Hæstiréttur íslands
Mál nr. 19/1999
Lykilorð
- Ómerking
- Heimvísun
|
|
Fimmtudaginn 27. maí 1999. |
|
Nr. 19/1999. |
Alfreð Már Clausen (Sigurður Sigurjónsson hrl.) gegn K.S. verktökum ehf. og Vátryggingafélagi Íslands hf. til réttargæslu (Hákon Árnason hrl.) |
Ómerking. Heimvísun.
Héraðsdómur var ómerktur þar sem verulega skorti á að í honum kæmu fram þau atriði, sem áskilið er í lögum um meðferð einkamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir og Haraldur Henrysson.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 14. janúar 1999. Hann krefst þess aðallega, að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 5.362.800 krónur með dráttarvöxtum frá 16. nóvember 1992 til greiðsludags, en til vara, að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.011.267 krónur með sömu vöxtum og í aðalkröfu. Til frádráttar komi greiðsla frá Tryggingastofnun ríkisins að höfuðstólsverðmæti á slysdegi 378.200 krónur. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að sök verði skipt, dómkröfur áfrýjanda lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda og hann gerir engar kröfur.
Í máli þessu sækir áfrýjandi um bætur vegna slyss, sem hann varð fyrir 16. nóvember 1992, er hann var tvítugur að aldri og vann hjá stefnda við byggingu stúdentagarða í Reykjavík, en hann var á námssamningi í húsasmíði hjá forsvarsmanni stefnda.
Héraðsdómi er verulega áfátt. Ekki er þess getið hvenær málið var höfðað. Málavöxtum og aðstæðum er lýst á ófullnægjandi hátt. Ekki er minnst á skýrslur aðila og vitna, sem gefnar voru fyrir dómi og skipta máli við mat á aðstæðum, er slysið varð. Matsgerð þeirri, sem fram fór eftir að mál var höfðað, eru lítil skil gerð. Ekki er tekin afstaða til málsástæðna aðila og sönnunarstöðu þeirra og eru nánast engar röksemdir færðar fyrir niðurstöðu héraðsdóms. Samning héraðsdóms er því andstæð ákvæðum 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og verður ekki hjá því komist að ómerkja hann og vísa málinu heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur á að vera ómerkur, og er málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. október 1998.
Mál þetta, sem dómtekið var 7. þ.m., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Alfreð Má Steinarssyni Clausen, kt. 180772-5029, Engihlíð 20, Ólafsvík, á hendur KS verktökum ehf., kt. 560491-1749, Kársnesbraut 23, Kópavogi, en til réttargæslu á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru aðallega, að stefndi, KS verktakar ehf., verði dæmdur til að greiða stefnanda 5.368.800 kr. auk dráttarvaxta frá 16. nóvember 1992 til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi að stefndur verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að mati réttarins auk dráttarvaxta frá 16. nóvember 1992 til greiðsludags. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda skv. framlögðum málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda eru aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati dómsins. Til vara krefst hann þess, að sök verði skipt í málinu, stefnukröfur stórlækkaðar og málskostnaður felldur niður.
I.
Sumarið 1992 vann stefnandi í byggingavinnu hjá stefnda við byggingu stúdentagarða við Eggertsgötu nr. 12 - 14 í Reykjavík. Varð stefnandi fyrir því óhappi, er hann hoppaði niður af steinvegg og greip í veggbrúnina sér til handfestu, að járnteinn í veggnum kræktist í ermina á vinnugalla hans þannig að tog og slinkur kom á hægri handlegg stefnanda og öxl. Hafði stefnandi eftir það óþægindi í öxlinni en leitaði ekki til læknis út af því.
Hinn 16. nóvember sama ár var stefnandi enn að vinna hjá stefnda á sama stað. Unnið var við að setja járnplötur á þak hússins. Er verið var að setja járn á kvist á þakinu mun stefnandi hafa staðið og haldið við járnplötu með annarri hendi en með borvél í hinni. Að sögn stefnanda stóð hann með báðar fætur í rennu á mótum kvists og þaks. Kveðst hann hafa verið í öryggisskóm en bleyta hafi verið á þakinu og erfitt að fóta sig þar. Stefnandi kveðst þá hafa runnið til á þakinu, gripið með hægri hendi í handfestu en fengið við það slink á öxlina. Hann mun hálfvegis hafa farið úr axlarliðnum en öxlin strax farið í liðinn aftur. Hann kveðst ekki hafa getað haldið áfram að vinna það sem eftir var dagsins en talið að hann myndi jafna sig. Óhappið mun ekki hafa verið tilkynnt Vinnueftirlitinu né lögregla kvödd á staðinn.
Tveim nóttum eftir óhappið kveðst stefnandi hafa vaknað upp með skerandi sársauka í hægri öxlinni og hafi hún þá verið úr liði. Öxlin hafi síðan þrisvar eða fjórum sinnum farið úr liði í sömu vikunni. Kveðst hann þá hafa leitað til læknis, sem sent hafi hann í röntgenmyndatöku. Hafi þá komið í ljós áverki á frambrún liðskálarinnar í hægri öxl.
Þann 29. mars 1993 var skurðaðgerð framkvæmd á öxlinni og hefur axlaliðurinn verið stöðugur eftir það.
Sigurjón Sigurðsson læknir mat örorku stefnanda. Ályktun hans, dags. 9. nóvember 1994, er er á þessa leið:
Hér er um að ræða ungan mann sem lendir í því að fá slink á hægri öxl í fyrstu mjög væga en síðan verulegan slink þannig að öxlin fer úr lið en fer inn aftur. Hann er síðan stöðugt að fara úr axlarliðnum þannig að hann leitaði til Ríkarðs Sigfússonar læknis sem setti hann í rannsóknir og kom þá í ljós að hér var um liðhlaup að ræða og axlarliðurinn laus. Var því gerð aðgerð þann 29.03.93 þar sem liðurinn var hertur upp. Þrátt fyrir aðgerðina er hann enn með einkenni um þreytu og verki í öxlinni við allt álag og nú þar sem svo langur tími er liðinn frá því að áveki þessi og aðgerð áttu sér stað er vart að vænta frekari bata.
Með tilliti til þess sem að framan greinir þykir því rétt að meta nú þá tímabundnu og varanlegu örorku sem hinn slasaði telst hafa hlotið af völdum þessa slyss og er hún sem hér segir:
Í tvo mánuði og eina viku100%
Varanleg örorka15%
Jón Erlingur Þorláksson tryggingafræðingur áætlaði vinnutekjutap stefnanda af völdum óhappsins miðað við meðaltekjur iðnaðarmanns og á þeim grundvelli, að stefnandi hefði og myndi til frambúðar á hverjum tíma tapa vinnutekjum í sama hlutfalli og örorkan er metin.
Á framangreindu er kröfugerðin byggð en sundurliðuð tölulega þannig:
|
I. Höfuðstóll |
|
|
a: Tímabundið örorkutjón kr. |
138.300,- |
|
b. Varanlegt örorkutjón kr. |
4.692.900,- |
|
c. Töpuð lífeyrisréttindi kr. |
378.200,- |
|
|
|
|
II. Miskabætur kr. |
250.000,- |
|
|
|
|
Samtals kr. |
5.362.800,- |
Stefnandi kveðst reisa kröfu sína á hendur stefnda á því, að óumdeilt sé að hann hafi orðið fyrir slysi og beðið af því líkamstjón þá er hann var að störfum hjá stefnda 16. nóvember 1992. Stefnandi telur ljóst að vanbúnaður á vinnustað hafi verið orsök slyssins. Þannig hafi lítill eða enginn stuðningur verið á þaki fyrir starfsmenn, sem unnu við að festa járn á þak hússins að Eggertsgötu nr. 12 -14 umrætt sinn.
II.
Stefndi byggir sýknukröfu á því að ekki sé sannað, að hann hafi með saknæmu atferli valdið slysi stefnanda 16. nóvember 1992, heldur megi rekja það til óhappatilviljunar og eigin ógætni stefnanda. Vinnupallar hefðu verið allt umhverfis þakið þannig að gólf pallanna nam við þakbrúnin og því ekki hægt að falla fram af þakinu. Þá hafi þakhallinn ekki verið nem um 30°. Fyllilega hafi því verið forsvaranlegt og ósaknæmt að láta menn vinna á þakinu við þessar aðstæður. Sönnunarbyrði um ætlaða sök stefnda og orsakatengsl hvíli óskipt á stefnanda og ekki efni til að slaka á sönnunarkröfum þó óhappið væri ekki tilkynnt lögreglu eða Vinnueftirliti með því að ekki var vitað til þess á þessum tíma að neitt slys hefði orðið.
Verði ekki á sýknukröfu fallist er varakrafa byggð á því, að slysið megi öðrum þræði rekja til ógætni stefnanda sjálfs og óhappatilviljunar. Ekkert slys hefði orðið ef stefnandi hefði sýnt aðgát á þakinu. Rétt sé að stefnandi beri tjón sitt sjálfur í hlutfalli við eigin sök og að því leyti sem slysið verði rakið til óhappatilviljunar.
Stefndi fór fram á dómkvaðningu matsmanna til að skoða og meta heilsufarslegt ástand stefnanda og láta í té skriflegt og rökstutt álit um eftirfarandi:
1) Hver sé tímabundin og varanleg læknisfræðileg örorka Alfreðs Más af völdum slyss hans 16. nóv 1992 eingöngu, metið í hundraðs-hlutum.
2) Hver sé tímabundin og varanleg læknisfræðileg örorka Alfreðs Más af völdum fyrra óhapps sumarið 1992, metið í hundraðhlutum.
Matsgerðin er dagsett 3. mars sl. og var lögð fram í réttinum 7. apríl sl. Niðurstaðan er þessi:
1) Tímabundin læknisfræðileg örorka matsþola vegna slyssins 16. nóvember 1992 þykir hæfilega metin 100 % í 3 mánuði og eina viku.
2) Varanleg læknisfræðileg örorka matsþola vegna óhappsins 16. nóvember 1992 þykir hæfilega metin 5 % - fimm af hundraði.
3) Tímabundin læknisfræðileg örorka matsþola vegna slyss sumarið 1992 er engin.
4) Varanleg læknisfræðileg örorka matsþola af völdum slyss sumarið 1992 þykir hæfilega metin 5 % - fimm af hundraði.
Af hálfu stefnanda var haldið fram við munnlegan flutning málsins að á þessu mati væri ekki byggjandi af því m.a. að nánast engin gögn væru til um slysið sumarið 1992. Hefðu því matsmenn metið varanlega örorku stefnanda af völdum fyrra óhappsins án þess að hafa nokkrar forsendur til þess.
III.
Niðurstaða:
Upplýst er að vinnupallar voru við þakbrún hússins, sem stefnandi var að vinna við þann 16. nóvember 1992. Hann var að vinna við að leggja járnplötur á kvist ásamt vinnufélaga sínum og stóð sem svarar einum meter frá þakbrún er honum varð fótaskortur. Ekkert er óeðlilegt við að nota ekki stiga við slíkar aðstæður fyrst viðkomandi taldi sig geta hafið verkið án hans. Aðrar fallvarnir komu naumast til greina. Hér var því um óhappatilviljun að ræða sem stefndi ber ekki ábyrgð á.
Samkvæmt framangreindu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Stefndi, KS verktakar ehf., er sýkn af kröfum stefnanda, Alfreðs Más Steinarssonar Clausen.
Málskostnaður fellur niður.