Hæstiréttur íslands

Mál nr. 382/2004


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Örorkumat
  • Uppgjör
  • Aðfinnslur


Fimmtudaginn 24

 

Fimmtudaginn 24. febrúar 2005.

Nr. 382/2004.

Sigurður Magnússon

(Guðjón Ármann Jónsson hrl.)

gegn

Viktori Harðarsyni og

Tryggingamiðstöðinni hf.

(Valgeir Pálsson hrl.)

 

Skaðabætur. Líkamstjón. Örorkumat. Uppgjör. Aðfinnsla.

S varð fyrir slysi í desember 1990. Ekki var ágreiningur um að V og T hf. bæru í sameiningu fébótaábyrgð á líkamstjóni S vegna slyssins. Varanleg örorka S var metin á árinu 1992 en í kjölfarið gekk S til samninga við tryggingafélagið og var í framhaldinu gefin út fyrirvaralaus fullnaðarkvittun fyrir allt fjártjón og miska. Í málinu krafðist S að ákvörðun um örorkubætur yrði endurupptekin. Talið var að S hefði ekki tekist að sanna að verulegar breytingar hefðu orðið á heilsu hans af völdum slyssins sem ekki hefði verið unnt að sjá fyrir er hann samdi um fullnaðarbætur við tryggingafélagið. Voru V og T hf. því sýknuð af kröfum S.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. september 2004. Hann krefst þess að stefndu verði í sameiningu dæmdir til að greiða sér aðallega 9.170.243 krónur með 2% ársvöxtum frá 27. nóvember 1996 til 9. janúar 1998 og dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla. vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 9. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, en til vara 7.175.310 krónur með sömu vöxtum og dráttarvöxtum og greinir í aðalkröfu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum var veitt fyrir héraðsdómi.

Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefjast þeir að krafa áfrýjanda verði lækkuð og nánar tilteknir ársvextir dæmdir frá 27. nóvember 1996 til 17. október 2000, vextir samkvæmt 7. gr. laga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til þess dags, sem dómur verði kveðinn upp í málinu, en frá þeim tíma beri krafan dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Verði málskostnaður þá látinn falla niður.

Áfrýjandi varð fyrir slysi á Álftanesvegi 31. desember 1990. Ekki er ágreiningur um að stefndu beri í sameiningu fébótaábyrgð á líkamstjóni áfrýjanda vegna slyssins.

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi mat Björn Önundarson örorku áfrýjanda 3. febrúar 1992. Við það mat var litið til brots á hægra sköflungi, mjúkáverka á báðum ganglimum og mjóbaksþreytu, en tekið fram að slasaði telji hana stafa af skökkum stellingum. Í matinu var tekið fram að ekki væri útilokað að síðar meir yrði að endurmeta slasaða í ljósi nýrra eða breyttra einkenna. Varanleg örorka áfrýjanda var metin 25%. Atli Þór Ólafsson mat örorku áfrýjanda 7. maí 1992. Við það mat var einnig litið til áverka á báðum ganglimum og mjóbaksóþæginda. Atli taldi að áverki á vinstra fótlegg hefði jafnað sig að mestu og mælti með að óþægindi hans vegna yrðu bætt með miska. Þá taldi hann að erfitt væri að tengja mjóbaksóþægindi áfrýjanda við slysið. Hann mat varanlega örorku áfrýjanda 15%, sem stafaði öll frá hægri ganglim. Eftir að þetta mat lá fyrir gekk áfrýjandi til samninga við Tryggingu hf., en stefndi Tryggingamiðstöðin hf. kemur í stað þess félags. Við samningsgerðina naut hann aðstoðar lögmanns. Var 2. júlí 1992 gefin út fyrirvaralaus fullnaðarkvittun vegna bóta til áfrýjanda vegna slyssins með greiðslu á 4.600.000 krónum „fyrir allt fjártjón og miska“.

Í héraðsdómi er greint frá þeim matsgerðum, sem síðar hefur verið efnt til um örorku áfrýjanda vegna slyssins, þeirra á meðal matsgerð tveggja dómkvaddra manna 22. febrúar 2002 og yfirmatsgerð þriggja dómkvaddra manna 6. desember það ár. Í báðum matsgerðunum er komist að þeirri niðurstöðu að ekki verði séð að áfrýjandi hafi af völdum slyssins hlotið umtalsverða áverka á höfði, hálsi eða vinstri öxl og talið að varanleg örorka hans vegna slyssins sé 15% er stafi frá áverkum á ganglimum og óþægindum í baki. Þessari niðurstöðu hefur ekki verið hnekkt. Áfrýjanda hefur ekki tekist að sanna að verulegar breytingar hafi orðið á heilsu sinni af völdum slyssins sem ekki hafi verið unnt að sjá fyrir er hann samdi um fullnaðarbætur við félagið. Samkvæmt því verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Málið var þingfest í héraði 5. desember 2000 og hafði verið tekið fyrir 29  sinnum þegar sá héraðsdómari er kvað upp hinn áfrýjaða dóm tók við málinu í þinghaldi 13. janúar 2004. Hafði málinu þá verið frestað allmörgum sinnum án þess að bókað væri í hvaða skyni það hafi verið gert. Er þessi málsmeðferð athugaverð.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

                                                                                                                  

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí 2004.

             Mál þetta, sem dómtekið var 28. apríl 2004, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Sigurði Magnússyni, kt. 010748-2089, Helguvík, Bessastaðahreppi, gegn Viktori Harðarsyni, kt. 050872-5649, Klapparstíg 1, Reykjavík og Trygginga-miðstöðinni hf., kt. 660269-2079, Aðalstræti 6-8, Reykjavík, með stefnu sem birt var 27. nóvember  2000.

Dómkröfur stefnanda eru aðallega að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda in solidum skaða- og miskabætur að fjárhæð 9.170.243 kr. með 2% vöxtum af þeirri fjárhæð frá 27. nóvember 1996 til 9. janúar 1998, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.  Til vara er þess krafist að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda in solidum skaða- og miskabætur að fjárhæð 7.175.310 kr. með 2% vöxtum af þeirri fjárhæð frá 27. nóvember 1996 til 9. janúar 1998, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er krafist máls­kostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eins og málið væri eigi gjaf­sóknarmál.            

             Dómkröfur stefndu eru aðallega að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefn­anda og stefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað að skaðlausu að mati dóms­­ins að viðbættum 24,5% virðisaukaskatti.  Til vara er krafist verulegrar lækkunar á stefnufjárhæð og málskostnaður verði látinn niður falla.  Ef bætur verða að einhverju leyti tildæmdar, er þess krafist, að ársvextir af hinni tildæmdu fjárhæð verði sem hér segir: 0,75% frá 27.11.1996 til 21.1.1997, 0,9% frá þeim degi til 1.5.1997, 1,0% frá þeim degi til 1.4.1998, 0,7% frá þeim degi til 21.10.1998, 0,6% frá þeim degi til 11.4.1999, 0,7% frá þeim degi til 21.1.2000, 1,0% frá þeim degi til 17.10.2000; vextir af skaðabótum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 ásamt síðari breytingum frá þeim degi til 1. júlí 2001 en skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til þess dags, þegar endanlegur dómur hefur verið kveðinn upp, og dráttarvextir skv. III. kafla laganna frá þeim degi til greiðsludags.

 

Helstu málavextir eru að 31. desember 1990 bilaði bifreið er stefnandi ók austur Álfta­nes­veg, milli Presthóls og Sjávarbrautar.  Stefnandi fór út úr bifreiðinni og aftur fyrir hana til að sækja ísvara.  Rétt í þann mund, er hann var búinn að opna skottið, ók bifreið er kom austur Álftanesveg á hann og slasaði stefnanda alvarlega.

             Í læknisvottorði frá Borgarspítalanum 13. febrúar 1991 varðandi stefnanda segir:

 

Hér með vottast að ... kom á Slysadeild Borgarspítalans 31/12 1990 kl. 09:30 með sjúkrabíl.

 

Kveðst hafa staðið fyrir aftan bifreið sína, sem var biluð, á Álftanesvegi og kom þá bíll og ók á hann og klemmdi hann á milli bílanna.  Kvartar yfir óþægindum frá báðum fótum.  Á erfitt með að stíga í fæturna.

 

Skoðun: 

Það kemur í ljós þverbrot á hægri fótlegg með vægri hliðrun.  Þetta brot gips­með­höndlað.  Á vinstri ganglim kemur í ljós sár og mar, bæði á læri og legg, og var um mjúk­vefjaáverka að ræða.  Meðhöndlað með hreyfingu og æfingum.

 

Sjúkl. lá inni á Slysadeild frá 31/12 1990 og allt fram undir 3/1 1991 vegna þessa.

 

Beinbrotið er ekki gróið.  Einkenni frá vinstri ganglim eru gengin til baka.  Áverkinn er alvarlegur og leiðir til nokkuð langvarandi gipsmeðhöndlunar.

 

             Björn Önundarson læknir mat örorku stefnanda af völdum slyssins.  Í örorku­mati hans, sem dagsett er 3. febrúar 1992, segir í niðurstöðu:

 

Þannig er um fjörutíu og þriggja ára gamlan mann að ræða, sem í nefndu slysi varð fyrir broti rétt neðan við miðjan hægri sköflung sinn, auk þess sem hann hlaut mjúk­vefjaáverka á báða ganglimi.  Vel gekk að meðhöndla slasaða og náðist góður situs í brotið.  Slasaði ber þó töluverð einkenni afleiðinga slyssins enda var hér um mikið slys að ræða.

 

Slasaði fær nú verk yfir brotstað rétt neðan miðs hægri sköflungs við tiltölulega lítið álag.  Bólga sígur á þetta svæði og þegar verst lætur fram á ristina.  Þá er verulegur stirð­leiki í hægri ökklalið slasaða og stundum hefur hann óþægindi frá hægra hné.  Einnig þreytist slasaði nú óeðlilega mikið á vinstri ganglim enda telur hann sig leggja meira álag á vinstri fót en eðlilegt getur talist.  Mjóbaksþreyta sækir einnig á slasaða sem slasaði telur stafa af skökkum stellingum.  Slasaði þolir nú illa stöður og gang einkum á ósléttu undirlagi og í stigum.

 

Ekki verður útilokað að til ótímabærra slitgigtarbreytinga geti komið í hægri ökklalið slasaða.  Heldur verður ekki fullyrt að slíkar slitbreytingar geti komið við hægra hnélið og jafnvel í burðarliði vinstri ganglims.  Tíminn verður þó að leiða í ljós hvað úr verður.  Þannig er ekki útilokað að síðar meir verði að endurmeta slasaða í ljósi nýrra eða breyttra einkenna en fullyrða má að það mat yrði einungis til hækkunar.

 

Meira en ár er nú liðið frá því áðurnefnt slys átti sér stað og því eðlilegt að meta nú þá tíma­bundnu og varanlegu örorku, sem slasaði telst hafa hlotið af völdum þessa slyss og þykir sú örorka hæfilega metin sem hér segir:

 

         Í sjö mánuði .............................................................         100%

         Í tvo mánuði .............................................................         50%

         Varanleg örorka ........................................................         25%

 

             Af hálfu stefnanda segir að Vátryggingafélag Íslands hf. hafi greitt honum úr slysa­tryggingu launþega í samræmi við niðurstöðu Björns.  Af hálfu stefndu var hins vegar ekki fallist á að örorkumat Björns yrði lagt til grundvallar, þar sem það þótti ekki nægilega vel rökstutt og örorka metin of há.  Var Atli Þór Ólason læknir því fenginn til að meta að nýju örorku stefnanda.  Í örorkumati hans, sem dagsett er 7. maí 1992, segir undir kaflaheitinu Heildarniðurstaða:

 

Við slysið þann 31.12.1990 varð Sigurður fyrir áverka á hægri sköflung, sem brotnaði en greri í réttstöðu.  Hann hefur óþægindi í hægri ganglim, sem í heild eru metin til 15% varanlegrar örorku.

 

Áverki á vinstri fótlegg leiddi ekki til brota en einungis til mjúkvefjaáverka með bólgu, sem virðist hafa jafnað sig að mestu.  Mælt er með að bæta óþægindi með miska.

 

Mjóbaksóþægindi virðist erfitt að tengja fyrrnefndu slysi þar sem þeirra er ekki getið í með­ferðarskýrslum fyrr en 11 mánuðum eftir það.

 

Heildar varanleg örorka er metin 15%, sem stafar frá hægri ganglim.

 

Eftir að þessar matsgerðir lágu fyrir náðu aðilar samkomulagi um skaðabætur fyrir tjón stefnanda, samtals að fjárhæð 4.600.000 kr. auk vaxta og kostnaðar, er Trygging hf. innti af hendi 2. júlí 1992.

Fimm árum síðar taldi stefnandi ljóst að varanleg örorka sín væri meiri en Atli Þór Ólason bæklunarlæknir hefði talið hana vera.  Leitaði hann til Ernis Snorrasonar læknis.  Læknirinn komst að eftirfarandi niðurstöðu í vottorði sínu frá 28. október 1998:

 

Kvartar um stöðugan höfuðverk samfara honum ljósfælni og svima.  Með væg fronta einkenni, sem gerir að þrek bæði andlegt og líkamlegt er skert.  Þreytugjarn og þessari þreytu fylgir andleg óþægindi, geðillska.

         Mjög væg orgnisk mental einkenni til staðar.  Samt er úrvinnsluhæfni vel yfir meðallag.  Sbr. fyrri geta verulega yfir meðallagi.

         Enda þótt þessi frontal einkenni, sem hér koma fram séu væg geta þau skert talsvert starfsþrek miðað við fyrri getu, enda þótt erfitt sé að meta slíkt í prósentum.

 

Og í vottorði læknisins frá 6. október 1999 segir í niðurstöðu:

 

         Með klinisk einkenni um miklar svefntruflanir og krampa í svefni?  Vaknar þreyttur og með höfuðverk nánast á hverjum degi.

         Organisk mental einkenni eru til staðar.  Úrvinnsluhæfni engu að síður yfir meðallag.  Sbr. fyrri geta verulega yfir meðallag.

         Enda þótt þessi frontal einkenni, sem hér koma fram séu væg geta þau skert talsvert starfsþrek miðað við fyrri getu, enda þótt erfitt sé að meta slíkt í prósentum.

         Klíniskt er þessi einstaklingur með post-traumatiska flogaveiki sbr. nocturnal og er meðferð sbr. trileptal 300 mg 1+2.

         Ljóst er að bílslys 1999 hefur skert vinnugetu þessa einstaklings verulega getur þessi skerðing legið á bilinu 50 til 80% og fer það eftir kröfum umhverfis.

 

             Stefnandi leitaði til Júlíusar Valssonar læknis, sérfræðings í gigtar- og embætt­is­lækningum, til að endurmeta örorku sína.  Í örorkumati hans frá 8. júlí 1999 segir í kaflanum Samantekt og niðurstaða:

 

Slasaði er fimmtugur maður, sem slasaðist alvarlega er ekið var á hann á Álftanesvegi á Gamlársdag.  Mun hann hafa hlotið mikið höfuðhögg með þeim afleiðingum að hann missti meðvitund.  Einnig hlaut hann áverka á vinstra læri og brot á hægra sköfl­ungs­beini.  Slasaði var í talsvert langan tíma frá vinnu á meðan hann var í end­ur­hæfingu eftir slysið.  Eftir slysið hefur borið [á] þrálátum einkennum.  Er þar helst að nefna þráláta höfuðverki, ljósfælni, svima og ógleði.  Svefntruflanir, ein­beit­ing­ar­örðug­leikar og andleg og líkamlega þreyta.  Verkir og stirðleiki í hálsi og baki.  Verkir aftan til í hægra læri.  Verkir í hægra fótlegg og ökkla.  Dofi og kulsækni ásamt bjúgmyndun á hægra fæti.  Beinaskann, sem gert var í júlí 1998 sýndi aukið blóðflæði í DIP liðum II, III og IV bil, í úlnliðum öllum fingurliðum, báðum ökklum, ristum og tám.  Einnig er aukin upptaka distalt í hægri os tibia og báðum AC liðum.

 

Það kemur fram í taugasálfræðilegu mati geðlæknis, að slasaði hefur stöðugan höf­uðverk samfara ljósfælni og svima.  Hann er með væg merki um truflun á framheila eftir áverka, sem veldur skertu starfsþreki.  Að mati undirritaðs er örorka slasaða van­metin í örorkumati Atla Þórs Ólasonar læknis dags. 7. maí 1992, þar sem varanleg ör­orka vegna slyssins er metin 15%.  Þar er ekki tekið tillit til afleiðinga höfuðáverka eða einkenna frá hálsi og baki.  Undirritaður getur hins vegar verið sammála nið­ur­stöðu Björns Önundarsonar læknis í örorkumati hans frá 3. febrúar 1992 þar sem varanleg örorka slasaða er metin 25%.

 

Niðurstöður undirritaðs eru að öðru leyti eftirfarandi:

 

1.        Tímabundin örorka vegna umferðarslyssins þ. 31 desember 1990 er hæfilega metin 100% í sjö mánuði.

2.        Varanleg örorka af völdum umferðarslyssins þ. 31 desember 1990 er hæfilega metin 25% (tuttugu og fimm af hundraði).

 

Af hálfu stefnanda segir að hann hafi farið fram á það við stefnda að mál hans yrði endurupptekið og varanleg örorka hans leiðrétt til samræmis við niðurstöðu Júlíusar Valssonar.  Stefndi hafi hafnað þeirri beiðni og málshöfðun því verið nauð­synleg.  Bifreið tjónvalds hafi verið tryggð lögbundinni bifreiðatryggingu hjá Trygg­ingu hf.  Hinn 1. nóvember 1999 hafi Trygging hf. verið sameinað Trygg­inga­mið­stöð­inni hf.  Sé málsókninni því beint að Tryggingamiðstöðinni hf.

Málið var þingfest á dómþingi 5. desember 2000.  Á dómþingi 4. október 2001 lagði stefnandi fram matsgerð, sem dagsett er 17. september 2001.  Matsgerðin er unnin af Sigurjóni Sigurðssyni lækni.  Þar segir undir fyrirsögninni Ályktun:

 

Í umferðarslysinu þann 31.12.99 [svo] hlaut Sigurður Magnússon eftirfarandi áverka: 1 höfuðhögg, 2 hálstognun, 3 viðbeinsbrot vinstra megin, 4 kramningsáverka á vinstra læri, 5 brot á hægri fótlegg.

 

Vegna afleiðinga höfuðhöggsins hefur Sigurður verið með nær stöðugan höfuðverk sem valdið hefur eirðarleysi, úthaldsleysi, stöðugri þreytu og einbeitingarskorti.  Hálstognun hefur valdið stirðleika og verkjum í hálsi.  Afleiðingar viðbeinsbrotsins við vinstri öxl hafa orsakað skertan kraft í hægri handlim vegna verkja yfir axl­ar­svæðið, afleiðingar höggsins á vinstra læri hafa orsakað vaxandi verki og þreytu í vinstri ganglim, vinstra læri og vinstri mjöðm.  Afleiðingar brotsins á hægri fótlegg haf orsakað stirðleika í hægri ökkla ásamt viðvarandi bjúgsöfnun og stöðugum dofa fram í 1.-4. tá og undir tábergið ásamt kulvísi á báðum fótum.

 

Sýnt er að í fyrri mötum hefur ekki verið tekið tillit til hálstognunar, viðbeinsbrots og höfuðhöggs heldur einungis metnar afleiðingar áverka á báða ganglimi.  Undirritaður telur að afleiðingar áverka á báða ganglimi sé rétt metið 25% hjá Júlíusi Valssyni síðan bætist við afleiðingar hálstognunar, viðbeinsbrots og höfuðhöggsins og samtals gerir þetta því 40% varanleg læknisfræðileg örorka vegna afleiðinga slyssins þann 31.12.1990.

 

Á dómþingi 13. nóvember 2001 lagði lögmaður stefnda fram beiðni um dóm­kvaðn­ingu matsmanna.  Þar segir m.a. að matsgerð Sigurjóns þyki slíkum annmörkum háð að ótækt sé að hún verði lögð til grundvallar við úrlausn þess ágreinings sem í dóms­málinu sé.  Óhjákvæmilegt sé því að kanna betur afleiðingar slyssins og meta að nýju örorku stefnanda.

Til að framkvæma matið voru dómkvaddir Garðar Guðmundsson, sér­fræð­ingur í heila- og taugaskurðlækningum og Yngvi Ólafsson, sérfræðingur í bækl­unar­skurð­lækningum.  Lagt var fyrir þá að skoða og leggja rökstutt mat á eftirfarandi:

1.        Hvaða áverka telst stefnandi og matsþolinn, Sigurður Magnússon, hafa hlotið í um­ferðarslysinu 31. desember 1990.  Í þessu sambandi verði sjúkrasaga hans könnuð rækilega, bæði fyrir og eftir slysið, þannig að unnt verði að greina milli sjúk­dómseinkenna, sem annars vegar megi rekja til greinds slyss og hins vegar einkenna sem eru því óviðkomandi.

2.        Hver er varanleg læknisfræðileg örorka matsþola af völdum slyssins.

 

Á dómþingi 12. mars 2002 var af hálfu stefnda lögð fram matsgerð þeirra Garðars Guðmundsson og Yngva Ólafssonar, dags. 22. febrúar 2002.  Matsgerðin er ítarleg, þrettán blaðsíður.  Í matsgerðinni segir að lokum að matsmenn telji að Sigurður hafi hlotið brot á hægra sköflungi með mjúkpartaáverka á báða fótleggi og vinstra læri.  Til varanlegra einkenna vegna þessa séu verkir í fótum og bjúgsöfnun auk þess sem mjóbaksóþægindi séu meðal afleiddra óþæginda.  Þá verði ekki séð að hann hafi hlotið umtalsverða áverka á höfuð, háls eða vinstri öxl.

Varanlega læknisfræðilega örorku matsþola af völdum slyssins meta læknarnir fimmtán af hundraði (15%).

Á dómþingi 12. apríl 2002 lagði lögmaður stefnanda fram beiðni um dóm­kvaðningu yfirmatsmanna.  Á þinginu voru dómkvaddir til að framkvæma matið þeir Sigurður Thorlacius tryggingayfirlæknir, Halldór Jónsson bæklunarskurðlæknir og Stefán Carlson bæklunarskurðlæknir.  Halldór skoraðist undan að taka að sér starfann.  Var því Ríkharður Sigfússon bæklunarlæknir dómkvaddur í hans stað á dómþingi 19. sama mánaðar.  Enn síðar kom í ljós að Sigurður Thorlacius tryggingayfirlæknir skor­aðist undan að taka að sér starfann þar sem hann taldi sig vanhæfan vegna fyrri af­skipta sinna af málinu.  Var því Torfi Magnússon taugalæknir dómkvaddur í hans stað á dómþingi 23. september 2002.

Á dómþingi 24. janúar 2003 var yfirmatsgerðin lögð fram.  En hún er dagsett 6. desember 2002.  Matsgerðin er ítarleg sautján blaðsíðna greinargerð þar sem m.a. segir að í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga sé ekki hægt að sýna fram á að stefnandi hafi hlotið höfuðhögg í slysinu á gamlársdag 1990.  Og niðurstaða yfirmatsmannanna er sú að áverkar stefnanda, sem teljast geti bein afleiðing slyssins 31. desember 1990, séu brot á hægri sköflungi og mjúkvefjaáverkar á fótlegg, sár á vinstri fótlegg og mar á vinstra læri, sem orsaka þreytuverk í vinstri ganglim, og að lokum þreytuverkir í baki, sem hófust í kjölfar breytts álags á ganglimi.  Varanlega örorku telja yfir­mats­menn 15%.

Á dómþingi 28. apríl 2003 var af hálfu stefnanda lögð fram beðni um að mál­inu yrði vísað til Læknaráðs.  Þá var á dómþingi 4. júlí 2003 af hálfu stefnanda lagður fram listi með athugasemdum varðandi spurningar sem óskað var eftir að lagðar yrðu fyrir Læknaráð.  Á dómþingi 5. ágúst 2003 var með úrskurði lagt fyrir Læknaráð að svara spurningunni: Telur Læknaráð líklegt, miðað við fyrirliggjandi gögn, að rekja megi áverka á vinstri öxl stefnanda til slyssins 31. desember 1990.  Á dómþingi 27. nóvember 2003 var skriflegt svar réttarmáladeildar Læknaráðs lagt fram í málinu.  Þar segir að læknaráð telji ólíklegt, miðað við fyrirliggjandi gögn, að áverka á vinstri öxl stefnanda megi rekja til slyssins 31. desember 1990.  Í bréfinu kemur fram rök­stuðn­ingur fyrir skoðun Læknaráðs.

 

Stefnandi byggir málshöfðun sína á því að stefndu beri óskipta ábyrgð á tjóni hans.  Stefndi, Viktor Harðarson, hafi verið skráður eigandi bifreiðarinnar G-4109, er ekið var á stefnanda 31. desember 1990.  Ábyrgð Viktors styðjist því við 90. gr. um­ferðarlaga nr. 50/1987.  Trygging hf. hafi verið ábyrgðartryggjandi bifreiðarinnar skv. 91. gr. laganna, en stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., hafi tekið við skyldum Trygginga hf.  Tryggingafélagið hafi viðurkennt fébótaábyrgð sína með greiðslu bóta á grund­velli örorkumats Atla Þórs Ólasonar, dags. 7. maí 1992.  Með þeirri greiðslu hafi tjón stefnanda ekki verið að fullu bætt, enda hafi varanleg örorka hans síðar verið metin meiri en Atli hafi talið hæfilega.

             Stefnandi byggir á því að mat Júlíusar Valssonar læknis frá 8. júlí 1999 á var­an­legri örorku stefnanda sé mun nákvæmara og ítarlegra og gefi raunhæfari og gleggri mynd af heilsufarslegu ástandi stefnanda frá slysdegi en matsgerðir þeirra Björns Önundar­sonar og Atla Þórs Ólasonar.  Júlíus hafi tekið mið af þáttum, er vörðuðu áverka, er stefnandi hlaut í slysinu á höfði, hálsi og baki, sem bæði Björn og Atli Þór hafi sleppt í sínum mötum.

             Á því er byggt að forsendur séu brostnar fyrir því, að greiðsla trygginga-félagsins til stefnanda 2. júlí 1992 geti talist vera endanlegar bætur, þar sem örorka stefnanda hafi reynst vanmetin og mun meiri en þá hafi verið gert ráð fyrir.  Þegar stefnandi gekk frá uppgjöri við tryggingafélagið hafi hann mátt treysta því að örorkumat Atla Þórs væri rétt og örorka hans ekki meiri en þar segir.

             Aðalkröfu sína byggir stefnandi á örorkumati Júlíusar Valssonar.  Hann gengur út frá því að tjón vegna tímabundinnar örorku hafi verið greitt að fullu 2. júlí 1992.  Jón Erlingur Þorláksson tryggingafræðingur hafi reiknað út tekjutap hans vegna varanlegrar örorku með hliðsjón af örorkumatinu, þ.e. 25% varanlegri örorku.  Krafan, samtals að fjárhæð 9.170.243 krónur, er sundurliðuð og gerð grein fyrir forsendum og laga­heimildum einstakra liða kröfunnar í stefnu.

             Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að með greiðslu 2. júlí 1992 til stefnanda hafi tryggingafélagið að öllu leyti gert upp varanlega 15% örorku stefnanda, geri stefnandi varakröfu um skaðabætur vegna viðbótarörorku stefnanda, þ.e. mis­munar varanlegrar örorku skv. örorkumati Júlíusar Valssonar og þeirrar örorku er upp­gjör tryggingafélagsins miðast við.  Höfuðstólsverðmæti tekjutaps stefnanda miðað við 10% örorku verði samkvæmt útreikningum Jóns Erlings Þorlákssonar trygg­inga­fræðings 7.280.600 krónur - að frádregnum 15% af þeirri fjárhæð vegna skattfrelsis og eingreiðsluhagræðingar, en að viðbættum miskabótum, að fjárhæð 550.000 kr., og álagi vegna tapaðra lífeyrisréttinda (6% af 7.280.600 krónum) - nemi varakrafan því samtals 7.175.310 krónum.

 

Af hálfu stefndu er byggt á því að með bótagreiðslum, sem inntar voru af hendi 2. júlí 1992, hafi samkomulag orðið um fullnaðarbætur til stefnanda á grundvelli þeirra gagna sem þá lágu fyrir um líkamstjón stefnanda, þ. á m. matsgerðir Björns Önundarsonar og Atla Þórs Ólasonar.  Við uppgjörið hafi þannig verið tekið mið af ör­orkumati Björns til jafns við örorkumat Atla Þórs.  Í uppgjörinu hafi því falist fulln­að­arbætur fyrir líkamstjón stefnanda sem lýst er í báðum matsgerðunum, þ.e. sjúk­dóms­einkenni í báðum fótlimum og mjóbaki.

             Þótt samið hafi verið um fullnaðarbætur í einu lagi fyrir tímabundna og var­an­lega örorku og miska sé augljóst af þeim tillögum sem fóru á milli aðila, svo og sjón­ar­miðum sem aðilar reifuðu til stuðnings tillögum sínum áður en samkomulag varð, að upp­hæðin sem um var samið tók að jöfnu mið af fyrirliggjandi matsgerðum.  Að auki hafi útreiknað örorkutjón verið lækkað um u.þ.b. 15,5% vegna breytingar á tekju­við­miðun þannig að miðað var við meðaltal umreiknaðra tekna stefnanda árin 1984 til 1989 í stað áranna 1985 til 1987, eins og miðað var við í tjónsútreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar frá 16. mars 1992.  Þá hafi frádráttur vegna skattfrelsis og ein­greiðslu­hagræðis verið um 31% og ætlað sé að bætur fyrir tímabundna örorku hafi numið 936.000 kr.  Þá hafi báðir aðilar orðið sammála um miskabætur að fjárhæð 250.000 kr.  Í grófum dráttum megi sundurliða umsamdar bætur með þessum hætti:

 

                         Tímabundin örorka                         936.000 kr.

                         Varanleg örorka og töpuð lífeyrisréttindi                         3.414.000 kr.

                         Miski                         250.000 kr.

 

                         Samtals                         4.600.000 kr.

 

             Vísað er til þess að af fyrirliggjandi gögnum verði ekki ráðið að stefnandi hafi kvartað undan einkennum frá höfði fyrr en hann var til skoðunar vegna örorkumats hjá Júlíusi Valssyni á árinu 1998.  Þá hafi stefnandi ekki kvartað undan einkennum frá hálsi fyrstu árin eftir slysið.  Ennfremur er mótmælt að brot á axlarbeini verði rakið til slyssins.

             Þar sem ósannað sé að þau viðbótareinkenni, sem fram koma í örorkumati Júlíusar Valssonar, megi rekja til slyssins í árslok 1990, séu ekki skilyrði til að taka upp að nýju bótamál stefnanda.

             Varakrafa um að lækka beri stefnukröfur verulega er reist á því að þær séu tölu­lega of háar og ekki nægilega rökstuddar.  Vísað er til þess að aðalkrafa stefnanda sé grundvölluð á bótum fyrir 25% varanlega örorku og á nýjum tjónsútreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar þar sem útreikningur tjónsins miðist við umreiknaðar meðal­tekjur stefnanda árin 1985 til 1987.  Jafnfram sé krafist miskabóta að fjárhæð 800.000 kr.  Bent er á að bætur fyrir líkamstjón stefnanda hafi verið gerðar upp 2. júlí 1992 þar sem miðað hafi verið við því sem næst 20% varanlega örorku.  Útilokað sé því að aðal­krafa stefnanda geti komið til álita.

             Komi bótagreiðsla að einhverju leyti til álita verði við það að miða að bætur fyrir 20% varanlega örorku séu uppgerðar.  Einungis komi því til skoðunar bætur fyrir 5% örorku, þ.e. þá örorku sem upp á vantar til að 25% örorka teljist að fullu bætt.  Útreiknað örorkutjón vegna 10% örorku beri því að lækka um helming svo og um 15,5% þar sem miða beri við meðaltal umreiknaðra tekna árin 1984 til 1989 í stað áranna 1985 til 1987.  Þá beri venju samkvæmt að draga frá um 30% vegna skattfrelsis og eingreiðsluhagræðis.

             Á sama hátt og örorkubætur beri að lækka útreiknað tjón vegna tapaðra lífeyr­is­réttinda um helming, þar sem óbætt örorka nemi að hámarki 5% en ekki 10%, og enn­fremur um 15,5% vegna leiðréttingar á tekjuviðmiðun.

             Hvernig sem málið fer verði að telja að ekki séu skilyrði til að krefjast frekari miska­bóta.  En verði ekki á það fallist geti slíkar bætur þó að hámarki numið 100.000 kr. til viðbótar þeim miskabótum sem áður voru greiddar.

             Vísað er til þess að réttur stefnanda til frekari bóta en inntar voru af hendi við upp­gjörið 2. júlí 1992 sé umdeildur.  Að því marki sem frekari bætur kunni að koma til álita sé ljóst að þær muni að öllu leyti byggjast á mati á fyrirliggjandi gögnum um sönnun á tjóni stefnanda og hvort yfir höfuð séu skilyrði til endurupptöku málsins.  Eðlilegt sé að ágreiningi aðila sé skotið til úrlausnar dómstóla.  Ótækt sé því að krafa stefnanda beri dráttarvexti, sem í raun séu fyrst og fremst refsivextir á skýrar og óum­deildar kröfur, fyrr en dómur fellur.

 

Stefnandi gaf skýrslu fyrir rétti og lýsti m.a. hvernig heilsu hans væri háttað nú.

 

Brynjólfur Jónsson læknir gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann sagði m.a. að ekki kæmi glögg­lega fram í dagbók spítalans [Borgarspítalans] að stefnandi hafi fengið höfuð­högg enda þótt hann hafi í læknisvottorði sínu [frá 2. maí 1991, dskj. nr. 6] sagt að stefnandi hefði fengið högg á höfuðið.  Hann staðfesti að hafa gefið læknisvottorð varðandi stefnanda er fram koma á dskj. nr. 6, nr. 29 [frá 13. febrúar 1991] og nr. 47 [frá 16. janúar 1992].

 

Agnes Sigríður Agnarsdóttir, eiginkona stefnanda, gaf skýrslu fyrir rétti.  Hún sagði m.a. að eftir slysið hafi stefnandi verið að mestu rúmliggjandi í u.þ.b. þrjá mánuði og haldið sig heima í a.m.k. tíu mánuði.  Hún kvaðst þó ekki alveg muna þetta.  Hún sagði að hann hefði verið á mjög sterkum verkjalyfjum eftir slysið þar til í mars eða apríl að henni hafi fundist nóg komið af mikilli inntöku þessara sterku verkjalyfja.  Hafi hann þá dregið úr þessari lyfjatöku „trappað sig út af þeim".  Hann hafi verið mjög slæmur af verkjum en þó hafi honum tekist að minnka töku verkjalyfja.

 

Ernir Kristján Snorrason læknir gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann staðfesti m.a. að hafa gefið læknisvottorð varðandi stefnanda [frá 28. október 1998 og 6. október 1999] sem fram komi á dskj. nr. 16.

 

Atli Þór Ólason læknir gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann staðfesti að hafa metið örorku stefnanda svo sem fram kemur á dskj. nr. 9 [frá 7. maí 1992].

 

Sigurjón Sigurðsson læknir gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann staðfesti að hafa metið örorku stefnanda svo sem fram kemur á dskj. nr. 34 [frá 17. september 2001]. 

 

Magnús A. Lúðvíksson læknir gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann staðfesti að hafa ritað bréf til Lögborgar ehf. [frá 23. maí 2003] sem liggur fyrir í málinu í myndriti sem fylgi­skjal með dskj. nr. 44, sem er bréf lögmanns stefnanda til Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí 2003.

 

Ágúst Kárason læknir gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann sagði m.a. að hann hefði gert aðgerð á öxl stefnanda á árinu 2000.  Kvaðst hann hafa skoðað röntgenmyndir fyrir að­gerðina sem bentu til þess að þarna væri einhver gamall áverki, beinbiti í við­beins­liðnum vinstra megin, brot í endanum á viðbeininu.  Hafi þetta rauna komið í ljós í að­gerðinni.

 

Júlíus Valsson læknir gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann staðfesti að hafa metið örorku stefnanda svo sem fram kemur á dskj. nr. 18 [frá 8. júlí 1999].

 

Yngvi Ólafsson læknir gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann staðfesti að hafa ásamt Garðari Guðmundssyni lækni sem dómkvaddur matsmaður í álitsgerð, dags. 22. febrúar 2002, sem liggur frammi í málinu sem dskj. nr. 36, lagt rökstutt mat á:  Í fyrsta lagi hvaða áverka stefnandi og matsþolinn, Sigurður Magnússon, hlaut í umferðarslysi.  Hafi í því sambandi verið mælst til að sjúkrasaga hans yrði könnuð rækilega, bæði fyrir og eftir slysið, þannig að unnt yrði að greina á milli sjúkdómseinkenna, sem annars vegar mætti rekja til umrædds slyss og hins vegar einkenna sem væru því óviðkomandi.  Og í öðru lagi hver varanleg læknisfræðileg örorka matsþola væri af völdum slyssins.

 

Ríkharður Sigfússon læknir gaf skýrslu gegnum síma frá Ísafirði. Hann staðfesti að hafa ásamt læknunum Stefáni Carlssyni og Torfa Magnússyni unnið sem dómkvaddur mats­maður yfirmatsgerð, dags. 6. desember 2002, sem fram kemur á dskj. nr. 41 í málinu.

 

 

Stefán Carlsson læknir gaf skýrslu fyrir rétti. Hann staðfesti að hafa ásamt læknunum Ríkharði Sigfússyni og Torfa Magnússyni unnið sem dómkvaddur matsmaður áður nefnda yfirmatsgerð.

 

Torfi Magnússon læknir gaf skýrslu fyrir rétti. Hann staðfesti að hafa ásamt læknunum Ríkharði Sigfússyni og Stefáni Carlssyni unnið sem dómkvaddur matsmaður áður nefnda yfirmatsgerð.

 

Björn Önundarson læknir gaf skýrslu gegnum síma.  Hann staðfesti að hafa metið örorku stefnanda svo sem fram kemur á dskj. nr. 7 [frá 3. febrúar 1992].

 

Ályktunarorð:  Gengið var frá samkomulagi um fullnaðarbætur fyrir tjón stefnanda með greiðslu Tryggingar hf. til stefnanda 2. júlí 1992.  Var þá tekið mið af því að örorka stefnanda hefði annars vegar verið metin 25% og hins vegar 15%.

             Með bréfi til tryggingafélagsins 9. desember 1997 fór stefnandi fram á að fá end­urupptekið uppgjör á líkamstjóni sínu vegna umferðarslyssins 31. desember 1990.  Og með bréfi 13. júlí 1999 til tryggingafélagsins krafðist stefnandi endurupptöku á grund­velli örorkumats Júlíusar Valssonar læknis frá 8. júlí 1999, en hann mat var­anlega örorku stefnanda af völdum umferðarslyssins 25%.

             Dómkvaddir matsmenn mátu hins vegar 22. febrúar 2002 varanlega lækn­is­fræði­lega örorku stefnanda af völdum slyssins 15%.  Og dómkvaddir yfirmatsmenn komust að sömu niðurstöðu 6. desember 2002.  Ekki eru efni til að vefengja þessa niðurstöðu fimm dómkvaddra matsmanna.

             Að jafnaði fer heilsu manna hrakandi með aldrinum.  Ekki þarf alvarlegt slys til þess.  Bótauppgjörið 2. júlí 1992 var reist á 15 - 25% örorku.  Þær breytingar, sem kunna að hafa orðið á heilsu stefnanda frá þeim tíma vegna slyssins, hafa ekki leitt til verulega hærri varanlegrar læknisfræðilegrar örorku stefnanda.  Ekki er því lögmæt ástæða fyrir stefnanda til að krefjast frekari bóta af stefnda en innt var af hendi af hálfu Tryggingar hf. 2. júlí 1992.  Ber því að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

             Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

             Með bréfi dómsmálaráðherra 12. október 2000 fékk stefnandi gjafsókn í máli þessu.  Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði segir.

             Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

             Stefndu, Viktor Harðarson og Tryggingamiðstöðin hf., skulu sýkn af kröfum stefnanda, Sigurðar Magnússonar.

             Málskostnaður fellur niður.  Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkis­sjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda sem hæfileg þykir 800.000 krónur.