Hæstiréttur íslands

Mál nr. 620/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slitameðferð
  • Ráðningarsamningur
  • Riftun


Fimmtudaginn 25. nóvember 2010. 

Nr. 620/2010.

William Fall

(Eiríkur Elís Þorláksson hrl.)

gegn

ALMC hf.

(Hörður Felix Harðarson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Ráðningarsamningur. Riftun.

W kærði úrskurð héraðsdóms þar sem kröfum hans á hendur A hf. við slitameðferð þess var hafnað. Krafðist hann þess að krafa hans að fjárhæð 2.904.920 evrur yrði viðurkennd sem almenn krafa við slit A hf. og krafa hans að fjárhæð 232.333 evrur sem forgangskrafa. Kröfur W voru tilkomnar vegna starfa hans við A hf. og námu þær launum í uppsagnarfresti, kaupaukagreiðslu, eingreiðslu við starfslok auk orlofs og lífeyrisgreiðslna af umræddum kröfum. Í ráðningarsamningi aðila frá maí 2007 var kveðið á um að hann réðist af og bæri að túlka í samræmi við lög Englands og Wales. Var niðurstaða héraðsdóms, um að W hefði ekki sýnt fram á efni eða tilvist þeirra reglna ensks réttar sem gilda ættu um réttarsamband aðila staðfest með tilliti til forsendna. W afhenti uppsagnarbréf sitt 9. mars 2009. Hann taldi að taka ætti kröfur hans til greina þar sem ljóst væri að hann hefði verið tilbúinn að vinna út umsaminn sex mánaða uppsagnarfrest sinn miðað við 1. apríl 2009 en ástæða þess að hann hefði ekki gert það hefði verið sú að ekki hefði verið óskað sérstaklega eftir því. Talið var að W hefði sjálfur, án umsamins fyrirvara, slitið ráðningarsamningi sínum. Sú niðurstaða héraðsdóms að hafna kröfum W um laun fyrir marsmánuð, laun í uppsagnarfresti og kaupauka vegna ársins 2008 var því staðfest með vísan til forsendna og þeirri athugasemd að þegar starfsmaður segi upp störfum með umsamdan uppsagnarfrest þurfi engar sérstakar yfirlýsingar um vinnu hans á uppsagnarfrestinum. Ekki var fallist á kröfu W um viðurkenningu á rétti til eingreiðslu við starfslok að fjárhæð 2.000.000 evrur,  sem byggð var á ákvæðum í viðauka við ráðningarsamning W. Byggðist sú niðurstaða á túlkun á texta viðaukasamningsins. Hinn kærði úrskurður var því einnig staðfestur hvað þetta varðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. október 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. október 2010, þar sem kröfum sóknaraðila samtals að fjárhæð 3.137.253 evrur, sem hann lýsti við slit varnaraðila, var hafnað. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og krafa hans að fjárhæð 2.904.920 evrur verði viðurkennd sem almenn krafa við slit varnaraðila og krafa hans að fjárhæð 232.333 evrur sem forgangskrafa. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Upplýst er fyrir Hæstarétti að nafni varnaraðila, Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf., hefur verið breytt og er nú ALMC hf.

I

Í grein 20.2 í ráðningarsamningi sóknaraðila frá maí 2007 er kveðið á um að samningurinn skuli ráðast af og vera túlkaður í samræmi við lög Englands og Wales. Sóknaraðili telur sig hafa uppfyllt kröfu í 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um sönnun á tilvist og efni laga þessara ríkja með því að leggja fram í málinu álit frá breskum lögfræðingi, Kingsley Napley LLP, dagsett 27. nóvember 2009, sem sóknaraðili aflaði í tilefni ágreinings málsaðila. Í þessu skjali, sem liggur fyrir í löggiltri þýðingu á íslensku, er ekki leitast við að veita hlutlægar almennar upplýsingar um efni lagareglna í þessum löndum sem kunna að skipta máli við úrlausn málsins. Skjalið hefur þess í stað inni að halda álit nefnds lögfræðings á vissum þáttum sem snerta réttarstöðu sóknaraðila gagnvart varnaraðila og felur því þegar af þessari ástæðu ekki í sér fullnægjandi sönnunarfærslu um tilvist og efni laga framangreindra landa sem þýðingu kunna að hafa í málinu þannig að lagt verði til grundvallar dómi. Málsaðilar hafa ekki forræði á því að tilgreina efni erlendra lagareglna fyrir íslenskum dómstólum, þó að þeir geti ráðstafað sakarefni með bindandi hætti hvor gagnvart öðrum, meðal annars um málsatriði sem lúta erlendum lagareglum í lögskiptum þeirra. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á niðurstöðu hans um að leysa skuli úr ágreiningi málsaðila eftir íslenskum lagareglum.

II

Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði afhenti sóknaraðili fyrirsvarsmönnum varnaraðila uppsagnarbréf sitt 9. mars 2009 og er bréfið tekið upp í úrskurðinn. Í greinargerð sóknaraðila til héraðsdóms er meðal annars tekið fram að í bréfinu hafi falist ósk um að uppsögnin tæki gildi strax, eins og komist er að orði. Í forsendum hins kærða úrskurðar er talið að það sé ágreiningslaust með aðilum að sóknaraðili hafi óskað eftir að uppsögnin tæki strax gildi. Fyrir Hæstarétti heldur sóknaraðili því fram, að í uppsögninni hafi falist að sóknaraðili hafi verið reiðubúinn til að vinna út umsaminn sex mánaða uppsagnarfrest sinn miðað við 1. apríl 2009 og ástæða þess að hann gerði það ekki hafi verið sú að varnaraðili hafi ekki sérstaklega óskað eftir því. Þegar starfsmaður segir upp starfi með umsömdum uppsagnarfresti þarf engar sérstakar yfirlýsingar um vinnu hans á uppsagnarfrestinum. Hann einfaldlega heldur störfum sínum áfram þar til fresturinn er á enda runninn. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um að sóknaraðili hafi sjálfur án umsamins fyrirvara slitið ráðningarsamningi sínum. Af þessu og forsendum hins kærða úrskurðar, sem sérstaklega að því lúta, leiðir að staðfest verður niðurstaða úrskurðarins um að hafna kröfum sóknaraðila um laun fyrir marsmánuð, laun í uppsagnarfresti og kaupauka vegna ársins 2008.

III

Krafa sóknaraðila um viðurkenningu á rétti til greiðslu við starfslok að fjárhæð 2.000.000 evrur er byggð á 1. og 3. gr. í viðauka við ráðningarsamning hans sem felst í bréfi varnaraðila til hans frá maímánuði 2007.  Er löggilt þýðing á íslensku meðal gagna málsins.

Ákvæði 1. gr. viðaukans er tekið upp í hinn kærða úrskurð. Þar er kveðið á um að sóknaraðili skuli eiga rétt á greiðslunni ef hann afhendi „félaginu skriflega tilkynningu um uppsögn einhvern tíma eftir fyrsta árið frá upphafsdeginum og þegar eða áður en tvö heil ár eru liðin frá upphafsdeginum, ...“. Tekið er fram í viðaukanum að upphafsdagurinn sem þarna er vísað til sé 1. júní 2007. Uppsagnarbréf sóknaraðila var dagsett 9. mars 2009 og var því innan þeirra tímamarka sem miðað er við í 1. gr. samningsviðaukans.

Aðilar deila um túlkun á ákvæði 1. gr. samningsviðaukans um skilyrði fyrir kröfu sóknaraðila. Í hinum kærða úrskurði var komist að þeirri niðurstöðu að réttur sóknaraðila til greiðslunnar væri háður því skilyrði „að uppsögn beri að með þeim hætti sem mælt er fyrir um í grein 2.3 í ráðningarsamningi ...“. Verður ráðið af forsendum dómsins að sóknaraðili sé talinn hafa glatað rétti sínum til greiðslunnar með því að hafa horfið úr vinnu strax við uppsögnina 9. mars 2009 í stað þess að vinna hinn sex mánaða uppsagnarfrest, svo sem honum hafi verið skylt samkvæmt ráðningarsamningnum.

Við túlkun á 1. gr. samningsviðaukans þykir nauðsynlegt að líta til samanburðar á grein 2.1 þar sem fjallað er um „riftun án ástæðu“ af hálfu varnaraðila. Þar er kveðið á um að sóknaraðili skuli eiga rétt til umræddrar greiðslu ef varnaraðili afhendi honum skriflega uppsögn á því tímabili sem fyrr greindi, ef „ástæðan fyrir slíkri riftun er ekki réttmæt uppsögn ... vegna vanefnda þinna á ráðningarsamningi þínum eða öðrum vinnutengdum skuldbindingum“. Hér virðist með öðrum orðum gert ráð fyrir að sóknaraðili skuli halda rétti til greiðslunnar ef varnaraðili bindur endi á ráðningu hans, svo sem varnaraðila er heimilt að gera „að eigin geðþótta“ samkvæmt grein 2.4 í ráðningarsamningnum, nema aðdragandi slíkrar uppsagnar af hálfu varnaraðila hafi verið vanefndir sóknaraðila á skyldum sínum samkvæmt ráðningarsamningnum. Efni eru til að túlka þessi tvö samningsákvæði til samræmis hvort við annað. Leiðir þá af því að sóknaraðili geti ekki talist halda rétti sínum til greiðslunnar samkvæmt 1. gr. samningsviðaukans, ef hann hefur vanefnt ráðningarsamning sinn. Fyrr var komist að þeirri niðurstöðu að sóknaraðili hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt ráðningarsamningnum með því að segja upp störfum og hverfa úr vinnu án umsamins uppsagnarfrests. Af því leiðir að hann hafi þá einnig fyrirgert rétti sínum til eingreiðslunnar við starfslok sem hann krefst viðurkenningar á. Verður hinn kærði úrskurður því einnig staðfestur að því er þetta varðar.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 verður málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður felldur niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. október 2010.

I

Mál þetta var þingfest 30. október 2009, en þá var lagt fram bréf slitastjórnar Straums-Burðaráss fjárfestingabanka hf., móttekið 8. september s.á., þar sem óskað var dómsmeðferðar vegna ágreinings um lýsta kröfu sóknaraðila, Williams Fall, á hendur varnaraðila, Straumi-Burðarási fjárfestingabanka hf. Ágreiningur aðila snýst um „ætlaðan rétt kröfuhafans til greiðslu launa í uppsagnarfresti, kaupaukagreiðslu, eingreiðslu við starfslok og orlof og lífeyrisgreiðslur af umræddum kröfum“, eins og segir í bréfi slitastjórnar. Erindinu var beint til héraðsdóms á grundvelli 171. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 120. gr. sömu laga og 4. töluliðs 2. mgr. ákvæðis II til bráðbirgða í lögum nr. 44/2009, sbr. 5. og 6. gr. sömu laga, um breytingu á 101. og 102. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

II

Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði Straumi-Burðarási fjárfestingabanka hf. (Straumi) slitastjórn 11. maí 2009 samkvæmt ákvæðum 4. töluliðs 2. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009 um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Slitastjórn gaf út innköllun til skuldheimtumanna 12. maí 2009 og birtist hún fyrra sinni í Lögbirtingablaði, sem út kom 18. sama mánaðar. Kröfulýsingarfrestur var ákveðinn tveir mánuðir og var því á enda 18. júlí 2009.

Sóknaraðili, William Fall, fyrrum forstjóri varnaraðila, lýsti kröfu á hendur varnaraðila 26. júní 2009 vegna vangoldinna launa fyrir mars 2009, launa í uppsagnarfresti, eingreiðslu við starfslok, bónusgreiðslu vegna starfsárangurs, orlofs og lífeyrissjóðsgreiðslna, auk dráttarvaxta og kostnaðar við kröfulýsingu, samtals að fjárhæð 3.540.553 evrur. Var þess krafist að krafan nyti stöðu sem forgangskrafa í samræmi við 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 112. gr. laga nr. 21/1991, að undanskildum þeim hluta hennar sem fælist í kostnaði við lýsingu hennar og virðisaukaskatti, en um þær kröfur var vísað til 114. gr. laga nr. 21/1991.

Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfunni og tókst ekki að jafna ágreining aðila á  kröfuhafafundum 6. og 25. ágúst 2009. Á síðari fundinum var ákveðið að vísa ágreiningnum til úrlausnar héraðsdóms.

Endanlegar kröfur sóknaraðila eru nú:

-     að viðurkenndar verði sem almennar kröfur launakröfur hans að fjárhæð 2.904.920 evrur og 

-     að viðurkennd verði sem forgangskrafa lífeyrissjóðskrafa hans að fjárhæð 232.333 evrur.

Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðila, að mati dómsins, auk virðisaukaskatts af málskostnaðarfjárhæð.

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og sóknaraðila gert að greiða honum málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins, að meðtöldum kostnaði vegna virðisaukaskatts.

Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 16. september sl., en endurupptekið 6. október og þá tekið til úrskurðar að nýju.

III

Samkvæmt gögnum málsins eru málsatvik sem hér segir:

Með ráðningarsamningi, dagsettum í maí 2007, var sóknaraðili ráðinn til starfa sem forstjóri Straums-Burðaráss fjárfestingabanka hf. frá 1. júní sama ár, en bankinn var þá með starfsstöðvar í Reykjavík, London, Prag og Stokkhólmi. Var svo um samið að sóknaraðili skyldi fyrst og fremst sinna skyldum sínum á starfsstöð bankans í London, en einnig í Reykjavík eftir þörfum.

Í greinargerð sóknaraðila fjallar hann um störf sín hjá varnaraðila, aðdraganda þess að hann sagði upp starfi sínu og samskiptum við skilanefnd bankans. Þar kemur fram að Fjármálaeftirlitið hafi aðfaranótt 9. mars 2009 ákveðið að taka yfir stjórn bankans og skipa honum skilanefnd. Árla morguns sama dag hafi hann náð tali af formanni skilanefndar og óskað eftir upplýsingum um stöðu sína innan bankans, en einnig spurst fyrir um meðferð krafna á hendur bankanum. Formaður skilanefndar hafi þó hvorki getað svarað honum um stöðu hans né um það hverjir væru nú eigendur bankans. Hins vegar hefði formaðurinn upplýst hann um að tekin hefði verið ákvörðun um að innlendir kröfuhafar bankans nytu forgangs fram yfir erlenda kröfuhafa, þegar kæmi að því að ráðstafa eignum bankans. Þessi afstaða skilanefndar hefði sett sóknaraðila í mjög erfiða aðstöðu, bæði persónulega og faglega, og hefði hann eftir samtal við aðallögfræðing Straums talið að sér væri ekki lengur stætt á því að starfa fyrir varnaraðila. Í framhaldinu hefði hann sagt upp störfum með stuttu bréfi, þar sem þess var óskað að uppsögnin tæki strax gildi. Síðan segir þar: „Í framhaldinu tók sóknaraðili, ásamt öðrum yfirstjórnendum hjá varnaraðila, þátt í að hrinda í framkvæmd upplýsingaáætlun til að tryggt væri að starfsmenn varnaraðila væru upplýstir um stöðu mála. Auk þess þurfti að tryggja samskipti við eftirlitsstofnanir á hinum erlendu starfsstöðvum varnaraðila og var sóknaraðili ásamt öðrum yfirstjórnendum þátttakandi í þeirri vinnu. Sóknaraðili stýrði til að mynda starfsmannafundi á starfsstöð bankans í Reykjavík þar sem veittar voru upplýsingar um stöðu mála. Að kvöldi mánudagsins 9. mars 2009 fór sóknaraðili til London en var næstu daga í nánum samskiptum við aðra yfirstjórnendur bankans vegna ýmissa tiltekinna mála sem upp komu. Sóknaraðili hefur síðan verið tilfallandi í samskiptum við núverandi stjórnendur og starfsmenn félagsins við að greiða úr beiðnum þeirra eftir því sem honum hefur frekast verið unnt.“ Í greinargerðinni segir enn fremur að skilanefnd bankans hafi ekki óskað eftir vinnuframlagi sóknaraðila í uppsagnarfresti, en þess í stað með beinum og óbeinum hætti hafnað vinnuframlagi hans. Tölvupóstur hafi hætt að berast honum og hafi hann því ekki getað fylgst með þróun mála innan bankans. Nýr forstjóri hafi síðan verið ráðinn til varnaraðila 18. mars 2009, og hafi honum þá orðið ljóst að ekki væri frekar óskað eftir starfskröftum hans. Tekur sóknaraðili fram að hvorki fyrr né síðar hafi skilanefnd bankans haft formlegt eða óformlegt samband við hann vegna starfsloka hans.

Meðal gagna málsins eru minnisblöð skilanefndar af fundum með stjórnendum Straums  9. mars 2009, annars vegar tímasett kl. 04:00-07:30, en hins vegar kl. 14:30-16:30. Af fyrra minnisblaðinu má sjá að sóknaraðili var viðstaddur fundinn. Kemur þar m.a. fram að rætt hafi verið um nauðsynlegar fyrstu aðgerðir og viðbrögð stjórnenda. Hafi stjórnendur talið að ekki væri hægt að hafa fyrirtækið opið í venjulegum rekstri og hafi skilanefndarmenn verið sammála því. Stjórnendum hafi því verið falið að gera nauðsynlegar ráðstafanir. Í lok minnisblaðsins segir síðan: „Í lok fundar afhenti William Fall ódagsett uppsagnarbréf sitt og ákvað síðan að hverfa úr fyrirtækinu.“ Í síðara minnisblaðinu er greint frá fundi með lykilstjórnendum Straums, þar sem kynntar voru fyrstu aðgerðir og markmið með störfum skilanefndar. Um leið var verkefnum úthlutað á stjórnendur. Sjá má af minnisblaðinu að sóknaraðili var ekki viðstaddur þann fund.

IV

Kröfur sóknaraðila eru á því reistar að hann hafi sagt upp starfi sínu með uppsagnarfresti og eigi því tilkall til sex mánaða launa hjá varnaraðila samkvæmt gr. 2.3 í ráðningarsamningi hans. Um leið hafnar hann því að hafa brotið tilvitnað ákvæði ráðningarsamningsins þótt hann hafi óskað þess að uppsögnin tæki strax gildi, enda hafi hann verið tilbúinn til að vinna út uppsagnarfrestinn ef varnaraðili óskaði eftir því. Telur hann ljóst að strax við uppsögn, og í öllu falli næstu daga þar á eftir, hafi legið fyrir að varnaraðili óskaði ekki eftir vinnuframlagi hans í uppsagnarfresti. Engu að síður hafi hann eftir afhendingu uppsagnarbréfsins bæði sinnt öllum nauðsynlegum starfsskyldum þann sama dag, svo og næstu daga á eftir. Þannig hafi hann verið í reglulegum samskiptum við núverandi stjórnendur og starfsmenn varnaraðila og í hvívetna lagt sig fram um að greiða úr beiðnum starfsmanna vegna vinnutengdra mála. Varnaraðili hafi hins vegar engar óskir haft uppi um vinnuframlag hans. Heldur sóknaraðili því fram að í athafnaleysi varnaraðila, en ekki síður í þeim athöfnum hans að loka fyrir tölvupóst til hans og ráða nýjan forstjóra, hafi ótvírætt falist sú afstaða varnaraðila að frekara vinnuframlagi hans var hafnað. Samkvæmt því fái ekki staðist sú fullyrðing varnaraðila að sóknaraðili hafi ekki sinnt vinnuskyldum sínum eftir uppsögn, en varnaraðili beri sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu.

Samkvæmt ofanrituðu telur sóknaraðili að hann eigi kröfu um greiðslu launa í sex mánaða uppsagnarfresti, auk kröfu um laun fyrir þann hluta marsmánaðar 2009 sem hann hafi ekki fengið greiddan. Kröfunum til frekari stuðnings vísar hann til álits breskrar lögmannsstofu frá 27. nóvember 2009, sem liggur frammi í málinu. Sömu röksemdir eigi einnig að leiða til þess að krafa hans um starfslokagreiðslu nái fram að ganga, enda hafi hann hvorki brotið gegn ráðningarsamningi né þeim skilyrðum sem komi fram í viðauka við ráðningarsamninginn. Samkvæmt 1. gr. viðaukans beri varnaraðila að greiða honum starfslokagreiðslu í samræmi við 3. gr. sama viðauka, kjósi hann að segja upp störfum áður en tvö ár eru liðin frá því að hann hóf störf hjá varnaraðila. Starfslokagreiðslan teljist hluti af ráðningarkjörum sóknaraðila, og hafi hún haft afgerandi áhrif á þá ákvörðun hans að ráða sig til starfa hjá varnaraðila á sínum tíma. Telur sóknaraðili að hvorki samningur aðila, né þau lög sem um hann gildi, heimili varnaraðila að virða þessa skuldbindingu að vettugi, enda hafi engin þau atvik komið fram sem valdi því að krafan skuldbindi ekki varnaraðila. Krafa hans um bónusgreiðslu vegna ársins 2008 byggist hins vegar á því að um sé að ræða greiðslu vegna vinnu hans á árinu 2008, sem varnaraðili hafi þegar notið góðs af. Ákvörðun um bónusgreiðslur hafi verið tekin í upphafi árs 2009, þegar rekstur bankans var í föstum skorðum, og hafi fjölmargir starfsmenn fengið sambærilegar greiðslur í lok febrúar 2009. Hins vegar hafi útgreiðslu til starfsmanna í yfirstjórn bankans verið frestað til loka ársins. Með vísan til ofanritaðs hafnar sóknaraðili því að hann hafi með uppsagnarbréfi sínu, og athöfnum í framhaldi af því, brotið gegn ráðningarsamningi aðila. Þvert á móti fullyrðir hann að hann hafi að öllu leyti uppfyllt samningsskuldbindingar sínar. Kröfur hans séu því gildar og beri varnaraðila að samþykkja þær sem almennar kröfur við slitameðferð varnaraðila. Fái þessi skilningur einnig stoð í þeim reglum ensks réttar, sem gildi um réttarsamband aðila.

Af hálfu sóknaraðila er einnig á því byggt að engu breyti fyrir réttarstöðu hans þótt litið verði svo á að hann hafi sagt upp starfi sínu, án þess að bjóða fram vinnu sína. Eftir sem áður eigi hann tilkall til sömu greiðslna, enda hafi honum ekki borið skylda til að segja upp með uppsagnarfresti. Fái þessi skilningur stoð í grein 13.2 í ráðningarsamningi aðila. Til vara kveðst hann byggja á því að hátterni, athafnir og athafnaleysi varnaraðila dagana fyrir og eftir uppsögn teljist „constructive dismissal“ í skilningi bresks réttar, en með því sé átt við að varnaraðili hafi brotið trúnaðarsamband milli aðila í ráðningarsambandi. Brot á trúnaðartrausti varnaraðila hafi á endanum neytt sóknaraðila til að leggja inn uppsagnarbréf sitt. Helstu atvik, sem sóknaraðili nefnir í þessu sambandi, eru:

-     Lagaleg staða og framtíð varnaraðila hafi verið óviss eftir að Fjármálaeftirlitið yfirtók starfsemina. Þannig hafi sóknaraðili ekki getað fengið svör við því hver væri raunverulegur eigandi varnaraðila og fyrir hvern hann væri að vinna.

-     Mikil ringulreið og hálfgert stjórnleysi hafi ríkt við innkomu nýrra stjórnenda í skilanefnd varnaraðila. Samskipta- og þekkingarleysi, ásamt vangetu til að takast á við aðstæðurnar, hafi gert yfirstjórnendum, þ.á m. sóknaraðila, mjög erfitt um vik að sinna störfum sínum.

-     Skilanefndin hafi, þrátt fyrir reglur tilskipunar Evrópusambandsins 2001/24/EC um slit fjármálafyrirtækja, strax gefið sóknaraðila til kynna að við slitameðferð yrði innlendum kröfuhöfum veittur forgangur umfram erlenda.

Meðal annars vegna ofanritaðs kveðst sóknaraðili ekki hafa getað starfað með varnaraðila, þar sem það hefði skaðað hann, bæði faglega og persónulega. Að öðru leyti vísar sóknaraðili til fyrirliggjandi lögfræðiálits breskrar lögmannsstofu, sem hann aflaði í því skyni að fá staðreynt hvort kröfur hans teldust tækar samkvæmt breskum rétti, enda eigi ráðningarsamningur hans undir bresk lög. Verði af einhverjum ástæðum talið að íslenskur réttur gildi um samningssambandið milli aðila, kveðst sóknaraðili byggja á því að það breyti engu um þær málsástæður sem hann hafi þegar rakið og kröfur hans byggist á.

Kröfur sóknaraðila eru í fimm liðum og sundurliðast þannig:

1. Laun fyrir marsmánuð 2009

    Miðað er við að uppsagnarfrestur hefjist um mánaðamót,

    dráttarvextir frá 1. til 22. apríl 2009

EUR    54.164

EUR         758

2.  Laun í uppsagnarfresti, sbr. 6. gr. ráðningarsamnings,

     EUR 83.333 x 6 mánuðir

EUR      499.998

3. Eingreiðsla við starfslok, sbr. 1. og 3. gr. viðauka við

    ráðningarsamning

EUR   2.000.000

4.  Bónusgreiðsla vegna 2008

EUR      350.000

5.  Lífeyrissjóðsgreiðslur

EUR      232.333

                                                                                 Samtals    

EUR   3.137.253

Þess er krafist að kröfur samkvæmt 1.- 4. tölulið njóti rétthæðar samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, sbr. og 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, en að krafa samkvæmt 5. tölulið njóti forgangsréttar eftir 4. tölulið 112. gr. laga nr. 21/1991. Að öðru leyti vísar sóknaraðili til meginreglna samningaréttar um skuldbindingargildi loforða og að samninga skuli halda, svo og meginreglu vinnuréttar um rétt til greiðslu launa í uppsagnarfresti, eins og þær reglur komi fyrir í enskum rétti. Krafa hans um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V

Varnaraðili tekur í upphafi fram að ráðningarsamningur sóknaraðila sé gerður undir enskum lögum og hafi sóknaraðili af því tilefni lagt fram lögfræðiálit, sem virðist ætlað að styðja réttmæti krafna hans. Þótt varnaraðili sjái ekki ástæðu til athugasemda við þá framsetningu sóknaraðila að enskar réttarreglur verði hafðar til hliðsjónar við túlkun ráðningarsamningsins, telur hann engu að síður ósannað að af enskum réttarreglum leiði að sóknaraðili eigi rétt til þeirra greiðslna sem hann krefur um. Þá telur hann ljóst að efni enskra réttarreglna hafi enga þýðingu við mat á því hvar kröfur sóknaraðila standi í réttindaröð samkvæmt lögum nr. 21/1991, verði á annað borð talið að til einhverra krafna hafi stofnast.

Krafa varnaraðila, um að hafna beri kröfum sóknaraðila, er á því reist að sóknaraðili hafi vanefnt skyldur sínar samkvæmt ráðningarsamningi og eigi af þeim sökum ekki rétt  á þeim greiðslum sem hann geri kröfu um. Óumdeilt sé að sóknaraðili hafi látið af störfum að eigin frumkvæði þegar eftir skipun skilanefndar bankans, og tilkynnt um leið að hann myndi strax láta af störfum. Afstaða sóknaraðila hafi að þessu leyti verið afdráttarlaus. Að loknum fundi sóknaraðila með skilanefnd hafi legið ljóst fyrir að hann hefði ekki í hyggju að sinna frekari störfum við bankann, enda hafi hann engin frekari samskipti átt við skilanefnd og ekki boðið fram starfskrafta sína. Þá hafi sóknaraðili hvorki hreyft athugasemdum þegar lokað var fyrir aðgang hans að tölvukerfum né þegar nýr forstjóri var ráðinn til bankans.

Varnaraðili mótmælir þeirri málsástæðu sóknaraðila að skilanefnd hafi átt að kalla eftir vinnuframlagi hans, en hafi í raun hafnað því. Fái hvorugt staðist. Í því efni bendir varnaraðili á að afstaða sóknaraðila hafi legið skýr fyrir á fundi með skilanefnd bankans og hafi allar gerðir hans í kjölfar fundarins borið þess merki að hann hefði ekki í hyggju að starfa frekar fyrir bankann. Þar sem sóknaraðili hafi lýst því yfir að hann myndi láta samstundis af störfum, telur varnaraðili að engin skylda hafi hvílt á skilanefnd til að ganga á eftir sóknaraðila og reyna að telja honum hughvarf. Ákvörðun um að loka síðar fyrir aðgang sóknaraðila að tölvukerfum hafi verið afleiðing ákvörðunar hans sjálfs, en ekki ákvörðun skilanefndar um að afþakka vinnuframlag hans. Fullyrðir varnaraðili að skilanefnd hafi ekki haft neinar fyrirætlanir um að segja sóknaraðila upp störfum á fyrsta fundi með stjórnendum bankans. Þvert á móti hafi það verið ætlun skilanefndar að lykilstjórnendur yrðu áfram við störf og kæmu að þeim verkefnum sem framundan voru. Ákvörðun sóknaraðila um að segja upp störfum hafi hins vegar sett skilanefnd í erfiða stöðu, þar sem skilanefndarmenn hafi haft takmarkaða þekkingu á starfsemi bankans.

Að mati varnaraðila fara fullyrðingar sóknaraðila um að vinnuframlagi hans hafi verið hafnað ekki saman við þær skýringar sem hann gefur á brotthvarfi sínu úr starfi. Bendir varnaraðili þar sérstaklega á að sóknaraðili fullyrði að ýmis tilgreind atvik hafi gert það að verkum að hann hafi ekki talið sér stætt að starfa áfram. Þótt varnaraðili telji þær skýringar sóknaraðila rangar, og að engu hafandi, séu þær þó staðfesting þess að sóknaraðili hafi á þessum tíma tekið ákvörðun um að starfa ekki frekar í þágu bankans. Jafnframt séu þær sönnun þess að sóknaraðili hafi aldrei haft í hyggju að sinna starfsskyldum sínum á uppsagnarfresti. Fyrir liggi einnig að sóknaraðili tók ákvörðun um að hætta störfum um tveimur klukkustundum eftir að skilanefndin hafði verið skipuð.

Varnaraðili mótmælir því að á honum hvíli sönnunarbyrði um að kallað hafi verið eftir vinnuframlagi sóknaraðila. Honum hafi, líkt og öðrum starfsmönnum bankans, borið að sinna störfum sínum áfram, og hafi hann ekki haft neina ástæðu til að ætla að starfskrafta hans væri ekki óskað, nema eftir þeim yrði sérstaklega kallað. Með fyrirvaralausu brotthvarfi úr starfi hafi sóknaraðili vanefnt ráðningarsamninginn og fyrirgert rétti til frekari greiðslna á grundvelli hans. Af sömu ástæðu hafi sóknaraðili einnig fyrirgert rétti til launaauka og starfslokagreiðslu. Fyrirliggjandi skilmálar ákvörðunar um launaaukann og viðauki við ráðningarsamninginn um starfslokagreiðslu leiði til sömu niðurstöðu.

Í umfjöllun um einstaka kröfuliði sóknaraðila tekur varnaraðili fram að hvorki sé ágreiningur um fjárhæð krafna sóknaraðila vegna launa fyrir marsmánuð 2009 né vegna sex mánaða uppsagnarfrests, telji dómurinn að sóknaraðili eigi á annað borð rétt til þeirra greiðslna. Falli þær kröfur, ásamt greiðslum í lífeyrissjóð, undir 113. gr. laga nr. 21/1991, eins og krafist sé.

Að því er varðar kröfu sóknaraðila um launaauka vegna ársins 2008, telur varnaraðili augljóst að sóknaraðili eigi ekki rétt til þeirrar greiðslu. Í því sambandi bendir hann á að greiðslu launaaukans hafi verið frestað til 31. desember 2009 og að greiðslan hafi verið háð því skilyrði að sóknaraðili hafi ekki sjálfur sagt upp störfum fyrir það tímamark. Þar sem sóknaraðili hafi sannanlega sagt upp störfum 9. mars 2009 eigi hann þegar af þeirri ástæðu ekki rétt á launaaukanum. Verði hins vegar fallist á kröfuna telur varnaraðili að skipa eigi henni í réttindaröð samkvæmt 3. tölulið 114. gr. laga nr. 21/1991, sem gjafagerningi. Því til stuðnings bendir hann á að réttur sóknaraðila til greiðslunnar sé ekki bundinn í ráðningarsamningi og að um matskennda ákvörðun hafi verið að ræða, án þess að varnaraðila hafi verið skylt að inna greiðsluna af hendi. Loks er á það bent að gríðarlegt tap hafi orðið af rekstri varnaraðila á árinu 2008.

Varnaraðili heldur því einnig fram að starfslokagreiðsla sóknaraðila að fjárhæð 2.000.000 evra sé gjafagerningur í skilningi 3. töluliðar 114. gr. laga nr. 21/1991, eða að fella megi kröfuna undir 2. tölulið sama ákvæðis, sem umsamið févíti. Krafan eigi rætur að rekja til viðauka við ráðningarsamning sóknaraðila og verði virk við það eitt að hann segi upp störfum eða honum sé sagt upp störfum. Ekkert vinnuframlag eða endurgjald sé hins vegar áskilið af hálfu sóknaraðila. Telur varnaraðila að hér beri að líta til þeirrar aðstöðu að skylda varnaraðila til greiðslu starfslokagreiðslunnar hafi orðið virk við einhliða ákvörðun sóknaraðila sjálfs sökum þess að varnaraðili var kominn í greiðsluþrot.

VI

Við upphaf aðalmeðferðar gaf sóknaraðili skýrslu fyrir dómi. Einnig gáfu þá skýrslu Kristinn Freyr Kristinsson, nefndarmaður í skilanefnd varnaraðila, Svanbjörn Thoroddsen, Skúli Valberg Ólafsson og Ásgeir Helgi Reykfjörð, allir fyrrverandi starfsmenn varnaraðila. Enn fremur voru teknar skýrslur gegnum síma af Reyni Vigni, formanni skilanefndar varnaraðila, Óttari Pálssyni, núverandi forstjóra, og Stephen Andrew Jack, fyrrverandi starfsmanni varnaraðila.

Í skýrslu sinni greindi sóknaraðili frá aðdraganda þess að skilanefnd tók yfir bankann aðfaranótt 9. mars 2009. Sagði hann að erfiðleikar á fjármálamörkuðum í fyrstu viku mars hefðu sett bankann í mjög erfiða stöðu. Stjórn bankans hefði því leitað til Fjármálaeftirlitsins og sagt frá áformum um ósk bankans um greiðslustöðvun. Fjármálaeftirlitið hefði hins vegar hafnað þeirri hugmynd en þess í stað skipað bankanum skilanefnd. 

Aðspurður kvaðst sóknaraðili hafa lagt fram uppsögn sína á fyrsta fundi með skilanefnd, með ósk um að hún tæki strax gildi. Ástæða þess hafi verið sú að hann hefði talið sig settan í óþolandi aðstöðu þar sem skilanefnd hefði fært honum þau skilaboð frá Fjármálaeftirlitinu að innlendir kröfuhafar bankans nytu forgangs umfram erlenda. Einnig hefði hann talið að lagaleg staða bankans væri mjög óskýr eftir aðkomu skilanefndar, svo og staða hluthafa. Kvaðst hann sjálfur hafa litið svo á að við uppsögn hans hæfist uppsagnarfrestur, en engar umræður hefðu þó orðið um hlutverk hans innan bankans. Hins vegar hefði skilanefnd spurt hann hvort uppsögnin væri endanleg og hefði hann svarað því að svo væri. Fram kom einnig í máli sóknaraðila að hann hefði næstu tvo til þrjá tíma unnið með stjórnendum bankans að því að miðla upplýsingum um stöðu bankans til erlendra útibúa, stofnana og viðskiptavina. Þá hefði starfsmannafundur verið haldinn kl. 09:00 með öllum starfsmönnum bankans, bæði hér á landi og í erlendum útibúum hans, og hefði hann í lok fundarins þakkað starfsfólki fyrir samstarfið og framlag þeirra. Kvaðst hann síðar um daginn hafa flogið til London og unnið þar næstu daga á skrifstofu bankans. Hefði hann þar átt fjölda samtala við ýmsar stofnanir, starfsmenn hér á landi, auk viðskiptamanna. Skilanefnd hefði hins vegar aldrei haft samband við sig né hann við skilanefnd. 

Spurður um starfslokagreiðslu samkvæmt viðauka við ráðningarsamning sagði sóknaraðili að hann hefði farið fram á þetta fyrirkomulag samhliða ráðningu og hefði stjórn bankans samþykkt það. Ástæðan hefði einkum verið sú að hann hefði vitað af nokkrum óróleika á fjármálamarkaði hér á landi, en einnig að fyrrverandi forstjóri hefði verið rekinn. Kvaðst hann líta svo á að hann ætti rétt til greiðslunnar segði hann upp störfum í kjölfar þess að hafa verið settur í þá aðstöðu að honum væri ókleift að sinna starfsskyldum sínum.

Reynir Vignir, formaður skilanefndar varnaraðila, sagði fyrir dómi að fyrsta verkefni skilanefndar hefði verið að afla upplýsinga um innlán bankans og færa þau úr bankanum, ásamt því að tryggja eignir á móti innlánum. Sagði hann að sóknaraðili hefði verið mjög ósáttur við skipun skilanefndar og hefði hann strax á fyrsta fundi með skilanefndinni, árla morguns 9. mars 2009, lýst því yfir að hann gæti ekki starfað í bankanum við þessar aðstæður. Til skýringar hefði sóknaraðili nefnt bæði persónulegar og faglegar ástæður. Í lok fundarins hefði sóknaraðili afhent honum uppsagnarbréf. Kvaðst Reynir Vignir hafa lagt þann skilning í uppsögn sóknaraðila að hann vildi hætta strax, enda hefði hann horfið af landi brott síðdegis sama dag. Bætti hann því við að skilanefndin hefði fullkomlega virt ákvörðun sóknaraðila og þær ástæður sem hann hefði nefnt, og því ekki séð neina ástæðu til að ræða frekar við hann. Eftir uppsögn hefði skilanefndin aldrei átt nein samskipti við sóknaraðila né hefði sóknaraðili sett sig í samband við skilanefndina.

Aðspurður sagði Reynir Vignir að skilanefndin hefði í upphafi ekki haft nein áform um að segja sóknaraðila eða öðrum stjórnendum upp störfum. Starfsmönnum hefði þó fækkað eftir því sem á leið. Tók hann fram að það hafi verið bagalegt að sóknaraðili hætti strax störfum, þar sem skilanefndin hafi þá þurft að finna nýjan forstjóra í hans stað.

Kristinn Freyr Kristinsson greindi frá uppsögn sóknaraðila, svo og ástæðum hennar, á sama veg og Reynir Vignir. Taldi hann að enginn vafi hafi leikið á því að sóknaraðili hefði í hyggju að hætta störfum samstundis. Því hefði ekki komið til tals hvort hann ætlaði að vinna í uppsagnarfresti. Kristinn sagðist engin samskipti hafa átt við sóknaraðila eftir uppsögn. Spurður hvort aðrir starfsmenn hafi leitað ráða hjá sóknaraðila sagði hann að ef svo hafi verið hafi það ekki verið að ósk skilanefndar.

Óttar Pálsson staðfesti að sóknaraðili hefði tekið mjög nærri sér áform skilanefndar um að tryggja aðeins innlán bankans hér á landi og hefði hann í kjölfarið ítrekað lýst því yfir að hann gæti ekki tekið þátt í uppgjöri sem fæli í sér mismunun kröfuhafa.

Ekki þykir ástæða til að rekja frekar framburði aðila og vitna.

VII

Með ráðningarsamningi, dagsettum í maí 2007, var sóknaraðili ráðinn til starfa hjá varnaraðila frá 1. júní 2007. Í samningnum var m.a. kveðið á um starfsskyldur sóknaraðila, vinnutíma, launakjör og riftun samningsins. Í grein 20.2 segir að samningurinn ráðist af og sé túlkaður í samræmi við lög Englands og Wales. Í samræmi við það kveðst sóknaraðili einkum reisa kröfur sínar á reglum ensks réttar, sem gildi um réttarsamband aðila.

Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, skal sá sem ber fyrir sig venju eða erlenda réttarreglu leiða tilvist og efni hannar í ljós. Þar sem sóknaraðili hefur að engu leyti sýnt fram á tilvist eða efni þeirra reglna ensks réttar, sem hann telur að gildi um réttarsamband aðila, verða þær reglur ekki lagðar til grundvallar við úrlausn málsins. Álit breskrar lögmannsstofu, sem sóknaraðili aflaði til þess að fá úr því skorið hvort kröfur hans teldust tækar samkvæmt breskum rétti, breytir engu í þessu efni, enda felur það álit ekki í sér sönnun fyrir tilvist hinna ensku reglna, né skýrir það efni þeirra. Við úrlausn þessa ágreinings verður því byggt á íslenskum réttarreglum.

Ekki er um það deilt að sóknaraðili sagði upp starfi sínu á fyrsta fundi með skilanefnd varnaraðila árla morguns 9. mars 2009. Uppsagnarbréfið er ódagsett, ritað á ensku, og stílað á stjórn Straums-Burðaráss fjárfestingabanka hf. Bréfið er svohljóðandi: „Due to recent events in the company relating to its ownership and financial strength, I herby tender my resignation as CEO of Straumur Burdaras Investment Bank hf.“ Bréfið er undirritað af sóknaraðila og áritað um móttöku 9. mars 2009 af Reyni Vigni, formanni skilanefndar.

Í skýrslu sinni fyrir dómi sagði sóknaraðili að ástæða uppsagnarinnar hefði verið sú að hann hefði talið sig settan í óþolandi aðstöðu þar sem skilanefnd hefði lýst því yfir að innlendir kröfuhafar bankans nytu forgangs umfram erlenda kröfuhafa. Einnig hefði hann talið að lagaleg staða bankans væri mjög óskýr eftir aðkomu skilanefndar, svo og staða hluthafa. Þótt ástæður uppsagnar séu ekki tilgreindar hinar sömu í uppsagnarbréfinu, er ekki um það deilt að sóknaraðili var mjög ósáttur við skipun skilanefndar, og taldi sér af persónulegum og faglegum ástæðum ekki lengur stætt á því að starfa áfram. Ágreiningslaust er einnig að sóknaraðili óskaði eftir því að uppsögnin tæki strax gildi.

Kröfur sóknaraðila byggjast einkum á því að hann hafi sagt upp störfum með uppsagnarfresti og í engu brotið gegn ákvæðum ráðningarsamnings, þótt hann hafi óskað eftir því að uppsögnin tæki strax gildi. Hafi hann verið reiðubúinn til að starfa út uppsagnarfrestinn ef varnaraðili óskaði þess, enda hafi hann áfram sinnt starfsskyldum sínum, bæði á uppsagnardegi og næstu daga þar á eftir á skrifstofu bankans í London. Hins vegar hafi varnaraðili, bæði beint og óbeint, hafnað vinnuframlagi hans. Einnig er á því byggt að varnaraðili hafi brotið trúnaðarsamband milli aðila í ráðningarsambandi og hafi það neytt sóknaraðila til uppsagnar. Því til stuðnings nefnir sóknaraðili nokkur atriði, sem virðast hafa  ráðið úrslitum um að hann taldi sig ekki geta starfað með varnaraðila. 

Samkvæmt áðurnefndum ráðningarsamningi sóknaraðila og varnaraðila, grein 2.3, gilti samningurinn frá upphafsdegi ráðningar sóknaraðila og þar til honum yrði rift af öðrum aðilanum með skriflegri tilkynningu til hins, með eigi skemmri fyrirvara en sex mánuðum. Sóknaraðila bar því með minnst sex mánaða fyrirvara að tilkynna varnaraðila um riftun samningsins. Af efni samningsins verður ekki ráðið að sóknaraðili hafi átt þess kost að rifta honum án fyrirvara, en njóta engu að síður fullra launa og annarra umsaminna starfskjara. Öðru máli gegndi um varnaraðila, en samkvæmt grein 2.4 var honum heimilt að rifta samningnum tafarlaust, ýmist án bóta eða með því að greiða sóknaraðila umsamin laun og starfskjör á uppsagnartíma, sbr. grein 13.1 og 13.2.

Ekki verður fram hjá því horft að sóknaraðili sagði sjálfur upp störfum með skriflegri tilkynningu, án fyrirvara, en óskaði þess munnlega að uppsögnin tæki strax gildi. Hann tilgreindi ástæður fyrir uppsögninni og taldi sér ekki lengur stætt á því að starfa áfram fyrir bankann. Á starfsmannafundi, sem haldinn var kl. 09:00 að morgni, þakkaði hann öllum starfsmönnum bankans fyrir samstarfið og störf þeirra, bæði hér á landi og í erlendum útibúum. Síðar um morguninn yfirgaf hann skrifstofu sína og hélt til London síðdegis sama dag. Allt þykir þetta taka af tvímæli um að sóknaraðili hafði ekki í hyggju að sinna starfsskyldum sínum í uppsagnarfresti. Það eitt að hann óskaði eftir því að uppsögnin tæki strax gildi, en gat ekkert um uppsagnarfrest, hvorki í uppsagnarbréfinu né í samtölum við skilanefnd, verður með engu móti túlkað þannig að hann hafi verið reiðubúinn til að starfa út uppsagnarfrestinn ef óskað yrði eftir því. Þvert á móti verða ummælin aðeins skilin á þann hátt að í þeim hafi falist fyrirvaralaus slit á ráðningarsamningi. Skilanefnd varnaraðila hafði því enga ástæðu til að óska eftir vinnuframlagi hans. Þá er ekkert í gögnum málsins sem styður þá fullyrðingu sóknaraðila að í athöfnum eða athafnaleysi skilanefndar hafi falist sú afstaða að ekki væri óskað eftir vinnuframlagi hans. Hins vegar verður síðara tómlæti sóknaraðila, bæði við ráðningu nýs forstjóra og þegar lokað var fyrir tölvupóst til hans, tæpast skýrt á annan hátt en að hann hafi verið þess fullkomlega meðvitaður að ráðningarsambandi hans og varnaraðila væri lokið. Sú háttsemi að hafa engin samskipti við skilanefnd varnaraðila eftir uppsögnina þykir og styðja það álit dómsins að sóknaraðili hafi sjálfur ekki talið sig vera í starfi hjá varnaraðila. Hafi sóknaraðili aftur á móti talið sig áfram vera við störf, en í uppsagnarfresti, bar honum að sinna starfsskyldum sínum samkvæmt ráðningarsamningi, en undir stjórn skilanefndar varnaraðila. Leiðir það af reglum íslensks vinnuréttar um uppsögn ráðningarsamnings og réttaráhrif  uppsagnar. Það gerði hann þó ekki. Breytir hér engu sú staðhæfing sóknaraðila að hann hafi næstu daga eftir uppsögn sína sinnt störfum á skrifstofu bankans í London, enda er sú staðhæfing með öllu ósönnuð.

Með vísan til ofanritaðs er það álit dómsins að sóknaraðili hafi með uppsögn sinni lýst yfir fyrirvaralausri riftun á ráðningarsamningi aðila og með því brotið gegn grein 2.3 í sama samningi. Með því að sinna ekki starfsskyldum sínum í uppsagnarfresti vanefndi hann jafnframt ráðningarsamninginn. Þykir hér engu breyta sú málsástæða sóknaraðila að varnaraðili hafi í raun þvingað hann til uppsagnar vegna brota á trúnaðarsambandi milli aðila, enda fær dómurinn ekki séð að þau atriði sem sóknaraðili tiltekur sérstaklega í því sambandi hafi falið í sér brot á trúnaðarsambandi, eða að öðru leyti verið þess eðlis að honum hafi verið heimilt að rifta ráðningarsamningi án fyrirvara. Við einhliða og fyrirvaralausa riftun sóknaraðila á ráðningarsamningi hans og varnaraðila féll ráðningarsamningurinn úr gildi, og um leið þau réttaráhrif sem við hann voru tengd. Því á sóknaraðili hvorki rétt til greiðslu launa í uppsagnarfresti né fyrir tímabilið frá uppsagnardegi til marsloka 2009. Hinu sama gegnir um kaupauka til hans vegna ársins 2008. Raunar var greiðsla kaupaukans, sem átti að koma til útborgunar 31. desember 2009, einnig háð því að sóknaraðili hefði ekki sjálfur sagt upp störfum fyrir þann tíma. Þegar af þeirri ástæðu gat sóknaraðili ekki vænst þess að kaupaukinn yrði greiddur honum.

Samhliða því sem ráðningarsamningur var gerður við sóknaraðila gaf stjórn varnaraðila út yfirlýsingu í formi bréfs til sóknaraðila, og telst bréfið viðauki við ráðningarsamninginn. Bréfið er upphaflega ritað á ensku, eins og ráðningar­samningurinn, en hvort tveggja hefur verið lagt fram í íslenskri þýðingu. Bréfið ber yfirskriftina „Peningagreiðsla við riftun ráðningarsamnings.“ Þar er því lýst yfir að sóknaraðili eigi rétt til að fá greidda peningaupphæð ef starfi hans lýkur hjá bankanum, en eingöngu við þær aðstæður sem þar greinir. Jafnframt er tekið fram að verði ráðningu hans rift við einhverjar aðrar aðstæður en þar er lýst, eigi skilmálar bréfsins ekki við og hafi engin áhrif. Í 1. gr. viðaukans er fjallað um uppsögn. Þar segir svo: „Ef þú afhendir félaginu skriflega tilkynningu um uppsögn einhvern tíma eftir fyrsta heila árið frá upphafsdeginum og þegar eða áður en tvö ár eru liðin frá upphafsdeginum, mun félagið innan  þrjátíu (30) daga frá þeim degi sem starfstíma þínum lýkur samkvæmt slíkri tilkynningu, greiða þér peningaupphæð. Greiðslan skal reiknuð samkvæmt skilmálum málsgreinar 3 hér að neðan.“ Samkvæmt 3. gr. nam greiðslan sem félagið átti að inna af hendi til sóknaraðila við þessar aðstæður 2.000.000 evra.

Orðalag 1. gr. þykir ótvírætt benda til þess að greiðslan sé háð því skilyrði að uppsögn beri að með þeim hætti sem mælt er fyrir um í grein 2.3 í ráðningarsamningi, þ.e. „með skriflegri tilkynningu til hins með eigi skemmri fyrirvara en sex mánuðum.“ Að öðrum kosti eigi skilmálar viðaukans ekki við. Þar sem dómurinn hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að sóknaraðili hafi með uppsögn sinni lýst yfir fyrirvaralausri riftun á ráðningarsamningi aðila og með því brotið gegn grein 2.3 í sama samningi, verður að fallast á það með varnaraðila að sóknaraðili hafi fyrirgert rétti sínum til greiðslu við starfslok hans hjá varnaraðila. Að fenginni þeirri niðurstöðu er ekki ástæða til að fjalla um kröfu sóknaraðila vegna greiðslna í lífeyrissjóð.

Samkvæmt ofanrituðu er öllum framangreindum kröfum sóknaraðila, sem hann lýsti við slit varnaraðila, hafnað.

Með vísan til 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, sbr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað, sem ákveðst hæfilegur 600.000 krónur.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfum sóknaraðila, Williams Fall, alls að fjárhæð 3.137.253 evrur, sem hann lýsti sem forgangskröfu og almennum kröfum við slit varnaraðila, Straums-Burðaráss fjárfestingabanka hf., er hafnað.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 600.000 krónur í málskostnað.