Hæstiréttur íslands
Mál nr. 529/2011
Lykilorð
- Líkamstjón
- Vátryggingarsamningur
- Slysatrygging
- Sératkvæði
B og A kröfðust skaðabóta úr hendi V hf. á grundvelli frítímaslysatryggingar vegna líkamstjóns sem þau urðu fyrir í átökum við C á heimili sínu. Deila aðila laut einkum að því hvort um væri að ræða slys í merkingu vátryggingarskilmála málsaðila og ef svo væri hvort V hf. væri undanþegið bótaskyldu á grundvelli skilmálanna þar sem slysið hefði orðið í handalögmálum. Talið var að áverkar B og A væru til komnir vegna slyss í merkingu skilmálanna, enda hefði háttsemi C umrætt sinn, sem olli meiðslunum, verið skyndilegur utanaðkomandi atburður. Með hliðsjón af atvikum málsins var A talin eiga rétt á bótum úr hendi V hf., en félagið var sýknað af bótakröfu B með vísan til þess að áverkar hans hefðu orðið í handalögmálum hans og C eftir að B ákvað að blanda sér í átökin.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 28. september 2011 að fengnu áfrýjunarleyfi. Þau krefjast þess að viðurkennt verði með dómi að stefnda beri að greiða hvoru um sig bætur úr frítímaslysatryggingu vegna líkamstjóns sem þau urðu fyrir 24. október 2007. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður verði felldur niður.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins rakið er í hinum áfrýjaða dómi kom 24. október 2007 til ágreinings milli dóttur áfrýjenda og C, barnsföður hennar, á heimili áfrýjenda. Fór svo, eftir orðahnippingar milli áfrýjandans A og C, að áfrýjandinn A vísaði C úr húsi og fylgdi því eftir með því að toga í hönd hans og ýta við honum. Við þessu brást C með því að kýla hana fyrirvaralaust í andlit og víðar á líkama hennar. Í eftirfarandi átökum milli þeirra skarst áfrýjandinn B í leikinn með þeim hætti sem nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi og kýldi þá C hann í andlit og sparkaði í kvið hans og höfuð.
Fallist er á með héraðsdómi að áverkar þeir, sem áfrýjendur urðu fyrir af hálfu C greint sinn, heyri undir þá skilgreiningu 3. gr. III. kafla frítímaslysatryggingar F+ fjölskyldutryggingar þeirrar, sem í gildi var milli aðila er umræddur atburður átti sér stað, að vera skyndilegur utanaðkomandi atburður sem olli meiðslum á líkama áfrýjenda án vilja þeirra. Var þannig um slys að ræða í skilningi skilmálanna.
Í fyrrgreindum kafla slysatryggingarinnar var að finna ýmis ákvæði í grein 4.7 þar sem stefndi undanþáði sig skyldu til greiðslu bóta. Meðal þeirra var skýrt ákvæði þess efnis að stefndi greiddi ekki bætur vegna slysa sem yrðu í handalögmálum eða við þátttöku í refsiverðum verknaði. Í málinu deila aðilar um hvort áfrýjendur hafi fyrirgert bótarétti sínum vegna þess að áverkarnir, sem þau urðu fyrir af hálfu C, hafi hlotist í handalögmálum.
Enda þótt komið hafi til orðahnippinga milli áfrýjandans A og C og áfrýjandinn hafi vísað honum á dyr með þeim hætti, sem að framan er lýst, hafði ekki komið til handalögmála milli þeirra í skilningi áðurnefndra vátryggingaskilmála er hún varð fyrir árásinni af hálfu hins síðarnefnda. Á hún því rétt á bótum úr hendi stefnda svo sem krafist er, en engin efni eru til að fallast á með stefnda að vátryggingaratburðurinn verði rakinn til stórkostlegs gáleysis áfrýjanda samkvæmt 13. gr. sameiginlegra skilmála vátryggingarinnar þannig að leiði til skerðingar bótaréttar eða brottfalls hans.
Áfrýjandinn B ákvað að blanda sér í átök þau sem urðu samkvæmt framansögðu milli áfrýjandans A og C. Var hann því ekki hlutlaus áhorfandi að þeim og verður að líta svo á að hann hafi með þeirri háttsemi sinni gerst þátttakandi í handalögmálum og við það hlotið meiðsl sín. Sem áður greinir undanþáði stefndi sig bótaábyrgð þegar tjón yrði í handalögmálum. Með því að ákvæði laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga setja því ekki skorður að um slíkar ábyrgðartakmarkanir sé samið og slysið verður rakið til þeirrar auknu áhættu, er handalögmálum fylgir, sbr. meðal annars dóms Hæstaréttar 20. mars 2003 í máli nr. 401/2002, verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest hvað þennan áfrýjanda varðar og stefndi sýknaður af kröfu hans um bætur úr umræddri vátryggingu.
Rétt er að málskostnaður milli áfrýjandans B og stefnda falli niður á báðum dómstigum, en dæma ber stefnda til að greiða áfrýjandanum A málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorðið greinir.
Dómsorð:
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýkn af kröfum áfrýjanda, B, í máli þessu.
Viðurkenndur er bótaréttur áfrýjanda, A, úr frítímaslysatryggingu F+ fjölskyldutryggingar hennar hjá stefnda vegna líkamstjóns er hún hlaut 24. október 2007.
Málskostnaður milli áfrýjanda, B, og stefnda fellur niður á báðum dómstigum.
Stefndi greiði áfrýjanda, A, samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Sératkvæði
Ólafs Barkar Þorvaldssonar
Óumdeilt er í málinu að C veitti áfrýjendum áverka á heimili þeirra 24. október 2007. Málsaðilar deila um hvort áfrýjendur eigi rétt til bóta úr hendi stefnda úr frítímaslysatryggingu sem þau voru með hjá stefnda og er hluti af svokallaðri F+ fjölskyldutryggingu. Ágreiningur aðilanna lýtur einkum að því hvort atvikið falli undir bótasvið skilmála er um vátrygginguna gilda, það er annars vegar hvort um hafi verið að ræða slys í skilningi 3. gr. skilmálanna og hins vegar hvort annað eða bæði áfrýjenda hafi fyrirgert bótarétti sínum með þátttöku í handalögmálum umrætt sinn, sbr. grein 4.7 skilmálanna. Til viðbótar þessu deila aðilarnir um hvort áfrýjendur hafi sýnt af sér slíka háttsemi að leiða eigi til brottfalls bótaréttar á grundvelli eigin sakar samkvæmt 13. gr. skilmálanna jafnvel þótt talið yrði að atvikið falli undir bótasvið skilmálanna.
Eins og rakið er í héraðsdómi er framburður þeirra sem komu að málum ekki að öllu leyti í samræmi. Einkum er framburður C misvísandi. Þó er fram komið að hann var gestkomandi á heimili áfrýjenda er atvik málsins áttu sér stað og lenti í þrætum við barnsmóður sína, dóttur áfrýjenda. Deildu þau ákaflega þannig að C reiddist mjög. Tók áfrýjandinn A til þess ráðs að vísa C út úr húsinu. Mun hún hafa tekið eða togað í hönd C, sem brást við með því að ráðast á A og kýla hana í andlit og líkama. Áfrýjandinn B, sem gekk við hækjur, mun hafa reynt að ganga á milli og að líkindum gripið með einhverjum hætti í C. Varð það til þess að C réðist á hann og kýldi þannig hann féll í gólfið, sló hann þá nokkur hnefahögg í andlitið og sparkaði í kvið hans og höfuð. Þá er fram komið að hvorugt áfrýjenda gat sér mikla björg veitt og er óljóst hvort annað þeirra eða jafnvel þau bæði hafi með einhverjum hætti reynt að hindra brottför C er ljóst var að lögreglu hafði verið tilkynnt um líkamsárásina. Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi var C í Héraðsdómi Reykjavíkur […] dæmdur til refsingar fyrir líkamsárás greint sinn á hendur áfrýjendum og dóttur þeirra E. Báðir áfrýjendur hlutu áverka greint sinn eins og nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi.
Í 3. gr. vátryggingarskilmála stefnda segir: „Með hugtakinu slys er átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama þess sem vátryggður er og gerist án vilja hans. ...“ Eins og að framan greinir urðu áfrýjendur fyrir meiðslum vegna óvæntrar og tilefnislausrar árásar af hálfu C og voru atvik því með þeim hætti að um var að ræða slys beggja áfrýjenda í skilningi 3. gr. vátryggingarskilmálanna.
Í grein 4.7 í skilmálunum segir að stefndi greiði ekki bætur vegna „slysa“ sem verða „í handalögmálum eða við þátttöku í refsiverðum verknaði.“ Háttsemi áfrýjenda verður ekki metin á þann veg að þau hafi tekið þátt í handalögmálum í skilningi þessa ákvæðis og enn síður sem þátttaka í refsiverðum verknaði. Fyrir liggur að viðbrögð C voru ofsafengin og í engu samræmi við hugsanlegt tilefni sem hann taldi sig hafa. Fólu þau í sér árás hans á áfrýjendur. Hér er um að ræða undanþáguákvæði sem skýra verður í því ljósi að tryggingarskilmálarnir eru einhliða samdir af stefnda sem var í lófa lagið að orða undanþágu með gleggri hætti. Fyrirliggjandi orðalag skilmálanna gerir það á hinn bóginn ekki. Verður stefndi því að bera hallann af skorti á skýrleika í þessum efnum.
Af atvikum málsins, eins og þeim er lýst hér að framan, verður ráðið að athafnir áfrýjenda voru ekki á þann veg að nokkur efni séu til að telja stefnda lausan undan ábyrgð í heild eða að hluta á grundvelli þess að vátryggingaratburður verði „rakinn til stórkostlegs gáleysis“ annars eða beggja áfrýjenda í skilningi vátryggingaréttar, sbr. 13. gr. vátryggingarskilmála hans.
Samkvæmt þessu tel ég að taka eigi kröfur áfrýjenda til greina og gera stefnda að greiða þeim málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. apríl 2011.
Mál þetta, sem dómtekið var 8. mars sl., var höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 31. ágúst 2010.
Stefnendur eru A og B, bæði til heimilis að […], en stefndi er Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.
Stefnandi, A, krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefnda beri að greiða henni bætur vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir við líkamsárás þann 24. október 2007, úr frítímaslysatryggingu sem í gildi var hjá stefnda á árásardegi. Auk þess krefst stefnandi A málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi. Þá er þess krafist að tekið verði tillit til skyldu stefnanda A til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun þar sem hún er ekki virðisaukaskattskyldur aðili.
Stefnandi, B, krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefnda beri að greiða honum bætur, vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir við líkamsárás þann 24. október 2007, úr frítímaslysatryggingu sem í gildi var hjá stefnda á árásardegi. Auk framangreinds krefst stefnandi B málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi. Þá er þess krafist að tekið verði tillit til skyldu stefnanda B til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun þar sem hann er ekki virðisaukaskattskyldur aðili.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnenda og að stefnendum verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins. Til vara er þess krafist að sök verði skipt í málinu, að skaðabótaskylda stefnda úr frítímaslysatryggingu verði aðeins viðurkennd að hluta, og að málskostnaður verði látinn falla niður.
I.
Helstu málavextir eru þeir að hinn 24. október 2007 var C staddur á heimili stefnenda þegar til illdeilna kom milli hans og stefnanda A í framhaldi af orðaskaki milli hans og D, barnsmóður hans og dóttur stefnenda. Kemur fram í frumskýrslu lögreglu að óskað hafi verið eftir aðstoð lögreglu á heimilið umræddan dag vegna þess að maður hefði þar gengið berserksgang. Þar er einnig rakin frásögn E, dóttur stefnenda, þar sem hún lýsir því að ágreiningur hafi komið upp milli stefnanda A og C um uppeldi sonar hans og D. Lýsti E samskiptum þeirra þannig, að skyndilega hefði C reiðst og ráðist á A og slegið hana ítrekað í andlitið. Þá hafi stefnandi B gengið á milli og C þá ráðist að honum og slegið hann ítrekað í andlitið auk þess sem C hafi sparkað í magann á B þar sem sá síðarnefndi lá í gólfinu. Við skýrslutöku hjá lögreglu daginn eftir kvað E þau C og A hafa farið að rífast og A sagt honum að koma sér út. Hann hefði gengið áleiðis út en A þá ýtt á bakið á honum. Þá hafi C snúið sér við og kýlt A nokkur högg í andlitið með krepptum hnefa og hent henni í sófann. Kvaðst E hafa reynt að ganga á milli en C hent henni frá sér. B hafi síðan reynt að slíta C af A en C þá ráðist á hann og kýlt og sparkað í andlit hans og líkama. Kvaðst E síðan hafa hringt á lögregluna. Sérstaklega aðspurð við aðalmeðferð málsins kannaðist hún hins vegar ekki við framangreindan framburð sinn um að A hefði ýtt á bakið á C umrætt sinn.
Í frumskýrslu lögreglu lýsti C á samskiptum sínum og stefnenda umrætt sinn á þá leið að ágreiningur hefði risið milli hans og stefnanda A vegna uppeldis sonar hans. A hefði rekið hann út og hefði hann ætlað að hlýða því en verið með fúkyrði og þá hefði A ráðist að honum. Kvaðst C þá hafa hrint henni frá sér og ætlað út en stefnandi B þá ráðist á hann. C kvaðst hafa hrint B frá sér og farið út en kannaðist ekki við að hafa slegið stefnendur. Við skýrslutöku hjá lögreglu 29. janúar 2008 lýsti C atvikum þannig, að til orðaskipta hefði komið milli þeirra A og hún ráðist að honum í kjölfarið og slegið hann í andlitið. Þegar hann hafi svo ætlað út, hafi A sagt að þau skyldu halda honum þangið til lögreglan kæmi. Hann hafi þá rifið sig lausan og ýtt frá fólkinu, sem ætlaði að halda honum, og farið í burtu. Við skýrslutöku við aðalmeðferð máls þessa kannaðist C við að hafa slegið A en það hefði hann gert í því augnamiði að losna í burtu þegar hún reyndi að stöðva þegar hann var á leiðinni út. Þá kannaðist hann við að hafa sparkað í B þegar sá síðarnefndi hélt honum föstum.
Í kæruskýrslu sinni, dagsettri 29. október 2007, lýsti stefnandi A atvikum þannig, að hún hefði heyrt þegar C var að skammast í dóttur hennar, D. Hefði hún „fengið nóg“ og farið inn í stofu til þeirra og sagt C að koma sér út en hann kallað hana ónöfnum. Hún hefði þá togað í hönd hans og ítrekað að hann skyldi koma sér út. C hefði brugðist við með því að kýla hana föstu höggi með krepptum hnefa í ennið og hún hefði vankast við það. C hefði síðan haldið áfram að berja hana en stefnandi B þá gengið á milli og hefðu hafist átök milli þeirra þegar C hóf að berja B. B, sem styddist við hækjur, hefði fallið í gólfið og hefði C þá bæði kýlt hann og sparkað í hann. Þær A og E, dóttir hennar, hefðu gengið á milli en C slegið þær báðar. Ekkert hefði gengið að hemja hann og hefði hann slitið sig frá þeim og farið út áður en lögregla kom á vettvang. Við aðalmeðferð málsins lýsti A atvikum á sama veg í aðalatriðum en kvaðst þó í upphafi skýrslutökunnar ekki hafa reynt að aftra C í að fara af vettvangi. Þá kvaðst hún ekki hafa slegið hann en kannaðist við að hafa í upphafi togað í hönd hans til að reka hann út. Gat hún ekki útilokað að hún hefði einnig tekið í C til að stöðva hann þegar hún vissi að búið var að hringja á lögreglu.
Stefnandi, B, lýsti atvikum þannig í kæruskýrslu, dagsettri 29. október 2007, að hann hefði heyrt mikinn hávaða og séð að C gekk í skrokk á stefnanda A. Hann kvaðst hafa reynt að ganga á milli og skakka leikinn en C þá ráðist á hann. C hefði lamið hann í gólfið en stefnandi þá náð að grípa í og halda um hálsmálið á peysu hans. C hefði látið hnefahöggin dynja á andliti stefnanda, auk þess að sparka í kvið hans og höfuð. A og E hefðu reynt að halda aftur af C en hann hefði lamið þær á milli þess sem hann lamdi stefnanda. C hefði síðan farið á brott þegar hann heyrði að von var á lögreglu. Við aðalmeðferð málsins lýsti B málsatvikum í meginatriðum á sama veg. Aðspurður taldi hann að verið gæti að hann hefði haldið í C í átökunum.
D gaf skýrslu hjá lögreglu 25. febrúar 2008. Hún kvað þeim C hafa orðið sundurorða og í kjölfarið hefði komið til orðahnippinga milli A og C. A hefði tekið í höndina á C og ætlað að vísa honum á dyr. Þá hefði hann „brjálast“ og ýtt A margoft með báðum höndum. A hefði reynt að draga hann út en hann þá byrjað að kýla hana með krepptum hnefa í höfuðið. Þætti B lýsir D þannig í lögregluskýrslunni, að hann hafi komið að þar sem C var að kýla A og reynt að rífa C af henni en við það dottið í gólfið. Síðan hefði C ráðist á B og kýlt og sparkað í höfuð hans og bak. A hefði þá hlaupið til og reynt að losa C af B en C þá sest á B og kýlt hann í höfuðið og ýtt A í burtu. Þegar C hefði ætlað að ganga út, hefði B reynt að halda honum föstum en C þá grýtt í hann fjarstýringu. Við aðalmeðferð málsins var lýsing D á sama veg í öllum aðalatriðum. Hún gerði þó þá athugasemd við lýsingu sýna á aðkomu B að átökunum, að hún sæi ekki fyrir sér að B hefði getað sleppt hækjunum sem hann studdist við umrætt sinn.
C var hinn […] 2008 sakfelldur fyrir að hafa umrætt sinn ráðist á stefnendur og m.a. kýlt þau í andlit. Var brot C gegn B heimfært til ákvæða 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en brot hans gegn A var talið varða við ákvæði 1. mgr. 217. gr. sömu laga. Um játningarmál var að ræða og fóru engar skýrslutökur fram fyrir dómi við meðferð þess. Var C dæmdur í tveggja mánaða fangelsi skilorðsbundið í tvö ár.
Óumdeilt er, að stefnendur voru með gilda F plús fjölskyldutryggingu hjá stefnda þegar árásin átti sér stað. Í október 2008 sendu stefnendur tilkynningu til stefnda um slysið og óskuðu eftir afstöðu hans til bótaskyldu úr tryggingunni. Með bréfi, dagsettu 2. desember 2008, hafnaði stefndi bótaskyldu úr frítímaslysatryggingu í fjölskyldutryggingu stefnenda með vísan til greinar 4.7. í vátryggingarskilmálunum.
Stefnandi, B, skaut máli sínu til úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum 22. janúar 2009. Með úrskurði, dagsettum 2. mars 2009, komst nefndin að því að þar sem hann hefði orðið fyrir slysi í handalögmálum ætti hann ekki rétt á bótum frá stefnanda með vísan til greinar 4.7. í vátryggingarskilmálunum.
Með matsbeiðnum, dagsettum 9. febrúar 2010, óskuðu aðilar málsins eftir því að F læknir legði mat á afleiðingar umræddrar líkamsárásar með tilliti til skaðabótalaga nr. 50/1993. Með matsgerð í máli B, dagsettri 15. mars 2010, komst matsmaður að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski teldist hæfilega metinn 20 stig. Varanleg örorka var metin engin en hefðbundin varanleg læknisfræðileg öroka taldist vera 20%. Með matsgerð í máli A, dagsettri 20. apríl 2010, komst matsmaður að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski teldist hæfilega metinn 10 stig, varanleg örorka 5% en hefðbundin varanleg læknisfræðileg öroka teldist vera 10%.
II.
Stefnendur byggja bótarétt sinn á að þau hafi verið tryggð með frítímaslysatryggingu í F plús fjölskyldutryggingu hjá stefnda. Samkvæmt 4. gr. III. kafla vátryggingarskilmálanna greiði félagið bætur vegna slysa sem vátryggingartaki og meðvátryggðir verða fyrir í frítíma sínum. Í 3. gr. sé hugtakið slys skýrt sem skyndilegur utanaðkomandi atburður sem valdi meiðslum á líkama þess sem vátryggður sé og gerist án vilja hans. Samkvæmt almennri málvenju merki orðið „slys“, óhapp, áfall eða atvik sem valdi meiðslum eða atvik sem valdi meiðslum eða dauða. Ljóst sé af niðurstöðu matsgerða að stefnendur slösuðust alvarlega í umrætt sinn. Þá liggi fyrir að orsök þess líkamstjóns hafi verið árás og barsmíðar árásarmanns sem síðar var dæmdur fyrir líkamsárás.
Stefnendur hafni því alfarið að þau hafi með nokkrum hætti tekið þátt í handalögmálum umrætt sinn. Þvert á móti hafi verið um árás að ræða sem teljist skyndilegur utanaðkomandi atburður og án nokkurs vafa gerðist án vilja þeirra.
Stefnendur telji að grein 4.7 í skilmálunum verði vart skilin öðruvísi en svo að með því sé átt við að vátryggingartaki afsali sér bótarétti með því að taka virkan þátt í áflogum og það eigi aðeins við um atvik þegar slys verði rakið til þeirrar auknu áhættu sem þátttaka í handalögmálum fylgi. Slík þátttaka telji stefnendur að verði, eðli málsins samkvæmt, að fela meira í sér en tilraunir til að vísa aðila réttilega út af heimilinu eða stöðva árás sem þegar er hafin. Eðlilegt sé að tryggingafélög undanskilji sig ábyrgð ef vátryggingartakar stofna til illinda og taki af fúsum og frjálsum vilja þátt í þeirri áhættusæknu hegðun sem slagsmál og handalögmál séu. Um slíkt hafi hins vegar ekki verið að ræða umrætt sinn. Með þeirri túlkun sem stefndi beiti, sé í raun verið að undanskilja allar líkamsárásir, enda ljóst af öllum gögnum málsins að stefnendur réðu litlu um atburðarrásina og voru fórnarlömb líkamsárásar. Þær litlu bjargir, sem stefnendur hafi getað veitt við árás C, verði að teljast eðlileg viðbrögð við óvæntri og harkalegri utanaðkomandi árás en ekki meðvituð þátttaka í handalögmálum eins og stefndi haldi fram.
Til stuðnings höfnun sinni byggi stefndi í tilfelli A á framburði C í frumskýrslu lögreglu, dagsettri 24. október 2007, en þar hafi hann borið með eftirfarandi hætti: „[C] sagði [A] hafa rekið sig út og hafi hann ætlað að hlíta því. [C] sagðist hafa kvatt [A] með einhverju fúkyrði og mun hún þá hafa ráðist að honum. [C]sagðist hafa hrint [A] frá sér og ætlað út“.
Til stuðnings höfnun í tilfelli Arnars byggi stefndi í ákvörðun sinni á framburði í sömu frumskýrslu lögreglunnar en þar segi orðrétt: „Skyndilega reiddist C og réðst þá á A og sló hana ítrekað í andlitið. Þá mun B hafa gengið á milli þeirra“.
Að mati stefnenda sé ekki unnt að byggja á framburði árásarmanns um atburði umræddan dag hvað þátt A varðar. Því til stuðnings megi benda á að mikið misræmi sé milli frásagnar hans við fyrstu yfirheyrslur lögreglu, þeirrar skýrslutöku er hann var boðaður til 29. janúar 2008 og loks lýsingar þeirrar árásar sem hann síðar játaði fyrir dómi. Líta verði til þess að sama dag og árásin átti sér stað hafi hann borið á þann veg, að A hafi, ásamt B, ráðist að honum og hann hefði hrint þeim er hann yfirgaf íbúðina. Í síðari skýrslutöku hafi hann svo bætt við frásögn sína, að A hafi gert tilraun til að halda honum inni í íbúðinni, að hans sögn með það að markmiði að hringja á lögregluna og segja að hann væri „geðveikur“ og að hann hefði ætlað að ráðast á þau. Hafi hann því ýtt heimilisfólkinu frá á leið sinni út. Þá hafi hann neitað að hafa hrint E, dóttur stefnenda, niður stiga og telji að áverkar á B séu af völdum stefnanda A. Fyrir dómi hafi hann hins vegar játað þær sakir, sem á hann voru bornar og raktar séu hér að framan, og hafi játning hans verið talin í samræmi við önnur gögn málsins og ekki hafi verið litið sérstaklega til 3. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eða annarra ákvæða til refsilækkunar. Hljóti játningin að draga mjög úr trúverðugleika árásarmanns og sönnunargildi framburðar hans í lögregluskýrslum. Samræmi sé hins vegar í framburði stefnenda við skýrslutöku hjá lögreglu og fái frásögn þeirra um árás stoð í framburði dætra þeirra, E og D, en sú síðarnefnda hafi verið unnusta árásarmannsins á þessum tíma. Það sé því alls ósannað að stefnandi A hafi „ráðist á“ árásarmanninn.
Við mat á því hvort stefnendur hafi í raun tekið þátt í handalögmálum skipti máli hvort þau hafi að fyrra bragði gripið til aðgerða gegn árásarmanni en ekki orðið fyrir árás og reynt eftir veikum mætti að bjarga sér undan henni. Ekki stoði að byggja á því, líkt og stefndi geri, að B hafi „gengið á milli“ þegar 23 ára karlmaður lét hnefahögg dynja á 49 ára gamalli eiginkonu hans sem hafi lengi átt við veikindi að stríða og hefði nýlega gengist undir aðgerð á öxl. Að ganga á milli og reyna ef til vil að halda aftur af árásarmanni við þessar aðstæður, án þess að láta eitt einasta högg lenda á árásarmanni, geti ekki talist þátttaka í handalögmálum. Sé sérstaklega bent á að stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir því að til staðar hafi verið atvik er leysi hann undan ábyrgð.
Fullyrða megi að töluverður aflsmunur sé á árásarmanni og stefnendum. Árásarmaður hafi verið 23 ára á degi árásarinnar en stefnendur 49 ára og 54 ára. Eigi þetta ekki síst við um B en samkvæmt gögnum málsins hafi hann stuðst við tvær hækjur er árásin átti sér stað. Hefði hann því líkamlega ekki getað, þótt vilji hans hefði staðið til þess, tekið þátt í handalögmálum, enda hafi hann fljótlega lent í jörðinni. Hafi stefnendur mátt sín lítils er þau sinntu skyldu sinni sem vátryggingatakar með því að verjast árásinni og reynt með því eins og þau gátu að hindra og takmarka það tjón sem ljóst var orðið að yrði af þessum atburði.
Sé því ljóst að stefnda beri skylda til að greiða stefnendum bætur úr frítímaslystryggingu þeirra.
Um lagarök vísi stefnendur til meginreglunnar um skuldbindingargildi samninga og til meginreglna íslensks skaðabótaréttar. Einnig sé vísað til laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga. Þá vísi stefnendur til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993. Varðandi aðild stefnda sé vísað til 3. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004. Varðandi málskostnað sé vísað til ákvæða 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt byggist á ákvæðum laga nr. 50/1988. Um varnarþing vísist til 41. gr. laga um meðferð einkamála. Um dráttarvexti vísi stefnendur til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Um aðild stefnenda sé einnig vísað til 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, enda eigi kröfur þeirra rætur að rekja til sama atviks.
III.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því í fyrsta lagi að atvik það, sem stefnendur byggja kröfur sína á, falli utan skilmála þeirrar tryggingar sem stefnendur voru með hjá félaginu og viðurkenningarkrafa þeirra snýr að. Þegar atburðurinn átti sér stað hafi stefnendur verið með svokallaða F plús fjölskyldutryggingu hjá VÍS, þar á meðal frítímaslysatryggingu en viðurkenningarkrafan sé byggð á þeirri tryggingu. Þá telji stefndi að umrætt atvik falli ekki undir skilgreininguna „slys“ í skilmálunum og sé þar með ekki bótaskylt úr tryggingunni. Um trygginguna hafi á þeim tíma gilt vátryggingarskilmálar VÍS nr. GH20, en þeir giltu frá 1. mars 2007 til 26. október 2007. Þeir skilmálar, sem lagðir hefðu verið fram ásamt gögnum málsins, séu hins vegar skilmálar sem tekið hafi gildi þar á eftir og telji stefndi að ábyrgð stefnda fari eingöngu eftir þeim skilmálaum og verði aldrei víðtækari en þar sé kveðið á um.
Þá bendi stefndi á að um frítímaslysatrygginguna sé fjallað sérstaklega í skilmálunum og þar sé í 4. gr. tilgreint bótasvið tryggingarinnar. Í ákvæðinu segi að þegar bætur greiðist vegna slyss sem vátryggður verði fyrir í frístundum hafi það í för með sér nánar tilgreindar afleiðingar. Þá sé hugtakið slys skilgreint í 3. gr. sömu skilmála þannig: „skyndilegur utanaðkomandi atburður sem veldur meiðslum á líkama þess sem er vátryggður og gerist án vilja hans.“
Stefndi telji ljóst að af þessari skilgreiningu megi ráða, að það atvik sem leiðir til meiðsla verði að hafa gerst án þess að tjónþoli hafi haft nokkuð um það að segja. Að öðrum kosti sé ekki um slys að ræða sem leiði til bótaábyrgðar. Af hálfu stefnda sé því haldið fram að umrætt atvik falli ekki undir hugtakið slys í þessum skilningi og stefnendur hafi því ekki orðið fyrir slysi sem stefnda kunni að vera skylt að bæta. Þetta styðji stefndi við fyrirliggjandi lögregluskýrslur en þar komi fram að stefnendur hafi tekið fullan þátt í þeim handalögmálum sem leiddu til meiðsla þeirra. Skilyrði um „skyndilegan utanaðkomandi atburð“ sé því augljóslega ekki uppfyllt né það að atvik hafi gerst án vilja þeirra. Telji stefndi að af þeirri ástæðu beri að sýkna stefnda af kröfum stefnenda.
Verði hins vegar litið sé svo á að um slys í skilningi skilmálanna að ræða, haldi stefndi því fram að umrætt atvik falli utan bótasviðs tryggingarinnar og bætist því ekki úr henni.
Fjölskyldutrygging sú, sem mál þetta snúist um, bæti vátryggingartaka það tjón sem hann verður fyrir í frítíma sínum, án þess að hafa valdið því tjóni sjálfur. Eðli málsins samkvæmt bæti tryggingin þó ekki tjón sem hlýst af áhættusamri hegðun vátryggingartaka, sbr. þær takmarkanir á því til hvaða tjóns tryggingin tekur sem getið er um í 4. gr. skilmálanna. Í því samhengi bendi svo stefndi á að í grein 4.7 í skilmálunum segi ennfremur að bætur séu ekki greiddar vegna slysa sem verða „í handalögmálum eða við þátttöku í refsiverðum verknaði.“
Augljóst sé að þau meiðsl, sem stefnendur telji sig hafa orðið fyrir vegna umrædds atviks, hafi orðið í handalögmálum þeirra og C og því bætist hugsanlegt tjón þeirra ekki úr frítímaslysatryggingunni. Þessu til stuðning vísi stefndi í fyrirliggjandi lögregluskýrslur en þær beri klárlega með sér að til handalögmála hafi komið, í upphafi á milli A og C en B hafi síðan tekið þátt í þeim.
Stefndi bendi einnig á að ljóst sé að A hafi blandað sér í ágreining milli C og dóttur sinnar sem síðan hafi leitt til átaka þeirra á milli og hefði A þannig verið þátttakandi í handalögmálum, jafnvel beinlínis átt að þeim upptökin og það tjón hennar sem afleiðing þeirra handalögmála bætist því ekki úr frítímaslysatryggingunni.
Á sama hátt telji stefndi að B hafi tekið þátt í handalögmálum við C. Hann hafi á engan hátt verið hlutlaus áhorfandi að átökunum þeirra á milli. Komi skýrt fram í lögregluskýrslum að B hafi blandað sér í átökin í því skyni að veita A lið í átökum hennar við C. Með þeirri gjörð teljist hann því hafa tekið þátt í handalögmálum í skilningi skilmálanna og falli hugsanlegt tjón hans því einnig utan bótasviðs tryggingarinnar og byggi stefndi það á dómvenju.
Hér hafi því ekki verið um að ræða líkamsárás eins og haldið sé fram af stefnendum í stefnu heldur átök milli C annars vegar og stefnenda hins vegar, sem falli klárlega undir handalögmál í skilningi greinar 4.7. í skilmálunum. Þá bendi stefndi á í þessu sambandi, að játning C fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur skipti engu máli. Sá dómur hnekki á engan hátt þeirri staðreynd að stefnendur hafi tekið þátt í handalögmálum við C sem leiði til brottfalls bótaréttar. Þótt C hafi játað að hafa lagt hendur á stefnendur, leiði það ekki til þess að stefnendur teljist ekki hafa tekið þátt í átökunum. Niðurstaða í opinberu máli sem þessu hafi enda engin áhrif á túlkun vátryggingaskilmála eða niðurstöðu um viðurkenningu bótaréttar í einkamáli.
Þá hafni stefndi því alfarið sem haldið sé fram í stefnu að ekki sé unnt að byggja á framburði C um atburði þann dag sem tjónið varð. Stefndi telji framburð C hafa jafnmikið sönnunargildi og framburð stefnenda og aðila sem séu þeim nákomnir. Bendi stefndi á í þessu sambandi að misræmi sé í framburði stefnanda og dætra þeirra um ýmis atvik málsins og augljóst að í einhverjum tilvikum virðist sem borið sé um atvik sem viðkomandi hafi tæplega upplifað sjálfur heldur heyrt frá þriðja aðila og hafi slíkt augljóslega áhrif á sönnunargildi framburðar þeirra. Þá bendi stefndi á að skýrslur D og E voru gefnar um fjórum mánuðum eftir að hinir umdeildu atburðir áttu sér stað. Verði að telja að stefnendur, ásamt þeim D og E, hafi rætt atburðina sín á milli eftir að þeir urðu en áður en nefndir aðilar gáfu skýrslu um þá hjá lögreglu. Að mati stefnda sé slíkt til þess fallið að hafa áhrif á það hvernig fólk muni atburðarrás og beri að taka tillit til þess við mat á sönnunargildi vitnisburðanna.
Stefndi telji að framansögðu virtu, að um handalögmál í skilningi greinar 4.7. í skilmálunum hafi verið að ræða og falli atvikið því utan bótasviðs frítímaslysatryggingarinnar sem krafa stefnenda grundvallist á. Beri af þeim sökum að sýkna stefnda af kröfum stefnenda.
Í öðru lagi byggi stefndi sýknukröfu sína á því, að þótt atvikið falli undir bótasvið frítímaslysatryggingarinnar, þannig að bótaréttur úr tryggingunni verði viðurkenndur, þá verði stefnendur að bera allt tjón sitt sjálf vegna eigin sakar. Byggi það á áralangri dómvenju um brottfall bótaréttar vegna eigin sakar auk þess sem í sameiginlegum skilmálum tryggingarinnar segi í 13. gr. að ef vátryggingaratburður verði rakinn til stórkostlegs gáleysis vátryggðs, losni félagið úr ábyrgð sinni í heild eða að hluta. Telji stefndi að stefnendur hafi sýnt af sér slíka hegðun að eðlilegt sé, og í samræmi við skilmálanna sem og áralanga dómvenju, að þau beri að öllu leyti ábyrgð á tjóni sínu sjálf með því að kynda undir þeim handalögmálum sem áttu sér stað. Til stuðnings þessu vísi stefndi til framlagðra lögregluskýrslna, sem teknar voru af aðilum málsins og liggi fyrir í málinu, og af þeim sé ljóst að hegðun stefnenda í umrætt sinn hafi verið stórkostlega gálaus og að þau hafi sjálfviljug tekið þátt í handalögmálum við C umrætt sinn með því að viðhalda þeim og varna því að C yfirgæfi heimili þeirra. Stefndi vísi einnig til gáleysissjónarmiða þar sem að stefnendur hefðu mátt gera sér grein fyrir því, að með þeirri hegðun sinni að blanda sér í átökin hafi falist verulegt gáleysi sem gæti haft tjón í för með sér að teknu tilliti til aldurs þeirra og heilsufarslegs ástands. Því til stuðnings vísi stefndi til þeirrar almennu reglu að fólk verði að gæta að sér í athöfnum sínum eins og eðlilegt og sanngjarnt þyki hverju sinni. Þá gildi einnig sú meginregla í skaðabótarétti að menn geti ekki lagt eigin ábyrgð á aðra. Hafi stefnendum mátt vera ljós hættan af hegðun sinni umrætt sinn og því beri þau ein ábyrgð.
Stefndi telur að af framangreindu megi ráða að þótt umrætt atvik teljist falla undir frítímaslysatrygginguna þá hafi stefnendur fyrirgert bótarétti sínum með stórfelldu gáleysi og beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum þeirra.
Varakrafa stefnda um sakarskiptingu sé á þann veg að verði atvikið talið eiga undir vátryggingarskilmala tryggingarinnar og að umræddur atburður sé bótaskyldur úr tryggingunni, þá beri að skipta sök og leggja stærstan hluta ábyrgðar á slysinu á stefnendur sjálf vegna eigin sakar þeirra. Verði því bótaskylda aðeins viðurkennd að hluta úr tryggingunni og vísi stefndi til rökstuðnings síns sem fram sé kominn, 13. gr. skilmála tryggingarinnar og dómvenju.
Um lagarök kveðst stefndi einkum vísa til almennra reglna skaðabóta- og vátryggingaréttar, laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, og vátryggingar-skilmála VÍS nr. GH20. Kröfu um málskostnað byggi hann á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV.
Niðurstaða.
Óumdeilt er að milli málsaðila var í gildi svonefnd frítímaslysatrygging í F+ fjölskyldutryggingu samkvæmt framlögðum tryggingarskilmálum. Byggja stefnendur á því að vegna tryggingarinnar beri stefnda að greiða þeim bætur vegna tjóns sem þau urðu fyrir vegna líkamsárásar C á heimili stefnenda 24. október 2007. Stefndi hefur hafnað bótaskyldu og krafist sýknu með vísan til þess í fyrsta lagi að umrædd atvik falli utan skilmála framangreindrar tryggingar og í öðru lagi að fella beri bætur niður að fullu vegna eigin sakar stefndu sjálfra. Ef fallist yrði á bótarétt stefnenda, byggir stefndi varakröfu sína á því að skipta beri sök vegna eigin sakar stefnenda og viðurkenna einungis bótarétt að hluta. Ekki er ágreiningur um að stefnendur urðu fyrir meiðslum í átökunum umrætt sinn.
Í málinu liggur fyrir að C var hinn […] 2008 sakfelldur fyrir að hafa umrætt sinn ráðist á stefnendur og m.a. kýlt þau í andlit. Var brot C gegn stefnanda B heimfært til ákvæða 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en brot hans gegn stefnanda A var talið varða við ákvæði 1. mgr. 217. gr. sömu laga. Um játningarmál var að ræða og fóru engar skýrslutökur fram fyrir dómi við meðferð þess. Hins vegar liggja fyrir í þessu máli lögregluskýrslur og önnur rannsóknargögn sakamálsins og þá gáfu stefnendur, tvær dætur þeirra, E og D, og framangreindur C skýrslur fyrir dóminum við aðalmeðferð máls þessa. Fram er komið að D er barnsmóðir C. Hafa helstu atriði í framburði aðila og vitna verið rakin hér að framan.
Af lýsingum stefnanda A og vitnanna C, E og D á samskiptum þeirra A og C umrætt sinn, verður ráðið að til orðahnippinga hafi komið milli A og C í kjölfar ósættis milli þess síðarnefnda og D. Þá ber þeim jafnframt saman um að C hafi slegið A umrætt sinn þótt lýsingar þeirra á átökunum séu ekki að öllu leyti á sama veg. Um þátt A sagði C að hún hefði ráðist að honum og slegið hann í andlitið og jafnframt að hún hefði reynt að stöðva brottför hans af heimili stefnenda. Dætur stefnenda báru báðar um að A hefði tekið eða togað í hönd C þegar hún vísaði honum út af heimilinu. E lýsti því við skýrslutöku hjá lögreglu að A hefði ýtt á bakið á C en við aðalmeðferð mundi hún ekki eftir því. Lýsing A var á sama veg um að hún hefði togað í höndina á C til að koma honum út og útilokaði ekki að hún hefði einnig tekið í hann til að stöðva hann þegar hún vissi að lögreglan var á leiðinni. Að þessu virtu verður að telja leitt í ljós að A hafi togað í C eftir að til orðahnippinga milli þeirra kom umrætt sinn og að hún hafi jafnframt reynt að hindra hann í að fara af vettvangi.
Samkvæmt framlögðu læknisvottorði leitaði A á slysadeild sama dag og umrædd atvik urðu og kemur þar fram að hún hafi verið marin á enni, höndum og kinnbeinum báðum megin og hrufluð á höndum. Þá hafi hún verið með hálstognun og verk í öxlum og báðum úlnliðum. Að þessu virtu og með hliðsjón af framlögðum gögnum verður gengið út frá því að um afleiðingar framangreindra átaka sé að ræða.
Ljóst virðist af lýsingum allra þeirra, sem gáfu skýrslur um málið, að C hafi bæði lamið B og sparkað í hann eftir að sá síðarnefndi reyndi að ganga á milli þeirra C og A þegar til átaka hafði komið milli þeirra umrætt sinn. Þá bar E jafnframt á þann veg að B hefði reynt að slíta C af A en bæði B og D lýstu því hvernig B hefði haldið í C í átökunum. Verður því að miða við að B hafi í átökunum gripið með einhverjum hætti í C.
Í málinu liggur frammi læknisvottorð sem ber með sér að B hafi leitað til slysadeildar sama dag og átökin urðu. Þar kemur fram að hann hafi við komu átt erfitt með að ganga við hækjur vegna verkja í brjóstkassa. Hann sé með tvö stór „haematoma“ á höfði, hruflaður á kinnbeini, og marinn og bólginn í andliti og á hægri hendi. Þá sé hann rifbrotinn á minnst tveimur stöðum. Að öllu framangreindu virtu verður að ganga út frá því að um afleiðingar framangreindra átaka sé að ræða.
Þegar litið er til þess sem að framan er rakið um umrædd átök og aðdraganda þeirra verður að fallast á það með stefnendum að það tjón sem stefnendur urðu fyrir umrætt sinn falli undir skilgreiningu 3. gr. í vátryggingaskilmálum stefnda, þ.e. að um hafi verið að ræða skyndilegan utanaðkomandi atburð sem olli meiðslum á líkama hinna vátryggðu og að þetta hafi gerst án vilja þeirra.
Eins og áður er rakið, blandaði A sér í ósætti þeirra C og D þegar hún hafði fengið nóg af framkomu C, með því að vísa honum út af heimilinu og toga í hönd hans. Þá er einnig leitt í ljós að hún reyndi jafnframt að hindra hann í að fara af vettvangi. Að þessu virtu má ljóst vera, að A var ekki hlutlaus áhorfandi að samskiptum þeirra C og D, heldur blandaði hún sér í þau með framangreindum hætti. Verður að telja, að með þessari aðkomu sinni hafi hún gerst þátttakandi í handalögmálum í skilningi greinar 4.7 í vátryggingarskilmálum gildandi fjölskyldutryggingar stefnda.
Aðkoma B var samkvæmt framangreindu með þeim hætti að eftir að til átaka kom milli C og A reyndi hann að ganga í milli og þá hefur B kannast við að hafa, í þeim átökum, gripið með einhverjum hætti í C. Með þessari aðkomu sinni að átökunum telst B hafa gerst þátttakandi í handalögmálum í skilningi greinar 4.7 í vátryggingarskilmálum gildandi fjölskyldutryggingar stefnda.
Samkvæmt ákvæðum greinar 4.7 í gildandi vátryggingarskilmálum umræddrar fjölskyldutryggingar greiðir vátryggingafélagið ekki bætur vegna slysa sem verða í handalögmálum. Að þessu virtu og jafnframt öllu framangreindu þykir, þegar af þeirri ástæðu, verða að sýkna stefnda af kröfum beggja stefnenda um viðurkenningu á bótarétti þeirra úr hendi stefnda.
Rétt þykir eftir atvikum að málskostnaður milli aðila falli niður.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýkn af kröfum stefnenda, A og B.
Málskostnaður fellur niður.