Hæstiréttur íslands

Mál nr. 426/2011


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Vinnuslys
  • Orsakatengsl
  • Viðurkenningarkrafa


                                     

Fimmtudaginn 19. janúar 2012.

Nr. 426/2011.

Þórarinn Björn Steinsson

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Norðuráli Grundartanga ehf. og

Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

(Kristín Edwald hrl.)

Skaðabætur. Líkamstjón. Vinnuslys. Orsakatengsl. Viðurkenningarkrafa.

Þ krafðist viðurkenningar á bótaskyldu N ehf. vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í starfi hjá N ehf. er hann, ásamt samstarfsmanni sínum, kom samstarfskonu sinni til aðstoðar og lyfti ofan af henni svokallaðri bakskautsklemmu, sem fallið hafði á hana er verið var að losa hana úr festingum krana. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að N ehf. bæri vinnuveitandaábyrgð á mistökum sem orðið hefðu hjá stjórnanda kranans við verkið. Teldist tjón Þ til bótaskyldra afleiðinga af þeirri háttsemi meðal annars þar sem gera mætti ráð fyrir því að starfsmenn kæmu samstarfsmönnum, sem yrðu fyrir slysum, til hjálpar eftir föngum, ekki síst til að aflétta hættu sem að viðkomandi steðjaði. Viðbrögð Þ og starfsfélaga hans hefðu verið til þess fallin að draga úr tjóni samstarfskonu þeirra og hefðu þau að því leyti verið í þágu hagsmuna N ehf. sem vinnuveitanda hennar. Var bótaskylda N ehf. því viðurkennd.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Greta Baldursdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. júlí 2011. Hann krefst þess aðallega að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda Norðuráls Grundartanga ehf. vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir 21. september 2005 við vinnu í kerskautaskála þessa stefnda. Til vara krefst hann þess að viðurkennt verði að hann eigi rétt á greiðslu bóta úr launþegatryggingu stefnda Norðuráls Grundartanga ehf. hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. vegna framangreinds líkamstjóns. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Við áfrýjun málsins tekur áfrýjandi fram að hann stefni Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu hvað varði aðalkröfu sína en til beinnar aðildar að varakröfu.

Stefndi Norðurál Grundartangi ehf. krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að skaðabótaskylda sín verði aðeins viðurkennd að hluta og málskostnaður látinn niður falla.

Stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Svo sem lýst er í hinum áfrýjaða dómi slasaðist áfrýjandi 21. september 2005 er hann var við vinnu í kerskautaskála hjá stefnda Norðuráli Grundartanga ehf. í verksmiðju hans að Grundartanga. Hafði svonefnd bakskautsklemma fallið á samstarfskonu áfrýjanda, Málfríði Söndru Guðmundsdóttur, þegar klemma þessi var losuð úr festingum krana, áður en hún hafði skorðast á bakskauti þar sem til stóð að koma klemmunni fyrir. Festust fætur Málfríðar Söndru undir klemmunni og lá hún með efri hluta líkamans út af bakskautum sem hún hafði staðið á þegar óhappið varð. Áfrýjandi og samstarfsmaður hans, Helgi Valur Ármannsson, hlupu til og lyftu öðrum enda bakskautsklemmunnar upp, þannig að Málfríður Sandra losnaði undan henni. Klemman mun hafa vegið um 620 kíló og er óumdeilt í málinu að áfrýjandi hlaut bakmeiðsli við átakið er hann lyfti klemmunni. Samkvæmt gögnum sem lögð hafa verið fram í málinu hefur áfrýjandi ekki náð sér af bakmeiðslunum og virðist hann því hafa hlotið varanlega örorku í þessu slysi, þó að ekki liggi fyrir mat á afleiðingum þess fyrir líkamsheilsu hans.

Aðalkröfu sína byggir áfrýjandi á því að stefndi Norðurál Grundartangi ehf. beri skaðabótaábyrgð á slysi samstarfskonu hans Málfríðar Söndru og sé sá skaði, sem hann sjálfur hlaut er hann kom henni til hjálpar, hluti af því tjóni sem þessum stefnda beri að bæta á grundvelli bótaábyrgðar sinnar. Stefndi hefur mótmælt þessu. Telur hann orsakir slyss Málfríðar Söndru ekki vera þess háttar að hann beri skaðabótaábyrgð á afleiðingum þess. En jafnvel þó að slík bótaábyrgð yrði talin vera fyrir hendi telur stefndi að líkamstjón áfrýjanda geti ekki talist sennileg afleiðing af slysi Málfríðar Söndru þannig að honum beri þá að bæta áfrýjanda það.

II

Vinnuslysið 21. september 2005 var strax tilkynnt til lögreglu og Vinnueftirlits ríkisins og komu fulltrúar beggja á staðinn. Ljósmyndir voru teknar af slysstaðnum sem liggja fyrir í málinu. Í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins sama dag segir svo um tildrög slyssins: „Málfríður hafði verið ásamt starfsfélögum sínum Óskari og Ragnari að flytja rafskaut niður í gryfju og koma þeim þar fyrir. Við verkið var notaður brúkrani sem Óskar stjórnaði með fjarstýringu. Ragnar var ofan í gryfjunni en slasaða og Óskar sáu um að koma klemmunni fyrir á réttum stöðum, í þar til gerðar raufar/sæti á svokölluðum „börrum“ sitt hvoru megin við skautin. Þegar nota þurfti kranann í annað verk þurfti að taka klemmuna úr króknum sem hékk í krananum og hélt klemmunni uppi. Þegar verið var að setja hana niður stóð til að skorða hana í einu skautanna í þeim „sætum“ sem áður er getið. Þá tekur Ragnar eftir því, þar sem hann var staddur ofan í gryfjunni sem var til hliðar við skautin, að Málfríður kemur klemmunni ekki rétt fyrir og kallar til hennar. Í sömu mund losnar krókurinn frá klemmunni sem fellur af barra skautsins og á hliðina. Skautunum var staflað í tvær hæðir og var slasaða stödd upp á neðra laginu þar sem búið var að flytja nokkur skautanna niður þaðan. Klemman lenti á báðum fótum Málfríðar. Á barranum mátti sjá rispur eftir klemmuna þar sem henni var ranglega fyrir komið.“ Ennfremur segir svo í skýrslu Vinnueftirlitsins: „Orsök slyssins má helst rekja til þess að stjórnandi kranans þurfti bæði að huga að festingunni sem hann var að koma fyrir og samtímis að stjórna krananum. Hann hafði því ekki nægilega yfirsýn yfir verkið.“ Í lokin á skýrslunni eru gefin svofelld fyrirmæli um úrbætur: „1. Stjórnandi brúkrana skal ekki sinna öðrum störfum á meðan, svo tryggt sé að hann hafi fulla yfirsýn og athygli við verkið. 2. Gæta skal þess að sá er stjórnar brúkrana hafi hlotið til þess nægilega þjálfun.“

Af þessari skýrslu Vinnueftirlits ríkisins, skýrslu lögreglu sem kom á staðinn, ljósmyndum sem fyrir liggja í málinu og framburði starfsmanna stefnda Norðuráls Grundartanga ehf. fyrir dómi, verður ráðið að orsaka slyssins sé að leita í því að stjórnandi kranans hafi ekki haft næga yfirsýn yfir stöðu klemmunnar til endanna þar sem rauf á henni átti að skorðast um barrann. Málfríður Sandra virðist heldur ekki hafa getað séð þessa stöðu frá þeim stað þar sem hún mun hafa staðið þegar hún losaði klemmuna úr krananum sýnilega í þeirri trú að klemman hefði skorðast til endanna. Það verða því að teljast mistök hjá þeim starfsmanni stefnda Norðuráls Grundartanga ehf. sem stjórnaði krananum að hafa gefið slaka á hífinguna án þess að hafa fyrst fullvissað sig um stöðu klemmunnar að þessu leyti. Var það jafnframt andstætt fyrirmælum um stjórn krana sem óumdeilt er að hafi gilt hjá þessum stefnda á þeim tíma er slysið varð. Á þessum mistökum ber þessi stefndi ábyrgð eftir reglu íslensks réttar um vinnuveitandaábyrgð.

III

Áfrýjandi varð fyrir tjóni sínu er hann kom samstarfsmanni sínum Málfríði Söndru í skyndingu til hjálpar þar sem hún hafði skorðast undir þungu málmstykki. Telja verður að viðbrögð áfrýjanda, og hins starfsmannsins sem lyfti undir klemmuna með honum, hafi verið eðlileg við þær aðstæður sem upp voru komnar. Má fyrirfram gera ráð fyrir að starfsmenn komi samstarfsmönnum, sem verða fyrir slysum, til hjálpar eftir föngum, ekki síst til að aflétta hættu sem að samstarfsmanni steðjar, eins og að losa hann undan fargi svo sem hér var raunin. Viðbrögð áfrýjanda og starfsfélaga hans voru líka til þess fallin að draga úr tjóni samstarfsmannsins sem undir farginu lá og voru þau að því leyti í þágu hagsmuna stefnda Norðuráls Grundartanga ehf. sem vinnuveitanda samstarfsmannsins. Af þessu leiðir að tjónið sem áfrýjandi varð fyrir, er hann lyfti hinu þunga fargi, telst til bótaskyldra afleiðinga af þeirri háttsemi sem fyrr var lýst og talin er valda bótaskyldu stefnda Norðuráls Grundartanga ehf.

Samkvæmt framansögðu verður aðalkrafa áfrýjanda tekin til greina á þann hátt sem í dómsorði greinir. Þarf þá ekki að taka afstöðu til varakröfu hans.

Stefndi Norðurál Grundartanga ehf. verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Málskostnaður gagnvart stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. verður felldur niður.

Dómsorð:

Viðurkennd er skaðabótaskylda stefnda Norðuráls Grundartanga ehf. á líkamstjóni áfrýjanda, Þórarins Björns Steinssonar, er hann hlaut við störf hjá stefnda 21. september 2005.

Stefndi Norðurál Grundartangi ehf. greiði áfrýjanda samtals 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Málskostnaður gagnvart stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júlí 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var 7. júní sl., var höfðað 25. nóvember 2009.

Stefnandi er Þórarinn Björn Steinsson, Hörðukór 3, Kópavogi.

Stefndi er Norðurál Grundartangi ehf., kt. 570297-2609, Grundartanga. Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík er stefnt til réttargæslu.

Til vara er stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

Dómkröfur stefnanda

Stefnandi gerir þá dómkröfu aðallega að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda og vinnuveitandaábyrgð Norðuráls á þeim bakmeiðslum sem stefnandi varð fyrir hinn 21. september 2005 við vinnu í kerfóðrunardeild Norðuráls.

Ef ekki verður orðið við dómkröfum stefnanda í aðalaðild gerir hann neðangreinda kröfu í varaaðild að viðurkennt verði með dómi að stefnandi eigi rétt á bótum úr launþegatryggingu Norðuráls Grundartanga ehf., hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf., vegna bakmeiðsla sem hann varð fyrir hinn 21. september 2005 við vinnu í kerfóðrunardeild Norðuráls hf.

Þá er þess krafist að stefndu verði í báðum tilvikum gert að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu samkvæmt málskostnaðaryfirliti lögmanns stefnanda sem lagt verður fram við aðalmeðferð málsins. Við málskostnaðarákvörðun verði tekið tillit til þess að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.

Dómkröfur stefnda 

Aðalstefndi krefst þess aðallega að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dámsins.

Aðalstefndi krefst þess til vara að verða aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta vegna atviksins hinn 21. september 2005 og að málskostnaður verði látinn niður falla.

Varastefndi krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða varastefnda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðar­reikningi eða samkvæmt mati dómsins.

Málavextir

Málavextir eru þeir að stefnandi slasaðist hinn 21. september 2005 er hann var við vinnu hjá stefnda, Norðuráli. Tildrög slyssins voru þau að samstarfskona stefnanda, Málfríður Sandra Guðmundsdóttir var að setja bakskautsklemmu, sem var hífð með krana, niður á bakskaut þar sem átti að geyma hana meðan kraninn var notaður í annað. Átti klemman að setjast í þar til gerða rauf á báðum endum skautsins. Þar sem klemman hafði ekki fallið réttilega í raufina öðrum megin féll hún yfir á Málfríði í þann mund er hún losaði klemmuna úr stroffu kranans. Féll klemman yfir fætur hennar. Stefnandi og annar starfsmaður, Helgi Valur Daníelsson, hlupu til og saman gátu þeir lyft  öðrum enda  bakskautsklemmunnar ofan af fótum Málfríðar Söndru þannig að hún losnaði. Við þetta átak kveðst stefnandi hafa tognað í baki og hlotið varanlegt mein af. Samkvæmt upplýsingum frá stefnda Norðuráli mun bakskautsklemman vega 620 kg.

Lögregla kom á vettvang. Einnig var haft samband við Vinnueftirlitið og kom það á vettvang. Skriflegar tilkynningar vegna slyssins voru sendar Vinnueftirlitinu þann 27. september 2005.

Stefnandi var fluttur á sjúkrahúsið á Akranesi. Í vottorði Fritz H. Berndsen, yfirlæknis segir svo m.a: „Þórarinn var við vinnu í Norðurál (sic) þegar það atvikaðist að samstarfskona hans lenti undir þungu fari sem að Þórarinn lyfti ofan af henni. Nokkrum mín. eftir þetta fékk hann mikinn takverk í mjóbakið sem að dadieraði út yfir anterior og lateral hæ. læri, en ekki neðar. Hann var það slæmur við skoðun að hann gat sig lítið hreyft og var þess vegna lagður inn til verkjastillingar. Diffus palpeymsli voru yfir mjóbaki, bæði yfir hrygg og bilat.“ Hann útskrifaðist af spítalanum daginn eftir vel verkjastilltur. Fékk recept upp á verkjastillandi lyf.“

Stefnandi kveðst eftir þetta hafa átt við sífelld bakvandamál að etja, sbr. læknisvottorð. Stefnandi hafi þó ekki látið meta áverka sína til miska þar sem bótaskylda hafi ekki verið viðurkennd, hvorki skaðabótaskylda né skylda til greiðslu úr launþegatryggingu, en ljóst sé hins vegar að um varanlega áverka sé að ræða.

Í janúar 2009 leitaði stefnandi til Sjóvár-Almennra trygginga hf. og óskaði eftir því að tekin yrði afstaða til þess hvort um bótaskylt atvik úr launþegatryggingu stefnda væri að ræða. Þann 2. mars 2009 hafnaði stefndi, Sjóvá­-Almennar tryggingar hf., greiðsluskyldu úr launþegatryggingu stefnda Norðuráls þar sem ekki væri um að ræða slys í skilningi 2. mgr. 1. gr. skilmála slysatryggingar launþega, þ.e. skyndilegan utanaðkomandi atburð sem valdið hefði meiðslum á líkama þess sem tryggður er og gerist sannanlega án vilja hans.

Stefnandi skaut málinu til Úrskurðarnefndar vátryggingarfélaganna. Niðurstaða úrskurðar­nefndarinnar í úrskurði kveðnum upp hinn 7. apríl 2009 var sú að meiðsl stefnanda yrðu ekki rakin til skyndilegs utanaðkomandi atburðar og skyldi líkamstjón því ekki bætast úr slysatryggingu launþega.

Stefnandi kveðst ekki geta sætt sig við þessa niðurstöðu og telur sig knúinn til að höfða mál þetta, í fyrsta lagi til viðurkenningar á skaðabótaskyldu og til vara til viðurkenningar á rétti til bóta úr launþegatryggingu.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi byggir kröfu sína um viðurkenningu á skaðabótaskyldu Norðuráls á vinnuveitendaábyrgð félagsins. Er á því byggt að hann hafi slasast við vinnu sína hjá félaginu. Orsaka slyssins sé að rekja til þess að hífingarbúnaður bakskautsklemmu hafi bilað og klemman fallið á starfsfélaga stefnanda með þeim afleiðingum að stefnandi og annar starfsmaður Norðuráls hafi hlaupið til og lyft klemmunni af starfsfélaga sínum. Við það hafi stefnandi slasast.

 Einnig byggir stefnandi á því að mistök hafi verið gerð við hífinguna eða losun klemmunnar, en slys stefnanda megi rekja til þess. Byggir stefnandi á því að honum, og Helga Val, sem aðstoðaði hann við að lyfta klemmunni af samstarfskonunni, hafi við slysið orðið bilt við og ósjálfrátt reynt að bjarga henni, með þeim afleiðingum að stefnandi hafi slasast.

Stefnandi kveður hegðun sína umrætt sinn hafa verið í eðlilegum tengslum við starf sitt. Þá byggir stefnandi á því að störf í kerfóðrunarskálanum hafi verið hættuleg, sérstök varúð hafi verið nauðsynleg og því eigi við í máli þessu svokölluð hert sakarábyrgð vinnuveitanda.

Stefnandi bendir á að nauðsynlegt hafi verið að lyfta klemmunni strax af vinnufélaga sínum til að komast hjá frekara tjóni og það hefði ekki verið mögulegt með öðrum hætti, enda hafi verkstjóri hans samþykkt þessar aðgerðir hans og Helga Vals.

Stefnandi byggir viðurkenningarkröfu sína í varaaðild á þeirri launþegatryggingu sem Norðurál hafi verið með hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf., samkvæmt kjarasamningum, er hann slasaðist. Hann hafi slasast við vinnu sína hjá Norðuráli og eigi því beina kröfu á hið stefnda félag, í samræmi við tryggingarskilmála launþegatryggingar Norðuráls hjá hinu stefnda félagi.

Samkvæmt launþegatryggingu (hópvátryggingu) Norðuráls hjá hinu stefnda félagi eigi stefnandi beina kröfu á hið stefnda félag til lúkningar slysabótum sínum, sbr. og ákvæði laga um vátryggingasamninga og þar með rétt til viðurkenningarkröfunnar.

Stefnandi byggir á því að enda þótt hann sjálfur hafi ekki orðið fyrir því að bakskautsklemman féll á hann hafi verið um að ræða skyndilegan utan að komandi atburð sem hafi valdið honum líkamstjóni. Hann hafi ósjálfrátt, ásamt öðrum samstarfsmanni sínum, lyft klemmunni ofan af samstarfskonu sinni, en við það hafi hann tognað í baki. Sé um atvikið vísað til tilkynningar vinnuveitanda hans til Vinnueftirlits ríkisins, frá 27. september 2005. Aðstæður hafi verið á þann veg að enginn umhugsunartími hafi gefist, heldur hafi þeir vinnufélagarnir umsvifalaust orðið að lyfta klemmunni haf samstarfskonu sinni. Stefnandi hafi því ekki slasast við hefðbundið verk eða starf fyrir vinnuveitanda sinn eða við það að hann hafi unnið með hefðbundinni vinnustellingu við ákveðið verk, heldur hafi hann verið að afstýra bráðri hættu, eins og honum hafi borið skylda til að gera, en við það hafi hann tognað í baki og hlotið varanlegt líkamstjón, en athafnaleysi geti, við slíkar aðstæður, einnig verið saknæmt.

Um hafi verið að ræða einn slysaatburð, þ.e. skyndilegan utanaðkomandi atburð, sem valdið hafi meiðslum á líkama stefnanda, sem tryggður hafi verið launþegatryggingu hjá hinu stefnda félagi og hafi gerst sannanlega án vilja stefnanda. Þannig falli atburðurinn undir lið 1.2 í skilmálum félagsins.

Byggir stefnandi á því að ytri atvik hafi þróast með óvæntum hætti, sem stefnandi hafi orðið að bregðast við með þeim hætti sem hann gerði.

Verði ekki fallist á ofangreindar málsástæður stefnanda bæði í aðalsök og varasök/varaaðild, byggir hann viðurkenningarkröfur sínar einnig á reglum skaðabótaréttarins um óbeðinn erindisrekstur, að um hafi verið að ræða óssjálfráð viðbrögð hans til að afstýra líkamstjóni samstarfskonu, sem verið hafi í yfirvofandi hættu. Með því hafi stefnandi, fyrir vinnuveitanda sinn, gætt hagsmuna samstarfskonu sinnar, ásamt vinnufélaga sínum, sem hún hafi sjálf ekki getað á þeirri stundu sem hún lá undir klemmunni. Þá hafi háttsemi stefnanda verið forsvaranleg og í raun sjálfsögð og hafi ekki gengið lengra en nauðsyn bar til, svo frekara tjóni yrði afstýrt.

Samkvæmt reglum skaðabótaréttarins um óbeðinn erindisrekstur skuli eigandi þeirra hagsmuna sem bjargað varð, halda erindrekanum skaðlausum frá þeim útgjöldum, sem hann hafi orðið fyrir við erindisreksturinn. Hafi það verið hagsmunir vinnuveitanda stefnanda að líkamstjón samstarfskonu stefnanda, sem varð undir klemmunni, yrði sem minnst. Veruleg hætta hafi verið á frekara líkamstjóni, miðað við þá stöðu sem samstarfskona stefnanda var í, þar sem hún hékk uppi á bakskautinu, með fæturna undir klemmunni og miðað við ákall hennar um hjálp. Af því leiði, með hliðsjón af hagsmunum vinnuveitanda stefnanda og hins stefnda tryggingafélags, að bæta eigi stefnanda það líkamstjón sem hann hefur orðið fyrir með því að verða við þeim viðurkenningarkröfum sem gerðar eru í málinu.

Stefnandi kveðst og byggja á því, sbr. áður, að bilun hafi orðið í ákveðnum tækjabúnaði, sem leitt hafi til slyssins eða ákveðin mistök hafi verið gerð af þeim starfsmanni sem festa hafi átt klemmuna milli ákveðinna skauta með þar til gerðu tæki. Þar af leiðandi sé um að ræða sök vinnuveitanda, annaðhvort vegna bilunar í tæki eða gáleysislegra vinnubragða, en krafa stefnanda beinist að þeim tryggingum sem vinnuveitandi hans hafði hjá hinu stefnda félagi og skilmálum trygginganna.

Í aðalsök skírskotar stefnandi til almennu skaðabótareglunnar og reglunnar um vinnuveitendaábyrgð, að bilun í tækjum sé á ábyrgð vinnuveitanda og einnig gáleysi samstarfsmanna, sem hafi þær afleiðingar sem urðu í þessu máli. Einnig skírskotar stefnandi til reglna skaðabótaréttar um óbeðinn erindisrekstur.

Stefnandi skírskotar vegna dómkröfu í varaaðild til meginreglna um starfskjör launþega, sbr. 1. grein laga nr. 55/1980, og til meginreglna kjarasamninga um launþegatryggingar. Þá vísar stefnandi til eftirfarandi ákvæða laga nr. 30/2004: c- og d- liða l. mgr. 2. greinar, sem og til 121. greinar laganna, sbr. 48. gr. sl. Einnig vísar stefnandi til IX. og XIX. kafla laganna og til túlkunarreglna samningaréttar þegar vafi er um efni skilmála sem samdir eru einhliða gagnvart neytendum.

Málsástæður stefndu og lagarök

Sýknukrafa aðalstefnda byggist á því að aðalstefndi beri ekki skaðabótaábyrgð að lögum á tjóni stefnanda. Tjón stefnanda verði ekki rakið til sakar af hálfu stefnda, hvorki hvað varðar háttsemi starfsmanna hans né aðbúnaðar eða aðstæðna á vinnustaðnum.

Orsök tjóns stefnanda sé að rekja til háttsemi stefnanda sjálfs og ef til vill óhappatilviljunar. Orsökin hafi verið sú að stefnandi lyfti þungum hlut í umrætt sinn. Við það fékk hann álagsmeiðsl á baki. Stefnandi hafi sjálfur tekið þá ákvörðun að lyfta klemmunni með handafli og breyti engu um skaðabótaábyrgð aðalstefnda að stefnandi var að aðstoða samstarfskonu sína við að komast undan klemmunni. Stefnandi hafi ekki fengið nein fyrirmæli um að standa að málum með þeim hætti sem hann gerði og sé því mótmælt að verkstjóri hafi samþykkt aðferðina. Ráðrúm hafi verið til að beita tiltækum tækjum til að lyfta klemmunni en stefnandi hafi hins vegar ákveðið að nýta þau ekki. Sök sé ekki fyrir hendi hjá aðalstefnda og verði því skaðabótaábyrgð ekki lögð á hann.

Tjón stefnanda var sjálfstæður tjónsatburður og var óhapp samstarfskonu hans eða orsök þess ekki orsök tjóns hans í skilningi skaðabótaréttar. Hvorki séu orsakatengsl þar á milli né sé tjón stefnanda sennileg afleiðing af óhappi samstarfskonu hans. Tjón samstarfskonu hans megi fyrst og fremst rekja til óhappatilviljunar og hugsanlega óaðgæslu hennar sjálfrar. Tjón stefnanda hafi hins vegar orðið vegna sjálfstæðs atburðar og hvorki sé um að ræða orsakatengsl við fyrri atburð, þegar klemman féll á samstarfskonu hans, né sé tjón stefnanda sennileg afleiðing þess atburðar.

Þá sé því alfarið mótmælt að orsök tjóns stefnanda sé að rekja til þess að hífingarbúnaður bakskautsklemmu hafi bilað. Hífingarbúnaður bakskautsklemmu hafi verið í fullkomnu lagi og hvorki bilun né galli í tæki hafi verið orsök tjóns stefnanda eða samstarfskonu hans. Tekið skuli fram að aðalstefndi beri ekki skaðabótaábyrgð á tjóni samstarfskonu stefnanda enda hafi tjón hennar ekki verið að rekja til sakar aðalstefnda eða atvika sem hann ber skaðabótaábyrgð á.

Því sé mótmælt að beita eigi hertri sakarábyrgð í máli þessu, eins og stefnandi haldi fram. Ekki hafi verið um hættulegt verk að ræða, þ.e. að lyfta bakskautsklemmunni, og ekki verði lagt til grundvallar að hegðun stefnanda hafi verið í eðlilegum tengslum við starf hans. Um óvenjulegan atburð hafi verið að ræða sem ekki tengdist daglegum störfum stefnanda hjá aðalstefnda.

Jafnframt sé því mótmælt sem ósönnuðu og röngu að nauðsynlegt hafi verið að lyfta klemmunni án tafar til að komast hjá frekara tjóni sem og að það hafi ekki verið unnt með öðrum hætti.

Af framangreindu sé ljóst að ekki séu uppfyllt skilyrði að lögum til að leggja skaðabótaábyrgð á aðalstefnda vegna tjóns stefnanda. Beri því að sýkna aðalstefnda af öllum kröfum stefnanda.

Varastefndi byggir sýknukröfu á því að líkamsmeiðsl stefnanda hafi ekki verið slys í merkingu 2. mgr. 1. gr. skilmála um slysatryggingu launþega. Ákvæði 2. mgr. 1. gr. skilmálanna sé svohljóðandi:

Með orðinu „slys“ er hér átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð, sem veldur meiðslum á líkama þess, sem tryggður er, og gerist sannanlega án vilja hans.“

Stefnandi hafi hlotið meiðsl sín þegar hann var að lyfta þungum hlut af samstarfskonu sinni. Sé því ekki um að ræða að meiðslin hafi orðið vegna skyndilegs utanaðkomandi atburðar og því ekki um slys að ræða í skilningi vátryggingarskilmála slysatryggingar launþega. Engu skipti þótt stefnandi hafi verið að aðstoða samstarfskonu sína. Sé því mótmælt að um ósjálfráð viðbrögð hafi verið að ræða hjá stefnanda, sem og að enginn tími hafi gefist til umhugsunar. Þá sé það rangt sem stefnandi haldi fram að samstarfskona hans hafi verið í bráðri hættu. Jafnvel þótt svo hefði verið hafi það ekki haft áhrif á þá staðreynd að meiðsl stefnanda urðu ekki við skyndilegan utanaðkomandi atburð.

Óhapp stefnanda hafi verið sjálfstæður atburður og skipti ekki máli hvort óhapp samstarfskonu hans verði skilgreint sem slys í þessari merkingu. Þar sem skilyrði 2. mgr. 1. gr. vátryggingarskilmálanna, þess efnis að meiðslin hafi orðið vegna skyndilegs utanaðkomandi atburðar, sé ekki uppfyllt eigi stefndi ekki rétt á greiðslu bóta úr slysatryggingu launþega. Beri því að sýkna varastefnda af öllum kröfum stefnanda.

Því sé alfarið  mótmælt að stefnandi eigi rétt á skaðabótum á grundvelli reglna um óbeðinn erindisrekstur. Ekki hafi verið um óbeðinn erindisrekstur fyrir stefndu að ræða auk þess sem skilyrði til greiðslu bóta á grundvelli reglunnar séu ekki uppfyllt. Í fyrsta lagi sé því mótmælt að samstarfskona stefnanda hafi verið í yfirvofandi hættu. Í öðru lagi sé því mótmælt að um ósjálfráð viðbrögð hafi verið að ræða sem og að stefnandi hafi verið að afstýra líkamstjóni. Líkamstjón samstarfskonu hans hafði þegar orðið þegar stefnandi tók við að lyfta klemmunni og ekki hafi verið fyrir hendi veruleg hætta á frekara líkamstjóni hennar eins og stefnandi haldi fram. Í þriðja lagi sé því mótmælt að stefnandi hafi verið að bjarga hagsmunum aðalstefnda. Aðalstefndi beri ekki skaðabótaábyrgð á því líkamstjóni sem samstarfskona stefnanda varð fyrir í umrætt sinn og hafi ekki verið um að ræða hagsmuni stefndu í skilningi reglunnar um óbeðinn erindisrekstur.

Af öllu framangreindu sé ljóst að stefnandi, sem beri sönnunarbyrðina um orsakir tjóns síns, hafi hvorki sannað að tjón hans sé að rekja til atvika sem aðalstefndi beri skaðabótaábyrgð á né að tjón hans sé greiðsluskylt úr hendi varastefnda á grundvelli slysatryggingar launþega. Beri því að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.

Verði ekki fallist á aðalkröfu aðalstefnda um sýknu  sé varakrafa aðalstefnda á því byggð að tjón stefnanda sé að mestu leyti að rekja til aðgæsluleysis stefnanda sjálfs og ef til vill óhappatilviljunar. Beri stefnanda því að bera tjón sitt sjálfur að stærstum hluta á grundvelli eigin sakar. Stefnanda hafi mátt vera ljóst, með tilliti til reynslu hans og aldurs, að aðferð hans við að lyfta klemmunni í umrætt sinn gæti valdið bakmeiðslum. Nægt ráðrúm hafi verið til að nota þau tæki sem voru til staðar til að lyfta klemmunni en stefnandi hafi kosið að nota þau ekki. Nánar um rökstuðning fyrir varakröfu sé vísað til rökstuðnings fyrir aðalkröfu eftir því sem við á.

Um lagarök vísar stefndi einkum til almennra reglna skaðabótaréttar, um orsakatengsl og sönnunarbyrði. Um málskostnað er vísað til XXl. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Stefnandi höfðar mál þetta til viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefnda, Norðuráls, og til viðurkenningar á því að hann eigi rétt á bótum úr launþegatryggingu Norðuráls hf. hjá stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., vegna slyss  er varð á starfsstöð stefnda Norðuráls hinn 21. september 2005 og áður er lýst.

Samkvæmt þeim læknisfræðilegu gögnum sem fyrir liggja þykir stefnandi hafa leitt að því nægar líkur að hann hafi orðið fyrir líkamstjóni umrætt sinn. Skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 telst því uppfyllt til að stefnandi geti höfðað viðurkenningarmál þetta.

Stefnandi byggir kröfu sína um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda, Norðuráls, á reglunni um vinnuveitandaábyrgð. Þá byggir hann kröfuna á reglum skaðabótaréttarins um óbeðinn erindisrekstur. Einnig er á því byggt að bilun hafi orðið í tækjabúnaði sem leitt hafi til slyssins eða að ákveðin mistök hafi verið gerð af starfsmanni stefnda sem hafi átt að festa bakskautsklemmuna milli ákveðinna skauta með þar til gerðu tæki.

Reglan um vinnuveitandaábyrgð byggist á því að vinnuveitandi ber ábyrgð á tjóni sem starfsmaður hans veldur með saknæmum og ólögmætum hætti við framkvæmd starfa síns.

Stefnandi rekur tjón sitt til þess er samstarfskona hans varð fyrir slysi er bakskautsklemma féll yfir fætur hennar. Stefnandi og samstarfsmaður hans, Helgi Valur, brugðust fljótt og vel við og lyftu öðrum enda klemmunnar þannig að samstarfskonan losnaði undan þunganum. Kveðst stefnandi hafa tognað í baki er hann lyfti klemmunni.

Stefnandi heldur því fram að verkstjóri hans hafi samþykkt aðgerðir stefnanda og Helga Vals.  Eyþór Stanley Eyþórsson vann sem hópstjóri hjá stefnda. Í starfi hans fólst  að leiða vinnuhópinn og fylgja því eftir að farið væri eftir ákveðnum vinnureglum. Eyþór Stanley bar fyrir dómi að hann hefði ekki verið nærstaddur er slysið gerðist en kvaðst hafa komið þar að þegar aðgerðir voru afstaðnar. Kvaðst hann engan þátt hafa átt í því að stýra aðgerðum stefnanda og Helga Vals við að lyfta klemmunni ofan af Málfríði. Ekki liggur fyrir að annar verkstjóri hafi verið á svæðinu en Eyþór Stanley. Helgi Valur bar fyrir dómi að þegar slysið varð hafi hann og stefnandi bara brugðist strax við til hjálpar.

Eins og atvikum háttar er ekki fallist á að aðgerðir stefnanda til hjálpar við að lyfta bakskautsklemmunni af samstarfskonunni hafi verið í eðlilegum tengslum við starf hans hjá stefnda, Norðuráli. Ósannað er að stefnandi hafi brugðist við samkvæmt fyrirmælum verkstjóra eða hópstjóra í umrætt sinn. Liggur því ekki annað fyrir en að stefnandi hafi sjálfur tekið þá ákvörðun að bregðast við og hjálpa samstarfskonu sinni. Hvort slys samstarfskonu hans verður rakið til bilunar í tæki eða annarra ástæðna hefur ekki þýðingu við mat á bótaskyldu stefnda gagnvart stefnanda enda varð hann ekki fyrir tjóni af þeim sökum. Um er að ræða tvo sjálfstæða tjónsatburði og getur tjón stefnanda ekki talist sennileg afleiðing af slysi samstarfskonu hans. Eins og atvikum háttar er ekki fallist á að tjón stefnanda falli undir framangreinda reglu um vinnuveitandaábyrgð og hefur stefnandi ekki sýnt fram á að stefndi, Norðurál, beri, sem vinnuveitandi, ábyrgð á því tjóni sem hann varð fyrir í umrætt sinn.

Ekki er fallist á að reglur um óbeðinn erindisrekstur eigi hér við. Tjón samstarfskonu stefnanda hafði þegar orðið þegar hann brást við til hjálpar. Hefur stefnandi ekki sýnt fram á að við þær aðgerðir hafi hagsmunir stefnda, Norðuráls, verið í húfi og hann hafi þurft að  bregðast við af þeim sökum.

Samkvæmt framansögðu hefur stefnandi ekki sýnt fram á að stefndi, Norðurál, beri skaðabótaábyrgð á meintu tjóni hans og ber því að sýkna þennan stefnda af kröfum stefnanda í málinu

Kröfur sínar á hendur stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., byggir stefnandi á því að hann eigi bótarétt úr slysatryggingu launþega sem stefndi, Norðurál, hafði hjá stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

Samkvæmt gr. 1.1 í vátryggingarskilmálum greiðir félagið bætur  vegna slyss er sá, sem tryggður er, verður fyrir. Með orðinu slys er átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð, sem veldur meiðslum á líkama þess, sem tryggður er, og gerist sannanlega án vilja hans, sbr. grein 1.2 í skilmálunum.

Eins og rakið hefur verið varð stefnandi fyrir meiðslum er hann, samkvæmt eigin ákvörðun, brást við til hjálpar samstarfskonu sinni. Stefnandi varð fyrir meiðslum án þess að það verði rakið til skyndilegs utanaðkomandi atburðar, sem er skilyrði samkvæmt nefndu ákvæði vátryggingarskilmálanna. Er því ekki fallist á að hann eigi rétt til greiðslu úr slysatryggingu launþega. Ber því að sýkna stefnda, Sjóvá-Almennar tryggingar hf. af kröfum stefnanda.

Samkvæmt framansögðu verða báðir stefndu sýknaðir af kröfum stefnanda í málinu.

Eftir atvikum þykir rétt að hver aðila beri sinn kostnað af málinu.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndu, Norðurál Grundartangi ehf. og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., skulu vera sýknir af kröfum stefnanda, Þórarins Björns Steinssonar.

Málskostnaður fellur niður.