Hæstiréttur íslands
Mál nr. 132/2012
Lykilorð
- Dómsuppkvaðning
- Ómerking héraðsdóms
|
|
Fimmtudaginn 7. júní 2012 |
|
Nr. 132/2012.
|
Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari) gegn X (Ásgeir Jónsson hrl.) |
Dómsuppkvaðning. Ómerking héraðsdóms.
X var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn barni. Þegar hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp voru meira en fjórar vikur liðnar frá dómtöku málsins og þá var ekki bókað að sakflytjendur og dómari málsins teldu ekki þörf á endurflutningi þess. Var hinn áfrýjaði dómur því ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 20. febrúar 2012. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði hefur ekki gert kröfur fyrir Hæstarétti.
Ákveðið var að fjalla um formhlið málsins fyrir Hæstarétti, en sækjandi og verjandi ákærða töldu óþarft að munnlegur málflutningur færi fram um það efni, sbr. 1. mgr. 205. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Málið var tekið til dóms í héraði 8. desember 2011 samkvæmt 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 en hinn áfrýjaði dómur var upp kveðinn 9. febrúar 2012. Leið því lengri tími en fjórar vikur frá því að málið var dómtekið þar til dómur var kveðinn upp. Samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 bar vegna þessa dráttar að flytja málið á ný, nema dómari og aðilar teldu það óþarft. Í endurriti vegna þinghalds, sem háð var til uppkvaðningar dóms, er bókað að ekki hafi verið mætt af hálfu aðila.
Samkvæmt framansögðu lá ekki fyrir við uppkvaðningu dómsins að bókað væri að sakflytjendur og dómari málsins teldu að ekki væri þörf á endurflutningi þess. Vegna þessa verður ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.