Hæstiréttur íslands
Mál nr. 408/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaður
- Niðurfelling máls
|
|
Mánudaginn
20. ágúst 2012. |
|
Nr.
408/2012. |
Viðhaldsmeistarinn ehf. (Skarphéðinn Pétursson hrl.) gegn VA
verktökum ehf. (Hulda
Rós Rúriksdóttir hrl.) |
Kærumál. Málskostnaður. Niðurfelling máls.
Með
úrskurði héraðsdóms var mál VA ehf. á hendur V ehf. fellt niður, svo og
málskostnaður milli aðilanna. Í málinu krafðist V ehf. þess að VA ehf. yrði
gert að greiða sér málskostnað. Að virtum atvikum málsins var málskostnaður í
héraði ákveðinn 300.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Eiríkur Tómasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. júní 2012 sem barst héraðsdómi degi síðar og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. maí 2012, þar sem mál varnaraðila á hendur sóknaraðila var fellt niður. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að ákvæði hins kærða úrskurðar um að málskostnaður falli niður verði fellt úr gildi og varnaraðila gert að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili höfðaði mál þetta 20. október 2011 og krafði sóknaraðila um greiðslu á 3.230.296 krónum auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Málið var þingfest 2. nóvember sama ár. Sóknaraðili lagði fram greinargerð 7. desember 2011 og krafðist aðallega sýknu og málskostnaðar. Reisti hann sýknukröfu sína meðal annars á þeirri málsástæðu að kröfu varnaraðila væri ranglega beint að sér þar sem skuldari væri nafngreint norskt félag. Málinu var eftir það nokkrum sinnum frestað, eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði, en loks fellt niður að ósk varnaraðila í þinghaldi 9. maí 2012 með hinum kærða úrskurði.
Varnaraðili kveður ástæðu þess að hann felldi málið niður vera þá að framangreind málsástæða sóknaraðila um að það væri norskt félag en ekki hann sem réttilega ætti að beina kröfunni að hafi komið sér á óvart, enda hafi sóknaraðili ekki haldið henni fram í fyrri samskiptum aðila. Að henni fram kominni hafi varnaraðili metið það svo að réttast væri að fella málið gegn sóknaraðila niður. Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 skal stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað ef máli er vísað frá dómi eða það fellt niður af annarri ástæðu en þeirri að stefndi efni skyldu, sem hann er krafinn um í máli. Þegar atvik málsins eru virt þykir hæfilegt að varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðila 300.000 krónur í málskostnað fyrir héraðsdómi.
Varnaraðili greiði sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðili, VA verktakar ehf., greiði sóknaraðila, Viðhaldsmeistaranum ehf., 300.000 krónur í málskostnað fyrir héraðsdómi.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. maí 2012.
Mál
þetta, sem tekið var til úrskurðar miðvikudaginn 9. maí sl., er höfðað fyrir
Héraðsdómi Reykjaness, með birtingu stefnu þann 20. október 2011, af VA
verktökum ehf., kt. 660104-2910, Skógargerði 1,
Reykjavík, á hendur Viðhaldsmeistaranum ehf., kt.
470789-7359, Vogagerði 21, Vogum.
Dómkröfur
stefnanda eru eftirfarandi:
Að
stefndi greiði stefnanda 3.230.296 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr.
6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 24. júní 2011 til greiðsludags. Þá er krafist
málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.
Stefndi
krefst þess aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda. Í öðru lagi krefst
stefndi, ef aðalkrafa hans verður ekki tekin til greina að kröfur stefnanda verði
lækkaðar með hliðsjón af því sem komi fram í málsástæðum í greinargerð stefnda.
Mál
þetta var þingfest 2. nóvember 2011. Fékk stefndi frests til framlagningu
greinargerðar til 30. nóvember sl. Þann dag fékk stefndi aftur frest til
framlagningu greinargerðar til 7. desember sl. Þann dag lagði stefndi fram
greinargerð og fór málið til úthlutunar til dómstjóra. Fyrir fyrstu fyrirtöku sem fyrirhuguð var
þann 10. janúar sl. tók nýr lögmaður við málinu af hálfu stefnda og var málinu
frestað þess vegna til 25. janúar sl. Þann dag var málinu frestað til
sáttaumleitana til 15. febrúar sl. Var málinu aftur frestað þann dag vegna
sáttaumleitana til 3. maí sl. en fyrirhugað var að aðalmeðferð færi fram 15.
maí sl. Fyrirtaka sem átti að vera 3. maí sl. var frestað til 9. maí að beiðni
stefnanda. Þann dag óskaði stefnandi eftir því að fella málið niður. Kvað
stefnandi málsástæður hafa komið fram í greinargerð stefnda sem urðu til þess
að stefnandi ákvað að fella málið niður. Kvað stefnandi hafa setið sáttafundi
með stefnda og lögmanni hans fyrir málshöfðun en stefndi aldrei rætt sjónarmið
sem fram komu í greinargerð og hefði stefnanda ekki verið kunnugt um þau.
Krafðist stefnandi því að málskostnaður yrði felldur niður. Stefndi mótmælti
málsástæðum stefnanda en kvaðst ekki hafa verið lögmaður stefnda á þeim tíma en
taldi að semja hefði mátt um málið áður en stefnt var. Krafðist stefndi þess að
sér yrði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Sú
málsástæða stefnanda að ný sjónarmið, sem fyrst hafi komið fram í málinu í
greinargerð stefnda, hefur ekki verið hrakin. Að virtum atvikum málsins,
umfangi þess og lyktum, þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað sjálfur.
Verður
málskostnaður því felldur niður.
Úrskurð
þennan kveður upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari.
Ú
R S K U R Ð A R O R Ð:
Mál þetta er fellt niður.
Málskostnaður
fellur niður.