Hæstiréttur íslands

Mál nr. 380/1999


Lykilorð

  • Bifreið
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Skaðabótalög
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000.

Nr. 380 /1999.

Kristín Rós Sigurðardóttir

(Stefán Geir Þórisson hrl.)

gegn

Grétari Guðmundssyni og

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Hákon Árnason hrl.)

 

Bifreiðir. Líkamstjón. Örorka. Skaðabótalög. Gjafsókn.

K varð fyrir slysi, þegar hún var farþegi í jeppabifreið G, sem tryggð var lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá V. Var K tæplega 18 ára þegar slysið varð og átti skammt eftir til stúdentsprófs, en eftir slysið hóf hún nám í hjúkrunarfræði. Að beiðni K tók örorkunefnd afstöðu til varanlegrar örorku K og mat hana 12%. V greiddi K bætur fyrir varanlega örorku samkvæmt 8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 miðað við 125% af bótum fyrir varanlegan miska, en K höfðu áður verið greiddar bætur fyrir tímabundið atvinnutjón, þjáningar og varanlegan miska. K höfðaði mál gegn G og V og krafðist frekari bóta fyrir varanlega örorku. Taldi hún að ákveða ætti sér bætur samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga miðað við meðaltekjur hjúkrunarfræðinga. Á það var fallist með héraðsdómara, að með hliðsjón af skýringum í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til skaðabótalaga, hefði V verið rétt að greiða K örorkubætur samkvæmt 8. gr. skaðabótalaga í samræmi við álit örorkunefndar um að varanleg örorka hennar væri 12%. Var ekki á það fallist, að sú niðurstaða bryti gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Taldist varanleg örorka K því að fullu bætt og voru G og V sýknaðir af kröfum hennar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. september 1999. Hún krefst þess aðallega að stefndu verði dæmdir til að greiða sér 1.756.981 krónu með 2% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 1. október 1994 til 10. ágúst 1997, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 727.213 krónum 9. febrúar 1999. Til vara krefst hún 847.115 króna með sömu vöxtum og sama frádrætti vegna innborgunar og í aðalkröfu. Hún úHH   krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt fyrir báðum dómstigum.

Af hálfu stefndu er krafist staðfestingar héraðsdóms auk málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Áfrýjandi varð fyrir slysi 1. október 1994, þegar hún var farþegi í jeppabifreið í eigu stefnda Grétars Guðmundssonar, er fór út af vegi á Svínvetningabraut í Húnavatnssýslu og valt. Var áfrýjandi þá tæplega nítján ára aða aldri. Í mati Sigurjóns Sigurðssonar læknis 15. mars 1996 var komist að þeirri niðurstöðu að við slysið hafi áfrýjandi hlotið varanlegan áverka, sem einkum lýsti sér í tognun á öxl, hálsi og í brjóstbaki. Í mati örorkunefndar 21. desember 1996 var varanlegur miski áfrýjanda talinn vera 8% og 1. júlí 1997 mat nefndin varanlega örorku hennar 12%. Greiddi stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. áfrýjanda bætur í samræmi við það á grundvelli miskastigs samkvæmt 8. gr. skaðabótalaga. Hafði þessi stefndi áður greitt henni bætur fyrir tímabundið atvinnutjón, þjáningar og varanlegan miska. Lýtur ágreiningur málsaðila nú eingöngu að greiðslu bóta fyrir varanlega örorku, sem áfrýjandi krefst að verði metin á grundvelli 5.-7. gr. skaðabótalaga, en ekki 8. gr. sömu laga. Málsástæður aðila eru nánar raktar í héraðsdómi.

Við flutning málsins fyrir Hæstarétti var vísað af hálfu áfrýjanda til stuðnings kröfum sínum til dóms réttarins 1998, bls. 1976 í dómasafni, en þar hafi verið fallist á að örorka tjónþola væri metin samkvæmt 5.-7. gr. áðurnefndra laga í tilviki, sem sé sambærilegt máli áfrýjanda. Ekki verður fallist á að í því máli sé að finna fordæmi, sem að þessu leyti sé unnt að líta til við úrlausn ágreinings aðila, en verulegur munur er á aðstöðu tjónþolans í því máli og áfrýjanda. Verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að með hliðsjón af skýringum í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til skaðabótalaga, verði ekki hjá því komist að tjón áfrýjanda verði bætt eftir reglum 8. gr. laganna. Verður ekki heldur fallist á að sú niðurstaða feli í sér brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, svo sem hreyft var af hálfu áfrýjanda í greinargerð til Hæstaréttar.

Að þessu virtu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Rétt er að hver aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Um gjafsóknarkostnað fer svo sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 250.000 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 1999.

Mál þetta, sem dómtekið var 29. júní síðastliðinn, er höfðað með stefnu, þingfestri 23. febrúar 1999.

Stefnandi er Kristín Rós Sigurðardóttur, kt. 061175-4589, Urðarbraut 23, Blönduósi.

Stefndu eru Grétar Guðmundsson, kt. 040748-2109, Grjótagötu 5, Reykjavík, og Vátryggingafélag Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík.

 Stefnandi krefst þess aðallega, að stefndu verði gert að greiða henni in solidum 1.756.981 krónur með 2% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá  1. október 1994 til 10. ágúst 1997 og að vextirnir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn l. október 1995. Jafnframt er krafist dráttarvaxta af nefndri fjárhæð samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum, frá 10. ágúst 1997 til greiðsludags. Höfuðstólsfærist dráttarvextir árlega, í fyrsta sinn þann 10. ágúst 1998, að frádreginni innborgun, 727.213 krónum, þann 9. febrúar 1999. Til vara er krafist, að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda in solidum 847.115 krónur með 2% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 1. október 1994 til 10. ágúst 1997 og að vextirnir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. október 1995. Jafnframt er krafist dráttarvaxta af nefndri fjárhæð samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum, frá 10. ágúst 1997 til greiðsludags. Höfuðstólsfærist dráttarvextir árlega, í fyrsta sinn 10. ágúst 1998, að frádreginni innborgun 9. febrúar 1999, 727.213 krónum.

Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, ásamt virðisaukaskatti, en stefnandi var veitt gjafsókn 28. janúar 1998.

Dómkröfur stefndu eru þær aðallega, að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati dómsins, en til vara, að stefnukröfur verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

I.

Málavextir

 Hinn 1. október 1994 var stefnandi farþegi í framsæti jeppabifreiðarinnar R-79911, sem vinkona hennar, Elfa Þöll Grétarsdóttir, kt. 010275-4749, dóttir stefnda Grétars Guðmundssonar, ók frá Blönduósi til austurs eftir Svínvetningabraut. Skammt ofan afleggjara að hesthúsahverfinu við Arnargerði missti ökumaður bifreiðarinnar vald á bifreiðinni, sem við það fór út af veginum, stakkst fram á við og valt. Strax eftir slysið fann stefnandi fyrir eymslum hægra megin í hálsi og á herðasvæði, en jafnframt kvartaði hún undan eymslum í hægri síðu.

Að beiðni lögmanns stefnanda mat Sigurjón Sigurðsson læknir, miska og örorku stefnanda af völdum slyssins. Í matsgerð sinni 15. mars 1996 komst læknirinn að þeirri niðurstöðu, að veltan hefði valdið varanlegum áverka, svo sem tognun á hægri öxl og hálsi og einnig vægri tognun í brjóstbaki. Væri tímabundið atvinnutjón stefnanda  100% í tvær vikur, bætur vegna þjáninga skyldi miða við 14 veikindadaga, varanlegur miski væri 15% og varanleg örorka á bilinu 5-15%. Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., vildi ekki una matinu og óskaði eftir því við örorkunefnd, að hún mæti miska stefnanda af völdum slyssins. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu í mati sínu, dagsettu 21. desember 1996, að stefnandi hefði ekki getað búist við frekari bata eftir 1. janúar 1996. Þá taldi örorkunefnd, að varanlegur miski stefnanda væri 8%.

Þann 7. febrúar 1997 gerði vátryggingarfélagið upp við stefnanda vegna  varanlegs miska, 343.480 krónur, og þjáningabóta, 11.800 krónur, auk útlagðs kostnaðar til þess tíma og innheimtuþóknunar lögmannsaðstoðar. Voru bæturnar  mótteknar af lögmanni stefnanda með fyrirvara um bætur fyrir varanlega örorku.

Að ósk stefnanda tók örorkunefnd þann l. júlí 1997 afstöðu til varanlegrar örorku stefnanda vegna slyssins og mat hana 12%. Voru stefnanda greiddar örorkubætur 2. febrúar 1999 á grundvelli miskastigs samkvæmt 8. gr. skaðabótalaga, miðað við 125% af bótum fyrir varanlegan miska. Námu bæturnar 667.125 krónum, auk vaxta og lögmannsþóknunar.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á því, að eina fyrirliggjandi mat um varanlega örorki sé mat örorkunefndar frá l. júlí 1997, þar sem stefnandi sé metin til 12% varanlegrar örorku. Byggi krafa stefnanda á því mati. Um tekjuviðmið sé byggt á meðaltekjum hjúkrunarfræðinga, enda séu tekjur stefnanda fyrir slysið ekki nothæfar sem viðmið, þar sem hún hafi þá verið vel á veg komin með að ljúka námi sínu við Fjölbrautarskóla Norðurlands-vestra. Verði því að meta árslaun sérstaklega, þar sem óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi falli undir 5. - 7. gr. skaðabótalaganna, en ekki 8. gr. þeirra, og því beri við bótaákvörðun að líta til metinnar varanlegrar örorku og ofangreinds tekjuviðmiðs. Sé 8. gr. skaðabótalaganna án alls vafa undantekningarregla frá þeirri meginreglu, að mönnum beri bætur fyrir metna varanlega örorku eftir fyrirkomulagi 5. - 7. gr. laganna. Sæti 8. gr. því þröngri túlkun. Þrátt fyrir aldur stefnanda og framhaldsnám hennar sé alveg ljóst, að hún sé ekki tjónþoli, sem að verulegu leyti nýtir eða kemur til með að nýta vinnugetu sína þannig, að hún hafi engar eða takmarkaðar vinnutekjur, sbr. orðalag 8. gr. skaðabótalaganna. Þá sé mjög mikilvægt, að stefnandi hafi haft launatekjur árið fyrir slys, samtals 834.373 krónur.­ Einnig beri að geta þess, að örorkunefnd hafi í raun komist að þeirri niðurstöðu, að með bætur fyrir varanlega örorku til stefnanda þessa máls skuli fara eftir fyrirkomulagi 5. - 7. gr. skaðabótalaga, en nefndin hafi vísað frá sér fjölda mála, þar sem beðið hafi verið um mat á varanlegri örorku, hafi hún talið að fara hafi átt eftir eftir 8. gr. skaðabótalaganna varðandi uppgjör á bótum fyrir varanlega örorku.

Krafa stefnanda um bætur fyrir varanlega örorku sundurliðast þannig:

 

l. Aðalkrafa

 

1.752.468 + 6% x 7,5 x 12%

1.671.854 krónur

­Hækkun vegna verðbr. 3378/3550

85.127 krónur­

Samtals

1.756.981 krónur­

2. Varakrafa

 

834.373 + 6% x 7,5 x 12%

795.992 krónur­

Hækkun vegna verðbr. 3378/3550

51.123 krónur­

Samtals

847.115. krónur­

 

 

Um tekjuviðmið varðandi aðalkröfu stefnanda vísist til bréfs Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings, dagsetts 6. febrúar 1998, um meðaltekjur félaga í ,,BHMR hópi” í október 1994. Byggt sé á meðaltekjum, enda séu tekjur stefnanda fyrir slysið ekki nothæfar sem viðmið, þar sem stefnandi hafi verið að ljúka námi sínu við Fjölbrautarskólann á Sauðárkróki, er slysið varð. Aðalkrafa stefnanda byggi á 5. - 7. gr. skaðabótalaga og því, að stefnandi falli undir þá skilgreiningu, sem þar komi fram.

Varakrafa stefnanda er byggð á 5. - 7. gr. skaðabótalaga og séu tekjuviðmið þau laun, sem stefnandi hafi haft árið fyrir slys. Við þær tekjur sé bætt 6% vegna tapaðra lífeyrisréttinda og verðbótum til júlí 1997, en þann 7. júlí 1997 hafi verið sent kröfubréf til stefnda Vátryggingafélag Íslands hf. vegna þessa. Dráttarvaxta er krafist samkvæmt. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Ábyrgð stefnda Grétars Guðmundssonar byggist á 90. gr. sbr. 88. gr. umferðalaga nr. 50/1987, en krafa á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf. sé á því byggð, að bifreið stefnda Grétars hafi verið tryggð þar lögboðinni ábyrgðartryggingu samkvæmt 91. gr. umferðarlaga. Sé Grétari stefnt ásamt Vátryggingafélagi Íslands hf. samkvæmt beinum lagafyrirmælum 1. mgr. 97. gr. umfl. nr. 50/1987.

Kröfur um vexti og dráttarvexti styður stefnandi við skaðabótalög nr. 50/1993, einkum 16. gr. og III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.

III.

Málsástæður og lagarök stefndu

Sýknukrafa stefndu er á því byggð, að með þegar greiddum skaðabótum sé stefnandi búin að fá bætt allt það tjón, sem hún eigi lögvarinn rétt til að fá bætt úr hendi stefndu.Ákvarða beri örorkubætur til stefnanda eftir ákvæðum 8. gr. skaðabótalaga, en ekki 5. - 7. gr., eins og stefnandi krefjist. Stefnandi hafi aðeins verið 18 ára að aldri, er hún lenti í bílslysinu 1. október 1994 og nemandi í fullu námi við Fjölbrautarskóla Norðurlands-vestra frá því árið 1993, en áður hafi hún verið í Verkmenntaskólanum á Akureyri og Ármúlaskóla. Hafi stefnandi átt eftir rúmlega hálft ár í stúdentspróf, er slysið varð, og síðan haldið áfram námi, eftir að því var lokið vorið 1995 og sé nú í Háskóla Íslands. Sé því ljóst, að stefnandi hafi stundað nám með eðlilegum hætti, er hún lenti í slysinu, og varið meira en helmingi af starfstíma sínum til námsins, þó að hún aflaði tekna í leyfum og sumarfríum. Eigi því án vafa að ákvarða örorkubætur til hennar samkvæmt 8. gr. skaðabótalaga á grundvelli miskastigs, en í athugasemdum með frumvarpi til skaðabótalaga sé skýrt tekið fram, að reglum 8. gr. skuli beitt um ,,ungt námsfólk þótt það afli tekna í vinnu með námi og án tillits til tekna af þess konar vinnu, svo framarlega sem nemandinn stundar í reynd nám með eðlilegum hætti”. Eigi þetta einmitt við um stefnanda. Hafi dómar Hæstaréttar varðandi 8. gr. skaðabótalaga ekki gengið gegn framangreindum skýringum greinargerðar lagafrumvarpsins á því, hverjir tjónþolar í námi falli undir bótareglur 8. gr. laganna. Að framangreindu virtu, og þar sem stefnandi hafi þann 2. febrúar 1999 fengið greiddar örorkubætur á grundvelli 8. gr. skaðabótalaga í takt við dómafordæmi Hæstaréttar, beri að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.

Verði ekki fallist á aðalkröfu, er varakrafa byggð á því, að stefnanda beri aðeins bætur í takt við meðallaun hennar sjálfrar þrjú síðustu árin fyrir slysið. Stefnandi hafi verið óvenju tekjuhá 1994 og nægi eitt ár ekki til að byggja á viðmiðunartekjur. Er því sérstaklega mótmælt, að við bótaákvörðun séu meðaltekjur hjúkrunarfræðinga notaðar sem viðmiðunartekjur, þar sem stefnandi hafi ekki verið í launuðu starfsnámi, er hún slasaðist. Þá beri í öllum tilvikum að draga frá þegar greiddar örorkubætur, 667.125 krónur.

Kröfum um vexti og dráttarvexti er mótmælt, en bætur til stefnanda hafi verið gerðar upp í takt við gildandi rétt á hverjum tíma, án óeðlilegrar tafar. Skapi það engum rétt til dráttarvaxta, þó að dómstólar auki bótarétt manna með því að breyta gildandi lagareglum.

IV.

Niðurstaða

Í málinu er einvörðungu deilt um, hvort fara eigi eftir reglum 5. – 7. gr. eða 8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku stefnanda af völdum umferðarslyssins 1. október 1994. Hefur uppgjör vegna varanlegs miska og þjáningabóta stefnanda, auk útlagðs kostnaðar hennar við öflun sönnunargagna, þegar farið fram og er ágreiningslaust.

Svo sem áður er getið, greiddi hið stefnda vátryggingarfélag stefnanda 667.125 krónur í bætur vegna varanlegrar örorku þann 8. febrúar 1999, en áður hafði stefndi hafnað bótagreiðslu og vísað til þess, að lokauppgjör hefði þegar farið fram. Segir í rökstuðningi stefnda fyrir greiðslunni, að dómur Hæstaréttar 4. júní 1998 í málinu nr. 317/1997 og fleiri málum hafi breytt gildandi rétti um ákvörðun örorkubóta tjónþola samkvæmt 8. gr. skaðabótalaga með miskastig undir 15%. Hafi stefndi því ákveðið að greiða örorkubætur í takt við hinar nýju bótareglur samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar. Í samræmi við það voru stefnanda greiddar örorkubætur á grundvelli miskastigs samkvæmt 8. gr. skaðabótalaga, miðað við 125% af bótum fyrir varanlegan miska og hliðsjón höfð af því áliti örorkunefndar, að varanleg örorka stefnanda væri 12%.

Er slys það, er málið er sprottið af, átti sér stað, var stefnandi 18 ára nemandi við Fjölbrautarskólann á Sauðárkróki. Lauk hún stúdentsprófi þaðan vorið 1995 og hóf nám í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands um haustið það ár. Kom fram í aðilaskýrslu hennar fyrir dómi, að hún hefði nú lokið þremur árum af fjórum af því námi.

Stefnandi vann með námi sínu bæði fyrir og eftir slysið. Námu atvinnutekjur hennar árið 1993 450.408 krónum, árið 1994 voru þær 832.230 krónur, árið 1995 voru  tekjur hennar 722.899 krónur og árið 1996 numu þær 982.909 krónum.

5. – 7. gr. skaðabótalaga hafa að geyma reglur um örorkubætur fyrir tjónþola með tekjureynslu, en í 8. gr. laganna eru reglur um ákvörðun bóta til tjónþola, sem hafa enga eða takmarkaða tekjureynslu.

Í áðurnefndum dómi Hæstaréttar í málinu nr. 317/1997 segir meðal annars, að líta verði svo á, að í 5. – 7. gr. skaðabótalaga komi fram aðalreglur um ákvörðun bóta vegna skerðingar á varanlegri örorku. Í 8. gr lagann sé fólgið undantekningarákvæði, sem aðeins verði beitt, þegar ekki er um að ræða raunhæfar forsendur, með tilliti til reynslu, til að ákvarða líklegt tekjutap. Geti mismunandi niðurstaða, er leiða kann af ólíkum reiknireglum ákvæðanna, verið tjónþolum úr báðum hópum til hagsbóta. Þá skipti og máli, að tjónþolar í hvorum hópi um sig sæti sams konar aðferðum við ákvörðun bóta, eftir því sem aðstæður eru til. Þegar til alls sé litið, verði að fallast á, að 1. mgr. 8. gr. lagann sé reist á skýrum málefnalegum forsendum. Verði hún ekki talin andstæð þeim megintilgangi laganna, að tjónþoli fái almennt, auk hæfilegra miskabóta, fullar bætur fyrir raunverulegt fjártjón sitt.

Í greinargerð með 8. gr. skaðabótalaga segir, að reglum 8. gr. skuli beitt um ungt námsfólk, þótt það afli tekna í vinnu með námi og án tillits til tekna af þess konar vinnu, svo framarlega sem nemandi stundar í reynd nám með eðlilegum hætti. Ljóst er af því, sem rakið hefur verið, að öll þessi atriði eiga við um stefnanda. 

Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, er það álit dómsins, að hinu stefnda vátryggingafélagi hafi verið rétt að greiða stefnanda örorkubætur grundvelli miskastigs samkvæmt 8. gr. skaðabótalaga, miðað við 125% af bótum fyrir varanlegan miska og með hliðsjón af áliti örorkunefndar um, að varanleg örorka stefnanda væri 12%, en ljóst þykir, að örorka stefnanda kunni að valda henni fjárhagslegu tjóni í framtíðinni. Telst örorkutjón stefnanda því að fullu bætt með þeirri greiðslu, sem stefndi innti af hendi 8. febrúar 1999. Samkvæmt því ber að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í máli þessu, en eftir atvikum er rétt, að málskostnaður falli niður.

Gjafsóknarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991. Í munnlegum málflutningi upplýsti lögmaður stefnanda, að ekki væru hafðar uppi af hálfu stefnanda frekari kröfur um greiðslu útlagðs kostnaðar, en þegar hefði verið innt af hendi af hálfu stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf. Felst gjafsóknarkostnaður stefnanda því eingöngu í launum lögmanns hennar, Stefáns Ólafssonar hdl., sem þykja hæfilega ákveðin 250.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti af málflutningsþóknun.

Dóminn kveður upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.

 

Dómsorð:

Stefndu, Grétar Guðmundsson og Vátryggingafélag Íslands hf., skulu vera sýknir af kröfum stefnanda, Kristínar Rósar Sigurðardóttur, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Laun lögmanns stefnanda, Stefáns Ólafssonar hdl., 250.000 krónur, greiðast úr ríkissjóði.