Hæstiréttur íslands
Mál nr. 400/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Riftun
- Málshöfðunarfrestur
- Sakarauki
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Mánudaginn 25. ágúst 2014. |
|
Nr. 400/2014.
|
Kaupþing hf. (Grímur Sigurðsson hrl.) gegn BPI Gestão de Activos Sociedade Gestora de Fundos de Investimento Mobiliário SA (Heimir Örn Herbertsson hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Riftun. Málshöfðunarfrestur. Sakarauki. Vanreifun. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Kærður var úrskurður þar sem máli, sem K hf. beindi aðallega að BI en til vara að BP, var vísað frá dómi að því er BP varðaði. K hf. höfðaði málið upphaflega á hendur BI, sem K hf. taldi eiganda að tilgreindum hlutum í skuldabréfum útgefnum af K hf., til riftunar á greiðslum vegna kaupa K hf. á hlutdeildinni í skuldabréfunum og endurheimtu á fjárhæð greiðslnanna ásamt dráttarvöxtum. BI hélt því fram að þær fjárfestingar sem málið varðaði hefðu verið gerðar í þágu BP og að BI hefði einungis komið þar fram til milligöngu. K hf. kvaðst fyrst hafa fengið vitneskju um þetta í greinargerð BI í héraði og höfðaði við svo búið sakaukasök á hendur BP, þar sem sömu kröfum og beint hafði verið að BI var nú beint að BP til vara að baki kröfum í frumsök. Í héraði hafði frávísunarkröfu BI verið hafnað, en með hinum kærða úrskurði var samhljóða krafa BP tekin til greina. Hæstiréttur hafnaði því að skilyrði væru fyrir hendi til að verða við kröfu BP um frávísun málsins frá héraðsdómi að því er hann varðaði, meðal annars með skírskotun til þess að málshöfðunarfrestur hefði ekki verið liðinn þegar sakaukasök var höfðuð, að skilyrði til sakaraukningar í málinu væru uppfyllt og að ekki væru þeir annmarkar á málatilbúnaði K hf. sem valdið gætu frávísun málsins frá héraðsdómi. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar að því er varðaði BP.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. júní 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. maí 2014, þar sem máli, sem sóknaraðili beindi aðallega að Banca IMI SpA og til vara að varnaraðila, var vísað frá dómi að því er þann síðarnefnda varðar. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar gagnvart varnaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila, sem áður hét Kaupþing banki hf., gaf hann út á grundvelli skilmála frá 28. júní 2004 skuldabréf að nafnverði 150.000.000 evrur, sem var á gjalddaga 30. júní 2014. Í málinu liggja fyrir gögn um að sóknaraðili hafi 10. september 2008 samið um að greiða til Banca IMI SpA í Mílanó 15. sama mánaðar 858.673,03 evrur til kaupa á hlutdeild í skuldabréfinu að nafnverði 1.500.000 evrur. Fjármálaeftirlitið neytti 9. október 2008 heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í sóknaraðila, víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd, en í framhaldi af því var hann tekinn til slita 22. apríl 2009.
Sóknaraðili beindi 15. desember 2011 fyrirspurn til Banca IMI SpA um hvort hann hafi verið eigandi að fyrrnefndum hlut í skuldabréfi, en óskaði að öðrum kosti eftir upplýsingum um hver eigandinn hafi verið. Í svari félagsins 9. janúar 2012 kom fram að það hafi gengið til þessara viðskipta í þágu erlends viðskiptavinar, sem væri portúgalskur fjárfestingarsjóður og ótengdur félaginu, en ekki var greint nánar frá því hver hafi átt þar í hlut. Sóknaraðili ítrekaði 23. janúar 2012 ósk sína um upplýsingar um hver hafi verið viðskiptavinur félagsins, sem neitaði í bréfi 23. febrúar sama ár að veita þær með vísan til bankaleyndar. Sóknaraðili höfðaði mál þetta á hendur Banca IMI SpA 12. júní 2012 til riftunar á greiðslunni, sem áður var getið, og endurheimtu á fjárhæð hennar ásamt dráttarvöxtum og var það þingfest 6. september 2012. Félagið tók til varna í málinu með greinargerð, sem var lögð fram í héraði 18. desember 2012, og krafðist þess aðallega að því yrði vísað frá dómi, til vara að það yrði sýknað af kröfum sóknaraðila, en að því frágengnu að þær yrðu lækkaðar. Í greinargerðinni var því meðal annars borið við að félagið hafi ekki verið viðsemjandi sóknaraðila í viðskiptunum, sem hér um ræðir, heldur hafi það verið „BPI Fundos, sem er portúgalskur fjárfestingabanki“. Með því að ekki var greint nánar frá atvikum að þessu leyti í greinargerðinni beindi sóknaraðili áskorun til félagsins í þinghaldi 28. janúar 2013 um að veita frekari upplýsingar um þetta, sem það varð við með því að leggja fram bókun í þinghaldi 26. apríl sama ár. Sóknaraðili kveðst á þennan hátt fyrst hafa fengið vitneskju um þessi atvik og höfðaði hann sakaukasök á hendur varnaraðila 9. desember 2013. Í henni beindi hann sömu dómkröfum að varnaraðila og upphaflega voru gerðar á hendur Banca IMI SpA, en þó þannig að þeim var haldið uppi gegn varnaraðila til vara að baki kröfum í frumsök. Áður en sakaukasökin var höfðuð var aðalkröfu Banca IMI SpA um frávísun málsins hafnað með úrskurði héraðsdóms 24. júní 2013. Sakaukasökin var þingfest 9. janúar 2014 og tók varnaraðili þar til varna. Hann gerði sömu dómkröfur og Banca IMI SpA hafði gert fyrir sitt leyti, en krafa hans um frávísun málsins var þó að hluta reist á öðrum málsástæðum. Með hinum kærða úrskurði var síðastnefnd krafa varnaraðila tekin til greina.
II
Eins og rakið er í úrskurði héraðsdóms byggir varnaraðili kröfu sína um frávísun málsins í fyrsta lagi á því að frestur sóknaraðila til að höfða mál til riftunar á ráðstöfunum sínum hafi verið liðinn þegar sakaukasökin á hendur varnaraðila var höfðuð 9. desember 2013. Samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 með síðari breytingum, sbr. 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., er sá frestur 30 mánuðir frá því að slitastjórn sóknaraðila átti þess fyrst kost að gera riftunarkröfu, en fresturinn byrjar þó aldrei að líða fyrr en við lok kröfulýsingarfrests við slit sóknaraðila, sem var 30. desember 2009. Þótt sóknaraðili hafi höfðað mál þetta á hendur Banca IMI SpA innan 30 mánaða frá þeim degi hefur það ekki áhrif á frest til málsóknar á hendur varnaraðila, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 7. apríl 2014 í máli nr. 212/2014. Um afmörkun málshöfðunarfrests gagnvart honum verður að gæta að því að samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 er meginreglan sú að fresturinn tekur að líða þegar kostur hefur gefist á því að gera riftunarkröfu. Sóknaraðili átti ekki kost á að beina riftunarkröfu að varnaraðila meðan ekkert lá fyrir um að hann kynni með réttu að hafa verið eigandi hlutdeildar í skuldabréfinu, sem málið varðar, og þar með viðtakandi greiðslunnar, sem sóknaraðili leitar riftunar á. Varnaraðili hefur ekki hnekkt staðhæfingum sóknaraðila um að honum hafi hvorki verið né mátt vera kunnugt um þetta fyrr en áðurgreindar upplýsingar komu fram í greinargerð Banca IMI SpA í málinu og bókuninni, sem það félag lagði fram í þinghaldi 26. apríl 2013. Til þess verður og að líta að sóknaraðili gat ekki á fyrri stigum fylgt eftir rétti sínum samkvæmt 1. mgr. 82. gr. laga nr. 21/1991 til að krefja Banca IMI SpA um upplýsingar um viðskiptin, sem hér um ræðir, enda eru úrræði hans í því skyni eftir 2. mgr. 82. gr., sbr. 3. mgr. 81. gr. sömu laga háð því að sá, sem í hlut eigi, lúti lögsögu íslenskra dómstóla. Að þessu öllu virtu eru ekki efni til að telja frest sóknaraðila samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 til að höfða riftunarmál á hendur varnaraðila hafa byrjað að líða fyrr en við framlagningu fyrrnefndrar bókunar Banca IMI SpA 26. apríl 2013. Verður krafa varnaraðila um frávísun málsins á hendur honum því ekki tekin til greina á þessum grunni.
Samkvæmt 3. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 er heimild til sakaraukningar í einkamáli meðal annars háð því skilyrði að það verði ekki metið stefnanda til vanrækslu að hann hafi ekki stefnt nýjum aðila áður en málið var þingfest. Mál þetta, sem upphaflega beindist að Banca IMI SpA einum, var þingfest 6. september 2012. Samkvæmt áðursögðu hafði sóknaraðili ekki tilefni til að beina dómkröfum sínum að varnaraðila fyrr en bókun Banca IMI SpA hafði verið lögð fram í héraði 26. apríl 2013 og eru atvik í máli þessu því með öðrum hætti en í fyrrnefndu máli nr. 212/2014, sem Hæstiréttur felldi dóm á 7. apríl 2014 og varnaraðili hefur vísað til í þessu sambandi. Þótt nokkur töf hafi orðið á höfðun sakaukasakar hefur sóknaraðili ekki brotið svo gegn reglum einkamálaréttarfars um greiðan málatilbúnað að frávísun hennar geti varðað.
Samkvæmt framansögðu og með því að ekki eru annmarkar á reifun málsins af hendi sóknaraðila, sem valdið geti frávísun málsins frá héraðsdómi, eru ekki skilyrði til verða við kröfu varnaraðila um það. Hinn kærði úrskurður verður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Rétt er að ákvörðun málskostnaðar í héraði vegna þessa þáttar málsins bíði efnisdóms, en varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar að því er varðar varnaraðila, BPI Gestão de Activos Sociedade Gestora de Fundos de Investimento Mobiliário SA.
Varnaraðili greiði sóknaraðila, Kaupþingi hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. maí 2014.
I.
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 25. apríl sl., er höfðað af Kaupþingi hf., Sóltúni 26 í Reykjavík, með stefnu birtri 12. júní 2012 á hendur Banca IMI SpA, Largo Raffaele Mattioli, N. 3, Mílanó á Ítalíu. Með birtingu sakaukastefnu 9. desember 2013 var málið einnig höfðað til vara gegn sakaukastefnda, BPI Gestão de Activos Sociedade Gestora de Fundos de Investimento Mobiliário SA, Largo Jean Monet, n°1, 5°, 1269-067, Lissabon í Portúgal.
Dómkröfur stefnanda á hendur aðalstefnda, Banca IMI SpA, eru þær að rift verði greiðslu stefnanda til stefnda, dags. 15. september 2008, að fjárhæð 858.673,03 evrur, vegna viðskipta, dags. 10. september 2008. Þá er þess krafist að aðalstefndi greiði stefnanda sömu fjárhæð með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. júní 2012 til greiðsludags.
Verði aðalstefnda ekki gert að þola dóm í málinu gerir stefnandi sömu kröfur á hendur sakaukastefnda að öðru leyti en því að dráttarvaxta er krafist frá málshöfðunardegi sakauka til greiðsludags.
Aðalstefndi, Banca IMI SpA, krefst aðallega sýknu en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega auk málskostnaðar.
Sakaukastefndi, BPI Gestão de Activos, krefst þess aðallega að kröfum stefnanda verði vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst sakaukastefndi málskostnaðar að skaðlausu.
Málið var flutt um frávísunarkröfu sakaukastefnda 25. apríl sl. og er sá þáttur hér til úrlausnar. Þar krefst stefnandi þess að frávísunarkröfunni verði hafnað og að ákvörðun málskostnaðar verði látin bíða efnisdóms.
II.
Atvik málsins eru í stuttu máli þau að 28. júní 2004 birti stefnandi útgáfulýsingu (e. Offering Circular) fyrir 150 milljóna evra skuldabréfaútgáfu á víkjandi skuldabréfum eða svokölluðum eiginfjárbréfum (e. Non-cumulative Undated Step-up Capital Notes). Samkvæmt útgáfulýsingunni áttu bréfin (e. the Notes) að bera nánar tilgreinda ársvexti. Stefnandi heldur því fram að honum hafi fyrst verið heimilt að greiða upp bréfin 30. júní 2014. Af útgáfulýsingunni má ráða að fyrst ætti að gefa út allsherjarskuldabréf til bráðabirgða sem síðar yrði unnt að skipta í varanlegt eða varanleg skuldabréf. Munu skuldabréf þessi hafa verið skráð í alþjóðlegt, rafrænt uppgjörskerfi, þar sem greiðslur áttu að fara fram, auk þess sem þau gátu þar skipt um eigendur. Fram kemur í stefnu að þessi skuldabréfaútgáfa hafi fengið ISIN númerið XS0194859277.
Gögn málsins bera með sé að stefnandi hafi sjálfur keypt skuldabréf, sem gefið hafði verið út á framangreindum grundvelli, eða hlutdeild í slíku skuldabréfi að nafnvirði 1.500.000 evrur 10. september 2008. Kaupverðið var ákveðið 56% af nafnverði eða 840.000 evrur auk áfallinna vaxta að fjárhæð 18.673,03 evrur eða samtals 858.673,03 evrur. Viðskiptin munu hafa verið gerð upp 15. september 2008, en þá mun stefnandi hafa innt fyrrgreinda fjárhæð af hendi. Aðalstefndi virðist hafa annast sölu bréfsins. Hann telur sig hafa verið þar í hlutverki miðlara, en gögn málsins bera með sér að aðalstefndi hafi keypt umrætt skuldabréf eða hlutdeild í því af varastefnda á genginu 0,55 með það í huga að selja stefnanda það jafnóðum á genginu 0,56. Nafn aðalstefnda kemur fram á kaupnótu um viðskiptin, sem stefnandi hefur lagt fram, en þar er ekki getið um neinn annan aðila seim eiganda bréfsins.
Eins og rakið er í stefnu og sakaukastefnu sagði stjórn stefnanda af sér 8. október 2008. Daginn eftir neytti Fjármálaeftirlitið heimildar í 100. gr. a í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hlutahafafundar í stefnanda og setja yfir hann skilanefnd. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2008 var stefnanda veitt heimild til greiðslustöðvunar sem var framlengd með úrskurði 13. nóvember 2009. Lögum nr. 161/2002 var breytt með lögum nr. 44/2009 sem tóku gildi 22. apríl 2009. Hinn 25. maí 2009 var stefnanda skipuð slitastjórn á grundvelli ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009. Slitastjórnin gaf út innköllun til kröfuhafa 6. júlí 2009 og frestdagur við slitameðferð stefnanda er 15. nóvember 2008. Fram kemur í stefnu að við það sé miðað að upphafsdagur slitameðferðarinnar sé gildisdagur laga nr. 44/2009. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2010 lá fyrir dómsúrskurður um formlega slitameðferð stefnanda.
III.
1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda
Í máli þessu krefst stefnandi riftunar á fyrrgreindri greiðslu að fjárhæð 858.763,03 evrur 15. september 2008 á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 með síðari breytingum. Er á því byggt að greiðsla skuldarinnar að þessu leyti hafi verið greidd fyrr en eðlilegt var, en ekki hafi verið heimilt að greiða skuldabréfið upp fyrr en 30. júní 2014. Frestdagur við slitameðferð sé 15. nóvember 2008 og því telur stefnandi að skilyrði 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um að greiðsla hafi átt sér stað á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag sé fullnægt. Hafi greiðslan enn fremur raskað jafnræði kröfuhafa við slitameðferðina þar sem stefndi hafi fengið kröfu sína greidda að fullu. Þá byggir stefnandi á því að greiðslan hafi ekki verið eðlileg eftir atvikum, enda uppgreiðsla skuldabréfs fyrir lausnardag ekki venjuleg í viðskiptum stefnanda og aðalstefnda.
Stefnandi kveður fjárkröfu sína reista á 142. gr., sbr. 143. gr. laga nr. 21/1991. Telur stefnandi að greiðsla skuldarinnar hafi orðið til þess að stefndi auðgaðist um þá fjármuni sem stefnandi innti af hendi og bendir í því sambandi á að stefndi hefði ekki fengið kröfuna greidda á gjalddaga.
Í sakaukastefnu kemur fram að í þinghaldi í málinu 26. apríl 2013 hafi komið fram nýjar upplýsingar um þann aðila sem aðalstefndi teldi sig hafa komið fram fyrir sem milligönguaðili í viðskiptunum. Sakaukastefnan sé gefin út á hendur þessum aðila, varastefnda BPI Gestão de Activos, á grundvelli heimildar í 3. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991, eftir að viðhlítandi skýringar aðalstefnda hafi komið fram um rétthafa greiðslunnar.
Stefnandi byggir á því að skilyrði 3. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 séu fyrir hendi þannig að stefna megi sakaukastefnda. Þannig séu skilyrði 1. mgr. 19. gr. laganna uppfyllt, enda séu dómkröfur á hendur stefndu af sama uppruna. Þá byggir stefnandi á því að það verði ekki metið honum til vanrækslu að hafa ekki stefnt sakaukastefnda í upphafi. Því til stuðnings vísar stefnandi til þess að aðalstefndi hafi engar upplýsingar veitt um gagnaðila viðskiptanna í aðdraganda málshöfðunarinnar þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir stefnanda þar að lútandi.
Í sakaukastefnunni er rakið að stefnandi hafi með bréfi 15. desember 2011 óskað eftir upplýsingum frá aðalstefnda m.a. um það hvort hann teldi sig vera réttan aðila að fyrrgreindum viðskiptum. Í svarbréfi aðalstefnda 9. janúar 2012 hafi komið fram að hann hafi verið seljandi bréfanna, en framkvæmt viðskiptin á grundvelli fyrri viðskipta með sömu bréf við viðskiptavin sinn, portúgalskan sjóð. Með bréfi 23. janúar 2012 hafi stefnandi óskað eftir nánari upplýsingum um þennan viðskiptavin aðalstefnda. Í svarbréfi hans 23. febrúar 2012 hafi aðalstefndi neitað að veita upplýsingar um viðskiptavininn á grundvelli reglna um trúnað og bankaleynd. Stefnandi hafi því næst beint riftunarkröfu að aðalstefnda með bréfi 14. maí 2012 og höfðað mál þetta með birtingu stefnu á hendur aðalstefnda 12. júní sama ár. Í stefnunni gegn aðalstefnda hafi stefnandi gert fyrirvara um útgáfu sakaukastefnu, kæmi til þess að aðalstefndi myndi upplýsa stefnanda um þann sem hann teldi réttan aðila viðskiptanna.
Stefnandi vísar til þess að í greinargerð aðalstefnda, sem hafi verið lögð fram 18. desember 2012, hafi verið upplýst að umræddur viðskiptavinur hans hafi verið portúgalski fjárfestingabankinn „BPI Fundos“. Ókleyft hafi verið að greina af þessu hvaða lögpersónu væri átt við. Því hafi verið skorað á aðalstefnda, með bókun 28. janúar 2013, að upplýsa nánar hver BPI Fundos væri. Með bókun 26. apríl 2013 hafi aðalstefndi upplýst um fullt nafn og heimilisfang viðkomandi aðila. Með þessari bókun telur stefnandi að aðalstefndi hafi fyrst upplýst um þann sem hann taldi gagnaðila að viðskiptunum. Fyrir málshöfðunina hafi stefnandi gert allt sem í hans valdi hafi staðið til þess að afla upplýsinga um réttan aðila, væri það ekki aðalstefndi. Því telur stefnandi að það verði ekki metið honum til vanrækslu að hafa ekki gert kröfur sínar á hendur varastefnda í öndverðu.
Í sakaukastefnu er enn fremur gerð grein fyrir röksemdum stefnanda fyrir því að rifta beri umræddri greiðslu og endurgreiða andvirði hennar, sbr. fyrrgreinda umfjöllun. Þá eru sérstaklega færð rök fyrir því í sakaukastefnu að málshöfðunarfrestur sé ekki liðinn til að höfða sakaukamálið. Þar er þess getið að samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 beri að höfða riftunarmál innan sex mánaða frá því að skiptastjóri átti þess kost að gera riftunarkröfuna. Fresturinn byrji þó aldrei að líða fyrr en við lok kröfulýsingarfrests. Samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 1. gr. laga nr. 146/2011, gildi ákvæði laga nr. 21/1991 um riftun við slitameðferðina en þó þannig að frestur til að höfða riftunarmál sé 30 mánuðir í stað sex mánaða.
Stefnandi telur að þar sem riftunarmál í frumsök hafi verið höfðað í tæka tíð teljist málið í heild höfðað innan málshöfðunarfrests og skipti þá ekki máli þótt fleiri aðilum hafi verið bætt við málið með sakaraukningu. Verði ekki fallist á þessi rök byggir stefnandi á því að málshöfðunarfrestur sakaraukningar hafi ekki byrjað að líða fyrr en fullnægjandi upplýsingar hafi komið fram um réttan aðila. Það hafi ekki gerst fyrr en með bókun aðalstefnda 26. apríl 2013. Þá fyrst hafi stefnandi átt þess kost að gera riftunarkröfu á hendur varastefnda. Stefnandi telur sanngirnissjónarmið mæla jafnframt gegn því að aðilar geti látið hjá líða að veita upplýsingar sem nauðsynlegar séu til málshöfðunar, þannig að málshöfðunarfresturinn renni út. Eigi þetta frekar við þegar skýrt sé kveðið á um upplýsingaskyldu, sbr. 81. og 82. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá hljóti sakaukastefndi að hafa vitað af málshöfðuninni í frumsök allt frá upphafi hennar og að hún myndi beinast að sér þegar fullnægjandi upplýsingar lægju fyrir.
2. Helstu málsástæður og lagarök sakaukastefnda
Sakaukastefndi reisir frávísunarkröfu sína í fyrsta lagi á því að riftunarfrestur samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sé liðinn. Til stuðnings því vísar hann til þess að almennt hafi í dómaframkvæmd verið miðað við að málshöfðunarfresturinn byrji að líða við lok kröfulýsingarfrests. Hann geti einungis byrjað að líða síðar ef sérstök rök standi til þess og beri stefnanda að sýna fram á að þau séu fyrir hendi. Það hafi stefnandi ekki gert í þessu máli. Almennur frestur til þess að höfða riftunarmál í slitameðferð stefnanda hafi því verið til 30. júní 2012, þ.e. 30 mánuðum eftir lok kröfulýsingarfrests 30. desember 2009. Málið hafi verið höfðað 17 mánuðum eftir lok málshöfðunarfrestsins. Þegar af þessari ástæðu beri að vísa málinu frá dómi.
Sakaukastefndi mótmælir því að þar sem frumsök hafi verið höfðuð áður en málshöfðunarfrestur var liðinn hafi málið gegn sér verið höfðað tímanlega. Sá skilningur á málshöfðunarfrestinum fái ekki staðist.
Sakaukastefndi mótmælir því enn fremur að málshöfðunarfresturinn hafi byrjað að líða 26. apríl 2013 þegar aðalstefndi upplýsti um nafn sakaukastefnda. Stefnandi hefði átt að hefjast handa miklu fyrr við málarekstur sinn gagnvart aðalstefnda. Þá hefði stefnandi getað gripið til viðeigandi aðgerða mun fyrr og innan tilskilinna tímamarka gagnvart mögulegum þriðja aðila. Byggir sakaukastefndi á því að stefnandi hafi ekki hagað málarekstri sínum með forsvaranlegum hætti og verði því að bera hallann af langvarandi athafnaleysi sínu. Þá hefði stefnandi átt að grípa til ráðstafana mun fyrr til þess að fá gefið upp nafn þess sem aðalstefndi hélt fram að væri réttur aðili að viðskiptunum. Frumskylda stefnanda við slitameðferðina hafi verið að kanna þegar í upphafi hvort tilefni væri til þess að rifta einhverjum ráðstöfunum og senda nauðsynlegar fyrirspurnir til aðila sem þar gætu átt hlut að máli. Óforsvaranlegt hafi verið að aðhafast ekkert fyrr en í árslok 2011. Þá bendir sakaukastefndi á að stefnandi hafi fengið upplýsingar um tilvist þriðja aðila tímanlega áður en málshöfðunarfresturinn var liðinn, en að aðalstefndi teldi sig ekki hafa heimild að lögum til að veita upplýsingar um hver hann væri. Þrátt fyrir það hafi stefnandi ekki gripið til neinna aðgerða í því skyni að fá aðalstefnda til þess að upplýsa sem fyrst fyrir hvern hann hefði annast viðskiptin. Þá hafi hann látið marga mánuði líða áður hann höfðaði loks málið gegn aðalstefnda.
Sakaukastefndi áréttar í þessu sambandi að stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að málshöfðunarfresturinn hafi byrjað að líða síðar en við lok kröfulýsingarfrests. Telur hann stefnanda ekki hafa sýnt fram á að hann hafi gripið til fullnægjandi ráðstafana til þess að fá nafn þess aðila gefið upp sem aðalstefndi hafi borið fyrir sig að hafa komið fram fyrir eða þá að hafa ekki getað hafið málarekstur gegn aðalstefnda fyrr. Telur sakaukastefndi stefnanda ekki geta skýlt sér á bak við að aðalstefndi teldi sér óheimilt að upplýsa um nafn viðskiptamanns síns. Það hafi verið skylda hans að grípa til þeirra úrræða sem honum hafi staðið til boða til að afla þeirra upplýsinga sem hann hafi talið nauðsynlegar til þess að höfða riftunarmál, eins og hann hafi gert í öðrum tilvikum. Upplýsingaöflun stefnanda hafi verið áfátt og því sé ekkert tilefni til þess að framlengja málshöfðunarfrestinn fram yfir 30 mánuði frá lokum kröfulýsingarfrests.
Sakaukastefndi mótmælir því sérstaklega að sanngirnissjónarmið eigi að leiða til þess að sakaukasök teljist höfðuð innan málshöfðunarfrests. Þvert á móti telur hann sanngirnisrök mæla með því að stefnandi geti ekki höfðað dómsmál á hendur sakaukastefnda langt umfram lögbundinn málshöfðunarfrest, sem hafi endurtekið verið framlengdur með íþyngjandi hætti fyrir mögulega riftunarþola. Í því sambandi bendir sakaukastefndi á að stefnandi hafi vanrækt um lengri tíma að hefja málarekstur sinn gegn aðalstefnda og að honum hafi verið fullkunnugt um að því yrði haldið fram að aðalstefndi hefði komið fram í viðskiptunum fyrir þriðja aðila. Eigi sakaukastefndi enga sök á þeim töfum sem hafi orðið á málsókn í málinu.
Því er enn fremur mótmælt harðlega af hálfu sakaukastefnda að hann hafi vitað eða mátt vita af málshöfðun í frumsök vegna viðskiptatengsla við aðalstefnda. Þvert á móti hafi honum fyrst verið kunnugt um málarekstur um viðskiptin þegar honum hafi verið birt stefna 9. desember 2013.
Sakaukastefndi byggir enn fremur á því að ákvæði laga um fjármálafyrirtæki og laga um gjaldþrotaskipti um málshöfðunarfresti vegna höfðunar riftunarmála væru nær merkingarlaus ef slíkur frestur hæfist aftur í hvert sinn sem þrotabú fengi nýjar upplýsingar sem stutt gætu slíka kröfu. Á því hvílir skylda til þess að haga upplýsingaöflun sinni með forsvaranlegum hætti og að halda ekki að sér höndum um langt skeið meðan almennur málshöfðunarfrestur rennur út. Ákvæði 103. gr. laga um fjármálafyrirtæki mæli nú þegar fyrir um verulegt frávik frá almennum reglum 148. gr. gjaldþrotalaga þar sem veitt sé mikið svigrúm til þess að höfða riftunarmál, þ.e. 30 mánuðir í stað sex mánaða.
Sakaukastefndi bendir enn fremur á að viðskiptin sem málið lúti að hafi átt sér stað í september 2008, rúmlega fimm árum áður en stefnandi hafi birt sakaukastefnu. Yrði fallist á málatilbúnað stefnanda myndi það leiða til þess að höfða mætti mál gegn sakaukastefnda allt til 26. október 2015, rúmum sjö árum eftir að viðskiptin áttu sér stað. Sakaukastefndi heldur því fram að slík lagatúlkun fái ekki staðist. Langvarandi athafnaleysi stefnanda um 23 mánaða skeið eftir að hann fékk fyrst upplýsingar um tilvist þriðja aðila og um 12 mánaða skeið eftir að hann fékk fyrst vitneskju um nafn sakaukastefnda geti ekki verið grundvöllur þess að nýr 30 mánaða málshöfðunarfrestur byrji að líða. Slík niðurstaða myndi leiða til þess að ákvæði 103. gr. laga um fjármálafyrirtæki og 148. gr. gjaldþrotalaga hefðu ekkert raunverulegt gildi og að sakaukastefndi og aðilar í sambærilegri stöðu væru í óvissu um endanleika viðskipta í fjölmörg ár eftir að þau hefðu átt sér stað.
Með hliðsjón af framangreindu telur sakaukastefndi stefnanda ekki hafa sýnt fram á að honum hafi verið ómögulegt að nálgast þær upplýsingar sem honum hafi verið nauðsynlegar til að geta beint riftunarkröfu að sakaukastefnda innan hins almenna málshöfðunarfrests. Verði hann að bera hallann af því. Því verði að ganga út frá því að málshöfðunarfresturinn sé liðinn og að vísa beri málinu frá dómi.
Sakaukastefndi byggir frávísunarkröfu sína í öðru lagi á því að málshöfðunin uppfylli ekki skilyrði 3. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um að það verði ekki metið sóknaraðila til vanrækslu að hafa ekki stefnt nýjum aðila áður en mál var þingfest. Þessu til stuðnings vísar sakaukastefndi að mestu til sömu röksemda og liggja til grundvallar málsástæðu hans um að málshöfðunarfresturinn sé liðinn. Þannig vísar sakaukastefndi til þess að stefnandi hefði átt að hefjast handa fyrr um málarekstur sinn gegn aðalstefnda og mögulegum þriðja aðila. Þá hafi stefnanda verið kunnugt um að aðalstefndi myndi halda því fram að hann hefði komið fram fyrir hönd þriðja aðila. Þrátt fyrir það hafi stefnandi ekki gripið til forsvaranlegra aðgerða til þess að knýja á um að aðalstefndi veitti upplýsingar um hann. Þá hafi hann heldur ekki gripið til neinna aðgerða eða krafið aðalstefnda frekari svara eftir að hann hafði höfðað málið gegn honum, en það hefði átt að aflétta bankaleynd og trúnaði, sem aðalstefndi taldi sig vera bundinn af. Þannig telur sakaukastefndi að stefnandi hefði getað stefnt nýjum aðila inn í málið áður en það var þingfest. Þess í stað hafi stefnandi ekki aðhafst nokkuð og látið marga mánuði líða áður en hann krafði aðalstefnda frekari svara um mögulegan þriðja aðila.
Þessu til viðbótar bendir sakaukastefndi á að stefnandi hafi ekki gripið strax til aðgerða í kjölfar þess að aðalstefndi gaf upp nafn sakaukastefnda í greinargerð sinni og meðfylgjandi gögnum, sem lögð voru fram 19. desember 2012, og með bókun 26. apríl 2013. Sakaukastefndi byggir á því að stefnandi geti ekki svo löngu eftir þingfestingu aðalsakar höfðað málið gegn sér. Hafi stefnandi sýnt af sér fádæma tómlæti og andvaraleysi við málarekstur sinn.
Sakaukastefndi reisir frávísunarkröfu sína í þriðja lagi á því að kröfugerð stefnanda uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Hann telur að kröfugerðin sé ekki í samræmi við atvik málsins og framlögð gögn. Því til stuðnings vísar sakaukastefndi til þess að fyrir liggi að hann hafi ekki átt í viðskiptum við stefnanda og ekki þegið neina greiðslu frá honum. Því fái ekki staðist að krefjast þess í máli gegn sakaukastefnda að „rift verði greiðslu stefnanda til varastefnda“. Telur sakaukastefndi því að kröfugerðin sé ekki nægilega ljós til þess að unnt sé að taka hana óbreytta upp sem ályktunarorð í dómsniðurstöðu. Því uppfylli hún ekki kröfu d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Sakaukastefndi byggir að auki á því að málatilbúnaður stefnanda á hendur sér og málsgrundvöllur sakaukastefnu uppfylli ekki skilyrði e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um glöggan og skýran málatilbúnað. Telur hann verulega vanta upp á að ljóst sé hvað felist í þeim atvikum sem eigi að leiða til þess að krafan sé fyrir hendi. Þannig sé í sakaukastefnu ekkert vikið að því á hvaða grundvelli stefnandi riftir greiðslu sinni til aðalstefnda og síðan greiðslu aðalstefnda til sakaukastefnda þar sem engin greiðsla hafi farið fram á milli stefnanda og sakaukastefnda. Ekki sé heldur útskýrt hvernig sömu rök geti átt við gagnvart sakaukastefnda og aðalstefnda þegar sakaukastefndi hafi ekki átt nein viðskipti við stefnanda og ekkert samningssamband hafi verið milli þeirra. Þá sé ekki að neinu leyti fjallað um það á hvaða grundvelli sakaukastefndi skuli dæmdur til þess að greiða stefnanda 858.673,03 evrur þegar sakaukastefndi hafi einungis tekið við 843.673,03 evrum úr hendi aðalstefnda. Þá sé ekkert fjallað um erlendar lagareglur eða það greiðslufyrirkomulag sem lýst sé í skilmálum allsherjarskuldabréfsins og hvernig því hafi verið fullnægt þrátt fyrir að bæði viðskipti sakaukastefnda og aðalstefnda og svo stefnanda og aðalstefnda hafi átt sér stað á markaði erlendis, viðskiptin skyldu lúta erlendum lögum samkvæmt skilmálum skuldabréfsins og að framkvæma hafi átt greiðslur samkvæmt þeim með tilteknum hætti til að um uppgreiðslu skuldabréfs hafi verið að ræða. Ekki liggi því fyrir hvaða atvik búi að baki kröfu stefnanda sem leiðir til þess að krafa hans sé til eða á hvaða málsástæðum hann byggir málatilbúnað sinn. Þær séu ónákvæmar og rangar í meginatriðum að mati sakaukastefnda. Með vísan til þessara annmarka á stefnu telur sakaukastefndi að ekki verði hjá því komist að vísa málinu frá dómi.
Í greinargerð sakaukastefnda er enn fremur gerð ítarleg grein fyrir efnislegum röksemdum fyrir því að sýkna beri hann af kröfum stefnanda. Í örstuttu máli byggjast þær varnir í fyrsta lagi á aðildarskorti sakaukastefnda, enda hafi hann ekki verið aðili að hinum umdeildu viðskiptum og ekki tekið við neinni greiðslu frá stefnanda. Í öðru lagi telur hann að íslensk gjaldþrotalög nái ekki til viðskiptanna, sbr. l-lið 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002. Þar sem ósannað sé að skilyrðum annarra gjaldþrotalaga sem geti átt við sé fullnægt verði að sýkna sakaukastefnda. Í þriðja lagi hafi falist í viðskiptunum endanlegt uppgjör sem ekki sé hægt að rifta, sbr. m-lið 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 og tilskipun 98/26/EB um endanlegt uppgjör í greiðsluuppgjörskerfum og uppgjörskerfum fyrir verðbréf. Í fjórða lagi er á því byggt að riftun verði ekki komið við með vísan til n-liðar 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 30. gr. tilskipunar 2001/24/EB. Ensk lög hafi átt að gilda um allsherjarskuldabréfið og eigi ensk lög að gilda um hina ætluðu riftanlegu ráðstöfun. Af þessu leiði að viðskiptunum verði ekki rift þar sem þau séu ekki riftanleg samkvæmt enskum lögum, eins og nánar er rökstutt í greinargerð sakaukastefnda. Þá séu þau heldur ekki riftanleg samkvæmt lögum í Lúxemborg og ekki sé sýnt fram á að þau séu riftanleg samkvæmt lögum á Ítalíu eða í Portúgal. Í fimmta lagi er sýknukrafan á því reist að ekki hafi verið um greiðslu skuldar að ræða heldur viðskipti með hlutdeild í allsherjarskuldabréfi, enda hafi krafan ekki verið afskráð og virðist fjárhæð hennar enn vera útistandandi, auk þess sem skilyrðum innlausnar og greiðslu hafi ekki verið fullnægt. Þá hafi ekki verið um hefðbundið skuldarasamband að ræða milli stefnanda og sakaukastefnda. Ákvæði 134. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. geti því ekki átt við. Í sjötta lagi er á því byggt að greiðsla hafi ekki átt sér stað fyrr en eðlilegt var og í sjöunda lagi að viðskiptin hafi verið eðlileg eftir atvikum, eins og nánar er rökstutt í greinargerð. Í áttunda lagi heldur varastefndi því fram að endurgreiðslukrafan sé vanreifuð, auk þess sem dráttarvaxtakröfunni er mótmælt.
IV.
Stefnandi höfðar mál þetta gegn sakaukastefnda til riftunar á greiðslu stefnanda 15. september 2008 á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og endurheimtu fjárhæðarinnar sem stefnandi innti þá af hendi. Stefnandi er fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Í 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 er slitastjórn fjármálafyrirtækis veitt heimild til þess að krefjast riftunar á ráðstöfunum fyrirtækisins, ef ekki er sýnt að eignir þess muni nægja til að efna skuldbindingar þess, eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana við gjaldþrotaskipti. Í ákvæðinu er síðan kveðið á um að við slitameðferðina gildi öll ákvæði XX. kafla laga nr. 21/1991 með sama hætti og við gjaldþrotaskipti en þó þannig að frestur til þess að höfða riftunarmál samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laganna sé 30 mánuðir í stað sex mánaða, sbr. 1. gr. laga nr. 146/2011.
Samkvæmt framansögðu þarf slitastjórn fjármálafyrirtækis að höfða dómsmál til riftunar ráðstöfunar áður en þrjátíu mánuðir eru liðnir frá því slitastjórnin átti þess kost að gera riftunarkröfu. Frestur þessi byrjar þó aldrei að líða fyrr en við lok kröfulýsingarfrests, sbr. 2. málslið 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991. Eins og rakið hefur verið var slitastjórn stefnanda skipuð 25. maí 2009 og kröfulýsingarfresti lauk 30. desember 2009. Málið var höfðað gegn sakaukastefnda 9. desember 2013 en þá voru ríflega 47 mánuðir liðnir frá lokum kröfulýsingarfrests. Málshöfðunarfrestur gagnvart sakaukastefnda rofnaði ekki er málið var höfðað gegn aðalstefnda og upphaflegum varastefnda.
Eðli málsins samkvæmt var stefnanda ómögulegt að höfða mál gegn sakaukastefnda fyrr en hann vissi hver sá aðili var sem aðalstefndi kvaðst hafa komið fram fyrir í umræddum viðskiptum. Það eitt leiðir þó að mati dómsins ekki til þess að fresturinn hafi byrjað að líða er viðhlítandi upplýsingar fengust um hver hann væri. Í því efni verður að taka tillit til markmiðs fyrirmæla í 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 um málshöfðunarfrest. Er hann öðrum þræði settur til þess að eyða óvissu viðsemjenda þrotamanns um það hvort þrotabú muni una við ráðstöfun hans fyrir upphaf gjaldþrotaskipta, sem og skapa festu og öryggi í viðskiptalífinu. Til að gæta þessara hagsmuna miðar ákvæðið að því að hraða því að tekin verði ákvörðun um að höfða mál til að fá umdeildri ráðstöfun rift. Skorti skiptastjóra gögn í upphafi skiptameðferðar til að höfða slíkt mál ber honum að nýta þær heimildir sem hann hefur til þess að afla þeirra svo fljótt sem verða má. Í því sambandi er á það bent að skiptastjóri hefur samkvæmt 81. og 82. gr. laga nr. 21/1991 allvíðtækar heimildir til þess að afla gagna og upplýsinga í þessu skyni. Samkvæmt 1. mgr. 82. gr. laganna hvílir meðal annars sú skylda á viðskiptabönkum, sparisjóðum og verðbréfamiðstöðvum, sem og hverjum þeim sem geta haft vitneskju um eignir og skuldir þrotabús vegna viðskiptatengsla við þrotamanninn eða af sambærilegum ástæðum, að láta skiptastjóra í té þau gögn um málefni búsins sem hann krefst. Verði viðkomandi ekki við kröfu skiptastjóra um upplýsingar getur hann krafist úrskurðar dómara um hana, sbr. 2. mgr. 82. gr. og 3. mgr. 81. gr. laganna.
Eins og mál þetta liggur fyrir dóminum verður að ætla að stefnandi hafi búið yfir upplýsingum um aðalstefnda og hina umdeildu greiðslu 15. september 2008 allt frá því að slitastjórn fékk aðgang að bókhaldi stefnanda sumarið 2009. Stefnandi hófst þó ekki handa við að leggja drög að málshöfðun til að fá greiðslunni rift fyrr en með bréfi til aðalstefnda 15. desember 2011, en þá voru 23 mánuðir og tvær vikur liðnar frá kröfulýsingarfresti. Í bréfinu var meðal annars krafist upplýsinga um hver hefði verið réttur viðtakandi (e. „principal(s) and/or beneficial recipient“) í tengslum við endurkaupaviðskiptin og vísað til fyrrgreindra ákvæða laga nr. 21/1991 um upplýsingaskyldu aðalstefnda. Aðalstefndi neitaði að veita upplýsingar um þann aðila sem hann taldi sig hafa annast viðskiptin fyrir. Stefnandi höfðaði í kjölfarið mál gegn aðalstefnda 12. júní 2012, skömmu áður en 30 mánuðir voru liðnir frá kröfulýsingarfresti, og skoraði þá á aðalstefnda að upplýsa um „raunverulegan móttakanda greiðslunnar“ og áskildi sér jafnframt rétt til þess að „stefna nýjum aðila inn í málið á grundvelli 3. mgr. 19. gr. laga 91/1991“ þegar aðalstefndi hefði orðið við áskoruninni.
Stefnandi hefur ekki fært sönnur á að lagaheimild skorti til að leita úrskurðar dómstóls á Ítalíu um skyldu aðalstefnda til að veita stefnanda upplýsingar um þann sem aðalstefndi taldi réttan viðtakanda greiðslunnar. Dráttur á því að upplýst væri um þann aðila verður fyrst og fremst rakinn til þess hversu seint stefnandi hófst handa við að afla nauðsynlegra upplýsinga um hann frá aðalstefnda og verður hann að bera hallann af því. Þar sem stefnandi hófst ekki handa á þeim 30 mánuðum sem liðu frá kröfulýsingarfresti við að neyta þeirra úrræða sem honum stóðu til boða til að knýja aðalstefnda til að upplýsa um sakaukastefnda, telur dómurinn óhjákvæmilegt að álykta að frestur samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 hafi verið liðinn þegar málið var loks höfðað gegn sakaukastefnda. Að þessu gættu og að teknu tilliti til þeirra markmiða er liggja til grundvallar framangreindum fresti telur dómurinn að fallast beri á frávísunarkröfu sakaukastefnda. Koma þá aðrar röksemdir hans fyrir frávísun málsins ekki til álita.
Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 1.000.000 króna.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Máli stefnanda, Kaupþings hf., á hendur sakaukastefnda, BPI Gestão de Activos Sociedade Gestora de Fundos de Investimento Mobiliário SA, er vísað frá dómi.
Stefnandi greiði sakaukastefnda 1.000.000 króna í málskostnað.