Hæstiréttur íslands

Mál nr. 55/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                                                                              

Mánudaginn 23. janúar 2012.

Nr. 55/2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Björgvin Jónsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi áfram, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. janúar 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. janúar 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 16. febrúar 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Í hinum kærða úrskurði er komist að þeirri niðurstöðu að fallast beri á það með sóknaraðila að skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt þar sem varnaraðili sé undir rökstuddum grun um aðild að tilraun til manndráps. Skilyrði þess að úrskurða megi sakborning í gæsluvarðhald samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laganna er hins vegar að sterkur grunur leiki á því að hann hafi framið afbrot sem að lögum geti varðað 10 ára fangelsi. Af fyrirliggjandi gögnum þykir ljóst að varnaraðili er undir sterkum grun um aðild að tilraun til manndráps samkvæmt 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og er brotið þess eðlis að telja verður varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. janúar 2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að [X], [...] Reykjavík verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 16. febrúar 2012 kl. 16. 

Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi nú til rannsóknar skotárás á bifreið [Z], en skotið hafi verið tvívegis á bifreið hans föstudaginn 18. nóvember sl., þar sem hann hafi ekið bifreiðinni í Bryggjuhverfi Reykjavíkur. 

Brotaþoli, [Z], og vitni sem hafi verið farþegi í bifreiðinni, lýsi atvikum þannig að meðkærði [Y], sem nú sæti gæsluvarðhaldi vegna málsins, hafi boðað [Z] á sinn fund að kvöldi föstudagsins 18. nóvember sl. vegna tiltekinnar fíkniefnaskuldar.

Er [Z] og umrætt vitni hafi komið akandi á bifreið [Z] á bifreiðaplani við bílasöluna [...] í Reykjavík, hafi meðkærði [Y] ekið bifreið sinni í veg fyrir bifreið [Z]. Út úr bifreið [Y] hafi stigið þrír menn, þ.e.  [Y] sjálfur og tveir menn sem hafi hulið andlit sín og hafi annar mannanna verið með haglabyssu í hendi. Hafi [Z] þá reynt að aka bifreið sinni aftur á bak frá mönnunum, en annar mannanna þá skotið úr byssunni og hafi höglin lent á framenda bifreiðarinnar. Eftir þetta hafi [Y] og mennirnir tveir farið inn í bifreið [Y] og ekið mjög greitt á eftir [Z]. Er [Z] hafi komið að hringtorgi við bifreiðaumboð [...] við Sævarhöfða hafi [Y] ekið bifreið sinni upp að bifreið hans og hafi þá verið skotið öðru sinni á bifreiðina, með þeim afleiðingum að afturrúðan mölbrotnaði og hafi m.a. högl hafnað í farþegasæti bifreiðarinnar.

Sunnudaginn 20. nóvember sl. hafi meðkærði [Y] verið handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald, sem hefur verið framlengt nú síðast með úrskurði héraðsdóms reykjavíkur 16. desember sl. til 13. janúar 2012, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála.

Þann 8. desember sl. hafi kærði [X] verið handtekinn og honum gert að sæta gæsluvarðhaldi vegna málsins, nú síðast með dóm Hæstaréttar Íslands nr. 691/2011 til dagsins í dag kl. 16.  [X] hafi neitað aðild sinni að málinu.  Hann kvaðst hafa verið heima hjá sér umrætt kvöld.

Í máli þessu liggi fyrir framburður meðkærða [Y] um að hann, kærði [X], ásamt [T], hafi staðið að umræddri skotárás.  Þá liggi fyrir að símar þeirra allra hafi tengst sendi við Sævarhöfða á þeirri stundu sem verknaðurinn hafi átt sér stað.  Samkvæmt framburði [...].

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi hér til rannsóknar afar alvarlegt afbrot, þ.e. lífshættulega skotárás, sem hafi augljóslega verið liður í uppgjöri tveggja manna vegna fíkniefna.  Að mati lögreglu sé hér um að ræða afbrot sem framið hafi verið með skipulögðum og verkskiptum hætti af hópi manna sem kenni sig við tiltekin glæpasamtökin.

Rannsókn málsins sé lokið og verði málið nú sent ríkissaksóknara til ákvörðunar um saksókn.

Telja verði að lagaskilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála sé fullnægt í máli þessu, enda sé kærði [X] nú undir sterkum grun um aðild að tilraun til manndráps, þannig að varði við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en slík brot varði allt að ævilöngu fangelsi.  Þá sé brot hans svo svívirðilegt að almannahagsmunir krefjast þess að honum verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi.

Í málinu liggi fyrir mat Hæstaréttar Íslands, sbr. dóm réttarins nr. 691/2011, um að lagaskilyrðum almannagæslu sé fullnægt í málinu og hafi ekkert nýtt komið fram sem breytt geti því mati.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Kærði er undir rökstuddum grun um aðild að tilraun til manndráps samkvæmt 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en það er mat lögreglu, að kærði hafi verið að verki, þegar hleypt var af skotvopni greint sinn. Í 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er að finna heimild til að úrskurða sakborning í gæsluvarðhald, ef sterkur grunur leikur á, að hann hafi framið afbrot, sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi. Það brot, sem kærði er grunaður um að hafa framið uppfyllir þau skilyrði.

Kærði hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 22. desember 2011 á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Upplýst er að málið er nú að fullu rannsakað og verður sent ríkissaksóknara til þóknanlegrar meðferðar innan fárra daga.

Verður á það fallist með lögreglustjóra, að skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt, enda er ætlað brot kærða þess eðlis, að gæsluvarðhald verður talið nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Haggar það ekki því mati, að stuttur dráttur hafi orðið á frágangi málsins hjá lögreglu.

                Hrannar Már S Hafberg settur héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, [X], Reykjavík, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 16. febrúar nk. kl. 16.