Hæstiréttur íslands

Mál nr. 211/2007


Lykilorð

  • Meiðyrði
  • Ómerking ummæla
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 24

 

Fimmtudaginn 24. janúar 2008.

Nr. 211/2007.

Guðmundur Gunnarsson

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

gegn

Eiði Eiríki Baldvinssyni og

Olenu Shchavynska

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Meiðyrði. Ómerking ummæla. Skaðabætur.

Á ársfundi Alþýðusambands Íslands 2005 tók G til máls í umræðum um kjör erlendra manna sem störfuðu hérlendis á vegum starfsmannaleiga. Að sögn G var tilefni umræðu hans upplýsingar frá yfirtrúnaðarmanni stéttarfélaga við Kárahnjúka um nánar tilgreindar ávirðingar í garð stjórnenda félagsins 2b ehf. Í kjölfarið var greint frá atriðum sem tengdust þessari umræðu í aðalfréttatíma Stöðvar 2 og Ríkisútvarpsins sjónvarps í október 2005. Þar lét G meðal annars orð falla sem E og O töldu ærumeiðandi í sinn garð og höfðuðu þau mál þetta til ómerkingar nánar tiltekinna ummæla, svo og til greiðslu skaðabóta og kostnaðar af birtingu dóms í málinu. Ákveðin ummæli sem höfð voru eftir G vörðuðu starfsmannaleigur í fleirtölu og án frekari tilgreiningar. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði að hvergi yrði séð, að ummæli G hefðu að þessu leyti gefið fréttamanni tilefni til að nafngreina 2b ehf. fremur en aðrar starfsmannaleigur eða taka viðtal við E frekar en aðra, en G gat ekki borið ábyrgð á hvernig fréttarmaðurinn kaus að setja ummæli hans í samhengi við önnur atriði. Ummælin beindust ekki að persónu E og O, en að því varð að gæta að félag þeirra 2b ehf. átti ekki hlut að málsókninni. Var því G sýknaður af kröfu E og O um ómerkingu þessara ummæla. Þá var krafist ómerkingar á ummælum G er vísuðu til háttsemi konu af ákveðnu þjóðerni án þess að hún væri nafngreind. Í aðilaskýrslu fyrir héraðsdómi staðfesti G að konan, sem hann vísaði til í tilgreindum ummælum, væri O. Talið var að G hefði með þessum ummælum sínum sakað O um ámælisverða háttsemi, sem sönnur hefðu ekki verið færðar fyrir og var með þeim vegið að æru hennar. Voru þessi ummæli G því ómerkt samkvæmt kröfu O. Að lokum var krafist ómerkingar á ummælum G um uppgjör félagsins 2b ehf. á launagreiðslum til starfsmanna sinna. Ekki var mótmælt af hálfu G að ummælin vörðuðu 2b ehf. en því hins vegar borið við að ummælin hefðu verið réttmæt. Fyrir lágu í málinu tólf óáfrýjaðir héraðsdómar þar sem 2b ehf. var gert að standa skil á nánar tilgreindum fjárhæðum vegna vangreiddra launa. Ekki var fallist á þau rök O og E að þær vanefndir yrðu réttlættar með því að um mistök eða misskilning hafi verið að ræða. Þóttu því ekki næg efni til þess að ómerkja þau ummæli G. Vegna þeirra ummæla sem ómerkt voru var G gert að greiða O miskabætur og fjárhæð til þess að standa straum af kostnaði af opinberri birtingu niðurstöðu dómsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. apríl 2007. Hann krefst sýknu af kröfum stefndu og málskostnaðar úr hendi þeirra óskipt í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Af gögnum málsins verður ráðið að einkahlutafélag með heitinu 2b hafi verið stofnað í ágúst 2004. Samkvæmt vottorði úr hlutafélagaskrá var stefndi Eiður Eiríkur Baldvinsson eini stjórnarmaðurinn í 2b ehf. og gegndi samhliða því starfi framkvæmdastjóra, en varamaður hans í stjórn var stefnda Olena Shchavynska. Félagið fékkst við starfsmannaleigu og fékk í því skyni hingað til lands meðal annars verkamenn frá Póllandi, sem settir voru til starfa hjá Suðurverki ehf. við framkvæmdir á vegum þess félags við gerð Kárahnjúkavirkjunar.

Fyrir liggur að miklar umræður urðu á árinu 2005 um stöðu og kjör erlendra manna, sem komu hingað til starfa á vegum starfsmannaleiga. Samkvæmt málatilbúnaði áfrýjanda kom þetta málefni meðal annars til kasta ársfundar Alþýðusambands Íslands 20. október 2005, en hann átti þá sæti í miðstjórn þess ásamt því að vera formaður Rafiðnaðarsambands Íslands. Tilefni þeirrar umfjöllunar rekur áfrýjandi til þess að um þær mundir hafi borist upplýsingar frá yfirtrúnaðarmanni stéttarfélaga við Kárahnjúkavirkjun um nánar tilgreindar ávirðingar í garð stjórnenda 2b ehf., en þá hafi 18 erlendir starfsmenn félagsins verið þar við vinnu. Áfrýjandi kveðst hafa tekið til máls í umræðum um þetta á ársfundinum og er í hinum áfrýjaða dómi tekinn orðrétt upp hluti ræðu hans, þar sem deilt var hart á starfsemi starfsmannaleiga í Vestur-Evrópu, þar á meðal hér á landi, en engra tiltekinna félaga eða manna getið í þeim efnum. Í kjölfarið var greint frá atriðum, sem tengdust þessari umræðu, í aðalfréttatímum Stöðvar 2 og Ríkisútvarpsins sjónvarps 23. október 2005. Þar lét áfrýjandi meðal annars falla orð, sem stefndu töldu ærumeiðandi í sinn garð, og höfðuðu þau mál þetta 10. apríl 2006 til ómerkingar nánar tiltekinna ummæla hans, svo og til greiðslu skaðabóta og kostnaðar af birtingu dóms í málinu auk málskostnaðar.

II.

Fyrir liggur að Jóhannes Kristján Kristjánsson gerði þá frétt, sem Stöð 2 sendi út áðurgreindan dag. Samkvæmt fyrirliggjandi útskrift af því, sem þar kom fram, var texti fréttarinnar eftirfarandi, en ummæli, sem áfrýjandi lét þar falla og ómerkt voru með hinum áfrýjaða dómi að kröfu stefndu, eru hér með breyttu letri til aðgreiningar:

„Verkstjóra yfir pólskum verkamönnum á Kárahnjúkasvæðinu var sagt að berja þá sýndu þeir mótþróa við vinnu. Þetta segir Oddur Friðriksson, trúnaðarmaður starfsmanna á staðnum. Forsvarsmaður starfsmannaleigunnar 2b segir verkalýðshreyfinguna leggja sig í einelti. Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins líkir þjónustu starfsmannaleigna við dólga sem selji konur og börn til kynlífsþrælkunar.

Oddur birti brot úr fundargerðum á heimasíðu Rafiðnaðarsambandsins í dag. Þar segir hann fulltrúa starfsmannaleigunnar 2b, sem flytur inn pólska verkamenn til vinnu við Kárahnjúka og víðar, hafa sagt verkstjóra Suðurverks að berja Pólverjana sýndu þeir mótþróa í vinnu. Fulltrúi starfsmannaleigunnar hótaði Pólverjunum ýmsum refsingum ef þeir stæðu sig ekki í vinnu og einnig að allar skemmdir sem þeir hugsanlega ynnu, líka óviljandi, myndu þeir verða látnir borga. Formaður Rafiðnaðarsambandsins segir verkalýðshreyfinguna bregðast við. Hann líkir starfsemi starfsmannaleiga við kynlífsiðnaðinn.

Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins: Ég hef sagt það og ég segi það mjög hiklaust að svona dólgar sem koma svona fram við fólk að þetta er í sjálfu sér nákvæmlega sama tóbakið og þeir sem eru að flytja konur frá Austurlöndum og börn og selja þau í kynlífsþrælkun. Þarna eru dólgar að flytja inn bláfátækt verkafólk og notfæra sér eymd þess til þess að hagnast á því. Þeir eru að stinga hluta af launum þessa fólks í eigin vasa.

Forsvarsmaður starfsmannaleigunnar segir að um samsæri sé að ræða.

Eiður Eiríkur Baldvinsson, framkvæmdastjóri 2b ehf.: Mér finnst þetta lýsa þeim og þeirra árásum og þetta svona styður það sem þeir hafa lofað mér. Þeir hafa lofað mér því að eyðileggja mitt fyrirtæki og Oddur, trúnaðarmaður á Kárahnjúkum hefur ekki eingöngu látið þar við sitja. Hann hefur lofað að eyðileggja mitt mannorð líka.

Jóhannes Kr. Kristjánsson: Nú kemur það fram að þú hafir hvatt ja menn til þess að lemja Pólverjana til hlýðni. Er það satt?

Eiður Eiríkur Baldvinsson: Lýsir það ekki Oddi trúnaðarmanni og hans loforðum um að eyðileggja mitt fyrirtæki best? Ég held það.

Guðmundur Gunnarsson hefur aðra sögu að segja.

Guðmundur Gunnarsson: Eiginkona þessa manns, sem er samlandi þessara manna, það er að segja pólsk kona, hún er að hóta því að ef þeir séu ekki þægir og góðir þessir menn þá verði þeir fluttir til Reykjavíkur og settir í alls konar skítadjobb og þeir verði látnir borgar 80 þúsund kall kostnað og fyrir 1 dollara á tímann. Og hún gengur á milli verkstjóranna austur á Kárahnjúkasvæði og segir að ef þeir eru ekki þægir og góðir þessir Pólverjar að þá skuli þeir bara ganga í skrokk á þeim. Hvers lags fólk er þetta?“

Þá liggur fyrir að Magnús Hlynur Hreiðarsson gerði fréttina, sem send var út í Ríkisútvarpinu sjónvarpi 23. október 2005. Texti fréttarinnar var eftirfarandi, en á sama hátt og hér að framan eru ummæli, sem áfrýjandi lét þar falla og ómerkt voru með hinum áfrýjaða dómi að kröfu stefndu, með breyttu letri til aðgreiningar:

„Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins segir starfsmannaleiguna 2b stunda skipulagða glæpastarfsemi við Kárahnjúka með pólska verkamenn þar sem verkstjóra var m.a. ráðlagt að berja Pólverjana sýndu þeir honum mótþróa. Eigandi fyrirtækisins vísar þessu á bug og segir að hér sé um nornaveiðar að ræða.

Í bréfi Odds Friðrikssonar, aðaltrúnaðarmanns við Kárahnjúka til forystu verkalýðshreyfingarinnar eftir fund á virkjanasvæðinu í gær kemur m.a. fram að Pólverjarnir hafi gefið starfsmannaleigunni leyfi til að stofna bankareikninga hér á landi, en ekki heimild til að fara inn á þá reikninga og taka út fé eins og gert var. Formaður Rafiðnaðarsambandsins segir að þetta sé allt hið furðulegasta mál.

Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins: Síðan eru okkur sýndir einhverjir launaseðlar sem eru svo bara tóm della. Og síðan eru okkur sýndir ráðningarsamningar sem að þeir kannski hafa aldrei séð sjálfir, þannig að þetta er svona bara skipulögð glæpastarfsemi, það er ekki hægt að kalla þetta neitt annað.

Magnús Hlynur Hreiðarsson: Erum við að tala jafnvel um barsmíðar?

Guðmundur Gunnarsson: Já, konan, pólska konan sem er annar eigandi þessa fyrirtækis, hún fór og sagði við verkstjórann, einn af verkstjórunum þarna upp frá, að ef að þeir væru með eitthvert múður þessir Pólverjar þá ætti bara að lemja þá, þeir væru vanir því úr sínu heimalandi.

Magnús: Og hvernig bregst verkalýðshreyfingin við þessu?

Guðmundur Gunnarsson: Ja, við ætlum að fletta ofan af þessu fyrirtæki bara alfarið og við erum að vinna í því núna.

Eiður Baldvinsson, annar eigandi starfsmannaleigunnar botnar ekkert í því fjaðrafoki sem á sér stað um fyrirtæki hans og segir að hámarkinu hafi verið náð á fundi í gær.

Eiður Baldvinsson, annar eigandi starfsmannaleigunnar: Þetta eru miklar árásir á okkar fyrirtæki og í dag breyttist þetta í árásir yfir á mig persónulega.

Magnús: Hvað með laun þinna starfsmanna, eruð þið að taka óvenjumikið af þeirra launum?

Eiður Baldvinsson: Ég mundi ekki segja það. Þessir menn hafa um það bil 21 þúsund krónur úti í Póllandi. Þeir eru að fá útborgað 180-200 þúsund í vasann hjá okkur. Þetta er svona sjö til áttföld laun. Ég veit ekki hvert ég get farið til að fá svona laun.

Eiður segist verða fyrstur manna til að fagna því ef lög verða sett á starfsmannaleigur hér á landi því hann segir þessi mál í miklum ólestri.

Eiður Baldvinsson: Ef að tölur verkalýðsfélaganna eru réttar um að það starfi 2 þúsund útlendingar ólöglega hér á Íslandi að þá er Ísland að verða af um það bil 1,5 milljarði á ári í skattatekjur og þetta er náttúrulega ólíðandi.

Magnús: Hvað gengur verkalýðshreyfingunni til með því að reyna að knésetja ykkar fyrirtæki?

Eiður Baldvinsson: Þetta byrjaði þegar að við kynntum okkar fyrirtæki, áður en við hófum starfsemi þá var okkur hreinlega tilkynnt í upphafi að þeir mundu aldrei líða það að við værum með þetta fyrirtæki gangandi. Og þeir hafa margítrekað hótað okkur síðan að þeir munu knésetja okkur. Og Oddur hefur hótað með því að hann muni knésetja mig líka.“

Fréttamennirnir Jóhannes Kristján Kristjánsson og Magnús Hlynur Hreiðarsson báru meðal annarra vitni fyrir héraðsdómi. Þar voru þeir ekki inntir eftir því hvort framangreint efni í fréttum þeirra, sem ekki var í formi viðtals við aðra, hafi verið borið undir áfrýjanda, en aðspurðir sögðu þeir báðir að þeir minntust þess ekki að hann hefði óskað eftir að koma á framfæri leiðréttingu vegna fréttaflutnings þeirra.

III.

Í málinu er áfrýjandi ekki sóttur til refsingar fyrir framangreind ummæli sín, heldur krefjast stefndu að þau verði ómerkt með stoð í 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að því virtu var stefndu ekki þörf að tiltaka í málatilbúnaði sínum hvernig þau teldu þessi ummæli í einstökum atriðum varða af nánar tilgreindum sökum við ákvæði 234., 235., 236. eða 237. gr. almennra hegningarlaga, en skýrlega kom fram í héraðsdómsstefnu að byggt væri á því að hin átöldu ummæli í heild væru ærumeiðandi og óviðurkvæmileg. Eru því ekki efni til að fallast á með áfrýjanda að annmarkar séu á málatilbúnaði stefndu að þessu leyti.

Í héraðsdómsstefnu voru ummæli áfrýjanda, sem stefndu leituðu ómerkingar á, tilgreind í átta stafliðum og sneru fimm þeir fyrstu að orðum hans í fréttum Stöðvar 2 23. október 2005, en í fréttum Ríkisútvarpsins sjónvarps sama dag að því er hina þrjá liðina varðar. Í héraðsdómi var hafnað kröfu um ómerkingu ummæla í tveimur stafliðum, annars vegar í lið C og hins vegar í lið H, og una stefndu þeirri niðurstöðu.

Tveir fyrstu stafliðirnir, A og B, varða til samans þau orð áfrýjanda „... að svona dólgar sem koma svona fram við fólk að þetta er í sjálfu sér nákvæmlega sama tóbakið og þeir sem eru að flytja konur frá Austurlöndum og börn og selja þau í kynlífsþrælkun. Þarna eru dólgar að flytja inn bláfátækt verkafólk og notfæra sér eymd þess til þess að hagnast á því.“ Fyrir héraðsdómi lýsti áfrýjandi því í aðilaskýrslu að hann hafi hér verið að „tala almennt um ... starfsmannaleigur sem eru að hrifsa til sín gæði frá fólki.“ Í samræmi við þetta er málsvörn hans meðal annars á því reist að þessum ummælum hafi verið beint almennt að starfsmannaleigum, sem brytu rétt á verkafólki, en ekki gæti hann borið ábyrgð á því að stefndu kysu að taka þau til sín. Um þetta er til þess að líta að í áðurgreindum inngangi fréttamanns Stöðvar 2 í aðdraganda að viðtali við áfrýjanda var fyrst haft eftir tilteknum trúnaðarmanni starfsmanna á Kárahnjúkasvæðinu að verkstjóra þar hafi verið sagt að berja pólska verkamenn, sem sýndu mótþróa, í annan stað var hermt að „forsvarsmaður starfsmannaleigunnar 2b“ segði verkalýðshreyfinguna leggja sig í einelti og loks að áfrýjandi líkti þjónustu „starfsmannaleigna“ við dólga, sem seldu konur og börn til kynlífsþrælkunar. Því næst var greint frá efni, sem trúnaðarmaðurinn hafi birt á heimasíðu Rafiðnaðarsambands Íslands með ásökunum á hendur ónafngreindum „fulltrúa“ 2b ehf., en að því búnu hófst viðtalið við áfrýjanda og voru átöldu ummælin sem næst í upphafi þess. Ljóst er af þessu að orð, sem höfð voru eftir áfrýjanda í upphafi fréttarinnar, vörðuðu starfsmannaleigur í fleirtölu og án frekari tilgreiningar. Hvergi verður séð af því, sem fyrir liggur, að ummæli áfrýjanda hafi annars að þessu leyti gefið fréttamanni tilefni til að nafngreina 2b ehf. fremur en aðrar starfsmannaleigur eða taka viðtal við stefnda Eið frekar en aðra, en áfrýjandi getur ekki borið ábyrgð á hvernig fréttamaðurinn kaus að setja ummæli hans í samhengi við önnur atriði. Eins og ummæli þessi hljóðuðu beindust þau ekki að persónu stefndu, en að því verður jafnframt að gæta að félag þeirra, 2b ehf., hefur ekki átt hlut að málsókn þessari. Að öllu þessu virtu verður áfrýjandi sýknaður af kröfum stefndu um ómerkingu ummæla, sem tilgreind eru í liðum A og B.

Liðirnir D og E taka til samans til eftirfarandi orða áfrýjanda í viðtalinu, sem birt var 23. október 2005 í fréttatíma Stöðvar 2: „Eiginkona þessa manns, sem er samlandi þessara manna, það er að segja pólsk kona, hún er að hóta því að ef þeir séu ekki þægir og góðir þessir menn þá verði þeir fluttir til Reykjavíkur og settir í alls konar skítadjobb og þeir verði látnir borgar 80 þúsund kall kostnað og fyrir 1 dollara á tímann. Og hún gengur á milli verkstjóranna austur á Kárahnjúkasvæði og segir að ef þeir eru ekki þægir og góðir þessir Pólverjar að þá skuli þeir bara ganga í skrokk á þeim.“ Í lið G er að finna ummæli af sama meiði, sem komu fram sama dag í fréttatíma Ríkisútvarpsins sjónvarps í viðtali við áfrýjanda, en þar lét hann þessi orð falla: „Já, konan, pólska konan sem er annar eigandi þessa fyrirtækis, hún fór og sagði við verkstjórann, einn af verkstjórunum þarna upp frá, að ef að þeir væru með eitthvert múður þessir Pólverjar þá ætti bara að lemja þá, þeir væru vanir því úr sínu heimalandi.“ Stefndu hafa eindregið neitað því að nokkuð sé hæft í þessum orðum áfrýjanda. Í aðilaskýrslu fyrir héraðsdómi staðfesti áfrýjandi að konan, sem hann ræddi hér um, væri stefnda Olena, en hann hafi á þessum tíma ranglega talið hana vera pólska að uppruna. Hann staðfesti jafnframt að hann hefði ekki heyrt stefndu Olenu viðhafa þær hótanir eða gefa þau fyrirmæli, sem hann greindi hér frá, heldur hefði hann frásögn um þetta frá trúnaðarmönnum stéttarfélaga, en í því sambandi gat hann þó aðeins nafns Odds Friðrikssonar. Í vitnaskýrslu Odds fyrir héraðsdómi kom fram að hann hefði ekki hlýtt á slíka orðræðu stefndu, en hefði frásögn um þetta eftir verkstjóra hjá Suðurverki ehf. að nafni Grétar Ólafsson. Samkvæmt greinargerð áfrýjanda fyrir héraðsdómi hugðist hann leiða síðastnefndan mann til vitnisburðar þar, en við aðalmeðferð málsins var fært til bókar að frá því hefði verið horfið, þar sem hann gæti ekki borið um þau atriði, sem höfð hefðu verið eftir honum. Ekki verður fallist á með áfrýjanda að vitnaskýrslur, sem tveir aðrir starfsmenn Suðurverks ehf. gáfu fyrir héraðsdómi, feli í sér viðhlítandi sönnun fyrir því að stefnda Olena hafi haft í hótunum eða gefið fyrirmæli á þann hátt, sem hann lét orð falla um. Með þeim sakaði áfrýjandi hana um ámælisverða háttsemi, sem sönnur hafa ekki verið færðar fyrir, og var með þessu vegið að æru hennar með óviðurkvæmilegum ummælum. Orð áfrýjanda fólu ekki í sér lýsingu á skoðun hans, heldur fullyrðingu um staðreynd, og verða þau á engan hátt réttlætt með því að hann hafi vegna starfa sinna notið rýmra frelsis en aðrir til að tjá sig á þennan hátt. Verða þessi ummæli áfrýjanda því ómerkt samkvæmt kröfu stefndu Olenu, en þau beindust að henni einni og ekki að stefnda Eiði.

Loks snýr liður F að eftirfarandi ummælum áfrýjanda í viðtalinu, sem sent var út í Ríkisútvarpinu sjónvarpi 23. október 2005: „Síðan eru okkur sýndir einhverjir launaseðlar sem eru svo bara tóm della. Og síðan eru okkur sýndir ráðningarsamningar sem að þeir kannski hafa aldrei séð sjálfir, þannig að þetta er svona bara skipulögð glæpastarfsemi, það er ekki hægt að kalla þetta neitt annað.“ Í málatilbúnaði áfrýjanda er ekki andmælt að þessi orð hafi varðað starfsemi 2b ehf., en því er á hinn bóginn borið við að ummælin hafi verið réttmæt. Varðandi þetta verður að líta til þess að í gögnum málsins er að finna launaseðil, sem 2b ehf. gerði vegna vinnu nafngreinds erlends starfsmanns á tímabilinu frá 1. til 31. ágúst 2005, en þar voru honum reiknuð laun fyrir 296 klukkustunda vinnu, sem talin var að öllu leyti til dagvinnu, og greiddar 700 krónur fyrir hverja klukkustund. Við þau laun var bætt án frekari skýringa „bónus“, sem svaraði til tæplega 9% þeirra, svo og orlofsfé, en fjárhæð vegna síðastgreinds liðar var síðan dregin frá til innborgunar í banka og jafnframt lífeyrissjóðsiðgjald, félagsgjald til stéttarfélags og staðgreiðsla opinberra gjalda. Fyrir liggur að yfirtrúnaðarmaður stéttarfélaga við Kárahnjúkavirkjun gerði í bréfi til Suðurverks ehf. 18. september 2005 athugasemdir um að hann hefði fengið að sjá hjá stefndu launaseðla allra starfsmanna 2b ehf., sem ynnu hjá fyrrnefnda félaginu, og hefðu laun þeirra allra í ágúst sama ár verið reiknuð eins og um dagvinnu væri að ræða. Með því að stefndu teldu sér heimilt að fara þessa leið var því beint til Suðurverks ehf. að félagið kæmi á ráðningarsambandi milli sín og þessara starfsmanna til að tryggja að þeir nytu launa samkvæmt kjarasamningi, sem tæki til starfa þeirra. Þá ritaði yfirtrúnaðarmaðurinn bréf 18. október 2005 til svonefndrar fastanefndar um virkjunarframkvæmdir, sem eftir gögnum málsins virðist skipuð fulltrúum verkalýðsfélaga og vinnuveitenda, en þar kom fram að 2b ehf. hefði vegna fyrrgreindra athugasemda fallist á að „gera viðeigandi leiðréttingar“. Borist hefðu nýir launaseðlar, þar sem heildarlaun hefðu verið hækkuð, en útborguð laun stæðu eftir sem áður í sömu fjárhæð. Hefði þeim jöfnuði verið náð með því að bæta við „frádráttarliðum sem heita útlagður kostnaður og aðkeypt þjónusta“, sem yfirtrúnaðarmaðurinn taldi heimild bresta til. Í málinu liggur fyrir annar launaseðill handa sama manni og áður var getið fyrir ágúst 2005, sem er í samræmi við þessa lýsingu, en þar var sama vinnustundafjölda og í fyrrnefnda launaseðlinum skipt á dagvinnu, 173,33 klukkustundir á 714,61 krónu fyrir hverja, svokallaða skiptitíma, 13 talsins fyrir sömu fjárhæð, og yfirvinnu, 109,67 klukkustundir á 1.286,33 krónur hverja. Við þetta bættist 30% vaktaálag á dagvinnutíma. Fastanefnd virkjunarsamnings tók þetta erindi yfirtrúnaðarmannsins fyrir á fundi 27. október 2005. Í ítarlegri fundargerð voru meðal annars rakin ákvæði kjarasamnings um frágang launaseðla og heimildir atvinnurekanda til að draga kostnað frá launum starfsmanns og var því beint til 2b ehf. að gera full skil við starfsmenn sína samkvæmt því. Loks er þess að geta að áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt endurrit tólf óáfrýjaðra dóma Héraðsdóms Austurlands, sem kveðnir voru upp 31. október 2006 í málum erlendra starfsmanna á hendur 2b ehf., en þar var félaginu gert að standa skil á nánar tilgreindum fjárhæðum vegna vangreiddra launa.

Þegar allt framangreint er virt verður að gæta að því að þótt engin gögn hafi verið lögð fram til stuðnings þeirri staðhæfingu áfrýjanda að fyrir hafi legið ráðningarsamningar við starfsmenn 2b ehf., sem þeir hafi „kannski ... aldrei séð sjálfir“, var fullyrðing hans um þetta berum orðum háð fyrirvara, sem dró mjög úr gildi hennar. Á hinn bóginn verður ekki annað ráðið af áðurnefndum gögnum málsins en að 2b ehf. hafi í upphafi gert upp laun fyrir ágúst 2005 við erlenda starfsmenn sína í þjónustu Suðurverks ehf. eftir aðferðum, sem bersýnilega fengu ekki staðist, og breytt síðan uppgjöri með nýjum launaseðlum, sem brenndir voru sama marki. Áfrýjandi kaus að lýsa áliti sínu á þessum launaseðlum með orðunum „tóm della“, sem að þessu athuguðu verður að játa honum frelsi til. Af þessu dró áfrýjandi loks þá ályktun að þetta framferði væri „skipulögð glæpastarfsemi, það er ekki hægt að kalla þetta neitt annað.“ Um þessi orð er til þess að líta að 2b ehf. vanefndi samkvæmt fyrrnefndum dómum 31. október 2006 skyldur sínar gagnvart þeim starfsmönnum, sem þar áttu í hlut. Að því leyti, sem þessar vanefndir verða raktar til aðferða í uppgjöri við starfsmenn, sem fram komu í áðurgreindum launaseðlum, verður ekki séð hvernig þær yrðu réttlættar með því að um mistök eða misskilning hafi verið að ræða, svo sem stefndu hafa haldið fram. Þótt þessi ummæli áfrýjanda, sem lýstu skoðun hans á starfsháttum stefndu, hafi verið hvöss verður í ljósi allra atvika ekki séð að næg efni séu til að ómerkja þau.

Samkvæmt framansögðu verða að kröfu stefndu Olenu ómerkt ummæli áfrýjanda, sem tekin voru upp í liðum D, E og G í héraðsdómsstefnu, en að öðru leyti verður hafnað kröfu hennar um ómerkingu ummæla, svo og kröfu stefnda Eiðs um það efni í heild sinni. Af því leiðir að áfrýjandi er sýkn af öðrum kröfum þessa stefnda. Með ummælunum, sem ómerkt eru, drýgði áfrýjandi ólögmæta meingerð gegn æru stefndu Olenu, sem honum ber að gjalda henni miskabætur fyrir samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með áorðnum breytingum. Við ákvörðun bótafjárhæðar verður að líta til þess að með forsendum þessa dóms út af fyrir sig hefur hlutur stefndu að nokkru verið réttur, en að teknu tilliti til þess eru miskabætur hæfilega ákveðnar 200.000 krónur. Með vísan til 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga verður áfrýjanda jafnframt gert að greiða stefndu Olenu 50.000 krónur til að standa straum af kostnaði af opinberri birtingu niðurstöðu þessa dóms. Af þessum fjárhæðum samanlögðum verða stefndu dæmdir vextir eins og nánar greinir í dómsorði, en hún hefur ekki áfrýjað héraðsdómi fyrir sitt leyti til að fá niðurstöðu hans um þá breytt.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu Olenu hluta málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði segir, en rétt er að málskostnaður milli áfrýjanda og stefnda Eiðs falli niður á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Guðmundur Gunnarsson, er sýkn af kröfum stefnda Eiðs Eiríks Baldvinssonar. Málskostnaður milli þeirra í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Ummæli áfrýjanda í garð stefndu Olenu Shchavynska, sem nánar greinir í forsendum þessa dóms, eru ómerk. Áfrýjandi greiði henni 250.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. maí 2006 til greiðsludags, svo og samtals 250.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars 2007.

I

Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 22. febrúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Eiði Eiríki Baldvinssyni, kt. 260665-340, Gauksási 17, Hafnarfirði og Olenu Shchavynska, kt. 160379-3249, Gauksási 17, Hafnarfirði, með stefnu birtri 10. apríl 2006, á hendur Guðmundi Gunnarssyni, kt. 291045-4139, Fannafold 69, Reykjavík.

 

Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, eftirfarandi ummæli, sem  stefndi lét falla um stefnendur í fréttatíma Stöðvar 2 þann 23. október 2005, klukkan 18:30, og í fréttatíma Sjónvarpsins þann 23. október 2005, klukkan 19:00,  verði dæmd dauð og ómerk:

 

Ummæli í fréttatíma Stöðvar 2

A. „... að svona dólgar sem koma svona fram við fólk að þetta er í sjálfu sér nákvæmlega sama tóbakið og þeir sem eru að flytja konur frá Austurlöndum og börn og selja þau í kynlífsþrælkun.“

 

B.  „Þarna eru dólgar að flytja inn bláfátækt verkafólk og notfæra sér eymd þess til þess að hagnast á því.“

 

C.  „Þeir eru að stinga hluta af launum þessa fólks í eigin vasa.“

 

D. „Eiginkona þessa manns, sem er samlandi þessara manna, það er að segja pólsk kona, hún er að hóta því að ef þeir séu ekki þægir og góðir þessir menn þá verði þeir fluttir til Reykjavíkur og settir í alls konar skítadjobb og þeir verði látnir borga 80 þúsund kall kostnað og fyrir 1 dollara á tímann.“

 

E.  „Og hún gengur á milli verkstjóranna austur á Kárahnjúkasvæði og segir að ef þeir eru ekki þægir og góðir þessir Pólverjar að þá skuli þeir bara ganga í skrokk á þeim.“

 

Ummæli í fréttatíma Sjónvarpsins

 

F.  „Síðan eru okkur sýndir einhverjir launaseðlar sem eru svo bara tóm della. Og síðan eru okkur sýndir ráðningarsamningar sem að þeir kannski hafa aldrei séð sjálfir, þannig að þetta er svona bara skipulögð glæpastarfsemi, það er ekki hægt að kalla þetta neitt annað.“

 

G.  „Já, konan, pólska konan, sem er annar eigandi þessa fyrirtækis, hún fór og sagði við verkstjórann, einn af verkstjórunum þarna upp frá, að ef að þeir væru með eitthvert múður þessir Pólverjar þá ætti bara að lemja þá, þeir væru vanir því úr sínu heimalandi. “

 

H. „Ja, við ætlum að fletta ofan af þessu fyrirtæki bara alfarið og við erum að vinna í því núna.“

 

Stefndi verði dæmdur til að greiða hvorum stefnenda um sig kr. 1.000.000 í miskabætur, og beri sú fjárhæð vexti frá 23. október 2005 til 11. maí 2006, en dráttarvexti frá þeim degi, samkvæmt IV. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, til greiðsludags.  Til vara er krafizt miskabóta að mati dómsins.

Þá er þess krafizt, að stefndi verði dæmdur til að greiða kr. 800.000 til að kosta birtingu dóms í málinu, þ.e. forsendna og dómsorðs, í fjórum dagblöðum.  Til vara er krafizt lægri fjárhæðar að mati dómsins.

Stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar skv. síðar framlögðu málskostnaðaryfirliti, auk virðisaukaskatts.

 

Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og dæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati réttarins, að viðbættum virðisaukaskatti.

 

II

Málavextir

Stefnendur eru forsvarsmenn og eigendur fyrirtækisins 2b ehf., sem er starfsmannaleiga. Meðal viðskiptavina fyrirtækisins er verktakafyrirtækið Suðurverk ehf., sem er eitt fjölmargra verktakafyrirtækja á Kárahnjúkasvæðinu. Stefnendur kveða yfirtrúnaðarmann starfsmanna á Kárahnjúka­svæðinu, Odd Friðriksson, hafa skrifað pistil, sem var birtur á vefsvæði Rafiðnaðarsambands Íslands, þar sem hann segi forsvarsmenn 2b ehf. hafa lagt að verkstjórum Suðurverks að berja starfsmenn 2b ehf., sem fyrirtækið hafði leigt til Suðurverks.

Í fréttatíma Stöðvar 2, kl. 1830, 23. október 2005, var fjallað um ofangreindan pistil, og hafði fréttamaðurinn, Jóhannes Kr. Kristjánsson, m.a. viðtal við stefnda, Guðmund Gunnarsson, formann Rafiðnaðarsambands Íslands.  Í því viðtali viðhafði stefndi m.a. eftirgreind ummæli.

 

A „... að svona dólgar sem koma svona fram við fólk að þetta er í sjálfu sér nákvæmlega sama tóbakið og þeir sem eru að flytja konur frá Austurlöndum og börn og selja þau í kynlífsþrælkun.“

 

B   „Þarna eru dólgar að flytja inn bláfátækt verkafólk og notfæra sér eymd þess til þess að hagnast á því.“

 

C   „ Þeir eru að stinga hluta af launum þessa fólks í eigin vasa.“

 

D „Eiginkona þessa manns, sem er samlandi þessara manna, þ.e.a.s. pólsk kona, hún er að hóta því að ef þeir séu ekki þægir og góðir þessir menn þá verði þeir fluttir til Reykjavíkur og settir í alls konar skítadjobb og þeir verði látnir borga 80 þúsund kall kostnað og fyrir 1 dollara á tímann.“

 

E   „Og hún gengur á milli verkstjóranna austur á Kárahnjúkasvæði og segir að ef þeir eru ekki þægir og góðir þessir Pólverjar að þá skuli þeir bara ganga í skrokk á þeim.“

 

Í fréttatíma Sjónvarpsins kl. 1900, 23. október 2005, var einnig fjallað um pistil Odds Friðrikssonar, og leitaði fréttamaðurinn Magnús Hlynur Hreiðarsson, til stefnda eftir viðbrögðum. Lét stefndi þá meðal annars falla eftirgreind ummæli:

 

F   „Síðan eru okkur sýndir einhverjir launaseðlar sem eru svo bara tóm della. Og síðan eru okkur sýndir ráðningarsamningar sem að þeir kannski hafa aldrei séð sjálfir, þannig að þetta er svona bara skipulögð glæpastarfsemi, það er ekki hægt að kalla þetta neitt annað”.

 

G   „Já, konan, pólska konan, sem er annar eigandi þessa fyrirtækis, hún fór og sagði við verkstjórann, einn af verkstjórunum þarna upp frá, að ef að þeir væru með eitthvert múður þessir Pólverjar þá ætti bara að lemja þá, þeir væru vanir því úr sínu heimalandi.“

 

H  „Ja, við ætlum að fletta ofan af þessu fyrirtæki bara alfarið og við erum að vinna í því núna.“

 

Kveða stefnendur málshöfðun þessa nauðsynlega, svo þeir geti hreinsað mannorð sitt og æru.

Stefndi máls þessa er formaður Rafiðnaðarsambands Íslands.  Hann á einnig sæti í miðstjórn Alþýðusambands Íslands og er einn að forystumönnum íslenzkrar verkalýðshreyfingar.

 

Stefndi kveður málsatvik vera þau, að inn á ársfund ASÍ 20. október 2005 hafi borizt þau tíðindi frá yfirtrúnaðarmanni stéttarfélaganna í Kárahnjúkum, að forsvarsmaður 2b, starfsmannaleigu, sem hafði 18 menn í störfum á Kárahnjúkum, hefði PIN númer erlendra starfsmanna sinna og hefði farið inn á bankareikninga starfsmanna og tekið þaðan út fjármuni, sem hann hafi talið, að pólskir starfsmenn sínir skulduðu sér.  Einnig hafi komið fram nokkru áður, að hann hefði, ásamt eiginkonu sinni, sagt við verkstjóra á Kárahnjúkasvæðinu, að ef þeir starfsmenn, sem þeir væru að leigja frá þeim, væru ekki þægir og gengju umyrðalaust til vinnu sinnar, ætti að berja þá.

Vegna þessara tíðinda hafi stefndi haldið ræðu á fundinum, þar sem hann hafi m.a. sagt þetta:

 

Um alla Vestur-Evrópu spretta nú upp fyrirtæki þar sem koma fram einstaklingar sem sjá möguleika á því að hagnast á því að nýta sér bága stöðu verkafólks úr Austur-Evrópuríkjum.  Þessir dólgar setja upp búllur þar sem þeir bjóða þetta fólk til hvers konar starfa á niðursettu verði.  Sumir þessara leigudólga velja sér starfssvið að flytja inn stúlkur og börn sem þeir selja í kynlífsþrældóm, aðrir velja sér það starfssvið að leigja þetta ólánsama fólk í þrældóm í byggingarvinnu.  Aðferðir og viðhorf þessara dólga eru nákvæmlega þau sömu og framkoman við þetta fólk er hin sama.  Hugsunarháttur þessara manna er nákvæmlega hinn sami, gildir þá einu hvaða svið þeir velja.  Fólkinu eru settir afarkostir, ef það fer ekki í einu og öllu eftir því sem leigudólgarnir vilja, þá glatar það tilverurétti og er komið í óviðráðanlegar fjárhagslegar skuldbindingar við dólgana.

 

Þetta er umhverfi sem við brutum af okkur á fyrri hluta síðustu aldar.  Manni verður ómótt við það að sjá til þessara dólga og ekki batna ónotin þegar lögmennirnir stíga fram á sjónarsviðið og verja þetta með því að hreyta ónotum í verkalýðshreyfinguna og gera henni upp alls konar skoðanir um kynþáttafordóma og fleira.  Það verður að segjast eins og það er, maður skilur ekki afstöðu stjórnvalda að þau skuli draga fæturna í því að setja lög um starfsmannaleigur á sama tíma og íslenzkum fyrirtækjum er lokað vegna þess að þau standa ekki skil á gjöldum til samfélagsins og virðisaukaskatti.  Þá vaða þessir dólgar með aðstoð óvandaðra lögmanna uppi og nýta sér neyð bláfátæks fólks og purrkunarlaust draga þeir sér hluta af launum þeirra.

 

Fréttaviðtöl þau, sem stefnendur vísa til, hafi farið fram nokkrum dögum síðar.  Þar hafi stefndi svarað spurningum fréttamanna um starfsmannaleigur um að hann hefði stundum tekið til orða, eins og að ofan sé vísað til.  Hvergi í þessum viðtölum eða ofangreindri ræðu hafi starfsmannaleigan 2b verið nefnd á nafn.  Skömmu síðar hafi lögmaður 2b sagt, að hann hefði, ásamt umbjóðanda sínum, ákveðið að stefna Guðmundi Gunnarssyni fyrir meiðyrði, „enda væri löngu kominn tími til að láta formann Rafiðnaðarsambandsins standa við einhverjar af gífuryrtum yfirlýsingum sínum.“ 

Í framlögðum gögnum málsins, sem komi frá yfirtrúnaðarmanni verkalýðsfélaganna á Kárahnjúkum, Oddi Friðrikssyni, komi fram lýsing á þeim atburðum, sem stefndi hafi fjallað um í ræðu sinni.

Í bréfi Odds, dags. 18.09. 2005, til Dofra Eysteinssonar hjá Suðurverki ehf., þar sem þessi pólsku verkamenn frá 2b störfuðu, er fundið að því, að launaseðlar fyrir ágústmánuð séu ekki í samræmi við þá ráðningarsamninga, sem yfirtrúnaðarmaður fékk í hendur, og þeim tilmælum beint til Suðurverks, að gengið yrði þá þegar frá nýjum ráðningarsamningum við viðkomandi starfsmenn.

Í bréfi yfirtrúnaðarmanns til fastanefndar um virkjunarframkvæmdir, dags. 18.10. 2005, fari hann fram á túlkun fastanefndar á launaseðli, sem borizt hafði frá fyrirtækinu 2b ehf.  Á launaseðlana hafði verið bætt frádráttarliðum, sem nefndir hafi verið „útlagður kostnaður“ og „aðkeypt þjónusta“.

Í tölvupósti lögmanns 2b, dags. 21.10. 2005 sé kvartað yfir því, að yfirtrúnaðarmaður dreifi til fjölmiðla trúnaðargögnum úr bókhaldi 2b ehf., og kveðst stefndi telja, að þar sé væntanlega átt við umrædda launaseðla til starfsmannanna.

Í tölvupósti yfirtrúnaðarmanns til starfsmanna nokkurra verkalýðsfélaga, dags. 22.10. 2005, greini hann þeim frá því, að hann hafi komizt að því, að starfsmannaleigan 2b hafi verið að fara inn á bankareikninga tveggja starfsmanna, án heimildar.  Þar komi einnig fram, að 2b hefðu bannað Pólverjunum að hafa samband við yfirtrúnaðarmanninn, þeir hefðu verið látnir samþykkja fyrir komuna hingað til lands að borga 500 dollara á mánuði til greiðslu kostnaðar á uppihaldi þeirra hérna og að 2b hefði gefið verkstjóra hjá Suðurverki, Grétari Ólafssyni,  fyrirmæli um, hvernig skyldi umgangast Pólverjana.  Lena Shchavynska, sem titluð sé forstjóri 2b og eiginkona Eiðs, hafi sagt, að bezt væri að lemja þá, væru þeir með eitthvert múður.  Þeir væru vanir því.  Að lokum hafi yfirtrúnaðarmaður getið þess í þessum tölvupósti, að Pólverjarnir teldu, að póstur þeirra væri skoðaður, og hafi þeir lagt fram aðvörunarbréf, sem einn þeirra hafði fengið.

Í tölvupósti yfirtrúnaðarmanns til lögmanns 2b ehf., dags. 22.10. 2005, svari hann ásökunum lögmannsins og greini frá samskiptum sínum við forsvarsmenn 2b.

Í tölvupósti yfirtrúnaðarmanns, dags. 23.10. 2005, til sömu aðila hjá verkalýðsfélögunum og áður, greini hann ítarlega frá öðrum fundi með Pólverjunum, þar sem viðstaddur hafi verið pólskur túlkur.  Þar hafi ofangreind atriði verið rædd og staðfest af Pólverjunum.

Í tölvubréfi, dags. 23.10. 2005, svari yfirtrúnaðarmaður fyrirspurn varðandi póstsendingu til Pólverjanna.

Þann sama dag hafi viðtölin við stefnda verið tekin.  Nokkrum dögum síðar, hinn 27. október 2005, hafi verið haldinn fundur í fastanefnd Virkjunarsamningsins, þar sem framkoma stefnenda við Pólverjanna hafi verið rædd.  Þar sé gerð athugasemd við, að útlagður kostnaður og þóknun séu dregin frá launum og að engar skýringar fylgi þessum frádrætti.   Þar sé enn fremur gerð athugasemd við, að launaseðlar séu ekki í réttu formi, og að atvinnurekanda sé óheimilt að endurkrefja starfsmenn eða láta þá taka þátt í kostnaði, sem virkjunarsamningur geri ráð fyrir, að sé greiddur af atvinnurekanda, s.s. vegna húsnæðis, fæðis, vinnufatnaðar og trygginga.  Sama gildi um ferðakostnað starfsmanna innanlands, eins og sá kostnaður sé skilgreindur í Virkjunarsamningi.

 

III

Málsástæður stefnanda

Ómerking ummæla í fréttatímum Stöðvar 2 og Sjónvarpsins

 

A.  „... að svona dólgar sem koma svona fram við fólk að þetta er í sjálfu sér nákvæmlega sama tóbakið og þeir sem eru að flytja konur frá Austurlöndum og börn og selja þau í kynlífsþrælkun.“

 

Hvað varði ofangreind ummæli stefnda, þá sé það mjög alvarlegur hlutur, að stefndi skuli jafna starfsemi fyrirtækisins og framgöngu forsvarsmanna þess, sem starfi eftir þeim leikreglum, sem íslenzk stjórnvöld hafi sett starfseminni, við dólga, sem flytji konur og börn frá Austurlöndum og selji þau í kynlífsþrælkun, sem sé svívirðilegur glæpur, sem margra ára fangelsi liggi við að íslenzkum lögum. Með því að kalla forsvarsmenn fyrirtækisins dólga, verði að telja líklegt, að ásetningur stefnda hafi verið að skapa þau hughrif hjá áhorfendum fréttatíma Stöðvar 2, að stefnendur væru „melludólgar“, sem sé grafalvarleg aðdróttun að æru stefnenda.

 

B.  „Þarna eru dólgar að flytja inn bláfátækt verkafólk og notfæra sér eymd þess til þess að hagnast á því.“

 

Hér haldi stefndi áfram að kalla stefnendur dólga, sem flytji inn bláfátækt verkafólk og notfæri sér eymd þess til þess að hagnast á því.  Í þessum ummælum stefnda felist alvarleg aðdróttun að æru stefnenda.  Þar að auki sé fullyrðing stefnda klárlega röng, þar sem laun hinna pólsku verkmanna á  Íslandi séu margföld laun þeirra í Póllandi.

 

C.  „Þeir eru að stinga hluta af launum þessa fólks í eigin vasa.“

 

Stefnda finnist ekki nóg að gert, því með ofangreindum ummælum geri hann sér lítið fyrir og þjófkenni stefnendur með því að brigsla þeim um, að þeir stingi hluta af launum hins erlenda verkafólks í eigin vasa.  Hér ásaki stefndi stefnendur enn á ný um hegningarlagabrot á opinberum vettvangi, án þess að færa fyrir því nokkur rök, og vegi þannig enn og aftur með alvarlegum hætti að æru stefnenda.

 

D. „Eiginkona þessa manns, sem er samlandi þessara manna, þ.e.a.s. pólsk kona, hún er að hóta því að ef þeir séu ekki þægir og góðir þessir menn þá verði þeir fluttir til Reykjavíkur og settir í alls konar skítadjobb og þeir verði látnir borga 80 þúsund kall kostnað og fyrir 1 dollara á tímann.“

 

Vindhögg stefnda haldi áfram, því með framgreindum ummælum fullyrði stefndi, að stefnandi Olena hafi hótað því, að ef hinir pólsku verkmenn væru ekki þægir og góðir, yrðu þeir fluttir hreppaflutningum til Reykjavíkur, þar sem þeirra byðu alls konar „skítadjobb“ og þeir yrðu látnir borga kostnað upp á 80 þúsund krónur og fengju 1 dollara í laun á tímann. Það gefi augaleið, að slík ummæli séu mjög til þess fallin að skaða stefnendur og ímynd atvinnustarfssemi þeirra. Það auki síðan enn á áhrifamátt ummæla stefnda, að þau séu viðhöfð af manni, sem sé í framvarðarsveit íslenzkrar verkalýðshreyfingar.  Það sé síðan í takt við annað hjá stefnda, að hann fullyrði í fréttinni, að stefnda Olena sé frá Póllandi, þegar hið rétta sé, að hún sé frá Úkraínu.

 

E.  „Og hún gengur á milli verkstjóranna austur á Kárahnjúkasvæði og segir að ef þeir eru ekki þægir og góðir þessir Pólverjar að þá skuli þeir bara ganga í skrokk á þeim.“

 

Stefndi fullkomni síðan skömm sína með ofangreindum ummælum um stefnanda Olenu og fyrirtækið 2b ehf., en þar fullyrði stefndi, að stefnandi Olena gangi á milli verkstjóra austur á Kárahnjúkum og segi þeim að ganga í skrokk á hinum pólsku verkamönnum, séu þeir ekki þægir og góðir.  Hér gerist stefndi enn á ný sekur um grafalvarlegar ærumeiðingar og aðdróttanir í garð stefnenda.

 

F.  „Síðan eru okkur sýndir einhverjir launaseðlar sem eru svo bara tóm della. Og síðan eru okkur sýndir ráðningarsamningar sem að þeir kannski hafa aldrei séð sjálfir, þannig að þetta er svona bara skipulögð glæpastarfsemi, það er ekki hægt að kalla þetta neitt annað.“

 

Fullyrðingar stefnda hér að framan eigi ekki við nein rök að styðjast frekar en annað í málflutningi hans.  Það liggi fyrir, að hinir pólsku verkmenn, sem starfi hjá fyrirtæki stefnanda, hafi fengið afhenta launaseðla, sem voru að formi og efni í algjöru samræmi við það sem íslenzk lög geri ráð fyrir.  Þá hafi einnig verið gerður ráðningarsamningur við hvern og einn hinna pólsku verkamanna, sem starfi hjá stefnanda, og sé ráðningarsamningurinn undirritaður af báðum samningsaðilum.  Enn og aftur grípi stefndi síðan til gífuryrða og saki stefnendur um hegningarlagabrot á opinberum vettvangi með því að ásaka stefnendur um að halda úti skipulagðri glæpastarfsemi.  Það gefi augaleið, að alvarleiki þessara ummæla stefnda um stefnendur sé mikill.

 

G.  „Já, konan, pólska konan, sem er annar eigandi þessa fyrirtækis, hún fór og sagði við verkstjórann, einn af verkstjórunum þarna upp frá, að ef að þeir væru með eitthvert múður þessir Pólverjar þá ætti bara að lemja þá, þeir væru vanir því úr sínu heimalandi.“

 

Með framangreindum ummælum ásaki stefndi annan stefnenda, Olenu, á nýjan leik, í þetta skiptið í fréttatíma Sjónvarpsins, um að hafa sagt verkstjórum á Kárahnjúkasvæðinu að lemja pólsku verkamennina, ef þeir væru með múður, því þeir væru vanir því úr sínu heimalandi.  Enn á ný séu fullyrðingar stefnanda ekki studdar neinum rökum, enda algjörlega úr lausu lofti gripnar.

 

H. „Ja, við ætlum að fletta ofan af þessu fyrirtæki bara alfarið og við erum að vinna í því núna.“

 

Hér notast stefndi við orðalagið að „fletta ofan af þessu fyrirtæki“, en þessi ummæli stefnda beri að skoða í samhengi við ummæli í staflið F, þar sem hann ásaki stefendur um að halda úti skipulagðri glæpastarfsemi, en það sé almenn málnotkun í Íslandi að tala um að „fletta ofan af glæpastarfsemi“.  Þessi ummæli stefnda séu því gildishlaðin og í þeim felist aðdróttun að æru stefnenda.

Það verði að telja, að ummæli stefnda varði við 234., 235., 236., og 237. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og því beri að ómerkja þau með vísan til 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga enda ljóst, að ummæli stefnda séu bæði óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta ímynd stefnenda. Hagsmunir stefnenda af því að fá ummælin dæmd dauð og ómerk séu því miklir.

 

Miskabótakrafa

Stefnendur byggi á því, að umrædd ummæli stefnda í stafliðum A til H hafi fengið mjög á stefnendur andlega, enda um ærumeiðandi aðdróttanir að ræða, sem bæði séu rangar og bornar fram, án þess að stefndi hafi nokkuð haft fyrir sér.  Einnig sé ljóst, að virðing stefnenda hafi beðið hnekki, sem og æra þeirra og persóna.  Þá liggi fyrir, að stefnendur hafi atvinnu sína af rekstri starfsmannaleigu, og ímynd fyrirtækisins hafi beðið mikla hnekki vegna hinna tilhæfulausu aðdróttana stefnda.

Fjöldi fólks horfi á fréttir Stöðvar 2 og Sjónvarpsins, sbr. dómskjöl nr. 6 og 7,  sem séu í opinni dagskrá, og því hafi útbreiðsla ummæla stefnda verið mikil og náð til fjölda fólks, enda ummælin endurtekin ítrekað.  Þá hafi verið vitnað til ummæla stefnda í erlendum fjölmiðlum, meðal annars í pólskum fjölmiðlum.  Almenn og sérstök varnaðaráhrif skaðabótareglna standi því til þess, að stefnendum verði dæmdar háar miskabætur.

Krafa stefnenda um miskabætur sé byggð á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Við mat á miskabótum vísi stefnendur einnig til grunnraka að baki 234., 235., 236. og 237. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Um frekari rökstuðning fyrir miskabótakröfu stefnenda sé vísað til röksemda, sem settar séu fram í kaflanum hér að ofan undir yfirskriftinni „Ómerking ummæla í fréttatímum Stöðvar og Sjónvarpsins.“

 

Birting dómsins

Þess sé krafizt, að stefndi verði dæmdur til að greiða kr. 800.000 til að kosta birtingu dóms í málinu, þ.e. forsendna og dómsorðs, í fjórum dagblöðum, sbr. 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Tjáningarfrelsi stefnda

Hvað varði tjáningarfrelsi stefnda vísi stefnendur til 2. og 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, en tjáningarfrelsi njóti ekki verndar, þegar brotið sé gegn mannorði annarra manna.

 

Málskostnaðarkrafa

Þess sé krafizt, að stefndi greiði stefnendum málskostnað og sé krafan byggð 130. gr. l. nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þess er krafizt, að dæmdur málskostnaður beri virðisaukaskatt.

Um lagarök, vísi stefnendur til 234., 235., 236., 237. gr. og 1. og 2. mgr. 241. gr.  almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem og grunnraka þeirra, sem búi að baki framangreindum lagagreinum.  Þá vísi stefnendur til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Krafa stefnenda um vexti og dráttarvexti á miskabótakröfu sé byggð á IV. kafla vaxtalaga nr. 38/2001.  Þá sé krafa um málskostnað byggð á 130. gr. l. nr. 91/1991.

 

Málsástæður stefnda

Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína á tjáningarfrelsi 73. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 11. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, sem tryggi mönnum tjáningarfrelsi.  Hann vísi enn fremur til 10. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, og telji, að réttur hans til að tjá sig með þeim hætti, sem hann hafi gert, rúmist innan þessara lagareglna, eins og bæði íslenzkir dómstólar og Mannréttindadómstóll Evrópu hafi túlkað tjáningarfrelsið í dómum sínum hin síðari ár.  Ummælin telji hann hvorki vera refsiverð né bótaskyld.

Stefndi sé formaður í fjölmennum samtökum iðnaðarmanna og einn af forystumönnum í íslenzkri verkalýðshreyfingu.  Það sé ekki bara réttur hans, heldur einnig skylda, að benda á og taka fast á öllum þeim atvinnurekendum, sem brjóti á launafólki, í hvaða mynd sem er.  Það sé hluti af hans starfi að tryggja, að kjarasamningar séu haldnir og að standa vörð um réttindi verkafólks, og verði hann þess var, að réttur þess sé brotinn, hljóti hann að bregðast hart við. 

Ummæli stefnda séu viðhöfð í tengslum við tiltekið mál á Kárahnjúkum, sem mjög hafi verið í fréttunum á þessum tíma, en þrátt fyrir að svo sé, nafngreini stefndi aldrei stefnendur máls þessa eða það fyrirtæki, sem þau reki.  Því sé mjög langsótt að halda því fram, að ummæli stefnda geti ein verið meiðandi eða særandi fyrir stefnendur.

Lögð hafi verið fram skjalleg gögn, sem lýsi málinu ítarlega.  Þar komi fram, að tilefni ummælanna hafi verið alvarleg samningsréttarleg brot fyrirtækis stefnenda á erlendum starfsmönnum, sem hér hafi starfað á þeirra vegum.  Öll dæmi, sem stefndi tiltók, séu höfð eftir heimildarmönnum fyrir austan.

Séu ummælin, sem stefnt sé út af, skoðuð, sjáist, að þau séu að nokkru leyti slitin úr samhengi við þá ræðu, sem hann hafi haldið á ársfundi ASÍ.  Það breyti þó ekki því, að ekkert í þessum ummælum sé þess efnis að geti talizt refsivert.  Sé farið yfir einstök ummæli, sem krafizt sé, að verði dæmd dauð og ómerk, sé fyrst að nefna eftirfarandi:

 

Ummæli á Stöð tvö

 

A. „...að svona dólgar sem koma svona fram við fólk að þetta er í sjálfu sér nákvæmlega sama tóbakið og þeir sem eru að flytja konur frá Austurlöndum og börn og selja þau í kynlífsþrælkun.“

 

Þarna vísi stefndi til þess, að innflutningur á verkafólki sé háður stífum reglum.  Brot á þeim reglum varði innflytjendur refsingu.  Fyrirtæki stefnenda hafi ekki verið að fara eftir reglum á þessum tíma.  Hugtakið dólgur þýði í orðabók Menningarsjóðs 1. digur, klunnalegur og illilegur maður; tröll. 2. óvinur.  Tilgáta stefnenda um, að með þessu hafi stefndi verið að skapa hughrif og líkja þeim við melludólga, eigi því ekki við rök að styðjast og skýrist kannski af hans eigin ímyndunarafli.

 

B.  „Þarna eru dólgar að flytja inn bláfátækt verkafólk og notfæra sér eymd þess til þess að hagnast á því.“

 

Stefnendur telji, að með þessu orðalagi vegi stefndi að æru þeirra.  Áður hafi orðið dólgur verið skýrt út.  Stefnendur réttlæti brot sín á pólsku verkafólki með því, að laun hér á landi séu margföld laun verkafólks í Póllandi.  Þess vegna sé í lagi að brjóta á þeim rétt hér.

 

C.  „Þeir eru að stinga hluta af launum þessa fólks í eigin vasa.“

 

Stefnendur telji, að með þessu sé stefndi að þjófkenna þá.  Hér vísi stefndi til þess, að í málinu liggi fyrir fundargerð fastanefndar Virkjunarsamnings, þegar mál fyrirtækis stefnenda var þar til umfjöllunar.  Þar komi fram, að atvinnurekanda sé með öllu óheimilt að krefja starfsmenn sína um greiðslu á ýmsum tilfallandi kostnaði, sem hann stofni til í þágu síns atvinnurekstrar, hvort sem sá kostnaður varði starfsmenn sérstaklega eða aðra þætti atvinnustarfseminnar, nema um sé að ræða endurgreiðslur vegna hlunninda, sem veitt séu umfram ákvæði laga og kjarasamninga, og endurgreiðslan byggi á samningi atvinnurekandans og starfsmanns.

 

D. „Eiginkona þessa manns, sem er samlandi þessara manna, það er að segja pólsk kona, hún er að hóta því að ef þeir séu ekki þægir og góðir þessir menn þá verði þeir fluttir til Reykjavíkur og settir í alls konar skítadjobb og þeir verði látnir borga 80 þúsund kall kostnað og fyrir 1 dollara á tímann.“

 

Stefndi viðurkenni, að hafa haldið, að stefnandi máls þessa, Olena Shchavynska, væri pólsk, en ekki úkraínsk, en telji, að ekki sé hægt að refsa sér fyrir þau mistök.  Að öðru leyti vísi hann til tölvupósts frá aðaltrúnaðarmanni verkalýðsfélaganna í Kárahnjúkum 23. október 2005, þar sem greint sé frá fundi, sem hann hafi átt með Pólverjunum.  Þar hafi þeir lýst því, að stefnandi hefði skýrt þeim frá því strax eftir komuna til Keflavíkur, að ef þeir stæðu sig ekki í vinnu, tæki hann þá til Reykjavíkur, þar sem þeir yrðu settir í hvaða vinnu, sem er, fyrir einn USD á tímann, og borguðu honum 80.000 USD, sem væri sá kostnaður, sem hann hefði þurft að bera vegna komu þeirra til landsins.

 

E.  „Og hún gengur á milli verkstjóranna austur á Kárahnjúkasvæði og segir að ef þeir eru ekki þægir og góðir þessir Pólverjar að þá skuli þeir bara ganga í skrokk á þeim.“

 

Stefndi vísi hér aftur til tölvupósts frá yfirtrúnaðarmanni með lýsingum verkstjóranna á svæðinu af samskiptum þeirra við stefnanda, Olenu.

 

Ummæli í fréttatíma Sjónvarpsins

 

F.  „Síðan eru okkur sýndir einhverjir launaseðlar sem eru svo bara tóm della.  Og síðan eru okkur sýndir ráðningarsamningar sem að  þeir kannski hafa aldrei séð sjálfir, þannig að þetta er svona bara skipulögð glæpastarfsemi, það er ekki hægt að kalla þetta neitt annað.“

 

Hér sé stefndi að vísa til lýsingar af fundi aðaltrúnaðarmanns verkalýðsfélaganna með stefnendum og Pólverjunum, sem fram komi í tölvupósti 23. maí, en þar komi í ljós, að stefnendur hefðu ráðið Pólverjana hingað til starfa á allt öðrum kjörum en hér gildi.  Enn fremur liggi fyrir í málinu launaseðlar, sem verið sé að vitna til og brjóti í bága við ákvæði Virkjunarsamnings, svo og ráðningarsamningar Pólverjanna á eyðublaði frá Vinnumála­stofnun, séu á íslenzku og ensku, en þeir skilji hvorki íslenzku né ensku.  Ummælin séu auk þess slitin hér úr samhengi, því þegar stefndi sé hér að vísa til skipulagðrar glæpastarfsemi, sé hann að vísa til framkomu stefnenda og fyrirtækis þeirra í garð Pólverjanna í heild sinni.

 

G.  „Já, konan, pólska konan, sem er annar eigandi þessa fyrirtækis, hún fór og sagði við verkstjórann, einn af verkstjórunum þarna upp frá, að ef að þeir væru með eitthvert múður þessir Pólverjar þá ætti bara að lemja þá, þeir væru vanir því úr sínu heimalandi.“

 

Enn er stefndi hér að vísa til frásagnar aðaltrúnaðarmanns og þess, sem verkstjóri Suðurverks greindi honum frá.  Þetta séu sömu frásagnirnar og getið sé um í e- lið hér að framan.

 

H. „Ja, við ætlum að fletta ofan af þessu fyrirtæki bara alfarið og við erum að vinna í því núna.“

 

Hér vísi stefndi til þeirrar vinnu, sem sé í gangi hjá aðaltrúnaðarmanni og starfsmönnum verkalýðsfélaganna.  Augljóslega hafi verið brotinn réttur á umræddum starfsmönnum á Kárahnjúkum og hafi því verið nauðsynlegt að afla gagna og taka málið upp á réttum stöðum.  Það hafi svo verið gert í fastanefnd Virkjunarsamningsins fimmtudaginn 27. október 2005. 

Ummæli stefnda séu, eins og áður segi, tilkomin vegna frásagnar aðaltrúnaðarmanns á Kárahnjúkum af samskiptum stefnenda við starfsmenn sína.  Frásögnin gefi til kynna margvísleg brot á kjarasamningi, og hljóti ummælin því að vera fullkomlega eðlileg undir þeim kringumstæðum.  Þau geti ekki talizt brot á 234., 235., 236. eða 237. gr. almennra hegningarlaga, og ekkert í þeim geti talizt óviðurkvæmilegt, tilhæfulaust eða smekklaust eða til þess fallið að sverta ímynd stefnenda.

 

Miskabótakrafa

Því sé alfarið hafnað, að stefnendur eigi nokkurn rétt á greiðslu miskabóta með vísan til 26. gr. skaðabótalaga.  Ummælin geti hvergi talizt ærumeiðandi þegar af þeirri ástæðu, að stefnendur höfðu með framkomu sinni og brotum á kjarasamningum gefið fullkomið tilefni til þeirra ummæla, sem stefndi viðhafði. 

 

Birting dómsins

Stefndi mótmæli kröfu um, að honum verði gert að kosta birtingu dóms í málinu.  Fari svo, að dómurinn komist að þeirri niðurstöðu, að stefndi hafi gerzt brotlegur við meiðyrðalöggjöf, beri á það að líta, að hann hafi aldrei nafngreint stefnendur sjálfa eða fyrirtæki þeirra.  Engin leið sé fyrir almenning að átta sig á því, hvaða fyrirtæki eða einstaklingar eigi hér í hlut.  Meira að segja hafi stefndi talið annan stefnenda vera pólskan, en ekki úkraínskan, þannig að enn erfiðara ætti að vera fyrir fólk að tengja fyrirtæki stefnenda við ummæli stefnda.

Um kröfu um málskostnað sé vísað til 130. gr. einkamálalaga nr. 91/1991.  Um kröfu til virðisaukaskatts sé vísað til l. 50/1988.

 

IV

Forsendur og niðurstaða

Fyrir dóminn komu til skýrslugjafar, auk stefnenda og stefnda, Jóhannes Kr. Kristjánsson, Magnús Hlynur Hreiðarsson, Oddur Friðriksson, María Valgeirsson, Birgir Sigurðsson og Pálmi Sigfússon.

Það er ágreiningslaust, að stefndi lét þau orð falla, sem greinir í stefnukröfum, í umræddum sjónvarpsviðtölum.  Lýtur krafa stefnanda annars vegar að ummælum, sem stefndi viðhafði í viðtali í fréttatíma Stöðvar 2 þann 23. október 2005, klukkan 18:30, og hins vegar í fréttatíma Sjónvarpsins þann 23. október 2005, klukkan 19:00.  Verður fyrst fjallað um ummælin, sem viðhöfð voru á stöð 2.

Samkvæmt dskj. nr. 4, sem er útprentun af frétt stöðvarinnar, voru ummæli stefnanda samkvæmt stafliðum A, B og C viðhöfð í beinu samhengi í fréttatímanum og ummælin samkvæmt stafliðum D og E nokkru síðar í sama fréttatíma, einnig í beinu samhengi.

Stefnandi, Eiður Eiríkur, skýrði svo frá fyrir dómi, að hann kannaðist ekki við að hafa gefið heimild til að leggja hendur á starfsmenn sína eða gefið slíkt í skyn.  Þá kvaðst hann ekki kannast við að hafa viðhaft ummæli samkvæmt staflið D, sem eignuð eru meðstefndu, Olenu.

Stefnandi, Olena, skýrði svo frá fyrir dómi m.a., að hún kannaðist ekki við að hafa viðhaft þau ummæli, sem henni eru eignuð samkvæmt stafliðum D og E í kröfugerð.  Þá kvað hún rangt, að stefnendur hefðu verið að stinga hluta af launum hinna pólsku verkamanna í eigin vasa.  Þeim hefðu verið greidd full laun, sem þeim hafi borið, en það hafi verið samið um, að draga frá kostnað vegna sígaretta, símakorta og farmiða fyrir starfsmennina.  Hún kvaðst ekki hafa gefið forsvarsmönnum Suðurverks neinar sérstakar leiðbeiningar um framkomu við Pólverjana, maðurinn hennar hefði séð um þann þátt.  Hún hefði gefið Pólverjunum þær leiðbeiningar varðandi samskipti við Íslendinga, að þeir ættu bara að aðlagast hópnum og allir ættu að vinna saman.  Ekki hafi gilt neinar sérstakar reglum um það, ef Pólverjarnir brytu af sér í starfi eða hlýddu ekki fyrirmælum.

Stefndi, Guðmundur, skýrði svo frá fyrir dómi m.a., að ástæða þess, að hann fór í sjónvarpið í umdeild viðtöl, hafi verið fréttir, sem borizt hefðu inn á ársfund Alþýðusambandsins um það, að fyrirtækið 2b hefði farið inn á, eða hefði haft undir höndum pinnúmer bankareikninga starfsmanna sinna og hefði tekið út af þeim reikningum fjármuni án samráðs við reikningseigendur.  Hann hafi aldrei nefnt nafnið 2b í fjölmiðlum, hann hafi alltaf talað almennt um starfsmannaleigur og þær leigur, sem valdið hafi vandamálum.  Aðspurður kvaðst hann þó hafa verið að vísa til stefnanda, Olenu, þegar hann talaði um „eignkonu þessa manns“ undir stafliðum D og E í kröfugerð.  Séu þær fullyrðingar hafðar eftir trúnaðarmönnum og túlki.  Aðspurður um hvaða merkingu hann leggi í orðið „dólgur“ kvað hann þetta orð vera almenna málvenju og notað t.d. um fólk, sem hrifsar til sín gæði, sem aðrir eiga, og nefndi sem dæmi orðið „flugdólgur“ sem ætti við þegar einstaklingur hrifsar til sín frið í flugvél frá öðrum farþegum.

Fallast má á með stefnda, að stjórnarskráin tryggir mönnum málfrelsi.  Hins vegar firrir sá réttur hann ekki ábyrgð á orðum sínum, sbr. 2. mgr. 73. gr. stjskr. 

Verður nú fjallað um hvert hinna umstefndu ummæla fyrir sig.

 

A.         „... að svona dólgar sem koma svona fram við fólk að þetta er í sjálfu sér nákvæmlega sama tóbakið og þeir sem eru að flytja konur frá Austurlöndum og börn og selja þau í kynlífsþrælkun.“

 

Stefndi vísar til skilnings síns á orðinu dólgur varðandi þennan kröfulið.  Hugtakið þýði samkvæmt orðabók Menningarsjóðs „digur, klunnalegur og illilegur maður, tröll, óvinur“.  Sé röng sú tilgáta stefnenda, að stefndi hafi verið að líkja þeim við melludólga, og eigi hún ekki við rök að styðjast.

Hjá því verður ekki horft, að í ummælum sínum, þar sem stefndi nefnir stefnendur „dólga“ líkir hann framkomu þeirra jafnframt við starfsemi þeirra, sem selja konur og börn í kynlífsþrælkun.  Það er ljóst, að slík starfsemi er bæði ólögmæt og refsiverð, og hefur stefndi ekki á nokkurn hátt réttlætt þessa samlíkingu.  Verða ummæli þessi því þegar af þeim sökum ómerkt, en af greinargerð stefnda verður ráðið, að ummælum þessum hafi verið beint að stefnendum og fyrirtæki þeirra, auk þess sem það verður ráðið af samhenginu, eins og það birtist í fréttatímanum.

 

B.          „Þarna eru dólgar að flytja inn bláfátækt verkafólk og notfæra sér eymd þess til þess að hagnast á því.“

 

Svo sem áður er getið, birtust þessi orð í beinu framhaldi af ummælum undir staflið A og verður ráðið af greinargerð stefnda, sem og af samhengi við fyrri staflið, að ummælum þessum hafi verið beint að stefnendum og fyrirtæki þeirra.  Í málatilbúnaði stefnda hefur ekkert komið fram, sem styður þau ummæli, sem þarna eru viðhöfð, og ber því þegar af þeim sökum að ómerkja þau.

 

C.          „Þeir eru að stinga hluta af launum þessa fólks í eigin vasa.“

Fyrir liggur í málinu, að á annar tugur hinna pólsku starfsmanna stefnenda sá sig knúinn til að leita dómstóla í því skyni að fá leiðréttingu launa sinna, þar sem deilt var um heimild stefnenda til að draga ýmsan útlagðan kostnað frá launum þeirra, um réttindi verkamannanna til launa út ráðningartíma samkvæmt ráðningarsamningi og loks um greiðslu flugfarseðils til Póllands.  Í dómi Héraðsdóms Austurlands í máli nr. E-293/2005, sem einn hinna pólsku verkamanna höfðaði á hendur fyrirtækinu 2b, var talið sannað að yfirlit yfir útlagðan raunkostnað annars vegar og áætlaðan kostnað hins vegar væru ekki í samræmi við frádreginn útlagðan kostnað á launaseðlum stefnanda málsins.  Þá þóttu skýringar fyrirsvarsmanna 2b ekki trúverðugar varðandi frádrátt vegna fyrirframgreiddra launa.  Var talið, að fyrirtækinu hefði verið óheimilt að draga liðlega kr. 136.000 af launum stefnanda, auk þess sem aðrar kröfur hans voru teknar til greina.  Með vísan til þessa er ekki fallizt á, að framangreind ummæli verði ómerkt.

 

D.         „Eiginkona þessa manns, sem er samlandi þessara manna, það er að segja pólsk kona, hún er að hóta því að ef þeir séu ekki þægir og góðir þessir menn þá verði þeir fluttir til Reykjavíkur og settir í alls konar skítadjobb og þeir verði látnir borga 80 þúsund kall kostnað og fyrir 1 dollara á tímann.“

 

Stefndi kvaðst hafa þessi ummæli eftir trúnaðarmanninum, Oddi Friðrikssyni.

Vitnið, Oddur, skýrði svo frá fyrir dómi m.a., að hann hefði þessi ummæli eftir Grétari Ólafssyni, starfsmanni Suðurverks, og öðrum ónafngreindum manni.  Hann kvað Grétar hafa heyrt fyrirsvarsmenn 2b viðhafa þessi ummæli.

Við aðalmeðferð lýsti lögmaður stefnda því yfir, að Grétar Ólafsson, sem ætlunin hafði verið að leiða fyrir dóminn, hefði skýrt sér frá því, að hann hvorki talaði né skildi ensku, og því gæti hann ekkert borið um deiluefni í máli þessu.

Með vísan til framanritaðs eru framangreind ummæli ósönnuð og ber því að ómerkja þau.

 

E.          „Og hún gengur á milli verkstjóranna austur á Kárahnjúkasvæði og segir að ef þeir eru ekki þægir og góðir þessir Pólverjar að þá skuli þeir bara ganga í skrokk á þeim.“

 

Um ummæli samkvæmt þessum lið gildir það sama og segir hér að framan um staflið D, en stefndi hefur ekki getað sannað, að stefnendur hafi viðhaft þau fyrirmæli, sem hann sakar hana um.

Verður nú vikið að ummælum, sem viðhöfð voru í fréttatíma sjónvarpsins.

Samkvæmt dskj. nr. 5, sem er útprentun úr fréttatíma sjónvarpsins, þegar ummæli samkvæmt stafliðum F, G og H féllu, þykir ekki málum blandið, að átt er við stefnendur og fyrirtæki þeirra, en stefndi hefur viðurkennt, að þar sem hann talar um pólska konu, sé átt við stefnanda, Olenu, enda þótt rangt sé farið með uppruna hennar.  Verður þá fjallað um einstaka kröfuliði úr þessum fréttatíma.

 

F.          „Síðan eru okkur sýndir einhverjir launaseðlar sem eru svo bara tóm della. Og síðan eru okkur sýndir ráðningarsamningar, sem að þeir kannski hafa aldrei séð sjálfir, þannig að þetta er svona bara skipulögð glæpastarfsemi, það er ekki hægt að kalla þetta neitt annað.“

 

Eins og rakið er hér að framan, þar sem fjallað var um dómsmál fyrir Héraðsdómi Austurlands vegna launakrafna hinna pólsku verkamanna, má telja upplýst, að útgefnir launaseðlar til verkamannanna voru á þessum tíma ekki í samræmi við þau laun, sem þeim bar með réttu.  En vegna samhengisins við síðari hluta ummælanna, þar sem stefndi líkir útgáfu þessara launaseðla, og ráðningarsamningum við skipulagða glæpastarfsemi, án þess að hafa fært að því nokkur rök, þykir rétt að ómerkja ummælin í heild sinni samkvæmt þessum staflið.

 

G.          „Já, konan, pólska konan, sem er annar eigandi þessa fyrirtækis, hún fór og sagði við verkstjórann, einn af verkstjórunum þarna upp frá, að ef að þeir væru með eitthvert múður þessir Pólverjar þá ætti bara að lemja þá, þeir væru vanir því úr sínu heimalandi.“

 

Um staflið G gildir hið sama og rakið er hér að ofan í umfjöllun um staflið E, en ummælin eru efnislega hin sömu.  Verða þau því ómerkt.

 

H.         „Ja, við ætlum að fletta ofan af þessu fyrirtæki bara alfarið og við erum að vinna í því núna.“

 

Ekki er fallizt á, að ummæli samkvæmt staflið H séu af þeim toga, að ómerkja beri þau að kröfu stefnenda, enda liggur fyrir, að á þessum tíma var í gangi vinna hjá verkalýðsfélögunum, sem laut að rannsókn á meintum brotum á kjarasamningum hinna pólsku verkamanna, sem m.a. voru staðreynd að hluta með dómum Héraðsdóms Austurlands, svo sem áður er rakið.  Verður að skoða ummælin í ljósi þessa.

Stefnendur gera hvort um sig kröfu um greiðslu kr. 1.000.000 í miskabætur úr hendi stefnda, en til vara annarrar fjárhæðar að mati dómsins.

Fallast má á með stefnendum, að ummæli þau, sem ómerkt verða, séu meiðandi fyrir stefnendur og til þess fallin að skerða æru þeirra og ímynd fyrirtækis þeirra.  Enda þótt stefndi hafi ekki nefnt nöfn stefnenda eða nafn fyrirtækis þeirra og farið rangt með þjóðerni stefnanda, Olenu, mátti þeim, sem til þekktu, engu að síður vera ljóst, samhengisins vegna, að ummælin lutu að stefnendum og starfsemi þeirra.  Hafa stefnendur þannig orðið að þola ærumeiðandi aðdróttanir, án þess að stefndi hafi sýnt fram á réttmæti þeirra.  Verða stefnendum því ákveðnar miskabætur samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Með hliðsjón af atvikum og þegar það er virt, að öll þau ummæli, sem verða ómerkt beinast að stefnanda, Olenu, þykja miskabætur henni til handa hæfilega ákveðnar kr. 500.000.  Bætur til handa stefnanda, Eiði Eiríki, þykja með hliðsjón af málsatvikum öllum hæfilega ákveðnar kr. 300.000.  Vaxtakrafa stefnenda hefur ekki sætt sérstökum andmælum.  Ber fjárhæðin dráttarvexti frá 11. maí 2006, en vaxtakrafa er ekki skýr fram að þeim tíma, þar sem ekki kemur fram, hverra vaxta er krafizt. 

Jafnframt ber að taka til greina kröfu stefnenda um greiðslu kostnaðar við birtingu dóms.  Stefnendur hafa ekki lagt fram nein gögn um slíkan kostnað.  Verður sú fjárhæð því dæmd að álitum og þykir hæfilega ákveðin í einu lagi til handa báðum stefnendum kr. 200.000.

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnendum málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 500.000.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn

 

D Ó M S O R Ð

Eftirgreind ummæli, sem viðhöfð voru í fréttatíma á Stöð 2 23. október 2005, klukkan 18:30,  eru ómerk:

     „... að svona dólgar sem koma svona fram við fólk að þetta er í sjálfu sér nákvæmlega sama tóbakið og þeir sem eru að flytja konur frá Austurlöndum og börn og selja þau í kynlífsþrælkun.“

     „Þarna eru dólgar að flytja inn bláfátækt verkafólk og notfæra sér eymd þess til þess að hagnast á því.“

     „Eiginkona þessa manns, sem er samlandi þessara manna, það er að segja pólsk kona, hún er að hóta því að ef þeir séu ekki þægir og góðir þessir menn þá verði þeir fluttir til Reykjavíkur og settir í alls konar skítadjobb og þeir verði látnir borga 80 þúsund kall kostnað og fyrir 1 dollara á tímann.“

     „Og hún gengur á milli verkstjóranna austur á Kárahnjúkasvæði og segir að ef þeir eru ekki þægir og góðir þessir Pólverjar að þá skuli þeir bara ganga í skrokk á þeim.“

Enn fremur er eftirgreind ummæli, sem viðhöfð voru í fréttatíma Sjónvarpsins 23. október 2005, klukkan 19:00, ómerk:

     „Síðan eru okkur sýndir einhverjir launaseðlar sem eru svo bara tóm della. Og síðan eru okkur sýndir ráðningarsamningar sem að þeir kannski hafa aldrei séð sjálfir, þannig að þetta er svona bara skipulögð glæpastarfsemi, það er ekki hægt að kalla þetta neitt annað.“

     „Já, konan, pólska konan, sem er annar eigandi þessa fyrirtækis, hún fór og sagði við verkstjórann, einn af verkstjórunum þarna upp frá, að ef að þeir væru með eitthvert múður þessir Pólverjar þá ætti bara að lemja þá, þeir væru vanir því úr sínu heimalandi.“

Stefndi, Guðmundur Gunnarsson, greiði stefnanda, Olenu Shchavaynska, kr. 500.000, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt IV. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 11. maí 2006 til greiðsludags, og stefnanda, Eiði Eiríki Baldvinssyni, kr. 300.000, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt IV. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 11. maí 2006 til greiðsludags.  Enn fremur greiði stefndi stefnendum in solidum kr. 200.000 til að standa straum af birtingu dómsins í fjölmiðlum.  Þá greiði stefndi stefnendum in solidum kr. 500.000 í málskostnað.