Hæstiréttur íslands
Mál nr. 176/2014
Lykilorð
- Lögvarðir hagsmunir
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 6.
nóvember 2014. |
|
Nr. 176/2014. |
Skyggni
ehf. (Árni Vilhjálmsson hrl.) gegn Landsbankanum
hf. (Ólafur Örn Svansson hrl.) |
Lögvarðir hagsmunir. Frávísun frá héraðsdómi.
S ehf. höfðaði mál gegn L hf. og krafðist viðurkenningar á því að krafa
P, sem var eigandi S ehf., á hendur L hf. um endurgreiðslu á ofgreiddum
greiðslum samkvæmt nánar tilgreindum bílasamningi hefði verið framseld sér með
yfirlýsingu um yfirtöku samningsins. Fyrir lá að nauðsamningur hafði verið
staðfestur vegna hins upphaflega lánveitanda, A hf., og hafði P fengið
endurgreidda 1.000.000 krónur á grundvelli samningsins. Í dómi Hæstaréttar kom
fram að umrædd fjárhæð stæði óhreyfð á reikningi P og að því hefði ekki verið
borið við að eitthvað stæði því í vegi að fjárhæðin yrði greidd S ehf. eða að P
hyggðist allt að einu halda greiðslunni, sem hann þó
teldi sig ekki eiga tilkall til. Að umræddri greiðslu frágenginni væri óljóst
hvaða fjárhagslegu hagsmuni S ehf. teldi sig geta sótt á hendur L hf. ef
fallist yrði á viðurkenningarkröfu hans. Heimild til að krefjast í einkamáli
viðurkenningardóms væri samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð
einkamála háð því skilyrði að stefnandi leiddi líkur að því að slík réttindi
væru til staðar og að viðkomandi kynni að eiga tilkall til þeirra. Þá væri
óhjákvæmilegt að stefnandi bæri skýrlega fyrir sig í stefnu málsástæður um að
lögvarðir hagsmunir væru af nánar tilgreindum ástæðum fyrir hendi. Þar sem S
ehf. hafði ekki sýnt fram á lögvarða hagsmuni sína af úrlausn málsins var
málinu vísað frá dómi.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. mars
2014. Hann krefst þess að viðurkennt verði að krafa Páls Kr. Pálssonar á hendur stefnda um endurgreiðslu á ofgreiddum
greiðslum samkvæmt nánar tilgreindum bílasamningi hafi verið framseld sér með
yfirlýsingu 6. janúar 2009 og að krafa sín um endurgreiðslu á ofgreiddum
greiðslum á grundvelli samningsins, sem eigi rætur að rekja til tímabilsins
fyrir umrætt tímamark, haldist þrátt fyrir ákvæði 7. mgr. 18. gr. laga nr.
38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og
fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Ágreiningur aðila snýst um það hvort mögulegur réttur til endurgreiðslu vegna ólögmætrar gengistryggingar bílasamnings AVANT hf. við Pál Kr. Pálsson frá 3. apríl 2007 hafi flust til áfrýjanda við yfirtöku hans á umræddum samningi 6. janúar 2009 vegna tímabilsins frá samningsgerð fram að umræddri yfirtöku réttinda og skyldna samkvæmt samningnum. Á árinu 2011 sameinaðist AVANT hf. stefnda en Páll er ásamt eiginkonu sinni eigandi og fyrirsvarsmaður áfrýjanda, svo sem hann staðfesti við skýrslugjöf fyrir héraðsdómi.
Með bréfi 15. mars 2011 var Páli tilkynnt að nauðasamningur hefði verið staðfestur vegna AVANT hf. og á grundvelli samningsins voru honum greiddar 1.000.000 krónur sem lagðar voru inn á reikning á hans nafni. Af gögnum málsins verður ekki ráðið hvort eða að hvaða marki umrædd greiðsla var endurgreiðsla vegna ofgreiddra afborgana, liður í niðurfærslu ofreiknaðs höfuðstóls eða hvoru tveggja. Fyrir liggur að Páll telur áfrýjanda réttan móttakanda endurgreiðslunnar.
Kröfugerð áfrýjanda felur í sér að viðurkennt verði að endurgreiðsla AVANT hf. eigi með réttu að greiðast áfrýjanda. Samkvæmt upplýsingum áfrýjanda stendur fjárhæðin óhreyfð á fyrrgreindum reikningi. Þá hefur því ekki verið borið við að eitthvað standi því í vegi að umrædd fjárhæð verði greidd áfrýjanda eða að Páll hyggist allt að einu halda umræddri greiðslu, sem hann telur sig ekki eiga tilkall til. Að þeirri greiðslu frágenginni er óljóst hvaða fjárhagslegu hagsmuni áfrýjandi telur sig geta sótt á hendur stefnda ef fallist yrði á viðurkenningarkröfu hans.
Heimild 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hefur verið skýrð svo að sá sem höfðar mál til viðurkenningar á tilvist mögulegra fjárhagslegra réttinda verði hvað sem öðru líður að leiða nægar líkur að því að slík réttindi séu fyrir hendi og að viðkomandi kunni að eiga tilkall til þeirra. Þá er óhjákvæmilegt að stefnandi beri skýrlega fyrir sig í stefnu málsástæður um að lögvarðir hagsmunir séu af nánar tilgreindum ástæðum fyrir hendi. Það var fyrst við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti sem því var borið við af áfrýjanda að hugsanlegir hagsmunir hans, umfram nefnda endurgreiðslu, kynnu að felast í rétti til að skuldajafna kröfu vegna ofreiknaðs höfuðstóls á móti eftirstöðvum samningsgreiðslna þrátt fyrir tilvist fyrrgreinds nauðasamnings. Í því sambandi ber að gæta að því að kröfugerð áfrýjanda endurspeglar ekki þann grundvöll málsins að hann hafi fengið framseldan rétt fyrri samningshafa til höfuðstólsleiðréttingar, sbr. til hliðsjónar aðgreiningu 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. lög nr. 151/2010, í endurgreiðslu ofgreiddra afborgana annars vegar og höfuðstólsleiðréttingar hins vegar. Miðast dómkrafa áfrýjanda eingöngu við að viðurkennt verði að krafa Páls Kr. Pálssonar, um endurgreiðslu á ofgreiddum greiðslum samkvæmt nefndum bílasamningi frá 3. apríl 2007, hafi verið framseld honum að fullu og nær hún því ekki til höfuðstólsleiðréttingar.
Samkvæmt framangreindu hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á lögvarða hagsmuni til að fá leyst úr þeirri kröfu sem hann hefur uppi og verður málinu því vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaðarákvörðun hins áfrýjaða dóms skal óröskuð en áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest.
Áfrýjandi, Skyggni ehf., greiði stefnda, Landsbankanum hf., 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2013.
I.
Mál
þetta, sem var dómtekið 29. nóvember sl., er höfðað 11. mars 2013 af Skyggni
ehf., Ármúla 8 í Reykjavík, gegn Landsbankanum hf., Austurstræti 11 í
Reykjavík.
Dómkröfur
stefnanda eru þær „að viðurkennt verði með dómi að krafa Páls Kr. Pálssonar, kt. [...], á hendur stefnda um endurgreiðslu á ofgreiddum
greiðslum samkvæmt bílasamningi, upphaflega á milli Páls Kr. Pálssonar og AVANT
hf., dags. 3. apríl 2007, hafi verið framseld að fullu til stefnanda, með
yfirlýsingu undirritaðri af Páli Kr. Pálssyni, stefnanda og AVANT hf., dags. 6.
janúar 2009, og að krafa stefnanda um endurgreiðslu á ofgreiddum greiðslum á
grundvelli samningsins sem á rætur að rekja til tímabilsins fyrir 6. janúar
2009 haldist, þrátt fyrir ákvæði 7. mgr. 18. gr. laga um vexti og verðtryggingu
nr. 38/2001, sbr. lög nr. 151/2010“. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi
stefnda.
Stefndi
krefst sýknu auk málskostnaðar.
Í
öndverðu krafðist stefndi þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi. Þeirri
kröfu var hafnað með úrskurði 2. október sl.
II.
Atvik
máls þessa eru þau að fyrirsvarsmaður stefnanda, Páll Kr. Pálsson, gerði 3.
apríl 2007 samning við AVANT hf. sem bar yfirskriftina „Bílasamningur AVANT hf.
Kaupleigusamningur Jafnar greiðslur“. Með samningnum tók hann bifreið á
kaupleigu, en þar kemur fram að samningsverð skuli vera 5.138.462 krónur og
mánaðarleg leiga nemi 74.848 krónum að meðaltali. Samkvæmt samningnum skyldu
vextir miðast við tiltekna myntkörfu, en í framkvæmd virðist hafa verið litið
svo á að fyrrgreint leigugjald væri gengistryggt. Ágreiningslaust er að
óheimilt hafi verið að gengistryggja greiðsluskyldu leigutaka samkvæmt
samningnum og að af þeim sökum hafi stofnast til endurkröfuréttar vegna þess
sem leigutaki ofgreiddi.
Hinn
6. janúar 2009 var undirrituð yfirlýsing af hálfu Páls, stefnanda og AVANT hf.
Í yfirlýsingu þessari sagði meðal annars eftirfarandi: „Samkomulag hefur orðið
um að Skyggni hf. [...] yfirtaki frá dagsetningu yfirlýsingar þessarar allan
rétt og allar skyldur núverandi leigutaka samkvæmt framangreindum bílasamningi
en eftirstöðvar þann 6. janúar 2009 eru kr. 8.406.538. Verðandi leigutaki og
sjálfskuldarábyrgðaraðilar hafa móttekið samningsskilmála bílasamnings AVANT
hf. og staðfesta með undirritun sinni að hafa kynnt sér og samþykkt ákvæði og
skilmála bílasamningsins að öllu leyti. Samningurinn þarf að vera í skilum og
umráðaskipti framkvæmd áður en yfirtaka þessi fer fram. Yfirlýsing þessi
upphefur ekki greiðsluskyldu núverandi leigutaka vegna gjaldfallina eða
áfallinna vátryggingariðgjalda né sekta eða annarra opinberra gjalda af
leigutækinu á yfirtökudegi. / Þegar umráðaskipti hafa átt sér stað og
yfirlýsing þessi hefur verið samþykkt og undirrituð af AVANT hf. fellur niður
allur réttur og allar skyldur núverandi leigutaka varðandi sama samning að
undanskildu því sem að framan greinir.“ Fyrrgreindur Páll undirritaði
yfirlýsingu þessa sem fyrri leigutaki og sjálfskuldarábyrgðaraðili sem og fyrir
hönd stefnanda sem verðandi leigutaka.
Páli
var tilkynnt 15. mars 2011 að nauðasamningur hefði verði staðfestur vegna AVANT
hf. sem fæli í sér nánar tilgreinda tilhögun á uppgjöri krafna viðskiptavina
félagsins vegna ólögmætra bílasamninga. Þar kemur fram að greiðsla til Páls að
fjárhæð 1.000.000 króna yrði lögð inn á nánar tiltekinn reikning. Fram kemur í
stefnu og fyrirliggjandi gögnum að Páll hafi mótmælt tilkalli sínu til þessarar
endurgreiðslu og að fjárhæðin standi enn óhreyfð á reikningi hans.
Ágreiningslaust
er að stefndi hafi á árinu 2011 tekið við öllum réttindum og skyldum AVANT hf.
Lögmaður stefnanda og Páls ritaði stefnda bréf 12. september 2012 þar sem fram
kom að niðurstaða endurútreikning samkvæmt 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001,
sbr. bráðabirgðaákvæði X í lögunum, væri sú að Páll Kr. Pálsson ætti kröfu að
fjárhæð 4.691.196 krónur, en fengi einungis greiddar 1.000.000 króna vegna
nauðasamningsins, og ætti stefnandi enga kröfu á hendur kröfuhafa. Var upplýst
að ekki yrði unað við þessa niðurstöðu, þar sem stefnandi hefði yfirtekið öll
réttindi og skuldbindingar Páls samkvæmt samningnum. Ef lagabreytingin yrði
talin eiga við um hann hefði það í för með sér að stefnandi tæki að sér mun
hærri skuldbindingu en í raun hafi verið til staðar. Taldi hann þessa
niðurstöðu brjóta í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar sem og samningsviðauka
1 við mannréttindasáttmála Evrópu.
Í
svarbréfi stefnda 3. október 2012 er staðfest að með endurútreikningi samkvæmt
fyrrgreindu lagaákvæði hefði verið komist að þeirri niðurstöðu að Páll hefði
ofgreitt 4.691.196 krónur á sama tíma og stefnandi skuldaði 8.711.806 krónur á
grundvelli bílasamningsins. Þá var því hafnað að þessi niðurstaða færi í bága
við 72. gr. stjórnarskrárinnar og tilgreindan samningsviðauka
mannréttindasáttmálans.
III.
1. Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi kveðst byggja dómkröfu sína á því að 7. mgr. 18.
gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, sbr. lög nr. 151/2010, verði
ekki beitt gagnvart honum, þar sem ákvæðið brjóti í bága við 72. gr.
stjórnarskrárinnar og lög um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994, sbr.
samningsviðauka nr. 1 við samning um verndum mannréttinda og mannfrelsis.
Stefnandi tekur fram að lög nr.
151/2010 hafi tekið gildi eftir yfirtöku bílasamningsins, en virðist engu að
síður eiga að taka til bílasamningsins. Enn fremur sé með lögunum mælt fyrir um
hvernig kröfuhafi skuli gera upp við fyrri skuldara annars vegar og seinni
skuldara hins vegar (sem hafi yfirtekið skuldbindingar fyrri skuldarans). Því
séu lögin, a.m.k. að því er varðar 7. mgr. 18. gr. laganna, afturvirk, sbr.
bráðabirgðaákvæði X í lögunum.
Þá
tekur stefnandi fram að hann hafi tekið yfir öll réttindi og skyldur Páls Kr.
Pálssonar samkvæmt bílasamningnum 6. janúar 2009. Heldur stefnandi því fram að
ef lög nr. 151/2010 hefðu ekki verið lögleidd hefðu almennar reglur átt að
gilda. Hefði það þýtt að við skuldskeytinguna hefði stefnandi yfirtekið öll
réttindi og allar skuldbindingar Páls Kr. Pálssonar samkvæmt bílasamningnum.
Stefnandi hefði því notið lækkunar á höfuðstól þar sem bílasamningurinn hafi
verið með ólögmæta gengistryggingu.
Stefnandi
heldur því fram að með almennum lögum sé ekki unnt, með svo íþyngjandi hætti
sem á reyni hér, að hrófla með afturvirkum hætti við réttarreglum um efni
skuldbindinga og greiðslur skulda frá því sem hafi gilt þegar til þeirra hafi
verið stofnað og af þeim greitt, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Stefnandi
áréttar sérstaklega í þessu sambandi að hann hafi tekið við öllum réttindum og
skuldbindingum Páls Kr. Pálssonar samkvæmt bílasamningnum, en ekki einungis
skuldbindingum hans.
Stefnandi
heldur því jafnframt fram að jafnvel þótt talið yrði að stefnda sé heimilt að
bera fyrir sig 7. mgr. 18. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, sbr.
lög nr. 151/2010, þá megi af 9. mgr. 18. gr. laganna, að teknu tilliti til
bráðabirgðaákvæðis X, ráða að skuldurum sé heimilt að semja um það innbyrðis
hvernig fari um uppgjörsfjárhæð. Þar komi fram að ágreiningur
rísi innbyrðis á milli skuldara skv. 7. mgr. 18. gr. laganna skuli kröfuhafi
greiða uppgjörsfjárhæð inn á geymslureikning í samræmi við ákvæði laga nr.
9/1978 með þeim skilmálum að deiluaðilar sanni rétt sinn til greiðslunnar
með gildu samkomulagi eða að fullnaðardómur hafi gengið um ágreining þeirra. Af
þessu megi ráða að löggjafinn hafi veitt möguleika á að skuldarar nái
samkomulagi um hvaða skuldari eigi rétt á greiðslu. Beri lagaákvæðið merki þess
að með því hafi átt að tryggja sanngirni og að skuldarar geti sammælst sín á
milli um það hver eigi rétt til greiðslunnar.
Stefnandi
tekur fram að í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 151/2010 segi um 9. mgr.
18. gr. laganna að mikilvægt sé að uppgjörsgreiðsla verði innt af hendi til
þess aðila sem raunverulega hafi orðið fyrir tjóni og að komið verði í veg
fyrir frekari þrætur, eftir að greiðsla hefur verið innt af hendi, eða deilur
um það hvert fjármálafyrirtæki eigi að ráðstafa greiðslunum. Í tilviki
stefnanda og Páls Kr. Pálssonar ríki samkomulag um að stefnandi eigi rétt á
allri greiðslunni (endurútreikningnum) en ekki Páll Kr. Pálsson. Því beri að taka
tillit til þessa samkomulags.
Í
stefnu reisti stefnandi kröfu sína enn fremur á því að víkja bæri
bílasamningnum til hliðar að hluta á þeim grundvelli að það væri ósanngjarnt
eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig, sbr. 36. gr. laga nr.
7/1936. Við aðalmeðferð málsins féll stefnandi frá þessari málsástæðu.
Um
lagarök vísar stefnandi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar, einkum
til sjónarmiða um framsal, efndir og lok kröfuréttinda. Þá vísar hann til
ákvæða laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, einkum II., VI. og VII.
kafla þeirra. Enn fremur styðjist krafa um málskostnað við XXI. kafla laga nr. 91/1991, um
meðferð einkamála, aðallega 129. og 130. gr.
2. Málsástæður og lagarök stefnda
Af hálfu stefnda er því mótmælt að
ákvæði 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 fari í bága við ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar um
vernd eignarréttar og fyrsta samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu.
Ákvæði 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 mæli fyrir um endurgreiðslu til þess
aðila sem hafi raunverulega orðið fyrir tjóni með því að ofgreiða
samningsbundnar greiðslur á grundvelli ólögmætrar gengistryggingar. Um þetta
vísar stefndi til greinargerðar með ákvæðinu í frumvarpi því sem varð að lögum
nr. 151/2010, en nánari grein verður gerð fyrir athugasemdunum í kafla IV.
Stefndi
tekur undir framangreind sjónarmið í greinargerðinni. Bendir hann á að þegar
stefnandi hafi yfirtekið samninginn, sem málið fjalli um, hafi væntanlega verið
gert ráð fyrir því að jafn verðmæt eign kæmi á móti skuld eins og hún hafi
staðið á þeim tíma sem yfirtakan hafi átt sér stað. Því sé með öllu óeðlilegt
að stefnandi fái notið endurgreiðslu sem sé til komin vegna ofgreiðslu fyrri
skuldara sem hafi orðið fyrir tjóni vegna ólögmætrar gengistryggingar. Að öðrum
kosti fengi stefnandi bæði notið endurgreiðslunnar og lægra kaupverðs við
yfirtöku kröfunnar eins og fram komi í greinargerð með 7. mgr. 18. gr. laga nr.
38/2001.
Stefndi
hafnar því að stefnandi hefði samkvæmt almennum reglum átt rétt á
endurgreiðslunni en ekki Páll Kr. Pálsson. Hvað sem líður ákvæði 7. mgr. 18.
gr. laga nr. 38/2001 telur stefnandi ljóst að Páll hefði alltaf verið réttur
aðili til að gera tilkall til endurgreiðslunnar en ekki stefnandi. Því skipti
greinin í raun engu máli um réttarstöðuna, enda mæli ákvæðið fyrir um
sambærilega reglu og leiddi af gildandi rétti, þ.e. af almennum reglum kröfu-
og skaðabótaréttar.
Í
þessu sambandi vísar stefndi í fyrsta lagi til framangreindra röksemda að baki
7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001. Í öðru lagi telur stefndi að líta beri til
þess að krafa vegna ofgreiðslu, sem er til komin vegna ólögmætrar
gengistryggingar, sé þess eðlis að hana sé hægt að setja fram annaðhvort í
formi endurgreiðslukröfu eða skaðabótakröfu. Skaðabótakröfur sem þessar byggi á
þeim grundvelli að lánveitandi hafi sýnt af sér saknæma háttsemi með því að
bjóða einhliða upp á ólögmæta skilmála í samningi og krefja skuldara með
ólögmætum hætti um of háar greiðslur. Telur stefndi ljóst að ekki komi til
greina að líta á framsalshafa slíks samnings sem tjónþola. Tjónþolinn sé án efa
framseljandinn og tjón hans sé til komið vegna þeirra ofgreiðslna sem hann hafi
innt af hendi á þeim tíma sem hann hafi verið skuldari að samningnum.
Framsalshafinn hafi hins vegar ekki orðið fyrir neinu tjóni þar sem hann meti
stöðu sína við framsalið út frá því að krafan sé að fullu gild, að þeirri
fjárhæð sem hún standi þá í, án tillits til þess hvort endurgreiðsla kunni
síðar að koma til. Þá hafi lánveitandinn ekki heldur sýnt af sér neina saknæma
háttsemi gagnvart framsalshafanum sem leitt hafi til tjóns fyrir hann.
Vegna
þessa sé m.a. ljóst að réttur aðili að skaðabótamáli á hendur stefnda hafi
verið framseljandinn, Páll Kr. Pálsson, en ekki framsalshafinn sem sé
stefnandi. Telur stefndi því jafnframt að réttur aðili að því að sækja kröfuna
í formi endurgreiðslu hljóti að vera sami aðilinn og ætti skaðabótakröfuna,
þ.e.a.s. sá aðili er orðið hafi fyrir tjóninu. Önnur niðurstaða myndi að mati
stefnda leiða til þess að kröfuhafar almennt þyrftu að sæta því að fleiri en
einn aðili eignuðust í raun sömu kröfuna vegna ofgreiðslu á grundvelli
ólögmætrar gengistryggingar. Framsalshafinn eignaðist þá endurgreiðslukröfu en
framseljandinn skaðabótakröfu. Slík niðurstaða gangi ekki upp heldur hljóti
krafan að liggja hjá einum og sama aðilanum á hvaða grundvelli sem hún kunni að
vera reist.
Stefndi
vísar enn fremur til þess að liggi endurgreiðslukrafan hjá framsalshafanum
leiði það jafnframt til óréttmætrar auðgunar framsalshafa og að sama skapi til
samsvarandi tjóns fyrir framseljanda kröfunnar. Engin rök standi til þess að
framsalshafinn eigi rétt á því að njóta góðs af endurgreiðslu vegna greiðslna
sem framseljandinn ofgreiddi.
Þá
telur stefndi að jafnvel þótt litið yrði svo á að 7. mgr. 18. gr. laga nr.
38/2001 hafi breytt réttarástandinu frá því sem gilt hafi samkvæmt almennum
reglum leiði það ekki til þess að um brot á eignarrétti sé að ræða, sbr. 72.
gr. stjórnarskrárinnar. Eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar geti aldrei
staðið í vegi fyrir því að með lögum sé málum skipað þannig að réttindi séu
veitt þeim aðila sem augljóst sé að á að lokum rétt á að eignast viðkomandi
réttindi. Stefnandi geti aldrei átt efnislegan rétt eða tilkall til
endurgreiðslunnar og ekki komi því til greina að líta á hana sem „eign“ hans í skilningi
72. gr. stjórnarskrárinnar.
Stefndi
mótmælir málsástæðu stefnanda sem byggir á 9. gr. 18. gr. laga nr. 38/2001
harðlega. Í ákvæðinu segi að ef ágreiningur um rétt til greiðslu rísi innbyrðis
milli skuldara skv. 7. mgr. eða skuldara og þriðja manns skv. 8. mgr. skuli
kröfuhafi greiða uppgjörsfjárhæð inn á geymslureikning í samræmi við ákvæði
laga nr. 9/1978 með þeim skilmálum að deiluaðilar sanni rétt sinn til
greiðslunnar með gildu samkomulagi eða að fullnaðardómur hafi gengið um
ágreining þeirra. Af málatilbúnaði stefnanda megi ráða að enginn slíkur
ágreiningur sé fyrir hendi heldur virðist vera óumdeilt að milli stefnanda og
Páls ríki samkomulag um að stefnandi eigi rétt á greiðslunni. Hins vegar hafi
Páli þegar verið greitt á grundvelli 7. mgr. 18. gr. laganna og því geti
stefnandi krafið Pál um greiðslu á grundvelli samkomulags þeirra á milli. Af
þessum sökum eigi 9. mgr. 18. gr. laganna ekki við í málinu, enda taki ákvæðið
ekki til þess þegar ágreiningur rís milli skuldara og kröfuhafa um það hver
eigi rétt á greiðslu skv. ákvæðinu. Ákvæðið geti heldur ekki átt við þegar
kröfuhafi hafi þegar innt greiðslu af hendi til skuldara skv. 7. mgr. en þriðji
maður (stefnandi) telur kröfuhafa hafa greitt ranglega til skuldara. Því beri
að hafna þessari málsástæðu stefnanda.
Stefndi
vísar til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum 18. gr. Einnig sé
vísað til og byggt á almennum reglum kröfu- og skaðabótaréttar. Þá styðjist
krafa um málskostnað við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV.
Eins
og rakið hefur verið fékk Páli Kr. Pálsson endurgreidda 1.000.000 króna á
grundvelli endurútreiknings á skuld samkvæmt samningi hans og AVANT hf. frá 3.
apríl 2007, en ágreiningslaust er að greiðslur samkvæmt samningnum hafi tekið
mið af gengi erlendra gjaldmiðla sem hafi farið í bága við 13. og 14. gr. laga
nr. 38/2001. Samkvæmt útreikningnum mun Páll hafa ofgreitt AVANT hf. 4.691.196
krónur meðan hann var greiðandi samkvæmt samningnum. Á grundvelli nauðasamnings
AVANT hf. fékk hann hins vegar einungis fyrrgreinda fjárhæð endurgreidda. Fyrir
liggur að Páll, sem er fyrirsvarsmaður stefnanda, vill ekki þiggja þessa
endurgreiðslu og telur að stefnandi, sem hafi tekið við öllum skyldum og
réttindum leigutaka samkvæmt samningnum með yfirlýsingu 6. janúar 2009, eigi að
njóta hennar. Stefndi telur aftur á móti að farið hafi verið að lögum með því
að standa með fyrrgreindum hætti að uppgjöri vegna ofgreiðslna fyrri leigutaka.
Af þeim sökum hafnar hann því að stefnandi eigi rétt á leiðréttingu vegna ofgreiðslna
frá því fyrir 6. janúar 2009.
Með
málshöfðun sinni krefst stefnandi viðurkenningar á því að hann hafi með
yfirlýsingu 6. janúar 2009 fengið framselda kröfu um endurgreiðslu á ofgreiddum
greiðslum samkvæmt umræddum samningi sem inntar voru af hendi fyrir 6. janúar
2009. Lýtur ágreiningur aðila einkum að þýðingu 7. mgr. 18. gr. laga nr.
38/2001, sbr. 1. gr. laga nr. 151/2010, í því samhengi. Stefnandi telur að
virða beri ákvæðið að vettugi sökum þess að með fyrrgreindum lögum nr. 151/2010
hafi verið hróflað með afturvirkum og íþyngjandi hætti við rétti hans til
endurgreiðslu samkvæmt fyrrgreindri yfirlýsingu þannig að farið hafi í bága við
72. gr. stjórnarskrárinnar. Stefndi hafnar þessu, enda lítur hann svo á að 7.
mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 breyti engu um að fyrri greiðandi eigi ávallt
endurkröfurétt vegna ofgreiðslu sinnar auk þess sem hann telur ákvæðið
fullnægja kröfum 72. gr. stjórnarskrárinnar.
Lög
nr. 151/2010 voru sett í tilefni af niðurstöðu Hæstaréttar Íslands um að
ólögmætt væri að verðtryggja lán í íslenskum krónum með því að láta þau taka
mið af gengi erlendra mynta, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands frá 16. júní 2010 í
málum nr. 92/2010 og 153/2010. Jafnframt var í lögunum tekið tillit til þeirrar
niðurstöðu Hæstaréttar Íslands, sbr. dóm réttarins frá 16. september 2010 í
máli nr. 471/2010, að samningsákvæði gengistryggðra lána í íslenskum krónum um
svonefnda LIBOR-vexti væru ógild, og að vaxtaskilmálar 4. gr. laga nr. 38/2001
kæmu þeim til fyllingar. Með 1. gr. fyrrgreindra laga nr. 151/2010 var gerð
breyting á 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þar er mælt
fyrir um hvernig haga beri uppgjöri lánssamninga sem hafa að geyma ógild
samningsákvæði um vexti eða endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar
eða dráttarvexti. Ákvæði 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 7. mgr. 1. gr.
laga nr. 151/2001, hljóðar svo:
Nú hafa, einu sinni eða
oftar, orðið aðila- eða skuldaraskipti að lánssamningi þar sem um er að ræða
ólögmæta vexti og/eða verðtryggingu. Skal þá hver skuldari eiga sjálfstæðan
rétt gagnvart kröfuhafa til leiðréttingar á greiðslum þeim sem þeir inntu af
hendi vegna lánsins, svo og rétt eða skyldu til leiðréttingar vegna breytinga á
höfuðstól lánsins vegna áhrifa gengistryggingar. Réttindi og skyldur hvers og
eins aðila skulu miðast við þann tíma sem viðkomandi var skuldari lánssamnings.
Leiðrétting nær bæði til greiðslna og höfuðstóls á því tímabili samkvæmt
eftirfarandi reglum:
a.
Greiðsluuppgjör. Reiknaður skal mismunur allra þeirra greiðslna sem
skuldari innti af hendi og þess sem hefði átt að greiða miðað við vexti skv. 4.
gr. og aðra skilmála lánssamnings.
b.
Höfuðstólsleiðrétting. Breytingar á höfuðstól vegna ólögmætrar
verðtryggingar sem reiknaður hefur verið á höfuðstól láns meðan hver aðili var
skuldari láns skal koma til sérstaks uppgjörs sem miðast við dagsetningu
aðilaskipta að lánssamningi og miðast réttur eða skylda hvers aðila til
leiðréttingar við þann dag.
Af
athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 151/2010 má ráða að
tilgangur þeirra hafi einkum verið að draga úr óvissu við uppgjör samninga með
ólögmætum samningsskilmálum um verðtryggingu. Þar kom fram að til grundvallar
lagasetningunni lægju þau sanngirnisrök að sambærileg mál fengju sambærilega
niðurstöðu auk þess sem tryggja átti réttaröryggi við uppgjör lána með
óskuldbindandi gengisviðmiðun. Í athugasemdum við það ákvæði er varð að 7. mgr.
18. gr. laga nr. 38/2001 kemur fram að þar sé vikið að álitamálum um uppgjör
slíkra lána þar sem skuldaraskipti hefðu orðið. Þar segir að í þeim tilvikum,
sem kaupandi eignar hefur yfirtekið skuld með ólögmætum skilmálum um
verðtryggingu eða vexti, sé ljóst að fyrri skuldari getur hafa orðið fyrir
tjóni sökum þess að gert hafi verið ráð fyrir að lán hafi verið hærri fjárhæðar
en raun varð á. Tekið er fram að í þessum tilvikum þurfi lánveitandi að gera
upp við hvern skuldara, bæði afborgunarþátt og höfuðstólsbreytingar, sem miðist
við það tímabil er viðkomandi hafi verið skuldari að viðkomandi láni. Fram
kemur að skuldari, sem hafi t.d. yfirtekið lán með ólögmætri gengistryggingu,
geti ekki gert kröfu um endurgreiðslu eða lækkunar á höfuðstól nema hann hafi á
sínum eignarhaldstíma ofgreitt afborganir eða höfuðstóll hafi hækkað vegna
gengisbreytinga. Aftur á móti væri gert upp við þann sem hefði orðið fyrir
tjóni með því að greiðslutilhögun söluverðs hlutar tók mið af rangri
lánsfjárhæð. Önnur tilhögun gæti leitt til þess að kaupandi eignar nyti
hvorutveggja réttar til endurgreiðslu og í raun lægra kaupverðs. Reglan miði að
því að leiðréttingar skili sér á réttan stað í anda sanngirni og heilbrigðra
viðskiptahátta. Jafnframt er tekið fram að í ákvæðinu felist þó engin afstaða
til mögulegra krafna milli viðkomandi aðila vegna viðskiptanna og að
uppgjörsreglan hafi engin áhrif á kröfur þeirra í milli.
Málatilbúnaður
stefnanda er á því reistur að yfirlýsingin frá 6. janúar 2009 hafi falið í sér
framsal á endurkröfurétti fyrri greiðanda vegna ofgreiðslna af hans hálfu. Eins
og áður segir hefur stefndi byggt málsvörn sína meðal annars á því að stefnandi
geti, þrátt fyrir framangreint, ekki gert tilkall til endurgreiðslu á
ofgreiðslum fyrri greiðanda hvað sem líði fyrrgreindu ákvæði 7. mgr. 18. gr.
laga nr. 38/2001. Í þessu felast mótmæli við því að endurkröfurétturinn hafi í
ljósi almennra reglna kröfuréttar verið framseldur til stefnanda með
fyrrgreindri yfirlýsingu.
Samningur
um yfirtöku skuldar hefur almennt ekki önnur réttaráhrif en þau sem aðilar
samningsins ætluðu honum. Sé skriflegum samningi til að dreifa um yfirtöku skuldar
ber fyrst og fremst að líta til efnisatriða hans um ætlan aðila með
yfirtökunni. Í kafla II er gerð grein fyrir efni samnings stefnanda, AVANT hf.
og fyrri leigutaka, Páls Kr. Pálssonar, frá 6. janúar 2009. Eins og þar er
rakið tók stefnandi með honum yfir „allan rétt og allar skyldur núverandi
leigutaka samkvæmt framangreindum bílasamningi“. Þá sagði þar að þegar
umráðaskipti hefðu átt sér stað og yfirlýsing verið samþykkt og undirrituð af
AVANT hf. félli niður „allur réttur og allar skyldur núverandi leigutaka
varðandi sama samning“ að undanskildu því sem þar var gerð nánari grein fyrir.
Samkvæmt þessu tók stefnandi yfir rétt fyrri leigutaka til afnota af
bifreiðinni og til að fá afsal hennar við lok samningstímans. Enn fremur tók
hann yfir þá meginskyldu samkvæmt samningnum að greiða leigugreiðslur í samræmi
við ákvæði samningsins. Á sama tíma féll fyrrgreindur réttur fyrri leigutaka
niður sem og skyldur hans samkvæmt samningnum.
Hvorki
í samningnum frá 6. janúar 2009 né í bílasamningnum er fjallað um rétt
leigutaka til endurgreiðslu afborgana ef í ljós kemur að hann hefur greitt
meira en honum er skylt. Endurgreiðslukrafa af þeim toga varð til við
ofgreiðslu fyrri leigutaka á grundvelli lögskipta hans og AVANT hf. Þó að þessi
lögskipti hafi byggst á fyrrgreindum bílasamningi var endurgreiðslukrafan óháð þeim
réttindum og skyldum samningsaðila samkvæmt samningnum sem færðust yfir til
stefnanda með fyrrgreindri yfirlýsingu 6. janúar 2009. Því verður að líta svo á
að með þeirri yfirlýsingu hafi engin aðilaskipti orðið á kröfu fyrri leigutaka
um endurgreiðslu á því sem hann hafði ofgreitt AVANT hf. Yfirlýsingin veitti
því stefnanda ekkert tilkall til endurgreiðslu vegna ofgreiðslna sem áttu sér
stað fyrir 6. janúar 2009. Ekki er því fallist á að 7. mgr. 18. gr. laga nr.
38/2001 hafi svipt stefnanda neinum þeim réttindum sem njóti verndar 72. gr.
stjórnarskrárinnar og viðurkenningarkrafa stefnanda lýtur að.
Stefnandi
byggir einnig á því að 9. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 styðji að skuldurum sé í
tilvikum sem þessum heimilt að semja um það innbyrðis hvernig ráðstafa eigi
endurgreiðslu kröfuhafa. Þar segir að rísi ágreiningur um rétt til greiðslu
milli skuldara samkvæmt 7. mgr. eða skuldara og þriðja manns samkvæmt 8. gr.
skuli kröfuhafi greiða uppgjörsfjárhæð inn á geymslureikning með þeim skilmálum
að deiluaðilar sanni rétt sinn til greiðslunnar með gildu samkomulagi eða að
fullnaðardómur hafi gengið um ágreining þeirra. Þegar fyrri leigutaki fékk
fyrrgreinda fjárhæð endurgreidda vegna ofgreiðslu sinnar lá hvorki fyrir að
ágreiningur væri milli hans og hins nýja leigutaka um rétt til greiðslunnar né
að gilt samkomulag hefði stofnast milli þeirra um ráðstöfun hennar. Fyrrgreint
ákvæði 9. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 hafði því enga þýðingu er uppgjörsfjárhæðin
var greidd fyrri leigutaka í samræmi við ákvæði 7. mgr. 18. gr. laganna.
Upplýsingar um samkomulag fyrri og síðari leigutaka, um rétt þess síðarnefnda
til endurgreiðslunnar, voru stefnda óviðkomandi eftir að endurgreiðslan hafði
verið innt af hendi, og virðist fremur tengjast innbyrðis lögskiptum þeirra.
Með
vísan til þess sem hér hefur verið rakið verður hvorki séð að krafa fyrri
leigutaka á hendur stefnda um endurgreiðslu vegna ofgreiðslna hans hafi verið
framseld stefnanda að fullu, líkt hann krefst viðurkenningar á, né að stefnandi
eigi kröfu um endurgreiðslu á ofgreiddum greiðslum á grundvelli bílasamningsins
sem eigi rætur að rekja til tímabilsins fyrir 6. janúar 2009. Af þeim sökum
verður stefndi sýknaður af viðurkenningarkröfu stefnanda. Með vísan til 1. mgr.
130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnanda gert að greiða
stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur.
Ásmundur
Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi,
Landsbankinn hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Skyggnis ehf.
Stefnandi
greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað.