Hæstiréttur íslands

Mál nr. 43/2013


Lykilorð

  • Gjaldþrotaskipti
  • Hlutafé
  • Kaupréttur
  • Kaupskylda


                                     

Fimmtudaginn 23. maí 2013.

Nr. 43/2013.

Gunnar Snævar Sigurðsson

(Þórður Bogason hrl.)

gegn

þrotabúi BGE Eignarhaldsfélags ehf.

(Ástráður Haraldsson hrl.)

Gjaldþrotaskipti. Hlutafé. Kaupréttur. Kaupskylda.

BGE ehf. og G gerðu með sér þrjá lánssamninga, en fyrir lánsféð seldi félagið G hlutafé í B hf. sem G starfaði fyrir. G vanefndi greiðsluskyldu sína samkvæmt lánssamningunum og höfðaði þrotabú BGE ehf. því mál og krafði G um fulla greiðslu á gjaldfallinni skuld vegna þeirra. G taldi sér ekki skylt að greiða hina umkröfðu fjárhæð og vísaði m.a. til þess að lánssamningarnir hefðu verið hluti af samningum sem gerðir hefðu verið vegna kaupréttarkerfis B hf. og hefði starfsfólki félagsins verið heitið því að áhætta þess af hlutafjárkaupunum yrði aldrei meiri en fjárframlag hvers um sig til þeirra. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði m.a. að lánssamningarnir kvæðu allir á um fyrirvaralausa greiðsluskyldu G á lánunum á tilgreindum gjalddögum. Hefði G sönnunarbyrði fyrir því að aðrir samningar eða atvik ættu að leiða til þess að greiðsluskylda hans samkvæmt lánssamningunum væri niður fallin  eða ætti að sæta takmörkunum. G hefði ekki sýnt fram á að skilyrði riftunar hefðu verið fyrir hendi í júlí 2009 er hann sendi tilkynningu þess efnis. Hið gjaldþrota félag hefði efnt skyldur sínar um afhendingu hlutabréfa þeirra, sem það seldi G og ekki lá annað fyrir en að handveði í bréfunum hefði mátt aflétta ef hann hefði greitt lánin. Var fallist á með héraðsdómi að hvorki yrði talið að tilteknar yfirlýsingar K hf. og B hf. takmörkuðu einar og sér heimildir þrotabúsins til að ganga að G til fullnustu á greiðsluskyldu hans, væri hún fyrir hendi, né að nánar tiltekin gögn gætu leitt til þess að forsendur hefðu brostið fyrir efndum eða orðið grundvöllur ógildingar á samningunum samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Vísaði Hæstiréttur til þess að þegar G hefði í desember 2004 gert fyrsta samninginn sem kröfur voru reistar á í málinu, hefði hann samtímis gert kaupsamning um hluti í B hf. sem sagður var viðauki við samning frá desember 2003 milli G, BGE ehf. og B hf. Í síðargreinda samningnum hefði m.a. verið mælt fyrir um kaupskyldu B hf. á þeim hlutabréfum sem G keypti og skyldi kaupverðið aldrei vera lægra en 90% af upphaflegu kaupverði að viðbættri þeirri fjárhæð sem G hefði greitt í vexti af lánum sem hann hefði tekið. Voru sambærileg ákvæði tveimur öðrum kaupsamningnum sem gerðir voru í tengslum við gerð hinna lánssamninganna. Taldi Hæstiréttur að ákvæði samninganna um sölurétt G á tilteknum kjörum tækju til atvika eins og þeirra að bú B hf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Þótt ákvæðin væru hvorki skýr né ótvíræð yrði að túlka þau svo að ábyrgð G og annarra starfsmanna B yrði einungis 10% af lánsfjárhæðinni. Var G því gert að greiða þrotabúi BGE ehf. 10% af hinni umkröfðu fjárhæð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. janúar 2013. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af kröfu stefnda, en að því frágengnu að krafa stefnda verði lækkuð. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi krafðist einnig frávísunar málsins í héraði og gekk úrskurður um þá kröfu 8. júní 2012 þar sem henni var hafnað. Hann leitar nú einnig endurskoðunar á þessum úrskurði og reisir frávísunarkröfuna á sömu röksemdum og í héraði. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

I

Stefndi höfðaði málið í héraði og krafði áfrýjanda um greiðslu skuldar samkvæmt þremur lánssamningum sem gerð er grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi. Áfrýjandi skorast ekki undan því að honum hafi verið veitt þau lán, sem samningarnir kveða á um en telur sér á hinn bóginn ekki skylt að greiða umkrafða skuld.

Áfrýjandi kveður lánin, sem honum voru veitt samkvæmt lánssamningunum, hafa gengið til kaupa á hlutafé í Baugi Group hf.  Hann kveður lánssamningana hafa verið hluta af samningum sem gerðir voru vegna kaupréttarkerfis Baugs Group hf. en áfrýjandi var starfsmaður félagsins frá árinu 2003, fyrst sem fjármálastjóri þess, þá framkvæmdastjóri tiltekinna verkefnasviða og frá 2007 forstjóri félagsins. Hann kveður að þegar Baugi hf. var skipt upp í Haga hf. og Baug Group hf., sem átti að vera fjárfestingafélag, hafi verið tekin ákvörðun um að stofna kaupréttarkerfi fyrir starfsfólk, sem gerði því kleift að eignast hlutafé í viðkomandi félagi. Tilteknir starfsmenn Baugs Group hf. hafi átt þess kost að kaupa hlutafé í félaginu og fá lán til kaupanna. Kaupþing banki hf. og forveri hans hafi verið mikilvægur hluti af þessu kerfi. Hafi það bæði verið vegna þess að bankinn átti hlutafé í Baugi Group hf., sem hann eignaðist er Baugur hf. var tekinn af markaði, og að bankinn myndi selja að minnsta kosti hluta þeirra ,,inn í kerfið“ og vegna þess að hann myndi fjármagna hlutafjárkaup starfsmannanna. Baugur Group hf. hafi einnig verið hluti af kaupréttarkerfinu, enda hafi það átt að vera í þágu tiltekinna starfsmanna félagsins.

Kaupréttarkerfið hafi verið sett þannig upp að stofnað hafi verið einkahlutafélag, BGE Eignarhaldsfélag, sem haft hafi það eina hlutverk að kaupa hlutafé í Baugi Group hf. og selja það starfsmönnum félagsins og dótturfélags þess í Bretlandi í samræmi við kauprétt hvers starfsmanns. BGE Eignarhaldsfélag ehf., sem var stofnað af Baugi Group hf., tók lán til hlutfjárkaupa hjá Kaupþingi banka hf., er fékk handveð í hlutabréfum sem tryggingu fyrir greiðslu lánsins. Baugur Group hf. skyldi hafa kauprétt að hlutum starfsmanna við tilteknar aðstæður, svo sem ef þeir hættu störfum hjá félaginu, en einnig kaupskyldu við aðrar tilgreindar aðstæður í báðum tilvikum á verði, sem ákveðið var í samningunum. Áfrýjandi fullyrðir að starfsfólki Baugs Group hf. og dótturfélaga, sem rétt átti til hlutafjárkaupa í kaupréttarkerfinu, hafi verið heitið því að áhætta þess af hlutafjárkaupunum yrði aldrei meiri en fjárframlag hvers um sig til þeirra. Í byrjun hafi verið gert ráð fyrir því að starfsmenn greiddu sjálfir 10% af kaupverði hlutafjár hvert sinn, en fengju lánað 90%. Síðar hafi verið veitt lán fyrir öllu kaupverðinu. Eftir tiltekinn tíma skyldu starfsmenn selja hlutaféð og þá skyldi sölugengi þess miðað við tilgreindan dag. Ef sölugengi yrði lægra en upphaflegt kaupgengi hafi starfsmenn ekki átt að bera af því annan halla en sem nam greiddu hlutafé af þeirra hálfu. Baugur Group hf. skyldi lána BGE Eignarhaldsfélagi ehf. það sem á vantaði fyrir endurgreiðslu lánsins að fullu til Kaupþings banka hf. Væri söluverðið hærra en upphaflegt kaupgengi fengju starfsmenn mismun eftir að hafa greitt lánið til seljanda.

Starfsmaður Kaupþings banka hf. gaf út yfirlýsingu 8. desember 2003 þar sem sagði að bankinn hefði veitt lán til BGE Eignarhaldsfélags ehf. í þeim tilgangi að fjármagna kaup félagsins á hlutafé í Baugi Group hf. og fengið til tryggingar láninu veð í öllum hlutunum, sem seldir voru. Þá kom þar fram af hálfu bankans að ef hann gengi að eignum félagsins sem lántaka myndi hann ekki gera ,,fjárnám í kröfum BGE á hendur starfsmönnum Baugs Group hf. vegna krafna sem urðu til vegna kaupa starfsmanna“ á hlutafé í Baugi Group hf. af BGE Eignarhaldsfélagi ehf. Baugur Group hf. gaf 8. júní 2007 út efnislega samhljóða yfirlýsingu vegna lána sem, félagið hafði veitt BGE Eignarhaldsfélagi ehf.

Eins og gerð er grein fyrir í héraðsdómi var bú BGE Eignarhaldsfélags ehf. tekið til gjaldþrotaskipta 26. maí 2010. Þrotabúið rekur mál þetta á hendur áfrýjanda og krefst fullrar greiðslu úr hendi hans á skuld vegna framangreindra þriggja lánssamninga. Varnir áfrýjanda eru, sem fyrr segir, á því reistar að tilteknar ástæður valdi því að honum sé alls óskylt að greiða lánin, en til vara að greiðsluskylda hans sé takmörkuð.

II

Þeir þrír lánssamningar, sem stefndi reisir kröfur sínar á, kveða allir á um fyrirvaralausa greiðsluskyldu áfrýjanda á lánunum á tilgreindum gjalddögum. Auk þess eru í þeim ákvæði um heimild til að gjaldfella lánin við tilgreindar aðstæður, svo sem gert var um lánin samkvæmt seinni tveim samningunum. Áfrýjandi hefur sönnunarbyrði fyrir því að aðrir samningar eða atvik eigi að leiða til þess að greiðsluskylda hans samkvæmt lánssamningunum sé niður fallin eða eigi að sæta takmörkunum.

Fallist er á með héraðsdómi að áfrýjandi hafi ekki sýnt fram á að skilyrði riftunar hafi verið fyrir hendi í júlí 2009 er hann sendi tilkynningu þess efnis. Hið gjaldþrota félag hafði efnt sínar skyldur um afhendingu hlutabréfa þeirra, sem það seldi áfrýjanda og ekki liggur annað fyrir en að handveði í bréfunum hefði mátt aflétta, eins og samningurinn kvað á um, ef áfrýjandi hefði greitt lánin sem hann tók vegna kaupanna. Þá er einnig fallist á með héraðsdómi að yfirlýsingar Kaupþings banka hf. og Baugs Group hf., sem gerð er grein fyrir að framan, takmarki einar og sér ekki heimildir stefnda til þess að ganga að áfrýjanda til fullnustu á greiðsluskyldu hans samkvæmt lánssamningunum, sé hún fyrir hendi. Loks er fallist á með héraðsdómi að gögn, sem lögð hafa verið fram og sem mörg hver eru í drögum eða almenn kynningargögn, og voru gerð þegar kaupréttarkerfið var undirbúið, geti ekki sjálfstætt leitt til þess að forsendur hafi brostið fyrir því að áfrýjanda beri að efna skyldur sínar eða orðið grundvöllur ógildingar á samningunum samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

III

Er áfrýjandi gerði lánssamninginn í desember 2004, sem er fyrsti samningurinn, sem kröfur stefnda eru reistar á í málinu, var það í annað skiptið sem hann nýtti rétt sinn til lántöku og hlutafjárkaupa í kaupréttarkerfi Baugs Group hf. Hann gerði þá samtímis kaupsamning um 3.103.663 hluti í Baugi Group hf. Sá kaupsamningur er sagður viðauki við samning frá 5. desember 2003 milli áfrýjanda, BGE Eignarhaldsfélags ehf. og Baugs Group hf. Síðarnefndi samningurinn sem ekki er ágreiningur um að sé milli áfrýjanda, BGE Eignarhaldsfélags ehf. og Baugs Group hf., mælti í 5. grein fyrir um kaupskyldu Baugs Group hf. á þeim hlutabréfum, sem áfrýjandi keypti. Er þar í fyrsta lagi mælt fyrir um kaupskyldu Baugs Group hf. á hlutafé á gjalddaga lána 30. september 2008. Kaupverð skyldi fundið með tiltekinni aðferð, en það skyldi þó aldrei vera lægra en 90% af upphaflegu kaupverði að viðbættri þeirri fjárhæð sem áfrýjandi hefði greitt í vexti af lánum, sem hann hafði tekið. Þá segir í grein 5.3: ,,Samkvæmt framangreindu er hluthafi því varinn fyrir tapi af þeim viðskiptum sem eiga sér stað samkvæmt samningi þessum nema að því er varðar það hlutfall sem gert er ráð fyrir að hluthafi greiði inná kaupin í upphafi þ.e. 10% kaupverðs.“ Í 6. grein samningsins er meðal annars kveðið á um söluskyldu hluthafa á hlutum í Baugi Group hf. Þau ákvæði mæla einkum fyrir um skyldu hluthafa til að selja hluti sína á kjörum, sem tiltekin eru í greininni, ef hann hætti störfum hjá Baugi Group hf. Í grein 6.3 segir á hinn bóginn að ef starfslok verði vegna andláts starfsmanns, starfsorkuskerðingar hans eða endurskipulagningar fjárhags Baugs Group hf. eða öðrum ástæðum sem starfsmaður beri enga ábyrgð á falli ónýttir kaupréttir niður, en nýttir kaupréttir lúti almennum reglum samningsins.

Þegar áfrýjandi gerði lánssamningana 13. febrúar 2006 og 11. nóvember 2007 gerði hann samtímis kaupsamninga um hlutafé í Baugi Group hf., eins og kaupréttarkerfið gerði ráð fyrir. Í 4. grein þeirra kaupsamninga, sem eru að efni til samhljóða, er fjallað um kaupskyldu Baugs Group hf. á hlutafé áfrýjanda við tilteknar aðstæður og í 5. grein samninganna er kveðið á um skyldu áfrýjanda til að selja hlutaféð við tilteknar aðstæður, svo sem við starfslok hans hjá Baugi Group hf. eða dótturfélagi þess. Í grein 5.3 í samningunum segir meðal annars að ef starfslok áfrýjanda orsakist af andláti hans, starfsorkuskerðingu eða endurskipulagningu á fjárhag Baugs Group hf., sem starfsmaður beri ekki ábyrgð á, eigi ákvæði um söluskyldu hans ekki við, en reglur í 4. grein samninganna um sölurétt hans á ákveðnu verði gildi. Í þeim er mælt fyrir um að söluverð hlutanna skuli hið minnsta vera 90% af upphaflegu kaupverði auk tiltekinna vaxta.

Við flutning málsins fyrir Hæstarétti var áréttað af hálfu áfrýjanda að samningana, sérstaklega hina tvo síðari, bæri að skýra svo að vegna töku bús Baugs Group hf. til gjaldþrotaskipta ætti við ákvæði samninganna um sölurétt áfrýjanda, þar sem lágmarkssöluverð ætti að vera 90% af upphaflegu kaupverði. Stefndi hefði einnig skýrt þessi ákvæði svo, og lagt þá skýringu til grundvallar í samningum við aðra starfsmenn Baugs Group hf. og dótturfélags þess í Bretlandi, sem fallist hefðu á að greiða 10% af þeim lánum, er þeir hefðu tekið vegna hlutafjárkaupa. Af hálfu stefnda var þessum fullyrðingum ekki andmælt, en tekið fram að áfrýjanda hefði staðið til boða að semja með sama hætti við þrotabúið og aðrir starfsmenn Baugs Group hf. og dótturfélags þess, en áfrýjandi hafnað því.

Framangreind ákvæði um sölurétt áfrýjanda á tilteknum kjörum taka til atvika eins og þeirra að bú Baugs Group hf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Þótt ákvæðin séu hvorki skýr né ótvíræð verður að túlka þau svo samkvæmt efni sínu, en einnig með vísan til þeirra forsendna sem áfrýjanda og öðrum starfsmönnum var rétt að leggja til grundvallar við mat á skuldbindingum sínum vegna lántöku við hlutafjárkaup samkvæmt kaupréttarkerfinu, að ábyrgð þeirra yrði einungis 10% af lánsfjárhæðinni. Þar sem útreikningi stefnda á skuld samkvæmt lánssamningunum hefur ekki verið andmælt, að öðru leyti en því að forsendur þeirra eru taldar rangar svo og réttur til útreiknings vaxta, en á þau andmæli er ekki fallist, verður útreikningurinn lagður til grundvallar, svo og krafa hans um almenna vexti og upphafstíma dráttarvaxta. Áfrýjandi hefur ekki sjálfur sýnt fram á hvaða vexti hann hafi greitt er komið gætu til frádráttar samkvæmt áðurnefndum samningsákvæðum.

Þar sem málinu hefur ekki verið gagnáfrýjað kemur ekki til álita krafa stefnda um málskostnað í héraði. Verður málskostnaðarákvæði héraðsdóms staðfest. Rétt er að hvor aðila beri sinn hluta af kostnaði við rekstur málsins fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Gunnar Snævar Sigurðsson, greiði stefnda, þrotabúi BGE Eignarhaldsfélags ehf., 169.830.802 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 4.183.619 krónum frá 30. september 2008 til 30. september 2009, af 31.317.889 krónum frá þeim degi til 30. september 2010, af 112.254.557 krónum frá þeim degi til 15. janúar 2011, en af 169.830.802 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaðarákvörðun héraðsdóms er staðfest.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var 30. október 2012, var höfðað með stefnu áritaðri um birtingu og þingfestri 20. september 2011, af þrotabúi BGE eignarhaldsfélags ehf., Ránargötu 18, Reykjavík, á hendur stefnda Gunnari Snævari Sigurðssyni, Flat 59, 50 Kensington Gardens Square, London, Englandi.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða skuld að fjárhæð 1.698.308.018 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. september 2008 af 41.836.189 krónum til 30. september 2009, þá af 313.178.887 krónum frá þeim degi til 30. september 2010, en af 1.122.545.569 krónum frá þeim degi til 15. janúar 2011 og loks af 1.698.308.018 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins. 

Í greinargerð kemur fram að dómkröfur stefnda séu þær aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu en til þrautavara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda, að viðbættum virðisaukaskatti.

Með úrskurði uppkveðnum 8. júní sl. var frávísunarkröfu stefnda hafnað.

I.

Stefnandi lýsir málsatvikum á þann veg að BGE eignarhaldsfélag ehf. hafi verið úrskurðað gjaldþrota 26. maí 2010. Samkvæmt samþykktum félagsins hafi tilgangur þess verið eignarhald á hlutabréfum í Baugi Group hf., hér eftir nefnt Baugur, sala slíkra bréfa til Baugs og starfsmanna Baugs og tengd starfsemi. Hafi félagið einkum verið stofnað til að annast milligöngu um og til að halda utan um kaup starfsmanna Baugs og Baugs UK Limited, dótturfélags Baugs í Englandi, á hlutum í Baugi. Sá háttur hafi verið hafður á að félagið lánaði tilteknum starfsmönnum Baugs og Baugs UK Limited, þar á meðal stefnda, fyrir kaupum á hlutum í Baugi. Enginn eiginlegur rekstur hafi verið á vegum eignarhaldsfélagsins og einu eignir þess séu í formi kröfuréttinda á hendur starfsmönnum á grundvelli þeirra lánssamninga sem gerðir hafi verið við þá af þessu tilefni vegna kaupa þeirra á hlutum í Baugi. Kröfur stefnanda á hendur stefnda eigi rót að rekja til þriggja slíkra lánssamninga.

Fyrsti lánssamningurinn milli eignarhaldsfélagsins og stefnda sé dagsettur 27. desember 2004 og hafi höfuðstóll lánsins numið 65.999.372 krónum en samkvæmt gr. 2.2. (a) hafi gjalddagar lánsins verið tveir. Annars vegar hafi stefndi átt að greiða 29.996.893 krónur 30. september 2007 og hins vegar 36.002.479 krónur 30. september 2008.

Annar lánssamningurinn sé dagsettur 13. febrúar 2006 og séu aðilar hans stefnandi sem lánveitandi og stefndi sem lántaki og Baugur UK Limited sem vinnuveitandi. Síðastnefnda aðilanum sé ekki stefnt í þessu máli, enda beri hann enga greiðsluskyldu gagnvart stefnanda samkvæmt samningnum. Höfuðstóll lánsins hafi numið 306.420.000 krónum. Í gr. 2.2. (a) hafi verið samið um endurgreiðslu lánsins þannig að hinn 30. september 2009 hafi stefndi átt að greiða 102.140.000 krónur, hinn 30. september 2010 102.140.000 krónur og hinn 30. september 2010 102.140.000 krónur.

Þriðji lánssamningurinn sé ársettur 2007 en hann muni hafa verið undirritaður og lánsfé greitt út hinn 19. nóvember 2007. Aðilar hans séu stefnandi sem lánveitandi, stefndi sem lántaki og Baugur UK Limited sem vinnuveitandi.  Síðastnefnda aðilanum sé ekki stefnt í þessu máli, enda beri hann enga greiðsluskyldu gagnvart stefnanda samkvæmt samningnum. Höfuðstóll lánsins hafi numið 795.429.231,84 krónum. Í gr. 2.2 (a) hafi verið samið um endurgreiðslu lánsins þannig að hinn 30. september 2010 hafi stefndi átt að greiða 332.554.615,92 krónur, hinn 30. september 2011 231.437.307, 96 krónur og hinn 30. september 2012 231.437.307,96 krónur.

Samkvæmt efni lánssamninganna hafi lánin átt að bera 12 mánaða REIBOR-vexti, auk 1,9% vaxtaálags. Þess hafi jafnframt verið getið í samningunum að hlutabréf þau, sem stefndi keypti í Baugi, væru þegar veðsett Kaupþingi Búnaðarbanka hf., hér eftir nefndur Kaupþing, sbr. 4. kafla lánssamninganna. Hafi þau þannig ekki staðið til tryggingar á vanskilum stefnda. Hlutabréf þessi séu verðlaus, enda sé Baugur gjaldþrota. Ekkert sé getið um lánstryggingar í síðastnefnda lánssamningnum.

Stefndi hafi vanefnt greiðsluskyldu sína samkvæmt lánssamningunum en fyrri skiptastjóri hafi krafið hann um greiðslu gjaldfallinnar skuldar með bréfi, dagsettu 1. desember 2010. Hafi þar komið fram að um gjaldfallnar afborganir væri að ræða, að öðru leyti en varðandi þriðja gjalddaga annars lánssamningsins og annan og þriðja gjalddaga þriðja samningsins. Varðandi þær afborganir sérstaklega, hafi athygli stefnda verið vakin á umsaminni gjaldfellingarheimild vegna vanskila. Í samræmi við það myndi þrotabúið gjaldfella eftirstöðvar lánsins, enda yrði ekki bætt úr þessum vanefndum með fullnægjandi hætti. Hafi verið skorað á stefnda að greiða eða semja um greiðslu skuldarinnar hið fyrsta og ekki síðar en innan 15 daga frá dagsetningu bréfsins. Jafnframt hafi stefnda verið bent á að lánveitingar þessar hafi verið ólögmætar þar sem þær hafi verið í andstöðu við 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, þar sem stefndi hafi verið hluthafi í BGE eignarhaldsfélagi ehf., hér eftir nefnt BGE, þegar umrædd lán voru veitt. Engin viðbrögð hafi borist frá stefnda. Með bréfi, dagsettu 21. apríl 2011, hafi kröfurnar verið ítrekaðar og tilkynnt um uppsögn og gjaldfellingu eftirstöðva ef ekki yrði brugðist við. Engin viðbrögð hafi borist frá stefnda og ráðagerð um gjaldfellingu því verið hrundið í framkvæmd.

Stefndi sé í máli þessu krafinn um greiðslu gjaldfallinna skulda samkvæmt framangreindum lánssamningum, auk áfallinna og gjaldfallinna vaxta samkvæmt efni samninganna. Sé málið höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í samræmi við 19. gr. fyrsta lánssamningsins, 11. gr. annars lánssamningsins og 10. gr. þriðja lánsamningsins, sbr. 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. einnig 35. gr. sömu laga.

Stefnukröfur sínar sundurliðar stefnandi þannig:

Krafa samkvæmt lánssamningi frá 27. desember 2004:

Vaxtatímabil       Gjaldfallnir samn.vextir    Gjaldfallin höfuðstólsgreiðsla   Til greiðslu á gjalddaga

30.9.07-30.9.08   kr.           5.833.709            kr.           36.002.479                          kr.           41.836.188

                                                                                              Samtals vanskil án drv.   kr.          41.836.188

Krafa samkvæmt lánssamningi frá 13. febrúar 2006:

Vaxtatímabil       Gjaldfallnir samn.vextir    Gjaldfallin höfuðstólsgreiðsla  Til greiðslu á gjalddaga

13.2.06-30.9.09   kr.           169.202.698        kr.           102.140.000                        kr.           271.342.698

30.9.09-30.9.10   kr.           17.397.846          kr.           102.140.000                        kr.           119.537.846

30.9.10-15.1.11   kr.             1.942.929           kr.           102.140.000                        kr.           104.082.929

                                                                                              Samtals vanskil án drv.   kr.          494.963.473

Krafa samkvæmt lánssamningi frá 19. nóvember 2007:

Vaxtatímabil       Gjaldfallnir samn.vextir    Gjaldfallin höfuðstólsgreiðsla  Til greiðslu á gjalddaga

19.11.07-30.9.10                kr.           357.274.220        kr.           332.554.616        kr.           689.828.826

30.9.10-15.1.11   kr.               8.804.904         kr.           462.874.616                        kr.           471.679.521

                                                                                              Samtals vanskil án drv.   kr.        1.161.508.356

Stefnandi krefst dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 12. gr., laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá og með gjalddaga hverrar gjaldfallinnar greiðslu fyrir sig til greiðsludags. Krafist er dráttarvaxta af þeim eftirstöðvum, sem gjaldfelldar voru hinn 21. apríl 2011, frá gjaldfellingardegi til greiðsludags.

Stefndi gerir í greinargerð sinni athugasemdir við atvikalýsingu stefnanda og tekur í fyrsta lagi fram að rangt sé að hann hafi ekki brugðist við innheimtubréfi stefnanda frá 1. desember 2010. Hann hafi sent stefnanda svarbréf hinn 16. desember 2010 þar sem hann skoraði á stefnanda að gaumgæfa vel réttarstöðu aðila og vanda málatilbúnað sinn en við því hafi stefnandi ekki orðið. Stefndi hafi því verið knúinn til verulegrar gagnaframlagningar þar sem stefndi hafi kosið að fjalla ekki um málið í heild sinni.

Stefndi kveður málið í raun snúast um kaupréttarkerfi Baugs, sem byggt hafi verið upp með þeim hætti að stofnað hafi verið sérstakt eignarhaldsfélag sem keypti hlutabréf í Baugi og seldi starfsmönnum Baugs í samræmi við kauprétt viðkomandi starfsmanns, gegn láni að stærstum hluta. Baugur hafi síðan bæði haft kauprétt og kaupskyldu á hlutum starfsmanna í félaginu. Hafi verið um þríhliða samningssamband að ræða. Því til viðbótar hafi Kaupþing veitt stefnanda lán til kaupanna, ásamt því að selja stefnanda hluti í Baugi. Hafi bankinn átt handveð í hlutum starfsmanna í Baugi til tryggingar réttra efnda stefnanda á lánum. Því hafi bankinn einnig verið aðili að þessu samningssambandi og það því í raun verið fjórhliða, enda hafi bankinn veitt starfsmönnum, þ. á m. stefnda, loforð um að ekki yrði gengið að öðru en hlutabréfum þeirra í Baugi, kæmi til þess að bankinn gengi að stefnanda. Á þessum grundvelli hafi starfsmenn gengið til samninga.

Stefnandi sé þrotabú og kröfuhafar séu aðeins tveir, þb. Baugs og þb. Kaupþings. Þrátt fyrir að stefndi hafi bent á þá staðreynd, að viðsemjendur hans vegna kaupréttarkerfisins væru þeir sömu og gerðu kröfur í nafni stefnanda, hafi stefnandi ekki tekið þau sjónarmið til greina og forsvarsmenn hinna tveggja þrotabúa hafi neitað að virða þau loforð, sem gefin hafi verið starfsmönnum Baugs vegna aðildar að kaupréttarkerfinu.

Forsaga þessa máls sé að haustið 2003 hafi verið ákveðið að hrinda af stað kaupréttarkerfi Baugs með þátttöku starfsmanna félagsins. Í fyrstu hafi þeir starfsmenn, sem tóku þátt í kaupréttarkerfinu, einnig verið hluthafar í stefnanda og eigi það við um stefnda. Í síðari hluta kaupréttarkerfisins frá árinu 2005 hafi m.a. einnig starfsmönnum Baugs í Bretlandi og Danmörku verið boðið að gerast aðilar að kerfinu, án þess að gerast hluthafar í stefnanda. Stefndi hafi tekið þátt í báðum hlutum kaupréttarkerfisins, sem efnislega hafi verið eins hvað varðar réttarstöðu stefnda og annarra aðila kerfisins.

Baugur hafi notið stuðnings tveggja aðila við útfærslu á kaupréttarkerfinu, Kaupþings, sem hafi fjármagnað kerfið með lánum til stefnanda og selt hlutabréf í Baugi inn í það, og síðan KPMG, sem hafi aðstoðað við frágang, s.s. að veita skattaráðgjöf og annast um gerð samningsforma. Gert hafi verið minnisblað og glærukynning um kaupréttarkerfið í nóvember 2003 og annað minnisblað 2004 um kerfið og framahald þess, sbr. og glærukynningu frá KPMG 12. október 2005.

Með lánssamningi, dagsettum 8. desember 2003, hafi Kaupþing veitt stefnanda lán að fjárhæð 400.000.000 króna og hafi sú lánveiting byggst á samningi milli stefnanda og Baugs frá 5. desember 2003, þar sem Baugur hafi tekið ábyrgð á hugsanlegum vanskilum stefnanda gagnvart Kaupþingi vegna kaupréttarkerfis og þríhliða samningum, sem stefnandi, Baugur og starfsmenn hafi gert, og handveðssamningi milli Kaupþings og stefnanda, dagsettum 8. desember, og framlögðum yfirlýsingum Kaupþings, enda hafi öll þessi skjöl verið fylgiskjöl með samningi, sem starfsmenn hafi gert við stefnanda. Með lánssamningi, dagsettum 30. desember 2004, hafi Kaupþing jafnframt veitt stefnanda lán að fjárhæð 850.015.000 krónur. Lánin hafi verið veitt í þeim tilgangi að fjármagna kaup stefnanda á hlutum í Baugi í tengslum við kaupréttarkerfi starfsmanna Baugs. Síðara lánið hafi verið veitt samhliða kaupsamningi á milli BGE og Kaupþings um hluti í Baugi þar sem BGE hafi keypt 33.295.468 hluti í Baugi af Kaupþingi á 850.000.000 króna. Í bæði skiptin hafi verið um svo kallað seljandalán að ræða, þ.e.a.s. að Kaupþing hafi selt hlutabréf sem hann átti í Baugi og fjármagnaði og hafi þessir hlutir verið handveðsettir Kaupþingi, bæði í hið fyrra og seinna sinn þegar lánað var inn í kaupréttarkerfið og hafi það endurspeglast í samningum við starfsmenn, þ. á m. stefnda.

Baugur hafi veitt þeim starfsmönnum, sem tóku þátt í kaupréttarkerfi félagsins gegnum stefnanda, sams konar loforð um skaðleysi og Kaupþing hafi veitt þeim, þ.e.a.s. að einvörðungu yrði gengið að hlutum í Baugi til fullnustu lána en ekki gert fjárnám í kröfum stefnanda á hendur þeim einstaklingum, sem hefðu tekið lán vegna þátttöku í kaupréttarkerfinu.

Hluti krafna samkvæmt lánssamningi frá því í desember 2004 sé uppgerður en hluti þeirra sé niður fallinn. Í fyrsta lagi sé krafa, sem féll í gjalddaga 30. september 2007 og talin sé nema 53.655.926 krónum án dráttarvaxta, að fullu uppgerð, þar sem uppgjör hafi farið fram milli aðila árið 2007. Í öðru lagi telji stefndi það skjóta skökku við að stefnandi krefjist uppgjörs á greiðslu, sem hafi átt að vera á gjalddaga 30. september 2008, en því uppgjöri hafi verið frestað, a.m.k. hvað stefnda varðar og fleiri starfsmenn Baugs, í raun að ósk stefnanda og Baugs með tilliti til þess að efnahagsaðstæður á Íslandi voru þá mjög slæmar og hafi hagur stefnanda og Baugs reyndar ekki batnað eftir það, þrátt fyrir vonir um annað. Hafi þetta gert það að verkum að þessum aðilum hafi verið ómögulegt að standa við samningsskyldur sínar gagnvart stefnda í öllum tilvikum. Hið sama hafi gilt um Kaupþing sem fallið hafi í byrjun október 2008. Varðandi samninga við Baug og Baug UK Limited tekur stefndi fram að hann hafi ekki gert greinarmun á samningsskyldum þessara tveggja félaga gagnvart sér, enda sé Baugur UK Limited dótturfélag í fullri eigu Baugs, sem annast hafi starfsemi Baugs í Bretlandi. Baugur hafi fjármagnað alla starfsemi Baugs UK Limited og án Baugs hefði Baugur UK Limited ekki verið gjaldfært félag.

Með bréfi BGE 18. mars 2009 hafi níu fyrrverandi starfsmenn Baugs UK Limited lýst því yfir að samningum þeirra um kaup á hlutum í Baugi af BGE væri rift. Þeir hafi enn fremur framselt alla sína hluti til BGE samhliða riftuninni.

Með bréfum til BGE ehf. í júlí 2009 hafi sex fyrrverandi starfsmenn og framkvæmdastjórar Baugs lýst því yfir að samningum þeirra um kaup á hlutum í Baugi í tengslum við kaupréttaráætlunina væri rift, þ. á m. stefndi. Því hafi enn fremur verið lýst yfir að starfsmennirnir teldu að með yfirlýsingum frá lánardrottnum BGE ehf. hefði verið staðfest að þeir myndu ekki leita fullnustu krafna sinna á annan hátt en með yfirtöku hluta í Baugi. Ljóst sé að stefnandi sé einnig bundinn af slíkum yfirlýsingum, enda allir samningar, m.a. lánssamningar, bundnir framangreindum forsendum af hálfu lántaka. Án slíkra yfirlýsinga hefðu samningarnir ekki verið gerðir. Því eigi stefnandi engar kröfur á hendur stefnda um efndir á lánssamningunum og hann geti ekki uppfyllt skyldur sínar gagnvart stefnanda og um leið hljóti skyldur stefnanda, sem byggist á gagnkvæmu samningssambandi aðila, að falla niður.

II.

Stefnandi byggir kröfu sína á meginreglum kröfuréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga. Stefndi hafi vanefnt ótvíræða greiðsluskyldu sína samkvæmt skriflegum lánssamningum sem gerðir voru milli málsaðila. Umsamin heimild til gjaldfellingar og kröfugerðar um greiðslu dráttarvaxta byggist á grein 7 í fyrrgreindum tveimur lánasamningum frá 2004 og 2006, sbr. einnig grein 5.2 í samningunum, þar sem fram kemur að ef viðkomandi láni sé sagt upp af hálfu lánveitanda, geti lánveitandi gjaldfellt allar eftirstöðvar lánsins, ásamt áföllnum vöxtum og öðrum greiðslum, sem lántakanda sé skylt að greiða samkvæmt samningi. Þá beri lántakanda að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni og gjaldfelldri fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags. Sams konar ákvæði séu í þriðja lánssamningnum frá 2007, sbr. ákvæði 4.2, 4.3 og grein 6.

Lánssamningarnir séu allir í vanskilum frá fyrsta gjalddaga og beri stefnda því einnig að greiða dráttarvexti af skuldinni samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Greiðsluskylda stefnda sé ótvíræð og afdráttarlaus og eigi stefnandi skilyrðislausan kröfurétt á hendur stefnda. Þá séu öll skilyrði uppfyllt til gjaldfellingar síðari lánssamninganna, svo sem gert hafi verið hinn 21. apríl 2011 að því er varðar þá gjalddaga, sem ekki voru gjaldfallnir samkvæmt efni sínu.

Stefnandi kveður stefnda ekkert hafa brugðist við ítrekuðum innheimtutilraunum.

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna samninga- og kröfuréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga. Um varnarþing vísast til 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. einnig 35. gr. sömu laga. Um málskostnaðarkröfu vísast til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur og því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

III.

Stefndi mótmælir kröfum stefnanda sem röngum og ósönnuðum. Hann vísar til þess að í raun sé um að ræða fjórhliða samkomulag milli í fyrsta lagi stefnanda, í öðru lagi stefnda (eða annarra starfsmanna Baugs), í þriðja lagi Baugs (og eftir atvikum Baugs UK Limited) og að lokum, í fjórða lagi Kaupþings.

Í greinargerð gerir stefndi grein fyrir málsástæðum sínum fyrir sýknukröfu sinni í fimm töluliðum sem hér verða raktir.

1. Gagnkvæmt réttarsamband – vanefnd stefnanda leysir stefnda undan skyldu.

Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að þar sem stefnandi geti ekki efnt skyldur sínar samkvæmt samningum þeirra, séu skyldur stefnda gagnvart stefnanda, hverju nafni sem nefnast, niður fallnar. Vísar stefndi til þess að réttarsamband málsaðila sé gagnkvæmt og því sé ákveðið samhengi milli greiðslna aðila. Réttur annars aðilans til efnda á grundvelli gilds loforðs sé háður því að hann inni einnig sína skyldu af hendi til gagnaðila. Stefnandi hafi vanefnt skyldur sínar samkvæmt samningunum og sé ófær um að efna loforð sín og samninga gagnvart stefnda. Geti kröfuhafar stefnanda ekki verið betur settir en stefnandi sjálfur og séu þeir bæði bundnir af yfirlýsingum sínum gagnvart stefnda og þeim samningum sem þeir hafi gert við stefnanda vegna kaupréttarkerfis Baugs. Með vísan til þessa krefjist stefndi sýknu á grundvelli þess að hann verði ekki einn krafinn um að inna sínar skyldur af hendi í gagnkvæmu samningssambandi.

2. Riftun - stefnda var heimilt að rifta samningum aðila.

Stefndi vísar jafnframt til þess að hlutafé í Baugi hafi verið rafrænt skráð og að allir hlutir í Baugi, sem stefndi hafi keypt af stefnanda með láni á grundvelli samninga þeirra, hafi verið veðsettir Kaupþingi til tryggingar lánum stefnanda hjá bankanum. Í stefnu lýsi stefnandi því yfir að þessir hlutir séu verðlausir, í öllu falli sé ljóst að stefnandi hafi ekki gert neina grein fyrir því hvort Kaupþing hafi gengið að þessu veði. Stefndi hafi hvorki vörslur né umráð þessara hluta í Baugi og þá hafi hann rift samningum aðila og hafi stefnandi ekki mótmælt þeirri riftun. Beri því að leggja hana til grundvallar og miða riftunina við haustið 2008 eða þegar ljóst var að stefnandi gat ekki efnt samninga aðila. Ekki verði sú krafa gerð til stefnda að hann skili því hlutafé í Baugi, sem hann var skráður fyrir, enda hafi hann ekki vörslur þess, og þá hafi stefnandi lýst því yfir að hlutirnir hefðu ekkert fjárhagslegt gildi. Geti riftun því ekki verið bundin því skilyrði að skila til baka því sem ekkert sé. Stefndi mótmælir sérstaklega óundirrituðum lánssamningi af hálfu stefnanda á dómskjali 12, sbr. samning á dómskjali 14, vegna kaupa á 12.207.324 hlutum í Baugi af stefnanda og vísar að því leyti til umfjöllunar hér að neðan um þrautavarakröfu. Beri að sýkna stefnda þar sem hann hafi með lögmætum hætti rift samningum við stefnanda vegna vangetu stefnanda til að efna umrædda samninga aðila í heild sinni.

3. Yfirlýsingar um að einvörðungu hlutabréf standi til tryggingar lánum stefnda.

Stefndi kveður BGE hafa verið stofnað í þeim eina tilgangi að vera milliliður í kaupréttarkerfi starfsmanna Baugs og Baugs UK Limited. Í lýsingu á þessu kerfi komi fram að lánveitandi stefnanda, Kaupþing, hafi samþykkt að fullnusta ekki veð stefnanda í lánum til starfsmanna kæmi til vanefnda, heldur myndi bankinn taka hlutabréfin sem fullnustu veðanna. Sé um bindandi loforð Kaupþings að ræða gagnvart stefnda og stefnandi sé jafnframt bundinn af því. Þannig sé áhætta starfsmanna einskorðuð við það framlag sem þeir leggi fram til kaupanna.

Samhliða lánveitingunni til stefnanda hinn 8. desember 2003 hafi verið undirrituð yfirlýsing þar sem Kaupþing lýsti því yfir að ef bankinn gengi að eignum stefnanda til tryggingar á skuldum hans við bankann, myndi bankinn ekki gera fjárnám í kröfum stefnanda á hendur starfsmönum Baugs vegna krafna sem urðu til vegna kaupa starfsmanns Baugs á hlutum í Baugi af stefnanda. Yfirlýsingin sé undirrituð af Örvari Kærnested fyrir hönd Kaupþings en hann hafi enn fremur verið annar tveggja aðila sem ritað hafi undir lánssamning fyrir hönd Kaupþings. Loforð Kaupþings gildi gagnvart stefnda og sé grundvöllur þeirra lánssamninga sem Kaupþing hafi gert við stefnanda, enda hafi þeir verið liður í fjármögnun á sölu Kaupþings á hlutabréfum sínum í Baugi inn í kaupréttarkerfi félagsins. Framangreindir lánssamningar vísi þannig til þessa kaupréttarkerfis og hafi verið sérstaklega tilgreint í lánssamningi, dagsettum 8. desember 2003, að kaup og sölur á hlutum í Baugi skyldu vera „í samræmi við meðfylgjandi lánssamninga“, sem voru annars vegar þríhliða samningur milli BGE, starfsmanns Baugs og Baugs um kaup starfsmanns á hlutum í Baugi af BGE og hins vegar samningur milli BGE og Baugs um kaup Baugs á hlutum í Baugi af BGE. Baugur hafi ábyrgst skuldbindingar stefnanda gagnvart Kaupþingi og kaupréttarkerfið hafi verið unnið í nánu samstarfi við bankann og með samþykki hans. Þannig hafi Kaupþing einungis tekið veð í þeim hlutum í Baugi, sem keyptir voru, auk innistæðna á tékkareikningi stefnanda, sem tryggingu fyrir endurgreiðslu lánanna, auk þess sem Kaupþing hafi beinlínis verið þátttakandi sem seljandi hlutabréfa sem notuð voru í þágu kaupréttarkerfisins.

Baugur hafi gefið út samsvarandi yfirlýsingu, sem beint hafi verið að stefnda og öðrum starfsmönnum Baugs vegna lána Baugs til stefnanda. Gildi það sama um þá yfirlýsingu og yfirlýsingu Kaupþings. Stefnandi sé bundinn af öllum samningsatriðum í kaupréttarkerfinu og hvernig það var kynnt stefnda. Stefnandi geti ekki gert frekari kröfur en viðsemjendur hans hefðu getað gert og geti ekki horfið frá þeim samningsbundnu forsendum sem kaupréttarkerfið byggðist á.

Af framangreindu sé ljóst að stefnandi hafði sett hlutabréf stefnda og annarra starfsmanna að veði með samningi við Kaupþing og báðir aðilar, auk Baugs, höfðu samþykkt að um frekari ábyrgðir fyrir lánveitingum til starfsmanna yrði ekki að ræða. Krefjist stefndi því sýknu af öllum kröfum stefnanda.

4. Brostnar forsendur.

Stefnandi byggir sýknukröfu sína jafnframt á þeirri málsástæðu að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda vegna sjónarmiða um brostnar forsendur.

KPMG hf. og Kaupþing hafi annast ráðgjöf og samningagerð en Kaupþing hafi átt beina aðild að kaupréttarkerfinu með fjármögnun, sölu hlutabréfa og veðsamningum, auk áðurnefndrar yfirlýsingar frá 8. desember 2003. Þá hefði kaupréttarkerfinu ekki verið komið á nema vegna loforða Baugs um kauptryggingar gagnvart stefnda og þátttakendum í kerfinu á þeim hlutabréfum, sem þeir keyptu af stefnanda, og þar með þeim lánveitingum, sem stefnandi krefjist nú innheimtu á, án þess að gera nokkra grein fyrir þeim lögskiptum, sem búa að baki samningum hans og stefnda, eins og rakið hafi verið. Stefndi sé, eins og aðrir starfsmenn Baugs, sá aðili sem veikasta stöðu hafi við samningsgerðina. Þegar gögn málsins séu metin í heild sinni, og mismunandi aðstaða aðila, megi fullyrða að forsendur stefnda til samningagerðar við stefnanda hafi verið þær að áhætta hans af þátttöku væri í raun engin. Þetta hafi stefnanda verið fullljóst eins og öðrum aðilum að kaupréttarkerfinu. Vangeta stefnanda og Baugs til að standa við skuldbindingar sínar hafi valdið verulegum forsendubresti sem stefndi geri kröfu um að leiði til sýknu af öllum kröfum stefnanda.

5. Ógilding samninga – 36. gr. samningalaga.

Stefndi byggir sýknukröfu sína einnig á því að umrædda lánssamninga hans við stefnanda beri að ógilda í heild sinni með vísan til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Vísar stefndi til umfjöllunar hér að framan um stöðu samningsaðila og m.a. brostnar forsendur.

Stefndi hafi tekið ákvarðanir sínar í ljósi loforða stefnanda, Baugs og Kaupþings og sé öllum þeim aðilum ljóst, eða hafi mátt vera ljóst, að stefnda var ekki einum ætlað að bera áhættu af samningunum. Augljóst sé að málsókn þessi sé einvörðungu byggð á hagsmunum skilanefndar Kaupþings sem byggi kröfur sínar gagnvart búinu á lánasamningum við stefnanda. Sé kaupréttarkerfi Baugs metið með heildstæðum hætti, sé aðkoma Kaupþings að því augljós. Bankinn hafi nýtt kerfið til að selja hlutabréf sín í Baugi gegn láni en ekkert réttlæti að stefnda sé gert að standa undir endurgreiðslum þess láns, enda hafi Kaupþing engra trygginga krafist af honum, heldur þvert á móti lýst því yfir að eina tryggingin, sem stefndi þyrfti að láta af hendi, væri veð í hlutabréfum í Baugi. Með yfirlýsingu, handveðssamningum og samþykki á þeim samningum, sem stefnandi gerði við starfsmenn Baugs, sé Kaupþing beinn samningsaðili og skyldur bankans órjúfanlegur þáttur í kaupréttarkerfi Baugs. Aðrir aðilar kerfisins, stefnandi og Baugur, séu einnig bundnir af þessu fyrirkomulagi. Sé málsókn þessi, og þeir samningar, sem hún byggist á, því bersýnilega ósanngjörn og sé því krafist sýknu.

Samkvæmt greinargerð er krafa stefnda um að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega byggð á sex málsástæðum.

1. Stefnandi framseldi ekki hlutabréf í Baugi.

Stefndi byggir á því í fyrsta lagi að það sé vafa undirorpið að stefnandi hafi í raun framselt honum hlutabréf í Baugi, a.m.k. að því er varðar hluta þeirra hlutabréfa sem mál þetta varðar. Hann mótmælir sérstaklega gildi lánssamnings sem ársettur er 2007. Með samningi ársettum 2004 lofi stefnandi að selja stefnda 12.207.324 hluti í Baugi á genginu 65,16 ISK eða fyrir 795.429.231,84 krónur. Þessi fjárhæð samsvari lánsfjárhæð á fyrrgreindum lánssamningi frá 2007, enda sé samningurinn grundvöllur samningssambands aðila, eins og stefnandi hafi viðurkennt með framlagningu sinni á honum, þótt hann skýri ekki í stefnu þýðingu skjalsins. Hlutabréf í Baugi hafi verið rafrænt skráð hjá Verðbréfaskráningu Íslands og viti stefndi dæmi þess að stefnandi hafi ekki framselt hlutabréf til viðsemjenda sinna og sökum þeirra vanefnda orðið að falla frá kröfum sínum og kaup hafi gengið til baka. Stefndi krefjist þess að stefnufjárhæð verði lækkuð um 1.161.508.356 krónur þar sem stefnandi geti ekki gert kröfu um endurgjald fyrir hlutabréf sem ekki voru afhent stefnda. 

2. Samningsbundin takmörkun á greiðsluskyldu stefnda.

Stefndi vísar í öðru lagi til þess að í framlagðri kynningu kaupréttarkerfisins fyrir starfsmönnum Baugs komi fram lýsing á kaupskyldu Baugs á hlutabréfum í eigu starfsmanna. Segi jafnframt að komi til vanefnda, sé áhætta starfsmanna einskorðuð við það framlag sem þeir lögðu til kaupanna. Um þetta fyrirkomulag hafi öllum aðilum kaupréttarkerfisins verið kunnugt, þ.e. stefnanda, Baugi (Baugi UK Limited) og Kaupþingi. Samningsform hafi verið unnin af KPMG fyrir Baug með samþykki og aðkomu Kaupþings.

Í 5. gr. samnings milli stefnanda og Baugs á dómskjali nr. 30, dagsettum 5. desember 2003, sé fjallað um kaupskyldu Baugs á þeim hlutabréfum sem hluthafi kaupi. Í niðurlagi 3. mgr. 5. gr. segi: „Samkvæmt framangreindu er hluthafi varinn fyrir tapi af þeim viðskiptum sem eiga sér stað skv. samningi þessum nema að því er varðar það hlutfall sem gert er ráð fyrir að hluthafi greiði inná kaupin í upphafi þ.e. 10% kaupverðs.“ Sem aðili að samningnum sé stefnandi bundinn við framangreint fyrirkomulag. Samsvarandi reglu sé að finna í b-lið 1. mgr. 6. gr. samningsins en í 6. gr. sé fjallað um söluskyldu starfsmanns til stefnanda ef hann hætti störfum hjá Baugi á samningstímanum.

Hafi starfsmaður þannig greitt 10% kaupverðs, eigi stefnandi engan rétt á hendur honum, þótt hann hafi lánað 90% kaupverðsins. Með aðild sinni að samningnum og kaupréttarkerfi Baugs hefur stefnandi samþykkt að ábyrgð á endurgreiðslu lánasamnings milli hans og starfsmanns hvíli hjá Baugi í því tilviki að hlutabréfin verða verðminni en kaupverð miðaðist við eða jafnvel verðlaus. Ekki sé unnt að komast að annarri niðurstöðu með heildstæðri túlkun á kaupréttarkerfinu, samningum og yfirlýsingum aðila, m.a. Kaupþings, og forsendum starfsmanna, þ. á m. stefnda, sem stefnanda og öðrum aðilum kaupréttarkerfisins hafi verið fullkunnugt um. Í því tilviki að stefndi hafi fengið lán að fullu fyrir kaupverði, þ.e.a.s. 100%, takmarkist greiðsluskylda hans við 10% af kaupverði bréfanna í samræmi við framangreinda samninga.

Stefndi mótmælir því að stefnandi eigi kröfu samkvæmt lánssamningi frá því í desember 2004 þar sem uppgjör hafi farið fram árið 2007 (höfuðstóll 29.996.883 krónur) og samningsbundnu uppgjöri hafi verið frestað af hálfu stefnanda árið 2008 vegna vangetu hans til að standa við samkomulagið. Í öllu falli gæti krafa stefnanda vegna lánssamningsins ekki numið hærri fjárhæð en 10% af höfuðstóli greiðslu á gjalddaga 30. september 2008 (36.002.470 krónur) eða 3.600.247 krónum. Öllum vaxtakröfum stefnanda sé mótmælt, enda hafi stefnandi aldrei haldið kröfum sínum gagnvart stefnda til haga með lögmætum hætti.

Hvað varðar samninga á dómskjölum 10 og 14 þá tilheyri þeir síðari hluta kaupréttarkerfisins en það hvíli á öllum sömu sjónarmiðum og forsendum og hið fyrra. Þannig sé um að ræða kauprétt og kaupskyldu sem stefnandi, Baugur (Baugur UK Limited) og Kaupþing séu bundin af. Benda megi á 3. mgr. 4. gr. og 4. mgr. 5. gr. samninganna þessu til stuðnings en þar komi fram að kaupverð það, sem hluthafi, stefndi í þessu tilviki, fái greitt fyrir hluti sína í Baugi, skuli ávallt nema 90% af því verði sem stefndi hafi greitt fyrir hlutina og þar að auki vextir á þá fjárhæð er miðist við REIBOR-vexti á hverjum tíma, auk 1,9% vaxtaálags.

Stefnandi byggi útreikninga sína á röngum forsendum og skýri ekki á hvaða forsendum hann byggi kröfugerð sína og varði það frávísun málsins. Ef ekki verði fallist á frávísunarkröfu eða sýknukröfu gerir stefndi þann fyrirvara við umfjöllun um lánssamning frá 13. febrúar 2006 og lánssamning frá 2007, og kaupsamninga um hlutabréfakaup milli stefnanda, stefnda, Baugs og Baugs UK Limited að endurútreikna þurfi fjárhæðir og leggja til grundvallar þá kröfugerð, sem sé hagstæðust stefnda, þ.e.a.s. eftir því hvort reiknað sé í breskum pundum og með LIBOR-vöxtum eða í íslenskum krónum og með REIBOR-vöxtum. Stefnandi sé hins vegar bundinn við kröfugerð sína og röngum forsendum þeirra. Ekki beri að líta á umfjöllun stefnda um þrautavarakröfur og skýringar á samningsskyldum aðila sem neins konar viðurkenningu á kröfugerð eða málatilbúnaði stefnanda. 

Á aðalfundi Baugs sumarið 2008 hafi skráningu á nafnverði hluta í Baugi verið breytt úr íslenskum krónum í bresk pund og hafi nafnverð hvers hlutar eftir það numið einu sterlingspundi í stað einnar krónu áður. Bréf stefnanda og Baugs til stefnda og annarra starfsmanna í kaupréttarkerfinu, dagsett 8. október 2008, ber með sér að skiptigengi var miðað við gengi Seðlabanka Íslands, sem hafi á þeim degi verið 1 GBP á móti hverjum 221,37 ISK. Höfuðstól lána hafi verið breytt til samræmis við þetta og jafnframt hafi vaxtakjörum verið breytt þannig að í stað þess að miða við 12 mánaða REIBOR-vexti sé miðað við 3 mánaða LIBOR-vexti, auk 1,9% álags líkt og verið hafði.

Stefndi telji að áhætta hans af framangreindum tveimur lánasamningum takmarkist við 10% af höfuðstóli hverrar lánsfjárhæðar um sig en til vara að hún geti aldrei numið hærri fjárhæð en 10% af höfuðstól, auk vaxta er miðist við LIBOR á hverjum tíma, auk 1,9% vaxtaálags. Til skýringar miði stefndi við þær tölur, sem fram komi á útreikningi á dómskjali nr. 7, með fyrirvara. Þannig geti krafa stefnanda samkvæmt útreikningnum ekki numið hærri fjárhæð en 30.642.000 krónum en til vara, miðað við 10% af vaxtaútreikningi stefnanda með fyrirvara, að við bætist vextir að fjárhæð 18.854.347 krónur eða samtals 49.496.347 krónur. Krafa stefnanda samkvæmt útreikningi á dómskjali nr. 11 geti ekki numið hærri fjárhæð en 79.542.923 krónum en til vara, miðað við 10% af vaxtaútreikningi stefnanda með fyrirvara, að við bætist vextir að fjárhæð 36.607.912 krónur eða samtals 129.039.270 krónur.

Stefndi mótmælir öllum dráttarvaxtakröfum stefnanda, enda hafi stefnandi aldrei haldið kröfum sínum gagnvart stefnda til haga með lögmætum hætti. Greiðsluskylda stefnda geti þannig að hámarki miðast við 113.785.170 krónur eða 10% af höfuðstóli, sbr. framangreinda umfjöllun og með fyrirvörum stefnda . 

3. Endurgreiðslur – frestun innlausnar.

Að því er varðar lánssamning frá 27. desember 2004 vísar stefndi til þess að kröfur samkvæmt honum séu að hluta til uppgerðar en að hluta til niðurfallnar, sbr. framlagt framsal stefnda á eignarétti að hlutafé til stefnanda frá 31. desember 2007. Í fyrsta lagi sé krafa, sem féll í gjalddaga 30. september 2007 og talin sé nema 53.655.926 krónum án dráttarvaxta, að fullu uppgerð þar sem uppgjör hafi farið fram milli aðila árið 2007. Í öðru lagi sé því mótmælt að stefnandi geti krafist uppgjörs á greiðslu, sem vera átti á gjalddaga 30. september 2008, en því uppgjöri hafi verið frestað. Nemi sú krafa samkvæmt stefnu 41.836.188 krónum og því sé gerð krafa um það að stefnufjárhæðir lækki um samtals 95.492.114 krónur.

4. Brostnar forsendur – yfirlýsingar aðila - breyting á samningi.

Með vísan til framangreindrar umfjöllunar gerir stefndi þær kröfur að stefnufjárhæð verði lækkuð verulega á grundvelli brostinna forsendna og yfirlýsinga, sem viðsemjendur hans og þátttakendur í kaupréttarkerfi Baugs gáfu, þ.m.t. Kaupþing, og allra aðstæðna að öðru leyti og jafnframt með vísan til 36. gr. samningalaga, nr. 7/1936. Stefndi hafi undirgengist samningsskyldur á grundvelli framangreindra samninga og yfirlýsinga í góðri trú og á grundvelli gagnkvæmra skyldna aðila. Stefnandi hafi í engu getað efnt skyldur sínar við stefnda og ekki heldur Baugur né Baugur UK Limited. Kaupþing hafi vitað um fyrirkomulag samninganna og tekið þátt í kaupréttarkerfinu með beinum hætti, s.s. með sölu hlutabréfa sinna og fjármögnun á henni, handveðsamningum og útgáfu margræddrar yfirlýsingar. Sé ósanngjarnt og óeðlilegt í ljósri allra málavaxta að hann einn beri hallann af því að stefnandi, Baugur og Kaupþing urðu gjaldþrota og að þessir þrír aðilar geti lagt á stefnda að bæta tjón þeirra, líkt og krafa stefnanda snúist í raun um. Stefndi hafi líka orðið fyrir tjóni og ljóst sé að stefnukrafa í máli þessu sé fráleit. Í ljósi alls framangreinds krefjist stefndi verulegrar lækkunar stefnufjárhæða og að tekið verði mið af eðlilegri áhættuskiptingu milli hans, stefnanda, Baugs og Kaupþings en ekki einhliða og óréttmætum kröfum þessara aðila.

5. Mótmæli við kröfu um gjaldfellingu lána.

Stefndi mótmælir einhliða gjaldfellingu stefnanda, enda sé frumskilyrði slíkrar heimildar að stefnandi hafi staðið við samningsskyldur sínar gagnvart honum. Það hafi stefnandi ekki gert og ekki gert upp samninga haustið 2008, líkt og honum hafi borið að gera. Þá hafi stefnandi ekki orðið við ítrekuðum óskum stefnda um greinargerð um réttarstöðu aðila í heild, sem sendar hafi verið fyrir þann tíma sem stefnandi sendi stefnda innheimtubréf hinn 21. apríl 2011. Stefnanda hafi þá þegar verið kunnugt um afstöðu stefnda, m.a. mótmæli við málatilbúnaði hans. Sé því ekki hægt að fella dóm um hugsanlegar kröfur stefnanda sem séu ógjaldfallnar.

6. Mótmæli við kröfu um dráttarvexti.

Stefndi mótmælir öllum dráttarvaxtaútreikningi stefnanda sem ólögmætum og röngum. Áréttar stefndi að greiðsla 30. september 2007 sé uppgerð og greiðslu 30. september 2008 hafi verið frestað að ósk stefnanda. Stefnandi hafi haft að engu gagnkvæmar samningsskyldur sínar gagnvart stefnda og geti því ekki krafist dráttarvaxta. Kröfugerð stefnanda áður en að málsókn kom hafi verið einhliða og hafi hann, þrátt fyrir lagaskyldu, látið undir höfuð leggjast að meta réttarstöðu aðila með réttum hætti. Beri hann hallann af því og geti því ekki krafist dráttarvaxta. Þá geti hann ekki krafist dráttarvaxta vegna ógjaldfallinna greiðslna. Fari svo að dómurinn fallist að einhverju leyti á dómkröfur stefnanda, gerir stefndi kröfu um að dráttarvextir verði ekki dæmdir fyrr en frá dómuppsögudegi með vísan til allra aðstæðna, sbr. og 3. mgr. 5. gr. og 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

Stefndi krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda, hver sem málsúrslit verða, sbr. 3. mgr. 129. gr., 2. mgr. 130. gr. og 3. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991. Þar sem stefndi sér ekki virðisaukaskattskyldur sé honum nauðsynlegt að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnanda. Um málskostnaðarkröfuna að öðru leyti vísar stefndi til ákvæða XXI. kafla laganna.

Stefndi byggir málatilbúnað sinn og rökstuðning fyrir sýknu á meginreglum samningaréttar og kröfuréttar um gildi loforða, gagnkvæmar samningsskyldur, riftun samninga og brostnar forsendur. Í því sambandi er enn fremur vísað til 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936. Stefndi byggir varakröfur sínar á sömu sjónarmiðum og sýknukröfu en að auki á reglum kröfuréttar um heimild til gjaldfellingar eftirstöðva lána með afborgunum og lögum um vexti og verðtryggingu, sbr. sérstaklega 5. og 9. gr.

IV.

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslur stefnandi málsins og vitnin Örvar Kærnested, fyrrverandi starfsmaður Kaupþings banka hf., Rúnar Sigurpálsson, fyrrverandi starfsmaður Baugs Group hf., Bjarki H. Diego, lögfræðingur og fyrrverandi starfsmaður Kaupþings banka hf., Stefán H. Hilmarsson, fyrrverandi fjármálastjóri og aðstoðarforstjóri Baugs Group hf., Guðrún Tinna Ólafsdóttir, fyrrverandi starfsmaður Baugs Group ehf. og fyrrverandi stjórnarmaður í stefnanda, og Haraldur Úlfarsson, fyrrverandi starfsmaður Kaupþings banka hf. Verður efni þeirra rakið eins og þurfa þykir.

Stefnandi byggir dómkröfu sína á því að stefndi hafi vanefnt skyldur sínar samkvæmt þremur framlögðum lánssamningum, sem gerðir voru milli málsaðila, og vísar henni til stuðnings til meginreglna kröfuréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga. 

Þessu hefur stefndi mótmælt og kveður mál þetta í raun snúast um kaupréttarkerfi Baugs, sem byggt hafi verið upp með þeim hætti að stofnað hafi verið sérstakt eignarhaldsfélag sem keypti hlutabréf í Baugi og seldi starfsmönnum Baugs í samræmi við kauprétt viðkomandi starfsmanns, gegn láni að stærstum hluta. Baugur hafi síðan bæði haft kauprétt og kaupskyldu á hlutum starfsmanna í félaginu. Hafi því í raun verið um þríhliða samningssamband að ræða en því til viðbótar hafi Kaupþing komið að málinu með því að veita stefnanda lán til kaupanna, ásamt því að selja hluti í Baugi til stefnanda. Bankinn hafi átt handveð í hlutum starfsmanna í Baugi til tryggingar réttra efnda stefnanda á lánum. Því hafi bankinn einnig verið aðili að þessu samningssambandi og það því í raun verið fjórhliða, enda hafi bankinn veitt starfsmönnum, þ. á m. stefnda, loforð um að ekki yrði gengið að öðru en hlutabréfum þeirra í Baugi, kæmi til þess að bankinn gengi að stefnanda. Á þessum grundvelli hafi starfsmenn gengið til samninga.

Eins og áður er lýst gerðu aðilar þessa máls með sér þrjá lánssamninga og er efni þeirra rakið í málsatvikakafla hér að framan. Í lánssamningunum er að finna tilvísanir til kaupsamninga sem stefnandi gerði við starfsmenn Baugs varðandi kaup þeirra síðarnefndu á hlutum í Baugi. Þá er í samningunum skýrlega tekið fram að tilgangur þeirra sé að fjármagna kaup lántaka á hlutabréfum í Baugi. Lánssamningarnir fela samkvæmt efni sínu einvörðungu í sér skuldbindingar milli aðila þessa máls. Þrátt fyrir að í tveimur þeirra sé Baugur UK Limited tilgreindur sem vinnuveitandi, er hvorki í samningunum að finna ákvæði um réttindi þess félags né skyldur að því er varðar lánveitingarnar að neinu leyti.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi vanefnt skyldur sínar samkvæmt loforðum sínum og samningum við stefnda. Þá geti kröfuhafar stefnanda ekki verið betur settir en stefnandi sjálfur og séu þeir bæði bundnir af yfirlýsingum sínum gagnvart stefnda og þeim samningum sem þeir hafi gert við stefnanda vegna kaupréttarkerfis Baugs. Eins og áður segir var tilgangur lánssamninganna sá að lána stefnda fjármuni til kaupa á hlutum í Baugi og er í samningunum vísað til kaupsamninga vegna þeirra kaupa. Hins vegar bera skilmálar lánssamninganna um endurgreiðslu lánsfjárhæðanna, vexti, dráttarvexti, uppsögn samningsins og önnur ákvæði, er lúta að efndaskyldu aðila samkvæmt samningunum, ekki með sér að aðrir samningar málsaðila þeirra í milli eða aðrir samningar þeirra við aðra aðila hafi áhrif á þá að þessu leyti eða séu með einhverjum hætti forsendur fyrir efndum þeirra eða gildi. Að öðru leyti hefur stefndi ekki fært fram tæk rök fyrir vanefndum stefnanda á lánssamningunum.

Að þessu virtu verður ekki fallist á að framangreind rök stefnda leiði til þess að litið verði svo á að stefnandi hafi ekki efnt umsamdar skyldur sínar samkvæmt umstefndum lánssamningum og er þessari málsástæðu stefnda því hafnað. Yfirlýsingar annarra aðila um uppgjörsaðferðir í tengslum við kaupréttarkerfi starfsmanna Baugs gagnvart málsaðilum, svo sem yfirlýsingar og loforð um að fullnusta ekki veð í lánum til starfsmanna Baugs, komi til vanefnda, þykja því engu breyta við úrlausn á ágreiningi aðila vegna lánssamninganna í máli þessu. Að sama skapi breytir hér engu efni vættis vitna um það, hvernig kaupréttarkerfi starfsmanna Baugs var hugsað í upphafi. Þá verður með sömu rökum ekki fallist á það með stefnda að honum hafi verið rétt að rifta umræddum lánssamningum vegna vanefnda stefnanda.

Stefndi byggir sýknukröfu sína jafnframt á því að það hafi verið forsenda hans fyrir samningsgerðinni við stefnanda að áhætta hans af viðskiptunum væri í raun engin, enda hefði kaupréttarkerfi Baugs byggt á slíkum sjónarmiðum. Þetta hafi öllum aðilum að kaupréttarkerfinu verið fullljóst. Vangeta stefnanda og Baugs til að standa við skuldbindingar sínar hafi valdið verulegum forsendubresti sem leiði til sýknu. Eins og áður er rakið bera lánssamningarnir ekki með sér að aðrir samningar málsaðila þeirra í milli eða aðrir samningar þeirra við aðra aðila hafi áhrif á þá að þessu leyti eða séu með einhverjum hætti forsendur fyrir efndum þeirra eða gildi. Eru heldur engar slíkar forsendur tilteknar í lánssamningunum sjálfum né er þar að finna ákvæði sem tryggja stefnda skaðleysi vegna lántökunnar. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að stefnandi hafi vanefnt skyldur sínar samkvæmt lánssamningunum. Að þessu virtu og þegar litið er til þess að stefndi gegndi frá árinu 2003 stöðum fjármálastjóra, framkvæmdastjóra og forstjóra Baugs og jafnframt með vísan til málsatvika allra verður ekki fallist á að umræddir lánssamningar hafi verið ógildanlegir eða óskuldbindandi fyrir stefnda á grundvelli reglna um brostnar forsendur eða vegna ákvæða 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Að öllu framangreindu virtu er það mat dómsins að hafna beri kröfu stefnda um sýknu í máli þessu. 

Stefndi byggir kröfu sína um að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega í fyrsta lagi á því að stefnandi hafi ekki framselt hlutabréf í Baugi. Í greinargerð sinni vísar stefndi þessari málsástæðu til stuðnings til þess að hann viti dæmi þess að stefnandi hafi ekki framselt hlutabréf til viðsemjenda sinna og sökum þeirra vanefnda orðið að falla frá kröfum sínum og kaup hafi gengið til baka. Stefndi dregur í efa að stefnandi hafi framselt sér hlutabréf í Baugi, a.m.k. að því er varðar lánssamning frá 19. nóvember 2007. Krefjist stefndi þess því að stefnufjárhæð verði lækkuð um 1.161.508.356 krónur þar sem stefnandi geti ekki gert kröfu um endurgjald fyrir hlutabréf sem ekki hafi verið afhent stefnda. Í skýrslu vitnisins Haraldar Úlfarssonar, starfsmanns Kaupþings banka hf., sem sá um útreikning á kröfugerð stefnanda, kom fram að við þá vinnu hefði hann skoðað bókhald stefnanda og farið yfir kröfur hans á hendur fyrrum starfsmönnum Baugs, þ. á m. kröfur samkvæmt umstefndum lánasamningum. Vinnu sína hafi hann byggt á upplýsingum úr árituðum ársreikningi 2007, yfirliti yfir lánastöður starfsmanna, sem gert hafi verið miðað við 31. desember 2008, óundirrituðum ársreikningi 2008 og fjárhagsbókhaldi frá Baugi 2008 og 2009. Að þessu virtu og öðrum gögnum málsins um lánveitingar stefnanda til stefnda verður að líta svo á að á stefnda hvíli sönnunarbyrðin fyrir framangreindum fullyrðingum sínum, enda verður að telja að það hafi honum verið unnt, án mikillar fyrirhafnar. 

Stefndi byggir lækkunarkröfu sína einnig á því að greiðsluskylda stefnda hafi verið takmörkuð samkvæmt samningum og vísar um það til samninga milli stefnanda, Baugs, og eftir atvikum Baugs UK Limited, og stefnda. Enga slíka takmörkun er hins vegar að finna í ákvæðum lánssamninganna sjálfra. Að þessu gættu og í ljósi þeirrar niðurstöðu dómsins, sem áður er rakin, um að skilmálar umsaminna lánssamninga beri ekki með sér að aðrir samningar málsaðila þeirra í milli eða aðrir samningar þeirra við aðra aðila hafi áhrif á uppgjör þeirra eða séu með einhverjum hætti forsendur fyrir efndum þeirra eða gildi, verður ekki fallist á þessa málsástæðu stefnda.

Stefndi mótmælir gjaldfellingu umræddra lána með vísan til þess að stefnandi hafi ekki staðið við samningsskyldur sínar gagnvart stefnda. Þá mótmælir stefndi jafnframt kröfu stefnanda um dráttarvexti. Vísar stefndi til þess að stefnandi hafi ekki gert upp samninga haustið 2008, eins og honum hafi borið, og þá hafi stefnandi ekki tekið saman greinargerð um réttarstöðu aðila í heild, sem stefndi hafi kallað eftir. Ekki liggur annað fyrir í málinu en að stefnandi hafi efnt skyldur sínar samkvæmt umstefndum lánssamningum og breytir hér engu þótt stefnandi hafi ekki ráðist í samningu greinargerðar að ósk stefnda. Í lánssamningunum er að finna ákvæði um heimild stefnanda sem lánveitanda til gjaldfellingar ef til vanskila kemur á greiðslu höfuðstóls og vaxta og er jafnframt mælt fyrir um að lántaka beri í því tilviki að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags. Í raun er ágreiningslaust að skuld samkvæmt lánssamningunum hefur ekki verið greidd að fullu og kom fram í skýrslu vitnisins Haraldar Úlfarssonar að við útreikning hans á stöðu umstefndra lánssamninga hefði verið tekið tillit til allra hreyfinga vegna lánveitinganna, þ.m.t. allra uppgjöra og innborgana, og væri því um nettótölur að ræða. Að þessu virtu verður framangreindum mótmælum stefnda hafnað.

Áður eru rakin rök dómsins fyrir þeirri niðurstöðu dómsins að málsástæður stefnda um brostnar forsendur og sjónarmið er varða ákvæði 36. gr. laga nr. 7/1936 eigi ekki við að því er varðar sýknukröfu aðila. Sömu rök leiða til þess að ekki verður fallist á það með stefnda að kröfur stefnanda verði lækkaðar með vísan til þeirra málsástæðna.

Að öllu framangreindu virtu og með vísan til þess að fyrir liggur að stefndi hefur ekki greitt að fullu gjaldfallnar skuldir samkvæmt framlögðum þremur lánssamningum, sem gögn málsins bera með sér að reynt hefur verið að innheimta hjá honum, er það mat dómsins að fallast beri á endanlegar dómkröfur stefnanda, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Gunnar Snævar Sigurðsson, greiði stefnanda, þrotabúi BGE eignarhaldsfélags ehf., 1.698.308.018 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 41.836.189 krónum frá 30. september 2008 til 30. september 2009, af 313.178.887 krónum frá þeim degi til 30. september 2010, af 1.122.545.569 krónum frá þeim degi til 15. janúar 2011 og af 1.698.308.018 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.