Hæstiréttur íslands
Mál nr. 16/2005
Lykilorð
- Líkamsárás
- Skilorðsrof
|
|
Fimmtudaginn 28. apríl 2005. |
|
Nr. 16/2005. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Annþóri Kristjáni Karlssyni og (Karl Georg Sigurbjörnsson hrl.) Ólafi Valtý Rögnvaldssyni(Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Líkamsárás. Skilorðsrof.
AK og ÓV voru sakfelldir fyrir að hafa í félagi ráðist inn í íbúð A þar sem AK barði hann margsinnis með kylfu, með þeim afleiðingum meðal annars að A handleggsbrotnaði og ÓV kastaði keramikdiski í höfuð hans. Brot ákærðu voru talin varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Langur sakaferill beggja ákærðu þótti bera einkenni ofbeldisverka. Báðir höfðu þeir verið dæmdir til skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar 21. nóvember 2003, AK í sjö mánuði en ÓV í tvo mánuði. Ákærðu höfðu því rofið það skilorð og var refsing dómsins tekin upp og dæmd með. Þóttu brot AK alvarleg og ófyrirleitin og var hann dæmdur til þriggja ára fangelsisvistar, en refsing ÓV þótti hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 13. desember 2004 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þyngingar á refsingu.
Ákærði Annþór Kristján Karlsson krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, en til vara að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Til þrautavara krefst hann þess að refsing verði milduð.
Ákærði Ólafur Valtýr Rögnvaldsson krefst aðallega sýknu en til vara að refsing hans verði milduð.
Ekki hafa verið færð fram haldbær rök fyrir aðalkröfu ákærða Annþórs Kristjáns um ómerkingu héraðsdóms og heimvísun málsins.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærðu og heimfærslu brota þeirra til refsiákvæða.
Svo sem í héraðsdómi greinir ber langur sakaferill beggja ákærðu einkenni ofbeldisbrota. Brot ákærða Annþórs Kristjáns voru alvarleg og ófyrirleitin. Með vísan til þessa og að öðru leyti til þess sem í héraðsdómi greinir um sakaferil hans og forsendur refsiákvörðunar er hún hæfilega ákveðin fangelsi í 3 ár. Frá þeirri refsingu ber að draga 21 dags gæsluvarðhaldsvist, sem ákærði sætti í tengslum við brot, sem dæmt var um í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 21. nóvember 2003, en þar var ákærði dæmdur til skilorðsbundinnar fangelsisvistar, sem tekin er upp við ákvörðun refsingar í þessu máli. Með vísan til forsendna héraðsdóms er niðurstaða hans um refsingu ákærða Ólafs Valtýs staðfest, en þó þannig að til frádráttar komi 21 dags gæsluvarðhaldsvist, sem hann sætti á sama hátt og ákærði Annþór Kristján, eins og áður er getið.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærðu skulu greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Ákærði, Annþór Kristján Karlsson, sæti fangelsi í 3 ár. Til frádráttar þeirri refsingu komi gæsluvarðhaldsvist hans í 21 dag.
Ákærði, Ólafur Valtýr Rögnvaldsson, sæti fangelsi í 2 ár. Til frádráttar þeirri refsingu komi gæsluvarðhaldsvist hans í 21 dag.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærði Annþór Kristján greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Karls Georgs Sigurbjörnssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur, og ákærði Ólafur Valtýr málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur. Annan áfrýjunarkostnað málsins greiði ákærðu óskipt.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2004.
Mál þetta, sem dómtekið var 22. október sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 11. maí 2004, á hendur Annþóri Kristjáni Karlssyni, [kt.], Aragerði 10, Vatnsleysustrandarhreppi og Ólafi Valtý Rögnvaldssyni, [kt.], Eyjabakka 28, Reykjavík, fyrir líkamsárás með því að hafa föstudaginn 4. apríl 2003 að [...], Reykjavík, í félagi ráðist á A, ákærði Annþór Kristján slegið hann nokkrum sinnum í líkama með kylfu og ákærði Ólafur Valtýr kastað keramikdiski í höfuð hans, allt með þeim afleiðingum að A brotnaði á vinstri framhandlegg, hlaut 2 cm sár á enni og 0,5 cm sár neðan við vinstri augabrún, marðist á vinstri fótlegg og marðist og tognaði á hægri ökkla.
Þetta er talið varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 111. gr. laga nr. 82/1998.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Ákærðu, Annþór Kristján og Ólafur Valtýr, neita báðir sök. Af hálfu verjenda ákærðu er þess aðallega krafist, að þeir verði sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins, en til vara er krafist vægustu refsingar er lög leyfa og að háttsemi ákærðu verði felld undir 1. mgr. 217. gr. laga nr. 19/1940. Þá er þess krafist að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð, þ.m.t. hæfileg málsvarnarlaun að mati dómsins.
Föstudaginn 4. apríl 2003 mætti C á skrifstofu rannsóknardeildar lögreglunnar í Reykjavík. Kvaðst C vera kominn til að leggja fram kæru fyrir hönd sonar síns, A, er orðið hefði fyrir líkamsárás á gistiheimili að [...] í Reykjavík þennan sama dag. Gerði C þá grein fyrir atvikum að sonur hans leigði íbúð á þessum stað og hefði átt í einhverjum útistöðum við húsráðanda á gistiheimilinu, B. Hafi B, skömmu fyrir þennan atburð, óskað eftir því við A, að hann yfirgæfi íbúð sína. C kvaðst, ásamt syni sínum D, hafa farið að [...] fimmtudaginn 3. apríl til að ræða við B vegna húsaleigu, er C taldi A eiga inni hjá B. Til lítilsháttar átaka hafi komið á milli C, D og B. Afleiðing þessa hafi orðið sú að þrír menn, vopnaðir kylfum, hafi komið að [...], brotið sér leið inn í íbúð A með því að sparka upp hurðinni og byrjað að berja A þar sem hann hafi legið í rúmi sínu. Aðkomumennirnir hafi sagt við A að hann skyldi ekki voga sér að kæra atburðinn til lögreglu. Nafngreindi C mennina sem ákærðu í málinu, auk E. Fram kom að F hafi verið stödd í íbúðinni með A og hafi hún hringt í móður A og beðið hana um að koma þegar í stað til þeirra. Í kjölfarið hafi verið farið með hann upp á slysadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss í Fossvogi.
Í málinu liggur frammi læknisvottorð frá 25. apríl 2003, er ritað hefur Ari Konráðsson læknir. Í vottorðinu segir m.a.: ,,Hann kemur á slysadeild, þá kvartar hann mest um í vinstri framhandlegg en einnig með eymsli í andliti og vinstri fótlegg og hægri ökkla. Við skoðun er maðurinn blóðugur í andliti, með sár á enni og gagnauga, sárið á enninu er þvert á ennið ca. 2 cm langt með hreinar skurðbrúnir og síðan er 0,5 cm sár neðan við vinstri augabrún. Hann er verulega bólgin á vinstri framhandlegg og aumur við skoðun á vinstri legg og hann er bólginn og aumur á hægri ökkla. Það eru teknar myndir af framhandlegg og ökkla og kemur í ljós þverbrot á ulnarbeininu sem er óstabilt og þarf aðgerðar við. Engin brot í ökklanum. Greiningar vegna hans áverka eru: sár á höfði S01.8, brot á ulnarbeini vinstra megin S52.2, mar á vinstri fótlegg S80.0, mar á hægri ökkla S90.0, og tognun á hægri ökkla S93.4. Sár í andliti voru saumuð á slysadeild og hann síðan tekinn til aðgerðar um kvöldið þar sem að undirritaður setti plötu og skrúfur í vinstri framhandlegg.” Síðar í vottorðinu segir: ,,Kemur með sár á enni og undir augabrún sem líklega eru eftir diskbrot sem hann segir hafa verið hent í sig. Auk þess mar á vinstra hné og hægri ökkla sem er snúinn. Virðist vera annað hvort eftir spörk eða barsmíðar með þungri kylfu. Er svo með framhandleggsbrot sem að ekki getur skýrst af öðru en þungu höggi og líklega hefur það komið þegar hann bar fyrir sig hendi þegar lemja átti hann með kylfum.”
Mánudaginn 7. apríl 2003 mætti á skrifstofu rannsóknardeildar A og lagði fram kæru á hendur ákærðu fyrir líkamsárás. Í kærunni greindi A frá því að hann hafi haft á leigu íbúð að [...]. Leigusali hafi verið B. Er A hafi leigt íbúðina hafi hann greitt húsaleigu fyrirfram með tilteknum hætti. Eftir að A hafi flutt inn hafi hann orðið fyrir áreiti af hálfu B. Hafi A ákveðið að segja húsaleigunni upp og hafi faðir hans, C, í þeim tilgangi farið á fund B 3. apríl 2003. Með í för hafi verið bróðir A, D. Hafi tilgangurinn með förinni m.a. verið að fá húsaleigu endurgreidda. Kvaðst A hafa verið í íbúð sinni á [...] er á þessu hafi staðið, en hann hafi heyrt töluverðan hávaða og rifrildi koma úr íbúð B, er hafi verið næsta íbúð við hliðina. Föstudaginn 4. apríl, um kl. 13.00, hafi hurð að íbúð A verið sparkað upp. Á þeim tíma hafi A, ásamt F, verið að horfa á sjónvarp inni í sjónvarpsherbergi. Hafi A staðið á fætur um leið og þrír menn hafi komið inn í sjónvarpsherbergið. Hafi þar á ferð verið ákærðu, auk E. Hafi aðkomumennirnir gert þá grein fyrir erindi sínu að þeir væru komnir á vegum B til að henda A út úr íbúðinni. Hafi ákærði, Annþór Kristján, og E verið með litlar kylfur í hendi. Ákærði, Annþór Kristján, hafi strax slegið A með kylfunni í fæturna og síðan af alefli í allan líkamann. Ákærði, Ólafur Valtýr, hafi tekið keramikdisk er verið hafi í herberginu og kastað honum í andlit A með þeim afleiðingum að diskurinn hafi brotnað. Við það hafi A fengið skurð á ennið og glóðarauga. E hafi staðið aðgerðarlaus hjá og horft á. Barsmíðarnar hafi borist inn í svefnherbergið og hafi A náð að leggjast í rúmið. Ákærði, Annþór Kristján, hafi haldið áfram að láta höggin dynja á A, þrátt fyrir að A hafi verið orðinn blóðugur. Hafi hann jafnframt reynt að berja A í höfuðið, en sökum þess að A hafi borið vinstri hendi fyrir höggin hafi það ekki tekist. Höndin hafi hins vegar brotnað illa. Ákærði, Ólafur Valtýr, hafi þá lýst yfir að nóg væri komið og um leið rétt A blautt handklæði til að þurrka blóð úr andlitinu með. Ákærði, Annþór Kristján, hafi ekki látið sér segjast og haldið áfram að berja A. Síðan hafi hann hætt og lýst yfir að A ætti að greiða ákærðu 300.000 krónur innan fjögurra daga. Jafnframt hafi ákærði hótað A, ef hann myndi kæra árásina til lögreglu. F hafi verið í miklu sjokki af hræðslu á meðan á þessu hafi staðið. Eftir að árásarmennirnir hafi verið farnir hafi A hringt á móður sína og hafi hún ekið honum á slysadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss. Þar væri fyrirliggjandi áverkavottorð vegna áverkanna. Kvaðst A vilja taka fram, að hann hafi mjaðmagrindarbrotnað 3-4 vikum fyrir árásina og verið rúmliggjandi af þeim sökum. Hafi hann ítrekað lýst yfir meðan á árásinni hafi staðið, að hann væri mjaðmagrindarbrotin og ætti erfitt með hreyfingu af þeim sökum.
Í bréfi 15. júlí 2003 setti Róbert Árni Hreiðarsson héraðsdómslögmaður, fram skaðabótakröfu til bótanefndar samkvæmt lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, nr. 69/1995, vegna líkamsárásar af hálfu ákærðu. Fjárhæð skaðabóta nam alls 2.310.281 krónu, auk vaxta. Í bréfi lögmannsins var vísað í lögregluskýrslur er teknar voru af A og C, 4. og 7. apríl 2003, sem og áverkavottorðs Ara Konráðssonar læknis. Segir m.a. í bréfinu, að árás á A hafi verið hættuleg og fólskuleg. Hafi hún verið án nokkurs tilefnis. Umbjóðandi lögmannsins hafi hlotið alvarlega áverka og hafi hin vítaverða árás falið í sér brot gegn brýnustu réttindum hans, lífi, líkama, persónu, friði og æru.
Mánudaginn 12. janúar 2004 ritar A undir svofellda yfirlýsingu, sem er á meðal gagna málsins: ,,Ég, undirritaður, [A] lýsi hér með yfir, að ég afturkalla hér með kæru mína til Lögreglunnar í Reykjavík ásamt bótakröfum mínum dags. 15. júlí 2003 á hendur ...”
Föstudaginn 23. apríl 2004 var A boðaður á lögreglustöðina við Hverfisgötu. Lýsti A því yfir við skýrslutöku lögreglu, að hann drægi kæru á hendur ákærðu til baka, en hann hafi aldrei viljað leggja fram kæru vegna líkamsárásarinnar. Faðir vitnisins hafi hins vegar lagt að vitninu að kæra. Hafi vitnið hitt ákærðu eftir árásina, en þeir hafi ekki hótað vitninu að neinu leyti. Hins vegar hafi vitnið óttast, fengi málið framgang, að það gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir vitnið, svo sem hugsanlegar barsmíðar.
Fyrir dómi við aðalmeðferð málsins greindi A þannig frá atvikum, að hann hafi verið á [...] föstudaginn 4. apríl. Um það leyti hafi vitnið verið í talsverðri neyslu fíkniefna. Með honum í íbúðinni hafi verið F. Á föstudeginum hafi vitnið farið út í göngutúr og verið á leið í íbúð sína aftur er það hafi hrasað í stiga á gistiheimilinu. Á þeim tíma hafi vitnið notað hækjur, en það hafi verið að jafna sig eftir mjaðmagrindarbrot. Hafi vitnið borið fyrir sig vinstri hendi, sem hafi brotnað við fallið. Í framhaldinu hafi vitnið og F farið upp í íbúð. Skömmu síðar hafi ákærðu hringt dyrabjöllu og í kjölfarið komið inn í íbúðina. Hafi ákærðu hrópað að vitninu og skipað því að yfirgefa íbúðina. Í þeirri atburðarás hafi ákærði, Ólafur Valtýr, gripið disk og kastað upp í loftið. Fyrir slysni hafi diskurinn lent í höfði vitnisins. Ákærði, Annþór Kristján, hafi lamið vitnið fjögur til fimm högg í líkamann. Höggin hafi verið talsverð, en ekki hafi verið barið af alefli. Bar vitnið að fyrri framburður þess hjá lögreglu væri rangur og hefði sú frásögn komið til þar sem vitnið hafi verið í mikilli neyslu fíkniefna á þeim tíma.
Ákærði, Annþór Kristján, gaf skýrslu hjá lögreglu þriðjudaginn 8. apríl 2003. Er tekið fram í skýrslunni, að ákærði hafi verið handtekinn þann sama dag á Keflavíkurflugvelli, á leið úr landi, en hann hafi verið eftirlýstur af hálfu lögreglunnar í Reykjavík vegna líkamsárásar á A. Við skýrslutöku hjá lögreglu neitaði ákærði alfarið að hafa valdið A líkamsáverkum 4. apríl 2003. Viðurkenndi hann að hafa farið á [...], ásamt meðákærða og E, að beiðni B húsráðanda, til að bera A þau boð að hann ætti að flytja úr íbúð sinni á [...]. Hafi ákærðu bankað á dyr að íbúð A og í kjölfarið verið hleypt inn. Hafi A verið með hækjur sér við hlið. Ákærðu, E og A hafi rætt saman í rólegheitum. Ekkert ofbeldi hafi átt sér stað í íbúðinni. Hlé var gert á yfirheyrslunni 8. apríl kl. 14.58 og ákærði á ný færður í yfirheyrslu kl. 21.06. Í síðari yfirheyrslunni viðurkenndi ákærði að hafa barið A í handlegg og einu sinni í fætur. Ákærði hafi hins vegar ekki barið hann í höfuðið. Kvaðst ákærði viðurkenna að hafa notað trékylfu við árásina. Fyrir dómi kvaðst ákærði viðurkenna að hafa veist að A að [...], en kvaðst ekki hafa valdið honum þeim áverkum er ákæra miðaði við. Viðurkenndi ákærði að hafa lamið A með trékylfunni 2 eða fleiri högg í líkamann. Til orðahnippinga hafi einnig komið, en ákærðu hafi í kjölfarið yfirgefið íbúðina. Synjaði ákærði fyrir að beinbrot á vinstri framhandlegg hafi hlotist af atlögunni.
Ákærði, Ólafur Valtýr, gaf einnig skýrslu hjá lögreglu þriðjudaginn 8. apríl 2003. Með samsvarandi hætti og varðandi ákærða, Annþór Kristján, er tekið fram í lögregluskýrslunni að ákærði hafi verið handtekinn á Keflavíkurflugvelli á leið úr landi, en hann hafi verið eftirlýstur af hálfu lögreglunnar í Reykjavík vegna líkamsárásar á A. Ákærði kvað ákærðu báða, ásamt E, hafa farið að [...]. Meðákærði hafi leitað til ákærða um að slást í för að [...], til að sinna erindi B leigusala, en B hafi viljað að A myndi yfirgefa íbúð sína. A hafi komið til dyra eftir að þeir félagar hafi bankað. Til einhverra orðaskiptinga hafi komið og hafi ákærðu og E yfirgefið íbúðina að því loknu. Ekki hafi komið til neinna átaka. Skýrslutöku lögreglu lauk 8. apríl kl. 16.01. Sama dag, kl. 17.26, var ákærði á ný færður til skýrslutöku. Kvaðst hann þá vilja breyta framburði sínum. Kvaðst hann viðurkenna að hafa, ásamt meðákærða og E, farið að [...] þennan tiltekna dag. Er þeir hafi komið að íbúð A hafi meðákærði og E sparkað upp hurð að íbúðinni og þeir í kjölfarið allir ruðst inn í íbúðina. Er þeir hafi komið inn í íbúðina hafi ákærði séð stúlku inni í íbúðinni og innar, í innra herbergi, hafi A setið í sófa. Meðákærði hafi umsvifalaust ráðist að A og hafi ákærði tekið keramik matarskál, er hafi staðið á borði, og kastað henni í áttina að A. Hafi ákærði ætlað að hræða A með því að kasta skálinni í vegg fyrir ofan höfðuð hans. Fyrir slysni hafi skálin hins vegar lent í höfði hans. Stúlkan í íbúðinni hafi farið að æpa og hafi ákærði þá farið til hennar. Hafi hann síðan farið aftur inn í herbergið og hafi hann þá séð meðákærða standa yfir A og slá hann nokkur högg með 30 til 40 cm langri trékylfu, er meðákærði hafi haft meðferðis. Ákærði hafi séð blæða mikið úr andliti A og séð hann bera höndina fyrir þau högg er meðákærði hafi veitt honum. Hafi ákærði þá kallað til meðákærða um að hætta atlögunni og því næst gengið á milli þeirra. Meðákærði hafi þá hætt. Ákærði hafi því næst rétt A blautt handklæði til að þurrka blóð sitt. Tók ákærði fram, að E hafi ekkert haft sig í frammi eftir að ákærðu hafi farið inn í íbúðina. Er undir ákærða var borið læknisvottorð vegna áverka A kvað hann áverka í andliti hafa getað komið til er diskurinn hafi lent í andliti hans. Eins hafi handleggsbrotið getað hafa komið til vegna þeirra högga er meðákærði hafi veitt honum. Fyrir dómi við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði neita sök. Kvað ákærði þeim félögum hafa verið hleypt inn í íbúð A á [...]. Hafi hróp og köll hafist í kjölfarið. Ákærði hafi hent diski upp í loftið, en um leið hafi A staðið á fætur. Við það hafi diskurinn hafnað í höfði hans með þeim afleiðingum að skurður hafi myndast. Ákærði kvaðst hafa séð meðákærða lemja A tvisvar til þrisvar sinnum með lítilli trékylfu í líkamann. Fyrir dómi kvaðst ákærði ekki viss um hvort meðákærði hafi lamið A einnig í handlegginn með kylfunni. Ákærði kvaðst ekki hafa kannast við A fyrir þennan atburð.
Vitnið E kvaðst kannast við að hafa, ásamt ákærðu, farið að [...], en ferðin hafi verið farin að beiðni ákærða, Annþórs Kristjáns. Ákærði, Annþór Kristján, hafi upplýst að tilgangur með ferðinni hafi verið sá að vísa A út úr íbúð þeirri er hann hafi haft á leigu á [...]. Vitnið og ákærði, Annþór Kristján, hafi sparkað upp hurð að íbúð A og þeir allir því næst gengið inn í íbúðina. Ákærði, Annþór Kristján, hafi farið fremstur í flokki og verið með trékylfu í hendi. Hafi hann þegar byrjað að lemja A, þar sem A hafi setið í sófa í sjónvarpsherbergi. A hafi farið inn í svefnherbergi og lagst þar upp í rúm. Ákærði, Annþór Kristján, hafi haldið áfram að lemja A með kylfunni í einhvern tíma, þar til ákærði, Ólafur Valtýr, hafi stöðvað hann. Ákærði, Ólafur Valtýr, hafi því næst komið með blautt handklæði og rétt A. Vitnið viðurkenndi að hafa einnig verið með trékylfu í hendi, en kvaðst ekkert hafa beitt henni. Kylfan hafi verið um 30 cm löng.
Vitnið F gaf skýrslu hjá lögreglu 4. apríl 2003. Vitnið kvaðst, ásamt A, hafa verið í íbúðinni á [...] er hurð að henni hafi skyndilega verið sparkað upp. Inn hafi ruðst þrír menn með kylfur. Ákærðu hafi verið tveir þessara manna. Ákærðu hafi ráðist á A og látið höggin dynja á honum. Ákærði, Ólafur Valtýr, hafi hent matarskál í andlit A, en skálin hafi brotnað við það. A hafi komist undan og farið upp í rúm. Þar hafi hann reynt að skýla sér en ákærðu hafi látið höggin dynja á höfði hans og skrokk. A hafi verið orðinn alblóðugur í framan. Eftir að ákærðu hafi verið farnir hafi vitnið aðstoðað A við að komast niður stiga í húsinu, en er út hafi verið komið hafi móðir A verið komin á staðinn. Hafi móðirin ekið A á slysadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss. Í lok skýrslutökunnar lýsti vitnið því að árás ákærðu hafi verið hrottafengin, sérstaklega vegna þess að A hafi verið mjaðmagrindarbrotin og því ekki getað varið sig. Fyrir dómi við aðalmeðferð málsins lýsti vitnið atvikum þannig að það hafi verið utandyra ásamt A 4. apríl 2003. Er þau hafi komi heim hafi þau farið upp í íbúð þeirra. Hafi A dottið í stiga á leið upp og meitt sig. Ákærðu hafi síðan komið á staðinn og sparkað upp hurð að íbúðinni. Til orðaskaks hafi komið og hafi ákærði, Ólafur Valtýr, kastað diski að A. Atburðarásin hafi færst yfir í svefnherbergið og hafi ákærði, Annþór Kristján, lamið A nokkur högg með kylfu. Eftir það hafi ákærðu haldið á brott. A hafi síðan hringt í foreldra sína. Faðir A, C, hafi gert kröfu um að vitnið kæmi með honum á lögreglustöð til að kæra atburðinn. Kvaðst vitnið hafa greint rangt frá atvikum hjá lögreglu. Ástæða þess hafi verið pressa af hálfu föður A. Vitnið kvað A hafa fengið áverka við atlöguna, en taldi handleggsbrotið líklega hafa komið til við fallið í stiganum.
Fyrir dómi lýsti vitnið C atvikum með sama hætti og fram kom í skýrslu vitnisins hjá lögreglu 4. mars 2004. Kvað vitnið A hafa hringt umræddan dag og greint frá því er fyrir hafi komið. Í kjölfarið hafi eiginkona vitnisins farið að [...]. Þar hafi A lýst því hvernig ákærðu hafi lamið sig sundur og saman með járnkylfu. Við atlöguna hafi önnur hendi A farið mjög illa. Vitnið kvað A hafa dregið kæru sína til baka vegna hótana af hálfu ákærða, Annþórs Kristjáns. Þá kvað vitnið það skoðun þess að það væri fyrirsláttur af hálfu A að hann hafi dottið í stiga og að áverkar hafi hlotist af þeim völdum. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið vitni að atlögunni.
Vitnið, G móðir A, kvað A hafi hringt í vitnið um leið og atburðir hafi verið yfirstaðnir á [...] 4. apríl. Hafi vitnið þegar farið á staðinn. A hafi þá setið í stiga á [...]. Hafi mikið blætt úr honum og hann verið með hendi vafða inn í handklæði. Vitnið hafi farið með hann á slysadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss og í kjölfarið hringt í lögreglu og greint frá því er fyrir hafi komið. A hafi greint vitninu frá því að ákærðu hafi ruðst inn í íbúð sína. Ákærði, Annþór Kristján, hafi síðan lamið sig með járnröri. Vitnið kvaðst telja að A hafi dregið kæru sína til baka vegna hótana. Þá kvað vitnið það aldrei hafa komið fram í máli A, að hann hafi dottið í stiga á [...] 4. apríl 2003.
Niðurstaða:
Ákærðu hafa, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, viðurkennt að hafa farið að [...] í Reykjavík, föstudaginn 4. apríl 2003 og ber þeim saman um að leigusalinn B hafi óskað eftir því við ákærða, Annþór Kristján, að afskipti yrðu höfð af leigutakanum A. Í íbúð A hafi komið til ryskinga og hefur ákærði, Annþór Kristján, viðurkennt að hafa lamið A högg í líkamann með trékylfu. Hann hefur hins vegar synjað fyrir að áverkar af árásinni hafi verið slíkir er í ákæru greinir og fullyrt að A hafi ekki hlotið handleggsbrot í atlögunni. Ákærði, Ólafur Valtýr, hefur viðurkennt að hafa kastað diski í áttina að A og kveður diskinn hafa lent í andliti A með þeim afleiðingum að blætt hafi undan. Í lögregluskýrslu er bókað eftir ákærða, Ólafi Valtý, að ekki sé útilokað að A hafi hlotið handleggsbrot af atlögu meðákærða. Vitnið E hefur lýst árás ákærðu á A. Hefur vitnið borið að ákærði, Annþór Kristján, hafi barið A með trékylfu, bæði þar sem ákærði hafi gengið að honum í íbúðinni, sem og inni í svefnherbergi, eftir að A hafi verið lagstur upp í rúm.
Framburður kæranda, A, hefur sætt breytingum frá því hann gaf fyrst skýrslu hjá lögreglu 7. apríl 2003. Í fyrstu skýrslu lýsti kærandi atlögunni þannig að ákærði, Annþór Kristján, hafi umsvifalaust slegið kæranda með kylfu í fæturna og síðan af alefli í allan líkamann. Ákærði, Ólafur Valtýr, hafi tekið keramikdisk og kastað honum í andlit kæranda með þeim afleiðingum að diskurinn hafi brotnað. Við það hafi kærandi fengið skurð á ennið og glóðarauga. Barsmíðarnar hafi borist inn í svefnherbergið og hafi kærandi náð að leggjast upp í rúm. Ákærði, Annþór Kristján, hafi haldið áfram að láta höggin dynja á kæranda. Hafi hann jafnframt reynt að berja kæranda í höfuðið, en sökum þess að kærandi hafi borið vinstri hendi fyrir höggin hafi það ekki tekist. Höndin hafi hins vegar brotnað illa. Fyrir dómi hefur kærandi viljað gera minna úr atlögunni og lýst því að hann hafi sennilega brotnað á hendi við það að falla í stiga fyrr þennan dag.
Læknisvottorð Ara Konráðssonar læknis ber með sér áverka þá er tilgreindir eru í ákæru. Ákærðu hafa báðir viðurkennt að hafa veist að kæranda. Ákærði, Annþór Kristján, hefur viðurkennt að hafa lamið hann með trékylfu í líkamann, en ákærði, Ólafur Valtýr, hefur viðurkennt að hafa kastað að honum diski, er lent hafi í höfði hans. Staðhæfingu kæranda og vitnisins F, um að kærandi hafi brotnað á handlegg við að falla í stiga 4. apríl 2003 er hafnað, en hún er ótrúverðug og á sér að auki enga stoð í gögnum málsins. Verður því við það miðað, að ákærðu hafi valdið þeim áverkum er lýst er í ákæru. Ákærðu réðust að A í félagi og verður því háttsemi þeirra beggja felld undir 1. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940, þó svo áverkar þeir er ákærði, Ólafur Valtýr, olli með því að kasta diski í höfuð A, myndi að öðru jöfnu falla undir 1. mgr. 217. gr. laga nr. 19/1940.
Ákærði, Annþór Kristján, er fæddur árið 1976. Hefur hann frá árinu 1993 alls 8 sinnum verið dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 10. nóvember 1997 var ákærði dæmdur í 6 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 217. gr. laga nr. 19/1940, sem og 226. og 231. gr. sömu laga. Með dómi héraðsdóms 12. janúar 1998 var ákærði dæmdur í 45 daga fangelsi fyrir brot gegn 217. gr. laga nr. 19/1940. Loks var hann með dómi Héraðsdóms Vestfjarða, 4. maí 1998, dæmdur í 3ja mánaða fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940. Að því er önnur brot varðar, varð ákærði með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 21. nóvember 2003 dæmdur í 7 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 3 ár, fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Ber nú að taka upp skilorðsdóminn frá 21. nóvember og ákvarða ákærða refsingu með hliðsjón af 60. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 78. gr. laganna. Brot ákærða í þessu máli eru alvarleg og ófyrirleitin. Veittist hann, að beiðni þriðja aðila, að A með hrottafengnum hætti og olli honum umtalsverðu líkamstjóni. Í þá för réðst ákærði við þriðja mann og stóð að atlögunni með ofurefli liðs þar sem A stóð höllum fæti vegna meiðsla í kjölfar umferðarslyss. Lýsir slík atlaga miskunnarleysi. Verður til þessa litið við ákvörðun refsingar, sem og sakaferils ákærða, sem ber einkenni ofbeldisbrota. Með hliðsjón af þessu er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 2 ár og 6 mánuði.
Ákærði, Ólafur Valtýr, er fæddur árið 1977. Á hann einnig að baki nokkurn sakaferil. Frá árinu 1996 hefur hann alls 6 sinnum verið dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlögum. Þá hefur hann á sama tíma alls 5 sinnum gengist undir sáttir vegna brota á lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlögum. Með dómi Héraðsdóms Norðurlands-vestra 24. júlí 1997, var ákærði dæmdur í sekt vegna brota gegn 1. mgr. 217. gr. laga nr. 19/1940, sem og ákvæðum 244. gr. sömu laga og lögum um ávana- og fíkniefni. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 10. nóvember 1997 var ákærði dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 217., 226., 231. og 233. gr. laga nr. 19/1940. Loks var ákærði, með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 7. desember 2000, dæmdur í 7 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. og 1. mgr. 217. gr. laga nr. 19/1940. Með dómi héraðsdóms 21. nóvember 2003 var ákærði dæmdur í 4 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 3 ár, fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Ber nú að taka upp skilorðsdóminn frá 21. nóvember og ákvarða ákærða refsingu með hliðsjón af 60. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 78. gr. sömu laga. Ber einnig að líta til sáttar, er gerð var hjá Lögreglustjóranum í Reykjavík 26. nóvember 2003, vegna brota ákærða á umferðarlögum. Við ákvörðun refsingar er horft til þess að brot ákærða, í þessu máli eru sömuleiðis alvarleg. Þó svo að atlaga hans að A hafi ekki verið eins harkaleg og meðákærða, réðst ákærði sömuleiðis í förina við þriðja mann, að sinna erindum ókunnugs aðila, gagnvart A er hann þekkti ekki fyrir fram, og stóð þannig með ofurefli liðs gagnvart minni máttar. Með hliðsjón af þessu og sakarferli ákærða, er einnig ber einkenni ofbeldisbrota, er refsing hans ákveðin fangelsi í 2 ár.
Ákærði, Annþór Kristján, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Einars Þórs Sverrissonar héraðsdómslögmanns, svo sem í dómsorði greinir. Ákærði, Ólafur Valtýr, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, svo sem í dómsorði greinir. Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt.
Af hálfu ákæruvalds flutti málið Katrín Hilmarsdóttir fulltrúi.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Annþór Kristján Karlsson, sæti fangelsi í 2 ár og 6 mánuði.
Ákærði, Ólafur Valtýr Rögnvaldsson, sæti fangelsi í 2 ár.
Ákærði, Annþór Kristján, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Einars Þórs Sverrissonar héraðsdómslögmanns, 150.000 krónur.
Ákærði, Ólafur Valtýr, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.
Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt.