Hæstiréttur íslands

Mál nr. 229/2010


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Ráðningarsamningur
  • Uppsögn
  • Kjarasamningur
  • Orlof
  • Laun


Fimmtudaginn 10. febrúar 2011.

Nr. 229/2010.

Brim hf.

(Elvar Örn Unnsteinsson hrl.)

(Eiríkur Gunnsteinsson hdl.)

gegn

Pétri S. Sigurðssyni

(Jónas Þór Jónasson hrl.)

(Friðbjörn Garðarsson hdl.)

Sjómenn. Ráðningarsamningur. Uppsögn. Kjarasamningur. Orlof. Laun.

S starfaði sem bátsmaður hjá B á skipinu Á. Í byrjun júlí 2008 var honum tilkynnt að rekstri skipsins yrði hætt. Áður en skipið fór í síðustu veiðiferðina, eða 17. júlí 2008, ritaði S undir samkomulag þar sem tekið var fram að S lyki störfum eftir ferðina og B myndi  greiða honum kauptryggingu í einn mánuð án þess að krefjast vinnuframlags hans í uppsagnarfresti, enda færi S ekki fram á frekari greiðslur frá B vegna starfslokanna. Í málinu krafðist S greiðslu vangreiddra launa í þriggja mánaða uppsagnarfresti. Talið var að fyrrgreint samkomulag um greiðslu launa í einn mánuð í uppsagnarfresti væri um lakari kjör en kjarasamningur kvað á um og það því ógilt af þeim sökum samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. S ætti rétt á launum í þriggja mánaða uppsagnarfresti, sem svaraði samkvæmt 9. gr. og 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og ákvæðum kjarasamnings til meðallauna í einn mánuð og kauptryggingar aðra tvo, en S hefði þegar fengið greidda kauptryggingu vegna eins mánaðar. Óumdeilt var með aðilum að meðallaun skyldu reiknast frá heildarlaunum S frá 1. janúar til loka júlí 2008, en S byggði meðal annars á því að við útreikning þeirra bæri að miða meðaltal launa við lögskráningardaga, sem voru innan við helmingur þeirra daga sem hann var ráðinn til starfa hjá B, en ekki almanaksdaga. Þessu var hafnað í Hæstarétti og talið óhjákvæmilegt að beita meðallaunum fyrir hvern almanaksdag á fyrrnefndu sjö mánaða tímabili. Samkvæmt framansögðu var S gert að greiða 759.026 krónur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. apríl 2010. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð, dráttarvextir dæmdir frá 23. nóvember 2008 og málskostnaður á báðum dómstigum felldur niður.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Eins og nánar greinir í héraðsdómi kveðst stefndi hafa starfað sem bátsmaður á fiskiskipinu Árbaki RE 205 í eigu áfrýjanda, en samkvæmt gögnum málsins var hann ráðinn netamaður á skipinu með samningi aðila 14. desember 2007. Stefndi mun hafa verið fjarverandi 7. maí 2008 þegar útgerðarstjóri áfrýjanda hafi tilkynnt áhöfn skipsins að útgerð þess og rekstur væru í skoðun. Af þeim sökum yrði þeim, sem þess óskuðu, boðið að breyta ráðningarsamningum sínum í tímabundna samninga til 31. júlí 2008, en ráðningu yrði annars að segja upp með uppsagnarfresti hvers og eins og yrði þá miðað við starfslok síðastgreindan dag. Munu allir skipverjar, utan stefnda og eins annars sem hafi færst á annað skip í eigu áfrýjanda, hafa þá gert tímabundna ráðningarsamninga í samræmi við þetta. Stefndi kveðst hafa komið aftur til starfa 11. júní 2008 eftir að hafa verið í veikindaleyfi frá því í febrúar á því ári.

Fyrir héraðsdómi bar útgerðarstjóri áfrýjanda að þegar skipið hafi verið á Eskifirði 2. júlí 2008 hafi hann tilkynnt áhöfninni að rekstri þess yrði hætt í lok mánaðarins og hengt upp tilkynningu þess efnis í borðsal skipsins. Eftir fundinn hafi stefndi spurt um sína stöðu og hvort hann fengi uppsagnarbréf í pósti. Útgerðarstjórinn hafi þá áttað sig á því að stefndi hefði ekki gert tímabundinn ráðningarsamning eins og flestir hinna og sagst verða að fá að skoða þetta. Stefndi hafi verið á leið í frí, en þeir hafi síðan hist á Akureyri 17. júlí 2008 áður en skipið fór í síðustu veiðiferðina. Stefndi hafi þá verið vel að sér um réttindi sín og rætt um að hann ætti rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti, sem útgerðarstjórinn hafi verið sammála en viljað ljúka málinu með samningi um eingreiðslu, og hafi þeir því rætt hver fjárhæð hennar ætti að vera. Stefndi hafi í því sambandi tekið fram að hann væri að fara í sumarfrí og hefði ekki áhuga á að vinna sem vaktmaður á skipinu bundnu við bryggju. Niðurstaðan hafi orðið sú að þeir hafi undirritað samkomulag, þar sem tekið hafi verið fram að stefndi lyki störfum eftir veiðiferðina sem þá var að hefjast og myndi áfrýjandi síðan greiða honum kauptryggingu í einn mánuð án þess að krefjast vinnuframlags hans í uppsagnarfresti, enda færi stefndi ekki fram á frekari greiðslur frá áfrýjanda vegna starfslokanna. Þeir hafi einnig rætt hvort stefndi gæti fengið starf á öðru skipi í eigu áfrýjanda og útgerðarstjórinn sagst myndu tala við skipstjórann á Kaldbaki og fá hann til að setja stefnda þar á afleysingalista. Útgerðarstjórinn kvaðst hafa gert þetta og síðan heyrt frá skipstjóranum að stefnda hafi verið boðið að koma í veiðiferð en ekki haft tök á því. Aðspurður fyrir héraðsdómi staðfesti stefndi þetta.

II

Af lýsingu aðilanna á aðdraganda og gerð fyrrnefnds samkomulags um starfslok stefnda 17. júlí 2008 má ljóst vera að það hafi falið í sér uppsögn áfrýjanda á ráðningarsamningnum og ákvörðun um að stefndi lyki störfum á skipinu eftir veiðiferð, sem þá var að hefjast og stóð til 21. sama mánaðar. Ágreiningslaust er að stefndi átti þriggja mánaða uppsagnarfrest samkvæmt kjarasamningi. Áfrýjandi ákvað að halda skipinu ekki til veiða eftir nefnda veiðiferð og bar honum því að greiða stefnda laun í uppsagnarfrestinum eftir ákvæðum kjarasamningsins og sjómannalaga nr. 35/1985. Vegna starfs þess sem stefndi var ráðinn til gat áfrýjandi ekki krafist að hann ynni sem vaktmaður á skipinu á uppsagnarfrestinum. Samkomulag aðilanna um að stefndi fengi greidd laun í einn mánuð í uppsagnarfresti var um lakari kjör en kjarasamningurinn kvað á um og var það því ógilt af þeim sökum samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Vegna þessa á stefndi rétt á launum í þriggja mánaða uppsagnarfresti frá 17. júlí 2008, sem svari samkvæmt 9. gr. og 25. gr. sjómannalaga og ákvæðum kjarasamnings til meðallauna í einn mánuð og kauptryggingar aðra tvo, en þar af hefur hann þegar fengið greidda kauptryggingu vegna eins mánaðar. Aðalkrafa áfrýjanda um sýknu verður að þessu virtu ekki tekin til greina.

III

Til vara krefst áfrýjandi þess að fjárhæð kröfu stefnda verði lækkuð. Varakrafa þessi er í fyrsta lagi reist á því að ráðningarsamningi stefnda hafi í raun verið sagt upp 2. júlí 2008 þegar honum hafi orðið ljóst að vilji áfrýjanda stæði til að gera við hann tímabundinn ráðningarsamning eins og þá þegar hafði verið gerður við flesta aðra skipverja á Árbaki. Stefnda hafi verið greiddur aflahlutur frá 2. til 21. júlí 2008 og hafi því laun fyrir fyrsta mánuð uppsagnarfrestsins að mestu verið greidd. Eins og fyrr greinir er við úrlausn málsins lagt til grundvallar að stefnda hafi verið sagt upp störfum 17. júlí 2008. Við útreikning á fjárhæð dómkröfu hans hefur verið tekið tillit til þess að hann hafi þegar fengið greidd laun fyrir fimm fyrstu daga uppsagnarfrestsins. Að því virtu verður krafa stefnda ekki lækkuð af þessum sökum.

Í öðru lagi styður áfrýjandi varakröfu sína við það að stefndi hafi meðan hann var enn við störf fengið greitt orlofsfé í samræmi við ákvæði laga nr. 30/1987 um orlof. Stefnda hafi verið ljóst að ákveðið hefði verið að skipverjar tækju allir orlof frá 25. júlí til 11. ágúst 2008, svo sem áfrýjandi hafi tilkynnt með mánaðar fyrirvara, og geti stefndi því ekki krafist launa fyrir það tímabil. Gegn andmælum stefnda hefur áfrýjandi ekki sannað að stefndi hafi samþykkt að taka orlof á uppsagnarfrestinum og verður því að hafna þessari málsástæðu, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar í máli nr. 187/1992, sem birtur er í dómasafni 1994, bls. 329.

Í þriðja lagi reisir áfrýjandi varakröfu sína á því að útreikningur stefnda á meðallaunum sé rangur vegna þess að hann miði meðaltal launa við lögskráningardaga en ekki almanaksdaga. Óumdeilt er með aðilum að laun stefnda frá 1. janúar til loka júlí 2008 hafi verið 4.407.456 krónur, svo og að laun hans á fyrsta mánuði uppsagnarfrests eigi samkvæmt kjarasamningi að reiknast sem meðallaun eftir þeirri fjárhæð. Almanaksdagar á þessu sjö mánaða tímabili voru 210 talsins, en sé þeim deilt í framangreinda fjárhæð launa stefnda yrðu meðallaunin 20.988 krónur á dag. Lögskráningardagar á sama tímabili voru á hinn bóginn 98 og yrðu meðallaun á hvern þeirra 44.075 krónur. Þegar fundið er hver fjárhæð launa stefnda eigi að vera fyrir þá 25 daga, sem hann hefur ekki fengið greitt fyrir vegna fyrsta mánaðar uppsagnarfrestsins, getur ekki staðist að fara þá leið að leggja til grundvallar meðallaun fyrir hvern lögskráningardag og reikna launin út eins og hann hefði verið lögskráður til starfa alla þá daga, en ljóst er að í raun var fjöldi lögskráningardaga stefnda á umræddu sjö mánaða tímabili innan við helmingur þeirra daga, sem hann var ráðinn til starfa hjá áfrýjanda. Til að bæta stefnda það tjón, sem slit á ráðningarsamningnum bökuðu honum, verður að gera hann eins settan og ef hann hefði á þessu tímabili verið við störf hjá áfrýjanda á sama hátt og áður. Til að ná því markmiði er af þessum sökum óhjákvæmilegt að beita meðallaunum fyrir hvern almanaksdag á fyrrnefndu sjö mánaða tímabili og reikna stefnda bætur fyrir sem svarar 25 dögum, en þær nema 524.700 krónum. Dómar Hæstaréttar í málum nr. 319/2002 og 292/2002, sem birtir eru í dómasafni þess árs á bls. 4277 og 4379 og stefndi hefur vísað til sem fordæma fyrir þeirri aðferð sem hann beitir við útreikning kröfu sinnar, geta hér engu breytt, enda var þar ekki tekin afstaða til ágreinings, sem beinlínis varðaði réttmæti þessarar útreikningsaðferðar við aðstæður, sem hliðstæðar geta talist þessu máli.

 Stefndi hefur sem fyrr segir þegar fengið greidda kauptryggingu fyrir einn mánuð í uppsagnarfresti, en á samkvæmt áðurgreindu rétt til sams konar greiðslu fyrir annan mánuð til viðbótar meðallaunum fyrstu 25 daga uppsagnarfrestsins. Ekki er ágreiningur um að sú kauptrygging ásamt starfsaldursálagi og orlofi nemi samtals 234.326 krónum. Áfrýjanda verður því gert að greiða stefnda samtals 759.026 krónur með dráttarvöxtum eins og segir í dómsorði.

Áfrýjanda verður gert að greiða hluta af málskostnaði stefnda í héraði og fyrir Hæstarétti með þeirri fjárhæð, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Brim hf., greiði stefnda, Pétri S. Sigurðssyni, 759.026 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. ágúst 2008 til greiðsludags.

Áfrýjandi greiði stefnda samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur  22. janúar 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var 2. desember sl. , var þingfest 16. apríl sl.

   Stefnandi er Pétur S. Sigurðsson, Hólatúni 16, Akureyri.

Stefndi er Brim hf., Bræðraborgarstíg 16, Reykjavík.

Dómkröfur

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi, Brim hf., verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.336.201 krónu auk dráttarvaxta frá 1. ágúst 2008 til greiðsludags, samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001.

Krafist er málskostnaðar að skaðlausu og að tekið verði tillit til þess að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af dómkröfu stefnanda. Þá er þess krafist að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

                Til vara er þess krafist að dómkrafa stefnanda verði lækkuð verulega og upphaf dráttarvaxta, samkvæmt III. kafla laga 38/2001, miðist við 23. nóvember 2008. Þá er í varakröfu gerð krafa til þess að hvor aðili málsins verði látinn bera sinn kostnað af málinu.

Málavextir

Málavextir eru þeir að stefnandi starfaði sem bátsmaður á skipi stefnda, Árbaki RE - 205, en hann hafði starfað yfir 10 ár á skipum stefnda. Hinn 17. júlí 2008 gerðu stefnandi og stefndi með sér samkomulag um starfslok stefnanda á Árbaki RE-205. Í því fólst að stefnandi hætti störfum á skipinu eftir veiðiferðina, sem hófst þann sama dag, en lauk með löndum þann 21. júlí 2008.

Vegna þessara starfsloka skyldi stefndi greiða stefnanda kauptryggingu í einn mánuð, án kröfu um vinnuframlag úr hendi stefnanda. Ástæða þessa gernings var sú, að stefndi hafði ákveðið að hætta útgerð skipsins og leggja því, sem hann og gerði. Skipinu var fljótlega siglt til Reykjavíkur og lá það þar síðan lengi bundið við bryggju. Útgerð skipsins hófst aftur í ársbyrjun 2009.

Með bréfi, dags. 20. október 2008, skrifaði stéttarfélag stefnanda, Sjómannafélag Eyjafjarðar, lögmanni stefnanda bréf, þar sem farið var fram á það að innheimt yrðu hjá stefnda þau laun í þriggja mánaða uppsagnarfresti þeim, sem stefnandi ætti rétt á, að frádreginni eins mánaðar kauptryggingu, sem stefndi hafði greitt stefnanda.

Með bréfi, dags. 23. október 2008, sendi lögmaður stefnanda stefnda innheimtubréf, þar sem framangreind krafa var gerð.

Með tölvubréfi, dags. 23. desember 2008, bárust útskýringar stefnda um aðdraganda starfsloka stefnanda, eins og málið sneri að stefnda.

Með bréfi, dags. 14. janúar 2008, ítrekaði lögmaður stefnanda kröfu sína, en engin viðbrögð urðu hjá stefnda við því.

Fram kemur hjá stefnda að hinn 7. maí 2008 hafi áhöfn skipsins Árbaks RE- 205, verið kölluð saman og tilkynnt, af útgerðarstjóra skipsins Karli Einarssyni, að útgerð Árbaks væri að skoða rekstur skipsins. Hafi þeim hluta áhafnar, sem þess óskaði, verið boðið að breyta ráðningarsamningum sínum í tímabundna ráðningarsamninga til 31. júlí 2008. Ef skipverjar höfðu ekki áhuga á tímabundinni ráðningu þá hafi skipverjum verið ljóst að segja þurfti þeim upp í samræmi við uppsagnarfrest hvers og eins skipverja, miðað við starfslok í lok júlí 2008. Þá hafi verið sett upp tilkynning frá stefnda í borðsal Árbaks, hinn 2. júlí 2008, þar sem fram hafi komið að ráðningartími áhafnar yrði ekki framlengdur.

Allir í áhöfn, utan einn vélstjóri, sem færðist á annað skip í eigu stefnda, hafi gert tímabundna ráðningarsamninga með starfslokum 31. júlí 2008.

Stefnandi hafi verið veikur 7. maí 2008 og því ekki viðstaddur þegar starfsmaður stefnda ræddi við skipverja Árbaks RE um tímabundna ráðningu.

Stefnandi hafi verið í áhöfn skipsins frá 11. júní 2008. Verði að gera ráð fyrir að áhöfn skipsins hafi rætt að til stæði að leggja skipinu í lok júlí 2008. Þá sé ekki ósennilegt að ætla að áhöfn skipsins hafi rætt það að allir í áhöfn, utan einn vélstjóri, hafi gert tímabundna ráðningarsamninga til 31. júlí 2008.

Útgerðarstjóri stefnda og stefnandi hafi rætt tímabundna ráðningu 2. júlí 2008, og hafi samræður þeirra endað með fyrrgreindu samkomulagi þar sem samið hafi verið um greiðslu stefnda á kauptryggingu til stefnanda í einn mánuð, þ.e. ágústmánuð 2008. Þetta hafi verið gert umfram aðra skipverja Árbaks RE vegna þess að mögulega hafði stefnandi ekki vitneskju um tilkynningu stefnda til áhafnar 7. maí 2008, fyrr en í byrjun júní 2008, og í framhaldi tilkynningar til áhafnar, gerð tímabundinna samninga skipverja Árbaks og stefnda.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi kveður kröfu sína í þessu máli snúast um greiðslu eftirstöðva launa í þriggja mánaða uppsagnarfresti vegna riftunar stefnda á ráðningarsamningi stefnanda.

Krafa hans sé um meðallaun fyrsta mánuðinn í uppsagnarfresti, að frádregnum þeim fimm dögum, sem hann hafi unnið í uppsagnarfrestinum, auk kauptryggingar í einn mánuð, en stefndi hafi eingöngu greitt stefnanda kauptryggingu í einn mánuð af þeim tveimur, sem honum hafi borið að greiða stefnanda kauptryggingu, auk greiðslu á fullum launum fyrsta mánuð uppsagnarfrestsins.

Ótímabundin ráðning

Ekki sé um það ágreiningur milli aðila að stefnandi hafi verið ráðinn á sínum tíma ótímabundinni ráðningu.

Stefnandi eigi, með vísan til 2. mgr. 1.11. gr. kjarasamnings LÍÚ og SSÍ rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti vegna langs starfsaldurs. Hafi stefnda átt að vera fullkunnugt um það að stefnandi, sem hafði starfað samfellt á skipum stefnda yfir 10 ár, ætti þar af leiðandi rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti, en ekki bara eins mánaðar uppsagnarfresti.

Riftun ráðningarsamnings

Ráðningu stefnanda hafi lokið þegar af þeim ástæðum að stefndi hætti útgerð skipsins og lagði því til frambúðar þann 21. júlí 2008. Hafi stefndi þar með rift ráðningu stefnanda, en stefnandi hafi ráðið sig á skipið til fiskveiða til að hafa aflahlut, sem hafi verið forsendur ráðningar hans. Hann hafi ekki ráðið sig til að gegna störfum vaktmanns á skipinu bundnu við bryggju.

Máli sínu til stuðnings, varðandi riftun þegar skipi er lagt og útgerð þess hætt,

vísar stefnandi í eftirtalda dóma: H. 200-293, H. 2004-1506 og H. 2001-2963. Þá verði að telja að með gerð starfslokasamningsins hafi stefndi vikið stefnanda úr skipsrúminu, sem sé sjálfstæð riftunarástæða, sbr. H. 2004-1506.

Lágmarksréttur í uppsagnarfresti

„Samkomulag“ það sem stefnandi hafi gert við stefnda bindi stefnanda ekki, þar sem það standist ekki lágmarksákvæði laga, auk þess sem forsendur bresti fyrir því. Bent sé á að þetta plagg sé fært í letur af stefnda og lagt fyrir stefnanda til undirritunar, sem hann og geri með vissu um afleysingavinnu á öðru skipi í eigu

stefnda, enda stefnandi þá orðinn atvinnulaus, þegar stefndi hafi rift ráðningu hans með því að leggja skipinu og hætta útgerð þess.

Í tilviki stefnanda hafi verið um riftun á ráðningarsamningnum að ræða af hálfu stefnda og réttur til launa í uppsagnarfresti tvímælalaus, enda hafi stefndi greitt honum eins mánaðar kauptryggingu (lágmarkslaun). Verði sjómenn ekki sviptir þessum lágmarksrétti sínum, sem sjómannalögin og kjarasamningar tryggi þeim, með því að þeim sé stillt upp við vegg og þeir látnir samþykkja það að þurfa ekki að hanga yfir skipinu við vaktmannsstörf út uppsagnarfrestinn, ella glati þeir rétti til uppsagnarlauna, sem sjómönnum sé tryggður í sjómannalögum og verði ekki frá vikið, sbr. 4. gr. laga nr. 35/1985 og 10. gr. laga nr. 19/1979.

Þrátt fyrir ætlaða vitneskju stefnda um lágmarksrétt stefnanda í þessum efnum, þá hafi stefnanda eingöngu verið boðin lágmarkslaun í þriðjungi af þeim uppsagnartíma, sem hann hafi átt rétt á samkvæmt kjarasamningum og þar af hafi ekki verið greidd meðallaun fyrsta mánuð uppsagnartímans. Möguleiki sé þó, að hvorugur aðila hafi áttað sig á lengd uppsagnarfrests stefnanda. Þetta tilboð stefnda hafi stefnandi samþykkt, fyrst og fremst vegna loforðs um afleysingapláss og jafnframt til þess að þurfa ekki að starfa, sem vaktmaður um borð í Árbaki RE-205. Til þess hafi stefnandi ekki verið ráðinn og hafi honum ekki borið skylda til þess að gegna því starf., enda hafði ráðningunni þegar verið rift.

Svonefnt samkomulag sé þar af leiðandi með öllu marklaust og bindi ekki stefnanda á nokkurn hátt, enda brot á lágmarksákvæðum laga og kjarasamninga, eins og áður segi. Samkomulagið um fullnaðaruppgjör hafi ekki falið í sér að stefnandi hefði afsalað sér rétti til frekari launagreiðslna, sem honum hefði ella borið samkvæmt kjarasamningi og lögum, sbr. H. 2000-1486. Stefndi hafi ekki viljað fallast á að leiðrétta þetta þótt honum hafi verið gerð grein fyrir réttarstöðu stefnanda í þessum efnum.

Í þessu sambandi sé áréttað að forsenda þess að mögulegt sé að semja um skerðingu á lögmætum uppsagnarfresti launþega við starfslok sé sú, að þurfi að vera hafið yfir allan vafa að umsamið fyrirkomulag sé, á heildina litið, til hagsbóta fyrir launþegann. Svo hafi ekki verið í tilviki stefnanda, eins og rakið hafi verið.

Réttur til óskertra launa í uppsagnarfresti

Skipverjar á skipum, að frátöldum skipstjóra, eigi rétt á óskertum launum í uppsagnarfresti, sbr. 9. gr. og 25. gr. sjómannalaga 35/1985, sbr. og t.d. H.2001-293 og í óskertan uppsagnartímann, sbr. H. 1990-1246. Komi því ekki til að stefnda sé heimilt að draga frá launum stefnanda í uppsagnarfresti tekjur, sem hann kunni að hafa unnið sér inn annars staðar á uppsagnarfresti.

Réttur til meðallauna fyrsta mánuð uppsagnarfrestsins

Stefnandi byggir kröfu sína á því að stefnda beri að greiða sér meðallaun það sem eftir stóð af fyrsta mánuði uppsagnarfrestsins miðað við eigin aflareynslu. Séu meðallaun stefnda reiknuð miðað við síðustu mánuði úthalds Árbaks RE-205 út frá eigin aflareynslu stefnanda.

Réttur skipverja til greiðslu meðallauna í uppsagnarfresti sé í samræmi við fjölmarga nýfallna dóma Hæstaréttar Íslands. Þannig verði fundinn út réttur stefnanda til meðallauna með því að deila tekjum á ráðningartíma hans í lögskráningardaga hans og þannig séu fundin út meðallaun pr. lögskráningardag. Síðan margfaldað með þeim dögum í uppsagnarfresti sem um sé að ræða hjá viðkomandi.

Sundurliðun á kröfu stefnanda komi fram í kaflanum Sundurliðun krafna hér á eftir.

Stefnandi vísar máli sínu til stuðnings til eftirfarandi Hæstaréttar dóma:

H. 1988-518; H. 2001-1483; H. 2001-4341; H. 2001-4712; H. 2002-4277 og H. 2002- 4379 og H. 2004 - 4529.

Varðandi viðmiðun við lögskráningardaga við útreikning meðallauna sé vísað í H. 2002- 4277 og H. 2002-4379.

Í öllum þessum dómum Hæstaréttar Íslands komi fram að miða skuli við meðallaun viðkomandi þegar ákvarða skuli laun í uppsagnarfresti vegna riftunar, en ekki eingöngu lágmarkslaun, eins og viðkomandi útgerðir haldi fram.

Sundurliðun krafna

Laun í uppsagnarfresti.

Stefnandi sundurliðar kröfu sína varðandi útreikning vangreiddra launa í uppsagnarfresti þannig:

Krafan byggist á því að það sem eftir standi af fyrsta mánuði uppsagnarfrestsins, þ.e 30 dagar, að frádreginni síðustu veiðiferð sem hafi staðið yfir dagana 17. - 21. júlí 2008, eða 25 dagar, verði greitt með meðallaunum miðað við eigin aflareynslu stefnanda. Auk þess verði honum greidd eins mánaðar kauptrygging ásamt tilheyrandi launaliðum til viðbótar þeirri eins mánaðar kauptryggingu, sem stefndi hafi greitt honum.

Samkvæmt framangreindu eigi stefnandi rétt á þriggja mánaða launum, þegar útgerðin segi honum upp störfum og rifti ráðningu hans síðan með því að leggja skipinu og hætta útgerð þess.

Um sé að ræða meðallaun fyrsta mánuðinn miðað við lögskráningadaga viðkomandi, sbr. dóma Hæstaréttar, þ.e.a.s í þessu tilviki vegna fyrsta mánaðarins í uppsagnarfresti, eða í 25 daga. Stefnandi hafi, að því er séð verði af launaseðlum hans, haft 4.407.456 krónur í laun frá 2. janúar til 25. júlí 2008, þ.m.t starfsaldursálag og orlof. Lögskráningardagar hafi verið á tímabilinu alls 98. Meðallaun hans pr. dag séu því 44.075 krónur (4.407.456.- : 98 = 44.075.-) x 25 = 1.101.875 krónur.

Þá sé að auki krafa um eins mánaðar kauptryggingu, 203.935 krónur, 6.054 krónur í starfsaldursálag, eða alls 209.989 krónur x 11.59% orlof, 24.337 krónur. Samtals kauptrygging og launaliðir 234.326 krónur.

Heildarlaunakrafan um vangreidd laun í uppsagnarfresti sé því 1.336.201 króna (1.101.875.- + 234.326). Alls sé því stefnukrafan 1.336.201 króna.

Stefnandi byggir kröfur sínar á 4. gr., 6. gr., 9. gr., 25. gr. og 27. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, sbr. gr. 1.11 kjarasamnings LÍÚ og SSÍ. Um orlof vísast til orlofslaga nr. 30/1987. Um dráttarvexti vísast til III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Um málskostnað vísast til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Um virðisaukaskatt vísast til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Málsástæður stefnda og lagarök

Aðalkrafa stefnda er um sýknu af dómkröfum stefnanda.

Stefndi vísar til almennra reglna vinnuréttar um heimild atvinnurekenda og launamanna til þess að semja um starfslok. Stefnda sé ljóst að honum beri að sanna tilvist samkomulags um starfslok, sem séu önnur en almenn ákvæði kjarasamninga. Stefndi sanni samkomulag um starfslok með framlagningu þess. Það sé óumdeilt að stefnandi hafi undirritaði samkomulag um starfslok á Árbaki ER- 205. Mat stefnanda á þeim tíma, er samkomulag var undirritað, hafi væntanlega meðal annars verið upphafstími vitneskju stefnanda um gerð tímabundinna ráðningarsamninga skipverja Árbaks RE og stefnda.

Langur aðdragandi hafi verið að gerð samkomulags stefnanda og stefnda, eða frá 2. júlí 2008 til undirritunar samkomulags 17. júlí 2008.

Þá sé það rangt er fram komi í stefnu að það hafi verið forsenda undirritunar samkomulagsins að stefndi ábyrgðist á einhvern hátt afleysingu á öðrum skipum í eigu stefnda. Útgerðarstjóri stefnda geti ekki ábyrgst að afleysing sé möguleg. Slík forsenda hafi ekki verið og geti ekki verið tengd gerð samkomulags um starfslok stefnanda. Undirritað samkomulag víki í engu að afleysingu og styðji þá niðurstöðu að afleysing hafi ekki verið forsenda samkomulags aðila, þó stefnandi fullyrði annað í stefnu.

Þá krefst stefndi sýknu með vísan til þess að ráðningarsamningi stefnanda og stefnda hafi ekki verið rift af stefnda, eins og stefnandi fullyrði í stefnu. Stefnandi hafi lokið störfum hjá stefnda 21. júlí 2008 og fengið greidda kauptryggingu í einn mánuð, allt í samræmi við samkomulag um starfslok, sem dagsett sé 17. júlí 2008.

Stefndi vísi í því sambandi til dóms Hæstaréttar frá 14. maí 2009, dómur 535/2008:

„Ráðningu stefnda var því af sjálfu lokið,en ákvæði 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 á hér ekki við, þar sem honum var ekki vikið úr skiprúmi, sbr. dóm Hæstaréttar 1. desember 2005í máli nr. 165/2005, bls. 4737 í dómasafni.“

Stefndi gerir kröfu um sýknu af dómkröfu stefnanda með vísan til þess að stefnandi byggi stefnu alfarið á riftun ráðningarsamnings.

Komist dómur að þeirri niðurstöðu að ráðningarsamningi hafi ekki verið rift, beri að mati stefnda að sýkna stefnda. Að mati stefnda verði honum ekki gert, með vísan til 99. gr. laga 91/1991, að fjalla í greinargerð um lagatilvísanir stefnanda í stefnu. Tilvísun stefnanda, í þeim kafla stefnu er fjallar um lagarök, til ákvæðis 27. gr. laga 35/1985, (en 2. mgr. þess ákvæðis fjalli um uppsögn ráðningarsamnings), sé án umfjöllunar um lagaákvæðið í málsástæðukafla stefnu. Að mati stefnda uppfylli slík tilvísun í lagaákvæði ekki kröfu laga nr. 91/1991 til þess að teljast málsástæða stefnanda. Stefndi hafi ekki ástæðu til þess í greinargerð að geta sér til um málsástæður stefnanda fyrir tilgreindri lagatilvitnun. Rök þessi eigi við þrátt fyrir áskilnað stefnanda í stefnu þess efnis að koma að frekari málsstæðum, en stefnda sé ómögulegt að svara slíkum nýjum málsástæðum, nú þegar greinargerð stefnda liggi fyrir.

Varakrafa stefnda, að dómkrafa stefnanda verði lækkuð verulega og upphaf dráttarvaxta, samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, miðist við 23. nóvember 2008. Þá sé í varakröfu gerð krafa til þess að hvor aðili málsins verði látinn bera sinn kostnað af málinu, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Stefnanda hafi verið ljóst, að minnsta kosti eigi síðar en 2. júlí 2008, að vilji stefnda stóð til þess frá 7. maí 2008 að gera tímabundinn ráðningarsamning við stefnanda eða segja stefnanda upp störfum, eins og við alla aðra skipverja Árbaks, 7. maí 2008.

Stefndi vísar til þess að frá 2. júlí 2008 til 31. júlí 2008 hafi stefndi fengið greiddan aflahlut.

Vilji stefnda sé óumdeilanlega ekki að rifta ráðningarsamningi milli stefnanda og stefnda, heldur að ljúka ráðningu með uppsögn ráðningarsamnings.

Hafi stefnandi frekari rétt til greiðslu launa, þrátt fyrir aðalkröfu stefnda, og eigi stefnandi rétt til greiðslu aflahlutar í einn mánuð og kauptryggingar í tvo mánuði, þá hafi stefnandi óumdeilanlega þegar fengið greidda kauptryggingu í einn mánuð.

Að mati stefnda hafi stefnandi fengið greiddan aflahlut frá munnlegri uppsögn 2. júlí til 31. júlí 2008 og standi þá eftir einn mánuður í kauptryggingu, sem sé auk starfsaldursálags samkvæmt stefnu 209.989 krónur.

Þá sé útreikningur stefnanda á meðallaunum ekki réttur. Þó fallist sé á að meðallaun frá 1. janúar 2008 til loka júlí 2008 séu 4.407.456 krónur telji stefndi rétt að miða við lengra tímabil til útreiknings meðallauna. Þá sé meðaltal tekna ekki lögskráningardagar skipverja. Ákvæði um lögskráningu sé í lögum nr. 43/1987 og sé hvergi að finna í þeim lögum tilvísun til þess að lögskráningardagar gefi vísbendingu um meðaltekjur sjómanna.

Samkvæmt aðferð stefnanda, að miða við lögskráningardaga hans, hefðu heildarárslaun stefnanda verið 15.867.700 krónur (44.075 krónur * 360 dagar) sem sé langt umfram meðalárslaun stefnanda undanfarin ár. Að mati stefnda gefi það rétta nálgun meðaltekna stefnanda á dag að skipta 4.407.456 krónum í 210 daga (30 dagar mánuði sinnum 7 mánuðir, janúar, febrúar, mars, apríl, maí, júní, júlí 2008), en þannig fáist meðaltekjur á dag 20.988 krónur.

Þá vísar stefndi til þess að stefndi hafi greitt stefnanda orlof, í samræmi við ákvæði laga nr. 30/1987. Stefnanda hafi verið ljóst, eigi síðar en 2. júlí 2008, að skipinu Árbaki yrði ekki haldið til veiða sumarið 2008.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 30/1987 beri atvinnurekanda að tilkynna launþega í síðasta lagi mánuði fyrir byrjun orlofs hvenær orlof skuli hefjast. Stefnanda hafi verið tilkynnt 2. júlí 2008 að Árbakur yrði ekki að veiðum í ágúst 2008. Stefndi vísar til 9. gr. orlofslaga um tímamörk orlofs. Stefnandi geti ekki eignast kröfu um greiðslu aflahlutar á sama tíma og stefnandi taki út greiddan orlofsrétt.

Varðandi upphafstíma dráttarvaxta vísar stefndi til bréfs lögmanns stefnanda, dags. 23. október 2008, og vísar til 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.

Stefndi vísar til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sjómannalaga nr. 35/1985, lögskráningarlaga  nr. 43/1987, laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og laga um orlof nr. 30/1987.

Niðurstaða

Fram hefur komið að stefnandi starfaði sem bátsmaður hjá stefnda. Þegar hann hætti störfum hafði hann starfað yfir 10 ár á skipum stefnda. Samkvæmt gr. 1.11 í kjarasamningi átti hann því rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti og er ekki um það deilt í málinu.

Fyrir liggur að í byrjun maímánaðar 2008 kallaði Karl Einarsson, útgerðarstjóri stefnda, áhöfn Árbaks RE- 205 saman og tilkynnti að skoða ætti rekstur skipsins. Var áhöfn boðið að breyta ráðningarsamningum sínum í tímabundna ráðningarsamninga til 31. júlí. Ef þeir óskuðu þess ekki átti að segja þeim upp miðað við uppsagnarfrest. Fram hefur komið að tímabundnir ráðningarsamningar voru gerðir við alla í áhöfn, utan eins vélstjóra. Stefnandi var í veikindaleyfi á þessum tíma og var ekki á umræddum fundi. Var tímabundinn ráðningarsamningur ekki gerður við hann. Bar stefnandi fyrir dómi að honum hefði ekki orðið kunnugt um að skipinu yrði lagt í lok júlímánaðar fyrr en með tilkynningu er hengd var upp í matsal skipsins 2. júlí 2008. Í tilkynningunni stóð að Árbakur héldi ekki aftur til veiða að loknu stoppi í júlí og ágúst 2008.

Ekki liggur fyrir að stefnanda hafi verið sagt upp störfum. Óumdeilt er að útgerð skipsins var hætt á fyrrgreindum tíma. Þá liggur ekki fyrir að stefnanda hafi verið boðið áframhaldandi starf hjá stefnda. Ekki er sýnt fram á að stefndi hafi tilkynnt stefnanda að útgerð skipsins yrði hætt fyrr en með tilkynningu 2. júlí 2008. Er því fallist á með stefnanda að ráðningarsamningi hans hjá stefnda hafi verið rift og hann eigi rétt á launum í þriggja mánaða uppsagnarfresti. Í ljósi þessa telst stefnandi ekki bundinn af því samkomulagi um starfslok er gert var við hann 17. júlí 2008 enda stenst það ekki lágmarksákvæði laga og kjarasamnings aðila um laun í uppsagnarfresti.

Fyrir liggur að stefnandi hefur þegar fengið greidda kauptryggingu í einn mánuð, sbr. fyrrgreint samkomulag. Krafa stefnanda um meðallaun í einn mánuð og kauptryggingu í einn mánuð samrýmist ákvæðum 9. og 25. gr. laga nr. 35/1985 og ákvæðum gr. 1.11. í kjarasamningi aðila. Stefnandi reiknar meðallaun sín út frá eigin aflareynslu miðað við síðustu mánuði úthalds Árbaks RE-205. Í samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar Íslands er við útreikning þennan tekið mið af lögskráningardögum hans. Tölulega hefur þessum útreikningi stefnanda ekki verið mótmælt og ber því að taka kröfur hans í málinu til greina. Fallist er á kröfu dráttarvaxta eins og hún er fram sett.

Eftir þessari niðurstöðu ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 300.000 krónur.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Brim hf., greiði stefnanda, Pétri S. Sigurðssyni, 1.336.201 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. ágúst 2008 til greiðsludags og 300.000 krónur í málskostnað.