Hæstiréttur íslands
Mál nr. 392/2004
Lykilorð
- Bifreið
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Fyrning
|
|
Fimmtudaginn 3. febrúar 2005. |
|
Nr. 392/2004. |
Stefán Karl Harðarson (Hrafnkell Ásgeirsson hrl.) gegn Þór Halldórssyni ogVátryggingafélagi Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) |
Bifreiðir. Skaðabætur. Líkamstjón. Fyrning.
S slasaðist í umferðarslysi á árinu 1995. Talið var að hann hafi átt þess kost að afla mats og sækja bætur vegna tjóns síns á árinu 1996. Var krafa hans því fyrnd er hann höfðaði mál til heimtu bótanna í árslok 2001.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. september 2004. Hann krefst þess að stefndu verði óskipt gert að greiða sér aðallega 3.640.223 krónur, en til vara lægri fjárhæð, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. júní 2003 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjanda gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa hans verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. júní 2004.
Mál þetta, sem dómtekið var 11. júní sl., er höfðað 28. desember 2001 af Stefáni Karli Harðarsyni, kt. 250766-3279, Háaleitisbraut 109, Reykjavík, á hendur Þór Halldórssyni, kt. 171264-5619, Bogaslóð 16, Höfn, og Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða honum 3.640.223 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt IV. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 10. júní 2003 til greiðsludags og að vextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 10. júní 2004 samkvæmt 12. gr. sömu laga. Einnig krefst stefnandi málskostnaðar ásamt virðisaukaskatti úr hendi stefndu samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Stefndu krefjast aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins, en til vara að kröfur stefnanda verði stórlækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Stefnandi var farþegi í bifreiðinni HÖ-557 er ökumaður missti stjórn á henni að morgni 1. júlí 1995 á Skeiðavegi á móts við Miðfell í Hrunamannahreppi en bifreiðin fór út fyrir veg og hafnaði í skurði. Stefnandi meiddist í baki og var hann fluttur á slysadeild Borgarspítalans sama dag. Samkvæmt gögnum málsins kvartaði hann við komu þangað undan eymslum yfir brjósthrygg. Rannsóknir leiddu í ljós brot á brjósthrygg og að tveir hryggjarliðir höfðu fallið saman. Í apríl 2003 var örorka stefnanda metin 10% svo og varanlegur miski, einnig 10%.
Í málinu krefst stefnandi bóta úr höndum stefndu vegna slyssins, annars vegar á hendur stefnda Þóri samkvæmt 1. mgr. 88. gr. og 1. mgr. 90. gr. umferðarlaga nr. 50/1988, en hann var eigandi bifreiðarinnar þegar slysið varð, og hins vegar á hendur stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. samkvæmt 91. gr. sbr. 95. gr. sömu laga, en bifreiðin var ábyrgðartryggð hjá hinu stefnda félagi. Stefndu hafna bótaskyldu, annars vegar með vísan til þess að krafa stefnanda sé fyrnd samkvæmt 99. gr. umferðarlaga og hins vegar sökum þess að stefnandi hefði vitað eða mátt vita að ökumaður bifreiðarinnar hafi verið ófær um að stjórna bifreiðinni vegna áfengisáhrifa. Stefnandi hafi því sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að fara upp í bifreiðina og hafi hann þar með fyrirgert bótarétti, alfarið eða að hluta, annað hvort samkvæmt 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga eða reglum um eigin áhættutöku. Stefnandi mótmælir því að krafa hans hafi fyrnst og að ökumaður bifreiðarinnar hafi verið undir áhrifum áfengis þegar slysið varð.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Af stefnanda hálfu er málsatvikum lýst þannig að aðfaranótt föstudagsins 30. júní 1995 hafi Þórarinn Finnbogason farið í sumarbústað Félags framreiðslumanna í Grímsnesi ásamt stefnanda og vini þeirra, Jóni Þór Friðgeirssyni. Að kvöldi sama dags hafi Marta Þyri Gunndórsdóttir og Karl Ísleifsson komið í bústaðinn. Karl hafi komið á bifreiðinni HÖ-557 sem stefndi Þór Halldórsson eigi, en hann hafi lánað Karli bifreiðina. Stefnandi, Þórarinn, Jón og Marta hafi neytt áfengis í bústaðnum en Karl ekki. Um kvöldið hafi þau farið í veitingahúsið Gjána á Selfossi og snúið til baka í sumarbústaðinn um nóttina. Eftir það hafi þeir Karl og stefnandi farið á bifreið stefnda Þórs að Minna-Núpi í Gnúpverjahreppi og hafi Karl ekið bifreiðinni. Þar hafi þeir farið í heitan pott við sumarbústað sem kunningjafólk þeirra hafi átt. Þeir hafi dvalið um klukkustund í pottinum og haldið svo til baka. Á leiðinni hafi Karl ekið á 80 til 90 km hraða á klukkustund. Skyndilega hafi hann lent út fyrir klæðninguna á veginum en bifreiðin hafi farið niður halla, lent stjórnlaust í gróðri og loks endastungist og hafnað í skurði. Þeir félagar hafi slasast verulega og hafi stefnandi fundið til sársauka í baki en Karl í vinstri öxl og fæti. Karl hafi þá gripið til flösku, sem hafi verið í bílnum, til þess að reyna að lina þjáningarnar. Í flöskunni hafi verið ríflega ¼ af óblönduðu rommi og hafi hann drukkið það allt á staðnum.
Stefnandi hafi verið fluttur á slysadeild Borgarspítalans í Reykjavík til meðferðar. Hann hafi verið undir læknishendi og frá vinnu í nokkra mánuði. Stefnandi hafi ákveðið að bíða með að afla örorkumats þar til ljóst yrði hve alvarleg meiðslin reyndust. Óþægindi og verkir hafi aukist mjög undanfarið en beðið hafi verið eftir læknisvottorðum til þess að unnt væri að meta tjónið og reikna það til fjár.
Stefnandi mótmæli því að Karl hafi drukkið áfengi fyrir slysið, hvorki í sumarbústað framreiðslumanna né á Selfossi, enda hefði stefnandi aldrei stigið upp í bílinn hjá honum hefði hann haft minnsta grun um að hann hefði verið undir áfengisáhrifum. Ekki hafi verið ákært eða höfðað opinbert mál á hendur Karli og sé það staðfesting á því að ekki hafi verið grunur yfirvalda um að hann hafi verið undir áhrifum áfengis við aksturinn. Engin gögn í málinu styðji þá staðhæfingu stefndu að ökumaður bifreiðarinnar hefði neytt áfengis fyrir akstur eða að hann hefði verið undir áfengisáhrifum er hann ók bifreiðinni. Hann hafi hins vegar drukkið romm eftir slysið og skýri það hvers vegna áfengi hafi mælst í blóði hans og þvagi síðar um daginn.
Stefnandi vísi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 265/2001 frá 13. desember 2001, en samkvæmt honum megi ætla að kröfur stefnanda í þessu máli fyrnist 31. desember 2001. Tímabært hafi verið að meta afleiðingar slyssins einu til þremur árum eftir það. Þess vegna hafi málið verið höfðað í tæka tíð og fyrningu kröfunnar verið slitið samkvæmt 11. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905. Kröfur hafi verið settar fram þegar fyrir hafi legið örorkumat og útreikningur á tjóni stefnanda en kröfur stefnanda byggi á útreikningum Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings frá 10. júní 2003.
Stefnandi byggi kröfur sínar á því að stefndi Þór, eigandi og tryggingartaki bifreiðarinnar HÖ-557, beri ábyrgð á tjóninu samkvæmt XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987, einkum 88. gr. og 1. mgr. 90. gr., en stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. beri ábyrgð á tjóninu samkvæmt sama lagakafla, einkum 91. gr., sbr. 95. gr. Aksturslag Karls hafi leitt til slyssins og varði sú háttsemi við framangreind lög. Stefnandi vísi einnig til skaðabótalaga nr. 50/1993 og laga nr. 2/1993 um íslenska efnahagssvæðið. Krafan um málskostnað byggðist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um samaðild og varnaraðild sé vísað til 1. mgr. 18. gr. og 2. mgr. 19. gr. sömu laga.
Málsástæður og lagarök stefndu
Stefndu lýsa málsatvikum þannig að laugardagsmorguninn 1. júlí 1995 hafi stefnandi slasast sem farþegi í bifreið stefnda Þórs. Slysið hafi orðið með þeim hætti að Karl Ísleifsson, sem hafi haft bifreiðina að láni, hafi ekið henni undir áhrifum áfengis eftir Skeiðarvegi og út af veginum í beygju móts við Miðfell, þar sem bifreiðin hafi hafnað á hvolfi úti í skurði eftir að hafa farið um 160 m vegalengd utan vegar eins og fram komi í lögregluskýrslu.
Lögreglunni í Árnessýslu hafi verið tilkynnt um slysið kl. 10.10 og að stefnandi hefði komist undir læknishendur í Laugarási. Hafi tveir lögreglumenn farið þangað og hitt stefnanda. Hann hafi sjáanlega verið undir áhrifum áfengis og hafi verið tekið úr honum blóð og þvagsýni. Áfengismagn hafi verið 1,17 í blóðinu og 1,23 í þvagi. Stefnandi hafi sagt ökumann bifreiðarinnar hafa fengið sér hótelherbergi á Flúðum. Lögreglumennirnir hafi næst farið á slysstað og tekið ljósmyndir. Í bifreiðinni HÖ-557 hafi þeir fundið axlarfulla flösku af eplalíkjör og fimm dósir af bjór auk fimm tómra bjórdósa. Þeir hafi síðan farið að Flúðum. Á hótelinu hafi þeir hitt hótelstýruna, sem hafi sagt þeim að stefnandi og félagi hans hefðu komið á hótelið um kl. 9.15 til 9.30 um morguninn, mjög óhreinir og illa til hafðir og sagt að þeir hefðu dottið. Hún hafi talið þá ölvaða. Hún hafi vísað lögreglumönnunum á herbergi Karls og hafi þeir hitt hann þar fyrir. Hann hafi verið með skurð á höku og smáskrámur í andliti og kvartað undan þrautum í öxl og fæti. Sterkan áfengisdaun hafi lagt frá vitum hans. Hann hafi sagt að hann hefði lent í “fætingi” við stefnanda. Hann hafi tjáð lögreglumönnunum að hann hefði farið í veitingahúsið Gjána á Selfossi kvöldið áður og neytt þar áfengis. Blóðsýni hafi verið tekið úr Karli kl. 13.10 og þvagsýni kl. 13.15. Áfengismagn hafi mælst 0,69 í blóði og 1.53 í þvagi.
Samkvæmt framburði vitnisins Mörtu Þ. Gunnarsdóttur hjá lögreglu hafi hún komið í sumarbústað framreiðslumanna um kl. 21 á föstudagskvöldið. Hún hafi sagt þá stefnanda, Þórarinn Finnbogason og Jón Þór Friðgeirsson hafa verið þar fyrir og Karl Ísleifsson hafi komið á bifreiðinni HÖ-557 um stundu síðar. Hefði Karl fengið sér romm og kók, en stefnandi hafi nýlega verið byrjaður að neyta áfengis þegar hún kom í bústaðinn. Þau hefðu síðan öll fimm farið í veitingahúsið Gjána og verið þar til um kl. 3 um nóttina er þeim hafi verið ekið í leigubifreið í bústaðinn. Marta hafi sagst hafa séð bæði Karl og stefnanda neyta áfengis í Gjánni, en hún hafi ekki vitað hve mikils þeir neyttu þar. Þau hafi öll fimm verið undir áfengisáhrifum.
Vitnið Þórarinn Finnbogason hafi verið í sumarbústað framreiðslumanna umrætt föstudagskvöld ásamt stefnanda og Jóni Þór þegar Marta og Karl komu þangað. Kvaðst vitnið þá hafa verið sofandi, en vaknað milli kl. 21 og 22 og hafi Karl þá verið að drekka romm og stefnandi bjór. Hafi þau fimm síðan farið í veitingahúsið Gjána og verið þar til lokunar og fengið leigubíl aftur í sumarbústaðinn. Hafi þau öll verið undir áfengisáhrifum er þau komu úr Gjánni. Vitnið hafi séð Karl og stefnanda neyta áfengis þar, en hann hafi ekki getað sagt til um hve mikils. Vitnið hafi fljótlega farið að sofa og hafi Karl og stefnandi þá verið í bústaðnum.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu hafi Karl neitað að hafa ekið bifreiðinni HÖ-557 undir áfengisáhrifum. Hann hafi komið á bifreiðinni í sumarbústaðinn og verið þar með kunningjum sínum, stefnanda, Þórarni og Jóni, og einnig hefði Marta verið þar. Þau hefðu öll neytt áfengis í sumarbústaðnum nema hann. Þau hafi pantað leigubíl og farið í veitingahúsið Gjána og aftur til baka eftir lokun. Hefðu Jón, Þórarinn og Marta þá farið að sofa, en þeir stefnandi ákveðið að aka frá sumarbústaðnum upp að Minna-Núpi í Gnúpverjahreppi og fara þar í heitan pott við sumarbústað hjá kunningjafólki. Hafi þeir verið um klukkustund í pottinum og verið á leið til baka í bústaðinn í Grímsnesi þegar slysið varð. Hann hafi ekið á 80 til 90 km hraða á klukkustund og allt í einu lent út fyrir klæðninguna á veginum. Hafi bifreiðin farið niður halla og haldið áfram stjórnlaust í gróðri og endað með því að endastingast og hafna á hvolfi ofan í skurði. Hann hafi fengið mikið sjokk við slysið og gripið til rommflösku, en í henni hafi verið ríflega fjórðungur af óblönduðu rommi. Hann hafi klárað úr henni á slysstaðnum og fundið til áfengisáhrifa af því. Hann hafi hent flöskunni frá sér, en nánar hvar hafi honum ekki verið ljóst. Hefðu þeir stefnandi dvalið í um 30 mínútur við bifreiðina og síðan gengið af stað áleiðis að Flúðum. Fljótlega hafi bifreið komið að og hafi þeim verið ekið að Hótel Flúðum. Hann hafi ekkert áfengi drukkið í sumarbústaðnum eða Gjánni. Væri þar um misskilning að ræða hjá Mörtu og Þórarni. Lögreglumennirnir hafi ekki fundið rommflösku á slysstað eða nágrenni og ekki hafi Karl getað skýrt nánar hvar hann hefði hent flöskunni.
Stefnandi hafi verið 28 ára að aldri á slysdegi og hefði starfað sem prentari. Hann hafi verið fluttur á slysadeild Borgarspítalans í Reykjavík. Hefði hann hlotið brot á tveim brjósthryggjarliðum, en ekki hafi verið talin ástæða til aðgerðar, þó gibbusstaða væri á brotstað, þar sem engin aflögun hafi verið á mænugangi. Hann hafi verið útskrifaður af sjúkrahúsinu 6. júlí 1995 í stuðningsbelti. Hann hafi síðan verið í sjúkraþjálfun og útskrifast úr henni 27. október sama ár. Hann hafi verið skráður óvinnufær til 3. nóvember s.á., en eftir það hafi hann unnið fulla vinnu. Síðast hafi hann komið í eftirlit 11. janúar 1996 og hafi hann þá haft mjög lítil óþægindi, spilað golf og gert nánast allt sem hann hafi viljað gera. Þreytuóþægindi hafi þó stundum verið í brjósthrygg. Gert hafi verið ráð fyrir að hann kæmi til lokaskoðunar á spítalann ári eftir slysið, en hann hafi ekki mætt.
Rúmum sex árum eftir slysið, eða 17. desember 2001, hafi stefnandi leitað til spítalans vegna bakóþæginda, sem hann hafi kennt í bílslysinu 1995, og hafi þá verið gert beinaskann og tekin röntgenmynd af brjósthrygg. Með birtingu stefnu 28. desember 2001 hafi stefnandi svo höfðað mál þetta til að rjúfa fyrningu á skaðabótakröfu vegna líkamstjóns sem hann hafi hlotið í slysinu, en bótakrafan hafi í upphafi verið áætluð. Stefnandi hafi síðan leitað til Björns Önundarsonar læknis um mat á heilsufarslegum afleiðingum slyssins. Samkvæmt matsgerð læknisins 16. apríl 2003 hafi hann metið stefnanda 10% varanlegan miska og 10% varanlega örorku af völdum slyssins auk tímabundinnar óvinnufærni í 95 daga og þjáningatíma til jafnlengdar. Á grundvelli matsins og tjónsútreiknings tryggingafræðings hafi stefnandi sett fram endanlegar dómkröfur í málinu 26. júní 2003. Stefnandi byggi bótakröfuna á því að stefndu beri ábyrgð á tjóninu samkvæmt fébótareglum XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987, sérstaklega 88. gr. og 1. mgr. 90. gr.
Af hálfu stefndu sé bótaskyldu andmælt og krefjast stefndu sýknu af öllum kröfum stefnanda. Sýknukrafan sé í fyrsta lagi byggð á því að bótakrafa stefnanda sé fyrnd samkvæmt 4 ára fyrningarreglu 99. gr. umferðarlaga. Hafi heilsufarslegt ástand stefnanda verið orðið stöðugt innan árs eftir slysið og þá tímabært að meta afleiðingar þess, reikna út bótafjárhæð og setja fram kröfugerð. Hafi stefnandi því fyrst átt þess kost að leita fullnustu kröfu sinnar um mitt ár 1996 og ekki seinna en fyrir árslok það ár. Þótt verkir hafi aukist fimm árum eftir slysið hafi engin þörf verið á að bíða með mat eftir að slík einkenni kæmu fram. Stefndu vísi í því sambandi til matsgerðar og framburðar matsmannsins Atla Þórs Ólasonar læknis fyrir dóminum. Stefnandi hafi ótvírætt getað aflað mats um ári eftir slysið eins og þar hafi komið fram. Kröfur stefnanda hafi því fyrnst í árslok 2000, en stefnan í málinu hafi ekki verið birt fyrr en 28. desember 2001.
Sýknukrafa stefndu sé í annan stað á því byggð að fella beri alveg niður skaðabætur til stefnanda á grundvelli 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga þar sem stefnandi hafi vitandi vits tekið sér far með ölvuðum ökumanni er olli slysinu og með því sýnt af sér stórkostlegt gáleysi og fyrirgert bótarétti sínum. Stefndu vísa í því sambandi til framburða vitnanna Mörtu og Þórarins um að stefnandi og Karl hafi ásamt hinum setið að drykkju kvöldið og nóttina áður en ökuferð Karls og stefnanda hófst, fyrst í sumarbústaðnum í Grímsnesi og síðan á veitingastaðnum Gjánni. Karl hafi viðurkennt fyrir lögreglunni sama dag og slysið varð að hafa nóttina áður farið í veitingahúsið Gjána og neytt þar áfengis. Allt bendi til þess að stefnandi og Karl hafi haldið áfram drykkju eftir það og allt þar til slysið varð, þ.á m. í bifreiðinni HÖ-557, en þar hafi fundist bæði áteknar og óáteknar bjórdósir auk axlarfullrar líkjörsflösku. Þá hafi mælst 0.69 af alkóhóli í blóði Karls mörgum klukkustundum eftir aksturinn og 1.52 í þvagi. Hafi áfengismagn í blóði Karls þegar slysið varð því verið langt yfir þeim mörkum er menn teljist óhæfir til að stjórna ökutæki samkvæmt 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Stefnandi hljóti að hafa vitað áður en hann fór í ökuferðina með Karli um nóttina að hann hafi verið undir miklum áfengisáhrifum og alls óhæfur til að aka bifreið sökum áfengisneyslu og svefnleysis. Stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að fara í ökuferðina undir þessum kringumstæðum og hafi hann með því fyrirgert bótarétti sínum. Stefnandi hefði ekkert sér til afsökunar. Síðari framburður Karls um rommdrykkju eftir slysið, en enga áfengisneyslu fyrir það, fái ekki staðist enda hafi engin rommflaska fundist á slysstaðnum, en nóg af öðrum áfengisumbúðum. Síðari framburður Karls stangist enn fremur á við það sem hann hafi áður sagt lögreglunni um að hann hafi neytt áfengis á veitingastaðnum Gjánni. Sönnunarbyrðin hvíli á stefnanda um að Karl hafi einskis áfengis neytt fyrir slysið eða að stefnandi hafi verið grandlaus um áfengisneyslu Karls, en hvorugt sé sannað.
Loks byggi stefndu sýknukröfuna á því að bótaréttur stefnanda hafi fallið niður samkvæmt reglum skaðabótaréttar um missi bóta vegna áhættutöku, þá er maður slasist í bifreið með ölvuðum ökumanni, en slík regla hafi gilt á þeim tíma er slysið varð, sbr. bindandi dómvenjureglu Hæstaréttar, sem fyrst hafi verið aflögð með dómi réttarins 25. október 2001 í málinu nr. 129/2001. Sú breyting sé sambærileg því að settum lögum hefði verið breytt, en í íslenskum rétti sé meginregla að lög virki ekki aftur fyrir sig. Beri því einnig að sýkna stefndu af kröfum stefnanda á þeim grundvelli að stefnandi hafi með áhættutöku firrt sig rétti til bóta úr hendi stefndu.
Varakrafa stefndu sé á því byggð að stórlækka beri bætur til stefnanda á grundvelli 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga, að minnsta kosti um tvo þriðju með hliðsjón af framangreindum dómi Hæstaréttar. Jafnframt beri að lækka bótakröfuna tölulega. Vextir til útreikningsdags að fjárhæð 530.123 krónur séu ekki hluti höfuðstóls skaðabóta og beri að lækka bótakröfuna sem því nemi. Vextir eldri en 4 ára frá birtingu stefnu séu fyrndir og kröfu um dráttarvexti sé andmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.
Niðurstaða
Kröfur stefnanda í málinu eru byggðar á lagaákvæðum í XIII. kafla umferðarlaga, en samkvæmt 99. gr. laganna fyrnast allar bótakröfur samkvæmt þeim kafla á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Stefnandi heldur því fram að ekki hafi verið tímabært að meta tjónið fyrr en eftir að afleiðingar slyssins voru að fullu komnar fram. Af stefndu hálfu er því haldið fram að fyrningarfrestur samkvæmt framangreindri lagagrein hafi byrjað að líða í lok ársins 1996, enda hafi verið tímabært að meta afleiðingar slyssins fyrir stefnanda einu ári eftir slysið.
Í læknisvottorði Hauks Árnasonar á bæklunarlækningadeild Landspítalans í Fossvogi frá 7. febrúar 2002 er brotum á brjóstliðum stefnanda lýst. Þar kemur einnig fram að stefnandi hafi legið á bæklunarlækningadeild frá 1. til 7. júlí 1995. Stefnandi hafi komið til eftirlits 1. ágúst sama ár og aftur 31. sama mánaðar. Hann hafi þá verið í stuðningsbelti og hafi hann verið að mestu verkjalaus. Í eftirliti 15. október sama ár hafi stefnandi verið nokkuð stirður í baki en verkjalaus og hafði ekki notað beltið. Stefnandi var í sjúkraþjálfun frá 10. til 27. október sama ár en eftir það var gert ráð fyrir að hann stundaði æfingar sjálfur og fram kemur að hann hafi farið í bakskóla og fengið hljóðbylgjur á auma bletti í bakinu. Stefnandi hafi verið talinn óvinnufær frá slysdegi til 3. nóvember sama ár. Hann hafi síðast komið í lækniseftirlit 11. janúar 1996. Í vottorðinu kemur fram að gert hafi verið ráð fyrir að stefnandi kæmi til skoðunar ári eftir slysið til að fá röntgenmyndir teknar og skoðun með tilliti til vottorðagerðar, en það hafi hann ekki gert. Hann hafi næst komið á bæklunarlækningadeildina 17. desember 2001 vegna óþæginda í baki sem hann hafi talið stafa af áverkunum er hann hlaut í bílslysinu. Á beinaskannmyndum af brjósthrygg, sem teknar voru 19. sama mánaðar, hafi gibbusstaða á milli VI. og VII. brjóstliða mælst 35˚ en hefði mælst 30˚ á árinu 1995. Loks segir í vottorðinu að það sé skráð fyrir stefnanda til að hann geti innheimt skaðabætur frá tryggingafélagi bifreiðarinnar sem hann var í. Þrátt fyrir að stefnandi hafi fengið greiningu á framangreindum áverkum og viðeigandi læknismeðferð vegna þeirra frá slysdegi þar til í janúar 1996 hafa engin læknisfræðileg gögn verið lögð fram af hans hálfu sem hafa orðið til fyrir dagsetningu þessa læknisvottorðs.
Stefndu hafa lagt fram matsgerð Atla Þórs Ólasonar læknis sem dómkvaddur var að þeirra beiðni til að meta hvenær fyrst hafi verið tímabært að meta heilsufarslegar afleiðingar slyssins fyrir stefnanda. Í matsgerðinni frá 15. febrúar 2004 kemur meðal annars fram að brot á sjötta og sjöunda brjósthryggjarlið hafi verið meðhöndlað með bolbelti og hafi þau gróið á eðlilegum tíma. Meðferð og eftirliti hafi verið lokið 11. janúar 1996. Stefnandi hafi verið óvinnufær frá slysi til 3. nóvember sama ár. Eftir það hafi hann haft mjög væg einkenni í kringum miðbik brjósthryggjar fram til ársins 2000 en þá hafi óþægindi aukist og hafi þau leitt upp í háls. Stefnandi hafi leitað til bæklunarskurðlæknis líklegast á árinu 2000 en gögn liggi ekki fyrir um þá heimsókn. Hann hafi leitað á slysadeild 17. desember 2001 vegna vaxandi óþæginda í baki sem hafi aukist er líða tók á daginn en hafi ekki truflað svefn. Líkamsskoðun og röntgenmyndir hafi í aðalatriðum sýnt sömu niðurstöðu og hafi verið þekkt í ágústlok 1995. Þótt gibbusstaða virtist hafa aukist úr 30˚ í 35˚ gæti munurinn skýrst að öllu eða hluta af mismunandi stöðu hryggjar við myndatöku. Því sé gert ráð fyrir að útlit hryggjar hafi í aðalatriðum verið óbreytt frá 1995 þar til matið fór fram. Í matinu segir síðan að gróandi brota og eftirmeðferð hafi verið með eðlilegum hætti og hafi henni formlega verið lokið í janúar 1996. Eftir það hafi ekkert gerst í sjúkrasögu stefnanda varðandi hrygginn, sem hafi þurft sérstakrar meðferðar við, og engin heilsufarsleg atriði hafi komið upp sem breyti varanlegum miska. Miðað við þessa lýsingu megi telja að fyrst hafi verið hægt að meta varanlegar afleiðingar slyssins um það bil einu ári eftir það. Á þeim tíma hafi beinbrot verið að gróa og eftirlit og eftirmeðferð hafi farið fram. Við það megi bæta hálfu ári meðan stefnandi hafi sjálfur verið að jafna sig. Almenn venja sé að bíða með mat á varanlegum heilsufarslegum afleiðingum í eitt ár eftir slys en hjá stefnanda hafi að þeim tíma liðnum engin sérstök atriði komið fram sem hafi mælt með að fresta mati. Miðað við þá vinnureglu sem áður hafi gilt hjá tryggingafélögum, að bíða í þrjú ár eftir slys þar til örorka væri metin, mætti draga þá ályktun að eðlilegt hefði verið að bíða allt að þremur árum eftir slysið þar til mat færi fram. Á þeim tíma hafi einkenni sem stefnandi hafi haft verið lítil og hafi ekki gefið tilefni til að ætla að varanlegur miski myndi aukast og hefði því verið hægt að framkvæma matið á þessum tíma. Óþægindi stefnanda í brjósthrygg hafi aukist og farið að leiða upp í háls líklega á árinu 2000 en hafi verið staðfest í desember 2001 er liðin voru fimm ár frá slysinu. Þessi óþægindi séu þekkt og innbyggð í þá miskatölu sem sé ákveðin til framtíðar. Að mati matsmannsins hafi ekki verið sérstök þörf á að bíða eftir að slík einkenni kæmu fram til að hægt væri að meta þau þar sem mat á beinskaða í líkingu við þann sem stefnandi varð fyrir hafi oft í för með sér breytileg einkenni er fram í sækti. Svar matsmanns við því hvenær fyrst hafi verið tímabært að meta heilsufarslegar afleiðingar slyssins fyrir stefnanda er í matsgerðinni þannig að tímabært hafi verið að meta þær einu til þremur árum eftir slysið. Er matsmaður kom fyrir dóm útskýrði hann misræmi sem virðist vera í matsgerðinni þar sem annars vegar er rökstutt að tímabært hafi verið að meta afleiðingar slyssins einu ári eftir það og hins vegar að það hafi verið tímabært einu til þremur árum eftir slysið. Í framburði matsmannsins kom fram að orðalagið í matsgerðinni um að tímabært hafi verið að meta heilsufarslegar afleiðingar slyssins fyrir stefnanda einu til þremur árum eftir slysið hafi fyrst og fremst verið miðað við verklagsreglur tryggingafélaganna, sem minnst er á í matinu, og hafi það verið gert til að halda öllu til haga. Meginniðurstaðan hafi engu að síður verið sú, eins og fram komi í matsgerðinni, að tímabært hafi verið að meta afleiðingar slyssins fyrir stefnanda einu ári eftir það. Matsmaður taldi ekki rétt að miða við þessar verklagsreglur um það hvenær ætti að meta afleiðingar slyss. Miða ætti við þann tíma þegar brot væri tryggilega gróið, farið hefði fram endurhæfing og síðan að einhverjum smátíma liðnum, sem fólk hefði til að jafna sig og komið hefði í ljós hverjar afleiðingarnar hefðu orðið, þá væri hægt að meta þær.
Við úrlausn málsins verður samkvæmt framangreindu að leggja til grundvallar að niðurstaða matsmanns sé sú að tímabært hafi verið að meta afleiðingar slyssins einu ári eftir það, en mati á því og á öðru, sem hér að framan er rakið, hefur ekki verið hnekkt af hálfu stefnanda. Ekkert í gögnum málsins gefur heldur tilefni til að ætla að stefnandi hafi ekki átt þess kost að leita mats á afleiðingum slyssins þegar ár var liðið frá því eða að hann hafi af einhverjum ástæðum þurft að bíða með að afla slíks mats. Þótt stefnandi hafi fengið aukna verki í bakið á árinu 2001 og þá leitað læknis verður ekki unnt að líta svo á að honum hafi þar með verið rétt að bíða með að afla mats um tjónið, enda liggur fyrir samkvæmt framangreindri matsgerð Atla Þórs og framburði hans fyrir dóminum að einkenni vegna varanlegs miska geta verið mismikil og þau geti aukist eða minnkað frá matsdegi sem matsmaður telur að eigi að vera innifalið í matstölunni. Matsmaður taldi enn fremur að aðeins væri ástæða til að taka mat upp aftur ef fram komi atriði sem breytist á annan hátt en þann sem hér um ræði. Mat á miska sé byggt á vefrænum skemmdum eða breytingum en ekki verkjum sem reiknað sé með að geti verið breytilegir.
Með vísan til þessa verður að telja að stefnandi hafi átt þess kost að afla mats og leita fullnustu um kröfurnar sem hér um ræðir á árinu 1996 og hafi fyrningarfrestur samkvæmt framangreindri lagagrein því byrjað að líða í lok þess árs. Samkvæmt því voru kröfur stefnanda fyrndar samkvæmt 99. gr. umferðarlaga þegar málið var höfðað í desember 2001. Ber með vísan til þess að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í málinu.
Rétt þykir með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 að málskostnaður falli niður.
Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
DÓMSORÐ:
Stefndu, Þór Halldórsson og Vátryggingafélag Íslands hf., eru sýknuð af kröfum stefnanda, Stefáns Karls Harðarsonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.