Hæstiréttur íslands

Mál nr. 660/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • EFTA-dómstóllinn
  • Ráðgefandi álit
  • EES-samningurinn
  • Málsástæða


Föstudaginn 18. febrúar 2011.

Nr. 660/2010.

Frjálsi fjárfestingarbankinn hf.

(Bjarki Már Baxter hdl.)

gegn

Sveini Óskari Sigurðssyni og

Samsidanith Chan

(Gísli Guðni Hall hrl.)

Kærumál. EFTA-dómstóllinn. Ráðgefandi álit. EES-samningurinn. Málsástæður.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu SS og SC um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði í tengslum við mál þeirra á hendur F hf. Í málinu höfðu SS og SC lýst kröfum í bú F hf. við slit hans vegna tveggja veðskuldabréfa sem þau höfðu gefið út til F hf. Byggðu þau kröfur sínar m.a. á því að F hf. hefði innheimt of háar afborganir af skuldabréfunum á grundvelli gengistryggingar. Í greinargerð sinni fyrir Hæstarétti kemur fram að þau byggi á því til vara að ákvæði lánssamninganna um gengistryggingu færu í bága við ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá var á því byggt að víkja bæri þessum ákvæðum lánssamninganna til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Í báðum tilvikum var á því byggt að þeim bæri einungis að greiða vexti í samræmi við ákvæði lánssamninganna og var í því sambandi vísað til 3. mgr. 36. gr. c. síðarnefndu laga. Með ákvæðinu hefði verið innleidd í íslenskan rétt tilskipun ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum og skýring ákvæðisins réðist því m.a. af skýringu ákvæða 5. og 6. gr. nefndrar tilskipunar. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að í greinargerð SS og SC fyrir héraðsdómi hafi ekki verið höfð uppi sú málsástæða sem höfð væri uppi í kærumálinu fyrir Hæstarétti, að þeim bæri einungis að greiða vexti í samræmi við ákvæði lánssamninganna, sem ættu að kröfu þeirra að gilda áfram að undanskildum ákvæðum um gengistryggingu. Þá hafi þau hvorki vísað til 3. mgr. 36. gr. c. laga nr. 7/1936 né 5. og 6. gr. tilskipunar ráðsins 93/13/EBE í greinargerð sinni fyrir héraðsdómi. Í ljósi málatilbúnaðar SS og SC yrði því ekki séð að svör EFTA-dómstólsins við spurningum þeirra gætu nokkru skipt fyrir úrlausn málsins. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. nóvember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. nóvember 2010, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði í tengslum við mál þeirra á hendur sóknaraðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila verði hafnað og þeim gert að greiða sér málskostnað í héraði auk kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Við slit sóknaraðila samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með áorðnum breytingum lýstu varnaraðilar tveimur kröfum á hendur honum 20. október 2009, annars vegar að fjárhæð 2.202.593 krónur og hins vegar 1.135.801 króna, í báðum tilvikum að meðtöldum vöxtum og kostnaði. Kröfur varnaraðila snúa að tveimur veðskuldabréfum, sem þau gáfu út til sóknaraðila 29. ágúst 2006. Varnaraðilar byggja þessar kröfur á því að sóknaraðili hafi innheimt of háar afborganir af skuldabréfunum á grundvelli gengistryggingar sem ekki samræmist ákvæðum samninganna rétt skýrðum. Nánari grein er gerð fyrir málsástæðum varnaraðila í hinum kærða úrskurði. Í greinargerð þeirra fyrir Hæstarétti kemur fram að þau byggi á því til vara að ákvæði lánssamninganna um gengistryggingu fari í bága við ófrávíkjanleg ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Að þeirri málsástæðu frágenginni reisa varnaraðilar kröfur sínar á því að víkja beri þessum ákvæðum lánssamninganna til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga með síðari breytingum. Í báðum síðastnefndum tilvikum telja varnaraðilar að þeim beri einungis að greiða vexti í samræmi við ákvæði lánssamninganna. Í því sambandi vísa þau til 3. mgr. 36. gr. c. laga nr. 7/1936, þar sem tekið er fram að ef ósanngjörnum samningsskilamála er vikið til hliðar í heild eða að hluta eða breytt, skuli samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans. Varnaraðilar benda á að með þessu lagaákvæði hafi verið innleidd í íslenskan rétt tilskipun ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum. Skýring 3. mgr. 36. gr. c. laga nr. 7/1936 ráðist því meðal annars af skýringu ákvæða 5. og 6. gr. nefndrar tilskipunar.

 Sóknaraðili reisir kröfu sína á því að varnaraðilar byggi málatilbúnað sinn ekki á málsástæðum sem studdar séu lagarökum á grundvelli 36. gr. c. laga nr. 7/1936 og tilskipun ráðsins 93/13/EBE. Eins og málatilbúnaður varnaraðila sé úr gerði gerður varði tilskipunin ekki sakarefni málsins og skipti því engu fyrir úrlausn þess að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Sóknaraðili byggir kröfu sína einnig á því að sú málsástæða varnaraðila, að gengistrygging lánssamninganna fari í bága við ófrávíkjanleg ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, snerti ekki EES-samninginn þar sem efnahags- og peningamál, þar með talin vaxtamál, séu undanskilin efnissviði hans. Í 46. gr. EES-samningsins sé einungis kveðið svo á að samningsaðilar skuli skiptast á skoðunum og upplýsingum um framkvæmd hans og áhrif samstarfsins á efnahagsstarfsemi og framkvæmd stefnu í efnahags- og peningamálum. Þeir geti ennfremur rætt stefnu, ástand og horfur í efnahagsmálum, en þessi skipti á skoðunum og upplýsingum fari fram án nokkurra skuldbindinga.

II

Í greinargerð sóknaraðila við meðferð ágreiningsmáls um gjaldþrotaskipti fyrir héraðsdómi á að koma fram til fullnaðar hverjar kröfur hann hefur uppi og á hverju þær eru byggðar, sbr. 1. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í greinargerð, sem varnaraðilar lögðu fram 19. mars 2010, kröfðust þau þess að við slit sóknaraðila yrðu viðurkenndar kröfur þeirra að fjárhæð 2.202.593 krónur og 1.135.801 króna og yrði þeim skipað í réttindaröð sem almennum kröfum samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Kröfur varnaraðila voru aðallega reistar á því að skuld þeirra við sóknaraðila væri vegna erlends láns og með gengistryggingu þess hefðu þau verið varin fyrir því að íslenska krónan félli í verði gagnvart þeim erlendu myntum, sem lánin voru veitt í. Yrði ekki fallist á þessa málsástæðu byggðu varnaraðilar á því að samningar þeirra við sóknaraðila væru um lán í íslenskum krónum, sem fælu í sér ólögmæta gengistryggingu við erlendar myntir, og væru slík ákvæði ógild samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001. Að frágengnum þessum málsástæðum vísuðu varnaraðilar til 36. gr. laga nr. 7/1936 sem og óskráðra meginreglna samningaréttar um áhrif brostinna forsendna.

Í greinargerð varnaraðila fyrir héraðsdómi var ekki höfð uppi sú málsástæða, sem höfð er uppi í greinargerð þeirra í kærumáli þessu, að þeim beri einungis að greiða vexti í samræmi við ákvæði lánssamninganna, sem ættu að kröfu þeirra að gilda áfram að undanskildum ákvæðum um gengistryggingu. Þá vísuðu varnaraðilar hvorki til 3. mgr. 36. gr. c. laga nr. 7/1936 né 5. og 6. gr. tilskipunar ráðsins 93/13/EBE í greinargerð sinni fyrir héraðsdómi. Í ljósi málatilbúnaðar varnaraðila verður ekki séð að svör EFTA-dómstólsins við spurningum, sem greindar eru í hinum kærða úrskurði, geti nokkru skipt fyrir úrlausn málsins. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Rétt er að ákvörðun málskostnaðar í héraði vegna þessa þáttar málsins bíði efnisúrlausnar þar, en varnaraðilum verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Varnaraðilar, Sveinn Óskar Sigurðsson og Samsidanith Chan, greiði óskipt sóknaraðila, Frjálsa fjárfestingarbankanum hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. nóvember 2010

I

         Mál þetta var þingfest 27. janúar 2010, en þá var lagt fram bréf slitastjórnar Frjálsa fjárfestingabankans hf., móttekið 22. desember 2009, þar sem óskað var dómsmeðferðar vegna ágreinings um lýsta kröfu sóknaraðila við slit bankans. Erindinu var beint til héraðsdóms á grundvelli 171. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. og 2. mgr. 120. gr. sömu laga. Fram kemur í bréfi slitastjórnar að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi skipað Frjálsa fjárfestingabankanum hf., Lágmúla 6, Reykjavík, slitastjórn 23. júní 2009 samkvæmt fyrirmælum 101. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Innköllun hafi verið gefin út 22. júlí 2009 og hafi kröfulýsingarfrestur runnið út 22. október sama ár.

         Sóknaraðilar, Sveinn Óskar Sigurðsson og Samsidanith Chan, bæði til heimilis að Stórateig 20 í Mosfellsbæ, lýstu tveimur kröfum við slit varnaraðila, annars vegar að fjárhæð 1.135.801 króna, en hins vegar að fjárhæð 2.202.593 krónur. Samkvæmt kröfulýsingu byggðust kröfur þeirra á því að varnaraðili hefði ekki staðið rétt að útreikningi krafna á hendur þeim samkvæmt lánssamningum aðila 29. ágúst 2006, og því ættu þau rétt til endurgreiðslu þess fjár sem þau hefðu ofgreitt. Kröfunum var lýst sem almennum kröfum samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Að auki var krafist áfallandi vaxta frá 23. júní 2009 til greiðsludags. Var þeirri kröfu lýst sem eftirstæðri kröfu samkvæmt 114. gr. sömu laga.

Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfum sóknaraðila. Sóknaraðilar mótmæltu afstöðu slitastjórnar, en ágreiningur aðila varð ekki jafnaður. Í kjölfarið var ákveðið að vísa ágreiningnum til dómstóla, eins og áður greinir.

Í þinghaldi í máli þessu 6. október sl. lagði lögmaður sóknaraðila fram bréf til dómara, þar sem þess var krafist að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á eftirfarandi:

Samræmist það ákvæðum tilskipunar 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum, einkum 5. og 6. gr., og ákvæðum tilskipunar 87/102/EEC frá 22. desember 1986, um samræmingu laga, reglugerða og stjórnsýslufyrirmæla aðildarríkja varðandi neytendalán, eins og tilskipuninni hefur verið breytt, ef ákveðið verður gegn andmælum sóknaraðila að skuld þeirra við varnaraðila samkvæmt veðskuldabréfum með númerin 714065 og 714064, gefin út 29. ágúst 2006, skuli bera vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 10. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu?

Í tilefni af framkominni ósk sóknaraðila var ákveðið að fresta málinu til 5. nóvember sl., og gefa aðilum þá kost á að tjá sig um álitaefnið. Að loknum munnlegum málflutningi þann dag var krafa sóknaraðila tekin til úrskurðar.

II

Í stuttu máli eru atvik þau að sóknaraðilar tóku lán hjá varnaraðila til fasteignakaupa 29. ágúst 2006. Annað lánið var að fjárhæð 38.300.000 krónur, merkt númer 714065, en hitt 22.000.000 króna, merkt númer 714064. Texti og skilmálar veðskuldabréfa, sem gefin voru út í tilefni af lánveitingunum, er samhljóða í öllum meginatriðum. Þannig er fyrirsögn skuldabréfanna „Veðskuldabréf - Fasteignalán í erlendri mynt“ og bera þau bæði svohljóðandi áritun: „Skuldabréfið er gengistryggt, með breytilegum LIBOR vöxtum og jöfnum afborgunum.“ Í báðum tilvikum er lánsfjárhæðin tilgreind í íslenskum krónum, en tekið fram að hún sé „jafnvirði“ þeirra mynta og í þeim hlutföllum sem þar komi fram, þ.e. svissneskra franka (50% CHF) og japanskra yena (50% JPY). Í 2. gr. skuldabréfanna segir að lánið sé „bundið sölugengi Seðlabanka Íslands á ofangreindum myntum. Höfuðstóll skuldarinnar breytist í hlutfalli við breytingar á sölugengi hverrar myntar eins og það er á útborgunardegi til fyrsta gjalddaga, og síðan í hlutfalli við breytingar á sölugengi myntanna milli gjalddaga. Afborganir eru reiknaðar þannig, að á hverjum gjalddaga er deilt í höfuðstól hverrar myntar með þeim fjölda gjalddaga sem þá eru eftir, að meðtöldum þeim gjalddaga sem er í það sinn“.

Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að þau telji útreikningsaðferð varnaraðila við innheimtu afborgana af skuldabréfunum ranga, og um leið í andstöðu við ákvæði skuldabréfanna og ófrávíkjanleg lagaákvæði. Hafi afborganir verið reiknaðar á þeirri forsendu að sóknaraðilar bættu varnaraðila gengistap er hlaust af því að íslensk króna féll í verði gagnvart svissneskum frönkum og japönskum yenum. Við gengisfallið hafi afborganir hækkað og leitt til þess að varnaraðilar hafi greitt mun hærri afborganir af skuldabréfunum en þeim hafi borið. Því geri sóknaraðilar kröfu um að endurgreiðslu á ofgreiddum afborgunum.

Með dómum Hæstaréttar Íslands 16. júní 20101 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 var því slegið föstu að óheimilt væri að binda lán í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla og færu samningsákvæði þess efnis í bága við ófrávíkjanlegar reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Bæði málin fjölluðu um svokölluð „bílalán“. Nokkru síðar, 16. september sl., kvað Hæstiréttur síðan upp dóm í máli nr. 471/2010, en í því máli var tekist á um hvort og þá hvaða áhrif niðurstaða Hæstaréttar í fyrrnefndum dómum réttarins hefði á vexti af láni samkvæmt sambærilegum samningi. Í öllum málunum hafði svo verið um samið að vextir af lánunum ættu að ráðast af millibankavöxtum í London af þeim myntum, sem hin ólögmæta gengistrygging tók mið af. Niðurstaða réttarins í síðastnefnda málinu var sú að þar sem órjúfanleg tengsl væru milli ólögmætra skilmála skuldabréfsins um gengistryggingu lánsins og fyrirmæla þess um vexti, væri hvorki unnt að styðjast við þau fyrirmæli óbreytt, né gefa þeim með skýringu annað inntak. Því yrði með öllu að líta fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð. Þar sem samningurinn hafi hins vegar kveðið á um að skuldin bæri vexti, væri óhjákvæmilegt að líta svo á að atvik hafi svarað til þess að samið hafi verið um að greiða vexti af peningakröfu, án þess að tiltaka hverjir þeir skyldu vera. Með vísan til 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, voru vextir því ákveðnir jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum, og birtir eru samkvæmt 10. gr. sömu laga.

III

Í bréfi sóknaraðila 6. október sl., þar sem krafist er ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins, kemur fram að ekki sé um það deilt að sóknaraðilar teljist neytendur í samningssambandi við varnaraðila. Báðir málsaðilar byggi einnig á því að lán sóknaraðila hjá varnaraðila samkvæmt áðurnefndum veðskuldabréfum séu erlend lán. Gagnstætt skoðun varnaraðila telja sóknaraðilar hins vegar að með gengistryggingu lánanna hafi þau verið varin gegn því að krónan félli í verði gagnvart erlendu myntunum, sem lánin voru veitt í. Sóknaraðilar fallast heldur ekki á rök Hæstaréttar í málinu nr. 471/2010 um að órjúfanleg tengsl séu á milli vaxta og gengis umsaminnar myntar, og telja að vafa um þetta beri að skýra þeim í hag, sbr. 36. gr. b laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Að þeirra dómi komi því ekki til álita að láta aðra vexti gilda en þá sem tilgreindir séu í veðskuldabréfunum sjálfum.

Vegna þeirrar málsástæðu varnaraðila að veðskuldabréfin skuli bera vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 10. gr. laga nr. 38/2001, taka sóknaraðilar fram að þeir vextir séu margfalt hærri en þeir vextir sem samið hafi verið um. Hafi þau ekki gert ráð fyrir að greiða svo háa vexti og myndi slík breyting á samningsskilmálum verða þeim í óhag. Að sama skapi myndi varnaraðili hagnast óeðlilega. Byggja þau á því að í ákvæðum 5. og 6. gr. tilskipunar nr. 93/13/EBE felist meginregla um að ákvæði í samningi lánastofnunar við neytanda verði ekki breytt neytanda í óhag, gegn andmælum hans. Einnig telja sóknaraðilar að með slíkri breytingu sé brotið gegn ákvæðum laga nr. 121/1994, um neytendalán, einkum 6. og 14. gr. þeirra laga, en með þeim ákvæðum hafi verið innleidd í íslenskan rétt ákvæði tilskipunar nr. 87/102/EBE, með síðari breytingum. Að dómi sóknaraðila stríði það gegn ákvæðum tilskipunarinnar, einkum 4. gr. hennar, geti dómstólar breytt vaxtaákvæði í samningi aðila, þannig að vaxtahæð verði önnur og hærri en samið hafi verið um. 

Fallist dómurinn ekki á skilning sóknaraðila á efni veðskuldabréfanna samkvæmt ofanrituðu, en telji þess í stað að lán þeirra hjá varnaraðila séu í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu við erlendar myntir, byggja sóknaraðilar á því að dómur Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 hafi ekki fordæmisgildi við úrlausn málsins. Taka þeir sérstaklega fram að þeir séu ósammála þeim rökstuðningi réttarins í málinu að óhjákvæmilegt sé að ógildi ákvæðisins um gengistryggingu leiði til þess að líta verði með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð, og að atvik svari til þess að samið hafi verið um að greiða vexti af peningakröfu, án þess að tiltaka hverjir þeir skyldu vera. Helstu rök þeirra eru eftirfarandi:

-          Samningur aðila var milli lánastofnunar annars vegar og neytanda hins vegar.

-          Á lánastofnunum hvílir skylda til þess að hafa lánskjör í samningum skýr og skilmerkileg.

-          Órjúfanleg tengsl vaxta og gengis myntar, sem vísað er til í forsendum Hæstaréttar, var atriði sem lánastofnunin gat tekið tillit til í lánskjörum sínum. Með engu móti sé unnt að fallast á að atvik málsins hafi svarað til þess að aðilar hafi samið um vexti, án þess að geta um vaxtahæð, þar sem ákvæði um vaxtahæð hafi verið í samningnum sjálfum.

-          Það væri andstætt alkunnum viðskiptavenjum hér á landi og erlendis ef lánastofnanir semdu um vexti, án þess að tilgreina þá nákvæmlega, annað hvort sem fasta vexti eða breytilega.

-          Sóknaraðilar telja að samningur aðila um vaxtahæð hefði getað haldi gildi sínu.

-          Ákvæði um gengistryggingu samnings voru í besta falli mistök lánastofnunarinnar (sbr. ólögmæti þeirra). Að mati sóknaraðila er ekki grundvöllur til að ákveða að viðskiptamaður, neytandi í þessu tilviki, skuli bæta fyrir mistökin með hærri vöxtum.    

-          Með dómi Hæstaréttar var ákvæði í samningi aðila um gengistryggingu vikið til hliðar. Neytandi átti kröfu til þess, með vísan til 36. gr. c laga nr. 7/1936 og 6. gr. áðurnefndrar tilskipunar nr. 93/13/EBE, að önnur ákvæði samningsins héldust óbreytt, þar með talið um vexti.

-          Sóknaraðilar telja að með dómi Hæstaréttar hafi ekki verið gætt ákvæða tilskipunar nr. 87/102/EBE.

Sóknaraðilar leggja áherslu á að ákvæði fyrrnefndra tilskipana hafi verið innleidd í íslenskan rétt, sbr. 36. gr. a-d laga nr. 7/1936 og lög nr. 121/1994, um neytendalán. Álit EFTA-dómstólsins sé til þess fallið að hafa áhrif á hvernig íslenskir dómstólar skýri þessi ákvæði, og þar með hvert vægi fyrrnefndur dómur Hæstaréttar kunni að hafa í máli sóknaraðila, enda hefð fyrir því hér á landi að dómstólar fylgi fordæmum Hæstaréttar. Því hafi sóknaraðilar hagsmuni af því að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um þau atriði sem tilgreind séu hér að framan.

IV

Varnaraðili krefst þess að beiðni sóknaraðila um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar að mati dómsins.

Varnaraðili byggir kröfu sína á því að sakarefni málsins sé ekki nægilega skýrt og afmarkað til þess að leitað verði álits EFTA-dómstólsins. Í því sambandi bendir hann á að misræmis gæti milli kröfulýsingar sóknaraðila og greinargerðar þeirra fyrir dóminum, og að í málinu sé ekki á því byggt af hálfu sóknaraðila að ákvæði 36. gr. a-d laga nr. 7/1936 eigi hér við. Nýjum málsástæðum verði ekki komið að í beiðni um öflun álits hjá EFTA-dómstólnum, eins og sóknaraðilar freisti nú að gera. Hins vegar bendir varnaraðili á að íslensk lög hafi þegar verið aðlöguð þeim tilskipunum sem sóknaraðilar vísi til í beiðni sinni, sbr. 36. gr. a-d samningalaga nr. 7/1936 og lög um neytendalán nr. 121/1994. Þá leggur hann áherslu á að EFTA-dómstóllinn veiti aðeins ráðgefandi álit varðandi túlkun á EES-samningnum. Því verði hvorki leitað álits dómstólsins á reglum landsréttar né á tilteknum dómi Hæstaréttar Íslands.

V

         Í máli þessu krefjast sóknaraðilar þess að tvær fjárkröfur þeirra verði við slit varnaraðila viðurkenndar sem almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.  Kröfurnar eru á því reistar að varnaraðili hafi ekki staðið rétt að útreikningi afborgana samkvæmt lánssamningum aðila 29. ágúst 2006, og því eigi sóknaraðilar rétt til endurgreiðslu þess fjár sem þau hafi ofgreitt varnaraðila, auk vaxta og kostnaðar. Af hálfu sóknaraðila er aðallega á því byggt að lán þeirra hjá varnaraðila sé erlent lán og að með gengistryggingu lánsins hafi þau verið varin gegn því að krónan félli í verði gagnvart þeim erlendu myntum sem lánin voru veitt í. Verði ekki fallist á þessa málsástæðu byggja sóknaraðilar á því að samningar aðila séu um lán í íslenskum krónum, sem feli í sér ólögmæta gengistryggingu við erlendar myntir, og séu slík ákvæði ógild samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001.

Ekki verður fallist á þau rök varnaraðila að slíkt misræmi sé milli kröfulýsingar sóknaraðila og greinargerðar þeirra, eða að sakarefni málsins sé svo óskýrt og illa afmarkað, að ekki sé unnt að leita álits EFTA-dómstólsins. Þótt sóknaraðilar vísi að sönnu ekki til ákvæða 36. gr. a-d laga nr. 7/1936 í greinargerð sinni, en láti nægja að vísa til 36. gr. þeirra laga, verður heldur ekki séð að sá annmarki eigi að leiða til þess að þeim verði meinað að leita álits dómstólsins, enda felst í síðastnefnda ákvæðinu almenn heimild til að víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef talið yrði ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig.

Eins og fyrr greinir var mál þetta þingfest 27. janúar sl. Sóknaraðilar lögðu fram greinargerð sína 19. mars, en  varnaraðili 9. apríl sl. Eftir það hafa dómar gengið í Hæstarétti, sbr. mál nr. 92/2010 og 153/2010, og síðast mál nr. 471/2010, en í þeim öllum var talið að lánssamningar væru í íslenskum krónum, sem bundnar væru gengi erlendra gjaldmiðla. Færu slík samningsákvæði í bága við ófrávíkjanlegar reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Í síðastgreinda dóminum, sem kveðinn var upp 16. september sl., taldi rétturinn að bein og órjúfanleg tengsl væru milli ólögmætra skilmála umdeilds skuldabréfs um gengistryggingu lánsins og fyrirmæla þess um vexti. Væri því hvorki unnt að styðjast við þau fyrirmæli óbreytt, né gefa þeim með skýringu annað inntak. Því yrði með öllu að líta fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð. Þar sem viðkomandi lánssamningur hafi hins vegar kveðið á um að skuldin bæri vexti, væri óhjákvæmilegt að líta svo á að atvik hafi svarað til þess að samið hafi verið um að greiða vexti af peningakröfu, án þess að tiltaka hverjir þeir skyldu vera. Með vísan til 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, voru vextir því ákveðnir jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum, og birtir eru samkvæmt 10. gr. sömu laga.

Beiðni sóknaraðila um ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins er m.a. studd þeim rökum að dómur Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 hafi ekki fordæmisgildi við úrlausn þessa máls. Einnig eru þeir í meginatriðum ósammála forsendum dómsins, og benda í því sambandi á nokkur atriði. Jafnframt er á því byggt að í ákvæðum 5. og 6. gr. tilskipunar nr. 93/13/EBE felist meginregla um að ákvæði í samningi lánastofnunar við neytanda verði ekki breytt neytanda í óhag, gegn andmælum hans, en ákvæði þessi hafi verið innleidd í íslenskan rétt með 36. gr. a-d laga nr. 7/1936. 

Hér að framan hefur í megindráttum verið lýst efni þeirra lánssamninga, sem um er deilt í máli þessu. Ekki fer á milli mála að skilmálum þeirra samninga svipar mjög til skilmála í þeim samningum sem fjallað er um í fyrrgreindum málum Hæstaréttar, þótt ekki séu þeir samhljóða. Nokkur önnur atriði eru einnig frábrugðin, en mestu munar þó að í málum Hæstaréttar var fjallað um svokölluð „bílalán“, en í þessu máli eru samningar aðila um lán til húsnæðiskaupa. Í fyrrnefndum dómum Hæstaréttar verður hins vegar ekki séð að þar hafi með beinum hætti verið byggt á málsástæðum, tengdum efni þeirra tilskipana sem sóknaraðili vísar til í beiðni sinni, né að Hæstiréttur hafi þar tekið afstöðu til efnis þeirra. Af þeirri ástæðu verður ekki fallist á þau rök varnaraðila að skilja megi beiðni sóknaraðila þannig að með henni sé leitað álits EFTA-dómstólsins á tilteknum dómi Hæstaréttar.

Í beiðni sinni tilgreina sóknaraðilar bæði tilskipun nr. 93/13/EBE frá 5. apríl 1993, um óréttmæta skilmála í neytendasamningum, og tilskipun nr. 87/102/EBE frá 22. desember 1986, um samræmingu laga, reglugerða og stjórnsýslufyrirmæla aðildarríkja varðandi neytendalán, eins og henni hefur síðar verið breytt. Samkvæmt a lið 1. mgr. 2. gr. síðarnefndu tilskipunarinnar gildir hún ekki um lánssamninga til fasteignakaupa. Verður því ekki séð að sú tilskipun geti varðað sakarefni þessa máls.

Samkvæmt ofanrituðu þykja sóknaraðilar hafa fært fyrir því fullnægjandi rök að álit EFTA-dómstólsins geti skipt máli við úrlausn þessa máls. Með vísan til 1. gr. laga nr. 21/1994, um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið, verður krafa þeirra tekin til greina að því leyti sem álits er óskað á ákvæðum tilskipunar nr. 93/13/EBE, um óréttmæta skilmála í neytendasamningum. Orðalagi spurningarinnar til dómstólsins verður þó hagað á þann hátt sem í úrskurðarorði greinir.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Leitað verður ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á eftirfarandi:

1.       Samræmist það ákvæðum tilskipunar nr. 93/13/EBE frá 5. apríl 1993, um óréttmæta skilmála í neytendasamningum, einkum 5. og 6. gr., ef talið verður, gegn andmælum neytanda, að ógildi ákvæðis um gengistryggingu lánsfjárhæðar í íslenskum krónum, samkvæmt lánssamningi um fasteignakaup, eigi að leiða til þess að líta verði með öllu fram hjá ákvæði lánssamningsins um að lánsfjárhæðin beri breytilega LIBOR vexti?

2.       Ef svarið við fyrri spurningunni er á þá leið að það samræmist ákvæðum tilskipunar nr. 93/13/EBE, er leitað álits á því hvort tilvitnuð ákvæði tilskipunarinnar standi því í vegi, þrátt fyrir andmæli neytanda, að lánsfjárhæðin skuli þess í stað bera vexti sem á hverjum tíma skulu vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir eru í Lögbirtingablaði fyrir lok hvers mánaðar.