Hæstiréttur íslands
Mál nr. 505/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Reynslulausn
- Skilorðsrof
- Fullnusta refsingar
|
|
Þriðjudaginn 5. ágúst 2014. |
|
Nr. 505/2014. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Karl Ingi Vilbergsson aðstoðarsaksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Reynslulausn. Skilorðsrof. Fullnusta refsingar.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að afplána eftirstöðvar fangelsisrefsingar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson og Viðar Már Matthíasson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. júlí 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júlí 2014, þar sem varnaraðila var gert að sæta afplánun á 600 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 6. ágúst 2009, sem honum var veitt reynslulausn á til tveggja ára frá 31. júlí 2012. Kæruheimild er í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fallist er á það með héraðsdómi að fullnægt sé skilyrðum 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 til að varnaraðila verði gert að afplána eftirstöðvar refsingar samkvæmt fyrrgreindum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 18. júlí 2014.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að X, kt. [...], verði gert að afplána 600 daga eftirstöðvar refsingar dóms Héraðsdóms Reykjavíkur nr. [...]/2009, sbr. reynslulausn sem honum var veitt af Fangelsismálastofnun ríkisins þann 31. júlí 2012.
Í greinargerð lögreglustjórans kemur fram að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 6. ágúst 2009 nr. [...]/2009 hafi kærði hlotið fimm ára fangelsisdóm fyrir stórfellt fíkniefnabrot sem heimfært hafi verið til 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með ákvörðun fangelsismálastofnunar ríkisins 31. júlí 2012 hafi honum verið veitt reynslulausn á eftirstöðvum 600 daga refsingar, sem bundin hafi verið almennu skilorði til tveggja ára.
Lögregla hafi nú m.a. til rannsóknar ofbeldis-, hótunar- og frelsissviptingarbrot kærða, þar sem honum sé gefið að sök að hafa í félagi við meðkærðu Y og Z aðfaranótt sunnudagsins 6. júlí sl., svipt A frelsi sínu, við [...], við [...] í [...], sett poka yfir höfuð hans og ekið honum að geymsluhúsnæði við [...] í [...] og þar lamið hann ítrekað með kúbeini í höfuð og líkama og hafi hótað honum frekari líkamsmeiðingum og lífláti, með þeim afleiðingum að A hafi hlotið höfuðkúpubrot, nefbrot og ristarbrot, auk annarra áverka, s.s. skurði á enni og á kálfa.
Í málinu liggi fyrir greinargóður og trúverðurgur framburður A um ofangreinda árás, sem fái stoð í framburðum B, C og D, en þau hafi öll lýst því hvernig kærðu hafi tekið A og ekið honum á brott. Þau sönnunargögn og þær athuganir sem lögregla hefur aflað í máli þessu styðji sömuleiðis ótvírætt frásögn brotaþola A. Lögregla hafi t.a.m. lagt hald á bifreið þá sem A kvaðst hafa verið fluttur í umrædda nótt. Bifreiðin hafi verið í umráðum kærða Y. Í bifreiðinni hafi verið að finna staðsetningarbúnað og megi sjá að sú leið sem farin var í umrætt sinn sé í samræmi við þá akstursleið sem A hafi lýst. Í bifreiðinni hafi verið að finna blóðbletti og blóðkám sem lögregla ætli að séu úr A. Lögregla hafi rannsakað geymslurými að [...], sem sé húsnæði á vegum kærða X. Sú lýsing sem A hafi gefið á húsnæðinu og þeim munum sem þar hafi verið að finna komi heim og saman við húsnæðið. Í húsnæðinu hafi verið að finna blóðbletti og blóðslettur, m.a. í hvítum sófa, en A hafi lýst því að hann hafi sest í hvítan sófa á meðan barsmíðunum stóð. Þá hafi lögregla fundið blóðuga hanska í húsnæðinu og sömuleiðis kúbein, sem lögregla ætli að hafi verið notað í umrætt sinn. Í málinu liggi fyrir símhringingar milli hinna kærðu og A rétt fyrir árásina. Þá liggi fyrir að þegar kærðu hafi verið handteknir á bifreiðinni [...], skömmu eftir árásina, hafi lögregla fundið og lagt hald á glæran plastpoka sem í hafi verið blóðugur fatnaður, þ.e. peysa og jakki, sem séu samskonar þeim sem kærðu Y og X höfðu verið í er árásin hafi átt sér stað. Auk þessa liggi fyrir myndbandsupptökur sem styrkja framburð A, svo og læknisfræðileg gögn.
Kærði hafi kosið að svara ekki spurningum lögreglu um þau atriði sem honum sé gefið að sök, en hann hafi sætt gæsluvarðhaldi m.t.t. rannsóknarhagsmuna frá 6. júlí sl. Rannsókn málsins sé á lokastigi og verði málið sent ríkissaksóknara á næstu dögum til ákvörðunar um saksókn.
Það sé mat lögreglustjóra að lagaskilyrðum 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsingar séu uppfyllt í máli þessu, enda sé kærði nú undir sterkum grun um að hafa brotið gegn 2. mgr. 218. gr. og 226. gr. almennra hegningarlaga og þannig með háttsemi sinni rofið gróflega almenn skilyrði reynslulausnar. Það beri því að taka kröfu lögreglustjóra til greina.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsingar sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Kærða var veitt reynslulausn á eftirstöðvum fangelsisrefsingar 31. júlí 2012. Í ákvörðun Fangelsismálastofnunar um það segir til samræmis við 2. mgr. 64. gr. laga nr. 49/2005, að skilyrði hennar séu: „ Að aðili gerist ekki sekur um nýtt brot á reynslutímanum.“ Kærði er grunaður um að hafa í félagi við tvo menn framið brot sem varðað við 2. mgr. 218. gr., 226 og 231. gr. almennra hegningarlaga. Kærði hefur neitað sök en jafnframt neitað að tjá sig um sakarefnið hjá lögreglu. Samkvæmt rannsóknargögnum liggur fyrir sterkur grunur um að kærði hafi í félagi við aðra gerst sekur um frelsissviptingu og alvarlega líkamsárás. Er með þessu fullnægt skilyrðum 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um að hann hafi á reynslutímanum rofið gróflega almenn skilyrði reynslulausnarinnar og að fyrir liggi sterkur grunur um að hann hafi framið brot sem varðað getur sex ára fangelsi. Samkvæmt ofanrituðu þykja uppfyllt skilyrði til þess að verða við kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að kærða verði gert að afplána 600 daga eftirstöðvar refsinga sem honum var veittur með ákvörðun Fangelsismálastofnunar um reynslulausn 31. júlí 2012.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kærði, X, kt. [...], skal afplána 600 daga eftirstöðvar refsingar dóms Héraðsdóms Reykjavíkur nr. [...]/2009.