Hæstiréttur íslands

Mál nr. 211/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Faðerni
  • Börn
  • Mannerfðafræðileg rannsókn
  • Lögvarðir hagsmunir


                                     

Föstudaginn 27. apríl 2012.

Nr. 211/2012.

A

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

gegn

B og

(Lúðvík Örn Steinarsson hrl.)

C

(Þórdís Bjarnadóttir hrl.)

Kærumál. Faðerni. Börn. Mannerfðafræðileg rannsókn. Lögvarðir hagsmunir.

A höfðaði mál til ógildingar á faðernisviðurkenningu og undir meðferð málsins krafðist hún þess að fram færi mannerfðafræðileg rannsókn á D, C og eftir atvikum B og A sjálfri. Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að hafna kröfu A með vísan til þess að í 2. mgr. 21. gr. barnalaga nr. 76/2003 væru aðilar til sóknar í áðurgreindum málum tæmandi taldir og því hefði sóknaraðili ekki lögvarða hagsmuni af því að fá áðurgreinda mannerfðafræðilega rannsókn, enda gæti slík rannsókn engu breytt um úrslit málsins.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Garðar Gíslason.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. mars 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. mars 2012, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að mannerfðafræðileg rannsókn verði gerð á lífsýnum úr D, varnaraðilanum C og eftir atvikum varnaraðilanum B og sóknaraðila sjálfri. Kæruheimild er í 1. mgr. 15. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess að rannsókn þessi fari fram. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Svo sem nánar greinir í hinum kærða úrskurði fæddi varnaraðilinn B varnaraðilann C [...]. janúar 1955. Móðirin gekk að eiga D [...]. júlí 1955 og við skírn C 2. október sama ár gekkst D við faðerni hennar með skriflegri yfirlýsingu sinni fyrir presti, sbr. 1. mgr. 3. gr. þágildandi laga nr. 87/1947 um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna.

Sóknaraðili, sem er dóttir nefndra hjóna og fædd [...]. september 1958, hefur höfðað mál þetta til ógildingar á faðernisviðurkenningunni samkvæmt 2. mgr. 21. gr. barnalaga. Aðild að slíkri málsókn eiga samkvæmt nefndu lagaákvæði barnið sjálft, sá sem viðurkennt hefur faðernið og móðir þess. Kveðst sóknaraðili hafa lögvarða hagsmuni af því að hnekkja faðernisviðurkenningunni sem varnaraðilinn C reisi á kröfu sína um arf eftir D, en hann lést [...]. febrúar 2011. Þess vegna eigi hún kröfu til þess að mannerfðafræðileg rannsókn fari fram á því hvort varnaraðilinn C sé í raun dóttir D. Eigi hún aðild að málinu, þrátt fyrir hljóðan 2. mgr. 21. gr. barnalaga, enda séu mikilvægir þjóðfélagslegir hagsmunir í því fólgnir að rétt faðerni sé í ljós leitt. Mál til vefengingar á faðerni barns samkvæmt 1. mgr. 21. gr. barnalaga geti höfðað þeir sömu og greinir í 2. mgr. 21. gr., en að auki, að föðurnum látnum, sá erfingi hans sem gengur jafnhliða eða næst barninu að erfðum. Tilgangur og markmið tilvitnaðra lagaákvæða sé hinn sami, að hnekkja faðerni barns þegar líkur hafi verið leiddar að því að sá sem viðurkennt hafi faðerni geti ekki verið faðir þess. Samkvæmt eðli máls og meginreglum laga eigi hver sá, sem lögmætra hagsmuna hafi að gæta, að geta sótt mál til vefengingar á faðerni eða ógildingar á faðernisviðurkenningu, enda felist í 70. gr. stjórnarskrárinnar sjálfstæð regla um að menn skuli almennt eiga rétt á að bera mál sín undir dómstóla og ákvæði í almennum lögum, sem takmarka þann rétt, verði að skýra með hliðsjón af því.

Í 21. gr. barnalaga er gerður greinarmunur á aðild að dómsmáli annars vegar til vefengingar á faðerni barns og hins vegar til ógildingar á faðernisviðurkenningu. Í 2. mgr. sömu lagagreinar eru aðilar til sóknar í síðarnefndu málunum tæmandi taldir. Af þeim sökum hefur sóknaraðili ekki lögvarða hagsmuni af því að fá mannerfðafræðilega rannsókn af þeim toga, sem hún gerir kröfu um, enda gæti rannsóknin engu breytt um úrslit þessa máls. Ber þegar af þeim ástæðum að staðfesta hinn kærða úrskurð, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, A, greiði varnaraðilum, B og C, hvorri fyrir sig 150.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. mars 2012.

Mál þetta var höfðað með stefnu áritaðri um birtingu hinn 2. desember 2011 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 17. febrúar sl. Stefnandi er A, [...], [...], en stefndu eru B, [...],[...], og C, [...],[...].

Dómkröfur stefnanda eru þær að ógilt verði faðernisviðurkenning D, kt. [...], dags. 2. október 1955, vegna C, kt. [...]. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu.

Dómkröfur stefndu B eru þær að hún verði sýknuð af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmd til að greiða stefndu málskostnað.

Dómkröfur stefndu C eru þær að hún verði sýknuð af kröfum stefnanda og að henni verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda.

Í málinu gerir stefnandi þá kröfu að mannerfðafræðileg rannsókn samkvæmt 15. gr. barnalaga nr. 76/2003 fari fram á lífsýnum úr D og stefndu C svo og eftir atvikum úr stefndu B og stefnanda.

Stefndu krefjast þess að hafnað verði kröfu stefnanda um að fram fari mannerfðafræðileg rannsókn.

Af hálfu stefndu C er krafist málskostnaðar í þessum þætti málsins.

Málið var flutt um þetta ágreiningsefni 17. febrúar sl.

I.

 Stefnandi þessa máls er dóttir D og stefndu B. Stefnda C er elsta dóttir stefndu B og lýtur mál þetta að ágreiningi um faðerni hennar.

Stefnandi kveður málavexti þá að faðir hennar, D, hafi verið við nám erlendis á árunum 1952 til 1954 og lokið námi 1954 og flutt þá í kjölfarið aftur til Íslands. Hann hafi fljótlega tekið saman við stefndu B. Þau hafi þá þekkst um nokkurt skeið en samband þeirra á milli verið nokkuð takmarkað þar sem ferðir milli landa á þessum tíma hafi verið fátíðar líkt og alkunna sé. Áður en þau felldu hugi saman hafi stefnda B verið í sambandi með öðrum manni.

Þann [...]. janúar 1955 hafi stefnda B alið stúlkubarn, stefndu C, í [...] í [...]. Ástæða þess að stefnda B hafi alið barnið í [...] sé sú að E, [...], hafi ætlað að ættleiða barnið ásamt manni sínum strax við fæðingu þess. Það hafi þó ekki gengið eftir þar sem stefndu B hafi snúist hugur en hjónin ættleitt þess í stað íslenskan dreng sumarið 1955. Stefnda B hafi haldið til Íslands á ný og stefnda C verið með í för.

Þann [...]. júlí árið 1955 hafi stefnda B og D gengið í hjúskap. Þann 2. október 1955 hafi stefnda C verið skírð af F sóknarpresti og sé D skráður sem faðir hennar í kirkjubók [...]prestakalls sama dag.

Á uppvaxtarárum sínum, sem og í seinni tíð, hafi stefnandi oftar en ekki heyrt af því að stefnda C væri ekki líffræðileg dóttir D. Þann [...]. febrúar 2011 hafi D látist og hafi bú hans verið tekið til opinberra skipta þann 20. júlí 2011. Skiptastjóri hafi verið skipaður og frá upphafi skiptaferils hafi stefnandi vefengt að stefnda C væri lögerfingi arfleiðanda. Stefnandi hafi í þeim efnum skorað á stefndu C í tvígang að gangast undir mannerfðafræðilega rannsókn en stefnda neitað því.

Stefnandi byggir kröfu sína í málinu á því að stefnda C geti ekki verið líffræðileg dóttir stefndu B og arfleiðanda D. Stefnda C sé fædd [...]. janúar 1955. Yfirgnæfandi líkur séu á því að arfleiðandi sé ekki líffræðilegur faðir hennar, enda hafi hann stundað nám í [...] á getnaðartíma barnsins, þ.e. allt fram til sumarsins 1954 er hann hafi lokið námi. Stefnda B hafi á getnaðartíma stúlkunnar átt í tygjum við annan mann og bendi það enn fremur til þess að arfleiðandi sé ekki líffræðilegur faðir stefndu C. Til frekari rökstuðnings megi enn fremur benda á að stefnda B hafi farið utan til [...] til að ala barnið í þeim tilgangi að gefa það síðan til ættleiðingar.

Árið 1955, á fæðingarári stefndu C, hafi verið í gildi lög nr. 87/1947 um óskilgetin börn. Samkvæmt 3. gr. þeirra laga teljist karlmaður faðir óskilgetins barns sem kona kennir honum ef hann gengst við því hjá presti eða valdsmanni eða bréflega og vottfest. D sé skráður faðir C í kirkjubók [...]prestakalls á skírnardegi hennar þann 2. október 1955. Nefnt ákvæði hafi verið numið úr lögum 1. júlí 1992 með gildistöku barnalaga nr. 20/1992. Samkvæmt núgildandi barnalögum nr. 76/2003 teljist faðernisviðurkenning fyrir presti því ekki fullnægjandi til feðrunar barns, sbr. 4. gr. laganna.

Samkvæmt 2. mgr. 21. gr. barnalaga nr. 76/2003 geti barn, sá sem viðurkennt hefur faðerni barns og móðir þess höfðað mál til ógildingar á faðernisviðurkenningu. Mál til vefengingar á faðerni barns samkvæmt 1. mgr. 21. gr. geti barnið höfðað sjálft, móðir þess, einnig sá sem skráður sé faðir barns samkvæmt  2. gr. og að honum látnum sá erfingi hans er gangi jafnhliða eða næst barninu að erfðum. Að framangreindu virtu sé ljóst að aðild að máli til vefengingar á faðerni sé rýmri en aðild að málum til ógildingar á faðernisviðurkenningu. Mikilvægir þjóðfélagshagsmunir séu hins vegar fólgnir í því að faðerni sé í ljós leitt og ákvarðað. Tilgangur tilvitnaðra ákvæða sé sá sami, þ.e. að hnekkja faðerni barns þegar líkur hafa verið leiddar að því að sá, sem viðurkennt hefur faðerni, hvort sem er á grundvelli 2. eða 3. gr. barnalaga, geti ekki verið líffræðilegur faðir þess. Samkvæmt eðli máls og meginreglu laga eigi hver sá sem lögmætra hagsmuna hafi að gæta að geta sótt mál til vefengingar á faðerni sínu.

Í 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 felist sjálfstæð regla um að menn skuli almennt eiga rétt á að bera mál sitt undir dómstóla. Ákvæði í almennum lögum sem takmarki þennan rétt verði að skýra með hliðsjón af því. Í 2. mgr. 21. gr. barnalaga séu aðilar til sóknar í málum til ógildingar á faðernisviðurkenningu tæmandi taldir. Feli ákvæði eftir orðanna hljóðan í sér tálmun þess að stefnandi geti leitað viðurkenningar á því að arfleiðandi, D, sé ekki faðir stefndu C. Stefnandi hafi ríka hagsmuni af því að fá úr því skorið með dómi hvort faðir hennar sé réttur og raunverulegur faðir stefndu C.

Ákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar feli í sér jafnræðisreglu og sé henni ætlað að tryggja að allir skuli vera jafnir fyrir lögum. Sams konar bann við mismunun birtist í 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Í athugasemdum með frumvarpi að stjórnskipunarlögum nr. 97/1995 komi fram að í jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar felist ekki ákveðin efnisréttindi, heldur felist mikilvægi hennar fyrst og fremst í því að henni sé ætlað að vera almenn leiðbeiningarregla um bann við mismunun sem beri ávallt að hafa að leiðarljósi, ekki einvörðungu við setningu laga, heldur og við skýringu þeirra. Við skýringu 1. og 2. mgr. 21. gr. barnalaga komi í ljós ákveðin mismunun á réttindum viðkomandi erfingja til að fá faðerni hnekkt. Sú mismunun endurspeglist í því að erfingi, sem gengur jafnhliða eða næst barninu í erfðum að föðurnum látnum, geti höfðað mál til vefengingar á faðerni í skilningi 1. mgr. 21. gr. en ekki mál til ógildingar á faðernisviðurkenningu, sbr. 2. mgr. nefnds ákvæðis.

Stefnandi hafi leitt líkur að því að D geti ekki verið líffræðilegur faðir stefndu C og hafi stefnandi ríka hagsmuni af því að fá úr því skorið með dómi þar sem systurnar gangi jafnhliða að erfðum eftir hann. Löggjöf sem við þessar aðstæður takmarki rétt manns til að fá úrlausn dómstóla um málefni er varða hagsmuni hans brjóti í bága við 70. gr. stjórnarskrárinnar. Það að stefnandi þessa máls sé útilokaður frá því að fá skorið úr um jafn mikilsverða hagsmuni feli í sér mismunun í skilningi 65. gr. stjórnarskrárinnar.

II.

Stefnda B var svipt fjárræði ótímabundið með úrskurði Héraðsdómi Reykjaness uppkveðnum 8. júlí 2011. Var henni skipaður fjárhaldsmaður samkvæmt  skipunarbréfi 10. nóvember 2011.

Sýknukröfu sína byggir stefnda B á því að stefnandi eigi ekki aðild að máli til ógildingar á faðernisviðurkenningu, sbr. 2. mgr. 21. gr. barnalaga nr. 76/2003 en samkvæmt því geti aðeins barn, sá sem viðurkennt hefur faðerni barns og móðir þess höfðað mál til ógildingar á faðernisviðurkenningu. Af þessum sökum beri að sýkna stefndu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefnandi byggi á því að þrátt fyrir að D hafi gengist við stefndu C samkvæmt þágildandi lögum um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna teljist faðernisviðurkenningin ekki fullnægjandi til feðrunar barns samkvæmt núgildandi lögum. D hafi gengist við faðerni stefndu C með faðernisviðurkenningu í samræmi við 4. gr. laga nr. 87/1947 um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna sem þá hafi verið í gildi. D og stefnda B hafi gengið í hjónaband eftir fæðingu stefndu C. Af þeim sökum hafi D ritað undir faðernisviðurkenningu þann 2. október 1955 í samræmi við 4. gr. laga um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna nr. 87/1947 auk þess sem D hafi verið skráður faðir stefndu C á skírnarvottorði. Faðernisviðurkenningin hafi því verið í samræmi við lög sem þá hafi gilt. Stefnda C sé því rétt feðruð samkvæmt lögunum. Breyttar reglur um feðrun barna í núgildandi lögum breyti engu þar um.

Stefnda telur að það hefði komið skýrt fram í lögum ef til hefði staðið að stefnandi ætti aðild að málinu. Ákvæði 2. mgr. 21. gr. barnalaga um aðild til ógildingar á faðernisviðurkenningu séu tæmandi talin.

Stefnda telur ákvæðið 2. mgr. 21. gr. barnalaga ekki vera brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, enda megi ætla að munurinn á aðild til sóknar í 1. mgr. og 2. mgr. 21. gr. barnalaga skýrist af þeim mun sem sé á reglum um feðrun barns, en til þess að barn sé réttilega feðrað með faðernisviðurkenningu þurfi karlmaður að gefa út skriflega yfirlýsingu þess efnis fyrir sýslumanni eða dómara samkvæmt núgildandi lögum en fyrir presti samkvæmt eldri lögum. Löggjafinn hafi því ekki talið þörf á jafn rúmri aðild að sókn í málum til ógildingar á faðernisviðurkenningu.

Stefnda B mótmælir því að mannerfðafræðileg rannsókn fari fram á lífsýnum úr arfleiðanda, stefndu C og eftir atvikum stefndu B og stefnanda. Til þess að dómari ákveði að rannsókn megi fara fram verði að sýna fram á að ástæða sé til ógildingar faðernisviðurkenningar ef stefnandi hafi engin gögn lagt fram um slíkt.

III.

Sýknukrafa stefndu C byggist á því að stefnandi eigi ekki aðild að máli þessu. Í málinu liggi fyrir fullgild faðernisviðurkenning af hálfu hins látna samkvæmt 3. gr. barnalaga nr. 76/2003, dags. 2. október 1955. Barnalög nr. 76/2003 geri skýran greinarmun á aðild að dómsmáli eftir því hvort um sé að ræða mál sem höfðað sé til vefengingar á faðerni annars vegar eða mál sem höfðað sé til ógildingar á faðernisviðurkenningu hins vegar. Samkvæmt 2. mgr. 21. gr. barnalaga nr. 76/2003 eigi aðeins barnið sjálft, sá sem viðurkennt hafi faðerni og svo móðir þess aðild að máli til ógildingar á faðernisviðurkenningu. Löggjafinn hafi því með skýrum hætti greint á milli þess hvað varðar aðild erfingja að vefengingarmálum annars vegar og ógildingarmálum hins vegar. Stefnda mótmælir því að skýr ákvæði 21. gr. barnalaga séu brot á jafnræðisreglu stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.

Þann 2. október 1955 hafi D heitinn gengist við stefndu C fyrir presti en á þeim tíma hafi lög nr. 87/1947 um óskilgetin börn verið í gildi. Samkvæmt 3. gr. þeirra laga teljist karlmaður faðir óskilgetins barns er kona kennir honum ef hann gengst við því fyrir presti, valdsmanni eða bréflega og vottfast. Faðernisviðurkenningin sé skjalfest og skráð í kirkjubók [...]prestakalls og afrit hennar sé meðal gagna málsins. Samkvæmt framangreindu sé stefnda feðruð samkvæmt 3. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Þá liggi ekki annað fyrir í málinu en að hinn látni hafi litið á stefndu sem dóttur sína og að það hafi verið vilji hans að hún tæki arf eftir hann til jafns við önnur systkini sín. Þessu til stuðnings megi benda á að þann 27. janúar 2010 hafi hinn látni ritað ásamt öðrum lögerfingjum, m.a. stefnanda, undir skiptayfirlýsingu vegna fyrirfram greidds arfs af hálfu hins látna og maka hans, stefndu B. Í skiptayfirlýsingunni komi skýrlega fram að stefnda C sé barn hins látna og lögerfingi hans.

Stefnda C telur að hafna eigi kröfu stefnanda um að fram fari mannerfðafræðileg rannsókn þar sem stefnandi geti ekki átt aðild að málinu.

IV.

Eins og að framan er rakið er stefnandi þessa máls, A, dóttir D, sem lést [...]. febrúar 2011, og stefndu B. Stefnda C er systir stefnanda.

Með málsókn þessari freistar stefnandi þess að ógilda viðurkenningu D heitins á faðerni stefndu C á grundvelli 2. mgr. 21. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Fyrir liggur í málinu að D gekkst við stefndu C hjá presti 2. október 1955 er hún var skírð og er faðernisviðurkenningin skráð í kirkjubók [...]prestakalls og er meðal gagna málsins. Þá liggur einnig fyrir í málinu skiptayfirlýsing, dags. 27. janúar 2010, undirrituð af D, stefndu B, stefndu C, stefnanda A og bróður þeirra systra, G, þar sem fram kemur m.a. að D og stefnda B geri „með skiptayfirlýsingu þessari kunnugt, að við höfum ákveðið að ráðstafa sem fyrirframgreiddum arfi til neðangreindra lögerfingja okkar þ.e. þremur barna okkar eftirtöldum eignum okkar …“

Við mat á því hvort beita eigi heimildarákvæði 15. gr. barnalaga og heimila mannerfðafræðilega rannsókn þykir verða að horfa til þess að fullgild faðernisviðurkenning samkvæmt þágildandi lögum nr. 87/1947 um óskilgetin börn, 3. gr., liggur fyrir í málinu og jafnframt að ekki hefur annað komið fram í málinu en að D heitinn hafi alla tíð litið á stefndu C sem dóttur sína.

Þá verður ekki fram hjá því litið við úrlausn málsins að stefnandi á ekki sjálfstæða aðild að málinu, sbr. ákvæði 2. mgr. 21. gr. barnalaga. Heimild samkvæmt 15. gr. barnalaga verður  ekki beitt nema fyrir hendi sé þetta grundvallarskilyrði fyrir höfðun málsins.

Að framangreindu virtu er því hafnað að umbeðin gagnaöflun fari fram.

Rétt þykir að ákvörðun um málskostnað bíði efnisdóms.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Hafnað er kröfu stefnanda, A, um að mannerfðafræðileg rannsókn verði gerð á lífsýnum úr arfleiðanda, D, stefndu C og eftir atvikum stefndu B og stefnanda sjálfum.

Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.