Hæstiréttur íslands

Mál nr. 280/2012


Lykilorð

  • Líftrygging
  • Lagaskil


Fimmtudaginn 24. janúar 2013.

Nr. 280/2012.

Okkar líftryggingar hf.

(Óðinn Elísson hrl.)

gegn

Önnu Heiði Oddsdóttur

(Sigmundur Hannesson hrl.)

og gagnsök

Líftrygging. Lagaskil.

A krafðist greiðslu bóta úr líftryggingu maka síns, M, sem lést í maí 2010. Í málinu var m.a. deilt um rétt O hf. til að skerða tryggingabætur til A vegna meintra rangra eða ófullnægjandi upplýsinga M um reykingavenjur og heilsufar við gerð líftryggingarsamnings. Staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu héraðsdóms að með vísan til orðalags 146. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga og lögskýringargagna bæri að leysa úr ágreiningi málsaðila á grundvelli þeirra laga en ekki laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga. Með vísan til þess að spurning sú er varðaði reykingar M var efnislega takmörkuð og ekki að öllu leyti í samræmi við upplýsingar aðaláfrýjanda í líftryggingarskilmálum þeim er hann taldi vera hluta samnings þess sem á komst, var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að ósannað væri að M hafi gefið rangar upplýsingar þegar hann svaraði því til að hann reykti ekki. Þá var og staðfest niðurstaða héraðsdóms um að þótt M hafi ekki að öllu leyti fullnægt upplýsingaskyldu sinni þegar hann svaraði öðrum spurningum um heilsufar sitt hafi verið um óverulega vanrækslu af hans hálfu að ræða í merkingu 2. mgr. 83. gr. laga nr. 30/2004 og að O hf. hafi því verið óheimilt að fella ábyrgð félagsins niður eða skerða bætur til A.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. apríl 2012. Hann krefst aðallega sýknu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Verði krafa gagnáfrýjanda tekin til greina krefst aðaláfrýjandi þess að upphafstími dráttarvaxta miðist við uppsögu dóms Hæstaréttar og að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti verði felldur niður.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 4. júlí 2012. Hann krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms að öðru leyti en því að aðaláfrýjanda verði gert að greiða honum málskostnað í héraði. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Líftryggingarsamningur sá sem mál þetta fjallar um var gerður í júní 1993, en þá voru í gildi lög nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga. Ný lög um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004, tóku gildi 1. janúar 2006 og leystu eldri lögin af hólmi. Eiginmaður gagnáfrýjanda sem var vátryggingartaki samkvæmt líftryggingarsamningnum lést 25. maí 2010, en þá voru liðin fjögur og hálft ár frá gildistöku nýju laganna. Atvik máls þessa eru því ekki sambærileg atvikum máls í dómi Hæstaréttar 10. janúar 2007 í máli nr. 651/2006. Ágreiningslaust er að umræddur líftryggingarsamningur var í gildi á þeim degi er lög nr. 30/2004 öðluðust gildi. Samkvæmt þessu verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að með vísan til orðalags 146. gr. laga nr. 30/2004 og lögskýringargagna beri að leysa úr ágreiningi málsaðila á grundvelli þeirra laga en ekki laga nr. 20/1954.

Í hinum áfrýjaða dómi eru raktar spurningar þær sem vátryggingartaki svaraði í umsókn um líftryggingu. Þær voru á stöðluðu eyðublaði sem aðaláfrýjandi samdi einhliða og lagði fyrir vátryggingartakann. Spurning sú sem varðaði reykingar hans var efnislega takmörkuð og ekki að öllu leyti í samræmi við upplýsingar aðaláfrýjanda í líftryggingarskilmálum þeim sem hann telur vera hluta samnings þess sem á komst. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða að ósannað sé að vátryggingartaki hafi gefið rangar upplýsingar þegar hann svaraði því til að hann reykti ekki. Þá er og með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms staðfest sú niðurstaða, að þótt vátryggingartaki hafi ekki að öllu leyti fullnægt upplýsingaskyldu sinni þegar hann svaraði öðrum spurningum um heilsufar sitt, hafi þar verið um óverulega vanrækslu af hans hálfu að ræða í merkingu 2. mgr. 83. gr. laga nr. 30/2004 og að aðaláfrýjanda hafi verið óheimilt að fella ábyrgð félagsins niður eða skerða bætur til gagnáfrýjanda. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.

Eftir framangreindum málsúrslitum ber að dæma aðaláfrýjanda til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn er í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal óraskaður um annað en málskostnað.

Aðaláfrýjandi, Okkar líftryggingar hf., greiði gagnáfrýjanda, Önnu Heiði Oddsdóttur, 750.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2012.

Mál þetta sem dómtekið var 17. janúar 2012 var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 19. maí 2011 af Önnu Heiði Oddsdóttur, Laugavegi 58, Reykjavík, á hendur OKKAR líftryggingum hf., Sóltúni 26, Reykjavík.

Kröfur aðila

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda 12.167.305 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 3. júní 2010 til greiðsludags, að frádreginni innborgun að fjárhæð 4.978.000 krónur, þann 19. ágúst 2010. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu skv. framlögðum málskostnaðarreikningi eða eftir mati dómsins verði reikningur ekki lagður fram. Auk þess er krafist virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda. Þá er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað auk virðisaukaskatts, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati dómsins. Til vara krefst stefndi þess, ef fallist er á kröfur stefnanda, að upphafstími dráttarvaxta verði frá dómsuppkvaðningu og að málskostnaður falli niður.

Málatvik og ágreiningsefni

Þann 4. júní 1993 sótti eiginmaður stefnanda, Michael Dean Ford, um líftryggingu hjá Alþjóða líftryggingarfélaginu hf., sem nú ber nafnið OKKAR líftryggingar hf. Stefnandi var, sem maki umsækjanda, rétthafi samkvæmt umsókninni. Á umsókninni voru staðlaðar spurningar m.a. um reykingar og heilsufar umsækjanda. Umsækjandi svaraði eftirfarandi spurningum neitandi:

Reykir þú?

Hefur þú sl. 10 ár, legið á sjúkrastofnunum vegna sjúkdóms, slyss eða rannsóknar? Ef já, hvers vegna og hvar?

Hefur þú nú eða hefur þú haft aðra sjúkdóma, líkamlega eða andlega?

Ert þú fullkomlega heilsuhraustur og vinnufær? (skýrðu ef svo er ekki)

Stefndi samþykkti líftryggingarumsóknina og var því til staðfestingar gefið út tryggingarskírteini nr. 32048. Tryggingartaki lést þann 25. maí 2010. Þann 3. júní 2010 gerði stefnandi kröfu um greiðslu bóta úr líftryggingunni. Samkvæmt vinnureglum stefnda óskaði hann i framhaldi kröfunnar eftir afriti af sjúkraskrá tryggingartaka, frá heimilislækni tryggingartaka, fyrir tímabilið 1. mars 1988 til 30. júní 1993. Þær upplýsingar bárust stefnda með bréfi dags. 10. júní 2010, mótteknu 15. júní 2010. Þann 19. ágúst 2010 tilkynnti stefndi stefnanda að ekki væri hægt að fallast á fullar bætur samkvæmt tryggingunni þar sem tryggingartaki hefði ekki við umsókn um trygginguna gefið réttar upplýsingar um reykingavenjur og heilsufar. Var sérstaklega tilgreint að samkvæmt upplýsingum úr sjúkraskrá tryggingartaka hefði hann reykt í um það bil 20 „pakkaár“. Þá hefði hann greinst með hjartalokugalla 7-8 árum áður en tryggingin var tekin og farið í ítarlegar rannsóknir vegna þess. Ef þessar upplýsingar hefðu legið fyrir við töku tryggingarinnar hefði iðgjald vátryggingarinnar tekið mið af gjaldskrá fyrir einstaklinga sem reyktu og ekki hefði verið unnt að samþykkja líftrygginguna nema með aukaiðgjaldi vegna hjartalokugalla. Lýsti félagið sig reiðubúið að greiða stefnanda, sem réttahafa úr tryggingunni, skertar bætur sem námu 41% af þeim bótum sem ella hefðu komið til greiðslu, án viðurkenningar á bótaskyldu. Þann 6. september 2010 greiddi stefndi lögmanni stefnanda skertar bætur til stefnanda að fjárhæð 4.978.000 krónur. Fullar bætur samkvæmt tryggingunni hefðu verið 12.167.305 krónur. Stefnandi vildi ekki una framangreindri niðurstöðu stefnda og lagði ágreining sinni við stefnda þann 11. október 2010 fyrir Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum. Nefndin gaf álit 23. nóvember og var niðurstaða hennar að fallist var á greiðsluskyldu stefnda að fullu úr líftryggingu maka stefnanda. Með bréfi 7. desember 2010 tilkynnti stefndi stefnanda að félagið myndi ekki hlíta úrskurði nefndarinnar.

Í máli þessu er deilt um hvort stefnda hafi verið heimilt að skerða bætur til stefnanda samkvæmt framangreindu. Þá er deilt um lagaskil þ.e. hvort um líftryggingarsamning tryggingartaka og stefnda fari samkvæmt lögum nr. 20/1054 um vátryggingarsamninga, sem í gildi voru þegar samningurinn varð gerður, eða lögum nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, sem tóku gildi 1. janúar 2006, sbr. ákvæði 146. gr. þeirra laga um lagaskil.

Málsástæður stefnanda og tilvísun til réttarheimilda

Stefnandi telur að framangreind hlutfallsskerðing líftryggingarbóta hafi ekki verið lögmæt og gerir kröfu um greiðslu óskertra bóta til stefnanda. Stefnandi byggir á því að tryggingartaki hafi gefið réttar upplýsingar við töku líftryggingarinnar en hann hafi ekki reykt þegar tryggingin hafi verið tekin. Hann hafi svarað öllum spurningum sem fram hafi komið á beiðni um trygginguna. Spurningunum hafi hann svarað samviskusamlega og eftir bestu vitund þótt þær væru fáar og ónákvæmar. Tryggingartaki verði ekki látinn bera ábyrgð á ónákvæmum spurningum um heilsufar sem fram hafi komið á beiðninni. Ekkert hafi komið fram sem hnekki þeirri staðreynd að heilsufar tryggingartaka og dánarorsök föður hans hafi verið í fullu samræmi við þær upplýsingar sem hann hafi gefið upp á beiðninni. Þannig fáist varla séð að greining á vægum mitral leka, geti talist til sjúkdóms og tryggingartaki hafi aldrei lagst inn á sjúkrastofnun vegna hans eða nokkurs annars. Vægur mitral leki sé ekki alvarlegt ástand og hafi óveruleg áhrif á starfsemi hjarta og blóðrásar. Jafnframt geti einstaklingur með slíkan leka lifað góðu lífi og einkenni lekans séu óveruleg ef nokkur. Að sama skapi hafi margir verið greindir með slíkan leka sem ekki hafi haft hann í raun, á þeim tíma sem tryggingartaki hafi verið greindur. Vísist til vottorðs frá Gesti Þorgeirssyni yfirlækni, dags. 6. ágúst 2010, þessum upplýsingum til stuðnings.

Þá bendi stefnandi á að tryggingartaki hafi miðlað upplýsingum um reykingar sínar, þegar þær hafi hafist, til starfsmanns tryggingafélagsins, í samræmi við upplýsingaskyldu sína. Starfsmaðurinn hafi gefið þau svör að félagið myndi ekki aðhafast neitt frekar vegna þess og að tryggingin héldist óbreytt þrátt fyrir það. Tryggingartaki hafi ekki séð ástæðu til að efast um réttmæti þessa tilsvars en stefnandi telji ekki rétt að leggja þá skyldu á neytanda, eins og í þessu tilfelli, að tryggja sér sönnun fyrir slíku svari. Að öllu framansögðu virtu bendi stefnandi á að engin sönnun sé komin fram um að hann hafi brotið upplýsingaskyldu sína samkvæmt lögum um vátryggingarsamninga. Verði þrátt fyrir allt framangreint komist að þeirri niðurstöðu að tryggingartaki hafi gefið rangar upplýsingar við töku líftryggingarinnar, byggi stefnandi á því að hin hlutfallslega skerðing sé engu að síður ólögmæt. Þannig hafi hinar röngu upplýsingar verið óveruleg yfirsjón tryggingartaka og því að engu leyti um sviksamlega vanrækslu á upplýsingaskyldu hans að ræða. Af þeim sökum sé réttur stefnda til að bera fyrir sig vanrækta upplýsingaskyldu fallinn niður, en þegar um hreinar áhættulíftryggingar sé að ræða geti tryggingarfélag aðeins borið fyrir sig að upplýsingaskyldu hafi ekki verið fullnægt, ef vátryggingaratburður hafi orðið eða félagið veitt viðvörun innan tveggja ára frá því að ábyrgð þess hófst. Þessi regla feli í sér að stefndi geti ekki lengur borið fyrir sig að rangar upplýsingar hafi verið veittar við töku tryggingarinnar. Í málinu sé ágreiningur um hvaða lög skuli gilda um samninginn en stefndi hafi í rökstuðningi sínum vísað til eldri laga um vátryggingarsamninga. Ljóst sé að þau lög hafi almennt gilt um vátryggingarsamninga, þegar líftryggingin hafi verið tekin árið 1993. Ný lög um vátryggingarsamninga nr. 30/2004 hafi tekið gildi 1. janúar 2006. Í 146. gr. þeirra laga segi:

Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2006. Þau skulu gilda um alla nýja vátryggingarsamninga sem gerðir eru frá og með þeim degi, alla vátryggingarsamninga sem eru endurnýjaðir eða framlengdir frá og með þeim degi, svo og um alla aðra vátryggingarsamninga sem eru í gildi á þeim degi.

Þar með sé ljóst að lög nr. 30/2004 gildi í þessu máli. Í lögunum sé í 83. gr. fjallað um upplýsingaskyldu vátryggingartaka í persónutryggingum. Í 1. mgr. 83. gr. laganna komi fram að vátryggingartaki þurfi að hafa vanrækt upplýsingarskyldu sína á sviksamlegan hátt til að vátryggingarfélag beri ekki ábyrgð á tjóni. Enn fremur komi fram í 2. mgr. sömu greinar að hafi vátryggingartaki eða vátryggður ella vanrækt upplýsingaskyldu sína í þeim mæli að ekki teljist óverulegt megi fella ábyrgð félagsins niður í heild eða hluta. Í 2. mgr. 85. gr. sömu laga komi fram að í hreinum áhættulíftryggingum geti félagið aðeins borið fyrir sig að upplýsingaskyldu hafi ekki verið fullnægt ef vátryggingaratburður hafi orðið eða félagið veitt viðvörun samkvæmt 94. gr. innan tveggja ára frá því að ábyrgð þess hófst. Þessi takmörkun eigi þó ekki við ef svikum hafi verið beitt en ljóst sé í þessu máli að svo hafi ekki verið. Af þessu leiði að OKKAR líftryggingar ehf. geti ekki borið fyrir sig að rangar upplýsingar hafi verðið veittar við töku hreinnar líftryggingar enda hafi umrædd líftrygging verið í gildi frá árinu 1993 og þar af leiðandi lengur en tvö ár áður en vátryggður hafi látist. Í þessu samhengi bendi stefnandi á að ekki hafi verið um verulega vanrækslu að ræða enda hefði það varla haft veruleg áhrif á áhættumat félagsins ef upplýst hefði verið um mitral lekann og vísist til framangreindra röksemda um kvillann í því sambandi. Tryggingartaki hafi verið í góðri trú um upplýsingarnar sem hann veitti á umsóknareyðublaðinu. Með vísan til alls þess sem að framan greini telji stefnandi að upplýsingaskyldan gagnvart stefnda hafi ekki verið vanrækt og því síður með sviksamlegum hætti. Því sé ljóst að stefnandi eigi rétt á fullum bótum úr líftryggingum maka síns samkvæmt þeirri vátryggingarfjárhæð, sem í gildi hafi verið við andlát hans 25. maí 2010. Fjárhæð bótakröfunnar sé byggð á uppreiknaðri stöðu vátryggingarfjárhæðar á dómsdegi m.v. skírteini. Með vísan til framangreinds byggi stefnandi málatilbúnað sinn á hinum nýrri lögum um vátryggingarsamninga nr. 30/2004, einkum 83., 85. og 146. gr. Jafnframt sé vísað til lögskýringargagna sem fylgt hafi setningu laganna á Alþingi. Þá byggi stefnandi á almennum reglum kröfu- og samningaréttar um réttar efndir á samningum og greiðslu fjárskuldbindinga. Vaxtakrafa stefnanda styðjist við 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Dráttarvaxtakrafa styðjist við 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um varnarþing vísist til 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Birting stefnu hafi farið fram skv. 3. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málskostnaðarkrafa stefnanda eigi sér stoð í 1. mgr. 129. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

Málsástæður stefnda og tilvísun til réttarheimilda

Stefndi byggir á því að tryggingartaki hafi við töku líftryggingarinnar í júní 1993 veitt rangar upplýsingar, í umsókn, um reykingavenjur sínar og heilsufar og því hafi stefnda með réttu verið heimilt að skerða bótarétt stefnanda úr líftryggingunni. Í umsókn sinni um líftryggingu hjá stefnda, hafi tryggingartaki svarað eftirfarandi spurningum neitandi: Reykir þú? Hefur þú sl. 10 ár, legið á sjúkrastofnunum vegna sjúkdóms, slyss eða rannsóknar? Ef já, hvers vegna og hvar? Hefur þú nú eða hefur þú haft aðra sjúkdóma, líkamlega eða andlega? Ert þú fullkomlega heilsuhraustur og vinnufær? (skýrðu ef svo er ekki). Stefndi hafi, í framhaldi af kröfu stefnanda um bætur úr líftryggingunni, í samræmi við vinnureglur sínar, kallað eftir afriti af sjúkraskrá tryggingartaka. Í heilsufarsgögnum frá heimilislækni tryggingartaka komi fram að við heilbrigðiskoðun skömmu eftir töku líftryggingarinnar, hafi vátryggingartaki upplýst að hann hefði greinst með hjartalokugalla (mitrallokugalla) 7-8 árum áður í Bandaríkjunum og farið í nákvæmar rannsóknir vegna þessa. Þá komi fram í gögnum málsins að tryggingartaki hafi farið í rannsókn í framhaldi af heilbrigðisskoðuninni, þ.e. blóð- og þvagrannsókn og röntgenmyndatöku af lungum. Niðurstöður rannsóknanna hafi verið þær að hækkun hafi verið á triglyceridum 2,89 og lækkað HDL kolesterol 0,87. Þá komi fram að tryggingartaki hafi verið settur í hjartalínurit og honum verið ráðlagt að hitta hjartasérfræðing og fengið tilvísun frá heimilislækni til hans. Í fyrirliggjandi vottorði Gests Þorgeirssonar hjartalæknis komi fram að tryggingartaki hafi hitt hann í október og nóvember árið 1993 og gengist undir rannsóknir. Einnig komi fram í vottorðinu að tryggingartaki hafi í allmörg ár fengið verki vinstra megin í brjóst, sem hafi leitt út í vinstri handlegg en liðið hjá í hvíld. Niðurstaða rannsóknar hjartasérfræðingsins hafi verið að tryggingartaki hafi verið með merki um gamlan „inferior infarct“. Ef tryggingartaki færi aftur að fá verki í brjóst með leiðni út í handlegg við áreynslu væri næsta skref hjartaþræðing til frekari skilgreiningar á málum. Þar sem hann hafi þá verið einkennalaus hafi ekki sýnst  ástæða til sérstakrar meðferðar að sinni. Í ljósi þeirra upplýsinga sem að framan séu raktar um heilsufar tryggingartaka, fyrir töku tryggingarinnar, einkum upplýsinga um greiningu á mitrallokuleka og upplýsinga um brjóstverki sem hann hafi haft til margra ára, sé að mati stefnda ljóst að tryggingartaki hafi ekki veitt réttar upplýsingar um heilsufar sitt við töku tryggingarinnar. Um sé að ræða mikilvægar upplýsingar sem skipt hafi stefnda verulegu máli við mat sitt á vátryggingaráhættunni, þegar tryggingin hafi verið tekin, en samkvæmt skilmálum endurtryggjanda og vinnureglum stefnda hefði einungis verið hægt að samþykkja trygginguna með aukaiðgjaldi. Þá hefði samkvæmt vinnureglum verið kallað eftir frekari upplýsingum um heilsufar tryggingartaka og hugsanlega óskað eftir læknisskoðun hjá trúnaðarlækni félagsins, ef upplýsingarnar hefðu verið veittar. Eins og að framan sé rakið hafi tryggingartaki svarað neitandi í umsókn sinni um trygginguna hvort hann reykti. Í sjúkraskrá hans, sem borist hafi stefnda eftir að stefnandi hafi gert kröfu um greiðslu bóta úr tryggingunni, komi fram að við heilbrigðisskoðun þann 18. ágúst 1993 hafi tryggingartaki reykt í u.þ.b. 20 pakkaár. Í tilvísun heimilislæknis tryggingartaka til hjartasérfræðings, 10. september 1993, komi eftirfarandi fram: „… hefur reykt en er nú að reyna að hætta því“. Þá komi fram í vottorði Gests Þorgeirssonar hjartalæknis, að hann hafi hitt tryggingartaka í október og nóvember árið 1993 vegna hjartarannsókna. Í vottorðinu komi eftirfarandi fram: „Þegar ég sá hann var hann kominn niður í 5 sígarettur, en hann var stundum áður að reykja einn og hálfan pakka á dag“. Stefndi veki athygli á því að þetta sé um 4-5 mánuðum eftir töku tryggingarinnar og bendi orðalagið til þess að á þeim tímapunkti hafi hann verið búinn að minnka reykingar sínar niður í 5 sígarettur. Að mati stefnda bendi upplýsingar í fyrirliggjandi læknisfræðilegum gögnum eindregið til þess að tryggingartaki hafi gefið rangar upplýsingar um reykingavenjur sínar í umsókn sinni um líftrygginguna. Gögnin staðfesti að hann hafi reykt um langt skeið fyrir töku tryggingarinnar og einnig að hann hafi reykt eftir töku tryggingarinnar. Hins vegar sé ekkert í fyrirliggjandi gögnum málsins sem renni stoðum undir fullyrðingu stefnanda í stefnu um að tryggingartaki hafi hætt reykingum „nokkru“ fyrir töku tryggingarinnar og byrjað að reykja aftur stuttu fyrir læknisheimsókn til heimilislæknis síns 10. september 1993, og verið þá að reyna að hætt að reykja. Stefndi mótmæli þessum fullyrðingum sem ósönnuðum, enda verði þessar skýringar að teljast afar ólíklegar og þvert á gögn málsins. Telji stefndi einsýnt að stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að svo hafi ekki verið. Í stefnu málsins sé á því byggt að tryggingartaki hafi miðlað upplýsingum um reykingar sínar til sölumanns stefnda, þegar þær hafi hafist að nýju, og að starfsmaðurinn hafi gefið þau svör að félagið myndi ekki aðhafast frekar vegna þessa og tryggingin héldist óbreytt þrátt fyrir það. Fyrir það fyrsta mótmæli stefndi þessari staðhæfingu sem ósannaðri enda komi hvergi fram í gögnum málsins eða hjá stefnda að málin hafi verið með þeim hætti sem rakið sé í stefnu. Í annan stað mótmæli stefndi því að neytendasjónarmið standi því í vegi að stefnandi tryggi sér sönnum um slíkt og telji stefndi að stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir staðhæfingu sinni í stefnu. Stefndi telji því sannað, á grundvelli fyrirliggjandi gagna, að tryggingartaki hafi gefið rangar upplýsingar um reykingar sínar í umsókn sinni um líftrygginguna. Stefndi bendi á að við töku persónutrygginga, líkt og í þessu tilviki, búi tryggingartaki yfir upplýsingum sem séu nauðsynlegar fyrir áhættumat stefnda og sé stefndi að miklu leyti háður upplýsingum frá tryggingartaka. Skipti þá miklu að upplýsingarnar séu veittar af heiðarleika af hans hálfu. Meðal einkenna vátryggingarsamninga sé mikilvægi trúnaðarsambands tryggingartaka og vátryggingarfélags og séu ríkar kröfur gerðar til heiðarleika tryggingartaka við upplýsingagjöf. Sé krafan enn ríkari í líftryggingum og öðrum heilsutryggingum en öðrum vátryggingum, þar sem tryggingarnar séu teknar til mjög langs tíma og standi réttarsambandið áratugum saman. Vegna þeirrar upplýsingaskyldu sem hvíli á tryggingartaka við töku tryggingarinnar og þeirrar takmörkunar sem sé á heimildum stefnda til að afla þessara upplýsinga hafi verið mikilvægt að tryggingartaki svaraði þeim spurningum sem stefndi óskaði eftir, af heilindum og eftir bestu vitund, svo að stefndi gæti metið vátryggingaráhættuna og ákvarðað iðgjald í samræmi við hana. Þær spurningar sem sé að finna í umsókn um líftrygginguna séu að mati stefnda einfaldar, skýrar og afmarkaðar um þau atriði sem skipt hafi stefnda verulegu máli við mat sitt á vátryggingaráhættunni. Stefndi mótmæli því, sem fram komi í stefnu málsins, að spurningarnar í umsókninni hafi að einhverju leyti verið ónákvæmar. Þvert á móti telji stefndi að spurningarnar hafi verið einfaldar og hnitmiðaðar og hafi upplýsingarnar verið notaðar sem grundvöllur mats stefnda á áhættunni. Stefndi mótmæli jafnframt því, sem fram komi í stefnu, að hin ranga upplýsingagjöf tryggingartaka hafi verið óveruleg. Telji stefndi að tryggingartaka hafi ekki getað dulist að þau atriði sem sérstaklega hafi verið spurt um í umsókninni hafi verið upplýsingar sem skipt hafi félagið miklu máli. Að mati stefnda geti sú vanræksla tryggingartaka, að upplýsa ekki, við umsókn um trygginguna, um greindan hjartagalla, brjóstverki til margra ára og reykingar, aldrei talist til óverulegrar yfirsjónar. Þvert á móti telji stefndi að jafna megi þeirri háttsemi tryggingartaka, að láta hjá líða að upplýsa félagið um þau atvik, til stórkostlegs gáleysis. Í þessum efnum bendi stefndi á að þó hugsanlegt sé að vægur mitrallokuleki sé ekki alvarlegt ástand og einstaklingur geti lifað góðu lífi með slíkan leka, þá hafi tryggingartaki verið greindur með þennan umrædda hjartagalla áður en hann hafi tekið trygginguna og hefði með réttu átt að upplýsa um hann við töku hennar. Þá bendi stefndi á að álitsgerðar Gests Þorgeirssonar hjartalæknis hafi verið aflað einhliða og þar séu lagðar fyrir lækninn spurningar og álitaefni og hafi stefndi ekki átt neina aðkomu að. Sé álitsgerðinni mótmælt sem slíkri og árétti stefndi að hún hafi ekkert sönnunargildi um það hvort þær upplýsingar sem deilt sé um í málinu hafi skipt félagið máli eða ekki, þegar tryggingartaki hafi sótt um líftrygginguna. Staðreyndin sé sú að réttar upplýsingar um reykingasögu tryggingartaka hefðu leitt til hærra iðgjalds af vátryggingunni þar sem tekið hefði verið mið af gjaldskrá fyrir einstaklinga sem reyktu. Ef upplýsingar um hjartalokugallann og rannsóknir sem vátryggingartaki hafi gengist undir í tengslum við hann, 7-8 árum fyrir trygginguna, hefðu verið gefnar við töku tryggingarinnar, hefði það leitt til þess að ekki hefði verið unnt að samþykkja trygginguna nema með aukaiðgjaldi. Til skýringar vísist til fyrirliggjandi útreiknings bóta og fyrirliggjandi skilmála endurtryggjanda. Þá bendi stefndi á að ef upplýsingar, sem liggi fyrir í málinu, um þá brjóstverki sem tryggingartaki hafði fengið í allmörg ár fyrir töku tryggingarinnar, óhagstætt kólesteról og gamlan infarct í hjarta, hefðu legið fyrir við töku tryggingarinnar, til viðbótar upplýsingum um reykingavenjur og hjartalokagalla stefnda og þeim upplýsingum sem tryggingartaki hafi gefið um föður sinn, hefði stefndi ekki veitt tryggingartaka umrædda líftryggingu. Á grundvelli framangreinds, rangrar upplýsingagjafar tryggingartaka við töku tryggingarinnar, sé ljóst að stefnda sé heimilt að skerða bætur til stefnanda á grundvelli 2. mgr. 6. gr. og 7. gr. laga nr. 20/1954. Líkt og fram komi í stefnu málsins sé ágreiningur milli aðila um hvaða lög gildi um hina vanræktu upplýsingaskyldu tryggingartaka. Stefndi byggi á því að lög nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga gildi um hina vanræktu upplýsingaskyldu og að ákvæði 4.-10. gr. laganna í kaflanum „rangar upplýsingar við samningsgerð“ gildi um ábyrgð stefnda, einkum 6. og 7. gr. Stefndi byggi á því að þegar tryggingartaki hafi sótt um trygginguna, þann 4. júní 1993, hafi lög nr. 20/1954 verið í gildi. Ákvæði 4.-10. gr. hafi gilt um upplýsingaskyldu tryggingartaka við samningsgerð og ábyrgð félagsins, hafi rangar upplýsingar verið veittar við samningsgerð. Samkvæmt skilmálum tryggingarinnar, sem gilt hafi við töku tryggingarinnar, komi skýrt fram að „grundvöllur líftryggingarsamningsins séu skilmálar þessir, upplýsingar á umsóknareyðublaði og önnur gögn sem tengjast samningnum …“. Þá komi jafnframt fram að „ef rangar upplýsingar hafa verið gefnar eða leynt hefur verið upplýsingum sem kynnu að hafa breytt áhættumati félagsins fer um ábyrgð félagsins eftir ákvæðum laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga“. Stefndi byggi á því að sú löggjöf sem í gildi hafi verið, þegar til samningsins hafi verið stofnað og tryggingartaki vanrækti upplýsingaskyldu sína, eigi að gilda um ábyrgð félagsins. Mótmæli stefndi því að ákvæði laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, sem tekið hafi gildi 1. janúar 2006, geti gilt um upplýsingaskyldu og ábyrgð vátryggingarfélaga vegna upplýsinga sem veittar hafi verið tæplega 13 árum fyrir gildistöku laganna. Ótækt sé að skýra 124. gr. laganna svo afdráttarlaust að lögin eigi skilyrðislaust að gilda um öll þau atriði sem viðkomi vátryggingarsamningum, sem stofnað hafi verið til í gildistíð eldri laga, og að ákvæði eldri laga gildi ekki undir neinum kringumstæðum. Slík túlkun hrófli við því réttarástandi sem gilt hafi við samningsgerðina og hrófli við forsendum samningsaðila. Stefndi telji að ákvæði núgildandi laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004 gildi að svo miklu leyti sem hægt sé um vátryggingarsamninga sem stofnað hafi verið til í gildistíð eldri laga, en geti eðli máls samkvæmt ekki gilt um upplýsingar sem veittar hafi verið í gildistíð eldri laga. Þá byggi stefndi á að núgildandi lög um vátryggingarsamninga séu mun ítarlegri en eldri lög og leggi mun ríkari skyldur á vátryggingarfélög, t.d. varðandi upplýsingaskyldu þeirra við gerð vátryggingarsamninga. Í eldri lögum hafi ekki verið að finna ákvæði um upplýsingaskyldu vátryggingarfélaganna og því sé með öllu ótækt að núgildandi lög um vátryggingarsamninga gildi með afturvirkum hætti um brot á upplýsingaskyldunni við töku tryggingarinnar. Varakrafa stefnda byggist á því að ef svo ólíklega vilji til að hinn virðulegi dómur fallist á kröfu stefnanda þá krefjist stefndi þess að upphafstíma dráttarvaxta af dómkröfunni eigi að miða við síðara tímamark en 3. júní 2010. Í stefnu sé vísað til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu en frekari skýringar á dráttarvaxtarkröfu sé ekki að finna í stefnunni. Samkvæmt 9. gr. laganna skulu skaðabótakröfur bera dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi sannanlega lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta. Samkvæmt skilmálum líftryggingarinnar hafi félagið 14 daga til að greiða tryggingarfjárhæð frá því tímamarki sem fullnægjandi sannanir fyrir greiðsluskyldu félagsins liggi fyrir. Ef litið sé til gildandi laga um vátryggingarsamninga hafi stefndi tveggja mánaða svigrúm til að greiða almenna vexti af vátryggingarfjárhæð frá því að tilkynning um vátryggingaratburð hafi verið send. Telji stefndi þannig upphafstíma dráttarvaxta í stefnu rangan. Þá bendi stefndi sérstaklega á að stefnandi hafi neitað að gefa upp reikningsnúmer vegna bótagreiðslu samkvæmt ákvörðun félagsins þann 18. ágúst 2010. Þær bætur sem hún hafi fengið hafi verið greiddar lögmanni hennar 6. september 2010 en ekki 19. ágúst líkt og fram komi í stefnu. Því sé með öllu ótækt að stefndi verði dæmdur til að greiða dráttarvexti fyrir það tímabil. Stefndi byggi á að svo mikil óvissa hafi í raun ríkt um greiðsluskyldu stefnda í málinu að ekki sé hægt að miða upphafstíma dráttarvaxta við annað tímamark en þegar leyst hafi verið úr ágreiningi aðila fyrir dómstólum, þ.e. upphafstími dráttarvaxta miðist við dómsuppsögu. Um sýknukröfu vísi stefndi til laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga, sérstaklega 4.-6. gr. laganna. Jafnframt sé vísað til laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga og laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 Vísað sé til meginreglna samningaréttarins um skuldbindingargildi samninga. Þá sé vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála varðandi málskostnað sem og laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt varðandi kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun.

Niðurstaða

Þegar líftryggingarsamningur eiginmanns stefnanda (tryggingartaka) og stefnda var gerður í júní 1993 voru í gildi lög nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga. Lög nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, sem leystu lög nr. 20/1954 af hólmi, tóku gildi 1. janúar 2006. Tryggingartaki lést, eins og áður hefur verið rakið, 25. maí 2010. Samkvæmt 146. gr. laga nr. 30/2004 gilda lögin um alla nýja vátryggingarsamninga, sem gerðir eru frá og með gildistökudegi laganna, alla vátryggingarsamninga sem endurnýjaðir eru eða framlengdir frá og með þeim degi, svo og um alla aðra vátryggingarsamninga, sem í gildi eru á þeim degi.

Í máli þessu er deilt um rétt stefnda til að skerða tryggingarbætur til stefnanda  vegna meintra rangra eða ófullnægjandi upplýsinga tryggingartaka við gerð framangreinds líftryggingarsamnings stefnda og tryggingartaka. Þá er um það deilt hvort leysa eigi ágreininginn á grundvelli þeirra laga sem gilt hafi, þegar til samningsins var stofnað, það er laga nr. 20/1954, eða laga nr. 30/2004, sem í gildi voru þegar tryggingartaki lést. Eins og að framan greinir var við setningu laga nr. 30/2004 kveðið svo á um, varðandi lagaskil, sbr. 146. gr. laganna, að þau skyldu gilda um alla vátryggingarsamninga, sem í gildi væru við gildistöku þeirra 1. janúar 2006. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem varð að lögum nr. 30/2004 er sú skýring gefin á þessu ákvæði að óheppilegt sé að hafa tvö kerfi af reglum í gildi eftir gildistöku laganna og sé því lagt til í 146. gr. frumvarpsins að verði það að lögum taki þau frá gildistökudegi til allra vátryggingarsamninga, bæði þeirra sem þá séu í gildi og gerðir verði, endurnýjaðir eða framlengdir eftir hana. Óumdeilt er að líftryggingarsamningur sá sem um er fjallað í máli þessu var í gildi þann 1. janúar 2006. Með vísan til skýrs orðalags 146. gr. laga nr. 30/2004 og tilvitnaðra lögskýringargagna verður fallist á það með stefnanda að leysa beri ágreining aðila á grundvelli laga nr. 30/2004. Er sú lögskýring jafnframt í samræmi við óskráðar meginreglur um lagaskil sem fela það í sér að nýjum lögum verði beitt um lögskipti sem undir þau falla, þótt til lögskiptanna hafi verið stofnað fyrir gildistöku þeirra, enda ræðst réttarstaða manna af lögum eins og þau eru hverju sinni. Má í þessum efnum vísa til rökstuðnings Hæstaréttar í máli nr. 614/2011, sbr. 2. mgr. II. 

Sýknukrafa stefnda í máli þessu er auk framangreindra sjónarmiða um lagaskil á því byggð að tryggingartaki hafi ekki veitt réttar upplýsingar um reykingar sínar og heilsufar við töku umræddrar líftryggingar. Um sé að ræða mikilvægar upplýsingar, sem skipt hafi stefnda verulegu máli við mat á vátryggingaráhættu, þegar tryggingin hafi verið tekin. Samkvæmt skilmálum endurtryggjanda og vinnureglum stefnda hefði einungis verið hægt að samþykkja trygginguna með aukaiðgjaldi, ef réttar upplýsingar hefðu legið fyrir.

Tryggingartaki gaf þær upplýsingar í fyrirliggjandi líftryggingarumsókn að hann reykti ekki. Samkvæmt fyrirliggjandi sjúkraskýrslu tryggingartaka frá 18. ágúst 1993 gaf hann þær upplýsingar í viðtali hjá heimilislækni þann dag að hann hefði reykt „í ca. 20 pakkaár“ Með pakkaári mun, eftir því sem upplýst var við aðalmeðferð málsins, vera átt við einn pakka af vindlingum á dag í eitt ár. Í fyrirliggjandi vottorði Gests Þorgeirssonar hjartalæknis, frá 24. febrúar 1994, kemur fram að tryggingartaki hafi tjáð honum í október 1993 að hann væri „kominn niður í 5 sígarettur“ [á dag] en hann hefði „stundum áður“ reykt einn og hálfan pakka á dag. Í skýrslu sinni fyrir dómi skýrði stefnandi frá því að hún og tryggingartaki hefðu verið hætt að reykja, þegar tryggingartaki hefði undirritað umsókn um líftrygginguna 4. júní 1993. Hins vegar hefðu þau bæði byrjað að reykja aftur nokkru síðar. Hefðu þau þá haft sambandi við nafngreindan starfsmann stefnda og tjáð honum að tryggingartaki hefði byrjað reykingar að nýju en verið tjáð að það skipti ekki máli varðandi gildi tryggingarinnar. Eins og að framan er rakið gaf tryggingartaki þær upplýsingar á umræddri líftryggingarumsókn að hann reykti ekki. Spurningin var „Reykir þú?“  og var gefinn kostur á að svara henni játandi eða neitandi með merkingu í svarreit. Ekki voru á eyðublaðinu frekari beinar spurningar um reykingar t.d. hvort umsækjandi/tryggingartaki hefði reykt og ef hann hefði reykt en væri hættur hvenær hann hefði reykt síðast. Ekki þykir með vísan til framangreinds sannað að tryggingartaki hafi sagt ósatt, þegar hann svaraði því til að hann reykti ekki, við undirritun umsóknarinnar 4. júní 1993. Er þá einnig haft í huga, það sem alþekkt er, að þeim sem reykja og ekki síst þeim sem reykt hafa lengi og mikið gengur oft erfiðlega að hætta reykingum til lengi tíma litið, þótt þeim takist það oft um tíma. Virðist tryggingartaki hafa verið í þeim hópi. Spurningin sem um er rætt var á eyðublaði fyrir umsókn um líftryggingu hjá stefnda. Verður stefndi eftir atvikum að bera hallann af því hversu efnislega afmörkuð spurningin var.

Umsækjandi svaraði eins og áður hefur verið rakið eftirgreindum spurningum neitandi:

-          Hefur þú sl. 10 ár, legið á sjúkrastofnunum vegna sjúkdóms, slyss eða rannsóknar? Ef já, hvers vegna og hvar?

-          Hefur þú nú eða hefur þú haft aðra sjúkdóma, líkamlega eða andlega?

-          Ert þú fullkomlega heilsuhraustur og vinnufær? (skýrðu ef svo er ekki)

Fyrir liggur samkvæmt upplýsingum í sjúkraskrá tryggingartaka að hann hafði greinst með svonefndan mítúrlokuleka (mitrallokuleka) og leitað til lækna í Bandaríkjunum vegna brjóstverkja 7-8 árum áður en hann sótti um líftrygginguna hjá stefnda. Ekki liggur fyrir að hann hafi af þessum ástæðum verið lagður inn á sjúkrastofnun til rannsókna og eða meðferðar. Þá liggur fyrir að heilsugæslulæknir tryggingartaka vísaði honum til sérfræðings í hjartalækningum með bréfi 10. september 1993 vegna sögu um mítúrlokuleka. Í bréfinu segir að tryggingartaki hafi verið „rannsakaður í USA vegna þessa fyrir 7-8 árum“ en heilsugæslulæknirinn heyri sjálfur lítið athugavert eins og nánar er rakið í bréfinu. Í svarbréfi hjartalæknisins 24. febrúar 1994 er auk mítúrlokuleka nefnt að tryggingartaki hafi í allmörg ár fengið verki vinstra megin i brjóst sem hafi leitt út í vinstri handlegg en liðið hjá í hvíld. Tryggingartaki undirgekkst, á vegum hjartalæknisins, ómskoðun á hjarta og var settur í hjartarita og þolpróf. Niðurstaðan af rannsókninni var sú að tryggingartaki hefði merki um gamlan „inferior infarct“. Á þolprófi hefðu ekki komið fram einkenni eða línuritsbreytingar sem bentu til frekari „ischaemiu“. Hann væri ekki þrekmikill en ekki væri mælt fyrir um hjartaþræðingu að sinni. Þá kemur fram að tryggingartaki hafi enga sögu um brátt hjartadrep. Ef hann fari aftur að fá verki í brjóst með leiðni út í handlegg við áreynslu telji læknirinn að næsta skref verði hjartaþræðing til frekari skilgreiningar á málunum. Þar sem hann sé nú einkennalaus sýnist ekki ástæða til sérstakrar meðferðar að sinni. Í bréfi sama hjartalæknis til lögmanns stefnanda frá 6. ágúst 2010 svarar læknirinn spurningum lögmannsins m.a. um framangreindan míturlokuleka. Í svarinu kemur m.a. fram að lítill mítúr- eða mitral leki, einn og sér, hjá einkennalausum einstaklingi gefi yfirleitt ekki tilefni til sérstakra aðgerða eða meðferðar og að vægasta form leka af þessu tagi sé ekki alvarlegt og hafi óveruleg áhrif á starfsemi hjarta og blóðrásar og enn fremur að yfirleitt geti fólk lifað góðu lífi, þrátt fyrir lítinn leka. Þá kemur fram í svarinu að mítúrlekinn hafi ekki samkvæmt dánarvottorði verið ein af orsökunum fyrir andláti tryggingartaka 25. maí 2010.

Á vátryggingartaka hvíldi bæði neikvæð og jákvæð upplýsingaskylda gagnvart stefnda, þegar til umræddrar líftryggingar var stofnað. Neikvæða skyldan lagði þá skyldu á tryggingartaka að svara spurningum stefnda eftir bestu getu og samvisku og veita bæði rétt og tæmandi svör við spurningum samkvæmt umsókn um trygginguna. Hin jákvæða upplýsingaskylda lagði þá skyldu á tryggingartaka að upplýsa stefnda um sérstök tilvik sem tryggingartaki vissi eða mátti vita að gætu haft verulega þýðingu við mat stefnda á áhættu, sbr. lokamálslið 1. mgr. 82. gr. laga nr. 30/2004.

Samkvæmt 1. mgr. 83. gr. laga nr. 30/2004 ber félagið ekki ábyrgð hafi vátryggingartaki sviksamlega vanrækt upplýsingaskyldu sína samkvæmt 1. mgr. 82. gr. laganna og vátryggingaratburður orðið en hafi vátryggingataki vanrækt upplýsingaskyldu sína í þeim mæli að ekki telst óverulegt má fella ábyrgð félagsins niður að öllu leyti eða hluta, sbr. 2. mgr. 83. gr.

Af hálfu stefnda er því ekki haldið fram að tryggingartaki hafi vanrækt upplýsingaskyldu sína gagnvart félaginu í sviksamlegum tilgangi og var það ítrekað af lögmanni stefnda við aðalmeðferð málsins. 

Fallast má á það með stefnda, með vísan til þess sem að framan er rakið, um greiningu á mítúrlokuleka hjá vátryggingartaka, 7-8 árum áður en sótt var um líftrygginguna, og forsögu um verki vinstra megin í brjósti, sem hafi leitt út í vinstri handlegg, að tryggingartaki hafi ekki að öllu leyti fullnægt upplýsingaskyldu sinni, með því að svara því neitandi í líftryggingarumsókninni, eins og áður er rakið, og án frekari skýringa, að hann hefði ekki haft aðra sjúkdóma og væri fullkomlega heilsuhraustur. Hins vegar verður með hliðsjón af fyrirliggjandi læknisvottorðum að fallast á það með stefnanda að um óverulega vanrækslu hafi verið að ræða í merkingu 2. mgr. 83. gr. laga nr. 30/2004 og að stefnda hafi af þeirri ástæðu ekki verið heimilt að fella ábyrgð félagsins niður að hluta og skerða bætur til stefnanda. Verður stefndi þegar af þeirri ástæðu dæmdur til að greiða stefanda höfuðstól dómkröfu stefnanda eins og í dómsorði greinir en ekki er ágreiningur í málinu um útreikning á vátryggingarfjárhæð á tjónsdegi.

Líftryggingarsamningur tryggingartaka og stefnda er frá júní 1993. Tryggingartaki lést eins og áður hefur verið rakið 25. maí 2010. Samkvæmt 2. mgr. 85. gr. laga nr. 30/2004 getur stefndi aðeins borið fyrir sig að upplýsingaskyldu hafi ekki verið fullnægt, ef vátryggingaratburður hefur orðið eða félagið hefur veitt viðvörun samkvæmt 94. gr. laganna innan tveggja ára frá því að ábyrgð þess hefst. Þessi takmörkun gildir þó ekki hafi svikum verið beitt. Eins og áður hefur verið rakið er ekki á því byggt af hálfu stefnda að tryggingartaki hafi beitt stefnda svikum við stofnun líftryggingarsamningsins milli tryggingartaka og stefnda. Á því er ekki byggt af hálfu stefnda að tilkynning samkvæmt 94. gr. laganna hafi verið send innan tilgreindra tímamarka. Stefndi getur samkvæmt framangreindu ekki borið fyrir sig að tryggingartaki hafi ekki fullnægt upplýsingaskyldu sinni, jafnvel þótt um verulega vanrækslu af hálfu tryggingartaka hefði verið að ræða og styður það enn frekar framangreinda niðurstöðu dómsins.

Stefndi byggir á því að upphafstíma dráttarvaxta af dómkröfunni eigi að miða við síðara tímamark en 3. júní 2010. Í stefnu sé vísað til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu en frekari skýringar á dráttarvaxtarkröfu sé ekki að finna í stefnunni. Samkvæmt 9. gr. laganna skulu skaðabótakröfur bera dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi sannanlega lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta. Samkvæmt skilmálum líftryggingarinnar hafi félagið 14 daga til að greiða tryggingarfjárhæð frá því tímamarki sem fullnægjandi sannanir fyrir greiðsluskyldu félagsins liggi fyrir. Ef litið sé til gildandi laga um vátryggingarsamninga hafi stefndi tveggja mánaða svigrúm til að greiða almenna vexti af vátryggingarfjárhæð frá því að tilkynning um vátryggingaratburð var send. Telji stefndi þannig upphafstíma dráttarvaxta í stefnu rangan. Þá bendi stefndi sérstaklega á að stefnandi hafi neitað að gefa upp reikningsnúmer vegna bótagreiðslu skv. ákvörðun félagsins þann 18. ágúst 2010. Þær bætur sem hún hafi fengið hafi verið greiddar lögmanni hennar þann 6. september 2010 en ekki þann 19. ágúst líkt og fram komi í stefnu. Því sé með öllu ótækt að stefndi verði dæmdur til að greiða dráttarvexti fyrir það tímabil. Stefndi byggi á að svo mikil óvissa hafi í raun ríkt um greiðsluskyldu stefnda í málinu að ekki sé hægt að miða upphafstíma dráttarvaxta við annað tímamark en þegar leyst hafi verið úr ágreiningi aðila fyrir dómstólum, þ.e. upphafstími dráttarvaxta eigi að miðast við dómsuppsögu.

Eins og fram er komið í atvikalýsingu dóms þessa veitti stefndi umbeðinni sjúkraskrá tryggingartaka viðtöku 15. júní 2010. Í málinu liggja fyrir líftryggingarskilmálar sem stefndi fullyrðir að gilt hafi um líftryggingu tryggingartaka. Stefnandi hefur ekki mótmælt því að skilmálarnir hafi verið hluti af líftryggingarsamningi tryggingartaka og stefnda. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. skilmálanna skal tryggingarfjárhæðin greiðast innan 14 daga frá því að skrifstofu tryggingarfélagsins berast í hendur fullnægjandi sannanir fyrir greiðsluskyldu félagsins, þar með talið dánarvottorð útgefið af lækni. Telja verður að stefndi hafi þann 15. júní 2010 haft í höndum fullnægjandi sannanir fyrir greiðsluskyldu félagsins og gjalddagi tryggingafjárhæðar því verið 29. júní. Verður stefndi því dæmdur til að greiða dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur, sbr. 1. mgr. 5. gr. sömu laga, sbr. 2. málslið 6. mgr. 50. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, svo sem í dómsorði greinir.

Með hliðsjón af atvikum máls þessa og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.

Þórður S. Gunnarsson, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndi, OKKAR líftryggingar hf., greiði stefnanda Önnu Heiði Oddsdóttur, 12.167.305 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá 29. júní 2010 til greiðsludags að frádreginni innborgun þann 19. ágúst 2010 að fjárhæð 4.978.000 krónur. Málskostnaður milli aðila fellur niður.