Hæstiréttur íslands
Mál nr. 216/1999
Lykilorð
- Dráttarvél
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 16. desember 1999. |
|
Nr. 216/1999. |
Halla S. Sigurðardóttir (Gylfi Thorlacius hrl.) gegn Sigurði Þorsteinssyni og Vátryggingafélagi Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) |
Dráttarvél. Skaðabætur. Líkamstjón. Gjafsókn.
H var að smyrja feiti á tannhjólakeðju heyhleðsluvagns, sem tengdur var aftan í dráttarvél. H festi höndina í keðjunni og slasaðist á fingrum. Stefndi H eiganda og vátryggjanda dráttarvélarinnar og krafðist bóta. Talið var að slysið yrði ekki rakið til notkunar dráttarvélarinnar sem öku- og dráttartækis eða við að knýja vinnutæki í venjulegri notkun þess. Bótaábyrgð yrði því ekki reist á hlutlægum ábyrgðarreglum umferðarlaga. Var því sýknað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. júní 1999. Hann krefst þess að stefndu verði dæmdir til að greiða sér 1.112.842 krónur með 2% ársvöxtum frá 8. júlí 1994 til 9. ágúst 1996, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður falli niður.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Höllu S. Sigurðardóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 150.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. mars 1999.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 10. febrúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Höllu S. Sigurðardóttur kt. 201174-5709, Skúfsstöðum, Sauðárkróki, á hendur Sigurði Þorsteinssyni, kt. 170932-2509, Skúfsstöðum, Sauðárkróki, og Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690989-2009, Ármúla 3, Reykjavík, með stefnu birtri 23. júní 1998.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmdir til að greiða 1.112.842 kr. með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 8. júlí 1994 til 9. ágúst 1996, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara gerir stefnandi kröfu um lægri upphæð að mati dómsins.
Þá gerir stefnandi kröfu um málskostnað að upphæð 293.712 kr. og 49.900 kr. vegna útlagðs kostnaðar fyrir örorkumat. Gerð er krafa um að 24,5% virðisaukaskattur að upphæð 71.959 kr. leggist ofan á framtaldar 293.712 kr.
Dómkröfur stefndu eru þær aðallega að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins, en til vara að stefnukröfur verði stórlækkaðar og málskostnaður felldur niður.
I
Atvik máls og ágreiningsefni
Málsatvik eru þau að stefnandi slasaðist á hægri hendi er hún var að aðstoða við heyskap á bænum Skúfsstöðum í Skagafirði hinn 8. júlí 1994. Stefnandi er dóttir bóndans þar, stefnda Sigurðar Þorsteinssonar. Hún var að vinna við heyhleðsluvagn, sem tengdur hafði verið við dráttarvél af gerðinni Massey Ferguson, skráningarnúmer KD-1006. Aðstæður voru kannaðar samdægurs á vettvangi af lögreglu og Vinnueftirliti ríkisins. Samkvæmt skýrslu Vinnueftirlits ríkisins voru tildrög slyssins þau "að hin slasaða var að smyrja keðjudrif á sópvindu á heyhleðsluvagni af CLASS gerð. Hafði hún fjarlægt hlíf sem er yfir keðjudrifi og hugðist smyrja drifið en hafði sópvindu vagnsins í gangi." Í lögregluskýrslu segir að slysið hafi orðið með þeim hætti "að Halla var að smyrja keðju sem snýr sópvindu vagnsins og notaði í fyrstu grannan trélista, 70 sm langan, til að maka allþykkri keðjufeitinni á 5 sm breiða keðjuna. En þar sem verkið gekk seint og illa með þeim hætti fór hún að smyrja feitinni á keðjuna með fingrunum, og hafði sópvinduna í gangi á meðan til að fá sem jafnasta dreifingu feitarinnar. Skyndilega festi Halla fingurna í keðjunni með þeim afleiðingum að höndin barst með keðjunni að tannhjóli sem keðjan leikur á en með snarræði tókst henni að kippa hendinni að sér áður en hún hrifsaðist allan hringinn með tannhjólinu."
Stefnandi var flutt á sjúkrahús Skagafjarðar og síðan áfram á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri þar sem gert var að sárum hennar og hún lögð inn til frekari læknismeðferðar. Við slysið varð stefnandi fyrir miklum mjúkpartaáverkum á vísifingri, lögnutöng og baugfingri hægri handar. Stefnandi gekkst undir aðgerð til lagfæringar á fingrum í júní 1995 og var þess þá ekki að vænta að hægt yrði að gera frekari aðgerðir til lagfæringar á hendi hennar. Samkvæmt örorkumati Sigurjóns Sigurðssonar læknis dags. 1. júlí 1996 var varanlegur miski stefnanda vegna afleiðinga slyssins metinn 10% og varanleg örorka 10%.
Stefnandi hefur krafið stefnda um Vátryggingafélag íslands nf. um greiðslu bóta á grundvelli ábyrgðartryggingar dráttarvélarinnar Kd-1006, en kröfum stefnanda hefur verið hafnað af hálfu stefndu.
II
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að tæki það sem tjóninu olli hafi verið tengt við og knúið af dráttarvél sem tryggð hafi verið lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá hinu stefnda vátryggingafélagi. Beri stefndu því samkvæmt ákvæðum 88. og 91. gr. umferðarlaga að greiða stefnanda það tjón sem hún hafi orðið fyrir vegna slyssins. Keðja sú sem stefnandi festist í hafi verið hluti af drifbúnaði heyhleðsluvagnsins sem hafi verið tengdur við dráttarvélina Kd-1006 með drifskafti sem hafi gengið úr aflúrtaki vélarinnar. Í 2. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 komi skýrt fram að dráttarvél sé m.a. ætluð til að knýja önnur vinnutæki. Hreyfing keðjunnar og tannhjólsins á heyhleðsluvagninum hafi átt upptök sín í dráttarvélinni og verði tjón stefnanda því rakið til þeirrar notkunar dráttarvélarinnar sem sé einkennandi og venjuleg fyrir notkun dráttarvéla í búskap. Tjón það sem stefnandi hafi orðið fyrir sé dæmi um tjón sem orðið geti vegna þeirra sérstöku hættueiginleika dráttarvéla og annarra ökutækja sem hinni ríku bótaábyrgð 88. gr sé ætlað að taka til.
Stefndu beri því samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar og ákvæðum umferðarlaga ótvíræða bótaábyrgð á tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir þann 8. júlí 1994.
Dómkröfur stefnanda sundurliðast þannig:
|
Bætur vegna varanlegs miska |
kr.442.000,- |
|
Bætur vegna varanlegrar örorku |
kr.530.400,- |
|
Þjáningabætur, 1400/770 |
kr.45.360,- |
|
Bætur vegna tímabundinnar örorku |
kr.95.082,- |
|
Alls |
kr.1.112.842 |
Með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 317/1997 , sem kveðinn hafi verið upp þann 4. júní 1998 hafi verið fallist á að tjónþolar sem hafi engar eða takmarkaðar vinnutekjur haft á liðinni tíð eigi rétt á því að fá bætur fyrir það tekjutjón sem þeir muni verða fyrir vegna varanlegrar örorku.
Í örorkumati sem fram hafi farið á stefnanda hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að hún muni í framtíðinni hafa skert húðskyn og minnkaðar hreyfingar í fingrum hægri handar og muni það há henni töluvert við alls konar vinnu um ókomna tíð. Því sé gerð krafa um greiðslu á 530.400 kr. vegna varanlegrar örorku stefnanda.
Varðandi bótaskyldu stefndu er vísað til ólögfestra reglna skaðabótaréttar og 88., 90., 91. og 97. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Um útreikning og fjárhæð bótakröfu er vísað til 2., 3., 4., 5., 6., 7. og 15. greinar skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum. Kröfur um vexti og dráttarvexti styðjast við 16. gr. skaðabótalaga og ákvæði III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.
Krafist er málskostnaðar með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt af málskostnaði styðst við ákvæði laga nr. 50/1988 en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og sé því nauðsynlegt að fá dóm fyrir greiðslu skattsins úr hendi stefndu.
III
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndu byggja aðalkröfu sína um sýknu á því að tjón stefnanda verði ekki rakið til notkunar dráttarvélarinnar Kd-1006 í skilningi 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Tjónið verði alfarið rakið til notkunar heyhleðsluvagnsins og sérstaks búnaðar hans en 88. gr. umferðarlaga nái einvörðungu til notkunar skráningarskyldra ökutækja, þ.m.t. dráttarvéla, en ekki til vélknúinna vinnuvéla eða annarra tækjavéla sem við þau séu tengd og sérbúnaðar þeirra. Gildi það hvort heldur aflvél kyrrstæðrar dráttarvélar sé aflgjafi vinnutækisins eða annars konar aflvél.
Stefnandi hafi orðið fyrir tjóni er hún festi hönd sína í tannhjólakeðju á heyhleðsluvagninum. Keðja þessi sé hluti af sérstökum sópvindubúnaði á heyhleðsluvagninum en hann sé notaður til að sópa heyi upp á vagninn. Búnaður þessi verði aðeins notaður á heyhleðsluvagninum en ekki til annarra þarfa. Þannig hafi slysið ekki hlotist af dráttarvélinni sem slíkri, búnaði hennar, drifskafti eða tengibúnaði milli dráttarvélarinnar og heyhleðsluvagnsins, heldur af sérbúnaði heyhleðsluvagnsins, sópvindubúnaðinum. Hættueiginleikar dráttarvélarinnar sem ökutækis og dráttartækis hafi þannig engan þátt átt í slysinu.
Slys stefnanda sé í þeim einum tengslum við dráttarvélina að hún hafi verið aflgjafi heyhleðsluvagnsins. Dráttarvélin sjálf, sem hafi verið kyrrstæð er slysið varð, eða búnaður hennar hafi að öðru leyti ekki komið við sögu. Dráttarvélin hafi ekki verið í notkun í skilningi 88. gr. umferðarlaga heldur aðeins sem hver annar aflgjafi fyrir heyhleðsluvagninn.
Hvorki notkunarhugtak 88. gr. umferðarlaga né lögboðin ábyrgðartrygging ökutækja hafi verið talin ná til tjóns þar sem dráttarvél sé í þeim tengslum einum við tjónið að vera kyrrstæður aflgjafi hinna ýmsu vinnuvéla og tækja. Beri því að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda á grundvelli fébótareglna umferðarlaga. Þá verði ekki séð að almennar skaðabótareglur, sem stefnandi vísar til, eigi hér við. Sé enda ekki um það að ræða að stefndi, Sigurður, eigi sök á slysinu og raunar ekki á því byggt af hálfu stefnanda. Hafi allur öryggisbúnaður vagns og dráttarvélar líka verið í fullkomnu lagi.
Stefndu krefjast þess til vara að stefnukröfur verði stórlækkaðar fari svo að tjónið verði fellt undir 88. gr. umferðarlaga og ökutækjatryggingu dráttarvélarinnar. Sé krafan á því byggð að stefnandi eigi að bera stærsta hluta tjóns síns sjálf vegna eigin sakar. Sú aðferð sem stefnandi notaði við að smyrja keðjuna hafi verið óforsvaranleg með öllu og með því hafi stefnandi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi við verkið, sbr. 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Stefnandi hafi tekið upp á að bera feitina með óvarinni hendi á keðjuna á meðan hún snerist fyrir vélarafli. Hlaut stefnanda eftir aldri og þroska að vera ljós hin stórkostlega óaðgætni sem hún sýndi með þessu og beri að meta henni það til eigin sakar samkvæmt dómvenju. Fái þetta stoð í umsögn vinnueftirlitsins vegna slyssins þar sem segir að niðurstaða rannsóknarinnar hafi leitt í ljós "ekki var fyllsta öryggis gætt við smurninguna og vinnubrögð ekki til fyrirmyndar." Stefnandi hafi verið alin upp við búskap og vön vélum og heyvinnslutækjum og hættum af þeim í gangi.
Því er mótmælt að sá háttur hafi almennt verið hafður á að bera smurninguna á keðjuna með þeim hætti sem stefnandi viðhafði er slysið varð. Það fái enga stoð í gögnum málsins. Bæði ábúendur og sjónarvottur að slysinu fullyrði að venjan hafi verið að nota spýtu við að smyrja keðjuna. Þá er því mótmælt sem órökstuddu að stefnanda hafi verið sýnt að maka ætti smurningunni á með hendinni. Stefnandi hafi byrjað verkið með því að nota spýtuna, en breytt um verklag er henni þótti verkið sækjast seint.
Að öðru leyti eru gerðar eftirfarandi athugasemdir við sundurliðaðar dómkröfur stefnanda.
Miska- og örorkumati því sem stefnandi byggir á er mótmælt sem röngu.
Kröfu stefnanda um bætur vegna varanlegrar örorku er mótmælt. Er slysið varð hafi engin heimild verið til þess í lögum að ákvarða tjónþolum bætur vegna varanlegrar örorku á grundvelli 10% miskastigs. Það hafi fyrst orðið heimilt með lögum nr. 42/1996 sem tóku gildi 1. júlí 1996. Slys stefnanda varð 8. júlí 1994. Höfðu fyrrgreind lög því ekki tekið gildi. Verði þeim ekki beitt afturvirkt enda sé ekki getið sérstaklega um það í lögunum sjálfum en það sé frumskilyrði þess að lögum verði beitt afturvirkt. Það sé ennfremur grundvallarregla í skaðabótarétti að bótaréttur verði aðeins reistur á gildandi réttarreglum. Þar sem gildandi regla, sbr. 2. mgr. 8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, mælti svo fyrir að þegar miskastig væri minna en 15% greiddust engar örorkubætur eigi stefnandi ekki rétt til bóta vegna varanlegrar örorku.
Hæstaréttarmál nr. 317/1997, sem stefnandi vísar til kröfu sinni til stuðnings, eigi ekki við hér. Hafi þar verið fallist á kröfu um bætur vegna varanlegrar örorku á grundvelli 10% varanlegs miska vegna þess að gagnaðili hafði ekki borið sérstaklega brigður á að sú leið yrði farin. Í máli þessu sé slíkri kröfugerð mótmælt að fullu og öllu og því engin skilyrði til að fallast á kröfu stefnanda. Eigi stefnandi því engan rétt til bóta vegna varanlegrar örorku. Til vara er kröfunni mótmælt sem of hárri.
Mótmælt er kröfu um bætur vegna tímabundinnar örorku sem rangri og órökstuddri. Sé með öllu óljóst hvernig krafan sé fundin, enda ekki rökstudd.
Kröfu um dráttarvexti er mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi eins og málið sé vaxið.
Aðalkrafa stefndu um sýknu styðst við 88. gr. umferðarlega nr. 50/1987. Krafa stefndu um lækkun stefnufjárhæða styðst við 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga. Krafa stefndu um að dráttarvextir reiknist ekki fyrr en frá dómsuppsögudegi styðst við III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, einkum 2. ml. 15. gr.
Málskostnaðarkrafa styðst við XXI. kafla laga um meðferð einkamála.
IV
Niðurstaða
Í málinu er ágreiningur með aðilum um það hvort slys stefnanda verði rakið til notkunar dráttarvélarinnar Kd-1006 í skilningi 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Svo sem fram er komið varð slysið þegar stefnandi var að smyrja feiti á tannhjólakeðju sem drífur áfram sópvindu heyhleðsluvagns sem tengdur var aftan í dráttarvélina Kd-1006. Hafði stefnandi fjarlægt hlífina yfir keðjudrifinu og hafði sópvinduna í gangi við smurninguna til að auðvelda smurningu keðjunnar. Sópvindubúnaður heyhleðsluvagnsins var knúin af aflvél dráttarvélarinnar og tengdur drifskafti hennar. Dráttarvélin var kyrrstæð og mannlaus er slysið varð.
Keðja sú sem stefnandi festi hönd sína í var hluti af sérstökum sópvindubúnaði á heyhleðsluvagninum sem notaður er til þess að sópa heyi upp á vagninn. Dráttarvélin var ekki í notkun að öðru leyti en því að hún var aflgjafi fyrir sópvindubúnað heyhleðsluvagnsins, sem hafður var í gangi meðan tannhjólakeðjan var smurð. Slysið verður því ekki rakið til notkunar dráttarvélarinnar sem öku-og dráttartækis eða við að knýja vinnutæki í venjulegri notkun þess. Hinir sérstöku hættueiginleikar dráttarvélarinnar sem vélknúins ökutækis áttu þannig engan þátt í slysinu, sem hlaust af sérstökum útbúnaði heyhleðsluvagnsins, sbr. H. 1996, 765. Bótaábyrgð á hendur stefndu verður því ekki byggð á 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og fellur því utan gildissviðs 91. gr. laganna um lögboðna ábyrgðartryggingu ökutækja.
Samkvæmt athugun af hálfu Vinnueftirlits ríkisins sama dag og slysið varð reyndist öryggisbúnaðar vagns og dráttarvélar vera í lagi. Ekki hefur verið sýnt fram á að skilyrði bótaábyrgðar samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar séu fyrir hendi og ekki er á því byggt að stefndi Sigurður eigi sök á slysinu.
Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í málinu en eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndu, Sigurður Þorsteinsson og Vátryggingafélag Íslands hf., skulu vera sýkn af kröfum stefnanda, Höllu S. Sigurðardóttur, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.