Hæstiréttur íslands
Mál nr. 125/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
|
|
Þriðjudaginn 7. mars 2006. |
|
Nr. 125/2006. |
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari) gegn X(Sigurður S. Júlíusson hdl.) |
Kærumál. Farbann.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X yrði áfram bönnuð för úr landi á grundvelli 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, en banninu var markaður skemmri tími.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. mars 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. mars 2006, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði áfram bönnuð för frá Íslandi á meðan máli hans væri ólokið, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 17. maí 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að farbanni verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða hans að varnaraðili sæti áfram farbanni. Svo sem þar greinir hefur aðalmeðferð í máli varnaraðila verið ákveðin 11. apríl 2006. Er þess þá að vænta að málið verði dómtekið þann dag og dæmt innan þess frests sem greinir í 2. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1991. Með vísan til þessa þykir rétt að stytta það tímabil sem varnaraðila verður gert að sæta farbanni til þess tíma sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, skal sæta áfram farbanni þar til dómur fellur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 5. maí 2006 kl. 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. mars 2006.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess að X, eþíópískum ríkisborgara, [kt. og heimilisfang], verði gert að sæta áfram farbanni þar til dómur fellur í máli hans, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 17. maí 2006, kl. 16:00.
Kærði mótmælir farbannskröfunni. Kveðst hafa búið hér á landi um 6 ára skeið og hafa skotið rótum hér.
Með ákæru útgefinni 13. desember 2005 var höfðað opinbert mál á hendur varnaraðila fyrir kynferðisbrot gegn tveimur stúlkum, fæddum 1994. Brotin eru í ákæru talin varða við 1. mgr. 201. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Um er að ræða all mörg brot talin framin frá árinu 2000 til 2004. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 10. janúar 2006. Varnaraðili neitar sök. Aðalmeðferð hefur verið ákveðin 11. apríl 2006.
Í úrskurði dómsins 14. desember sl. er komist að þeirri niðurstöðu að rökstuddur grunur liggi fyrir um brot ákærða gegn nefndum ákvæðum. Þar sem hann sé erlendur ríkisborgari og vegna persónulegra aðstæðna hans að öðru leyti sé hætta á að hann muni reyna að komast úr landi eða leynast. Kærði er sakaður um alvarleg brot og má telja nauðsynlegt að tryggja nærveru hans. Er enn fullnægt skilyrðum b-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til að varnaraðili sæti farbanni.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð :
Kærði, X, [kt. og heimilisfang], skal sæta áfram farbanni þar til dómur fellur í máli hans, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 17. maí 2006, kl. 16:00.