Hæstiréttur íslands
Mál nr. 80/2005
Lykilorð
- Áfrýjun
- Áfrýjunarfrestur
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Fimmtudaginn 19. maí 2005. |
|
Nr. 80/2005. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn X (Logi Guðbrandsson hrl.) |
Áfrýjun. Áfrýjunarfrestur. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Bréf X þar sem hann lýsti þeirri ákvörðun sinni að áfrýja dómi á hendur sér til Hæstaréttar barst ríkissaksóknara að liðnum fjögurra vikna fresti til áfrýjunar frá birtingu dóms, sbr. 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Tekið var fram að upplýsingar í bréfi sýslumanns til ríkissaksóknara um að X vildi áfrýja dóminum væru ekki taldar geta svarað til tilkynningar um áfrýjun í skilningi ákvæðisins. Engu var talið breyta þótt X kynni að hafa fengið rangar leiðbeiningar um lok áfrýjunarfrests þegar héraðsdómur var birtur honum. Með því að X hafði ekki aflað leyfis til áfrýjunar héraðsdóms varð ekki hjá því komist að vísa málinu frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 28. janúar 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem nú hefur fallið frá áfrýjun til refsiþyngingar og krefst staðfestingar héraðsdóms.
Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að honum verði ekki gerð sérstök refsing.
Hinn áfrýjaði dómur var birtur ákærða 28. desember 2004, en hann tók sér þá frest til ákvörðunar um áfrýjun. Fyrir liggur í málinu að ákærði tjáði sýslumanninum á Höfn munnlega 18. janúar 2005 að hann vildi áfrýja dóminum og greindi sýslumaðurinn frá þessu í bréfi sama dag til ríkissaksóknara, sem fylgdi endurriti af dóminum. Með bréfi til ríkissaksóknara 24. janúar 2005 lýsti ákærði síðan þeirri ákvörðun sinni að áfrýja dóminum til Hæstaréttar. Bréfið barst ríkissaksóknara 26. janúar 2005. Var þá liðinn sá fjögurra vikna frestur til áfrýjunar frá birtingu dóms, sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 11. gr. laga nr. 37/1994, en upplýsingar í áðurnefndu bréfi sýslumanns geta ekki talist svara til tilkynningar um áfrýjun í skilningi þessa lagaákvæðis. Engu getur hér breytt þótt ákærði kunni að hafa fengið rangar leiðbeiningar um lok áfrýjunarfrests, er héraðsdómur var birtur honum, svo sem hann hefur haldið fram í málflutningi fyrir Hæstarétti. Með því að ákærði hefur ekki aflað leyfis til áfrýjunar héraðsdóms verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá Hæstarétti.
Þótt gögn málsins hafi borið með sér að áðurgreindur annmarki stæði í vegi fyrir áfrýjun dómsins til Hæstaréttar, var athygli ákærða ekki vakin á þessu áður en áfrýjunarstefna var út gefin og málsgögn útbúin í hendur Hæstaréttar. Er því rétt að leggja allan kostnað af áfrýjun sakarinnar á ríkissjóð eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Allur sakarkostnaður fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Loga Guðbrandssonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.