Hæstiréttur íslands
Mál nr. 268/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Þriðjudaginn 15. maí 2007. |
|
Nr. 268/2007. |
Ákæruvaldið(enginn) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. maí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. maí 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 13. júní 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. maí 2007.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness að X, [kt.], verði með úrskurði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hans, þó eigi lengur en til 15. júní nk. kl. 16:00.
Krafan er reist á ákvæðum c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Fyrir dóminum mótmælti ákærði kröfu lögreglustjórans um áframhaldandi gæsluvarðhald.
Í kröfu lögreglustjórans kemur fram að þann 30. janúar sl. hafi ákærði verið úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi til 2. febrúar á grundvelli rannsóknarhagsmuna en með dómi Hæstaréttar Íslands nr. 73/2007 hafi honum verið gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c.-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 til 2. mars sl. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli R-153/2007 hafi gæsluvarðhaldið verið framlengt til 30. mars sl. og aftur með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness í máli R-63/2007 sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar 3. apríl sl. hafi gæsluvarðhaldið verið framlengt til 23. apríl sl. en með dómi Hæstaréttar í máli nr. 219/2007 hafi gæsluvarðhaldið enn verið framlengt til dagsins í dag.
Með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu dags. 22. mars. sl. hafi verið höfðað opinbert mál á hendur ákærða, þar sem honum sé gefið að sök að hafa á tveggja mánaða tímabili, frá 30. nóvember 2006 til 30. janúar 2007, framið fjölmörg auðgunar- og fjármunabrot, auk fíkniefna- og umferðarlagabrota. Við þingfestingu málsins 30. mars sl. hafi ákærði viðurkennt sök í 9 ákæruliðum af 16 og því sé ljóst að hann eigi yfir höfði sér fangelsisrefsingu. Aðalmeðferð málsins hafi hafist 27. apríl sl. og hafi henni verið fram haldið í dag en enn eigi eftir að ljúka henni og hafi þinghald verið ákveðið 23. maí nk. í því augnamiði.
Með ákæru ríkissaksóknara dags. 17. apríl hafi verið höfðað mál á hendur ákærða fyriri brot gegn 252. gr. almennra hegningarlaga og hafi það verið þingfest fyrr í dag. Ákærði hefði játað sök að hluta og á grundvelli meginreglna 23. gr. laga nr. 19/1991 og 77. gr. laga nr. 19/1940 hafi verið ákveðið að sameina ránsmál þetta fyrrgreindu máli á hendur ákærða.
Í greinargerð lögreglustjóra er því lýst að við rannsókn mála ákærða hafi komið í ljós að hann hefði verið í mikilli óreglu og án atvinnu. Brotaferill hans hafi verið samfelldur og sé það mat lögreglustjóra að hann muni halda áfram brotum verði hann látinn laus. Sé því nauðsynlegt að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Í úrskurðum Héraðsdóms Reykjaness 30. mars og 23. apríl sl. var fallist á að skilyrði væru til þess að ákærði sætti gæsluvarðhaldi á grundvelli c liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1940 þar til mál hans væri til lykta leitt fyrir dómi og var sú niðurstaða staðfest í dómum Hæstaréttar Íslands. Er ekkert það fram komið að leiði til breytts mats á því að skilyrði nefndrar lagagreinar teljist uppfyllt. Aðalmeðferð í máli ákærða var fram haldið í dag en ekki náðist að ljúka henni. Hefur verið ákveðið nýtt þinghald 23. maí nk. til framhalds aðalmeðferðarinnar og mun dómur verða kveðinn upp í framhaldi af því. Verður því fallist á kröfu lögreglustjórans um áframhaldandi gæsluvarðhald en rétt þykir að marka gæsluvarðhaldinu tíma til miðvikudagsins 13. júní nk. eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Ákærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 13. júní nk. kl. 16:00.