Hæstiréttur íslands
Mál nr. 323/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Lögvarðir hagsmunir
- Frávísun frá héraðsdómi felld úr gildi
|
|
Miðvikudaginn 15. ágúst 2007. |
|
Nr. 323/2007. |
Dóra Dröfn Skúladóttir(Gísli Guðni Hall hrl.) gegn Landspítala-háskólasjúkrahúsi (Skarphéðinn Þórisson hrl.) |
Kærumál. Lögvarðir hagsmunir. Frávísun felld úr gildi.
D kærði ákvæði í héraðsdómi, þar sem kröfu hennar um ógildingu ákvörðunar L um að flytja hana til í starfi milli tveggja deilda sjúkrahússins var vísað frá dómi. Var frávísunin á því reist að ekki yrði séð að D hefði lögvarða hagsmuni af því að hafa uppi sérstaka ógildingarkröfu í málinu. Hins vegar var fallist á kröfu D um greiðslu miskabóta vegna framangreindrar ákvörðunar. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að D reisti ógildingarkröfuna á því að ákvörðunin hefði verið íþyngjandi fyrir sig þar sem henni hafi verið gert að sækja vinnu á öðrum stað en fyrr. Fæli þessi krafa í sér meira en að vera aðeins forsenda fyrir kröfu D um miskabætur og hefði dómur um þetta sjálfstæða þýðingu fyrir sóknaraðila. Frávísunarþáttur héraðsdóms var því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka ógildingarkröfuna til efnislegrar meðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. júní 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kært er ákvæði í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 25. maí 2007 þar sem vísað var frá dómi kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila um að ógilt yrði ákvörðun varnaraðila 17. október 2006 þess efnis að flytja hana í starfi af deild 33-C á Landspítalaháskólasjúkrahúsi við Hringbraut á deild 15 á Kleppi. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka framangreinda dómkröfu hennar til efnismeðferðar. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að hin kærða frávísun verði staðfest. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur um að vísa frá dómi framangreindri kröfu sóknaraðila er á því byggð að hún hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn um kröfuna. Sóknaraðili byggir kröfu þessa meðal annars á því að ákvörðun varnaraðila um að flytja hana til í starfi á þann hátt sem í dómkröfunni greinir hafi verið íþyngjandi fyrir sig vegna þess að henni hafi nú verið gert að sækja vinnu á öðrum stað en fyrr. Krafan um ógildingu á þessari ákvörðun varnaraðila felur meira í sér en að vera aðeins forsenda fyrir kröfu sóknaraðila um miskabætur sem tekin var til greina í héraði. Dómur um þetta hefur sjálfstæða þýðingu fyrir sóknaraðila. Verður frávísunarþáttur héraðsdóms því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka framangreinda kröfu sóknaraðila til efnislegrar meðferðar.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hið kærða ákvæði héraðsdóms um frávísun dómkröfu sóknaraðila, Dóru Drafnar Skúladóttur, á hendur varnaraðila, Landspítalaháskólasjúkrahúsi, er fellt úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka kröfuna til efnismeðferðar.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. maí 2007.
Mál þetta var höfðað 4. desember 2006 og dómtekið 18. maí 2007. Stefnandi er Dóra Dröfn Skúladóttir, Hraunbæ 56, Reykjavík. Stefndi er Landspítali - háskólasjúkrahús, Eiríksgötu 5, 101 Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að ógilt verði ákvörðun sviðsstjóra hjúkrunar á geðsviði stefnda um að flytja stefnanda af deild 33-C á Landspítala - háskólasjúkrahúsi (LSH) við Hringbraut yfir á deild 15 á Kleppi, sem var tilkynnt stefnanda með bréfi dagsettu 17. október 2006.
Einnig krefst stefnandi þess að stefndi greiði henni 5.000.000 króna auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. október 2006 til þingfestingardags, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Að lokum krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að mati dómsins.
I.
Stefnandi er hjúkrunarfræðingur að mennt. Samkvæmt starfsvottorði stefnanda hefur hún starfað á geðdeild 33-C við Hringbraut frá 1. janúar 2002, með hléi frá 1. nóvember 2005 til 10. apríl 2006, sem stefnandi kveðst hafa tekið vegna veikinda og dauðsfalls í fjölskyldu sinni. Deild 33-C er bráðamóttaka og göngudeild á geðsviði.
Í ráðningarsamningi stefnanda segir að vinnustaður (ráðningarstaður) hennar sé geðdeild 33-C. Þá segir að um réttindi og skyldur starfsmanns fari eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, auk kjarasamnings félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, sem stefnandi er félagsmaður í. Jafnframt kemur þar fram að starfsmanni beri að fara að löglegum fyrirmælum yfirmanna, þ.m.t. að starfa á fleiri en einni deild innan LSH.
Stefnandi hefur samhliða starfi sínu stundað nám í hugrænni atferlismeðferð við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands og er styrkt til þess af geðsviði stefnda.
Upphaf máls þessa er að rekja til heimboðs hjá Maríu Einisdóttur, hjúkrunardeildarstjóra á deild 33-C, föstudaginn 29. september 2006. Eftir heimboðið fór stefnandi heim til sín og með henni í för var annar hjúkrunarfræðingur á deildinni, Birgir Hilmarsson.
Mánudeginum á eftir, 2. október, hafði Birgir samband við Maríu Einisdóttur hjúkrunardeildarstjóra. Kvaðst hann hafa orðið fyrir grófri kynferðislegri áreitni af hálfu stefnanda síðastliðið föstudagskvöld og að hann treysti sér ekki til að vinna áfram með henni.
Fram hefur komið að hjúkrunardeildarstjóri hafi leitað eftir því, þriðjudaginn 3. október, við skrifstofu starfsmannamála stefnda, að fá aðstoð og ráðleggingar vegna þess ástands sem upp væri komið á deildinni. Hafi verið ákveðið að hjúkrunardeildarstjóri og Eiríkur Líndal, sálfræðingur í stuðnings- og ráðgjafarteymi starfsmanna stefnda, myndu ræða við stefnanda. Hjúkrunardeildarstjóri hafi hringt í stefnanda, miðvikudaginn 4. október og Eiríkur þá verið viðstaddur. Í því samtali hafi komið fram sú skoðun hjúkrunardeildarstjóra að ekki væri heppilegt að stefnandi og Birgir ynnu saman. Lausnin á því kynni að vera að stefnandi flyttist yfir á aðra deild. Stefnandi hafi svo hringt í hjúkrunardeildarstjóra og ákveðið hefði verið að stefnandi kæmi til fundar mánudaginn 9. október. Hefði stefnandi verið hvött til að hafa með sér trúnaðarmann. Hefði Eiríkur einnig verið viðstaddur það símtal.
Í millitíðinni, hinn 6. október, mætti Birgir á lögreglustöðina í Reykjavík og tilkynnti „aðfinnsluvert háttalag“ stefnanda á heimili hennar hinn 29. september. Samkvæmt dagbók lögreglustjórans í Reykjavík skýrði Birgir svo frá atvikum:
Birgir kemur (kl. 09:30) og vill láta bóka aðfinnsluvert háttarlag Dóru sem hann segir nánast hafa verið kynferðislega áreitni. Birgir og Dóra vinna á sama vinnustað. Þau eru í vinnustaðateiti s.l. föstudagskvöld. Þau búa bæði í Árbænum og eru samferða áleiðis heim. Á leiðinni biður Dóra Birgi um að fylgja sér í göngutúr þar sem hún ætli að viðra hundinn sinn áður en hún fer að sofa. Segist vera hrædd að fara ein í gönguferð að kvöldlagi. Til að gera langa sögu stutta þá mun Dóra hafa gengið mjög nærri Birgi við að reyna að fá hann til kynmaka við sig. Birgir mun ekki hafa haft áhuga á því enda giftur og tveggja barna faðir. Birgir sagðist ekki vilja hlaupa út frá henni heldur reyna að leysa þetta með góðu og sagði það hafa tekið u.þ.b. 1 og ½ klst. að komast út frá henni. Birgir mun hafa kvartað undan hegðun Dóru við yfirmann þeirra. Er spurning um að færa Dóru til á vinnustaðnum en fundur verður haldinn um það n.k. mánudag. Dóra mun í fyrstu hafa beðið Birgi afsökunar á framferði sínu, sagt hana hafa verið taktlausa. Hún mun hafa viðurkennt fyrir yfirmanninum að hafa gengið of langt í umrætt sinn. Síðar hafi hún haldið því fram að Birgir væri ekki alsaklaus í þessu máli. Birgir segist hafa rætt við kunningja sinn, sem ert lögfræðingur, Stígamót og fleiri. Hann hafi í framhaldi af því vilja láta bóka þetta ef það skyldu verða einhver frekari leiðindi vegna þessa máls.
Stefnandi segir frásögn Birgis uppspuna í öllum þeim atriðum sem máli skipti og að því fari víðs fjarri að hún hafi áreitt Birgi kynferðislega. Stefnandi kveðst ekki hafa átt frumkvæði að því að fá Birgi til kynmaka við sig og þar af leiðandi hafi hún ekki gengið langt í því að reyna það. Hafi „háttalag“ hennar ekki á neinn hátt verið aðfinnsluvert og hún aldrei haft tilefni til að biðja Birgi afsökunar á einu né neinu.
Framangreindur fundur var haldinn 9. október 2006. Hann sátu stefnandi, María Einisdóttir, hjúkrunardeildarstjóri deildar 33-C, Eydís Sveinbjarnardóttir, sviðsstjóri hjúkrunar á geðsviði stefnda, og Ágústa Hilmarsdóttir, vinkona stefnanda, sem hún fékk með sér á fundinn. Um efni fundarins vísast til bréfs stefnda, dags. 17. október 2006, sem rakið er hér á eftir.
Miðvikudaginn 11. október 2006 fór stefnandi, í fylgd með lögmanni sínum, Jóni G. Zoëga hrl., á fund trúnaðarlæknis stefnda. Stefnandi kveðst hafa á leið sinni þangað frétt af tilviljun, hjá starfsmanni á deild 33-C, Gunnari Þorsteinssyni, að deginum áður hefði verið haldinn reglulegur samráðsfundur á deild 33-C, sem allir starfsmenn deildarinnar hefðu verið boðaðir til sérstaklega, nema stefnandi þar sem þegar hefði verið rætt um að hún flyttist af deildinni. Fyrir liggur að Birgir hafi á þessum fundi greint starfsmönnum frá meintri kynferðislegri áreitni stefnanda í stuttu máli.
Í vikunni á eftir fékk stefnandi símtal frá sviðsstjóra hjúkrunar á geðsviði stefnda, þar sem tilkynnt var að stefnandi skyldi mæta til starfa á deild 15 á Kleppi í næstu viku. Deild 15 á Kleppi er sérhæfð meðferðardeild, stofnuð til að þjónusta sjúklinga sem þurfa á langtíma sérhæfðri meðferð að halda og hafa ekki getað nýtt sér aðrar deildir og/eða þjónustu geðsviðsins. Innlagnartími er yfirleitt 3-12 mánuðir. Markhópur eru alvarlega geðsjúkir einstaklingar sem hafa takmarkaða meðferðarheldni og sjúkdómsinnsæi, svo sem alvarlega geðrofssjúkdóma, geðrofs- og fíkniefnasjúkdóma, þiggja ekki meðferð sjálfviljugir, vistast sjálfræðissviptir eða geta verið sjálfum sér og/eða öðrum hættulegir, þ.e. stefnt eigin heilsu eða annarra í voða ef ekkert er að gert. Á heimasíðu stefnda er sérstaklega tekið fram að deildinni sé ekki ætlað að vera réttargeðdeild.
Stefnanda var formlega tilkynnt ákvörðunin um flutning sinn á deild 15 með ábyrgðarbréfi sviðsstjóra hjúkrunar á geðsviði stefnda, dags. 17. október 2006, sem barst stefnanda föstudagskvöldið 20. október 2006. Í bréfinu var vísað til niðurstöðu fundarins frá 9. október. Þá segir í bréfinu að stefnandi skyldi mæta á hinn nýja vinnustað á mánudegi 23. október. Í bréfinu segir orðrétt:
Í kjölfar atviks sem gerðist á milli tveggja hjúkrunarfræðinga, á móttökudeild 33-C á geðsviði LSH, á heimili annars þeirra aðfaranótt 30. september sl. var sú ákvörðun tekin af deildarstjóra móttökugeðdeildar 33-C og sviðsstjóra hjúkrunar á geðsviði LSH að óheppilegt væri að áðurnefndir hjúkrunarfræðingar ynnu báðir á sömu deild á geðsviði. Lýsing á atvikum frá báðum aðilum, leiðir líkum að því að farsælast sé að hjúkrunarfræðingar vinni ekki náið saman á næstunni.
Þann 9. október s.l. var haldinn fundur með Dóru Dröfn Skúladóttur, hjúkrunarfræðingi á 33-C, Ágústu Hilmarsdóttur, vinkonu Dóru Drafnar (mælt var með af sviðsstjóra hjúkrunar að trúnaðarmaður hjúkrunarfræðinga væri á fundinum en ekki vinkona Dóru Drafnar), Maríu Einisdóttur, deildarstjóra 33-C ásamt sviðsstjóra hjúkrunar á geðsviði til að ræða málin. Niðurstaða fundarins: Dóru Dröfn var boðin aðstoð frá stuðningsteymi LSH vegna atviks. Hún taldi sig ekki þurfa slíka aðstoð boð stendur áfram. Fengi að vita hvaða deild tæki á móti henni til starfa þann 16. október sl. Og mætti til vinnu að morgni þann 23. október nk. Dóra Dröfn er styrkt af geðsviði í ársnám í hugrænni atferlismeðferð í Endurmenntun HÍ sem hún mun stunda áfram á nýrri deild á geðsviði.
Eftir samtöl við þig þann 16. og 17. október s.l. í síma hefur þér verið tilkynnt um að hin nýja deild verði deild 15 á Kleppi. Deildarstjóri þar er Helga Jörgensdóttir. Hún á von á þér til vinnu þann 23. október n.k. kl. 08:00 á morgunvakt. Hún mun ræða nánar við þig um vinnufyrirkomulag og aðlögun á deild.
Gangi þér vel í starfi á deild 15.
Stefnandi ritaði formanni félags hjúkrunarfræðinga bréf, dags. 14. október 2006, þar sem málsatvik eru rakin.
Í bréfi lögmanns stefnanda til sviðsstjóra hjúkrunar á geðsviði stefnda, dags. 23. október 2006, segir að stefnandi uni ekki ákvörðun um flutning af deild 33-C á deild 15 á Kleppi. Hún væri niðurbrotin vegna máls þessa og væri ekki vinnufær. Hún sæi ekki hvernig það megi vera að ákveðið hafi verið að flytja hana til. Krafist var ítarlegs rökstuðning, þar sem m.a. kæmi fram nákvæm lýsing á atvikinu, sem vísað var til í bréfi sviðsstjóra, hvers vegna stefnandi skyldi flutt, hvaða faglegar forsendur réðu vali á nýjum vinnustað, ítarlegar upplýsingar um málsmeðferð og öll þau gögn, sem ákvörðunin byggðist á.
Svar sviðsstjórans barst lögmanni stefnanda með bréfi, dags. 24. október 2006. Engin gögn fylgdu bréfinu. Í bréfinu segir, um rökstuðning fyrir ákvörðuninni, að aðdraganda að ákvörðun um flutning stefnanda milli deilda sé að rekja til „alvarlegs ágreinings, trúnaðarbrests, og fyrirsjáanlegra samstarfsörðugleika“ milli stefnanda og annars hjúkrunarfræðings á deild 33-C. Ágreiningsefnið væri til komið vegna atviks sem gerðist utan vinnustaðarins og utan vinnutíma. Þá segir að það hafi verið mat sviðsstjóra að umræddir hjúkrunarfræðingar gætu ekki unnið saman, a.m.k. ekki fyrst um sinn. Sviðsstjóri kvaðst ekki hafa verið vitni að umræddu atviki og hefði því ekki forsendur til að lýsa því, en ljóst væri að það sem gerðist hefði valdið þeim mikilli geðshræringu. Um ástæðu þess að stefnandi væri flutt á aðra deild segir að það hafi verið til þess að starfskraftar beggja hjúkrunarfræðinganna nýttust og til að ágreiningur þeirra truflaði ekki starfsemina. Þá segir að ákvörðunin væri tekin á grundvelli stjórnunarréttar vinnuveitanda og ekki væri um nýjan vinnustað að ræða. Sviðsstjóri kvaðst hafa rætt við báða aðila máls og yfirmenn og taldi sig nægilega upplýsta um ágreining aðila. Rætt hafi verið við stefnanda um flutning á fundi og í síma, áður en stefnandi fékk bréf þar að lútandi.
Með bréfi lögmanns stefnanda til forstjóra LSH, dags. 27. október 2006, var þess krafist að ákvörðunin um flutning á stefnanda yrði dregin til baka. Í bréfinu er svarbréf sviðsstjórans og málsmeðferðin öll gagnrýnd. Taldi stefnandi að svarbréfið uppfyllti ekki þær kröfur sem gera verði til rökstuðnings í málum sem þessum. Ekkert í bréfinu gæfi tilefni til að líta svo á að um lögmæta ákvörðun um flutning hafi verið að ræða. Þá kom fram að stefnandi liti svo á að ákvörðun um flutning hennar á deild 15 á Kleppi, að henni forspurðri, væri refsing og einstaklega niðurlægjandi fyrir hana eins og á standi, auk þess sem með henni væri brotið gegn mörgum grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins. Var þess krafist að undið yrði ofan af atburðarás undanfarinna vikna með því að ákvörðunin um flutning yrði dregin til baka.
Bréfi lögmannsins var svarað með bréfi, dags. 8. nóvember 2006, þar sem því var hafnað að draga ákvörðunina til baka.
Þar sem tilraunir stefnanda til að fá flutning sinn dreginn til baka báru ekki árangur höfðaði stefnandi mál þetta til ógildingar á ákvörðuninni auk þess sem hún krefst miskabóta. Áður en málið var höfðað hafði stefnandi óskað eftir flýtimeðferð. Synjað var um útgáfu á stefnu til flýtimeðferðar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 16. nóvember 2006, sem staðfestur var í Hæstarétti hinn 23. nóvember 2006 í máli nr. 597/2006.
Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu fyrir dómi stefnandi, Ágústa Erna Hilmarsdóttir, vinkona stefnanda, Jón Gunnar Zoëga hrl., Birgir Hilmarsson, Sigríður Hafberg og Gunnar Þorsteinsson, starfsmenn á deild 33-C, María Einisdóttir hjúkrunardeildarstjóri, Eydís Sveinbjarnardóttir, sviðstjóri hjúkrunar á geðsviði, Eiríkur Líndal sálfræðingur og Hörður Þorgilsson sálfræðingur. Verður framburður þeirra rakinn hér síðar eftir því sem ástæða er til.
II.
Í málatilbúnaði sínum vísar stefnandi til þess að stefndi sé ríkisstofnun og stefnandi sé ríkisstarfsmaður, sem njóti réttinda og beri skyldur samkvæmt ákvæðum laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Samkvæmt 19. gr. laganna sé starfsmanni skylt að hlíta breytingum á störfum sínum eða verksviði. Einnig sé ákvæði í ráðningarsamningi stefnanda um heimild stefnda til að flytja stefnanda á milli deilda. Ákvæðið sé í stöðluðum ráðningarsamningi og stefnandi telur að samskonar ákvæði sé í ráðningarsamningum að minnsta kosti meginþorra starfsmanna LSH. Stefnandi telur að ákvörðun um flutning á grundvelli þessara heimilda sé, eins og hér standi á, íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun, sem lúti ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttarins og verði undir öllum kringumstæðum að byggjast á málefnalegum og gildum forsendum. Í þessu sambandi áréttar stefnandi eftirfarandi:
Í fyrsta lagi hafi stefnandi ráðið sig til starfa sem hjúkrunarfræðingur á deild 33-C. Deild 15 á Kleppi sé annar vinnustaður, sem stefnandi hafi ekki ráðið sig til.
Í öðru lagi hafi ákvörðunin verið tekin gegn vilja stefnanda og hún uni ekki ákvörðuninni. Stefnanda sé ekki gert kleift að sinna starfi sínu. Ákvörðunin hafi þannig ígildi uppsagnar.
Í þriðja lagi hafi stefnandi aldrei lýst yfir áhuga á að vinna á deild 15 á Kleppi og hafi engan áhuga á að vinna þar. Nám hennar við hugræna atferlismeðferð, sem hún hafi sinnt af miklum áhuga, muni ekki nýtast á viðunandi hátt að hennar mati á þeim vinnustað og stefnandi treysti sér ekki til að vinna á deildinni.
Í fjórða lagi hafi yfirmenn stefnda skapað það andrúmsloft á hjúkrunarsviði LSH með ákvörðuninni að stefnandi telur sér ekki vært í starfi þar meðan ákvörðunin standi óhögguð.
Í fimmta lagi sé ákvörðunin um flutning ekki byggð á faglegum forsendum. Engin hjúkrunarfræðileg rök hafi staðið til þess að ákveða að flytja stefnanda yfir á deild 15 á Kleppi.
Í sjötta lagi hafi ákvörðunin um flutning ekki byggst á stjórnskipulegri eða fjárhagslegri þörf LSH. Hún hafi ekki verið þáttur í neinum skipulagsbreytingum í starfsemi geðsviðs LSH, heldur sé hún byggð á atriðum, sem varði persónu stefnanda, nánar tiltekið ásökunum annars starfsmanns í hennar garð.
Stefnandi telur að ákvörðunin um flutning beri öll merki refsingar eins og hér standi á. Stefnandi hafi aldrei lýst því yfir að hún treysti sér ekki til að starfa á deild 33-C, hvort sem það sé með Birgi Hilmarssyni eða öðru starfsfólki. Birgir hafi hins vegar borið stefnanda röngum sökum um kynferðislega áreitni og haldi því fram að hann geti ekki unnið lengur með stefnanda. Stefnandi lítur svo á að í þessu felist ofsóknir gegn henni. Með því að taka ákvörðun um að flytja stefnanda til í starfi á þeim grundvelli hafi verið tekin afstaða gegn stefnanda.
Stefnandi telur að stefndi hafi brotið gegn andmælarétti hennar, sbr. 13.-15. gr. stjórnsýslulaga og samsvarandi óskráðar meginreglur í stjórnsýslurétti. Þau samtöl, sem deildarstjóri á deild 33-C og sviðsstjóri hjúkrunar á geðsviði, hefðu átt við stefnanda, hafi ekkert með raunverulegan andmælarétt að gera og þau átt sér stað eftir að ákvörðun um að flytja stefnanda hafði verið tekin. Þetta megi m.a. ráða af því sem haft sé eftir Birgi Hilmarssyni í dagbókarfærslu lögreglunnar frá 6. október, að spurning væri um að færa stefnanda til á vinnustað, þ.e. áður en fundað hafði verið með stefnanda. Stefnandi telur sig ekki hafa fengið tækifæri til að undirbúa og tjá sig fyrir fram um ákvörðunina og þær ástæður sem hún sé sögð byggjast á. Stefnandi telur einnig, eins og á stóð, að hún hefði átt að vera með í ráðum er framtíð hennar á LSH hafi verið ákveðin í stað þess að hún yrði flutt á þá deild, er hún hafi ekki viljað starfa á, án þess að vera spurð.
Einnig telur stefnandi að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, en rannsóknarreglan sé einnig óskráð meginregla í stjórnsýslurétti. Samkvæmt rannsóknarreglunni skuli stjórnvald sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Í þessu máli hafi ákvörðunin verið tekin vegna atvika, sem ákvörðunaraðilinn, þ.e. sviðsstjóri hjúkrunar á geðsviði, segi sig ekki hafa forsendur til að lýsa. Um brot gegn andmælarétti og rannsóknarreglu vísar stefnandi nánar til umfjöllunar um miskabótakröfu.
Þá telur stefnandi að stefndi hafi brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. Stjórnsýslulaga, en samkvæmt ákvæðinu skuli stjórnvald því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun að markmið, sem að sé stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Nánar um þetta vísar stefnandi til rökstuðnings fyrir miskabótakröfu.
Síðast en ekki síst telur stefnandi að með ákvörðuninni hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu og óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttarins um að ákvarðanir í stjórnsýslunni verði að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum. Þegar litið sé til efnis 19. gr. laga nr. 70/1996, og það borið saman við önnur ákvæði laganna, sé ljóst að markmiðið með 19. gr. sé að auðvelda ríkisstofnunum að gera skipulagsbreytingar og leggja niður störf, án þess að þurfa að segja upp starfsfólki. Einnig leiði af ákvæðinu að starfsmenn verði að sætta sig við breytingar á störfum, sem leiði af faglegri stjórnun yfirmanna hverju sinni. Ákvæði 19. gr. sé hins vegar ekki ætlað að heimila forstöðumönnum ríkisstofnana að flytja starfsmenn frá einum vinnustað til annars af geðþóttasjónarmiðum einum saman eða í viðurlagaskyni. Sömu sjónarmið búi að baki samsvarandi ákvæði í ráðningarsamningum starfsmanna LSH. Stefnandi telur að forsendur, sem varða starfsmenn persónulega, teljist ekki málefnalegar eða lögmætar ástæður fyrir tilflutningi tiltekins starfsmanns gegn vilja hans, sbr. hins vegar 21. gr. laga nr. 70/1996, sem kynni þá að koma til álita. Stefnandi telur að hin umdeilda ákvörðun um flutning hennar hafi hvorki byggst á málefnalegum né gildum forsendum.
Stefnandi vísar einnig til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga og telur það andstætt jafnræðisreglunni, eins og hér standi á, að ákveðið hafi verið að flytja hana á milli vinnustaða en ekki starfsmanninn sem mun ekki hafa treyst sér til að starfa með henni. Leggi dómstólar blessun sína yfir hina umdeildu ákvörðun verði opnuð auðveld leið fyrir starfsmenn á vinnustöðum og vinnuveitendur til að koma höggi á aðra, eins og reyndin sé í þessu máli.
Um kröfu sína til miskabóta að fjárhæð 5.000.000 króna vísar stefnandi til b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi telur meðferð málsins og ákvörðunina hafa falið í sér ólögmæta meingerð gegn persónu stefnanda, friði og æru. Í rökstuðningi um fjárhæð kröfunnar er vísað til þess að einstaklingar verji drjúgum tíma ævi sinnar í vinnunni. Það varði þá afar miklu að líða vel í starfi og sé ekki ofsögum sagt að sálarheill og velferð séu þar í húfi. Atvinnuréttindi og atvinnufrelsi séu sérstaklega varin í stjórnskipunarlögum nr. 33/1944, sbr. 72. og 75. gr. og fjölmörg ákvæði í settum rétti hafi þann tilgang að stuðla að og tryggja velferð starfsmanna og réttaröryggi þeirra. Sem dæmi megi nefna ákvæði í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938, ákvæði í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 og í lögum nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna.
Stefnandi telur að ekki verði fram hjá því litið að á heimili stefnanda, hinn 29. september 2006, hafi átt sér stað persónuleg samskipti tveggja fullorðinna einstaklinga, utan vinnutíma. Í lögum, sbr. 17. gr. laga nr. 96/2000 og ákvæðum laga nr. 46/1980, séu lagðar skyldur á atvinnurekanda til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að stemma stigu við því að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar verði fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað, í stofnun, félagsstarfi eða í skólum. Ákvæði, er lúti að þessu, taki ekki til þess sem fram fari í einkalífi fólks á eigin heimilum.
Stefnandi gengur út frá því að málsaðilar séu sammála um að Birgir Hilmarsson hafi borið stefnanda þungum sökum. Stefnandi kveðst þeirrar skoðunar að kynferðisleg áreitni sé óásættanleg og kunni að varða við ákvæði kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hins vegar beri að hafa hugfasta þá meginreglu, sem gildi í réttarríki, þ.m.t. í stjórnsýslunni, að hver maður skuli teljast saklaus uns sekt sé sönnuð. Vísar stefnandi til 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Stefnandi hafi frá fyrstu stundu mótmælt ásökunum á hendur sér sem tilhæfulausum og þær séu í hverju falli ósannaðar. Orð gegn orði sé ekki viðhlítandi sönnun um ásakanir eins og hér um ræði. Stefnandi telur að það hafi ekki verið á færi stefnda að taka ákvörðun gagnvart stefnanda á grundvelli umræddra ásakana, auk þess sem ákvörðunin fari þvert gegn viðurkenndum sönnunarreglum.
Stefnandi vísar til þess að félagsmálaráðherra hafi sett, með stoð í ákvæðum laga nr. 46/1980, reglugerð um aðgerðir gegn einelti á vinnustöðum. Einelti sé þar skilgreint í 3. gr. sem: „Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að.“ Samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar hvíli ríkar skyldur á atvinnurekanda til að koma í veg fyrir hvers konar einelti. Reglugerðinni fylgi greinargerð þar sem segi að sænskar reglur séu fyrirmynd að reglugerðinni. Alþjóðavinnumálastofnunin hafi vakið máls á vandamálum er tengist einelti sem og öðru ofbeldi á vinnustöðum. Í félagsmálasáttmála Evrópu, 2. mgr. 26, gr., sé kveðið á um rétt fólks til mannlegrar reisnar í starfi. Þar komi fram að stuðla skuli að aukinni vitund og forvörnum gegn endurtekinni, ámælisverðri eða ótilhlýðilegri og móðgandi háttsemi sem beinist að einstökum starfsmönnum á vinnustað eða starfi þeirra. Auk þess sé kveðið á um að grípa skuli til ráðstafana í því skyni að vernda launafólk gegn slíkri háttsemi. Tilgangur slíkra ákvæða sé að stuðla að því að starfsmenn njóti velsældar og virðingar í starfi. Niðurstöður rannsókna sýni að þolendur eineltis finni fyrir aukinni streitu sem geti komið fram í ýmsum andlegum sjúkdómum og jafnvel líkamlegum einnig. Í athugasemdum við almennt ákvæði 4. gr. reglugerðarinnar séu nefnd eftirfarandi dæmi um ótilhlýðilega háttsemi:
- eftirlit með starfsmönnum án vitundar þeirra.
- niðurlægjandi „refsiaðgerðir“ sem fyrirvaralaust beinast gegn ákveðnum starfsmanni án málefnalegra ástæðna eða útskýringa og án tilrauna til að leysa hugsanlegar undirliggjandi ástæður. Refsiaðgerðirnar geta t.d. komið fram í að verkefni eru tekin frá starfsmanni án rökstuðnings, óútskýrðum tilfærslum í starfi, breyttum kjörum, vinnutengdum upplýsingum sem haldið er frá starfsmanni o.fl.
- þegar meðvitað er komið í veg fyrir að starfsmaður geti sinnt verkefnum sínum.
- útilokun, einangrun, skeytingarleysi, þöggun.
- starfsmaður er niðurlægður, hann gagnrýndur, hæddur og svívirtur.
- baktal og niðrandi ummæli viðhöfð um starfsmann.
- ofsóknir og hótanir í garð starfsmanns.
Stefnandi vísar einnig til bæklings Vinnueftirlits ríkisins um einelti og kynferðislega áreitni á vinnustöðum, forvarnir og viðbrögð. Bæklingurinn sé í anda reglugerðarinnar. Stefnandi vekur sérstaklega athygli á kafla 5, sem beri heitið: „Ef vart verður við einelti og kynferðislega áreitni á vinnustöðum.“ Þar segi að fylgja skuli leiðbeiningum og áætlunum sem kunni að vera fyrir hendi á vinnustaðnum. Ef slíkt sé ekki til staðar sé hægt að leita upplýsinga hjá Vinnueftirlitinu eða viðkomandi stéttarfélagi. Þagmælsku og tillitsemi beri að sýna bæði þolendum og meintum gerendum í eineltis- og áreitnimálum. Álykta beri að vel athuguðu máli. Mikilvægt sé að gera óhlutdræga athugun á málsatvikum. Allir, sem málið varði, verði að fá á tilfinninguna að hlustað sé á þeirra upplifun af atburðunum og að það sem þeir segja sé tekið alvarlega. Ekki skuli koma með ásakanir og sleggjudóma um persónu og hegðun annars aðilans. Leita skuli lausna en ekki beina athygli að því að ná fram hefndum eða benda á sökudólga. Umrædda árekstra eða vandamál beri að nálgast frá því sjónarmiði að ekki þurfi að beita refsingum. Einnig þurfi að rétta þeim starfsmönnum hjálparhönd sem að ósekju séu ásakaðir um að hafa lagt einhvern í einelti eða hafa áreitt einhvern kynferðislega. Þeir kunni líka að hafa þörf fyrir sérstaka aðstoð og að sú staða geti komið upp að ráðast þurfi gegn slíkum orðrómi. Stefnandi telur reglurnar eiga við þar sem Birgir Hilmarsson komi ásökunum sínum á framfæri innan veggja spítalans.
Stefnandi segir að yfirmenn stefnda hafi gert allt rangt frá því ásakanir Birgis Hilmarssonar komu fram. Ásakanirnar hafi ekki verið um kynferðislega áreitni á vinnustað, þannig að ekki verði séð hvers vegna yfirmennirnir hafi ákveðið að beita sér yfirleitt. Í annan stað hafi viðbrögðin verið á einn veg gegn stefnanda, bæði í málsmeðferð og ákvörðuninni, sem tekin var. Yfirmennirnir hefðu ekki fylgt ákvæði 7. gr. reglugerðar nr. 1000/2004, um að meta aðstæður í samvinnu við vinnuverndarfulltrúa, utanaðkomandi ráðgjafa og aðra er málið varðaði. Þess í stað hefðu þeir tekið völdin í sínar hendur, ekkert gætt að mannorði og réttindum stefnanda í ákvarðanaferlinu og tekið þá ákvörðun, sem stefnandi upplifi sem refsingu. Við mat á því hvort ákvörðunin um flutninginn hafi verið refsing eða ekki telur stefnandi að það hafi grundvallarþýðingu að stefnandi hafi ekkert verið höfð með í ráðum er ákvörðunin hafi verið tekin. Ákvörðunin hafi verið tekin þvert gegn vilja hennar og ekkert tillit tekið til þess að hún hafi verið fórnarlamb ósannaðra sakargifta. Sé þá ónefndur fundur sem haldinn var í fjarveru stefnanda, sem hafi ekki verið til að bæta úr skák. Hin umdeilda ákvörðun hafi ekki verið studd neinum málefnalegum og gildum sjónarmiðum, enda virðist stefndi líta svo á að reglur um slíkt eigi ekki við í málinu.
Stefnandi segir að LSH sé risastór vinnustaður og sá langstærsti á sviði heilbrigðisþjónustu. Þar hafi stefnandi verið útmáluð og lítilsvirt og ekki verið gætt að því að veita henni neina vernd eftir að hinar alvarlegu en röngu ásakanir hafi komið fram. Stefnandi telur að hin umdeilda ákvörðun falli undir skilgreininguna á einelti í reglugerð nr. 1000/2004. Ákvörðunin hafi nú þegar haft alvarlegar afleiðingar og fylgikvilla í för með sér fyrir stefnanda. Hún sé miður sín og óvinnufær, auk þess sem henni sé hvort eð er ekki gert kleift að sinna starfi sínu. Mannorð hennar og æra hafi beðið mikinn hnekki. Framtíð hennar sé óljós og sá tími sem liðinn sé hafi einkennst af kvíða, ótta og reiði. Ekki sé ofsögum sagt að lífi hennar hafi verið umturnað.
Stefnandi segir að miskabætur, í tilviki því sem hér sé til umfjöllunar, verði að ákveða að álitum og ekki sé við fordæmi í sambærilegum málum að styðjast. Með vísan til framangreindra röksemda, þekktra afleiðinga eineltis og atvika að öðru leyti, telur stefnandi að miskabótakrafa hennar sé síst of há.
Krafa um vexti og dráttarvexti er reist á ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Krafa um málskostnað byggir á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV.
Stefndi byggir á því að LSH sé einn vinnustaður. Starfsmenn séu ráðnir til LSH en ekki til sérstakrar einingar, t.d. sviðs eða deildar innan LSH, svo sem til þeirrar deildar sem þeir komi fyrst til starfa á. Deildaskipulag LSH sé enda breytilegt og í þróun. Stefndi mótmælir því sem röngu sem stefnandi heldur fram að deild 15 sé annar vinnustaður en deild 33-C.
Stefndi segir að stefnandi sé ráðin sem hjúkrunarfræðingur á LSH og hafi starfað á geðsviði frá árinu 2001, að frátöldu hléi sem varð á störfum hennar. Megininntak og eðli hjúkrunar sé hið sama á öllum deildum geðsviðs og hafi flutningur stefnanda milli deilda engin áhrif á starf hennar, en yfirmenn stefnda séu ekki í vafa um að stefnandi kunni til verka á deild 15. Sé því ekki rétt að flutningur stefnanda hafi ígildi uppsagnar og að stefnanda sé gert ókleift að sinna starfi sínu.
Stefndi vísar til þess að í ráðningarsamningi stefnanda komi það sérstaklega fram að henni beri að fara að löglegum fyrirmælum, þ.m.t. að starfa á fleiri en einni deild innan sjúkrahússins, en þó svo væri ekki þá hefði stefndi allt að einu skýlausan rétt til að flytja stefnanda milli deilda. Um sé að ræða stjórnunarrétt stefnda og sé stefnanda skylt að fara að fyrirmælum varðandi starf sitt, sbr. 15. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Stjórnunarréttur vinnuveitanda sé grundvallarregla í vinnurétti og birtist í ýmsum ákvæðum laga nr. 70/1996, svo sem 19. gr. o.fl. Innan þess réttar rúmist ljóslega að ákveða að stefnandi sinni starfi sínu á annarri deild innan geðsviðsins, enda séu ekki ólögmæt sjónarmið þar að baki.
Stefndi mótmælir því að stefnanda sé ekki vært í starfi meðan flutningur hennar standi óhaggaður. Starf á deild 15 sé stefnanda ekki ósamboðið og sú vinna sé hvorki hættulegri né erfiðari en vinna á deild 33-C, auk þess sem með flutningnum sé ekki tekin afstaða eða gefin út skoðun af hálfu stefnda um að hún hafi brotið af sér eða að starfsframlag hennar sé minna metið. Þá hafi ekki verið að refsa eða niðurlægja stefnanda með því að flytja hana milli deilda. Í því hafi engin ásökun falist af hálfu stefnda. Algengt sé að starfsmenn séu fluttir milli deilda.
Stefndi mótmælir öllum staðhæfingum stefnanda um að deild 33-C og deild 15 séu svo ólíkar. Þvert á móti séu störf á deildum þessum alls ekki ólík.
Stefndi mótmælir því að nám það sem stefnandi stundi nú í hugrænni atferlismeðferð muni ekki nýtast henni á deild 15. Stefndi telur þvert á móti að nám stefnanda muni nýtast henni betur á deild 15 en á deild 33-C, en í því efni bendir stefndi á að hugræn atferlismeðferð sé notuð sem deildarmeðferð á deild 15.
Stefndi telur ósannaðar með öllu fullyrðingar stefnanda um að hún hafi stundað nám sitt af miklum áhuga, en stefnandi hafi einungis verið í því skamman tíma.
Þá mótmælir stefndi fullyrðingum um að ákvörðun um flutning stefnanda hafi ekki verið byggð á faglegum forsendum. Ástæða flutnings stefnanda hafi verið ágreiningur milli stefnanda og annars hjúkrunarfræðings, sem hafi verið þess eðlis að stjórnendur hafi metið það svo að hjúkrunarfræðingarnir gætu ekki unnið saman, a.m.k. ekki fyrst um sinn. Samstarf fagaðila á geðdeild sé óhjákvæmileg forsenda þess að starfsemin gangi vel. Ljóst hafi verið, að mati stjórnenda stefnda, að allur grundvöllur undir samstarfi og trausti milli stefnanda og Birgis væri brostinn. Um það þyrfti ekki vitnanna við og ágreiningurinn verið rækilega upplýstur hvað þetta varðaði. Stefndi telur ekki skipta máli að ekki hafi verið leitt í ljós hvað gerðist, milli stefnanda og Birgis, á heimili stefnanda. Það sé ekki verkefni stefnda að skera úr um það. Þó liggi það fyrir að Birgir hafi borið stefnanda sökum, en ekki öfugt. Það hafi þannig verið Birgir sem ekki treysti sér til að vinna með stefnanda og vanlíðanin hafi verið hans megin. Það hafi verið hann sem leitaði til lögreglu vegna framkomu stefnanda við sig, en ekki á hinn veginn. Verkefni stefnda sé að reka sjúkrahúsið á þann hátt að sjúklingar fái bestu heilbrigðisþjónustu sem völ sé á og í því skyni hafi verið nauðsynlegt að upplýsa um ágreining milli starfsmannanna, en hvað þar hafi legið að baki í smáatriðum hafi verið aukaatriði við mat á brostnum samstarfsgrundvelli stefnanda og Birgis. Málefnalegar, faglegar og stjórnunarlegar ástæður hafi þannig legið að baki flutningi stefnanda. Stjórnendum stefnda hafi borið skylda til að sjá til þess að starfsemin myndi ekki bíða skaða af brostnum samstarfsgrundvelli og augljósum samstarfserfiðleikum milli stefnanda og Birgis.
Stefndi telur ekki ljóst á hvaða hátt stefnandi telur að hjúkrunarfræðilegar ástæður hafi ekki ráðið för, en því sé þó allt að einu mótmælt af hálfu stefnda. Við lausn vandans hafi stjórnendum borið að hafa hliðsjón af eðli og markmiðum starfseminnar, sem og sjónarmiðum starfsmanna og starfsmannastefnu sjúkrahússins. Meðal markmiða starfsmannastefnu LSH sé að starfsmenn sýni hver öðrum virðingu í samskiptum og framkoma sem skapar óöryggi og vanlíðan sé ekki umborin. Mikilvægt sé því að starfsmönnum líði vel í starfi og treysti og beri virðingu hver fyrir öðrum. Þetta hafi verið fyrir borð borið í samskiptum milli stefnanda og Birgis og hefði það ljóslega komið niður á starfseminni og þar með sjúklingum, sem og öðrum starfsmönnum, og þurfi ekki að fara í grafgötur með hvernig starfsandinn hefði verið á deild 33-C, ef bæði stefnandi og Birgir hefðu haldið þar áfram starfi án inngrips af hálfu stefnda. Stefndi telur því ákvörðun um flutning stefnanda hafa verið óhjákvæmilega og það verið mat stjórnenda stefnda að önnur úrræði dygðu ekki ein og sér eftir könnun á þeim ágreiningi sem fyrir hendi hafi verið. Ekki hafi verið fyrir hendi önnur ráð. Ákvörðunin hafi verið tekin af Eydísi Sveinbjarnardóttur, sviðsstjóra hjúkrunar á geðsviði, en hún hafi vald til slíks.
Stefndi segir að stefnandi hafi ekki haldið fram þeirri málsástæðu að réttara hefði verið að færa Birgi af deildinni, en almennt hafi stefnandi ekki vísað til þess hvaða úrræða stefndi gat gripið til. Stefndi telur að ekki hafi verið efni til að bíða eftir að til árekstra kæmi á deild 33-C og bregðast þá við, eftir atvikum með beitingu 21. gr. laga nr. 70/1996, heldur hafi verið rétt og óhjákvæmilegt að byrgja brunninn strax og fyrirbyggja árekstra milli starfsmannanna inni á deildinni.
Um athugasemdir stefnanda þess efnis að svarbréf stefnda, dags. 24. október 2006, uppfylli ekki reglur um rökstuðning, segir stefndi að hann telji sér ekki skylt að rökstyðja ákvörðun um tilflutning starfsmanna á þann hátt sem stefnandi geri ráð fyrir. Stefndi telur ákvörðun um tilflutning milli deilda rúmast innan stjórnunarréttar síns og hafi slíkar ákvarðanir almennt ekki verið tilkynntar skriflega eða veittur slíkur rökstuðningur fyrir þeim. Viðbrögð stefnanda hefðu hins vegar verið á þann veg að stefndi taldi full efni til að tilkynna ákvörðun sína skriflega. Stefndi lítur ekki svo á að um sé að ræða stjórnvaldsákvörðun. Hins vegar sé rangt hjá stefnanda að stefndi telji að ekki þurfi að uppfylla kröfur um góða stjórnsýslu í tengslum við slíka ákvörðun. Kröfur um rökstuðning fyrir ákvörðun og fyrirhuguðum viðbrögðum vegna þess vanda sem upp hafi komið á deild 33-C hafi verið uppfylltar af hálfu stefnda. Ekki skipti máli hvort stefnandi hafi verið ósátt við flutninginn.
Stefndi mótmælir því að brotinn hafi verið andmælaréttur stefnanda. Stefndi áréttar að flutningur stefnanda sé ekki stjórnvaldsákvörðun, sem sé háð ákvæðum 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hins vegar hefði stefnanda allt að einu verið kynntar hugmyndir stefnda um að leysa vanda sem steðjaði að deild 33-C, með því að flytja hana, a.m.k. tímabundið, yfir á deild 15. Stefndi telur að stefnandi hafi haft öll tækifæri og tilefni til að koma á framfæri sjónarmiðum sínum og athugasemdum, bæði eftir símtöl við stjórnendur og fund með þeim. Afstaða stefnanda og skoðanir hefðu legið fyrir, en það sé m.a. tilgangur andmælaréttar að tryggja að mál sé fullupplýst.
Stefndi mótmælir því að málið hafi ekki verið nægilega upplýst áður en ákvörðun hafi verið tekin. Stefndi segir að málið snúist um þann ágreining sem hafi verið milli stefnanda og Birgis, en ekki um það hvað raunverulega gerðist á milli þeirra og olli ágreiningnum. Ákvörðun um flutning hafi byggst á þeim ágreiningi og brostnum samstarfsgrundvelli milli stefnanda og Birgis, en ekki á því eða þeim atvikum sem gerðust milli þeirra á heimili stefnanda. Ekki hafi verið tekin til þess afstaða af hálfu stefnda hvað gerðist á heimili stefnanda milli hennar og Birgis. Ágreiningurinn hafi verið nægilega upplýstur.
Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi orðið fyrir einelti, en það sem þetta mál snúist um og flutningur stefnanda í starfi falli ekki að skilgreiningu um einelti, eins og hún birtist í reglugerð um aðgerðir gegn einelti á vinnustöðum nr. 1000/2004. Stefndi bendir m.a. á að meðal hugtaksskilgreiningar eineltis sé að um síendurtekna háttsemi sé að ræða. Stefndi segir að stefnandi hafi ekki nýtt sér þau úrræði sem til séu vegna eineltis og bendi það til þess að hún hafi ekki upplifað það sem gerðist sem einelti á þeim tíma.
Vegna miskabótakröfu stefnanda bendir stefndi á að ekki sé um að ræða ólögmæta meingerð, eins og áskilið sé í 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Efnisskilyrði ákvæðisins séu því ekki uppfyllt. Um sé að ræða lögmætan flutning starfsmanns innan vinnustaðar sem hafi ekki beinst gegn friði, frelsi, persónu eða æru stefnanda. Umrædd ákvörðun stefnda um flutning stefnanda skerði í engu atvinnufrelsi stefnanda, skv. 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, eða önnur stjórnarskrárvarin réttindi stefnanda. Ákvörðunin feli enda ekki í sér starfslok stefnanda á geðsviði stefnda. Stefndi telur það rangt að ákvörðunin geri stefnanda ókleift að sinna starfi sínu.
Stefndi segir að stefnandi sýnist ganga út frá því að það sem gerðist á heimili hennar milli hennar og Birgis sé ástæða flutnings og að stefndi telji stefnanda seka um refsivert brot. Stefndi áréttar að engu slíku sé til að dreifa. Ákvörðunin byggist á ágreiningi milli stefnanda og Birgis, en lúti ekki að sök í því sambandi og síst refsiverðri. Stefndi telur því rangt að brotið hafi verið gegn rétti stefnanda eins og hann birtist í 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, enda hafi stefndi ekki vald til að kveða upp slíka dóma. Engu skipti hvort ásakanir Birgis séu ósannaðar, en ágreiningurinn milli þeirra sé staðreynd.
Stefndi mótmælir fullyrðingum stefnanda um heilsufar hennar, og áhrif flutningsins á heilsu hennar, sem röngum og ósönnuðum.
Þá er því mótmælt að stefnandi hafi verið „útmáluð og lítilsvirt“, en stefndi hafi ekki borið sakir á stefnanda eða skert mannorð hennar og æru. Hafa verði hugfast að fullyrðingar um það sem gerðist milli stefnanda og Birgis komi ekki frá stefnda, en það séu einu fullyrðingarnar sem til þess séu fallnar að varpa rýrð á stefnanda og valda mannorði hennar og æru hnekki.
Stefndi telur að ef framtíð stefnanda sé óljós þá sé það einungis vegna hennar eigin viðbragða, en ekki hafi staðið til af hálfu stefnda að hafa áhrif á framtíð stefnanda. Það, til hvers flutningurinn leiði, sé undir hennar eigin viðbrögðum komið.
Verði stefnda gert að greiða stefnanda bætur telur stefndi að stefnufjárhæðin sé allt of há. Í sýknukröfu stefnda sé innbyggð krafa um stórkostlega lækkun bóta, verði á annað borð um bótaskyldu að ræða. Fjárhæð stefnukröfunnar sé alveg órökstudd og ekki að sjá á hvaða viðmiðum hún byggist.
Dráttarvaxtakröfu er mótmælt og sérstaklega því að dráttarvextir séu reiknaðir frá því tímamarki er greinir í stefnu. Stefndi telur nægilegt og réttara að reikna dráttarvexti frá dómsuppsögu. Er um þetta vísað til niðurlagsákvæðis laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
Að öðru leyti er málatilbúnaði, málsástæðum og lagarökum stefnanda mótmælt sem röngum og ósönnuðum.
Til stuðnings kröfu um málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/ 1991 um meðferð opinberra mála.
V.
Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun stefnda að færa stefnanda af deild 33-C yfir á deild 15 á Kleppi í kjölfar atviks sem átti sér stað milli stefnanda og annars hjúkrunarfræðings, Birgis Hilmarssonar, á heimili stefnanda. Er því ástæða til að rekja aðilaskýrslu stefnanda og vitnisburð Birgis fyrir dómi um það sem á að hafa gerst á heimili stefnanda.
Stefnandi sagði að í boðinu hefði áfengi verið haft um hönd. Mikið hefði verið rætt um starfsmann sem hefði káfað á sjúklingum og starfsfólki. Stefnandi neitaði því að hafa verið aðgangshörð við Birgi í umræddu heimboði Maríu, sem stefndi hefur haldið fram. Stefnandi kvaðst hafa verið í boðinu til kl. 23:30. Hún hefði beðið Birgi um að koma með sér heim og fara út að ganga með hund hennar, sem er chihuahua smáhundur, þar sem hún væri smeyk við að fara ein. Þau hefðu fengið far heim til hennar, með samstarfsfélaga þeirra, Sigríði Hafberg. Svo hefði farið að þau fóru ekki í göngutúr. Hann hefði sest í sófa í stofunni og hún sest á móti honum. Áður hefði hún boðið honum áfengi sem hann þáði. Milli þeirra hefði myndast neisti og hún gengið til hans og sest klofvega yfir hann. Þau hefðu látið vel hvort að öðru. Hún hefði boðið honum að fara í svefnherbergið. Hann hafi fylgt henni eftir þangað, hún hefði afklæðst og lagst upp í rúm. Hann hefði þá lagst ofan á hana og spurt hana: „Viltu ekki bara klára þig sjálf.“ Svo hefði hann stungið upp á því að hringja í vin sinn og biðja hann um að hafa samræði við hana. Henni hefði verið misboðið, staðið upp og sest í stól. Hann hefði síðan farið út. Stefnandi sagði að Birgir hefði verið heima hjá henni í um eina og hálfa klukkustund. Vísaði hún því á bug sem Birgir hélt fram hjá lögreglu. Stefnandi sagði að tilfærsla hennar milli deilda hefði haft slæm áhrif á hana og leitt til þess að hún væri ekki vinnufær. Hún væri mjög döpur, kvíðin og grátgjörn. Þá hefði mál þetta komið illa við hana fjárhagslega. Fyrir liggja vottorð sálfræðings og læknis um álags- og þunglyndiseinkenni stefnanda.
Birgir Hilmarsson greindi frá því fyrir dómi að í umræddu heimboði hefði honum misboðið umræður stefnanda þar sem hún ásakaði mann um kynferðislega áreitni. Boðinu hefði verið lokið um kl. 23.30. Þegar flestir hefðu verið að fara hefði stefnandi sagt við vitnið að hann ætti að ganga með henni með hund hennar. Hann hefði ekki verið á því og reynt að leiða það hjá sér. Þá hefði hún sagt að í hverfinu, þar sem hún býr, væri kynferðisbrotamaður og vitnið gæti ekki haft á samviskunni að eitthvað kæmi fyrir hana. Þau hefðu fengið far með Sigríði Hafberg og stefnandi haldið áfram að tala um þetta. Vitnið hefði þá ákveðið að ganga með stefnanda með hundinn og hringt í konu sína til að láta hana vita af því. Ætlunin hefði verið að labba „stífluhringinn“ sem væri um 3 km. Er þau hefðu komið heim til stefnanda, um kl. 12.15, hefði hún sýnt honum íbúðina og fyrr en varði hefði hún verið búin að hella áfengi í glas fyrir hann. Hann hefði tekið við því og sest í sófa. Hún hefði sest á móti honum og reykt sígarettu. Þau hefðu rætt saman um hljómsveit sem hann væri í og fleira. Sagði hann að hundur hennar hefði verið að „rúnka“ sér á bangsa sem lá á gólfinu. Stefnandi hefði talað um það og páfagauk sem hefði verið að „rúnka“ sér á bolta á búrinu sínu. Það væri eðli dýranna að gera þetta. Vitnið kvað sér hafa fundist þetta óviðeigandi. Stefnandi hefði svo farið á salernið og komið aftur og stokkið yfir klof hans. Hann hefði sagt henni að hætta þessu en hún ekki hlustað á hann. Hún hefði þrábeðið hann um að hafa samræði við sig og farið með hendurnar í klof hans. Vitnið kvað sér ekki hafa vitað hvað hann ætti að taka til bragðs án þess að hann kæmist í slæma stöðu, en stefnandi hefði fyrr um kvöldið ásakað samstarfsmann um að áreita sig kynferðislega. Vitnið kvaðst hafa fundist eins og hann væri orðinn fórnarlamb. Annað hvort yrði hann að láta að vilja hennar eða verða fyrir ásökunum eins og hinn starfsfélagi þeirra. Vitnið kvaðst hafa sagt ákveðið við stefnanda að hætta, en hún ekki hætt. Hann sagði að hún hefði klætt sig úr að ofan. Hann hefði svo spurt hana af hverju hún fróaði sér ekki bara og kláraði þetta ekki, hann gerði ekki svona. Hann skyldi vera hjá henni á meðan og síðan færi hann. Hún hefði orðið undrandi á því að hann skyldi segja þetta og farið í herbergi sitt. Hann kvaðst hafa ákveðið að hann væri „ekki að fara að flýja þarna út“ heldur „geng héðan út“ og farið inn í herbergið. Hún hefði farið úr öllu, lagst í rúmið og látið vel að sjálfri sér en hætt því og beðið hann um að leggjast hjá sér. Hann hefði neitað því en dottið í hug að kitla á henni bakið og svo strokið á henni bakið, í þeim tilgangi að róa hana. Hún hefði viljað að hann stryki á henni magann og hann ákveðið að gera það. Hún hefði svo allt í einu staðið upp. Hann hefði þá haldið að þessu væri lokið og staðið upp líka. Þá hefði hún allt í einu ýtt honum í rúmið og stokkið ofan á hann. Þá hefði hann ýtt henni til hliðar og sagt henni að hætta þessu. Hefði hún þá gefist upp og vitnið gengið út. Þetta hefði verið um klukkan tvö og hann verið kominn heim til sín um hálf þrjú. Sagði vitnið að þetta hefði fengið mjög á hann. Hann kvaðst hafa verið innilokaður og verið í „algjörri gildru“ á heimili stefnanda. Hann hefði ekki getað komist út án þess að slasa stefnanda. Hann hefði metið stöðina þannig að hann þyrfti að leysa sig úr þessu með þeim hætti sem hann gerði. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa átt sér undankomu auðið þann tíma sem hann var á heimili stefnanda. Vitnið sagðist hafa lýst því sem hefði gerst fyrir Maríu Einisdóttur hjúkrunardeildarstjóra, með sama hætti og hann gerði fyrir dóminum.
Stefnandi krefst þess að ákvörðun stefnda um tilfærslu hennar milli deilda verði ógild. Jafnframt krefst hún miskabóta. Fyrir dómi hefur komið fram hjá yfirmönnum stefnanda að hún sé enn starfsmaður stefnda og að ekki hafi komið til uppsagnar, hvorki af hennar hálfu né stefnda. Ekki verður séð að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að hafa uppi sérstaka ógildingarkröfu, en ekki verður leyst úr miskabótakröfu stefnanda án þess að tekin verði afstaða til þess hvort ákvörðun stefnda um tilfærslu stefnanda hafi verið lögmæt. Verður kröfu stefnanda um ógildingu því sjálfkrafa vísað frá dómi.
Stefndi heldur því fram að hin umdeilda ákvörðun hafi rúmast innan stjórnunarréttar hans og sé ekki stjórnvaldsákvörðun. Óumdeilt er í máli þessu að við tilfærslu stefnanda milli deilda, sem henni var gert að hlíta, héldust launakjör hennar, vinnutími og vinnufyrirkomulag, óbreytt. Telja verður að ákvörðunin rúmist innan 19. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og hún fær stoð í ráðningarsamningi stefnanda. Samkvæmt 19. gr. laganna er starfsmanni skylt að hlíta breytingum á störfum sínum og verksviði frá því er hann tók við starfi. Er ákvörðun um breytingu á starfi eða verksviði ríkisstarfsmanns almennt talin lúta að innra skipulagi stjórnsýslunnar ef hún hefur ekki jafnframt í för með sér skert launakjör eða önnur réttindi starfsmanns, sbr. dómur Hæstaréttar frá 16. desember 2004 í máli nr. 390/2004. Gilda ekki sömu reglur um undirbúning slíkra ákvarðana og stjórnvaldsákvarðana samkvæmt 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar til bært yfirvald hefur á grundvelli 19. gr. laga nr. 70/1996 ótvíræða heimild til að breyta störfum og verkssviði ríkisstarfsmanns og er það komið undir mati hans hvort tilefni sé til slíkra breytinga. Þær breytingar verða þó að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum og mega ekki vera meira íþyngjandi fyrir starfsmann en nauðsyn ber til, sbr. dómur Hæstaréttar frá 4. maí 2005 í máli nr. 475/2004.
Stefndi heldur því fram að tilfærsla stefnanda hafi ekki verið byggð á því að ásakanir starfsfélaga hennar væru á rökum reistar, heldur því að ágreiningur þeirra myndi raska starfsemi deildar 33-C og við því hafi þurft að bregðast. Að mati dómsins getur tilfærsla starfsmanns við aðstæður sem þessar verið réttmæt enda séu málefnalegar ástæður fyrir því að hann sé færður til en ekki gripið til annarra úrræða, s.s að færa hinn starfsmanninn á aðra deild. Ekki er fallist á athugasemd stefnda í greinargerð, bls. 5, um að stefnandi hafi ekki haldið fram þeirri málsástæðu að réttara hefði verið að færa Birgi af deildinni. Í stefnu, m.a. á bls. 8, er haldið fram þeirri málsástæðu að það fái ekki staðist að það hafi verið ákveðið að flytja hana en ekki hann. Þá er óhjákvæmilegt að það komi til skoðunar á því hvort tilfærsla stefnanda hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum eða verið of íþyngjandi.
Ástæður þess að stefnandi var flutt til en ekki Birgir Hilmarsson og hvaða sjónarmið réðu vali á nýrri deild koma fram í svarbréfi stefnda, dags. 24. október 2006, til lögmanns stefnanda sem hafði óskað eftir rökstuðningi fyrir hinni umþrættu ákvörðun. Vísað er til þess að stefnandi hafi verið flutt á aðra deild til þess að starfskraftar beggja starfsmanna nýttust og til þess að ágreiningur þeirra truflaði ekki starfsemi stefnda. Um forsendur fyrir vali á annarri deild er vísað til ákvæðis í ráðningarsamningi stefnanda um að hún þurfi að vinna á öðrum deildum. Af þessu svari verður ekki séð af hverju starfskraftar beggja hefðu ekki alveg eins getað nýst ef hinn starfsmaðurinn hefði verið fluttur. Þá má gera ráð fyrir að ákvæði um störf á öðrum deildum hafi einnig verið í ráðningarsamningi hins starfsmannsins. Að mati dómsins geta þessar ástæður því ekki talist málefnalegar. María Einisdóttir hjúkrunardeildarstjóri gaf aðrar ástæður fyrir því fyrir dómi að stefnandi var flutt en ekki Birgir. Í fyrsta lagi væri hann sveigjanlegri en stefnandi með vaktir. Í öðru lagi hefði hollusta skipt máli, en stefnandi hefði eitt sinn hætt og m.a. talað um leiða í starfi. Þá hefði hún talað um að læra sálfræði og hætta hjúkrun. Einnig hefði hún verið með fleiri veikindadaga en hann. Eydís Sveinbjarnardóttir sviðsstjóri sagði að nám stefnanda í hugrænni atferlismeðferð myndi nýtast vel á deild 15. Stefnda var í lófa lagið að tilgreina þessar ástæður þegar stefndi hafði málið til meðferðar en það er ósannað að það hafi verið gert. Þessar síðbúnu skýringar breyta ekki því að ástæður þær sem stefndi færði fram við stefnanda voru ómálefnalegar. Gera verður þá kröfu að öll sjónarmið sem bjuggu að baki ákvörðun um tilfærslu stefnanda lægju fyrir með skýrum hætti þegar mál hennar var til meðferðar.
Fram hefur komið að Birgir var reiðubúinn að flytjast til í starfi en stefnandi var því mótfallin að hún færðist til. Stefnandi kveðst aldrei hafa verið spurð að því hvort hún vildi fara á deild 15 og ekki verður séð af gögnum málsins að leitast hafi verið við að koma til móts við hana um það hvert hún yrði færð eða að henni hafi í raun verið gefinn kostur á að færast á aðra deild. Einnig er óljóst hvort tilfærsla stefnanda hafi í raun verið tímabundin, en ekki kemur fram í bréfi stefnda frá 17. október að ákvörðunin sé tímabundin. Í svarbréfi stefnda frá 24. október segir að það væri mat yfirmanna að starfsmennirnir gætu ekki unnið saman, „a.m.k. ekki fyrst um sinn“. Ekkert liggur fyrir um það hversu langan tíma ákvörðunin hafi átt að gilda eða hvenær hún yrði tekin til endurskoðunar. Með hliðsjón af öllu þessu verður jafnframt að telja að tilfærsla stefnanda hafi verið meira íþyngjandi fyrir hana en efni stóðu til.
Miskabótakröfu sína styður stefnandi við b-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Tilfærsla stefnanda milli deilda fól í sér, eins og hér stóð á, brot gegn æru og persónu stefnanda. Var hún til þess fallin að gefa alvarlegum ásökunum starfsfélaga hennar byr undir báða vængi og valda stefnanda miklum álitshnekki og andlegri vanlíðan. Ber því að dæma henni miskabætur úr hendi stefnda, sem þykja hæfilega ákveðnar 500.000 krónur. Dráttarvextir skulu reiknast frá dómsuppsögu.
Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn, með hliðsjón af tímaskýrsla lögmanns stefnanda, 880.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir, settur héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Kröfu stefnanda, Dóru Drafnar Skúladóttur, um að ógild verði ákvörðun stefnda, Landspítala háskjólasjúkrahúss, um að flytja hana af deild 33-C á deild 15 á Kleppi, er vísað frá dómi.
Stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá dómsuppsögu til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 880.000 krónur í málskostnað.