Hæstiréttur íslands
Mál nr. 68/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
- Sératkvæði
|
|
Mánudaginn 9. mars 2009. |
|
Nr. 68/2009. |
Hið íslenska gáfumannafélag ehf. (Þorsteinn Einarsson hrl.) gegn Pétri Ingasyni og Gunnari Björnssyni (Klemenz Eggertsson hdl.) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður héraðsdóms felldur úr gildi. Sératkvæði.
H kærði úrskurð héraðsdóms þar sem máli þess gegn P og G var vísað frá dómi sökum vanreifunar, sbr. e-liður 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að kröfugerð sóknaraðila hafi verið skýr og sundurliðuð í stefnu, reist á skýrum málsástæðum og í flestum greinum studd skjölum sem lögð voru fram við þingfestingu málsins. Hafi málið á þessu stigi ekki verið svo vanreifað að ekki yrði úr bætt síðar og frávísun varðaði. Hafi H síðar orðið við áskorun P og G, á grundvelli 67., sbr. 68. gr. laga nr. 91/1991, og lagt fram skjal í sinni vörslu sem talið var að gæti varðað miklu um úrslit málsins, og þar með bætt úr þeim annmörkum sem að þessu leyti höfðu verið á málatilbúnaði þess. Enda gæfist P og G við áframhaldandi meðferð málsins næg tækifæri til að hafa uppi varnir er kynnu að verða reistar á umræddu skjali. Var úrskurður héraðsdóms um frávísun málsins því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. febrúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. janúar 2009, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði höfðaði sóknaraðili mál þetta til greiðslu skaðabóta eða afsláttar vegna vanefnda á kaupsamningi um 99% hluta í Íshlutum ehf. sem hann telur að orðið hafi af hálfu varnaraðila. Með umræddum kaupsamningi 26. maí 2006 seldu varnaraðilar óstofnuðu einkahlutafélagi, nú sóknaraðila, 99% hluta í tveimur einkahlutafélögum, Íshlutum ehf. og Vélafli ehf. Umsamið kaupverð var 334.000.000 krónur fyrir hlutina í Íshlutum ehf. en 16.000.000 krónur fyrir hlutina í Vélafli ehf.
Í kaupsamningi aðila er tekið fram að áreiðanleikakönnun hafi ekki farið fram við undirritun samningsins en kaupandi muni ljúka framkvæmd slíkrar könnunar eigi síðar en þrem vikum eftir að öll gögn liggi fyrir, en seljendur tryggja kaupanda óskertan aðgang að öllum upplýsingum sem hann óskar eftir í því skyni. Kaupverðið skyldi innt af hendi innan 10 daga frá því að niðurstaða áreiðanleikakönnunar lægi fyrir gegn því að seljendur afsöluðu sér hinu selda. Í samningum, sem er allítarlegur, eru meðal annars ákvæði um að seljendur ábyrgist að rekstri og eignastöðu félaganna, sem hlutir voru seldir í, væri réttilega lýst í samræmi við góða reikningsskilavenju í ársreikningum þeirra fyrir árið 2005. Þá voru í 6. gr. samningsins ákvæði er lutu að skilyrðum kaupanda fyrir kaupunum. Grein 6.1 varðar fyrirvara meðal annars þess efnis að áreiðanleikakönnun leiði ekki í ljós veruleg frávik frá forsendum kaupanda eins og þeim sé lýst í samningnum og fyrirliggjandi gögnum varðandi rekstur, raunvirði birgða, stöðu annarra eigna, skulda, annarra skuldbindinga, ábyrgða og samninga sem félagið hafi gert. Þar er einnig ákvæði þess efnis að kaupverðið byggist á ársreikningi fyrir árið 2005 og að seljendur ábyrgist að þar til afhending hluta eigi sér stað „hafi ekki orðið óeðlilegar breytingar á efnahag (þ. m. t. útgreiðsla arðs) eða rekstri félagsins...“ Þá er í grein 6.2 sérstakt ákvæði er lýtur að áreiðanleikakönnun og réttaráhrifum hennar. Þar segir meðal annars að leiði slík könnun í ljós veruleg frávik frá því sem vitnað sé til í samningnum geti kaupandi krafist afsláttar eða lýst samninginn niður fallinn.
Drög að áreiðanleikakönnun gerðri af KPMG hf. munu hafa legið fyrir 24. júlí 2006. Tveim dögum síðar undirrituðu varnaraðilar afsal fyrir hinum seldu hlutum og sama dag mun sóknaraðili hafa greitt umsamið kaupverð og fengið hina seldu hluti afhenta.
Sóknaraðili höfðaði mál þetta 22. og 24. júlí 2008. Hann krefur varnaraðila óskipt um greiðslu 105.296.674 króna auk dráttarvaxta og reisir kröfu sína á því að hann eigi rétt til skaðabóta og/eða afsláttar vegna verulegra vanefnda varnaraðila á fyrrgreindum kaupsamningi.
Í stefnu krefst hann 72.000.000 króna vegna þess að varnaraðilar hafi í trássi við ákvæði kaupsamningsins greitt sér arð úr Íshlutum ehf. á árinu 2006 sem þessari fjárhæð nemur áður en sóknaraðila voru afhentir hinir seldu hlutir. Ekki verður séð að sóknaraðili hafi við þingfestingu málsins 4. september 2008 lagt fram skjöl er vörðuðu þessa arðgreiðslu. Hún kemur hins vegar fram í árshlutauppgjöri 2006 sem varnaraðilar lögðu fram með greinargerð sinni og óumdeilt er að hún átti sér stað þótt ágreiningur sé um nánari málsatvik.
Hinn hluta kröfu sinnar eða 33.296.674 krónur reisir sóknaraðili í stefnu á því að rangar upplýsingar hafi verið í ársreikningi Íshluta ehf. fyrir árið 2005. Þennan hluta kröfunnar sundurliðar hann nánar í fjóra undirliði. Í fyrsta lagi krefst hann 13.897.769 króna vegna þess að framlegð félagsins hafi verið oftalin í bókhaldi þess 2005. Þetta rekur hann í stefnu til bókfærslu reikninga er varða kaup eða sölu fjögurra nánar tilgreindra tækja. Við þingfestingu málsins voru lagðir fram reikningar til stuðnings kröfum sóknaraðila varðandi öll þessi viðskipti. Í öðru lagi krefst hann 13.186.388 króna vegna þess að birgðir félagsins hafi verið oftaldar í uppgjöri ársins 2005. Þetta er í stefnu rakið til þess að fjögur nánar tilgreind tæki hafi ranglega verið færð félaginu til eignar í árslok 2005. Við þingfestingu málsins lagði sóknaraðili fram skjöl er vörðuðu öll þessi tæki. Í þriðja lagi krefst sóknaraðili 5.168.357 króna vegna þess að skuldir félagsins í uppgjöri 2005 hafi verið vantaldar. Þetta er í stefnu nánar rakið til skulda við ellefu nafngreinda kröfuhafa. Við þingfestingu málsins lagði sóknaraðili fram yfirlit og reikninga er vörðuðu skuldastöðu við þessa aðila. Loks krefst sóknaraðili 1.044.160 króna þar sem í ljós hafi komið að félagið sé ekki rétthafi að bókhaldskerfi sem notað hafi verið.
Eins og að framan var getið var málið þingfest 4. september 2008. Varnaraðilar lögðu fram greinargerð 16. október 2008 og kröfðust þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi vegna vanreifunar þar sem fyrrgreind áreiðanleikakönnun, sem hafi verið grundvöllur viðskipta aðila, hafi ekki verið lögð fram af hálfu sóknaraðila. Þá hafi sóknaraðili heldur ekki lagt fram bókhald félagsins vegna ársins 2005 og fyrri helmings ársins 2006 eða hreyfingalista. Í greinargerðinni skoruðu þeir á sóknaraðila með vísan til 67. gr. laga nr. 91/1991 að leggja meðal annars fram fyrrgreinda áreiðanleikakönnun, sem gerð hefði verið vegna kaupanna. Eftir að málinu hafði verið úthlutað til dómara var það tekið fyrir 21. nóvember 2008. Í því þinghaldi er bókað að lögmenn óski eftir fresti til gagnaöflunar. Málið var næst tekið fyrir 15. desember 2008. Lagði sóknaraðili þá fram drög að margnefndri áreiðanleikakönnun og beiðni um dómkvaðningu matsmanns. Varnaraðilar mótmæltu framlagningu þessara skjala. Málið var síðan flutt um frávísunarkröfu varnaraðila 15. janúar 2009 og hinn kærði úrskurður upp kveðinn 22. sama mánaðar.
II
Í stefnu í máli þessu hefur sóknaraðili gert sundurliðaða grein fyrir stefnukröfu sinni og teflt fram þeim málsástæðum sem hann byggir hana á. Þá hefur hann gert grein fyrir þeim gögnum sem flestir einstakra liða kröfu hans eru reistir á. Við þingfestingu málsins lagði hann auk stefnu fram 54 dómskjöl er vörðuðu máltilbúnað hans. Þeirra á meðal er kaupsamningur sá sem málið snýst um, afsal varðandi hin umdeildu kaup, ársreikningur Íshluta ehf. 2005 og fjöldi skjala varðandi einstaka kröfuliði. Kröfugerð sóknaraðila var því skýr og sundurliðuð í stefnu, reist á skýrum málsástæðum og í flestum greinum studd skjölum sem lögð voru fram við þingfestingu málsins. Verður ekki séð að reifun málsins hafi sökum óskýrleika gert varnaraðilum erfitt um vik í vörninni. Var málið því ekki á þessu stigi svo vanreifað að ekki yrði úr bætt síðar og frávísun varðaði. Í lögum nr. 91/1991 er gert ráð fyrir að til frekari gagnaöflunar geti komið á síðari stigum. Meðal annars eru málsaðilum veitt úrræði í 67. gr., sbr. 68. gr. laganna til að bregðast við ef gagnaðili leggur ekki fram skjal í hans vörslum sem málið varðar. Til þessa úrræðis gripu varnaraðilar er þeir skoruðu á sóknaraðila í greinargerð sinni að leggja fram fyrrnefnda áreiðanleikakönnun, en fallast má á að með þeim að efni þess skjals geti varðað miklu um úrslit málsins. Við þessari áskorun varð sóknaraðili í þinghaldi 15. desember 2008 eftir að aðilum hafði verið veittur frestur til gagnaöflunar. Með þessu var bætt úr þeim annmörkum sem að þessu leyti höfðu verið á máltilbúnaði sóknaraðila. Eru því ekki efni til að verða við kröfu varnaraðila um frávísun málsins, enda gefast þeim við áframhaldandi meðferð þess og munnlegan flutning næg tækifæri til að hafa uppi þær varnir er kunna að verða reistar á áreiðanleikakönnuninni, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr 91/1991. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnislegrar meðferðar.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er úr gildi felldur og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnislegrar meðferðar.
Kærumálskostnaður fellur niður
Sératkvæði
Viðars Más Matthíassonar
Ég er sammála umfjöllun í I. kafla dóms meirihluta réttarins.
Eins og fram er komið eru í kaupsamningi málsaðila um hluti í þeim einkahlutafélögum, sem um ræðir, nokkur ákvæði um áreiðanleikakönnun, sem sóknaraðili hugðist láta framkvæma. Í 6. gr. um ,,skilyrði kaupanda“ kemur fram að það sé fyrirvari við kaupin af hálfu sóknaraðila að áreiðanleikakönnunin leiði ekkert í ljós sem feli í sér veruleg frávik frá forsendum hans fyrir kaupum eins og þeim er lýst í kaupsamningnum og fyrirliggjandi gögnum ,,varðandi rekstur, raunvirði birgða, stöðu annarra eigna og skulda, annarra skuldbindinga félagsins, ábyrgða og samninga sem félagið hefur gengist í.“ Einnig er fyrirvari um að ekki hafi orðið óeðlilegar breytingar á efnahag þar með talin útgreiðsla arðs. Í gr. 6.2 í kaupsamningi er svo að finna ákvæði um heimildir sem sóknaraðili getur öðlast ef niðurstöður áreiðanleikakönnunar eru með tilteknum hætti. Meðal þeirra heimilda er að sóknaraðili getur öðlast rétt til afsláttar.
Sóknaraðili rekur mál þetta til heimtu skaðabóta eða afsláttar. Nemur krafa hans í málinu um 30% af kaupverði samkvæmt kaupsamningi. Krafan er reist á fimm liðum, það er að arður hafi verið greiddur varnaraðilum þrátt fyrir það sem áður greinir, að framlegð í ársreikningi 2005 hafi verið oftalin, birgðir þar oftaldar og skuldir vantaldar, auk þess sem réttindi til bókhaldskerfis, sem notað var við reksturinn, hafi ekki verið þau, sem sóknaraðili taldi með réttu.
Í lýsingu á málsástæðum og öðrum atvikum í stefnu vísar sóknaraðili fjórum sinnum til áreiðanleikakönnunarinnar. Þau atriði, sem fjalla átti um í áreiðanleikakönnuninni tengjast flestum kröfuliðum, sem stefnukröfuna mynda. Í stefnunni eru ítrekað settar fram staðhæfingar sem lúta að málsástæðum er snerta efni, sem fjalla átti um í áreiðanleikakönnuninni. Hver sem tilgangur sóknaraðila hefur verið með því að leggja ekki fram þessa könnun, mátti honum vera ljóst að með því kom hann í veg fyrir að varnaraðilar gætu haldið uppi réttum vörnum í málinu. Þótt 67. gr., sbr. 68. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, veiti aðila máls færi á að bregðast við slíkum aðstæðum, duga þau ákvæði ekki til fulls þegar um svo margþætt og viðamikið skjal er að ræða sem áreiðanleikakönnunina, en hún spannar 23 blaðsíður.
Með þessum athugasemdum tel ég að staðfesta beri hinn kærða úrskurð.
Ég tel að dæma eigi sóknaraðila til að greiða kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. janúar 2009.
I.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnda 15. janúar sl., er höfðað með stefnu sem birt var stefndu 22. og 24. júlí 2008.
Stefnandi krefst þess að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda 105.296.674 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. júlí 2006 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefndu, einnig in solidum, að mati dómsins.
Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi og að honum verði tildæmdur málskostnaður að mati dómsins. Er sá þáttur hér til úrlausnar.
II.
Málsatvik eru í megindráttum eftirfarandi:
Með kaupsamningi 26. maí 2006 keypti óstofnað einkahlutafélag, nú stefnandi, af stefndu 99% hlutafjár í Íshlutum ehf. og Vélafli ehf. Eftir kaupin voru stefndu hvor um sig eigandi að 0,5% hlutafjár í félögunum, en afsöluðu þeim hlutum til stefnanda í júlí 2006. Umsamið kaupverð var 334.000.000 króna fyrir hluti í Íshlutum ehf., en 16.000.000 króna fyrir hluti í Vélafli ehf. Samkvæmt kaupsamningnum skuldbatt stefnandi sig til að greiða kaupverðið innan 10 daga frá því að niðurstöður áreiðanleikakönnunar lægju fyrir, gegn afsali stefndu á hinu selda hlutafé.
Í 2. kafla kaupsamningsins, er fjallar um ábyrgð seljenda, segir m.a. að seljendur ábyrgist persónulega að rekstri og eignastöðu félaganna sé réttilega lýst í samræmi við góða reikningsskilavenju í ársreikningum félaganna fyrir árið 2005. Í því felist m.a. að engar óvenjulegar eða óeðlilegar ráðstafanir hafi verið gerðar til að draga upp betri mynd í umræddum skjölum en eðlilegt geti talist, að félögin búi yfir viðskiptasamböndum og eigi eignir líkt og fram komi til að tekjum félaganna verði við haldið og að félögin hafi ekki gert neina óvenjulega samninga, t.d. við stjórnendur eða starfsmenn, sem gætu reynst félögunum kostnaðarsamir. Jafnframt er þar tekið fram að seljendur ábyrgist að engin skakkaföll eða óvenjulegar, óeðlilegar eða meiriháttar ráðstafanir í rekstri hafi átt sér stað frá 31. desember 2005.
Í kaupsamningnum eru enn fremur ákvæði um áreiðanleikakönnun og fyrirvara kaupanda. Kemur þar fram að áreiðanleikakönnun hafi ekki farið fram við undirritun kaupsamningsins, en hún muni fara fram í kjölfar kaupanna. Skuldbinda seljendur sig til að tryggja fulltrúum kaupanda aðgang að nauðsynlegum gögnum, en kaupandi skuldbindur sig að ljúka framkvæmd könnunarinnar eigi síðar en þremur vikum eftir að öll tilskilin gögn liggja fyrir. Fyrirvari er um að áreiðanleikakönnun leiði ekkert í ljós, sem talist geti til verulegra frávika frá forsendum kaupanda fyrir kaupum og að ekki sé fyrir að fara öðrum skuldbindingum hjá félögunum en þeim sem fram koma í reikningslegum gögnum sem lögð eru til grundvallar. Jafnframt segir þar svo: „Kaupverð byggir á ársreikningi fyrir árið 2005. Tilboðshafar ábyrgjast að fram að þeim tíma er afhending hlutafjár samkvæmt þessum samningi á sér stað hafi ekki orðið óeðlilegar breytingar á efnahag (þ.m.t. útgreiðsla arðs) eða rekstri félagsins umfram óverulegar breytingar sem geta talist eðlilegur þáttur í daglegum rekstri félagsins, eða óvenjulega [sic] ákvarðanir teknar er varða hagsmuni félagsins og/eða sem leitt hafa til rýrnunar verðmæta þess, umfram það sem telja verður hluta af venjubundinni starfsemi.“
Loks segir þar, að leiði áreiðanleikakönnun í ljós veruleg frávik frá því sem vitnað sé til í samningnum, geti kaupandi krafist afsláttar eða lýst samninginn niður fallinn. Tekið er fram að með verulegum frávikum sé átt við a.m.k. 10% frávik varðandi fjárhagslega og mælanlega þætti.
Í stefnu er frá því greint að stefnandi hafi falið KPMG endurskoðun að framkvæma ofangreinda áreiðanleikakönnun og hafi drögum að skýrslu verið skilað 24. júlí 2006. Í kjölfarið hafi KPMG ráðlagt stefnanda að ganga frá endanlegum samningi um kaup á hlutum í félögunum. Afsal var undirritað 26. júlí 2006 og greiddi stefnandi þá umsamið kaupverð og fékk sama dag hina seldu hluti afhenta. Jafnframt segir þar að stefnandi höfði mál þetta til greiðslu skaðabóta og/eða afsláttar vegna verulegra vanefnda stefndu á kaupsamningi um hluti í Íshlutum ehf., en geri hins vegar ekki athugasemdir við efndir stefndu á samningi um kaup á hlutum í Vélafli ehf. Annars vegar telur stefnandi, að þrátt fyrir ofangreindan fyrirvara hafi stefndu beitt hann blekkingum, er þeir greiddu sér arð úr
Íshlutum ehf., að fjárhæð 72.000.000 króna, skömmu áður en þeir afhentu stefnanda hina seldu hluti á árinu 2006. Hins vegar hafi komið í ljós að ýmsar þýðingarmiklar upplýsingar í ársreikningi félagsins fyrir árið 2005 hafi reynst rangar, og nefnir stefnandi sérstaklega að framlegð hafi verið oftalin, birgðir oftaldar, skuldir vantaldar og að félagið hafi ekki verið rétthafi að bókhaldskerfi þess. Samanlagt mynda kröfur stefnanda stefnufjárhæðina í máli þessu, 105.296.674 krónur.
III.
Frávísunarkrafa stefndu er á því reist að málatilbúnaður stefnanda sé í andstöðu við 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. og 1. mgr. 95. gr. sömu laga. Stefnandi hafi ekki lagt fram áreiðanleikakönnun KPMG endurskoðunar, sem stefndu staðhæfa að hafi þó verið grundvöllur og meginforsenda stefnanda fyrir viðskiptum hans. Stefndu hafi sjálfir ekki fengið áreiðanleikakönnunina í hendur, hvorki við gerð afsals eða síðar, þótt eftir því hafi verið leitað, og geti þeir af þeim sökum ekki með góðu móti teflt fram vörnum sínum við kröfum stefnanda. Hins vegar hafi stefndu sjálfir lagt fram í málinu árshlutauppgjör Íshluta ehf., dagsett 12. júní 2006, þar sem miðað sé við stöðu félagsins 31. maí 2006. Megi þar glögglega sjá að greiddur hafi verið arður til hluthafa, 72.000.000 króna, og hljóti stefnandi því að hafa vitað af arðgreiðslunum þegar viðskiptin fóru fram.
Krafa stefndu byggist einnig á því að stefnandi hafi ekki lagt fram bókhald félagsins vegna ársins 2005 og fyrri helming ársins 2006, né heldur hreyfingalista, og sé stefndu því ógerlegt að staðreyna hvort staðhæfingar stefnanda um einstakar færslur í bókhaldi eigi við rök að styðjast. Telja stefndu að málatilbúnaði stefnanda sé af þessum sökum svo áfátt að efnisdómur verði ekki lagður á málið.
IV.
Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefndu verði hrundið og að stefndu greiði sér málskostnað in solidum. Byggir stefnandi á því að frávísunarkrafan sé bæði vanreifuð og órökstudd og að engin skylda hvíli á honum að leggja fram þau gögn sem stefndu telji sig nú skorta, hvorki umrædda áreiðanleikakönnun né bókhald fyrirtækisins. Hafnar stefnandi því að honum hafi verið kunnugt um arðgreiðslur stefndu. Þvert á móti bendir hann á að í kaupsamningi aðila frá 26. maí 2006 sé berum orðum tekið fram að kaupverð byggist á ársreikningi 2005 og að stefndu ábyrgist að arður verði ekki greiddur fram til þess tíma er afhending hlutafjár fari fram. Þótt stefnandi hafi áskilið sér að áreiðanleikakönnun færi fram, breyti það engu um efni kaupsamningsins og þeirra skjala sem hann byggi á og þar sé vísað til. Um leið vísar stefnandi á bug þeirri staðhæfingu stefndu að framlögð gögn teljist ekki nægileg til þess að fjallað verði efnislega um málið. Bendir hann á að greinargerð stefndu beri þess ekki vitni að stefndu hafi átt í nokkrum erfiðleikum með varnir. Þá geri lög um meðferð einkamála ráð fyrir því að heimilt sé að afla gagna undir rekstri málsins, sé tilefni til slíks. Að öðru leyti telur stefnandi kröfur sínar ítarlega reifaðar og rökstuddar.
V.
Eins og fram er komið höfðar stefnandi mál þetta á hendur stefndu til greiðslu skaðabóta og/eða afsláttar af kaupverði, vegna kaupa sinna á 99% hlutum í Íshlutum ehf. og Vélafli ehf. Byggir stefnandi á því að stefndu hafi verulega vanefnt kaupsamning um hið selda frá 26. maí 2006, og felist vanefndirnar annars vegar í því að stefndu hafi greitt sér arð skömmu fyrir afhendingu hins selda, alls 72.000.000 króna, en hins vegar í því að upplýsingar í ársreikningi Íshluta ehf. fyrir árið 2005 hafi reynst rangar í veigamiklum atriðum.
Í kaupsamningi aðila frá 26. maí 2006 kemur skýrlega fram að ársreikningar félaganna fyrir árið 2005 hafi legið til grundvallar við ákvörðun um kaupverð hins selda. Jafnframt ábyrgðust stefndu þá persónulega að rekstri og eignastöðu félaganna væri réttilega lýst í ársreikningum og að engar óeðlilegar breytingar á efnahag eða rekstri félaganna, þ.m.t. útgreiðsla arðs, hefðu átt sér stað fram að þeim tíma er afhending hlutafjárins færi fram. Í samningnum var einnig áskilnaður um að fram færi áreiðanleikakönnun og gat stefnandi á grundvelli kaupsamningsins krafist afsláttar eða lýst samninginn niður fallinn, leiddi sú könnun í ljós veruleg frávik frá því sem vísað var til í kaupsamningi aðila. Jafnframt sagði þar að kaupverð yrði innt af hendi innan 10 daga frá því að niðurstöður áreiðanleikakönnunar lægju fyrir. Ekki er um það deilt að umrædd áreiðanleikakönnun var gerð af KPMG endurskoðun og henni skilað í drögum að skýrslu til stefnanda 24. júlí 2006. Þá er ekki um það deilt að stefndu fengu ekki skýrslu endurskoðunarfirmans í hendur.
Í stefnu er frá því greint að KPMG endurskoðun hafi í kjölfar skýrslu sinnar ráðlagt stefnanda að ganga frá endanlegum samningi um kaup hins selda, og var afsal gert 26. júlí 2006. Þótt ekkert verði fullyrt um efni skýrslunnar verður engu að síður að telja ljóst að niðurstöður hennar og ráðleggingar skýrsluhöfundar hljóta að hafa ráðið úrslitum um ákvörðun stefnanda um endanleg kaup hins selda og greiðslu umsamins kaupverðs. Er þá sérstaklega til þess horft að stefnandi hafði ótvíræða heimild til afsláttar eða riftunar samningsins, leiddi áreiðanleikakönnun í ljós veruleg frávik frá kaupsamningi aðila.
Samkvæmt 1. mgr. 95. gr. sömu laga skal stefnandi við þingfestingu leggja fram stefnu og þau skjöl sem varða málatilbúnað hans eða hann byggir annars kröfur sínar á. Við þingfestingu þessa máls var hvorki umrædd áreiðanleikakönnun lögð fram, né árshlutauppgjör Íshluta ehf. frá 12. júní 2006, þar sem miðað var við stöðu félagsins 31. maí 2006. Af stefnu verður heldur ekki ráðið að stefnandi hafi áform um að leggja þau gögn fram á síðari stigum. Hins vegar liggur fyrir í árshlutauppgjörinu, sem stefndu lögðu fram, að arður hafði verið greiddur til hluthafa, að fjárhæð 72.000.000 króna.
Í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er að finna fyrirmæli um efni stefnu. Megininntak þess ákvæðis er að málatilbúnaður skuli vera svo skýr og glöggur að ekki fari milli mála hvert sakarefnið sé. Er tilgangurinn sá að stefndi geti með góðu móti áttað sig á þeim kröfum sem fram eru settar í stefnu og atvikum að baki þeim, og tekið til varna ef svo ber undir. Í ljósi ofanritaðs er það álit dómsins að umrædd áreiðanleikakönnun kunni að varpa ljósi á kröfugerð og málsástæður stefnanda, og ráða um leið vörnum stefndu. Þar sem hennar nýtur ekki við, verður að fallast á það með stefndu að þeim sé erfitt um vik að verjast kröfum stefnanda. Með vísan til e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, ber því að fallast á kröfu stefndu um að vísa máli þessu frá dómi.
Í þinghaldi í máli þessu, 21. nóvember 2008, óskuðu lögmenn sameiginlega eftir fresti til gagnaöflunar og var málinu frestað til 15. desember sl. Í því þinghaldi lagði lögmaður stefnanda m.a. fram oftnefnda áreiðanleikakönnun frá KPMG, dagsetta í júlí 2006. Lögmaður stefndu mótmælti framlagningu skjalanna og benti á að í málinu væri krafa um frávísun þess.
Af ákvæði e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, svo og 2. mgr. 100. gr. sömu laga, verður sú ályktun dregin að hafi stefndi uppi kröfu um frávísun málsins í greinargerð, skuli málið flutt um þá kröfu eins og málið liggur þá fyrir. Er stefnanda því á þessu stigi málsins óheimilt að skýra eða lagfæra málatilbúnað sinn, eftir atvikum með framlagningu frekari gagna, í því skyni að verjast frávísunarkröfu stefnda, sbr. og 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991. Stefndu hafa þegar skilað greinargerð í málinu og byggja varnir þeirra á þeim gögnum sem lögð voru fram við þingfestingu málsins. Gegn mótmælum stefndu er því ekki unnt að líta til þeirra gagna stefnanda, sem fram komu í þinghaldi 15. desember sl.
Eftir úrslitum málsins, sbr. og 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnanda gert að greiða stefndu sameiginlega málskostnað, sem ákveðst hæfilegur 140.000 krónur.
Úrskurðinn kvað upp Ingimundur Einarsson héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Hið íslenska gáfumannafélag ehf., greiði stefndu, Pétri Ingasyni og Gunnari Björnssyni, sameiginlega 140.000 krónur í málskostnað.