Hæstiréttur íslands
Mál nr. 734/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Fimmtudaginn 13. desember 2013. |
|
Nr.
734/2012. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón
H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Hólmgeir
Elías Flosason hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga
nr. 88/2008.
Úrskurður
héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1.
mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir
Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11.
desember 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður
er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. desember 2012, þar sem varnaraðila var
gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, en þó eigi
lengur en til þriðjudagsins 8. janúar 2013 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið
1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess
aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að
gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins
kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða
úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. desember 2012.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að
Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...]
verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi uns dómur fellur í máli hans en
þó eigi lengur en til þriðjudagsins 8. janúar 2013, kl. 16.00, á grundvelli
c.-liðar 1. mgr. 95. laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008.
Í
greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að með úrskurði
Héraðsdóms Reykjavíkur frá 13. nóvember sl. hafi ákærða verið gert að sæta
gæsluvarðhaldi til dagsins í dag. Ákærða hafi með úrskurði Héraðsdóms
Reykjavíkur frá 16. október sl., sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar
Íslands, verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til 13. nóvember, kl. 15.00 á
grundvelli síbrota, sbr. c-liðar 1. mgr. 95. gr. sakamálalaga, en ákærða hafi
með úrskurði Héraðsdóms frá 18. september verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til
16. október á grundvelli síbrota, sbr. c.- lið 1. mgr. 95. gr. sakamálalalaga.
Gefnar hafi
verið út tvær ákærur hendur ákærða, annarsvegar ákæra Ríkissaksóknara, dagsett
16. október 2012, vegna ráns og húsbrots hinn 5. júlí 2012, þar sem ákærði ásamt tveimur meðákærðu, sé
gefið að sök að hafa rænt aðila með því að sparka upp útidyrahurð á heimili
manns og neytt hann með ofbeldi og hótunum til að taka pening úr banka og hins
vegar ákæra Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsett 8. nóvember sl., þar
sem ákærði sé ákærður fyrir fjölda auðgunarbrota í félagi við aðra, þjófnað,
hylmingu, eignaspjöll, nytjastuld, brot á lögreglulögum og fíkniefnalagabrot.
Um sé að ræða innbrot, meðal annars stórfelldan þjófnað úr Jarðböðunum í
Mývatnssveit 6. ágúst sl. húsbrot og rán í Hamraborg 5. júlí sl., og stórfelld
eignaspjöll með því að hafa lagt eld að bifreið 6. september sl. við
Hvaleyrarbraut í Hafnarfirði, auk annarra auðgunarbrota. Mál ákærða ásamt
meðákærðu hafi verið þingfest við Héraðsdóm Reykjavíkur 9. nóvember sl., og hafi
málið verið tekið fyrir hinn 12. nóvember sl., þar sem ákærði hafi lýst afstöðu
sinni til ákæruskjalanna og aðrir meðákærðu einnig. Ákærði hafi neitað sök
vegna brota, sem lýst sé í ákæruskjali Ríkissaksóknara frá 16. október sl. og
hluta af ákæruliðum í ákæruskjali lögreglustjóra frá 8. nóv. sl. Aðalmeðferð
hafi verið áætluð 7. janúar nk. en málið
hafi verið endurúthlutað í dómnum og einnig muni einn af ákærðu skila
greinargerð.
Áærði sé nú
undir sterkum grun vegna brota á 244., 254., 252., 231. gr. 2. mgr. 257. gr.,
almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, 2.,
sbr. 5. og 6. laga um ávana- og
fíkniefni nr. 65, 1974, lögreglulög einkum 21., sbr. 36. gr., og 6. gr. laga um lögreglusamþykktir nr. 36, 1988.
Brotaferill ákærða hafi verið samfelldur frá maílokum og fram til 17. september
sl., er ákærði hafi verið handtekinn.
Með vísan
til brotaferils ákærða á undanförnum vikum, sé það mat lögreglustjóra að
yfirgnæfandi líkur séu á því að ákærði muni halda áfram brotastarfsemi fari
hann frjáls ferða sinna og það sé brýnt fyrir lögreglu að geta lokið þessum
málum á ákærða fyrir dómi. Það sé mat lögreglu að sakborningur muni ekki fá
skilorðsbundinn dóm, nema þá að hluta,
vegna fjölda málanna og alvarleika brotanna. Ákæruvaldið muni nú hraða
málum hans eins og kostur sé fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Ákærði hafi
hinn 10. júlí sl.hlotið 3. mánaða fangelsisdóm skilorðsbundinn fyrir þjófnað, gripdeild og nytjastuld, ásamt fleiri aðilum, en
brotaferill ákærða hafi verið samfelldur frá því að dómur féll á hendur honum hinn
10. júlí sl. Nú sé ákærði grunaður um ýmis auðgunarbrot, rán, húsbrot, þjófnað,
hylmingu, stórfelld eignaspjöll og fleira og sé það mat lögreglu að nauðsynlegt
sé að stöðva frekari afbrot og reyna ljúka málum á ákærða.
Ákærði sé
nú undir sterkum grun um nokkur alvarleg hegningarlagabrot, rán, húsbrot,
stórfelld eignaspjöll, stórfelldan þjófnað, hylmingu, fíkniefnalagbrot,
lögreglulagabrot og sé það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því
að ákærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna og það
sé brýnt fyrir lögreglu að ákærði sæti gæsluvarðhaldi uns málum hans er lokið
fyrir héraðsdómi og mun ákæruvaldið hraða málum hans sem kostur sé.
Ákærði sé
nú undir sterkum grun um vegna brota á 252. gr., 231., 244., 254. gr., 2. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga,
fíkniefnalögum og lögreglulögum. Brotaferill ákærða hafi verið samfelldur frá
maílokum og fram í september sl., er ákærði hafi verið handtekinn. Við
yfirheyrslu hafi ákærði sagst vera án atvinnu og virðist því vera að ákærði
framfleyti sér með afbrotum, en ákærði sé með tengsl við glæpasamtökin A
samkvæmt gögnum lögreglu.
Með vísan
til framangreinds, framlagðra gagna og
c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88, 2008 um meðferð sakamála sé þess
krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram.
Ákærði
hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 18. september sl., á grundvelli c-liðar 1.
mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Samkvæmt gögnum málsins er ákærði undir
rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um fjölmörg hegningarlagabrot, svo sem
rán, húsbrot, auðgunarbrot, þjófnað, hylmingu og stórfelld eignaspjöll, brot gegn
lögreglulögum og lögum um ávana- og fíkniefni.
Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann frá því í desember 2011 tvisvar
hlotið dóm, þar sem refsingu hefur verið frestað skilorðsbundið, m.a. vegna
hegningarlagabrota. Hinn 10. júlí sl.
var ákærði dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og benda framlögð
gögn til þess að hann hafi rofið það skilorð og verið í samfelldri
brotastarfsemi fram til þess að honum var gert að sæta gæsluvarðhaldi, eins og
að framan greinir. Tvær ákærur hafa nú
verið gefnar út á hendur ákærða vegna fyrrgreindra brota. Málin hafa verið þingfest á hendur ákærða,
og er ætlunin að aðalmeðferð fari fram í byrjun janúar. Með vísan til
greinargerðar lögreglu og rannsóknargagna málsins þykir kominn fram rökstuddur
grunur um að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing liggur
við, að ætla megi að ákærði muni halda áfram brotum, fari hann frjáls ferða
sinna, auk þess sem rökstuddur grunur er um að hann hafi rofið skilorð dómsins
frá 10. júlí sl. Því er fallist á með
lögreglustjóra að skilyrði c.-liðar 1.
mgr. 95. gr. laga 88, 2008 séu uppfyllt. Er krafa um gæsluvarðahald því tekin
til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði, en ekki þykja efni til að
marka varðhaldinu skemmri tíma en krafist er.
Hervör
Þorvaldsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R
Ð:
Ákærði X, kt. [...] skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi uns dómur
fellur í máli hans en þó eigi lengur en til þriðjudagsins 8. janúar 2013, kl.
16.00.