Hæstiréttur íslands
Mál nr. 371/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarvistun
|
|
Föstudaginn 1. júní 2012. |
|
Nr. 371/2012.
|
A (Brynjólfur Eyvindsson hdl.) gegn B (Páll Arnór Pálsson hrl.) |
Kærumál. Nauðungarvistun.
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um nauðungarvistun A á sjúkrahúsi, sem ákveðin hafði verið var af innanríkisráðuneytinu 11. maí 2012.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. maí 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. maí 2012, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi nauðungarvistun hans á sjúkrahúsi í allt að 21 sólarhring, sem samþykkt var af innanríkisráðuneytinu 11. sama mánaðar. Kæruheimild er í 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að nauðungarvistun verði felld úr gildi og kærumálskostnaður greiddur úr ríkissjóði.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og þóknunar til handa skipuðum talsmanni sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Samkvæmt 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og skipaðs talsmanns varnaraðila, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 100.400 krónur til hvors þeirra um sig, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. maí 2012.
Með kröfu, sem dagsett er 11. þ.m. og þingfest var í dag, hefur A, kt. og heimilisfang, [...], krafist þess að felld verði úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins, 11. f.m., um það að hann skuli vistast á sjúkrahúsi. Kröfunni er mótmælt af hálfu varnaraðila, B, kt. [...], sem er faðir sóknaraðila.
Um aðild vísast til 20. gr., sbr. a-lið 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997.
Fyrir liggur í málinu staðfest vottorð C geðlæknis, dagsett 10. maí sl., um það að sóknaraðili sé haldinn aðsóknargeðklofa (schizophrenia paranoides) og að hann hafi ekkert sjúkdómsinnsæi. Þá segir þar að sóknaraðili hafi hætt að taka lyf við sjúkdóminum fyrir síðustu jól og ástand hans versnað að undanförnu. Borið hafi á mikilmennskuhugmyndum hjá honum, sem jaðri við ranghugmyndir, en einnig hafi borið á sjálfsvígshugsunum. Mikil hætta sé á því að honum versni enn frekar fái hann ekki viðeigandi meðferð. Gæti hann þá orðið hættulegur sjálfum sér. Nauðungarvistun sé því óhjákvæmileg.
Dómarinn álítur að nægilega sé í ljós leitt að brýn nauðsyn sé til þess að sóknaraðili dvelji áfram á sjúkrahúsi og fái þar þá læknishjálp, sem í boði er, og að honum verði jafnframt forðað frá frekara heilsutjóni eða jafnvel bana. Ber því, með vísan til 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga að ákveða að ákvörðun ráðuneytisins skuli haldast.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða úr ríkissjóði þóknun skipaðra talsmanna aðilanna, Brynjólfs Eyvindssonar hdl. og Páls Arnórs Pálssonar, hrl., 50.000 krónur til hvors um sig. Þóknunin er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Staðfest er ákvörðun innanríkisráðuneytisins, 11. maí 2012, um að sóknaraðili, A, kt. og heimilisfang [...], skuli vistast á sjúkrahúsi.
Kostnaður af málinu, þ.m.t. þóknun til talsmanna aðilanna, Brynjólfs Eyvindssonar hdl. og Páls Arnórs Pálssonar, hrl., 50.000 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.