Hæstiréttur íslands

Mál nr. 393/2003


Lykilorð

  • Bifreið
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Skaðabætur
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 11

 

Fimmtudaginn 11. mars 2004.

Nr. 393/2003.

Urður Skúladóttir

(Helgi Birgisson hrl.)

gegn

Einari Vigni Einarssyni

Eymari Einarssyni

Kristjáni Einarssyni

Viggó Jóni Einarssyni

Eyleifi Hafsteinssyni og

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Hákon Árnason hrl.)

 

Bifreiðir. Líkamstjón. Örorka. Skaðabætur. Gjafsókn.

Með vísan til fyrri dóma Hæstaréttar í sambærilegum málum var hafnað kröfu U um að við útreikning tjónsbóta henni til handa ætti að beita sérreglu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og talið að V hefði réttilega byggt á reglu 3. mgr. sömu lagagreinar við bótauppgjör við U.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Guðrún Erlendsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. október 2003. Hún krefst þess að stefndu verði í sameiningu dæmdir til að greiða sér 2.422.596 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 25. febrúar 2001 til 15. nóvember sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilteknum fjárhæðum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndu krefjast þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og þeim dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hvert sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda hér fyrir dómi fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Urðar Skúladóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 250.000 krónur.

 


Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júlí 2003.

                Mál þetta, sem dómtekið var 23. maí sl. er höfðað með stefnu birtri 4. október 2002.

                Stefnandi er Urður Skúladóttir, Hlíðargötu 22, Þingeyri.

                Stefndu eru Einar Vignir Einarsson, Ljósavík 34, Reykjavík, Eymar Einarsson, Jaðarsbraut 23, Akranesi, Kristján Einarsson, Danmörku, Viggó Jón Einarsson, Skuggabjörgum, Hofsósi, Eyleifur Hafsteinsson, Einigrund 24, Akranesi og Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmd til að greiða henni 2.422.596 krónur ásamt 4.5% vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, frá 25. febrúar 2001 til 15. nóvember 2001, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, af 5.133.458 krónum frá þeim degi til 23. janúar 2002, en þá af 4.067.902 krónum frá þeim degi til 8. mars 2002, en þá af 2.422.596 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.         

Stefndu gera aðallega þær dómkröfur að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.

Til vara gera stefndu þá kröfu að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði látinn niður falla.

MÁLSATVIK

Föstudaginn 25. febrúar 2000 lenti jeppabifreið framan á hópbifreið sem stefnandi var farþegi í. Slysið varð á Vesturlandsvegi við Grundarhverfi á Kjalarnesi. Jeppabifreiðin, ZZ-006, var skylduvátryggð hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. Stefnandi slasaðist við áreksturinn og var flutt með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss í Fossvogi.

Læknarnir Ragnar Jónsson og Atli Þór Ólason mátu afleiðingar slyssins samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993. Matsgerð þeirra er dagsett 3. október 2001. Er það niðurstaða þeirra að stefnandi hafi hlotið 25% varanlegan miska og 10% varanlega örorku.

Með bréfi dagsettu 15. október 2001 setti lögmaður stefnanda fram sundurliðaðar bótakröfur hennar vegna slyssins og taldi eðlilegt að miða við meðaltekjur iðnaðarmanna við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku með vísan til 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga Stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. miðaði við lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Þann 8. mars 2002 setti stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. fram sundurliðað lokauppgjör á tjóninu og gerði það upp samdægurs við lögmann stefnanda, sem kvittaði fyrir móttöku bótanna með fyrirvara um bætur vegna varanlegrar örorku.

Hefur stefnandi höfðað mál þetta til lausnar ágreiningnum og krefst eftirstöðva bóta fyrir varanlega örorku þar sem miðað er við meðaltekjur iðnaðarmanna.

Krafa stefnanda sundurliðast þannig:

2.532.205 x 1.06 / 182,0 x 204,8 = 3.020.392 0

3.020.392 x 16,996 x 10 /o................................................ kr. 5.133.458.

Að frádreginni innborgun frá TR og VÍS hf. að fjárhæð...- kr. 2.710.862.

Samtals..... kr.2.422.596.

MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK

Stefnandi kveðst byggja kröfu sína um bætur vegna varanlegrar örorku á 5.-7. gr. skbl, nr. 50/1993, með síðari breytingum, og matsgerð Ragnars Jónssonar og Atla Þórs Ólasonar, dags. 3. október 2001. Skv. 1. mgr. 7. gr. skbl. nr. 50/1993, eins og lögunum var breytt með lögum nr. 37/1999, frá 1. maí 1999, skuli við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku miða við árslaun sem nemi meðalvinnutekjum tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitandi til lífeyrissjóðs síðustu þrjú almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt skv. launavísitölu til þess tírna er upphaf varanlegrar örorku miðast við. Í 2. mgr. segi síðan að árslaun skuli þó metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi og ætla megi að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Telur stefnandi að beita eigi ákvæði 2. mgr. 7. gr. við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku stefnanda en ekki 3. mgr. 7. gr. eins og stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hafi gert við uppgjörið, þ.e. að miða við lágmarkstekjuviðmið 3. mgr. Fyrir því séu augljós rök. Í tilviki stefnanda séu aðstæður að því leiti óvenjulegar að síðustu árin fyrir slysið hafi hún verið í námi auk þess að vera tímabundið í hinum ýmsu störfum. Þá hafa breytingar á atvinnuhögum hennar verið tíðar, en það helgist m.a. af því að stefnandi hafi, er hún varð fyrir slysinu, verið ung að árum og ekki mótað sér framtíðarbraut í atvinnulegu tilliti enda í námi mestan hluta tímabilsins.

Stefnandi mótmælir með öllu að 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga eigi við um aðstæður hennar. Ákvæðinu sé að meginstofni ætlað að ná til þeirra sem engar tekjur hafi vegna ungs aldurs eða vegna þess að þeir hafa ekki verið á vinnumarkaði t.d. vegna fötlunar eða þar sem þeir hafa verið heimavinnandi til langs tíma, sbr. athugasemdir með 7. gr. laganna. Ákvæðinu sé þannig ætlað að tryggja þessum aðilum ákveðna lágmarkstekjuviðmiðun. Hins vegar sé ákvæðinu alls ekki ætlað að ná til þeirra sem komnir eru út á vinnumarkaðinn en sérstakar aðstæður valdi því að tekjur þeirra á viðmiðunartímanum séu lægri en lágmarktekjuviðmiðun skv. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga enda sérstaklega kveðið á um að við þær aðstæður skuli tekjuviðmiðun fara eftir 2. mgr. 7. gr. laganna. Í því sambandi skuli á það bent að 2. mgr. 7. gr. skbl. sé ætlað að ná til námsmanna þegar námslok tengd starfsferli megi teljast fyrirsjáanleg. Yrði fallist á það með stefnda að stefnandi, sem hafi ný lokið námi en ekki mótað sér framtíðar tekjugrundvöll, eigi undir 3. mgr. 7. gr. skbl. væri jafnframt verið að gera stöðu námsmanna betri en þeirra sem hefðu ný lokið námi við tjónsatburð. Fullyrða megi að það hafi ekki verið ætlan löggjafans enda skýrlega tekið fram í 2. mgr. 7. gr. að árslaun skuli metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Augljóst megi vera að óvenjulegar aðstæður séu til staðar í tilviki stefnanda, eins og áður hefur verið rakið, enda hafi hún nýlega verið komin á vinnumarkaðinn eftir að hafa lokið námi auk þess að hafa skipt um vinnu á viðmiðunartímanum. Hefði hún því ekki skapað sér framtíðartekjugrundvöll sem sanngjarnt er að taka mið af Gefi því hvorki tekjur hennar fyrir slysið eða lágmarkstekjuviðmiðun 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga rétta mynd af líklegu tekjutjóni hennar í framtíðinni sem skaðabótalögunum sé ætlað að tryggja eins og kunnugt sé.

Í ljósi menntunar stefnanda á slysdeginum og aldri hennar þyki eðlilegt og sanngjarnt að leggja til grundvallar meðaltekjur iðnaðarmanna eins og þær hafi verið ári fyrir slysið að meðtöldu 6% framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs, leiðrétt skv. launavísitölu til þess tíma er upphaf varanlegrar örorku miðast við, þ.e.a.s stöðugleikatímamark skv. örorkumati. Í því sambandi skuli á það bent að tekjuviðmiðun þessari hafi jafnframt ítrekað verið beitt í svipuðum tilvikum og hér um ræðir. Ástæða þess sé sú að meðaltekjur iðnaðarmanna munu vera nálægt almennum meðaltekjum hér á landi.

Að öðru leyti skýri sundurliðun kröfugerðar stefnanda sig sjálf en lagðar séu til grundvallar meðaltekjur iðnaðarmanna skv. upplýsingum frá Jóni Erlingi Þorlákssyni fyrir almanaksárið 1999. Gerð sé krafa um 4,5% vexti skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af bótum fyrir varanlega örorku frá stöðugleikatímamarki þann 25. febrúar 2001, allt til 15. nóvember 2001, eða mánuði eftir dagsetningu kröfubréfs til stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., þar sem allar forsendur hafi verið til staðar til að ganga frá uppgjöri í málinu. Í kröfugerð hafi verið tekið tillit til innborgunar bóta annars vegar frá Tryggingastofnun ríkisins þann 23. janúar 2002 að fjárhæð 1.065.556 krónur og hins vegar frá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands h£, þann 8. mars 2002 að fjárhæð 1.645.306 krónur. Samtals að fjárhæð 2.710.862 krónur.

Stefndu í málinu, að frátöldu hinu meðstefnda vátryggingafélagi, séu lögerfingjar eiganda bifreiðarinnar ZZ-006. Ástæða aðildar þeirra sé sú að eigandi bifreiðarinnar hafi látist í því slysi sem um ræðir og aðild lögerfingjanna því nauðsynleg.

Um ábyrgð stefndu vísar stefnandi til 88., 90., 91, og 97. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Um bótakröfurnar er vísað til skaðabótalaga nr. 50/1993, auk almennra ólögfestra reglna íslensks skaðabótaréttar.

Um vaxtakröfuna vísar stefnandi sérstaklega til 16. gr. skbl. nr. 50/1993 og um dráttarvaxtakröfuna til l. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

Um málskostnaðarkröfu sína vísar stefnandi til laga um meðferð einkamála nr. 90/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra.

Sýknukrafa stefndu er byggð á því að með þegar uppgerðum bótum sé stefnandi búinn að fá tjón sitt af völdum slyssins að fullu bætt samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993 og eigi hún ekki rétt til frekari bóta úr hendi stefndu.

Aðstæður stefnanda séu ekki að neinu leyti óvenjulegar. Það geti ekki talist óvenjulegt að ungmenni á þessum aldri sé í námi og tímabundið í hinum ýmsu störfum. Þegar stefnandi hafi slasast hafi hún verið á vinnumarkaði og hefði lokið stúdentsprófi. Hún hafi ekki verið iðnaðarmaður eða í iðnnámi er slysið varð né orðið það síðar. Það séu því engin skilyrði til þess í tilviki stefnanda að nota meðaltekjur iðnaðarmanna sem viðmiðunartekjur við útreikning bóta fyrir varanlega örorku.

Þegar stefnandi slasaðist hafi hún ekki verið í námi heldur hefði hún lokið stúdentsprófi. Það sé almenn menntun án starfstengingar eða sérstakra starfsréttinda. Það gefi því ekki vísbendingu um framtíðartekjur ólíkt því sem gildi um starfsréttindanám þegar námslok séu fyrirsjáanleg, sbr. athugasemd í greinargerð með 6. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 37/1999. Þar segi að eðlilegt sé að miða tekjur námsmanna sem fyrirsjáanlega eru að ljúka starfsréttindanámi við það starf. Slíkt sé eðlilegt því þá hafa verið færðar nægilegar líkur fyrir hvert tjón þess slasaða er. Það liggi þá fyrir nægilegar forsendur sem nauðsynlegar séu þegar viðmiðunarlaun séu ákveðin. Það eigi því ekki við rök að styðjast þegar stefnandi haldi því fram að með því að beita 3. mgr. 7. gr. skbl. um stefnanda sé verið að gera stöðu námsmanna betri en þeirra sem nýlokið hafa námi án þess að hafa mótað framtíðartekjugrundvöll. Það sé einmitt sú vísbending um framtíðartekjugrundvöll sem fyrirsjáanlegum námslokum í tilteknu starfstengdu námi felist sem höfuðmáli skipti þegar tekjur tiltekinnar stéttar séu lagðar til grundvallar sem viðmiðunarlaun við ákvörðun fjárhagslegrar örorku. Það sé meginregla skaðabótalaga, sem dómstólar hafi staðfest, að bótauppgjör beri að miða við aðstæður tjónþola á slysdegi, en ekki ímyndaðar aðstæður hans í óvitaðri framtíð. Þegar þetta sé haft í huga sé slík óvissa tengd þeim þáttum sem geti verið hinu sérstaka mati 2. mgr. 7. gr. skbl. til grundvallar að á þeim verði ekki byggt þegar metin séu árslaun til grundvallar fjárhagslegri örorku stefnanda. Þsé er því ekki unnt að líta svo á að sýnt hafi verið fram á að annar mælikvarði, en sá sem stuðst var við í bótauppgjöri, sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola.

Tekjusaga stefnanda fyrir slys sé stutt og því ekki unnt að miða við meðalatvinnutekjur hennar síðustu þrjú almanaksárin fyrir tjónsdag eins og l. mgr. 7. gr. skbl. geri ráð fyrir. Þar við bætist að laun hennar þann tíma sem hún hafi verið á vinnumarkaði séu almennt lág. Tekjur hennar árið 1999 samkvæmt skattframtali hafi verið 806.877 krónur. Tekjur ársins 2000 samkvæmt skattframtali hafi verið 534.269 krónur. Það sé því eðlilegt að styðjast við tekjuviðmið 3. mgr. 7. gr. skbl.

Verði ekki á sýknukröfu fallist er varakrafa stefndu byggð á því að stefnukröfur beri í öllu falli að lækka verulega. Er þá miðað við að stefnandi kunni að geta bent á meðaltekjur starfsfólks í störfum sambærilegum þeim sem hún hefur starfað við er gefi hærri árslaun en lágmarkslaun 7. gr. skbl. Hins vegar hefur enn ekki verið sýnt fram á að önnur viðmiðun en lágmarkslaun 7. gr. skbl. sé réttari eins og aðstæðum stefnanda er háttað.

NIÐURSTAÐA

Í nokkrum dómum Hæstaréttar hefur reynt á skil milli 5.–7. gr. og 8. gr. skaðabótalaga, þegar líkt er ástatt með tjónþolum og hér er, eins og þessar greinar laganna voru áður en þeim var breytt með lögum nr. 37/1999. Eru hinir helstu í dómasafni réttarins 1998 bls. 1976, 2000 bls. 683 og 1658 auk dóma í málum nr. 160/2001, 19/2002, 51/2002 og 375/2002. Í fyrsttalda dóminum var um að ræða mann, sem kominn var langt í námi sínu þegar hann slasaðist. Af þeim sökum og öðrum, sem þar eru raktar, varð niðurstaðan sú að um uppgjör tjónsins skyldi farið eftir 5.–7. gr. skaðabótalaga. Í öllum hinum tilvikunum varð niðurstaðan á hinn bóginn sú að 8. gr. laganna var talin eiga við um bótarétt tjónþolanna og ekki fallist á að beita sérreglu 2. mgr. 7. gr. eins og stefnandi vill byggja á hér. Í flestum þessara mála voru aðilar ungir að árum og sammerkt þeim öllum var að þeir voru skammt á veg komnir í námi þegar tjónsatvikin urðu.

Fram kemur í málinu, að stefnandi, sem fædd er árið 1979, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1999. Að því loknu hóf hún störf hjá ferðaskrifstofu Samvinnuferða-Landsýnar á Ísafirði og í byrjun árs 2000 hóf hún störf sem leiðsögumaður sem hún gegndi uns hún slasaðist 25. febrúar.

Voru aðstæður hennar að miklu leyti sambærilegar þeim, sem voru fyrir hendi í framangreindum dómsmálum að hinu fyrsttalda undanskildu. Þegar litið er til þessara fordæma verður ekki komist hjá að fallast á með stefndu að við uppgjör á tjóni stefndu verði ekki byggt á reglu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga heldur reglu 3. mgr. 7. gr. laganna eins og gert var af hálfu stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. við uppgjör bóta.

Samkvæmt framansögðu verður sýknukrafa stefndu tekin til greina. Rétt er að málskostnaður falli niður.

Stefnandi fékk gjafsókn með bréfi dómsmálaráðuneytisins 8. nóvember 2002. Greiðist gjafsóknarkostnaður hennar úr ríkissjóði, þar með talin laun lögmanns hennar, Ólafs Arnar Svanssonar, hdl. sem þykja hæfilega ákveðin 350.000 krónur auk virðisauksaskatts 85.750 krónur eða samtals 435.750 krónur.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

Stefndu, Einar Vignir Einarsson, Eymar Einarsson, Kristján Einarsson, Viggó Jón Einarsson, Eyleifur Hafseinsson og Vátryggingafélagi Íslands hf., skulu sýknir af kröfum stefnanda, Urðar Skúladóttur.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda 435.750 krónur greiðist úr ríkissjóði.