Hæstiréttur íslands
Mál nr. 500/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Gögn
- Verjandi
|
|
Miðvikudaginn 27. nóvember 2002. |
|
Nr. 500/2002. |
Ríkislögreglustjóri (Jón H. Snorrason saksóknari) gegn X(Helgi Jóhannesson hrl.) |
Kærumál. Gögn. Verjandi.
Ríkislögreglustjóri rannsakaði ætlaðan fjárdrátt eða umboðssvik X og fleiri manna gagnvart B hf. Var ríkislögreglustjóra hvorki rétt né skylt að afhenda verjanda X endurrit af öllum skjölum, sem hann hafði aflað eða honum höfðu borist með öðrum hætti, þar sem þau höfðu ekki enn verið rannsökuð. Á hinn bóginn var honum skylt að afhenda verjandanum endurrit af skýrslu, sem var tekin af nafngreindri konu og hinn síðarnefndi hafði sérstaklega tilgreint meðal þeirra gagna, sem hann óskaði eftir að fá afhent, þar sem ríkislögreglustjóri hafði ekkert aðhafst til að sýna fram á að efni skýrslunnar varðaði ekki sakarefnið sem beint var að X.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. nóvember 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. nóvember 2002, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að sóknaraðila sé skylt að veita verjanda hans aðgang að öllum gögnum, sem sóknaraðili hefur aflað eða honum hafa borist vegna rannsóknar opinbers máls, sem beinist að varnaraðila, og verjandinn hefur ekki þegar fengið afhent. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að kröfu varnaraðila verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að henni verði hafnað.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
I.
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði rannsakar sóknaraðili nú ætlaðan fjárdrátt eða umboðssvik varnaraðila og fleiri manna gagnvart B hf. auk annarra brota. Í tengslum við rannsókn sóknaraðila var gerð húsleit hjá nefndu félagi 28. ágúst 2002 þar sem lagt var hald á nokkurn fjölda skjala, tölvudisklinga og ljósmynda, auk farsíma og fartölvu. Jafnframt voru tekin afrit gagna úr nánar tilgreindum hlutum tölvukerfis félagsins. Óskaði verjandi varnaraðila eftir því 2. september sama árs að fá endurrit af öllum skjölum sem vörðuðu málið, svo og aðstöðu til að kynna sér önnur gögn sem ekki yrðu endurrituð. Sóknaraðili hafnaði þeirri beiðni með vísan til 1. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1991. Hinn 9. september 2002 fór sóknaraðili fram á að héraðsdómari tæki skýrslu af varnaraðila og framlengdi jafnframt í þrjár vikur frest sóknaraðila til að synja verjanda varnaraðila um aðgang að gögnum er vörðuðu málið. Með úrskurði 10. september 2002 féllst héraðsdómur á kröfu sóknaraðila um skýrslutöku af varnaraðila fyrir dómi, en hafnaði að framlengja frest hans til að synja verjanda varnaraðila um aðgang að gögnum sem vörðuðu málið. Staðfesti Hæstiréttur úrskurðinn 24. sama mánaðar. Að gengnum dómi Hæstaréttar mun verjandi varnaraðila hafa fengið aðgang að þeim gögnum sem sóknaraðili sagði varða málið. Tveimur dögum síðar óskaði verjandinn eftir því að sér yrðu afhent öll ný gögn, sem vörðuðu málið, eigi síðar en viku frá því að þau urðu til eða bárust sóknaraðila. Sóknaraðili svaraði beiðninni með bréfi 1. október 2002 þar sem kom fram að verjandinn hafi þegar fengið afhent öll gögn sem vörðuðu það sakarefni, sem beint hafi verið að varnaraðila við skýrslutöku af honum 29. ágúst sama árs, en ekki hafi verið ákveðið hvort og þá hvaða gögn kynnu frekar að varða mál hans. Með bréfi 23. október sl. ítrekaði verjandi varnaraðila beiðni sína og óskaði sérstaklega eftir því að sér yrði afhent afrit af skýrslu sem Y hafi gefið hjá sóknaraðila daginn áður. Sóknaraðili hafnaði beiðninni með bréfi 28. sama mánaðar. Með bréfi sama dag óskaði verjandinn eftir því að héraðsdómur úrskurðaði um skyldu sóknaraðila til að afhenda sér öll gögn sem hann hafi aflað eða honum hafi borist vegna rannsóknar málsins. Til stuðnings kröfunni vísaði hann til 1. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1991. Með hinum kærða úrskurði féllst héraðsdómari sem fyrr segir á að sóknaraðila væri skylt að afhenda verjanda varnaraðila öll gögn, sem sóknaraðili hafi aflað eða honum hafi borist, og verjandinn hafi ekki þegar fengið afhent.
II.
Í gögnum málsins og kæru sóknaraðila til Hæstaréttar kemur fram að rannsókn sóknaraðila beinist að fleiri mönnum en varnaraðila og sé ekki bundin við það sakarefni sem hafi verið beint að honum. Hafi sóknaraðili í tengslum við rannsóknina farið fram á að B hf. léti í té nánar tilgreind gögn, þar á meðal úr bókhaldi félagsins. Þá hafi hann aflað gagna í þágu rannsóknarinnar í Færeyjum og Bandaríkjum Norður Ameríku, svo og hjá nafngreindum lögmanni. Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að umrædd gögn annað hvort tengist ekki sakarefninu, sem sé beint að varnaraðila, eða að ekki liggi fyrir hvort svo sé þar sem þau hafi ekki enn verið könnuð, enda sé um að ræða mikið af gögnum sem taki tíma að rannsaka. Varnaraðili telur á hinn bóginn að umrædd gögn varði málið og að rétti verjanda sakaðs manns sé stefnt í tvísýnu verði fallist á sjónarmið sóknaraðila.
III.
Samkvæmt 67. gr. laga nr. 19/1991 er markmið rannsóknar að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar. Ákvæði 43. gr. laganna um aðgang verjanda sakbornings að gögnum létu upphaflega svo mælt, að verjandi skyldi jafnskjótt og unnt væri fá til afnota endurrit af öllum skjölum sem vörðuðu málið, svo og aðstöðu til að kynna sér önnur gögn sem ekki yrðu endurrituð. Þó mætti ekki láta sakborningi í té eintak af endurriti eða kynna honum efni þess nema dómari eða rannsóknari samþykkti. Með 12. gr. laga nr. 36/1999 var framangreindum ákvæðum breytt þannig að í 1. mgr. 43. gr. segir nú að verjandi skuli jafnskjótt og unnt er fá endurrit af öllum skjölum sem málið varða, svo og aðstöðu til að kynna sér önnur gögn, sem ekki verða endurrituð, en lögregla geti þó neitað að veita verjanda aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum málsins í allt að eina viku frá því að þau urðu til eða komust í vörslur hennar telji hún það geta skaðað rannsókn málsins. Þá segir í 2. mgr. greinarinnar að þegar verjandi hafi fengið aðgang að gögnum máls sé honum heimilt að láta sakborningi í té eintak af endurriti eða kynna honum gögnin með öðrum hætti. Í athugasemdum með frumvarpi því, sem var samþykkt sem lög nr. 36/1999, er lögð áhersla á að heimild lögreglu til að neita verjanda um aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum máls sé hugsuð sem undantekningarákvæði, sem aðeins eigi að beita þegar sérstaklega stendur á og verulegir hagsmunir séu í húfi.
Af fyrri dómum Hæstaréttar þar sem reynt hefur á skýringu 1. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1991 er ljóst að aðgangur verjanda að gögnum getur takmarkast enn frekar en að ofan greinir vegna hagsmuna annarra af friðhelgi upplýsinga um persónuleg málefni þeirra. Þá hefur ákvæðið einnig verið skýrt svo að verjandi geti aðeins krafist aðgangs að gögnum, sem varði mál þar sem hann hefur verið skipaður verjandi. Um þetta vísast til dóma réttarins 1999, bls. 3944 í dómasafni, og 21. júní 2001 í máli nr. 227/2001. Verjandi á aðeins rétt til skjala, sem varða það sakarefni sem beint er að skjólstæðingi hans. Sóknaraðili hefur staðið fyrir umfangsmikilli öflun gagna, sem eðli máls samkvæmt tekur nokkurn tíma að vinna úr. Hvert svigrúm rétt sé að veita sóknaraðila til að vinna úr þeim og taka jafnframt afstöðu til þess hvort einstök gögn varði mál varnaraðila eða snerti hagsmuni annarra þannig að áhrif hafi á skyldu til að afhenda gögn, ræðst jafnframt af því í hvaða farveg rannsóknin verður felld. Að þessu virtu og þeim tíma, sem liðinn er frá því gagnanna var aflað, verður fallist á með sóknaraðila að honum sé hvorki rétt né skylt að afhenda verjanda varnaraðila endurrit af öllum skjölum, sem sóknaraðili hefur aflað eða honum hafa borist með öðrum hætti og enn hafa ekki verið rannsökuð. Verður kröfu varnaraðila hafnað að svo stöddu.
Í málatilbúnaði sínum hefur varnaraðili sérstaklega tilgreint að meðal gagna, sem sóknaraðili hafi aflað og varnaraðili vilji fá afhent, sé skýrsla sem tekin var 22. október 2002 af Y, starfsmanni B hf. Sóknaraðili hefur eftir það átt þess kost að taka afstöðu til þess hvort efni hennar varði sakarefnið, sem beint er að varnaraðila. Telji sóknaraðili skýrsluna ekki varða sakarefnið hefur hann þrátt fyrir það ekkert aðhafst til að sýna fram á það, svo sem með því að leggja endurrit hennar fyrir dómara til athugunar. Að þessu virtu verður að fallast á kröfu varnaraðila um að sóknaraðila sé skylt að afhenda honum endurrit af umræddri skýrslu.
Samkvæmt öllu framanröktu er fallist á að sóknaraðila sé skylt að afhenda verjanda varnaraðila endurrit af skýrslu, sem hann tók af Y 22. október sl. Kröfu varnaraðila er að öðru leyti hafnað að svo stöddu.
Dómsorð:
Sóknaraðila, ríkislögreglustjóra, er skylt að afhenda verjanda varnaraðila, X, skýrslu sem tekin var af Y 22. október 2002. Að öðru leyti er kröfu varnaraðila hafnað að svo stöddu.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. nóvember 2002.
I.
Mál þetta var tekið til úrskurðar þann 1. nóvember sl. að loknum munnlegum málflutningi.
Með beiðni, dagsettri 28. október sl., gerði sóknaraðili, X, þá kröfu, að Ríkislögreglustjóra verði, með úrskurði Héraðsdóms, gert skylt að afhenda verjanda sóknaraðila öll gögn, sem lögregla hefur aflað eða borizt hafa lögreglu vegna rannsóknar máls nr. 006-2002-0086 og verjandi hefur ekki þegar fengið afhent.
Kröfur varnaraðila eru þær aðallega, að kröfu sóknaraðila verði vísað frá dómi, en til vara að henni verði hafnað.
II.
Efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjórans hefur nú til rannsóknar meint brot X, stjórnarformanns B hf., og nokkurra annarra einstaklinga gagnvart B hf., lögreglumál nr. 006-2002-0086. Brotin eru talin geta varðað við 247. og/eða 249. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, 36., sbr. 37. gr. bókhaldslaga nr. 145/1994 og 107. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981. Umfang brotanna í fjárhæðum eru talin geta numið um 100 milljónum króna.
Í tengslum við þá rannsókn gerði efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra húsleit hjá B hf. á skrifstofu félagsins að [...], síðdegis þann 28. ágúst 2002. X var þá staddur erlendis, en mætti til skýrslugjafar hjá Ríkislögreglustjóra næsta dag.
Varnaraðili kveður, að við húsleitina á skrifstofu félagsins hafi verið lagt hald á gögn úr bókhaldi B hf. Þá hafi lögreglu verið nauðsynlegt að afrita tölvugögn á netþjóni til að tryggja sönnunargögn, sem þar kynnu að finnast, svo sem afrit af gögnum á heimasvæði sakborninga, svo sem textaskjölum og tölvupósti, sem varpað gætu ljósi á sakarefnið. Í ljós hafi komið, að framangreind gögn hefði verið að finna á útstöðvum netkerfisins, þ.e. í tölvum hvers starfsmanns, og hafi verið lagt hald á tölvu forstjórans. Tölvupóstur í tölvu þáverandi forstjóra hafi verið eini tölvupósturinn, sem lögregla lagði hald á. Tölvu þessari hafi nú verið skilað, en áður hafi harður diskur hennar verið afritaður í þágu rannsóknarinnar. Auk framangreindra tölvugagna hafi lögregla tekið afrit af svæðum á netþjóni, sem sakborningar hafi aðgang að, auk afrita af heimasvæðum tveggja lykilstarfsmanna B hf. Þá hafi lögregla fengið afhent afritunarband með afriti af bókhaldi A hf. frá nóttinni áður, og hafi lögregla tekið afritunarband af bókhaldi B hf. því til viðbótar. Daginn eftir hafi lögmaður B hf. afhent annað afritunarband með bókhaldi A hf., þar sem hann hafi kveðið starfsmenn félagsins hafa gert mistök, þegar afritunarbandið var afhent kvöldið áður. Leitin á starfsstöð B hf. hafi einkum beinzt að þeim hluta hennar, sem sakborningar réðu yfir, þ.e. skrifstofum þeirra, auk þess að beinast að skoðun á bókhaldi félagsins. Þá kveður varnaraðili gögn, sem afrituð voru úr bókhaldi B hf. og útprentanir af bókhaldi þess hafa verið afrituð af starfsmönnum félagsins, og hafi félagið fengið afrit af þeim gögnum jafnóðum.
Frá því að leitin fór fram, hafi verið farið yfir gögn, sem haldlögð voru. Eins og að framan greini, hafi tölvu þáverandi forstjóra verið skilað til baka 29. ágúst sl., auk þess sem gögnum, sem hafi númerið A-2, A-3 og A-4 í haldlagningarskýrslu, fylgiskjal 1, hafi verið skilað lögmanni félagsins 30. ágúst sl., eftir að yfirferð yfir gögnin, sem voru í möppum með tilbúnum nöfnum, hafi leitt í ljós, að þau vörðuðu ekki rannsókn málsins.
Með bréfi lögmanns sóknaraðila, X, til varnaraðila, dags. 2. september sl., óskaði lögmaðurinn eftir endurriti af öllum skjölum, sem vörðuðu lögreglumálið, svo og aðstöðu til að kynna sér önnur gögn, sem ekki yrðu endurrituð. Lögreglan hafnaði þeirri beiðni með vísan til 1. mgr. 43. gr. l. nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Þann 9. september sl. gerði Ríkislögreglustjóri þá kröfu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, að Héraðsdómur tæki skýrslu af sóknaraðila, þ.e. varnaraðila í lögreglumálinu, og framlengdi jafnframt í þrjár vikur frest, sem lögregla hefði til að synja verjanda hans um aðgang að gögnum, er vörðuðu rannsókn máls nr. 006-2002-86. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í því máli, nr. R-402/2002, uppkveðnum 10. september sl., féllst Héraðsdómur á kröfu Ríkislögreglustjóra um skýrslutöku fyrir dómi af sóknaraðila, en hafnaði kröfu um framlengingu frests.
Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar, sem kvað upp dóm þann 24. september sl. á þá lund, að hafnað var kröfu Ríkislögreglustjóra um að framlengja frest til að synja verjanda sóknaraðila um aðgang að gögnum málsins. Næsta dag fékk verjandi sóknaraðila afhent þau gögn, sem starfsmenn Ríkislögreglustjóra skilgreindu sem gögn málsins á þeim tíma.
Þann 4. október sl. óskaði Ríkislögreglustjóri eftir því skriflega, að B hf. léti í té afrit nánar tilgreindra gagna frá félaginu og úr bókhaldi þess. Þann 14. október sl. barst svar við beiðninni, og voru lögreglu afhentar skriflegar skýringar, auk mikils magns gagna, sem lögregla kveðst vera að rannsaka.
Þann 22. október sl. óskaði Ríkislögreglustjóri eftir því skriflega, að B hf. léti í té nánar tilgreind gögn og að þeim yrði komið til lögreglu þann 25. október sl. Vegna umfangs gagnaöflunarinnar óskaði B hf. eftir frekari fresti til að taka þessi gögn saman, eða til 28. október, en gögnin bárust lögreglu síðdegis þann 29. október sl.
Þann 22. október var enn fremur tekin vitnaskýrsla hjá Ríkislögreglustjóra af Y, starfsmanni B Group hf. Næsta dag óskaði sóknaraðili skriflega eftir afriti af skýrslunni, sem og öðrum skjölum varðandi málið, sem ekki höfðu þegar verið afhent. Því var synjað með bréfi Ríkislögreglustjóra, dags. 28. október, með vísan til þess, að ekki hefði verið tekin ákvörðun um, hvort gögnin eða skýrslan vörðuðu mál sóknaraðila.
Þann 24. október sl. óskaði Ríkislögreglustjóri eftir því skriflega við Z., að hann gæfi tilteknar upplýsingar, er vörðuðu hann og einkahlutafélag hans, C ehf., og samskipti þess við B hf. Svör bárust frá Z þann 30. okt. sl.
Fyrir liggur, að lögregla fór til Færeyja og Flórída til öflunar gagna í tengslum við rannsóknina, og kveður lögregla m.a. hafa verið aflað afrits af bókhaldi fyrirtækis. Kveður sóknaraðili Ríkilögreglustjóra hafa neitað að afhenda afrit af þeim gögnum, þar sem ekki hefði verið tekin ákvörðun um, hvort, og þá hvaða gögn varði mál sóknaraðila.
III.
Sóknaraðili byggir kröfu sína á því, að Ríkislögreglustjóri sé, með ólögmætum hætti að synja sér um aðgang að gögnum málsins, þrátt fyrir að hann eigi skýlausan rétt á endurriti af gögnunum, með vísan til 1. mgr. 43. gr. oml. Sú túlkun lögreglunnar, að henni sé heimilt að halda gögnum, sem hún hafi beinlínis aflað vegna rannsóknar málsins, frá verjanda á þeim grundvelli, að þau varði ekki málið, sé ekki tæk. Sé lögreglan einungis með því að fara í kringum ákvæði laganna. Ekki sé unnt að skýra ákvæði 1. mgr. 43. gr. oml á annan hátt en þann, að verjandi eigi rétt á aðgangi að öllum gögnum máls, jafnskjótt og þau verði til eða berist lögreglu. Ljóst sé, að þau gögn, sem beinlínis sé aflað við rannsókn málsins, varði málið. Breyti engu þar um, hvort lögregla hafi gert þau formlega að hluta máls með því að tilgreina þau í skjalaskrá rannsóknargagna, eða hvort að lögregla hafi borið þau undir sakborning. Sé tekin skýrsla af vitni eða gagna aflað með öðrum rannsóknaraðgerðum, sé ávallt, eðli málsins samkvæmt, um gögn að ræða, er varði málið, og geti lögreglan ekki komizt hjá þeirri lagaskyldu að afhenda verjanda afrit þeirra.
Með vísan til ofangreinds og til 75. gr. oml. krefjist sóknaraðili þess, að Héraðsdómur Reykjavíkur kveði upp úrskurð um skyldu Ríkislögreglustjóra til að afhenda verjanda hans í lögreglumálinu öll gögn, er lögregla hafi aflað, eða borizt hafi lögreglu vegna rannsóknar málsins.
IV.
Frávísunarkröfu sína byggir varnaraðili á því, að Ríkislögreglustjórinn hafi þegar afhent hinum sóknaraðila (sic í grg., líklega átt við verjanda sóknaraðila) öll þau gögn, sem varði það sakarefni, sem þegar hafi verið beint að skjólstæðingi hans.
Varakröfu sína byggir varnaraðili á því, að að skýra beri l. mgr. 43. gr. oml., sem sóknaraðili byggi kröfur sínar á, svo, að upphaf rannsóknar gagnvart sakborningi sé, þegar hún beinist að honum, með því að hann sé handtekinn og/eða yfirheyrður á grundvelli sakarefnis, sem sé afmarkað. Þar af leiðandi geti lögregla haldið gögnum frá verjanda, þótt þau hafi verið lengur en eina viku í vörzlum hennar, hafi rannsóknin ekki beinzt sérstaklega að skjólstæðingi hans, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 432/1999. Þá hafi fræðimenn talið, að fresturinn byrji að líða frá því að skýrsla hafi verið tekin af manni vegna gruns á hendur honum um refsiverða háttsemi, þar sem í yfirheyrslu sé ákveðnu sakarefni, sem byggi á gögnum, beint að kærða, sbr. Hrd. nr. 316/2001.
Það sé hlutverk lögreglu að taka ákvörðun um, hvort tiltekið sakarefni varði tiltekna einstaklinga, og geri lögregla það með því að beina sakarefninu að honum, við yfirheyrslu eða handtöku, sbr. það sem að framan sé getið.
Eins og að framan sé rakið, hafi lögregla afhent þau gögn, sem varði það sakarefni, sem beint hafi verið að sóknaraðila. Um önnur gögn, sem lögregla hafi aflað, sé ekki ljóst á þessu stigi rannsóknarinnar, hvort þau varði málið eða ekki, eins og áskilið sé í 1. mgr. 43. gr. oml.
Talið hafi verið, að jafnræði skuli ríkja milli ákæruvalds og ákærða við meðferð opinbers máls fyrir dómi. Hafi þessi meginregla verið leidd af fyrirmælum um réttláta málsmeðferð, sem sé að finna í l. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Af þeim sökum beri, eftir því sem kostur sé, að veita manni, sem borinn sé sökum um refsiverða háttsemi, sömu aðstöðu og ákæruvaldinu til þess að flytja mál sitt fyrir dómi. Ein af forsendum þess sé, að hann fái aðgang að og geti kynnt sér öll þau gögn, sem lögð séu fram af hálfu ákæruvaldsins í málinu.
Þrátt fyrir þau eðlilegu og sjálfsögðu réttindi, sem talið sé, að sakborningur skuli hafa við rannsókn máls, og þá sérstaklega við meðferð þess fyrir dómi, og lögfest hafi verið, sé það mat lögreglu, að þau hljóti að takmarkast á rannsóknarstigi mála við það afmarkaða sakarefni, sem til rannsóknar sé, og beint hafi verið að honum.
Ósjaldan við rannsókn mála hafi lögregla undir höndum mikið magn skjala og gagna og geti verið um að ræða viðkvæm gögn, er varði þriðja mann, og þar með talið fyrirtæki. Rannsókn lögreglu beinist m.a. að því að ákvarða, hvort þessi gögn varði sakarefni á hendur tilteknum manni eða ekki.
Lögregla taki ákvörðun um, hvort gögnin varði rannsókn á hendur tilteknum aðila með því að beina sakarefninu að honum, t.d. við yfirheyrslu.
Miklu máli skipti, að ekki sé brotið á réttindum þriðja manns við rannsókn sakamála og að hann geti treyst því, að gögn, er varði hann, sem hann hafi afhent lögreglu eða verið gert skylt að afhenda lögreglu, fari ekki í hendur annarra að ástæðulausu, enda megi hann treysta því, að lögregla fylgi skilyrði 1. mgr. 43. oml. um að skjöl og gögn, sem afhent séu, varði tiltekið mál.
Rannsókn opinberra mála sé í höndum lögreglu, sbr. 66. gr. oml., og sé markmið rannsóknar að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða, að henni lokinni, hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar, sbr. 67. gr. oml. Það sé ákærandi, sem höfði opinbert mál með útgáfu ákæru, og eins og komi fram í 2. mgr. 119. gr. oml. skuli ákæran send dómi ásamt gögnum málsins. Yfirleitt séu því flest gögn í sakamálum lögð fram af hálfu ákæruvaldsins.
Af ýmsum ástæðum sé staða lögreglu og sakbornings frábrugðin á rannsóknarstigi mála, en þó hafi verið talið, að jafnræði skuli ríkja á milli ákæruvalds og ákærða við meðferð opinbers máls fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 122. gr. oml.
Það sé mat lögreglu, að meginhugsun löggjafans sé sú, að sakaður maður hafi sömu aðstöðu og ákæruvaldið til þess að flytja mál sitt fyrir dómi. Hann skuli hins vegar ekki hafa með höndum stjórn rannsóknar opinberra mála, og verði að skýra efni 1. mgr. 43. gr. oml. í samræmi við það.
Í ákvæðum 32. gr. og 33. gr. oml. sé kveðið á um þá skyldu lögreglu að gefa sakborningi upplýsingar um kæruefni, áður en hann sé yfirheyrður út af því. Þá eigi sá, sem yfirheyrður sé við rannsókn máls, rétt á því að fá vitneskju um það, þegar mál sé orðið svo skýrt, að þess sé kostur, hvort hann sé spurður vegna gruns á hendur honum um refsivert brot, eða hvort hann sé kvaddur til vitnisburðar. Þá skuli spurningar vera skýrar og ótvíræðar og ekki megi rugla sakborning með ósannindum eða á annan hátt, eða beita hann neins konar ólögmætri þvingun í orði eða verki.
Þá segi m.a. í 68. gr. oml., að rannsaka skuli og afla allra tiltækra gagna um verknað þann, sem um sé að ræða, svo sem stað og stund og öll nánari atvik, sem ætla megi, að skipt geti máli.
Til að fullnægja þessum skyldum þurfi lögregla, eins og í þessu máli, að afla mikils af upplýsingum, skjölum og gögnum, og oft sé ekki ljóst, þegar þeirra sé aflað, hvort þau varði sakarefni eða ekki og þá á hendur hverjum og hverjum ekki. Komi það oft ekki í ljós fyrr en rannsókninni miði áfram, eins og eigi við í þessu máli.
Þegar niðurstaða sé fengin í þeirri rannsókn, beini lögregla sakarefninu að viðkomandi, og skjölin og gögnin varði þar með málið.
Í tengslum við þetta verði að hafa í huga ákvæði 3. mgr. 119. gr. oml. og 4. mgr. 120. gr. oml. um galla á málatilbúnaði ákæruvaldsins, sem leitt geti til þess, að dómari vísi málinu frá dómi. Í þessu sambandi megi geta Hrd. 343/1996, þar sem verjandi hafi ekki talið skýrslutöku lögreglu af ákærða við rannsókn málsins vera í samræmi við lög, en Hæstiréttur hafi talið sakarefni málsins einfalt, og hafi ekki talið þau vanhöld á rannsókn lögreglu, að varðað gæti frávísun þess.
Þá megi einnig benda á, að dómstólar geti, bæði við sönnunarmat og ákvörðun refsingar í opinberu máli, tekið tillit til þess, hvernig rannsókn lögreglu hafi verið háttað, m.a. með tilliti til afhendingar gagna til verjanda og afleiðingar framkvæmdar lögreglu við rannsókn málsins fyrir skjólstæðing hans.
Lögregla telji það ekki þjóna hagsmunum sakborninga að afhenda verjendum þeirra skjöl og gögn, án nokkurrar ákvörðunar um það, hvort þau varði sakarefni á hendur þeim eða ekki; slíkt myndi einungis ganga gegn meginreglunni, er fram komi í 33. gr. oml. um skýrleika og að ekki megi rugla sakborning á neinn hátt. Þar sem slíkt myndi skapa honum vinnu og óþægindi, sem leiddi af því að sitja uppi með óörugga stöðu vegna gagna, sem kæmu honum, eða þeim sakarefnum, sem beint sé að honum, ekkert við.
Auk þess sem það gangi gegn réttindum þriðja manns, eins og að framan sé getið, gæti slík fortakslaus skylda orðið til þess, að grunaðir menn gætu varið sig rannsókn, sem ekki verði talið samrýmast tilganginum með sanngjarnri málsmeðferð.
Sóknaraðili sé sakborningur í málinu, þar sem hann sé stjórnaformaður og einn eigenda B hf., þolandans í málinu. Eins og fram komi hér að framan, séu flest þau skjöl og gögn, sem aflað hafi verið við rannsókn málsins, varðandi það sakarefni, sem ekki hafi verið beint að sóknaraðila, frá B hf., og sé óljóst, hvort og að hvaða leyti kunni að varða hann. Eðlilega hafi stjórnarformaðurinn þegar þessi gögn og þar af leiðandi verjandi hans. Hvað varði önnur gögn, sem aflað hafi verið, sé er ekki ljóst á þessu stigi rannsóknarinnar, hvort þeim verði beint að sóknaraðila eða öðrum.
V.
Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. l. nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skal verjandi, jafnskjótt og unnt er, fá endurrit af öllum skjölum, sem málið varðar, svo og aðstöðu til að kynna sér önnur gögn, sem ekki verða endurrituð. Byggir krafa sóknaraðila í máli þessu á fyrri hluta þessa ákvæðis. Ágreiningur aðila snýst um skýringu á hugtakinu “skjölum, sem málið varða”.
Sóknaraðili í máli þessu er sakborningur í lögreglumálinu nr. 006-2002-0086. Því er ómótmælt, að lögregla hefur, í tengslum við rannsókn þess máls, aflað ýmissa gagna, sem enn hafa ekki verið afhent eða kynnt verjanda sóknaraðila, m.a. frá Færeyjum og Flórída. Ekki liggur fyrir, hver þau gögn eru, eða hvort þau séu til þess fallin að varpa ljósi á framangreint lögreglumál. Hins vegar verður að skýra framangreint ákvæði 1. mgr. 43. gr. oml. svo, að öll gögn, sem aflað er í þágu tiltekins máls, varði málið. Ber lögreglu því að kynna verjanda þau gögn jafnskjótt og unnt er. Frá þeirri skyldu eru undantekningarákvæði í 1. mgr. 43. gr. i.f., sem og í b-lið 74. gr. a, laga nr. 19/1991, en á þau ákvæði reynir ekki hér.
Er ekki fallizt á, að lögregla geti haldlagt gögn, sem talin eru hafa þýðingu við rannsókn ákveðin máls, og ákveðið síðan að geðþótta, á hvaða stigi málsins þau verði hluti af rannsóknargögnum þess. Er slík niðurstaða í andstöðu við megintilgang hins umdeilda lagaákvæðis, sem bæði verður lesið beint úr ákvæðinu sjálfu, sem og úr greinargerð með lögunum, þ.e. að styrkja réttarstöðu brotaþola.
Ber því að hafna jafnt aðalkröfu sem og varakröfu varnaraðila, en taka til greina kröfu sóknaraðila, eins og hún er fram sett, en því hefur ekki verið haldið fram í máli þessu, að einhver af gögnum í vörzlum varnaraðila séu þess eðlis, að þau verði ekki endurrituð.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Ríkislögreglustjóra er skylt að afhenda Helga Jóhannessyni hrl., verjanda X í lögreglumálinu nr. 006-2002-0086, öll gögn, sem lögregla hefur aflað eða borizt hafa lögreglu vegna rannsóknar málsins og verjandi hefur ekki þegar fengið afhent.