Hæstiréttur íslands
Mál nr. 268/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
|
|
Þriðjudaginn 8. maí 2012. |
|
Nr. 268/2012. |
Össuklettur hf. (Sigurður Sigurjónsson hrl.) gegn Hótel
Búðum ehf. (Ragnar Tómas Árnason hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem bú Ö hf.
var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu H ehf. á grundvelli 5. tölul. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti
o.fl., enda var ekki talið að Ö hf. hefði sýnt fram á að félagið væri
greiðslufært.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Ólafur Börkur Þorvaldsson hæstaréttardómari og Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. apríl 2012 sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 4. apríl 2012 þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um að bú sóknaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
I
Sóknaraðili er einkahlutafélag sem var stofnað 8. maí 2007 með 5.000.000 króna hlutafjárframlagi. Samkvæmt samþykktum félagsins er tilgangur þess ferðaþjónusta, rekstur fasteigna og skyldur rekstur.
Með samningi 9. janúar 2009 tók sóknaraðili á leigu af varnaraðila Hótel Búðir á Snæfellsnesi ásamt öllu lausafé, birgðum og munum til reksturs hótelsins. Leigutíminn var til 20 ára, en hvor aðili gat sagt upp leigunni að liðnum fimm árum. Fjárhæð ársleigu var 25.200.000 krónur, bundin vísitölu neysluverðs, og átti að greiða hana með sex jöfnum greiðslum frá 1. júní til og með nóvember ár hvert. Jafnframt skuldbatt sóknaraðili sig til að greiða virðisaukaskatt ofan á leiguna. Þá bar sóknaraðila að greiða fasteignagjöld af eigninni. Hinn 15. mars 2011 gerðu aðilar viðauka við leigusamninginn, en samkvæmt honum skyldi virðisaukaskattur lagður á leiguna og reikningsgerð hagað þannig að gefnir yrðu út reikningar að fjárhæð 500.000 krónur fyrir mánuðina janúar til maí og desember en að fjárhæð 3.700.000 krónur fyrir mánuðina júní til nóvember.
Samkvæmt leigusamningi aðila átti að greiða leigu til varnaraðila beint frá viðskiptabanka sóknaraðila þannig að rafgreiðslum frá hótelgestum yrði fyrst ráðstafað til greiðslu á leigu samkvæmt samningnum. Tekið var fram í samningnum að það teldist veruleg vanefnd ef breyting yrði gerð á þessu fyrirkomulagi. Þá sagði að sóknaraðila bæri að framvísa staðfestingu frá banka um ráðstöfun á rafgreiðslum. Varnaraðili taldi að ekki hefði verið staðið við þessa skuldbindingu og því sendi hann sóknaraðila áskorun um úrbætur með bréfi 6. desember 2011 að viðlagðri riftun leigusamnings. Þessu erindi var ekki svarað.
Í ljósi þess að varnaraðili taldi að sóknaraðili hefði verið rekinn með viðvarandi tapi áleit hann sóknaraðila með engu móti geta staðið í fullum skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra féllu í gjalddaga, auk þess sem ekki yrði séð að úr því yrði bætt innan skamms tíma. Var þetta meðal annars reist á því að árangurslaus fjárnám hefðu verið gerð hjá sóknaraðila, síðast 11. október 2011 að kröfu Festa lífeyrissjóðs fyrir kröfu samtals að fjárhæð 4.828.402 krónur. Einnig aflaði varnaraðili upplýsinga frá tollstjóra um skuld sóknaraðila á opinberum gjöldum, en samkvæmt yfirliti 15. mars 2012 nam skuldin 7.506.766 krónum. Þá taldi varnaraðili að sóknaraðili ætti ýmsar aðrar kröfur ógreiddar.
Með bréfi 1. febrúar 2012 krafðist varnaraðili þess að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta á þeim grundvelli að árangurslaust fjárnám hefði farið fram hjá sóknaraðila, sbr. 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Samhliða þessu beindi varnaraðili að sóknaraðila áskorun samkvæmt 5. tölulið sömu málsgreinar um að lýsa því yfir skriflega innan þriggja vikna að félagið gæti greitt húsaleigu fyrir árið 2012 samkvæmt fyrrgreindum leigusamningi um Hótel Búðir þegar leigan félli í gjalddaga, en að öðrum kosti yrði krafist gjaldþrotaskipta á búi félagsins. Áskorun þessi var birt fyrir fyrirsvarsmanni sóknaraðila 22. febrúar 2012. Lögmaður sóknaraðila svaraði áskoruninni með bréfi 28. sama mánaðar, en þar var rakið í einstökum atriðum að sóknaraðili teldi sig að öllu leyti hafa efnt leigusamning aðila. Einnig var því haldið fram að sóknaraðili hefði gert upp kröfuna við Festa lífeyrissjóð sem lá til grundvallar fjárnámi hjá félaginu. Í niðurlagi bréfsins sagði síðan að tekið yrði til varna gegn kröfu um að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta, en meðan það mál sætti dómsmeðferð yrði ekki svarað „sérstökum yfirlýsingum, áskilnaði, áskorunum eða öðru“ sem beint væri að sóknaraðila. Í kjölfarið krafðist varnaraðili aftur gjaldþrotaskipta á búi sóknaraðila með bréfi 15. mars 2012, sem barst héraðsdómi sama dag, en í þetta sinn var krafan reist á því að sóknaraðili hefði ekki lýst því yfir að félagið væri gjaldfært, sbr. 5. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Á þeim grundvelli var krafan tekin til greina með hinum kærða úrskurði.
II
Samkvæmt 5. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 getur lánardrottinn krafist þess að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta ef hann hefur ekki innan þriggja vikna orðið við áskorun lánardrottins um að lýsa því skriflega yfir að hann verði fær um að greiða skuld við hlutaðeigandi lánardrottinn þegar hún fellur í gjalddaga eða innan skamms tíma ef hún er þegar gjaldfallinn. Á það verður ekki fallist með sóknaraðila að þessi heimild taki aðeins til þeirra sem lánað hafa skuldara fé en ekki til annarra kröfuhafa, enda getur 65. gr. laganna átt við alla þá sem eiga fjárkröfu á hendur skuldara.
Í samræmi við þetta beindi varnaraðili, svo sem áður er rakið, áskorun að sóknaraðila, sem birt var 22. febrúar 2012, en svar við henni, með bréfi lögmanns sóknaraðila 28. sama mánaðar, hafði ekki að geyma yfirlýsingu um greiðslufærni sóknaraðila, eins og berlega er áskilið í umræddu lagaákvæði. Með áskorun sinni hefur varnaraðili því leitt líkur að ógjaldfærni skuldara, en kröfu um gjaldþrotaskipti getur skuldari varist með því að hnekkja þessum löglíkum og sýna fram á að hann sé allt að einu greiðslufær eða verði það innan skamms tíma, sbr. 2. mgr. 65. gr. laganna. Ráðast úrslit málsins af því hvort sóknaraðili hafi fært fram slíka sönnun.
Samkvæmt ársreikningi sóknaraðila fyrir árið 2010 nam rekstrartap að teknu tilliti fjármagnsliða 5.842.128 krónum. Til samanburðar koma fram hliðstæðar tölur frá fyrra ári en rekstartapið árið 2009 var 3.702.913 krónur. Samkvæmt ársreikningnum nam bókfært verð eigna 11.575.394 krónum í árslok 2010. Langtímaskuldir voru engar en skammtímaskuldir námu hins vegar 16.120.435 krónum. Eigið fé var því neikvætt um 4.545.041 krónu. Ekki liggur fyrir í málinu ársreikningur sóknaraðila fyrir árið 2011. Þá hefur sóknaraðili ekki gert grein fyrir fjárhagsstöðu félagsins um þessar mundir með því að upplýsa hver sé fjárhæð heildaskulda þess og andvirði eigna. Jafnframt liggur ekki fyrir rekstaráætlun eða önnur gögn um afkomuna til framtíðar litið ef frá er talin bókunaráætlun sóknaraðila fyrir árið 2012 þar sem líkur eru leiddar að því að bókanir verði mun meiri en árið á undan. Af þeirri áætlun verður hins vegar ekkert ráðið um rekstarafkomuna. Að öllu því virtu sem hér hefur verið rakið verður ekki talið að sóknaraðili hafi sýnt fram á að félagið sé greiðslufært og verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Varnaraðili hefur ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti og kemur því ekki til álita krafa hans um málskostnað í héraði. Sóknaraðila verður aftur á móti gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Össuklettur hf., greiði varnaraðila, Hótel Búðum ehf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 4. apríl 2012.
Með beiðni móttekinni 15.
mars 2012 krafðist sóknaraðili, Hótel Búðir ehf., Búðum, Snæfellsbæ, þess að bú
varnaraðila, Össukletts hf., Tröðum, Snæfellsbæ, yrði tekið til
gjaldþrotaskipta. Við fyrirtöku gjaldþrotaskiptabeiðninnar 20. sama mánaðar var
sótt þing af hálfu varnaraðila og kröfunni mótmælt. Var þá þingfest
ágreiningsmál þetta, sbr. 1. gr. 168. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti
o.fl. Málið var tekið til úrskurðar 30. mars sl.
Varnaraðili
krafðist þess að kröfu sóknaraðila yrði hafnað. Þá krafðist hann
málskostnaðar. Sóknaraðili
krafðist enn fremur málskostnaðar í þessu ágreiningsmáli.
I.
Krafa
sóknaraðila er byggð á 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga
nr. 21/1991, sbr. 17. gr. laga nr. 95/2010. Hann beindi áskorun til
varnaraðila um að hann lýsti félagið greiðslufært, og að það gæti greitt
tilgreindar skuldir við sóknaraðila þegar þær kæmu á gjalddaga, innan þriggja
vikna. Áskorun þessi var birt varnaraðila 22. febrúar 2012.
Varnaraðili gerði samning við sóknaraðila 9. janúar 2009 um leigu
varnaraðila á Hótel Búðum. Samkvæmt samningnum skyldi húsaleiga vera 25.200.000
krónur sem bundin var vísitölu neysluverðs að viðbættum virðisaukaskatti.
Greiðsla húsaleigu skyldi hins vegar fara fram eingöngu mánuðina 1. júní 1.
nóvember, að báðum mánuðum meðtöldum eins og lýst er í viðaukasamningi aðila.
Þann 11. október 2011 fór fram árangurslaust fjárnám hjá varnaraðila vegna
skulda. Í framhaldinu krafðist sóknaraðili betri trygginga fyrir greiðslum en höfðu
verið lagðar fram, en varnaraðili varð ekki við því. Sóknaraðili lýsir í beiðni
sinni að Össuklettur hf. skuldi nú húsaleigu fyrir janúar, febrúar og mars er
komi á gjalddaga í júní n.k. Einnig kemur fram að sóknaraðili þurfti að greiða
fasteignagjöld hinn 24. janúar sl., þrátt fyrir að samkvæmt samningi milli
aðila ætti varnaraðili að greiða þann kostnað. Sóknaraðili skoraði á
varnaraðila að lýsa því yfir að félagið væri fært um að greiða húsaleigu fyrir
árið 2012 þegar hún kæmi á gjalddaga í júní nk. Áskorun þessi var birt
varnaraðila 22. febrúar 2012. Í bréfi varnaraðila frá 28. febrúar 2012 kom fram
að varnaraðili teldi sig ekki þurfa að verða við þessari áskorun þar sem á þeim
tíma var rekið annað mál fyrir héraðsdómi Vesturlands vegna kröfu sóknaraðila
um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila.
Þar sem sóknaraðila barst ekki yfirlýsing um gjaldfærni frá varnaraðila
var krafist gjaldþrotaskipta á búi varnaraðila.
Varnaraðili mótmælti kröfunni og
var því ágreiningsefnið tekið til úrskurðar.
II.
Sóknaraðili vísar til
þess að í leigusamningi milli aðila er m.a. tekið fram að húsaleiga fyrir hvert
ár skuli vera kr. 25.200.000 sem bundin sé vísitölu neysluverðs miðað við
grunnvísitölu í janúar 2009. Auk þess hafi leigutaki skuldbundið sig til að
greiða virðisaukaskatt ofan á framangreinda fjárhæð. Þá er tekið fram í
samningnum að varnaraðili greiði fasteignagjöld af fasteigninni. Í
leigusamningnum er jafnframt tekið fram að leigugreiðslur skuli berast beint
frá banka leigutaka þar sem rafgreiðslum er ráðstafað fyrst til greiðslu á
leigu samkvæmt samningnum. Kemur fram í samningnum að verði breyting þar á
teljist það veruleg vanefnd. Þá segir að leigutaki skuli framvísa staðfestingu
frá banka um ráðstöfun á rafgreiðslum. Jafnframt kemur fram í samningnum að leigutaki
muni við afhendingu hins leigða gefa út sex tryggingarvíxla til tryggingar
efndum leigugreiðslna.
Heldur sóknaraðili því
fram að varnaraðili hafi ekki lagt fram tryggingar fyrir efndum samningsins.
Lagðir hefðu verið fram sex tryggingarvíxlar af hálfu félagsins en þeim verið
hafnað af viðskiptabanka varnaraðila og teljist því ekki gildar tryggingar. Í
ljósi framangreinds hafi verið send áskorun, hinn 6. desember 2011, til
varnaraðila þess efnis að bæta úr þeim verulegu vanefndum sem framan er lýst.
Varnaraðili varð ekki við þeirri áskorun, auk þess sem sóknaraðili hafi þurfti
að greiða fasteignagjöld af fasteigninni þann 24. janúar sl., þrátt fyrir að
samningur kvæði á um að varnaraðila bæri að standa straum af þeirri greiðslu.
Sóknaraðili telur að þar
sem árangurslaust fjárnám hafi verið gert hjá varnaraðila, viðvarandi
taprekstur sé á félaginu auk þess sem félagið hafi ekki staðið skil á
fasteignagjöldum verði með engu móti séð að félagið geti staðið í fullum skilum
við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra falla í gjalddaga. Skoraði
sóknaraðili á varnaraðila með áskorun, sem birt var 22. febrúar sl., að beina
skriflegri yfirlýsingu til sóknaraðila þar sem því væri lýst yfir að
varnaraðila yrði fært að greiða húsaleigu fyrir árið 2012, þegar húsaleigan
félli í gjalddaga. Kom fram í áskoruninni að gerð yrði krafa um að bú
varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta á grundvelli 5. tl.
2. mgr. 65.gr. laga nr. 21/1991 ef yfirlýsing myndi ekki berast innan þriggja
vikna.
Kröfu sína byggir
sóknaraðili m.a. á fyrrgreindum leigusamningi. Sóknaraðili telur sig eiga kröfu
á hendur félaginu, þó að gjalddagi
kröfunnar sé ekki ákveðinn fyrr en 1. júní 2012 hafi krafa stofnast engu síður,
enda geri leigusamningurinn ráð fyrir mánaðarlegri leigu. Sóknaraðili bendir á
að dómaframkvæmd sýni að gjalddagi kröfu þurfi ekki að hafa verið ákveðinn,
krafan dæmd eða fallin í gjalddaga svo að lánardrottinn geti lagt fram
gjaldþrotaskiptakröfu, sé það talið nægjanlegt að lánardrottinn leiði
nægjanlegar líkur að því að hann eigi kröfu á hendur viðkomandi skuldara. Í því
máli sem hér um ræðir liggur fyrir að kröfusambandið stofnaðist við undirritun
leigusamnings þótt fyrsti gjalddagi krafna fyrir árið 2012 sé ekki fyrr en 1.
júní n.k.
Kemur fram að
heildarfjárhæð húsaleigunnar fyrir árið 2012 ásamt vísitölu og virðisaukaskatti
verði 38.107.449 krónur er greiðast skuli með 6 jöfnum afborgunum frá 1. júní
til 1. nóvember 2012. Virðisaukaskattur af leigugreiðslum fyrir janúar og
febrúar falli í gjalddaga þann 5. apríl n.k., samtals að fjárhæð 299.639
krónur. Húsaleigan sem falli í gjalddaga hinn 1. júní n.k. sundurliðast sem hér
segir:
Húsaleiga kr. 4.200.000
Verðbætur kr. 860.000
Samtals kr. 5.060.750
Sóknaraðili heldur því
fram að varnaraðili hafi ekki fært fram nein gögn sem sýni fram á gjaldfærni.
Aðeins hafi verið lögð fram bókunarskýrsla vegna hótels að Búðum en hún gefi
ekki nægilegar upplýsingar til að meta greiðslufærni varnaraðila. Telur sóknaraðili
að fyrir liggi í málinu nægjanleg líkindi fyrir ógjaldfærni varnaraðila, sbr.
1. og 5. tölul. 2. mgr., sbr. 4. mgr. 65. gr., laga
nr. 21/1991 og fer því fram á gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila.
III.
Varnaraðili
heldur því fram að málsástæður sóknaraðila eigi ekki við rök að styðjast.
Varðandi tryggingar þær
sem getið er um í leigusamningi hafi í
einu og öllu verið farið eftir þeim ákvæðum og skilmálum sem þar eru og er því
mótmælt að um nokkrar vanefndir sé að ræða af hálfu varnaraðila. Einnig kemur
fram að húsaleiga fyrir desember 2011, sem sóknaraðili haldi fram að sé
ógreidd, sé greidd að fullu samkvæmt framlögðum gögnum og í raun hafi
varnaraðili ofgreitt leigu á árinu 2011. Vegna fasteignagjalda heldur
varnaraðili því fram að hann hafi greitt með skilum öll fasteignagjöld af
fasteigninni eins og ákvæði leigusamnings bjóða. Sú krafa sem sóknaraðili hafi
greitt vegna varnaraðila til sveitarsjóðs hafi verið endurgreidd til
sóknaraðila.
Mótmælir
varnaraðili því að greiðslufall blasi við þegar húsaleiga komi á gjalddaga,
enda séu engar forsendur fyrir slíkri ályktun. Varnaraðili sé félag í fullum
rekstri og blasi við að rekstrarhorfur séu með ágætum. Varnaraðili bendir á að
nýting ársins 2011 sé staðreynd en nýting ársins 2012 miðað við 15. mars 2012 sýni
verulega og væntanlega aukningu á árinu. Einnig kemur fram hjá varnaraðila að
hann hafi staðið sóknaraðila full skil á öllum skuldbindingum sínum, húsaleigu
og öðru, og telur varnaraðili það ljóst að aðrar ótilgreindar ástæður séu að
baki framgöngu sóknaraðila. Varnaraðili
heldur því fram að með bréfi hinn 28. febrúar sl. hafi því verið andmælt að
varnaraðili væri ógjaldfær og komi skýringar skilvíslega þar fram.
Mótmælir
varnaraðili einnig uppsetningu kröfu sóknaraðila sem rangri þar sem enginn
rökstuðningur sé fyrir tölulegri útfærslu á leigugreiðslu en við blasi að
krafan sé í engu samræmi við leigusamning aðila.
Af
hálfu varnaraðila er því haldið fram að engin rök séu til þess að fallast á
kröfur sóknaraðila, eins og þær liggja fyrir, með vísan til 5. tl. 2. mgr. 65. gr. laga 21/1991, þar sem sóknaraðili eigi
engar gjaldfallnar kröfur á hendur varnaraðila.
IV.
Samkvæmt
ákvæðum 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 getur lánardrottinn krafist þess að bú
skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta að fullnægðu einhverju af þeim
skilyrðum sem þar eru talin upp í fimm töluliðum, enda sýni skuldarinn ekki
fram á að hann sé allt að einu fær um að standa full skil á skuldbindingum
sínum þegar þær koma í gjalddaga eða verði það innan skamms tíma. Með 17. gr.
laga nr. 95/2010 var bætt við 5. tl. við aðra
málsgrein 65. gr. laga
nr. 21/1991, skilyrði þar sem lánardrottni er heimilað að krefjast gjaldþrotaskipta á
búi skuldara hafi hann ekki innan þriggja vikna orðið við áskorun hans, sem
birt hefur verið skuldara eftir sömu reglum og gilda um birtingu stefnu í
einkamáli, um að lýsa því skriflega yfir að hann verði fær um að greiða skuld
við lánardrottin þegar hún fellur í gjalddaga eða innan skamms tíma ef hún er
þegar gjaldfallin. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna kom fram að
í þessu ákvæði fælist að skuldari þyrfti að lýsa því yfir að efnahag hans væri
ekki þannig komið að hann væri ógreiðslufær. Með þessu væri leitast við að koma
í veg fyrir að skuldari gæti tafið gjaldþrotaskipti, sem skilyrði væru fyrir,
með því einu að halda að sér höndum.
Krefjist lánardrottinn gjaldþrotaskipta verður hann að færa líkindi fyrir
ógjaldfærni skuldarans með þeim hætti sem mælt er fyrir um í 1. og 2. mgr. 65.
gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili benti á að hjá varnaraðila var gert
árangurslaust fjárnám þann 3. nóvember 2011 en undir rekstri málsins var sú
dagsetning leiðrétt og fór fjárnámið fram 11. október 2011. Árangurslaus fjárnámsgerð er sönnunargagn um
að skuldari hafi verið ógjaldfær þegar leitað var fullnustu hjá honum. Í
framhaldi af þessu sendi sóknaraðili áskorun til skuldara þess efnis að
skuldari myndi lýsa yfir, innan þriggja vikna, að skuldara yrði kleift að
standa skil á leigugreiðslum þegar þær kæmu á gjalddaga. Varnaraðili mótmælir
því ekki að áskorunin hafi verið birt. Svar lögmannsins við áskoruninni
var hins vegar ekki fullnægjandi. Hann lýsti því ekki að varnaraðili gæti
staðið í skilum við sóknaraðila innan tíðar heldur kom fram orðrétt
„áskorunum eða öðru sem beint er að umbjóðanda mínum frá lögmanni Hótel Búða
hf. er ekki svarað, enda eiga þær ekki við rök að styðjast.“ Verður því að líta
svo á að áskorun hafi verið birt og að henni hafi ekki verið svarað
réttilega.
Reynir þá á frekari málsástæður varnaraðila sem hann telur að komi í veg
fyrir gjaldþrotaskipti. Varnaraðili
neitar því að greiðslufall blasi við þegar húsaleiga komi á gjalddaga, enda séu
engar forsendur fyrir slíkri ályktun. Varnaraðili lagði fram gögn sem sýndu
fram á bókunarstöðu fyrir árið 2012 og óundirritaða yfirlýsingu þess efnis að
útfrá bókunarstöðu væri hægt að áætla tekjur fyrir hótelið. Ættu tekjur fyrir
apríl og maí af herbergjum að vera um 16.000.000 króna ofan á það bætist svo
tekjur af veitingasölu og áfengi. Gögn þessi eru óstaðfest og bera ekki með sér
frá hverjum þau stafa. Einnig kom fram hjá varnaraðila að fjárnám 3.
nóvember 2011 hefði verið afturkallað. Hinsvegar fór fram árangurslaus fjárnámsgerð 11. október 2011. Sóknaraðili
lagði fram yfirlýsingu Ómars Davíðssonar endurskoðanda frá 13. febrúar 2012.
Þar kemur það álit endurskoðandans að samkvæmt samandregnum ársreikningi
varnaraðila fyrir árið 2010 hafi félagið verið rekið með tapi frá því að það
var stofnað og eigið fé félagsins verið neikvætt um rúmar fjórar milljónir í
árslok 2010. Einnig kemur fram í gögnum sóknaraðila að á árinu 2011 fóru fram
tvö fjárnám hjá varnaraðila og öðru lauk án árangurs. Einnig kemur fram hjá
sóknaraðila að gjaldfallin opinber gjöld hjá varnaraðila hafi numið hinn 15.
mars 2012, 7.506.766 krónum.
Varnaraðili
ber sönnunarbyrði fyrir því að kröfur sóknaraðila séu nægilega tryggðar. Varnaraðili hefur ekki lagt fram nein haldbær gögn um stöðu
félagsins, hvorki yfirlit um bankainnistæður né annað sem sýnir fjárhagslega
stöðu þess. Varnaraðili á samkvæmt samningi aðila að borga rúmar 5 milljónir
króna 1. júní næstkomandi. Þegar eru gjaldfallnar skuldir vegna opinberra
gjalda 7.506.766
milljónir króna. Þykir sýnt að
sóknaraðili hafi ekki nægilega tryggingu fyrir kröfum sínum. Samkvæmt öllu
framsögðu telur dómari að skilyrði 5. tl. 2. mgr. 65.
gr. gjaldþrotskiptalaga séu uppfyllt hér. Verður því að fallast á þá kröfu
sóknaraðila, að taka beri bú varnaraðila til gjaldþrotaskipta.
Málskostnaður
á milli aðila fellur niður.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð
þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Að
kröfu sóknaraðila, Hótel Búða ehf., er bú varnaraðila, Össukletts hf., kt. 510507-0610, tekið til gjaldþrotaskipta.
Málskostnaður
fellur niður.