Hæstiréttur íslands
Mál nr. 92/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 7. mars 2005. |
|
Nr. 92/2005. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Jón Egilsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. mars 2005. Kærumálsgögn bárust réttinum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2005, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 6. apríl 2005 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.
Varnaraðili hefur setið í gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna, sbr. a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, frá 28. október 2004 til 13. desember sama ár, en frá þeim degi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laganna, síðast með dómi Hæstaréttar 24. janúar 2005 í máli nr. 32/2005 allt til fimmtudagsins 3. mars 2005 kl. 16. Var fallist á með sóknaraðila að sterkur grunur væri fram kominn um að varnaraðili hefði framið brot, sem að lögum gæti varðað allt að 12 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Rannsóknargögn, sem síðar hafa verið lögð fram í málinu, breyta ekki þessu mati Hæstaréttar. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2005.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan máli hans er ekki lokið en þó eigi lengur en til fimmtudagsins 14. apríl 2005 kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglustjórans í Reykjavík segir að ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans rannsaki meint brot gegn almennum hegningarlögum er varði stórfelldan innflutning fíkniefna til landsins. Rannsókn málsins hafi staðið yfir um alllangt skeið og fjöldi manna gefið skýrslur með réttarstöðu sakbornings. Málið sé umfangsmikið og taki til fleiri en einnar fíkniefnasendingar, sem lögregla hafi lagt hald á, og sé aðild hinna grunuðu í nokkrum tilvikum einskorðuð við einstakar sendingar. Kærði sé grunaður um að hafa staðið fyrir innflutningi á 7.694,98 g af amfetamíni, en efnið hafi verið falið í vörusendingu, sem lögreglan hafi lagt hald á þann 21. júlí sl. Þáttur kærða sé talinn verulegur þar sem hann sé grunaður um að hafa staðið að skipulagningu, fjármögnun og kaupum á fíkniefnunum.
Kærði hafi verið handtekinn þann 27. október sl. og honum gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna til 11. nóvember sl. Hæstiréttur hafi staðfest úrskurð héraðsdóms þann 1. nóvember sl., sbr. mál réttarins nr. 432/2004. Þann 11. nóvember sl. hafi gæsluvarðhald kærða verið framlengt á sama grundvelli til 25. nóvember sl. Hæstiréttur hafi staðfest úrskurð héraðsdóms þann 15. nóvember sl. um framlengingu gæsluvarðhaldsins en lagt fyrir héraðsdómara að taka til efnismeðferðar kröfu kærða um úrskurð um tilhögun gæsluvarðhaldsins, sbr. mál réttarins nr. 447/2004. Þann 25. nóvember sl. hafi gæsluvarðhald kærða verið framlengt á sama grundvelli til 9. desember sl. Hæstiréttur hafi staðfest úrskurð héraðsdóms þann 29. nóvember sl., sbr. mál réttarins nr. 470/2004. Þann 9. desember sl. hafi gæsluvarðhald kærða verið framlengt á grundvelli almannahagsmuna til 20. janúar sl. Hæstiréttur hafi staðfest úrskurð héraðsdóms þann 13. desember sl., sbr. mál réttarins nr. 489/2004. Þann 20. janúar sl. hafi gæsluvarðhaldið verið framlengt á sama grundvelli. Hæstiréttur hafi staðfest úrskurð héraðsdóms þann 24. janúar sl., sbr. mál réttarins nr. 32/2005.
[...]
Á grundvelli þess sem fram hafi komið við rannsókn málsins þyki kærði vera undir sterkum rökstuddum grun um að hafa framið brot sem geti varðað fangelsi allt að 12 árum, sbr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga. Brot kærða þyki mjög alvarlegt en það lúti að innflutningi á miklu magni af amfetamíni og sé meintur þáttur kærða að brotastarfseminni talinn vera stór. [...]
Hagsmunir almennings krefjist þess að kærði gangi ekki laus heldur sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gangi í máli hans. Þyki staða kærða sambærileg stöðu annarra sakborninga í sömu rannsókn sem einnig sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna, sbr. mál Hæstaréttar nr.: 488/2004, 483/2004, 429/2004 og 423/2004. Verði þannig að telja áframhaldandi gæsluvarðhald nauðsynlegt vegna almannahagsmuna.
Rannsókn málsins hafi tafist vegna [...]. Að öðru leyti sé rannsókn málsins talin vera á lokastigi, unnið sé að frágangi málsins, skjalmerkingum og greinargerðum, en málið verði á allra næstu dögum sent embætti ríkissaksóknara til ákærumeðferðar.
Lögreglan kveður sakarefnið vera talið varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.
Kærði var handtekinn þann 27. október sl. og hefur sætt gæsluvarðhaldi síðan. Á gæsluvarðhaldstímabilinu hefur kærði neitað allri aðild að málinu og talið framkomnar upplýsingar frá öðrum sakborningum rangar og ósannaðar. Þá hafi annar sakborningur í málinu breytt framburði sínum varðandi aðild kærða. Með dómum Hæstaréttar Íslands, síðast í málinu nr. 32/2005, var talið að brot þau er kærði væri undir grun um að hafa framið væru þess eðlis að telja yrði að gæsluvarðhald væri nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Væri því fullnægt skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til gæsluvarðhalds yfir kærða. Á þessu hefur ekki orðið breyting. Svo sem rakið er í kröfugerð lögreglustjóra er rannsókn málsins á lokastigi. Unnið sé að frágangi gagna málsins, skjalamerkingum og greinargerðum. Gæsluvarðhaldsvist kærða nemur nú ríflega fjórum mánuðum. Í því ljósi verður að leggja á það alla áherslu að hraðað verði svo sem kostur er afgreiðslu málsins, s.s skjalafrágangi og merkingum skjala. Verður því fallist á kröfu lögreglustjóra um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir kærða, en gæsluvarðhaldi ekki markaður lengri tími en til miðvikudagsins 6. apríl nk. kl. 16.00.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi meðan máli hans er eigi lokið, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 6. apríl 2005 kl. 16.00.