- Kærumál
- Upplýsingaskylda
- Fjarskipti
|
Mánudaginn 25. apríl 2005. |
Nr. 168/2005. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn IP- fjarskiptum ehf. (enginn) |
Kærumál. Upplýsingaskylda. Fjarskipti.
L krafðist þess að I yrði gert að láta í té upplýsingar um hvaða skráði notandi þjónustu hans hafi verið notandi tiltekinnar IP tölu á nánar tilgreindum tíma. L hafði til rannsóknar hver hafi farið með ólögmætum hætti inn á heimasíðu tölvuverslunarinnar T og unnið þar spjöll. Við úrlausn málsins var lagt til grundvallar að heimildum til að beita umræddum rannsóknarúrræðum væru settar þröngar skorður í lögum um meðferð opinberra mála. Náðu umrædd brot ekki refsilágmarki samkvæmt b. lið 2. mgr. 87. gr. laganna, og var ekki talið, eins og málið var vaxið, að uppfyllt væru skilyrði ákvæðisins um ríka almanna- eða einkahagsmuni. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfu L.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. apríl 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. apríl 2005, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að láta sér í té upplýsingar um hvaða skráði notandi þjónustu varnaraðila hafi verið notandi tilgreindrar IP tölu aðfaranótt 9. febrúar 2005 kl. 4:09. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa hans verði tekin til greina.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.
Í greinargerð sóknaraðila fyrir Hæstarétti kemur fram að nú liggi fyrir að um 1300 netföng hafi verið skráð á póstlista tölvuverslunarinnar Tasks ehf., er farið var með ólögmætum hætti inn á heimasíðu fyrirtækisins, en ekki 1600 líkt og talið hafi verið í fyrstu. Að þessu athuguðu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. apríl 2005.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að starfsmönnum IP fjarskipta ehf., kt. 681201-2890, Hlíðasmára 12, Kópavogi, verði með úrskurði gert skylt að veita lögreglu eftirgreindar upplýsingar um hver hafi aðfaranótt 9. febrúar 2005 kl. 4:09 verið notandi Ip tölunnar 85.197.196.137, sem skráð er hjá IP fjarskiptum en upplýsingar um IP töluna koma frá Greind ehf., sem annast vefumsjónarkerfi fyrir Task ehf.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglustjórinn í Reykjavík hafi til rannsóknar mál er varði ætlað innbrot á heimasíðu tölvuverslunarinnar Task ehf., kt. 460602-2540, aðfaranótt 9. febrúar sl. Sendur hefði verið fjöldapóstur í nafni fyrirtækisins á um 1600 netföng, sem skráð voru á póstlista verslunarinnar, en í póstinum hefði verið tengill inn á grófa klámmynd. Hefði sendandi verið tilgreindur task@task.is, sem er netfang Task ehf. Einnig hefði forsíðu fyrirtækisins verið breytt á þann veg að í stað myndar af hörðum diski hefði verið sett klámmynd. Umræddar aðgerðir hefðu gengið gegnum vefumsjónarkerfi verslunarinnar og skv. upplýsingum úr skráningarkerfi vefumsjónar virðist tveir aðilar tengjast þessum aðgerðum. Ip tölur þeirra stafi frá Bandaríkjum Norður Ameríku og Íslandi.
Lögreglan telur að um sé að ræða brot gegn 210. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 30/1998, og 3. gr., sbr. 2. og 3. mgr. 1. gr., 1. mgr. 8. gr., 50. gr., allt sbr. 1. og 5. tl. 2. mgr. 54. gr., höfundalaga nr. 73/1972. Brot samkvæmt framansögðu geti varðað fangelsisrefsingu.
Um heimild til rannsóknaraðgerðarinnar sé vísað til b-liðar 86. gr., sbr. 87. gr., laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sbr. 6. gr. laga nr. 86/2004. Þýðing netsins í viðskiptalífinu hafi stóraukist undanfarin ár sérstaklega fyrir tilstilli heimasíðna fyrirtækja jafnt sem einstaklinga. Telja verði að ríkir almannahagsmunir krefjist þess að lögregla nái að upplýsa innbrot í heimasíður sbr. 2. mgr. 87. gr. laga um meðferð opinberra mála. Kæruefnið í þessu máli sé innbrot óþekkt manns eða manna í heimasíðu og póstkerfi netverslunar og breytt heimasíða send til 1600 viðskiptavina verslunarinnar.
Ljóst er að þau ætluðu brot sem lögregla rannsakar varða ekki viðurlögum sem ná refsilágmarki skv. b-lið 2. mgr. 87. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Á því er hins vegar byggt af hálfu lögreglustjóra að ríkir almannahagsmunir og einkahagsmunir séu fyrir hendi að upplýsa innbrot í heimasíður. Við úrlausn þessa máls verður að leggja til grundvallar að heimildum til að beita rannsóknarúrræðum samkvæmt 86. og 87. gr. laga nr. 19/1991 eru settar þröngar skorður vegna tillits til friðhelgi einkalífs manna. Eins og mál þetta er vaxið þykja ekki uppfyllt þau skilyrði b-liðar 87. gr. laga nr. 19/1991 um að ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjist þess að til umbeðinna rannsóknaraðgerða verði gripið. Ber að skilja ákvæðið þannig að brotin verði að beinast að verulegum hagsmunum einstaklinga eða lögaðila. Þegar gögn málsins eru virt sem og rökstuðningur lögreglustjóra verður ekki talið að svo sé. Verður því að hafna kröfu lögreglustjórans í Reykjavík.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Hafnað er kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um að starfsmönnum IP fjarskipta ehf., kt. 681201-2890, Hlíðasmára 12, Kópavogi, verði með úrskurði gert skylt að veita lögreglu eftirgreindar upplýsingar um hver hafi aðfaranótt 9. febrúar 2005 kl. 4:09 verið notandi Ip tölunnar 85.197.196.137 sem skráð er hjá IP fjarskiptum.