Hæstiréttur íslands
Mál nr. 635/2009
Lykilorð
- Stefnubirting
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Fimmtudaginn 16. september 2010. |
|
Nr. 635/2009.
|
C (Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.) gegn B (Jónas Þór Guðmundsson hrl.) |
Stefnubirting. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 40/2009 var faðernismáli C á hendur B vísað frá Hæstarétti þar sem skilyrðum 89. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til birtingar stefnu í Lögbirtingablaðinu var ekki fullnægt. Málið var nú komið öðru sinni fyrir Hæstarétt en í öllum meginatriðum í sama horfi og áður. C lagði nú meðal annars fram gögn er vörðuðu tilraunir til að birta áfrýjunarstefnu fyrir B á tilteknu heimilisfangi í Bretlandi. Þær báru ekki árangur og var áfrýjunarstefnan á ný birt í Lögbirtingablaðinu. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að meðal gagna málsins væru upplýsingar um enskar reglur um birtingu stefnu og af þeim yrði ráðið að úrræði væru þar fyrir hendi til að koma fram birtingu, þótt núverandi heimilisfang þess sem birta ætti fyrir væri óþekkt. Af þessum sökum hefði C við málskot sitt í þetta sinn ekki bætt úr þeim annmörkum sem vísað var til í dómi réttarins í máli nr. 40/2009 og því óhjákvæmilegt að vísa málinu öðru sinni frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. nóvember 2009 og krefst að viðurkennt verði að stefndi sé faðir hans. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar úr ríkissjóði.
Stefndi hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Honum hefur með vísan til 13. gr. barnalaga nr. 76/2003 verið skipaður málsvari fyrir réttinum, sem krefst aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst hann þóknunar úr ríkissjóði.
Í áfrýjunarstefnu lét áfrýjandi þess getið að stefndi sé „til heimilis á Englandi. Við birtingu héraðsstefnu var heimilisfang stefnda að [...], Englandi. Við fyrri tilraun til birtingar áfrýjunarstefnu var birting reynd á framangreindu heimilisfangi en birting tókst ekki. Ekki er vitað um annað heimilisfang stefnda.“ Áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt gögn, sem varða tilraunir til að birta áfrýjunarstefnu fyrir stefnda, meðal annars með atbeina utanríkisráðuneytisins og sendiráðs Íslands í London, en þær báru ekki árangur. Áfrýjunarstefnan var síðan birt með auglýsingu í Lögbirtingablaði með svofelldri skýringu áfrýjanda: „Meðfylgjandi áfrýjunarstefna er birt á grundvelli 1. mgr. 89. gr. laga nr. 91/1991. Stefna til héraðsdóms var birt á tilteknu heimilisfangi stefnda. Birting áfrýjunarstefnu á sama heimilisfangi ... hefur verið reynd í tvígang samkvæmt breskum lögum en án árangurs. Ekki er kunnugt um annað heimilisfang eða dvalarstað stefnda í Bretlandi og upplýsinga verður ekki aflað um hvar megi birta stefnu eftir almennum reglum og er stefna því birt í Lögbirtingablaðinu skv. 89. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.“
Með dómi 22. október 2009 í máli nr. 40/2009 var máli þessu vísað frá Hæstarétti, þar sem hvorugu þeirra skilyrða, sem sett eru í 1. mgr. 89. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að upplýsinga verði ekki aflað um hvar birta megi stefnu eftir almennum reglum eða erlend yfirvöld neiti eða láti hjá líða að verða við ósk um birtingu samkvæmt 90. gr. laganna, hafi þá verið fullnægt til að birta áfrýjunarstefnu í Lögbirtingablaði, svo sem þar hafði verið gert. Málið er nú komið öðru sinni fyrir Hæstarétt, en í öllum meginatriðum í sama horfi og áður. Meðal gagna áfrýjanda eru upplýsingar um enskar reglur um birtingu stefnu, en af þeim verður ráðið að úrræði eru þar fyrir hendi til að koma fram birtingu þótt núverandi heimilisfang þess, sem birta á fyrir, sé óþekkt. Af þessum sökum hefur áfrýjandi við málskot sitt í þetta sinn ekki bætt úr þeim annmörkum, sem vísað var til í dómi réttarins 22. október 2009. Af sömu ástæðum er því óhjákvæmilegt að vísa málinu öðru sinni frá Hæstarétti.
Með vísan til 11. gr. og 13. gr. barnalaga greiðist úr ríkissjóði málskostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti, þar með talin þóknun lögmanns hans, svo og þóknun skipaðs málsvara stefnda, allt eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Málskostnaður áfrýjanda, C, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 300.000 krónur.
Þóknun Jónasar Þórs Guðmundssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs málsvara stefnda, B, 300.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.