Hæstiréttur íslands

Mál nr. 245/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                                                                              

Mánudaginn 28. apríl 2014.

Nr. 245/2014.

Eignarhaldsfélagið SÍS ehf.

(Jónas Sveinsson fyrirsvarsmaður)

gegn

Íslandsbanka hf.

(enginn)

Kærumál. Nauðungarsala. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem máli E ehf. gegn Í hf. til úrlausnar um gildi nauðungarsölu var vísað frá dómi með vísan til þess að henni hefði ekki verið lokið þegar krafa E ehf. var móttekin í héraðsdómi.   

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. apríl 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. mars 2014, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðila um gildi nauðungarsölu á fasteign að Dalshrauni 10 í Hafnarfirði. Kæruheimild er í 1. mgr. 85. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. mars 2014.

Hinn 3. febrúar 2014 var móttekin í Héraðsdómi Reykjaness ódagsett krafa sóknaraðila, Eignarhaldsfélagsins SÍS ehf., sem ber yfirskriftina: „Krafa um dómsúrslausn á gildi aðfarargerðar samkv. 14. kafla laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.“ Í kröfunni er vísað til byrjunar uppboðs hjá sýslumanninum í Hafnarfirði 14. janúar síðastliðinn á fasteign sóknaraðila að Dalshrauni 10, eignarhluta 0101, fastanúmer 207-4321 að beiðni varnaraðila, Íslandsbanka hf. Málinu var úthlutað til dómara 6. mars 2014.

Sóknaraðili krefst þess að uppboðið verði úrskurðað ógilt, sem og að gerðarþola verði tildæmdur málskostnaður að mati réttarins.

Í kröfunni segir að framangreint uppboð hafi ekki verið byggt á lögmætum grunni og því sé krafist dómsúrlausnar um gildi þess. Til stuðnings þessu teflir sóknaraðili í fyrsta lagi fram þeim rökstuðningi að skuldabréfið, sem uppboðsmeðferðin hafi grundvallast á, hafi hvorki verið áritað um afborganir, svo sem skylt sé að gera samkvæmt tilskipun frá 9. febrúar 1798 um áritun afborgana á skuldabréf, né hafi komið fram á skuldabréfinu hver staða þess var við framsal, fyrst frá Sparisjóði Kópavogs til Byrs sparisjóðs, þá til Byrs hf. og loks til varnaraðila. Þá hafi verið skylt að bjóða skuldara að leysa bréfið til sín áður en til framsals kæmi. Í öðru bendir sóknaraðili á að lán sem séu verðtryggð miðað við vísitölu neysluverðs séu í eðli sínu afleiðusamningar, sem fari í bága við ákvæði laga nr. 121/1994 um neytendalán að því er varði skýra upplýsingagjöf til neytenda. Einnig vísar sóknaraðili til VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu í þessu sambandi.

Með kröfu sóknaraðila fylgdi hvorki staðfest endurrit gagna, sem lögð voru fram við áðurgreinda nauðungarsölu, né endurrit úr gerðabók sýslumanns, svo sem boðið er í sbr. 2. mgr. 81. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Með kröfunni fylgdi hins vegar ljósrit af þremur tilkynningum frá sýslumanninum í Hafnarfirði um nauðungarsölu á framangreindri eign, en þær eru dagsettar 4. júlí 2013 og 15. og 27. janúar 2014. Einnig ljósrit af beiðni um nauðungarsölu, dags. 27. júní 2013, veðskuldabréfi, útgefnu 28. desember 2005, ásamt skilmálabreytingum og loks greiðsluáskorun, dags. 24. maí 2013 ásamt birtingarvottorði. Í áðurgreindum tilkynningum sýslumannsins í Hafnarfirði um nauðungarsölu, dags. 15. og 27. janúar 2014, kemur fram að byrjun uppboðs á áðurgreindri fasteign að Dalshrauni 10 hafi farið fram 14. janúar 2014. Jafnframt að ákveðið hafi verið að uppboði á eigninni verði fram haldið á henni sjálfri miðvikudaginn 5. febrúar næstkomandi, kl. 14:30.

Eins og áður greinir barst Héraðsdómi Reykjaness krafa sóknaraðila hinn 3. febrúar 2014. Með hliðsjón af framangreindu er ljóst að uppboði á framangreindri fasteign sóknaraðila var ekki lokið þegar krafa sóknaraðila var móttekin, heldur hafði verið tilkynnt um framhaldsuppboð á eigninni sjálfri tveimur dögum síðar eða hinn 5. febrúar sl. Gat sóknaraðili því ekki á þessu stigi leitað úrslausnar héraðsdómara um gildi nauðungarsölunnar, sbr. 1. mgr. 80. gr., en samkvæmt yfirskrift kröfunnar og kröfugerðar sóknaraðila byggir hann erindi sitt á XIV. kafla laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.

Með vísan til framangreinds er ekki fullnægt skilyrðum áðurgreindra laga til að leita úrlausnar héraðsdómara og ber því með vísan til 82. gr. sömu laga að vísa málinu frá dómi án þess að kveðja til aðila þess eða taka það að öðru leyti fyrir á dómþingi.

Úrskurðinn kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari.

ÚRSKURÐARORÐ:

Máli þessu er vísað frá dómi.