppgefin hlutföll þeirra jarða er um ræði. Þar komi fram að Haukaberg sé 28 hundruð, Brekkuvellir 6 hundruð og Fótur 6 hundruð að fornu mati. Við nöfn hjáleigunnar Fótar sé að finna eftirfarandi neðanmálsgreinar: ,,Fótur og Brekkuvellir er hjá A.M. taldar hjáleigur frá Haukabergi, en jb. 1760 telur þær, með dýrleika og leigumála, sem jarðir sér, og Haukaberg, með dýrleika og leigumála útaf fyrir sig. A.M. telur hjáleiguna Fót 9 ½ h.(sýslumaður 9 h) og Brekkuvöll 7 ½ (sýslumaður 8 h.) úr heimajörðinni, sem hann telur alla 30 h. (sýslumaður sér 13 h.).” Að mati stefndu sé óheimilt að miða skipti á óskiptu landi jarða við önnur hlutföll en upp séu gefin í fasteignabókum, og þá þeirri elstu sem unnt sé að nota við framkvæmd landskiptanna. Hafi önnur skipting gilt ,,manna á meðal” en jarðamatsbækur gefi upp, verði sú skipting ekki lögð til grundvallar landskiptum nema til komi samkomulag allra hlutaðeigandi um að sú skipting skuli haldast, sbr. 4. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1941. Krafa stefnenda virðist á því byggð að allt frá árinu 1885 hafi verið í gildi sátt milli eigenda jarðanna í þá veru er kröfugerð stefnenda hnígi til. Því sé alfarið hafnað af stefndu að tilgreining í landamerkjaskrá jarðanna um fornt hundraðamat jarðanna sé sá grundvöllur sem landskiptanefnd geti miðað við og nægi um það að vísa til 4. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1941. Landskiptin verði ekki miðuð við þar uppgefnar hlutfallstölur án samkomulags við stefndu. Stefnendur hafi heldur ekki sýnt fram á að eignahlutföllin 17 hundruð (Brekkuvellir) og 13 hundruð (Haukaberg) hafi verið látin gilda manna á meðal á svæðinu hjá jarðeigendum sjálfum. Sé í því sambandi vísað til þeirrar skiptingar sem eigendur hafi miðað skiptingu á ræktun og ræktanlegu landi við á árinu 1983, sem og jafna skiptingu leigutekna, veiði og rekjanytja. Þá byggir stefnda á að samkvæmt 3. gr. laga nr. 46/1941 beri ekki einvörðungu við skipti að fara eftir flatarmáli lands, heldur einnig eftir gæðum þess og verðmætum á hverjum stað. Verðgildi (dýrleiki) jarða hafi í upphafi verið metin í fornum hundruðum svo sem sjá megi af jarðatali J. Johnsen og yngri fasteignabókum og jarðatölum. Stefnendur kjósi að krefjast viðurkenningar á tiltekinni skiptingu eftir hundruðum að fornu mati en ekki dýrleika. Að mati stefndu fái slík krafa ekki staðist og sé ódómhæf.

Við aðalmeðferð málsins reisti stefnda kröfu sína um að kröfum stefnenda beri að hafna jafnframt á því að ekki liggi ljóst fyrir í gögnum málsins hvað orðið hafi um hjáleiguna Fót, er fram komi í eldri gögnum að hafi átt tiltekinn hluta í hinu sameiginlega landi. Stefnendur virðist miða við að hjáleigan hafi runnið inn í og orðið hluti af jörðinni Brekkuvöllum. Í greinargerð stefndu er skorað á stefnendur að leggja fyrir dóminn skilríki fyrir eignarhaldi þeirra á hjáleigunni Fæti á Barðaströnd og/eða staðfestingu á því að hjáleigan hafi verið lögð undir eða sameinuð Brekkuvöllum.

Um málatilbúnað vísar stefnda til 2. - 4. gr. laga nr. 46/1941 og laga nr. 91/1991.

Uppi er ágreiningur um eignarhlutföll í óskiptu landi jarðanna Brekkuvalla og Haukabergs í Vesturbyggð, en stefnda hefur leitað eftir skiptum á því landi á grundvelli landskiptalaga, nr. 46/1941. Við aðalmeðferð málsins hefur stefnda m.a. reist dómkröfu sína á því að stefnendur hafi ekki með fullnægjandi hætti lagt fram gögn er sýni ótvírætt að jörðin Fótur hafi sameinast jörðinni Brekkuvöllum, svo sem stefnendur miði við. Af þeim ástæðum sé ekki unnt að slá föstu við hvaða eignarhlutföll miða eigi skipti jarðanna Brekkuvalla og Haukabergs við. Stefnendur hafa haldið því fram að hér sé um nýja málsástæðu að ræða sem komist ekki að í málinu, en hún hafi ekki komið fram í greinargerð stefndu. Í stefnu er rakið að hjáleigan Fótur hafi á sínum tíma verið sameinuð jörðinni Brekkuvöllum og er staðhæft að jarðirnar gangi nú undir sameiginlega heitinu Brekkuvellir. Þá er á því byggt að fjölmargar heimildir miði stærðarhlutföll jarðanna Brekkuvalla og Haukabergs við 17 hundruð að fornu mati að því er varði Brekkuvelli og 13 hundruð að því er varði Haukaberg. Kröfum sínum til stuðnings vísa stefnendur m.a. til dskj. nr. 4, sem er jarðamat frá 1861, en þar kemur fram á bls. 73 að jörðin Brekkuvellir sé 8 að fornum hundruðum og jörðin Fótur 9 að fornum hundruðum Séu þessar tvær jarðir lagðar saman nema þær alls 17 hundruðum að fornu mati. Í greinargerð hefur stefnda skorað á stefnendur að leggja fyrir dóminn skilríki fyrir eignarhaldi þeirra á hjáleigunni Fæti og/eða staðfestingu á því að hjáleigan hafi verið lögð undir og sameinuð Brekkuvöllum. Með áskorun þessari hefur stefnda þegar í greinargerð sinni borið brigður á að jörðin Fótur hafi sameinast jörðinni Brekkuvöllum, en af því leiðir að taka verður afstöðu til hvort miðað verður við samanlögð hlutföll jarðanna Brekkuvalla og Fótar, eins og þau m.a. birtast í jarðamatinu frá 1861 eða öðrum heimildum, svo sem  málstaður stefnenda byggir á.  

Í málinu liggur fyrir afrit úr þinglýsingabókum sýslumannsins á Patreksfirði varðandi jörðina Haukaberg. Þar er stefnda tilgreind eigandi jarðarinnar og um eignarheimild vísað í búsetuleyfi frá 24. maí 1995. Þá liggur frammi afrit úr þinglýsingabókum varðandi jörðina Brekkuvelli, en þar eru stefnendur í jöfnum hlutföllum tilgreindir eigendur að jörðinni og húsi. Um eignarheimild er vísað til skjals frá 23. ágúst 1993, sem ekki liggur frammi í málinu. Endurrit úr þinglýsingabók gefur vísbendingu um að stærð jarðarinnar hafi á einhverjum tíma verið 8 hundruð, en sú stærð hafi síðar verið færð í 17 hundruð, án þess að getið sé hvað legið hafi til grundvallar þeirri skráningu. Að öðru leyti varða hin framlögðu skjöl í málinu röksemdir málsaðila fyrir stærð hinna umdeildu jarða. Ekki hafa verið lögð fram afrit úr þinglýsingabókum varðandi jörðina Fót eða eignarheimildir um jörðina er sýni með óyggjandi hætti hvernig henni hafi verið ráðstafað. Þó svo fyrir liggi líkindi fyrir að jörðin Fótur hafi verið færð undir jörðina Brekkuvelli, svo sem stefnendur halda fram, verður ekki fram hjá því litið að í gögn málsins skortir með öllu eignarheimildir fyrir því, þó svo stefnda hafi skorað á stefnendur að bæta þar úr. Ónægar upplýsingar þar um gætu í efnisdómi leitt til sýknu. Reglur laga nr. 91/1991 um bindandi áhrif dóma kynnu þannig að girða fyrir að stefnendum gæfist færi á að bera sakarefni þetta undir dómstóla á nýjan leik. Þar sem umfjöllun um eignarhald á jörðinni Fæti hefur svo til enga umfjöllun fengið eða gagna verið aflað þar um verður valin sú leið að miða við að stefnendur hafi ekki reifað mál sitt nægjanlega í þeim efnum, þrátt fyrir áskorun stefndu þar um, sem leiðir til þess að málinu verður án kröfu vísað frá dómi á grundvelli vanreifunar.   

Eftir úrslitum málsins þykir rétt að stefnendur greiði stefndu málskostnað og þykir hann hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.

Af hálfu stefnenda flutti málið Jóhannes Albert Sævarsson hæstaréttarlögmaður, en af hálfu stefndu Jón Höskuldsson héraðsdómslögmaður.

Úrskurð þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnendur,  Grétar J. Guðmundsson, Elín Magnúsdóttir, Brynhildur Guðmundsdóttir, Guðríður Guðmundsdóttir, Sigfríður María Guðmundsdóttir og Bjarghildur F. Guðmundsdóttir, greiði stefndu, Klöru Sveinsdóttur, 200.000 krónur í málskostnað.