Hæstiréttur íslands
Mál nr. 298/2013
Lykilorð
- Brot gegn valdstjórninni
- Þjófnaður
- Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
- Umferðarlagabrot
- Ökuréttarsvipting
|
|
Fimmtudaginn 24. október 2013. |
|
Nr. 298/2013.
|
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari) gegn Alexöndru Garðarsdóttur (Kristján Stefánsson hrl.) |
Brot gegn valdstjórninni. Þjófnaður. Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Umferðalagabrot. Ökuréttarsvipting.
A var ákærð fyrir að hafa tvisvar ekið bifreið undir áhrifum ávana- og fíkniefna, of hraðan akstur, þjófnað og brot gegn valdstjórninni. Var hún fundin sek um þau brot sem henni voru gefin að sök. Ekki var talið standa í vegi fyrir sakfellingu að í ákæru kom fram að A hefði ekið bifreið undir áhrifum ávana- og fíkniefna á tilteknu bifreiðastæði þegar A hafði í raun ekið af bifreiðastæðinu og síðan stuttan spöl frá því. Var talið að um hefði verið að ræða ónákvæma tilgreiningu í ákæru á aukaatriði brots, en vörn A hefði ekki verið áfátt af þessum sökum. Var A dæmd í 15 mánaða fangelsi. Þá var hún svipt ökurétti í þrjú ár, en hún hafði áður verið sakfelld fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. apríl 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að refsing ákærðu verði þyngd og svipting ökuréttar staðfest.
Ákærða krefst aðallega sýknu af sakargiftum í III. og IV. kafla ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 5. febrúar 2013 og ákæru ríkissaksóknara 14. febrúar 2013 og að henni verði ekki gerð frekari refsing, en til vara að refsing verði milduð. Einnig krefst hún þess að svipting ökuréttar verði markaður skemmri tími.
Með hinum áfrýjaða dómi var ákærða meðal annars sakfelld samkvæmt III. kafla ákæru 5. febrúar 2013. Samkvæmt þeim ákærulið var verknaði ákærðu lýst með þeim hætti að umrætt sinn hefði hún ekið bifreiðinni [...], ófær um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna, á bifreiðastæði við Bæjarlind við Lindaveg í Kópavogi, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn. Samkvæmt lýsingu lögreglumanna sem komu á vettvang ók ákærða frá umræddu bifreiðastæði, fyrst niður brekku og svo upp brekku við Bæjarlind og upp á vegkant þar sem hún stöðvaði bifreiðina við Lindaveg eftir að lögregla hafði gefið henni merki um það. Taldi héraðsdómur sannað að ákærða hafi ekið bifreiðinni með vélarafli upp brekku uns aksturinn var stöðvaður á Bæjarlind við Lindaveg. Samkvæmt 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála má hvorki dæma ákærða fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greinir né heldur dæma aðrar kröfur á hendur honum. Þó má sakfella ákærða þótt aukaatriði brots, svo sem staður og stund þess, séu ekki skýrt eða rétt greind, enda telji dómari að vörn hafi ekki verið áfátt þess vegna. Enda þótt ákærðu sé í ákæru eingöngu gefið að sök að hafa umrætt sinn ekið á bifreiðastæði við Bæjarlind, en ekki þann stutta spöl sem hún ók frá bifreiðastæðinu þar til lögregla stöðvaði för hennar, er hér aðeins um að ræða ónákvæma tilgreiningu á aukaatriði brots sem leiddi ekki til þess að vörn hennar yrði áfátt af þeim sökum.
Með framangreindum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærðu.
Í 6. mgr. 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 segir meðal annars að hafi stjórnandi vélknúins ökutækis áður brotið gegn ákvæðum 45. gr. eða 45. gr. a. þeirra laga og hann gerist sekur um slíkt brot skuli svipting ökuréttar eigi vara skemur en tvö ár og allt að fimm árum eftir alvarleika brots og magni vínanda eða ávana- og fíkniefna í ökumanni við síðara brotið. Ákærða var með dómi 7. september 2010 sakfelld fyrir brot gegn 1. mgr. og 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga og svipt ökurétti í þrjá mánuði. Í máli þessu er ákærða sakfelld fyrir tvö sams konar brot. Að þessu virtu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sviptingu ökuréttar ákærðu. Þá verður með vísan til forsendna héraðsdóms staðfest niðurstaða hans um refsingu ákærðu en til frádráttar henni kemur með fullri dagatölu gæsluvarðhald er hún sætti frá 13. janúar til 30. apríl 2013.
Ákærða verður dæmd til að greiða allan sakarkostnað fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærða, Alexandra Garðarsdóttir, sæti fangelsi í 15 mánuði, en til frádráttar refsingu komi gæsluvarðhald hennar frá 13. janúar til 30. apríl 2013.
Ákvæði héraðsdóms um sviptingu ökuréttar og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærða greiði allan sakarkostnað fyrir Hæstarétti, samtals 277.066 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. apríl 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var mánudaginn 25. mars 2013, er höfðað með tveimur ákærum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefnum 20. nóvember 2012 og 5. febrúar 2013, og ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 14. febrúar 2013, á hendur Alexöndru Garðarsdóttur, kt. [...], [...], sem hér greinir:
Ákæra útgefin af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 20. nóvember 2012
Fyrir eftirtalin umferðarlagabrot í Garðabæ á árinu 2012 með því að hafa:
I
Mánudaginn 16. júlí ekið bifreiðinni [...] með 105 km hraða á klst. suður Reykjanesbraut, á vegarkafla við Kauptún, þar sem leyfður hámarkshraði var 80 km á klst.
II
Sunnudaginn 12. ágúst ekið sömu bifreið óhæf um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 100 ng/ml) um Hafnarfjarðarveg við Litlatún uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.
Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006
Ákæra útgefin af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 5. febrúar 2013
Fyrir eftirtalin brot:
I.
Þjófnað, með því að hafa mánudaginn 13. ágúst 2012 stolið matvöru að heildarsöluverðmæti 33.353 kr. úr verslun Nóatúns að Háaleitisbraut 68 í Reykjavík.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
II.
Þjófnað, með því að hafa þriðjudaginn 13. nóvember 2012 stolið matvöru að söluverðmæti 717 kr. úr verslun Skeljungs að Grjóthálsi 8 í Reykjavík.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
III.
Umferðarlagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 20. nóvember 2012 ekið bifreiðinni [...], ófær um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (magn amfetamíns í blóði mældist 90 ng/ml og magn MDMA 30 ng/ml), á bifreiðastæði við Bæjarlind við Lindaveg í Kópavogi, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.
Telst þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
IV.
Eftirtalin þjófnaðarbrot framin laugardaginn 8. desember 2012, í félagi við H Steindórsdóttur og I:
1. Með því að hafa stolið vörum að samtals söluverðmæti 96.718 kr. úr verslun
Eymundsson að Strandgötu 31 í Hafnarfirði.
2. Með því að hafa stolið vörum að samtals söluverðmæti 67.385 kr. úr verslun HB-
búðarinnar að Strandgötu 33 í Hafnarfirði.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
V.
[...]
VI.
Þjófnað, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 21. desember 2012 stolið vörum að samtals söluverðmæti 33.912 kr. úr verslun Nettó í Mjódd í Reykjavík.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar, greiðslu alls sakarkostnaðar og sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.
Ákæra, útgefin af ríkissaksóknara 14. febrúar 2013
Fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 12. janúar 2013, í húsnæði Hjálpræðishersins að Kirkjustræti 2, Reykjavík, hótað lögreglumönnunum A, B og C, sem þar voru við skyldustörf, líkamsmeiðingum, með því að ota að þeim sprautu með blóðugri nál og hóta að stinga þá með sprautunálinni.
Telst brotið varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Ákærða játar sök samkvæmt ákæru, útgefinni 20. nóvember 2012, og I., II. og VI. kafla ákæru, útgefinnar 5. febrúar 2013. Með vísan til þeirrar játningar hennar, sem samrýmist gögnum málsins, verður ákærða sakfelld samkvæmt þessum liðum ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til ákæru.
Ákærða neitar sök að öðru leyti. Við upphaf aðalmeðferðar féll sækjandi frá V. kafla ákæru útgefinnar 5. febrúar 2013.
III. kafli ákæru útgefinnar 5. febrúar 2013
Samkvæmt skýrslu lögreglu frá þriðjudeginum 20. nóvember 2012, barst tilkynning klukkan 18:38, um að bifreiðinni [...], hefði verið ekið að bifreiðastæði við Bæjarlind 3 í Kópavogi og væru ökumaður og farþegar undir miklum áhrifum fíkniefna. Er lögreglumenn komu á vettvang sáu þeir bifreiðinni ekið um Bæjarlind og var akstur hennar stöðvaður við Lindaveg. Ákærða reyndist vera ökumaður bifreiðarinnar, en í henni voru jafnframt tveir farþegar, D, sem sat í framsæti, og E, sem sat í aftursæti. Öll voru þau undir áhrifum vímuefna og æst og kemur fram að komið hafi til nokkurra átaka við handtöku E. Hafi ákærða verið „á flandri“ á meðan á þessu stóð og ekki hlýtt fyrirmælum um að fara ekki frá bifreiðinni, en þegar aðgerðum á vettvangi lauk fundust ekki kveikjuláslyklar bifreiðarinnar.
Blóðsýni var tekið frá ákærðu við komu á lögreglustöð. Samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, dagsettri 21. desember 2012, mældist amfetamín í blóði 90 ng/ml, MDMA 30 ng/ml og nítrazepam 80 ng/ml. Kemur fram að ákærða hafi verið undir slævandi áhrifum nítrazepams og megi gera ráð fyrir að hún hafi ekki getað stjórnað bifreið með öruggum hætti af þeim sökum, auk þess sem amfetamín og MDMA hafi fundist í blóðsýni og teldist hún því óhæf til þess að stjórna ökutæki örugglega, sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga.
Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærða ekki hafa ekið bifreiðinni. Bifreiðin hefði verið biluð og hefði hún ekki getað gangsett hana, auk þess sem þau hefðu ekki haft kveikjuláslykla hennar meðferðis. Ákærða kvaðst hafa setið í ökumannssæti og hefðu E og D ýtt bifreiðinni niður brekku á bifreiðastæðinu. Hún hefði síðan tekið í stýrið og sveigt bifreiðinni upp á vegkantinn til að vera ekki fyrir umferð.
F lögreglumaður, sem kom á vettvang, kvaðst hafa séð bifreiðina á bifreiðastæðinu, en síðan hefði henni verið ekið niður brekkuna og beygt til hægri austur Bæjarlind. Ákærða hefði verið ökumaður bifreiðarinnar og hefðu þeir gefið henni merki um að stöðva, sem hún hefði hlýtt. Hefði ákærða ekið bifreiðinni upp á vegkant og stöðvað þar. Vitnið tók fram að bifreiðinni hefði verið ekið fjórar til fimm bíllengdir upp brekku í Bæjarlind áður en hún stöðvaði og taldi hann útilokað að hún hefði runnið þannig upp í móti án vélarafls. Þá kom fram hjá vitninu að aðstæður hefðu verið erfiðar vegna ástands fólksins í bifreiðinni og hefði verið erfitt að henda reiður á því á vettvangi.
G lögreglumaður, sem kom á vettvang ásamt F, kvaðst hafa séð bifreiðina koma akandi niður brekkuna frá sólbaðsstofunni og beygja til hægri upp Bæjarlind. Þeir hefðu þekkt ákærðu sem ökumann. Mikill órói hefði verið á vettvangi og hefði ákærða ekki hlýtt fyrirmælum um að sitja kyrr, heldur ráfað frá bifreiðinni. Vitnið kvað bifreiðina ekki hafa getað runnið upp Bæjarlindina án vélarafls, en þar væri nokkur halli á veginum, auk þess sem bifreiðinni hefði verið ekið upp á vegkant.
Þá kom D fyrir dóminn sem vitni, en hann kvaðst ekki muna atvik í umrætt sinn.
Niðurstaða
Ákærða hefur viðurkennt að hafa verið við stjórn bifreiðarinnar í umrætt sinn. Hefur það ekki áhrif á refsinæmi verknaðarins þótt bifreiðin hefði runnið einhvern hluta leiðarinnar án vélarafls á meðan ákærða reyndi að gangsetja hana, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar Íslands frá 11. desember 1984 í málinu nr. 188/1984. Með framburði lögreglumannanna tveggja sem komu á vettvang verður þó talið sannað að bifreiðinni hafi verið ekið með vélarafli upp brekku uns akstur hennar var stöðvaður á Bæjarlind við Lindaveg. Breytir engu um þá niðurstöðu að kveikjuláslyklar fundust ekki í fórum ákærðu, en fram er komið að hún hafði nægilegt svigrúm til að losa sig við lyklana á vettvangi. Samkvæmt framansögðu, og með vísan til matsgerðar Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, verður ákærða sakfelld samkvæmt III. kafla ákæru og er háttsemi hennar þar rétt færð til refsiákvæða.
IV. kafli ákæru útgefinnar 5. febrúar 2013
Samkvæmt skýrslu lögreglu barst tilkynning um þjófnað úr HB-búðinni við Strandgötu í Hafnarfirði laugardaginn 10. desember 2012. Er lögreglumenn komu á vettvang var þeim vísað á H, sem var inni í versluninni, ákærðu og I, sem voru í bifreiðinni [...] á bifreiðastæði þar skammt frá, ásamt E, sem svaf í bifreiðinni. Í bifreiðinni fannst varningur, bækur, dvd-mynddiskar og leikföng, sem merktur var versluninni Eymundsson. Þá fannst nokkuð af undirfatnaði úr HB-búðinni í farangursgeymslu bifreiðarinnar. Við leit á ákærðu og I reyndust þau bæði vera með undirfatnað úr versluninni í fórum sínum og kemur fram að ákærða hafi reynt að losa sig við nærbuxur sem hún geymdi undir úlpu sinni. Starfsmaður HB-búðarinnar kvaðst hafa fylgst með ákærðu, H og I í versluninni og hefðu ákærða og H tekið hvor sinn náttkjólinn af rekka við útidyr, sem starfsmaðurinn bar kennsl á meðal fatnaðar sem fannst í bifreiðinni. Þá var rætt við starfsmenn verslunarinnar Eymundsson, sem bar að fólkið hefði verið að rápa inn og út úr versluninni.
Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærða lítið muna um atvik í umrætt sinn, en hún hefði verið undir áhrifum vímuefna. Spurð kvaðst hún þó ekki draga í efa að hafa stolið þeim varningi sem í ákæru greinir, ásamt I og H.
J lögreglumaður kom fyrir dóminn sem vitni og gerði grein fyrir afskiptum lögreglu af ákærðu og félögum hennar á vettvangi. Fram kom hjá vitninu að ekki hefðu verið til staðar upptökur úr öryggismyndavélum verslananna.
Þá gaf K, starfsmaður verslunarinnar Eymundsson, skýrslu fyrir dóminum. Hún kvaðst hafa veitt athygli tveimur konum í versluninni, sem hefðu reynt að draga athygli hvor frá annarri.
Niðurstaða
Ákærða hefur borið fyrir sig minnisleysi um atvik í umrætt sinn, en svaraði því til við aðalmeðferð málsins að hún drægi það ekki í efa að hafa verið þarna að verki ásamt H og I. Varningur úr verslununum fannst í bifreið ákærðu og félaga hennar, auk þess sem hún var með nærfatnað úr HB-búðinni innanklæða er lögregla hafði afskipti af henni. Þykir ekki óvarlegt að telja sannað að ákærða hafi stolið vörum úr verslununum eins og í ákæru greinir. Verður ákærða sakfelld samkvæmt IV. kafla ákæru.
Ákæra útgefin 14. febrúar 2013
Aðfaranótt laugardagsins 12. janúar 2013 var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna fólks sem hefði í hótunum við starfsmann Hjálpræðishersins við Kirkjustræti í Reykjavík. Á vettvangi ræddu lögreglumenn við húsvörð, sem greindi frá því að ákærða og E hefðu komist inn í húsið í leyfisleysi og búið sig undir að gista þar í setustofu. Þau hefðu brugðist illa við er hann reyndi að vísa þeim á dyr og haft í hótunum við hann. Í skýrslu lögreglu kemur fram að ákærða og E hafi reynst vera undir miklum vímuáhrifum. Þau hafi verið æst og neitað að hverfa frá gistiheimilinu. Hafi komið til orðaskipta og ákærða sagt við lögreglumennina: „Viljið þið að ég stingi ykkur með nál“ og „viljið þið fá einhvern kokkteil í ykkur frá okkur“. E hafi tekið undir orð ákærðu og sagt þau vera með „fullt af nálum“. Þá hafi ákærða dregið sprautu með blóðugri nál upp úr vasa sínum og beint henni að lögreglumönnunum. Þau hafi síðan verið handtekin og sýnt mikinn mótþróa við handtökuna.
Við aðalmeðferð málsins vísaði ákærða því alfarið á bug að hafa hótað lögreglumönnunum eins og rakið er í ákæru. Þá kvaðst hún ekki hafa verið með sprautunál í fórum sínum. Hún kvað þau E hafa verið ósátt við að vera vísað á brott af Hjálpræðishernum og hefði komið til orðaskipta vegna þess sem leiddi til þess að þau voru handtekin.
L, húsvörður hjá Hjálpræðishernum, kvað íbúa í húsinu hafa gert sér viðvart um að ókunnugt fólk væri komið inn í setustofu. Hann hefði rætt við fólkið, gert þeim grein fyrir að húsið væri lokað og beðið þau um að fara. Þau hefðu ekki orðið við því og hefði stúlkan verið mjög æst. Þá hefði maðurinn sem með henni var verið ógnandi er hann hugðist hringja til lögreglu. Vitnið kvaðst hafa heyrt læti úr setustofunni eftir að lögregla kom á vettvang, en hann hefði ekki séð hvað átti sér stað þar.
A lögreglumaður kvað lögreglumenn hafa komið á vettvang eftir að óskað var aðstoðar vegna pars sem var þar óvelkomið. Hann hefði þekkt parið, ákærðu og E. Þau hefðu verið beðin um að yfirgefa húsið, en brugðist illa við því og kallað þá öllum illum nöfnum. Á einhverju augnabliki hefði ákærða sagt við þá: „Viljið þið fá einhvern kokkteil í ykkur“. E hefði gripið þetta á lofti, haft á orði að þau væru sprautufíklar og væru með „fullt af nálum á sér“. Ákærða hefði síðan dregið sprautu með nál upp úr vasa sínum og beint henni að þeim. Vitnið kvað sér ekki hafa staðið á sama, en fólkið hafi verið í annarlegu ástandi og óútreiknanlegt. Þeir hefðu kallað eftir frekari aðstoð og ákærða og E verið handtekin eftir nokkur átök. Vitnið kvað ákærðu hafa sett sprautuna aftur í vasann áður en hún var handtekin. Hann kvaðst hafa skoðað sprautuna eftir að komið var á lögreglustöðina og séð að nálin var blóðug og einhverjir vessar í henni.
B og C lögreglumenn, sem komu á vettvang ásamt A, báru á sama veg um atvik. B kvað ákærðu hafa tekið upp sprautu og sagst geta smitað þá af einhverjum kokkteil. Hann hefði séð að sprautunálin var blóðug og hefði honum fundist sér ógnað. C kvað ákærðu hafa staðið í um tveggja til þriggja metra fjarlægð frá þeim er hún dró upp sprautu með nál og beindi að þeim. Hún hefði spurt þá hvort hún mætti bjóða þeim kokkteil með nálinni. Hann kvað ákærðu hafa orðið við fyrirmælum þeirra um að setja nálina aftur í vasa sinn.
Niðurstaða
Með samhljóða framburði lögreglumannanna þriggja þykir, gegn neitun ákærðu, sannað að hún hafi framið þá háttsemi sem henni er gefin að sök í ákæru. Verður ákærða sakfelld samkvæmt ákæru og er brot hennar þar rétt fært til refsiákvæða.
Viðurlög og sakarkostnaður
Ákærða er fædd í apríl 1990. Samkvæmt sakavottorði hefur hún frá árinu 2010 hlotið fjóra refsidóma vegna auðgunarbrota og umferðarlagabrota. Síðast var ákærða dæmd 7. desember 2011 til 8 mánaða fangelsisrefsingar, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir þjófnaðarbrot, en með þeim dómi var jafnframt dæmdur upp 6 mánaða skilorðsdómur sem ákærða hlaut í september 2010, vegna auðgunarbrota og umferðarlagabrota, m.a. aksturs bifreiðar undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Með brotum þeim sem ákærða er sakfelld fyrir í máli þessu hefur hún rofið skilorð refsidómsins frá 7. desember 2011. Verður skilorðsdómurinn tekinn upp og ákærðu dæmd refsing í einu lagi, sbr. 60. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga. Þá hefur sektargerð sem ákærða sem ákærða gekkst undir í september 2010 vegna tilraunar til þjófnaðar ítrekunaráhrif í málinu, sbr. 255. gr. almennra hegningarlaga. Ákærða er í máli þessu sakfelld fyrir fimm þjófnaðarbrot, umferðarlagabrot og brot gegn valdstjórninni, og var síðastgreint brot hennar sérlega alvarlegt. Þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði. Gæsluvarðhald ákærðu frá 13. janúar sl. kemur til frádráttar refsingu.
Ákærða er svipt ökurétti í þrjú ár frá birtingu dómsins að telja.
Ákærða greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., vegna vinnu á rannsóknarstigi málsins og við meðferð þess fyrir dómi, 458.075 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Ákærða greiði 214.733 krónur í annan sakarkostnað.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Hulda María Stefánsdóttir saksóknari.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærða, Alexandra Garðarsdóttir, sæti fangelsi í 15 mánuði. Gæsluvarðhald ákærðu frá 13. janúar 2013 kemur til frádráttar refsingu.
Ákærða er svipt ökurétti í þrjú ár frá birtingu dómsins að telja.
Ákærða greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 458.075 krónur, og 214.733 krónur í annan sakarkostnað.